Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Norræn Sakamál 2002
Norræn Sakamál 2002
Norræn Sakamál 2002
Ebook465 pages7 hours

Norræn Sakamál 2002

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Bókin Norræn sakamál kemur nú út í annað sinn. Fyrsta bókin, sem kom út á síðasta ári, hlaut góðar viðtökur sem gáfu til kynna að efni hennar væri áhugavert.Norræn sakamál er ritröð sem koma mun út árlega. Bækurnar bera allar sama nafn en eru auðkenndar með ártali þess árs sem útgáfa hverrar um sig á sér stað.Í bókunum eru frásagnir af störfum lögreglumanna á Íslandi og Norðurlöndum. Þrátt fyrir nafnið, Norræn sakamál, er langt frá því að bækurnar fjalli eingöngu um sakamál og rannsóknir þeirra. Bækurnar eru um störf lögreglu almennt og gefa þess vegna lesendum nokkra innsýn í störf lögreglumannsins, sem eru afar fjölbreytt og krefjandi. Fæstir gera sér grein fyrir í hverju lögreglumenn geta lent við störf sín enda viðfangsefnin fjölbreyttari en hægt er að ímynda sér.Lesendum gefst færi á að nálgast efnið frá öðru sjónarhorni ekki síst vegna þess að greinarnar eru skrifaðar af þeim lögreglumönnum sem annast hafa rannsóknir viðkomandi mála eða vettvangsstjórn.Öll lögreglumál eru viðkvæm, en leitast er við að greina frá staðreyndum á svo hlutlausan og faglegan hátt sem kostur er.Efni bókarinnar er fjölþætt, þar gefst t.d. kostur á að lesa um friðargæslustörf Íslendinga í Bosníu-Herzegóvínu, vandaða tæknivinnu íslensku lögreglunnar og hina endalausu baráttu við náttúruöflin á Íslandi svo sem snjóflóð og snjóflóða- hættu.Ég vona að lesendur verði einhvers vísari við lestur bókarinnar.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateAug 18, 2020
ISBN9788726523331
Norræn Sakamál 2002

Read more from Forfattere Diverse

Related to Norræn Sakamál 2002

Related ebooks

Related categories

Reviews for Norræn Sakamál 2002

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Norræn Sakamál 2002 - Forfattere Diverse

    Norræn Sakamál 2002

    Norræn Sakamál 2002

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 2002, 2020 Ýmsir höfundar and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788726523331

    1. e-book edition, 2020

    Format: EPUB 2.0

    All rights reserved. No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    SAGA Egmont www.saga-books.com – a part of Egmont, www.egmont.com

    Formáli

    Bókin Norræn sakamál kemur nú út í annað sinn. Fyrsta bókin, sem kom út á síðasta ári, hlaut góðar viðtökur sem gáfu til kynna að efni hennar væri áhugavert.

    Norræn sakamál er ritröð sem koma mun út árlega. Bækurnar bera allar sama nafn en eru auðkenndar með ártali þess árs sem útgáfa hverrar um sig á sér stað.

    Í bókunum eru frásagnir af störfum lögreglumanna á Íslandi og Norðurlöndum. Þrátt fyrir nafnið, Norræn sakamál, er langt frá því að bækurnar fjalli eingöngu um sakamál og rannsóknir þeirra. Bækurnar eru um störf lögreglu almennt og gefa þess vegna lesendum nokkra innsýn í störf lögreglumannsins, sem eru afar fjölbreytt og krefjandi. Fæstir gera sér grein fyrir í hverju lögreglumenn geta lent við störf sín enda viðfangsefnin fjölbreyttari en hægt er að ímynda sér.

    Lesendum gefst færi á að nálgast efnið frá öðru sjónarhorni ekki síst vegna þess að greinarnar eru skrifaðar af þeim lögreglumönnum sem annast hafa rannsóknir viðkomandi mála eða vettvangsstjórn.

    Öll lögreglumál eru viðkvæm, en leitast er við að greina frá staðreyndum á svo hlutlausan og faglegan hátt sem kostur er.

    Efni bókarinnar er fjölþætt, þar gefst t.d. kostur á að lesa um friðargæslustörf Íslendinga í Bosníu-Herzegóvínu, vandaða tæknivinnu íslensku lögreglunnar og hina endalausu baráttu við náttúruöflin á Íslandi svo sem snjóflóð og snjóflóðahættu.

    Ég vona að lesendur verði einhvers vísari við lestur bókarinnar.

    Árni Þór Sigmundsson

    ritstjóri.

    Gaffallyftarinn

    Eftir Þórhall Árnason, lögregluvarðstjóra á Eskifirði.

    Að lenda í lífshættu er eitthvað sem flestir lögreglumenn upplifa einhvern tímann í starfi sínu og slíkir atburðir gera ekki boð á undan sér. Þá þarf að bregðast við á örskotsstundu og taka augnabliksákvarðanir Eftir á hefur maður oft hugleitt hvort brugðist hafi verið rétt við og hve mikil hættan hafi raunverulega verið? Ég ætla að fara yfir atburð sem ég og félagi minn lentum í aðfaranótt sunnudags í febrúarmánuði 1997.

    Við vorum á eftirlitsferð á Eskifirði og það hafði verið mikil vinna við loðnufrystingu undanfarið hjá fiskvinnslufólki í bænum. Eskifjörður er að öllu jöfnu rólegt sjávarpláss þar sem lífið gengur sinn vanagang og íbúarnir lifa í sátt og samlyndi hver við annan og umhverfi sitt.

    Við vorum á rólegri ferð austur Strandgötuna, aðalgötuna í bænum, er við sáum kyrrstæðan bíl fyrir framan okkur. Skyndilega gekk ungur maður að bílnum, reif upp hurðina og kippti ungri stúlku út úr honum. Þegar maðurinn sá okkur hætti hann við að ganga í skrokk á stúlkunni. Við könnuðumst við manninn og sáum ekki betur en að það væri unnusta hans sem hann kippti út úr bílnum. Maðurinn gekk að lögreglubílnum og ég ræddi við hann á staðnum. Hann var nokkuð æstur og sagði að unnusta hans hafi haldið framhjá sér. Síðan strunsaði hann burt. Við gerðum ekkert frekar í málinu enda amaði ekkert að unnustu hans.

    Þess má geta að maðurinn og unnusta hans voru nýlega komin til Eskifjarðar til að vinna á síldarvertíð. Fljótlega eftir komuna til bæjarins komu þau á lögreglustöðina og ræddu við mig og voru að spyrja til vegar. Maðurinn var mjög kurteis í allri framkomu, það datt hvorki af honum né draup og hann heilsaði mér eftir þetta alltaf að fyrrabragði er við sáumst. Aldrei hefði mig grunað að þessi maður gæti sturlast með þeim hætti sem síðar gerðist.

    Það var nokkur umferð um bæinn þessa nótt og dansleikur í félagsheimilinu Valhöll. Ég stöðvaði lögreglubílinn skammt frá Valhöll og við fylgdumst með umferðinni og þeim gestum sem voru að koma af dansleiknum. Margir voru nokkuð drukknir og slæptir enda mikil vinnutörn að baki. Loðnuvinnsla var í fullum gangi og vinnudagur flestra bæjarbúa bæði langur og strangur af þeim sökum.

    Atlagan hefst

    Við sáum þar sem við sátum í lögreglubílnum hvar stórum JBC-skotbómulyftara var ekið til móts við okkur eftir Strandgötunni. Lyftaranum var ekið nokkuð hratt en á réttri akrein. Okkur þótti þetta ekki óeðlilegt, enda var unnið á vöktum í nokkrum fiskvinnsluhúsum bæjarins á þessum tíma.

    Skyndilega var lyftaranum sveigt yfir á rangan vegarhelming og stefnt beint á lögreglubílinn þar sem við sátum og áttum okkur einskis ills von. Ég sá þá að ökumaður lyftarans var maðurinn sem við höfðum haft afskipti af skömmu áður. Hann virtist alveg óður, með stingandi augnaráð og mjög einbeittur á svip. Ég setti lögreglubílinn strax í afturábakgírinn og bakkaði undan lyftaranum inn á malarplan við grunnskólann. Það dugði ekki til og maðurinn skaut göflunum á lyftaranum undir lögreglubílinn, lyfti honum upp og ók áfram um 15–20 metra leið og lyfti framenda bifreiðarinnar upp í leiðinni.

    Ég kallaði til Bjarna félaga míns að að við skyldum losa okkur úr öryggisbeltunum og koma okkur út áður en bíllinn ylti. Þegar bílinn var nánast kominn upp á rönd þá opnaði ég hurðina og náði að stökkva út rétt áður en lögreglubíllinn féll á þakið. Fallið var nokkuð hátt enda lögreglubíllinn af stærstu gerð, Chevrolet Suburban. Bjarni var ekki eins heppinn og ég og náði ekki að koma sér út í tæka tíð áður en bíllinn valt.

    Hvað var eiginlega að gerast...? Örskömmu áður höfðum við setið í rólegheitum og fylgst með umferðinni en nú stóðum við frammi fyrir alvarlegri ógnun og atlögu að lífi okkar og limum.

    Hvað er að gerast?

    Mér leist ekki á blikuna og velti fyrir mér hvað maðurinn ætlaði sér að gera næst og líka hvort félagi minn væri slasaður, hugsanlega meðvitundarlaus inni í lögreglubílnum sem hafði skemmst nokkuð við veltuna. Ég hljóp aðeins frá bílnum en þá sá ökumaður lyftarans mig og hætti að hamast á lögreglubílnum. Hann ók á eftir mér sem óður væri eftir götunni og ég hljóp eins hratt undan og ég mögulega gat. Það var mikil hálka á götunni og einnig snjóaði nokkuð. Mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds þar sem ég hljóp eins og fætur toguðu upp eftir Lambeyrarbraut, meðfram grunnskólanum sem þar stendur. Ég vissi að ég ætti líf mitt undir því að geta hlaupið undan lyftaranum. Ég heyrði hvernig maðurinn trampaði á olíugjöfinni og vélin var á botnsnúningi. Hann ætlaði sér að reyna að ná mér og líklega aka yfir mig. Ég leit einu sinni aftur fyrir mig og fannst eins og gaflarnir væru rúman metra fyrir aftan mig. Þetta var skelfileg upplifun, eins og vondur draumur og ekki í neinu samræmi við raunveruleikann. Á endanum náði ég að stökkva til hliðar til móts við grunnskólann og ökumaður lyftarans missti sjónar á mér um stund.

    Ég hljóp vestur með skólanum og niður að lögreglubílnum aftur og sá þá hvar Bjarni félagi minn var kominn út úr flaki lögreglubílsins. Ég sagði honum að flýta sér upp tröppurnar að grunnskólanum til mín og svo hljóp ég í áttina að honum. Tröppurnar eru nokkuð háar og brattar, en þær voru okkar eina undankomuleið eins og málin stóðu. Bjarni datt í tröppunum sem voru fullar af snjó og hann var greinilega mjög kvalinn. Hann kvartaði yfir verkjum í hálsi og niður í bak og sagðist verða að komast til læknis sem fyrst. Bjarni sagðist hafa óttast að ég hefði lent undir þaki lögreglubílsins þegar hann valt og hann hefði ekki vitað hvort ég væri lífs eða liðinn fyrr en hann sá mig koma hlaupandi. Ég hjálpaði honum upp tröppurnar og hugsaði með mér hvað hægt væri að gera í stöðunni. Það var ekki um margt að velja.

    Í því kom maðurinn akandi og við sáum að lyftaranum var ekið hvað eftir annað á lögreglubílinn svo gaflarnir stungust á kaf í bílinn bæði í gegnum glugga og hurðir. Maðurinn djöflaðist með lyftaranum á lögreglubílnum af óhugnanlegri kunnáttu og leikni. Ef til vill hefur hann haldið að Bjarni væri ennþá inni í bílnum?

    Á flótta undan lyftaranum

    Skyndilega hætti maðurinn og hafði þá greinilega séð okkur þar sem við stóðum í tröppunum. Þá bakkaði hann lyftaranum, þandi vélina í botn, ók síðan af stað á fullri ferð yfir Strandgötuna, yfir gangstéttina og í gegnum grindverkið á garðinum við pósthúsið í átt til okkar. Á leið sinni ók hann á ljósastaur og utan í skólabygginguna. Okkur tókst að forða okkur aðeins lengra upp tröppurnar en áttum erfitt um vik vegna meiðsla Bjarna sem þoldi illa alla hreyfingu og hélt um höfuðið. Til allrar hamingju gat maðurinn ekki komið lyftaranum að okkur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í þá veru.

    Þess má geta hér að lyftarinn var fjórhjóladrifinn og með keðjur á hjólum. Maðurinn gerði allt sem hann gat til að ná til okkar, spólaði og djöflaðist og ég tel að það hafi aðeins um 5–10 metar skilið á milli okkar og lyftarans. Við vorum króaðir af og komumst hvergi auk þess sem Bjarni var orðinn svo kvalinn að hann hefði ekki komist hratt yfir þótt við kæmumst burt með einhverjum hætti. Nokkru síðar gafst maðurinn upp á að reyna að ná til okkar á lyftaranum og ók á brott. Þá gafst okkur augnabliksráðrúm til aðgerða.

    Ég náði að hringja í Jónas lögreglufulltrúa á Eskifirði og segja honum hvað væri að gerast og bað hann að kalla lögreglu frá Neskaupstað og Fáskrúðsfirði til aðstoðar. Að því búnu hringdi ég í Neyðarlínuna og bað um að lögreglan á Egilsstöðum yrði kölluð á staðinn sem og sjúkralið og læknir á Eskifirði og einnig að slökkvilið yrði til taks.

    Árás á lögreglustöðina

    Þegar ég hafði lokið símtalinu hringdi póstmeistarinn á Eskifirði og tilkynnti að maður væri þessa stundina að aka á lögreglustöðina. Við Bjarni litum fyrir horn skólans og sáum hvar maðurinn ók lyftaranum á fullri ferð inn í lögreglustöðina sem er beint á móti pósthúsinu. Hann bókstaflega hreinsaði anddyrið úr húsinu og gerði hverja atlöguna á fætur annarri að byggingunni svo að gaflarnir stungust langt inn í steinsteyptan vegginn. Síðan ók hann í gegnum grindverk við lögreglustöðina og að lokum skellti hann göflunum í gegnum glugga á varðstofunni.

    Ég hugsaði með mér hvað maðurinn myndi gera næst. Hann vissi af okkur Bjarna skammt frá og virtist ákveðinn í að ná okkur. Hann ók aftur að lögreglubílnum, hélt áfram að hnoða hann og hamast á honum nokkra stund. Hann ók svo að mannlausum bíl rétt hjá og lyfti honum upp, ók á hann og eyddi nokkrum tíma í að skemma hann. Svo hélt hann áfram ferð sinni niður á Strandgötuna þar sem margt ölvað fólk átti fótum sínum fjör að launa. Svipaða sögu mátti segja um bíleigendur en nokkur bílaumferð var um götuna. Maðurinn ók að fólkinu sem óður væri og við sáum hvar menn náðu að forða sér inn í húsagarða og á milli húsa, sumir á síðustu stundu. Það var skelfilegt ástand sem þarna hafði skapast og engin augljós leið til þess að komast að manninum og yfirbuga hann.

    Óðs manns æði

    Ég hafði á tilfinningunni að maðurinn ætlaði sér að aka yfir hvern sem væri, bara einhvern. Það var ógerlegt að skilja hvað rak hann áfram á þessari stundu. Framkoma mannsins var í fullkomnu ósamræmi við þau litlu kynni sem ég hafði haft af honum. Ég hafði aldrei gert honum neitt eða átt við hann annað en vinsamleg samskipti. Þetta kvöld hafði hann ekið á eftir mér og gert hverja atlöguna á eftir annari að mér og öðrum bæjarbúum sem á vegi hans urðu.

    Atburðarásin var nú komin á svo hættulegt stig að ég varð að reyna að nálgast skammbyssu á lögreglustöðinni. Sú staða gat komið upp að beita yrði skotvopni til þess að yfirbuga manninn, hversu óljúf og fjarlæg sem sú hugsun hafði verið fram til þessa. Fjöldi fólks var í hættu og óhætt að segja að almannahætta hafði skapast í þessu litla, rólega sjávarplássi þar sem flestir íbúarnir sváfu þó sem betur fer meðan á þessu gekk.

    Þeirri hugsun laust niður í kollinn á mér að maðurinn vissi ef til vill hvar ég ætti heima og gæti gert atlögu að húsinu mínu sem stóð skammt frá götunni en tvö yngstu börnin mín voru sofandi í herbergi sem að snýr út að götunni. Ég vissi að útveggir hússins mundu láta auðveldlega undan göfflum lyftarans ef til þess kæmi.

    Við heyrðum brothljóð og óp frá fólki vestar á Strandgötunni og síðan ók lyftaramaðurinn aftur í áttina að þeim stað sem við vorum í vari, væntanlega til að reyna að finna okkur. Síðan var eins og vélarhljóðið hætti skyndilega og þá fórum við Bjarni niður á Strandgötu þar sem fólk kom hlaupandi til okkar. Þar blasti við ófögur sjón. Gatan var eins og úr bíómynd, bílar á hvolfi hingað og þangað, grindverk brotin, hurðir brotnar og lögreglustöðin í rúst. Fólk ráfanði um í mikilli geðshræringu og sumir voru meiddir. Maðurinn hafði meðal annars ráðist með lyftaranum á jeppabifreið sem í voru saklausir vegfarendur, velt henni eftir götunni, upp á gangstétt og utan í hús sem skemmdist nokkuð við atganginn.

    Handtakan

    Maður kom hlaupandi á móti okkur og sagði að ökumaðurinn hefði náðst og honum væri haldið til móts við vélaverkstæði Hraðfrystihúss Eskifjarðar.

    Bjarni átti, þegar þarna var komið, mjög erfitt um gang og kvartaði sáran yfir verkjum. Unnusta lyftaramannsins kom að okkur og fylgdi Bjarna inn í hús þar sem sjúkraliði tók á móti honum. Nokkru síðar var Bjarni fluttur með sjúkrabíl á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Hann hlaut slæma áverka en hann hafði lent illa á hálsi og herðum þegar lögreglubílnum var velt á toppinn í upphafi þessarar fáránlegu og óskiljanlegu atburðarásar, eins og fyrr var sagt.

    Ég hljóp hins vegar af stað og er ég kom að vélaverkstæðinu voru þar nokkrir menn sem héldu lyftaramanninum. Lyftarinn var í hægagangi og skömmu síðar náðist að drepa á vélinni. Maðurinn barðist um á hæl og hnakka og ég handjárnaði hann. Allt í einu var sem allur vindur væri úr honum. Hann engdist um sem í krampaflogi og hélt í sér andanum.

    Þarna á staðinn voru meðal annarra komnir tveir góðir vinir mínir frá Englandi sem höfðu komið til Eskifjarðar til þess að vinna í fiski um tíma. Þeir höfðu verið inni í verbúðinni og fengið fregnir af ósköpunum og létu hendur standa fram úr ermum þegar yfirbuga þurfti lyftaramanninn. Annar Englendingurinn hélt að maðurinn væri að kafna og að tungan væri sigin aftur í kok. Hann setti því tvo fingur upp í manninn sem þá allt í einu beit hann í annan fingurinn, svo hraustlega að nöglin rifnaði næstum af.

    Nokkrir heimamenn höfðu gert það sem í þeirra valdi stóð til þess að reyna að stöðva ökuferð mannsins á meðan á henni stóð. Ungur maður hafði t.d. náð að stökkva upp á lyftarann á ferð en hann hafði ekki getað opnað hús lyftarans þar sem hurðarhúnninn var brotinn. Hann hafði því orðið frá að hverfa.

    Jónas lögreglufulltrúi kom í þessu á staðinn og við fórum með manninn í fangageymslu lögreglunnar. Aðstoð barst frá öðrum lögregluliðum á svæðinu og slökkvilið kom á staðinn. Þar sem tekist hafði að handsama manninn færðist ró yfir bæinn á ný.

    Í ljós kom að maðurinn hafði stórskemmt þrjá bíla og gjöreyðilagt lögreglubílinn og valdið tjóni á nokkrum húsum í bænum, þar með talið lögreglustöðinni eins og áður hefur komið fram. Tjónið, sem maðurinn olli. var áætlað um það bil 5 milljónir króna. Hann greiddi það þó áður en málið var dómtekið.

    Viðburðarík klukkustund að baki

    Viðburðaríkasta klukkustund lífs míns var að baki. Ég, eins og aðrir sem að málinu komu, hafði staðið frammi fyrir óhugnanlegu atviki og atburðarás sem þurfti að bregðast við fyrirvaralaust. Saklausir bæjarbúar horfðust skyndilega í augu við alvarlega ógnun þar sem líf þeirra margra var tvímælalaust í hættu. Hversu máttvana hafði mér ég ekki fundist vera gagnvart stórvirkri vinnuvélinni sem þarna hafði verið beitt sem stórhættulegu vopni?

    Og stóru spurningunni var ósvarað: Hafði ég verið tilbúinn til þess að beita skotvopni til þess að stöðva för mannsins þegar hann ógnaði öryggi fólksins sem var á ferð í bænum? Sem betur fer þurfti ég ekki að taka þá ákvörðun.

    Ökumaður lyftarans var dæmdur af Héraðsdómi Austurlands til tveggja ára fangelsisvistar. Jafnframt því var hann sviptur ökuréttindum í fimm ár.

    Brot úr sögu lögreglunnar í Reykjavík á árunum 1918 til 1997

    Eftir Guðmund Guðjónsson, yfirlögregluþjón hjá ríkislögreglustjóra.

    Árið 1997 kom út bókin Lögreglan á Íslandi, stéttartal og saga; höfundar Þorsteinn Jónsson og Guðmundur Guðjónsson yfirlögregluþjónn. Bókin var gefin út í samvinnu við Landssamband lögreglumanna með tilstyrk dómsmálaráðuneytisins. Hér á eftir er samantekt Guðmundar, byggð á söguþáttum hans er fram koma í bókinni. Í bókinni er gerð grein fyrir heimildum og því ekki ástæða til að geta þeirra í einstökum atriðum hér.

    Embætti lögreglustjórans í Reykjavík stofnað 1918

    Lögreglustjórn og meðferð sakamála í Reykjavík var í höndum bæjarfógeta fram til ársins 1918, en þá var stofnað sérstakt embætti lögreglustjórans í Reykjavík, með skiptingu bæjarfógetaembættisins. Enn fremur tóku lögin til þess að í kaupstöðum og kauptúnum á Íslandi, þangað sem siglingar væru mestar, skyldu skipaðir lögreglumenn lögreglustjórunum til aðstoðar. Fyrsti lögreglustjórinn í Reykjavík var Jón Hermannsson og gegndi hann því starfi til ársloka 1928. Það sem fyrst og fremst kallaði á þessa breytingu voru stórauknar siglingar til landsins og ráðstafanir sem gera þurfti vegna laga um áfengisbann.

    Aðflutningsbann á áfengi gekk í gildi á Íslandi árið 1912 og sölubann 1915. Í áfengisbannlögunum var ákvæði sem skyldaði bæjarfógeta til að hafa á hendi innsiglun áfengisbirgða og tolleftirlit. Með þessu ákvæði var tollgæsluhlutverkið í Reykjavík í höndum lögreglunnar. Við stofnun lögreglustjóraembættisins í Reykjavík færðist tollinnheimta og tollgæsla frá bæjarfógeta til hins nýja embættis lögreglustjóra. Í fyrrnefndum lögum er fyrsta ákvæðið um sjálfstæði tollgæslunnar, þar sem kveðið er á um að stofna skuli jafnskjótt og því verði við komið sérstaka tollgæslu fyrir Reykjavík, undir stjórn lögreglustjórans í Reykjavík. Komu þá sérstakir tollverðir sem unnu með lögreglunni við tollgæslustörfin. Tollverðir fengu í hendur lögregluskjöld, sem var sporöskjulaga skjöldur, nokkuð stór. Á ýmsu gekk fyrstu árin og skal eitt dæmi nefnt. Um 1920 var sjómaður einn að rogast með áfengi úr skipi frá höfninni. Tollvörður mætti honum á steinbryggjunni, sýndi honum skjöldinn og segir við sjómanninn að hann sé tekinn fastur. Maðurinn svaraði með því einu að slá tollvörðinn. Var sjómaðurinn handsamaður og dreginn fyrir lögreglustjóra. Var spurður hverju þetta sætti að hann réðist á tollvörðinn. Hvort hann hefði ekki séð lögreglumerkið. „Merkið – mér sýndist hann hafa lok af skósvertudós í hendinni," svaraði sjómaðurinn.

    Lögreglustjóri lagði fram tillögur til bæjarstjórnar í desember 1918, þar sem hann lagði meðal annars til að lögreglunni yrði skipt eins og gerðist í nágrannalöndunum, í eftirlitslið og rannsóknarlið, með stöðu sérstaks rannsóknarlögreglumanns. Ósk lögreglustjórans um fjölgun lögreglumanna úr níu í nítján var ekki samþykkt að öðru leyti en því að ráðinn var yfirlögregluþjónn sem hafði rannsóknir afbrota með höndum samhliða yfirverkstjórn lögregluliðsins. Í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 1922 samþykkti bæjarstjórnin að veita fé svo hægt væri að fjölga lögreglumönnum í bænum um sjö. Urðu miklar umræðum um málið í bæjarstjórn og lyktir þær að frestað var að fjölga í lögreglunni.

    Óspektir á gamlárskvöld 1920

    Í byrjun þriðja áratugarins fór að bera á óspektum og skrílslátum á gamlárskvöldum. Segja má að þetta ástand hafi verið viðvarandi í um það bil þrjá áratugi. Ekki er gott að segja hvað hefur valdið því að fólk, og þá sérstaklega ungmenni, fór að safnast saman á gamlárskvöldum og vera með óspektir. Mörgum þótti að á gamlárskvöldum mætti fólk hegða sér eins og því sýndist. Mannsöfnuðurinn leyfði sér hin ólíklegustu skrílslæti svo að lögreglan varð oft að skakka leikinn þegar lífi og eignum fólks var stefnt í hættu. Í fyrstu var um að ræða gantaskap og læti sem beindust ekki að neinu sérstöku en fljótlega varð lögreglan skotspónn mannfjöldans. Offorsið í mannsöfnuðinum fékk hvatningu af ýmsum toga. Mörgum mun hafa þótt að þarna væri komið tækifæri til að storka valdastofnunum í skjóli hópsins. Þar má nefna, að farið var að kasta sprengjum að fólki svo meiðsli hlutust af, bifreiðum var velt, bál voru kveikt á viðsjárverðum stöðum og lögreglustöðin grýtt. Þá er þess dæmi að hellt hafi verið bensíni yfir lögreglumenn og reynt að kveikja í þeim.

    Á þessum árum var oft mikill órói á fundum bæjarstjórnar Reykjavíkur og atvinnumálin þá gjarnan hitamál, enda mikið atvinnuleysi. Upp úr sauð á bæjarstjórnarfundi 30. desember 1930 og leiddi það til ryskinga á fundinum. Veist var að lögreglumönnum sem þar voru við löggæslustörf með öllu því er fyrir hendi var, svo sem glösum, könnum, stólum, blekbyttum og fleiru. Í þessari viðureign hlutu þrír lögreglumenn meiðsli. Lögreglustjóri, er stjórnaði lögreglumönnunum á staðnum, var jafnframt einn bæjarfulltrúanna. Hann lýsti því svo í blaðagrein eftir áramótin að lögreglan hefði daginn eftir bæjarstjórnarfundinn, gamlársdag, hafið rannsókn á málinu. Markmiðið var að komast fyrir um upptök þess og hverjir hefðu gerst brotlegir við landslög. Varð lögreglan þess þegar vís, að sumir hinna brotlegu ætluðu sér að safna liði til að koma af stað óeirðum þetta umrædda gamlárskvöld. Þeir áformuðu að ráðast á lögregluna og ráða niðurlögum hennar. Lét lögreglustjóri þegar gera ráðstafanir til þess að halda uppi reglu í bænum ef ske kynni að skærist í odda. Þótti sýnt að ýmsir miður löghlýðnir borgarar sem oft létu venju fremur á sér bera þetta kvöld myndu snúast til liðs við kommúnista ef þeir stofnuðu til mótþróa við lögregluna. Þegar líða tók á daginn fór umferð að aukast á götunum og var allt lögregluliðið þá til taks, auk þess sem lögreglustjóri hafði fengið aukavarðmenn til aðstoðar. Hann gaf lögreglumönnum fyrirmæli um að nota kylfur ef á þá yrði ráðist. Mikilvægt var að árásarmönnum yrði ljóst að reglu yrði haldið uppi með öllum þeim ráðum sem lög frekast leyfðu. Víða urðu áflog og ryskingar í bænum þetta kvöld og nokkrum sinnum réðust óspektarmennirnir á bifreiðar sem fólk var í og reyndu að velta þeim. Lögreglan kom í veg fyrir slys af þessum sökum. Þá var hvað eftir annað ráðist á lögregluna sjálfa og aðstoðarmenn hennar. Lögreglan brást við með beitingu lögreglukylfa sér til varnar og tvístraði árásarmönnum jafnharðan. Vegna þessara óeirða og árása á lögreglumenn voru nokkrir menn síðar dæmir til refsingar.

    Ýmsum úrræðum var beitt af hálfu lögregluyfirvalda til að hafa hemil á ástandinu á gamlárskvöldum, svo sem með fyrirbyggjandi hætti. Dæmi um það var árið 1941 þegar lögreglustjóri gaf á gamlársdag út áskorun til almennings um það að safnast ekki saman í hópa á götum bæjarins þetta gamlárskvöld eins og oft hefði átt sér stað áður. Jafnframt var brýnt fyrir almenningi að hlýða tafarlaust öllum skipunum lögreglunnar, svo hægt yrði að halda uppi góðri reglu á almannafæri. Þá var lýst yfir að lögreglan myndi með harðri hendi dreifa mannfjölda, ef hann safnaðist saman, og brotlegir yrðu látnir sæta sektum. Yfirlögregluþjónninn brýndi fyrir sínum mönnum að beita lögreglukylfum af varúð ef þeir þyrftu og aðeins dangla þar á líkama fólks sem minnst væri hætta á að kylfurnar meiddu, svo sem á lendar og útlimi. Þær átti ekki að nota á róttækari hátt nema eftir skipun yfirmanna eða ef yfirvofandi hætta væri á ferðum sem þyrfti að afstýra að þeirra áliti. Í dagbók lögreglunnar segir að um klukkan eitt um nóttina hafi orðið það mikill mannfjöldi og ólæti á Lækjartorgi að allir lögreglumenn er inni voru, fóru og ruddu torgið. Lögreglan hafi tekið tvo drukkna Norðmenn er sýndu mótþróa, fólksfjöldinn gerði þá aðsúg að lögreglustöðinni og voru vatnsslöngur notaðar og hópnum tvístrað með vatni. Hafi það tekist allvel. Málinu var hins vegar ekki þar með lokið, því opinbert mál var höfðað gegn þremur lögreglumönnum, þar af einum varðstjóra, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum með því að hafa farið offari í starfi, er til átaka kom þegar verið var að færa fangana á lögreglustöðina. Lögreglumennirnir voru allir sýknaðir, bæði í undirrétti og Hæstarétti.

    Árið 1943 birtist í blaði Verkamannafélagsins Dagsbrúnar grein sem bar fyrirsögnina „Vatnsbifreið lögreglunnar". Þar er fjallað um sérstaka bifreið sem átti að vera í smíðum fyrir lögregluna í Reykjavík og vera á stærð við strætisvagn. Hún átti að vera útbúin vatnsgeymum og dælum, sem gátu sent frá sér svo sterka vatnsgeisla, að engum manni var stætt fyrir þeim. Segir í blaðinu að bifreiðina eigi að nota sem skemmtibifreið fyrir lögregluna, en aðaltilgangurinn sé að nota hana gegn verkamönnum, ef til vinnudeilna komi, kröfugangna eða slíkra fjöldahreyfinga. Það er rétt að lögreglan eignaðist umrædda bifreið árið 1943 en notaði hana framan af eingöngu til liðsflutninga. Í henni voru vatnstankar en sprautubúnaður var ekki settur upp fyrr en eftir skrílslæti á gamlárskvöld 1946. Á gamlárskvöld 1947 átti að reyna bifreiðina til þess að leysa upp mannfjölda. Mikið frost var og dælan sem átti að sprauta vatninu reyndist kraftlítil þannig að vatnið sprautaðist aðeins fram á vélarlokið, þar sem það fraus. Vakti það að vonum mikinn fögnuð þeirra, sem bunan var ætluð. Á gamlárskvöld 1948 var bifreiðin til taks en vatnsbyssunni ekki beitt. Bifreiðin var síðan notuð hjá lögreglunni í Reykjavík um árabil til liðsflutninga og annarra verka.

    Segja má að árið 1953 hafi markað upphafið að endalokum gamlárskvöldaóeirðanna. Það ár var skipulagi breytt og lögreglustjóri fór að leyfa almenningi að safna efni í brennur á sérstökum stöðum og undir eftirliti lögreglunnar. Skipulagningu löggæslunnar á gamlárskvöldum var breytt frekar næstu árin, meðal annars í þá veru að lögreglumenn fóru í eftirlitsgöngu tveir og tveir saman en voru ekki fjórir saman í hóp með stóra stálhjálma og stórar kylfur eins og áður tíðkaðist. Fyrir vikið þótti óeirðarmönnum eitthvað vanta upp á vígbúnað lögreglunnar og sumir gerðu sér erindi á lögreglustöðina til að spyrja hvort lögreglan færi ekki að koma út.

    Árið 1929 voru 15 lögreglumenn í Reykjavík, sem halda þurftu uppi löggæslu allan sólarhringinn alla daga ársins. Þá voru tæplega 1800 íbúar á hvern lögreglumann, en talið var hæfilegt í sambærilegum borgum á Norðurlöndum, að hlutfallið væri 500 íbúar á hvern lögreglumann. Það er því ekki hægt að útloka þau sjónarmið sem meðal annars komu fram í blaðaumfjöllunum, að í upphafi megi rekja vandræðin að einhverju leyti til fámennis lögreglunnar.

    Rússneski drengurinn 1921

    Árið 1918 geisaði í Reykjavík drepsótt og var heilbrigðisyfirvöldum legið mjög á hálsi fyrir slælega framgöngu við að hefta útbreiðslu hennar og var almennt viðhorf að slíkt mætti ekki koma fyrir aftur. Afleiðingin af þessu var sú meðal annars að næstu árin eftir drepsóttina var skorin upp herör til sóttvarna um leið og það fréttist að innflúensa væri komin upp í bænum. Skólum var lokað, samkomur bannaðar og bærinn einangraður þannig, að engum var sleppt þaðan fyrr en hann hafði verið í sóttkví svo sannað þótti, að hann hefði ekki tekið í sig veikina. Verðir voru settir allt í kringum bæinn til sjós og lands, til þess að enginn gæti komist þaðan, en Reykvíkingum var þó heimilað að komast heim til sín úr utanbæjarferðum.

    Þetta kann að hafa haft áhrif árið 1921 þegar Ólafur Friðriksson, ritstjóri Alþýðublaðsins, kom úr Rússlandsför. Með honum var 15 ára munaðarlaus rússneskur drengur, Nathan Friedmann, sonur þekkts verkalýðsforingja sem hvítliðasveitir höfðu líflátið. Fljótlega leitaði Ólafur með drenginn til augnlæknis og greindist hann með augnsjúkdóm. Á þessum tíma var augnsjúkdómur þessi nær óþekktur hér landi en talinn mjög hættulegur og bráðsmitandi á byrjunarstigi. Lagði landlæknir til við stjórnarráðið, að fengnum tillögum augnlækna bæjarins, að piltinum yrði bannað að dvelja hér á landi. Skipaði stjórnarráðið svo fyrir að rússneski pilturinn skyldi fara af landi brott með gufuskipinu „Botníu sem fara átti frá Reykjavík nokkrum dögum síðar. Var lögreglunni falið að birta það piltinum og Ólafi og sjá um að fyrirskipuninni yrði hlýtt. Ólafur fór þá að semja við stjórnarráðið um styrk handa piltinum næstu árin, en þær samningaumleitanir leiddu ekki til samkomulags. Lögreglunni var þá falið að sjá um brottflutning drengsins. Sú lögregluaðgerð mistókst, þar sem mannsöfnuði tókst að ná drengnum úr höndum lögreglu og var þá skipaður sérstakur aðstoðarlögreglustjóri sem safnaði saman milli 400 og 500 manna liði til að ná drengnum. Var hann fluttur til Danmerkur og sendur á Eyrarsundsspítalann. Dr. Clod-Hansen lækni farast svo orð um veikina, í viðtali við danskan blaðamann: „Það eru hreinir smámunir. Hann hefur að vísu það sem kalla má trachoma, en í mjög litlum mæli. Dálítið rauður til augnanna. Þetta er hrein leiksýning. Það hefur hlaupið pólitík í augu hans. Það kveður meira að því en trachoma.

    Hæstiréttur dæmdi Ólaf Friðriksson og nokkra aðra í refsivist fyrir að hafa hindrað lögreglu við að ná drengnum. Þeir voru svo náðaðir af konungi 26. júní 1922. Í náðunarbeiðninni segir meðal annars svo um þá félaga: „...en það má um alla hina dæmdu segja, að afbrot þeirra áttu orsök í óeigingjarnri og sterkri löngun til að hjálpa ungum manni, sem þeir álitu, að mundi lenda í óhamingju, ef fyrirskipun þeirri um brottvísun úr landi, sem yfirvöldin af heilsufarslegum ástæðum höfðu orðið að gefa út, yrði framfylgt."

    Lögregla og tollgæsla í Reykjavík aðskilin 1929

    Þann 1. janúar 1929 var með lögum stofnað sérstakt embætti tollstjóra og færðust tollamál þá frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Jón Hermannsson lögreglustjóri tók við hinu nýja embætti, en ungur maður, Hermann Jónasson, sem verið hafði fulltrúi hjá embætti bæjarfógeta, tók við stöðu lögreglustjóra í Reykjavík.

    Eftir breytinguna skyldi lögreglustjóri hafa á hendi lögreglustjórn, meðferð sakamála og almennra lögreglumála og dómsmeðferð þeirra. Þá heyrðu margvísleg málefni áfram undir embætti lögreglustjóra, önnur en bein lögregluverkefni. Þar má nefna strandmál, lögskráningu skipshafna, mælingu og skrásetningu skipa, heilbrigðismál, firmaskráningu, vegabréf, úrskurði fátækramála, umsjón hegningarhússins í Reykjavík, útnefningu mats- og skoðunarmanna utan réttar, afgreiðslu leyfisbréfa til atvinnurekstrar, afgreiðslu vottorða um uppruna vöru, hlunninda- og aflaskýrslur og manntal í Reykjavík og fleira. Með lögunum var enn fremur stofnað embætti lögmanns í Reykjavík sem fór þau verkefni sem síðar voru falin embættum borgardómara og borgarfógeta.

    Hermann Jónasson tók við embætti lögreglustjóra í Reykjavík og lagði hann grunn að þeirri löggæslu sem við búum við enn í dag, bæði sem lögreglustjóri og einnig síðar sem forsætis- og dómsmálaráðherra.

    Hermann átti einstakan feril sem lögreglustjóri og er ekki nokkur vafi á því, að hann mótaði umgjörðina sem leiddi til þeirrar löggæslu sem við nú búum við. Í tíð hans voru settar ítarlegar reglur fyrir lögregluna. Mörg ákvæði þeirra reglna eru grunnur að reglum sem gilda enn í dag. Sem lögreglustjóri og síðar ráðherra varð Hermann þátttakandi í miklum pólitískum átökum. Árið 1930 hófst hinn pólitíski ferill hans, samhliða lögreglustjórastarfinu, er hann varð fulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Reykjavíkur. Í viðtali við Hermann í Lögreglublaðinu árið 1967 var hann spurður hvort hann hafi ekki sætt pólitískum ofsóknum í starfi sínu. Nefndi hann í því sambandi svonefnt „kollumál" sem hann hafi fyrst lesið um í einu dagblaðanna, en þar var fullyrt að Hermann hafi verið staðinn að því að skjóta æðarkollu í Örfirisey og fylgdi með að meirihluti lögreglumanna krefðist þess að honum yrði vikið úr starfi. Á þeim tíma var mikill meirihluti lögreglumanna andstæður Hermanni í stjórnmálum en þeir fylltust réttlátri reiði er þeir lásu hið ósanna níð um húsbónda sinn og fóru á fund ritstjórans. Lögreglumennirnir settu ritstjóranum tvo kosti, að hann segði skilmerkilega frá því í blaðinu að enginn lögreglumaður hefði mælt með því að Hermanni yrði vikið úr embætti ellegar að birt yrði yfirlýsing þar að lútandi undirrituð af öllum lögreglumönnum Reykjavíkur. Ritstjórinn kaus fyrri kostinn.

    Upphaf ríkislögreglunnar 1933

    Hugmyndir um ríkislögreglu voru pólitískt viðkvæmar, enda áttu þær sér vissa forsögu í Evrópu, þar sem settar höfðu verið á fót sérstakar lögreglusveitir til að halda verkalýðsbaráttu í skefjum. Á Íslandi höfðu menn kynnst slíkri aðgerð árið 1921, vegna rússneska drengsins, sem áður sagði frá. Ætla má að viss tregða starfandi lögreglumanna til svo harkalegra aðgerða hafi ýtt undir að sérstök sveit undir annarri stjórn var stofnuð og ætluð til harðari aðgerða. Í augum margra bæði til vinstri og hægri í stjórnmálum var ríkislögregla því tæki ætlað til að berja á verkalýðnum. Á árunum eftir fyrri heimsstyrjöld var verkalýðsbaráttan í flestum löndum hatrömm og hugmyndir um þjóðfélagsbyltingu settu sterkan svip á allar aðgerðir. Hér var því að margra viti þörf að safna liði í stéttastríði og margir vammlausir þjóðfélagsþegnar óttuðust óöld og átök og það ekki að ástæðulausu. Þetta voru áratugirnir þegar einræðishreyfingar, bæði til hægri og vinstri, náðu völdum í Evrópu.

    Í byrjun fjórða áratugarins var mikið atvinnuleysi á Íslandi og var af þeim sökum róstusamt milli verkalýðsins og stjórnvalda. Á fundum bæjarstjórnar Reykjavíkur 7. júlí og 9. nóvember 1932 brutust út miklar óeirðir, þegar atvinnubótavinnan var þar til umræðu. Eftir óeirðirnar 9. nóvember 1932 var mikill hluti lögregluliðs Reykjavíkur í sárum og óvinnufær um tíma. Var þá brugðið á það ráð að stofna varalögreglu, samtals um 150 manns, en án þess að sérstaklega væri kveðið á um heimild fyrir slíku í lögum. Yfirstjórn hennar var falin Erlingi Pálssyni yfirlögregluþjóni. Ljóst er að mikil tortryggni hefur ríkt af hálfu Alþýðusambands Íslands og Verkamannafélagsins Dagsbrúnar gagnvart lögreglunni og sérstaklega þó hjálparliði hennar. Töldu verkalýðsfélögin þessa ríkisreknu varalögreglu ólögmæta. Það má leiða að því verulegar líkur, að þessi tortryggni og harðvítug barátta þessara verkalýðssamtaka gegn varalögreglunni hafi átt þátt í því að lög um ríkislögregluna voru sett.

    Hermann Jónasson lögreglustjóri barðist fyrir því að í stað varalögreglu yrði lögreglan styrkt með því að fjölga lögreglumönnum. Í desember 1932 ritaði hann dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem hann benti á að þrátt fyrir verulega fjölgun lögreglumanna á árinu 1930 væri lögreglan í Reykjavík enn helmingi mannfærri og miklu veikari en í sambærilegum borgum á Norðurlöndum. Bendir lögreglustjóri meðal annars á að til og frá Reykjavík séu tiltölulega miklar verslunarsiglingar og hún sé útgerðarborg og þarfnist því mikillar gæslu. Enn fremur að ríkið sjálft hafi enga rannsóknarlögreglu eins og þó sé alls staðar erlendis, heldur annist götulögreglan í Reykjavík rannsóknir í hjáverkum. Gerir lögreglustjóri tillögu um að komið verði á fót 3–4 manna rannsóknarlögreglu, sem ríkið kosti, hjá því verði hvort sem er ekki komist til lengdar. Þá vitnar lögreglustjóri til þess að til bráðabirgða hafi verið valin sú leið samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að ráðnir hafi verið níu launaðir flokksforingjar með föst laun. Þeir stjórni svo hver um sig allt að 15 manna flokki og þeir menn fái greitt fyrir æfingar tvisvar í viku og fyrir að vera til taks til aðstoðar lögreglunni. Lögreglustjóri bendir á að efling lögreglunnar þurfi að vera þannig að hún veiti sem allra mest gagn og öryggi, hún kosti sem minnst fé og veki aldrei upp illar grunsemdir eða tortryggni um að beita eigi lögreglunni gegn vissri stétt, heldur verði að sjá svo um að allar stéttir í þjóðfélaginu geti trúað því og treyst að þær standi jafnt undir vernd hennar. En vitanlega verði þó aldrei hjá því komist að ýmsir óróaseggir og afbrotamenn séu óánægðir yfir því að lögreglan sé aukin. Lögreglustjóri telur alveg óhjákvæmilegt að bæði lögreglan sjálf og allur almenningur viti að ekki komi til mála að beita þessum liðsauka til að hafa áhrif á úrslit í vinnudeilum. Telur lögreglustjóri reyndar að yfirlýsing þurfi að koma um þetta frá ríkisstjórninni sem allra fyrst til þess að koma í veg fyrir ástæðulausa andúð.

    Árið 1933 voru sett lög um lögreglumenn, þar sem stigin voru fyrstu skrefin til ríkislögreglunnar. Megintilgangur laganna var að mæla fyrir um þátttöku ríkisins í greiðslu kostnaðar vegna reksturs lögregluliða og að setja tiltekna umgjörð um löggæsluna, svo sem að því er varðaði fjölda lögreglumanna í kaupstöðum og kauptúnum með 1.000 íbúa eða fleiri. Fram að þeim tíma hafði ríkið ekki tekið annan þátt í rekstri lögreglunnar en að skipa og launa lögreglustjóra sem stjórnuðu lögregluliði sem bæjarfélögin kostuðu.

    Með nýjum lögum um lögreglumenn, sem sett voru árið 1972, var lögreglan alfarið færð undir forræði ríkisvaldsins.

    Málaferli milli borgarstjóra og lögreglustjóra 1934

    Til að uppfylla skilyrði lögreglulaganna, sem tóku gildi 19. júní 1933, þurfti að fjölga lögreglumönnum í Reykjavík úr 27 í 48. Umsækjendur um stöðurnar, sem voru 21, voru alls 183. Bæjarstjórn ákvað að ráða í sjö stöður umsækjendur sem lögreglustjóri hafði ekki mælt með. Leiddi það síðan til málaferla á milli borgarstjóra fyrir hönd bæjarstjórnar og lögreglustjóra, sem lauk með dómi bæjarþings Reykjavíkur 9. ágúst 1934. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að hinar 183 umsóknir hafi verið sendar lögreglustjóranum í Reykjavík til þess að hann skyldi stinga upp á mönnum úr hópi umsækjenda í stöður lögreglumanna. Lögreglustjóri hafi stungið upp á 21 umsækjanda, en taldi auk þeirra níu nafngreinda umsækjendur hæfa til starfsins. Á fundi bæjarstjórnar um viku síðar voru 14 valdir úr þeim hópi, sem lögreglustjórinn hafði bent á, en sjö utan þess flokks og voru menn þessir settir í stöðurnar. Var lögreglustjóranum síðan tilkynnt þetta með bréfi. Lögreglustjóri tilkynnti borgarstjóra í framhaldi af því að hann teldi setningu þessara sjö manna, sem hann hafði ekki bent á í bréfi sínu, algjörlega ólögmæta og neitaði að láta þessa umsækjendur taka við störfum sem lögreglumenn. Jafnframt tilkynnti lögreglustjórinn hverjum þessara sjö manna út af fyrir sig, að hann teldi setningu þeirra í stöður lögreglumanna ógilda, svo og að ef hún yrði samt sem áður metin gild síðar þá veitti hann þeim lausn frá starfinu þegar í stað. Niðurstaða bæjarþings Reykjavíkur var sú að ráðning bæjarstjórnar Reykjavíkur á hinum sjö lögreglumönnum, sem ekki höfðu fengið tilnefningu lögreglustjóra, voru dæmdar ólögmætar. Var í því sambandi vitnað í tilskipun um bæjarstjórn Reykjavíkur frá árinu 1872 en þar segir meðal annars að lögreglumenn, næturverði og fangaverði setji bæjarstjórn eftir uppástungu lögreglustjóra, en hann geti veitt þeim lausn án samþykkis bæjarstjórnar.

    Daginn eftir að bæjarþing Reykjavíkur hafði kveðið upp dóm í máli borgarstjórans

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1