Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Norræn Sakamál 2005
Norræn Sakamál 2005
Norræn Sakamál 2005
Ebook317 pages4 hours

Norræn Sakamál 2005

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Í þessari fimmtu bók í bókaflokknum Norræn sakamál eru tekin til umfjöllunar þau sakamál sem hafa verið í kastljósinu í sínu landi á undanförnum misserum. Hæst ber án efa morðið á Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar í september 2003 og rannsóknina sem fylgdi í kjölfar þess. Þetta mál vakti alla Norðurlandabúa til umhugsunar um bæði eigið öryggi og öryggi stjórnmálamanna og þekktra persóna. Í kjölfar rannsóknarinnar beindust sjónir manna að ýmsum málum í samfélaginu svo sem málefnum innflytjenda, málefnum geðsjúkra og vinnubrögðum lögreglunnar.Frásagnirnar í bókinni eru sextán talsins og þar af fimm íslenskar. Flest málin hafa fengið umfjöllun í fjölmiðlum og ættu því að vera lesendum að einhverju leyti kunn. Frásagnirnar eru að vanda sagðar af lögreglumönnum sem stóðu að rannsókn þeirra.Í litlu samfélagi, eins og því sem við búum í, getur verið nokkuð vandasamt að fjalla um atburði eins og þá sem jafnan eru til umfjöllunar í þessum bókum. Jafnan er reynt að gera það samkvæmt bestu vitund og með þeim hætti að mál og málsatvik séu þungamiðja hverrar frásagnar en ekki þær persónur sem þar koma við sögu. Rannsóknaraðferðir lögreglunnar eru þau meginatriði sem reynt er að koma til skila í þessum frásögnum og vonandi hefur það tekist þokkalega.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateAug 18, 2020
ISBN9788726523645
Norræn Sakamál 2005

Read more from Forfattere Diverse

Related to Norræn Sakamál 2005

Titles in the series (5)

View More

Related ebooks

Related categories

Reviews for Norræn Sakamál 2005

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Norræn Sakamál 2005 - Forfattere Diverse

    Norræn Sakamál 2005

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 2005, 2022 Ýmsirand SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788726523645

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    Formáli

    Í þessari fimmtu bók í bókaflokknum Norræn sakamál eru að vanda tekin til meðferðar þau sakamál sem hvað mesta umfjöllun hafa fengið hvert í sínu landi á undanförnum misserum. Hæst ber án efa morðið á Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar í september 2003 og rannsóknina sem fylgdi í kjölfar þess. Þetta mál vakti alla Norðurlandabúa til umhugsunar um bæði eigið öryggi og öryggi stjórnmálamanna og þekktra persóna. Í kjölfar rannsóknarinnar beindust sjónir manna að ýmsum málum í samfélaginu svo sem málefnum innflytjenda, málefnum geðsjúkra og vinnubrögðum lögreglunnar.

    Sögurnar í bókinni eru sextán talsins og þar af fimm íslenskar. Flest málin hafa fengið umfjöllun í fjölmiðlum og ættu því að vera lesendum að einhverju leyti kunn. Frásagnirnar eru að vanda sagðar af lögreglumönnum sem stóðu að rannsókn þeirra.

    Í litlu samfélagi, eins og því sem við búum í, getur verið nokkuð vandasamt að fjalla um atburði eins og þá sem jafnan eru til umfjöllunar í þessum bókum. Jafnan er reynt að gera það samkvæmt bestu vitund og með þeim hætti að mál og málsatvik séu þungamiðja hverrar frásagnar en ekki þær persónur sem þar koma við sögu. Rannsóknaraðferðir lögreglunnar eru þau meginatriði sem reynt er að koma til skila í þessum frásögnum og vonandi hefur það tekist þokkalega.

    Ég hef nú látið af störfum sem ritstjóri bókaflokksins eftir að hafa ritstýrt síðustu fjórum bókum. Ég vil af því tilefni þakka lesendum bókanna góðar viðtökur og láta í ljós þá ósk mína að bókaflokkurinn sé kominn til þess að vera.

    Árni Þór Sigmundsson ritstjóri

    Morð á viðskiptafélaga

    Eftir Grétar Sæmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjón í Kópavogi.

    Mál það sem hér verður rakið vakti mikla athygli á sínum tíma. Maður banaði kunningja sínum og viðskiptafélaga á hrottalegan hátt, lamdi hann til dauðs með slaghamri. Þarna áttu í hlut tveir ungir menn í blóma lífsins. Annar lætur líf sitt en framtíð hins er í rúst. Mikil sorg ríkir hjá aðstandendum beggja. En hverjar eru ástæðurnar til slíks voðaverks? Fram kom hjá gerandanum að hann hafði á ferli sínum sem knattspyrnumaður farið að neyta örvandi efna til að auka þol sitt og getu í íþróttinni. Hann hafði ánetjast efnunum og farið að nota effedrín í talsverðum mæli. Sennilega er þar að finna undirrót þessa skelfilega atburðar.

    Upphaf málsins

    Ung kona hringir til lögreglunnar í Kópavogi klukkan 20.30 að kvöldi og segist vera farin að óttast um sambýlismann sinn sem hún hefði ekki heyrt neitt frá síðan klukkan 10.00 um morguninn. Lögreglumaðurinn á vaktinni skráir niður nafn og símanúmer tilkynnanda, einnig nafn og lýsingu á þeim horfna. Skráningarnúmer á bíl hans, númer á GSM-síma og annað það sem að gagni má koma. Hann biður tilkynnanda að láta vita strax ef eitthvað fréttist af manninum. Eftir að hafa skráð hjá sér upplýsingar byrjar þessi lögreglumaður frumathugun málsins. Hann aðgætir hvort eitthvað hafi verið skráð í málaskrá lögreglunnar um manninn á þeim tíma sem hann hefur verið týndur og einnig hvort eitthvað hafi verið skráð um bílinn. Hann hringir á nærliggjandi lögreglustöðvar til þess að kanna hvort þar sé einhverjar upplýsingar að hafa. Þegar svo er ekki sendir hann tilkynningu í fjarskiptakerfi lögreglunnar þar sem hann lýsir eftir manninum og bílnum. Síðan skráir hann þessar upplýsingar í dagbók en vonar svo það besta og snýr sér að öðrum störfum.

    Lögreglumenn heyra oft slíkar tilkynningar í fjarskiptatækjum en þar sem þær eru nánast allar afturkallaðar af því að hinn horfni skilar sér aftur vekja þær ekki mikla eftirtekt í fyrstu. Hvaða, hvaða, er þetta ekki of mikil taugaveiklun, hugsuðu sennilega flestir sem heyrðu þessa tilkynningu miðvikudagskvöldið 8. nóvember árið 2000.

    Sambýliskona hins horfna var viss um að ekki væri allt með felldu því að hún vissi að hann var á leið til vinnu sinnar um morguninn, í verslunina sem hann var að opna en hann hafði ekki komið þangað. Hann hafði aðeins hringt þangað og látið vita af því að hann tefðist aðeins því að hann þyrfti að hitta sameiganda sinn. Enginn hafði heyrt frá honum eftir það, hvorki foreldrar, vinir né samstarfsfólk.

    Varðstjóri á lögreglustöðinni í Kópavogi lét rannsóknarlögreglumann á bakvakt vita um tilkynninguna. Svo vildi til að þetta kvöld var ung kona á vaktinni. Hún hafði samband við tæknimann hjá símafyrirtækinu sem þjónustaði GSM-síma þess horfna. Hún kynnti honum að ættingjar teldu málið alvarlegt og óskaði eftir að hann kannaði hvort hægt væri að sjá á hvaða svæði síminn væri eða hefði síðast verið. Tæknimaðurinn brást skjótt við og hafði nokkru síðar samband við lögreglukonuna og kvaðst geta gefið henni þær upplýsingar að síðast hefði verið hringt í símann nokkru eftir hádegi og þá hefði það verið endurvarpi skammt vestan Reykjavíkurflugvallar, á Hjónagörðum-suður, sem hefði náð sambandi við símann þegar hringt var í hann en ekki hefði verið svarað. Hann sagði jafnframt að endurvarpi þessi þjónustaði flugvallarsvæðið í Reykjavík og byggð í Skerjafirði og einnig gæti hann slegið við og við yfir Skerjafjörð og yfir á Álftanes. Eftir þetta væri sem slökkt væri á símanum eða hann utan þjónustusvæða.

    Lögreglukonan hafði samband við yfirmann sinn og kynnti honum stöðuna. Þar á meðal að ættingjar mannsins og vinir væru farnir að leita hans með því að aka um, leita að bílnum og spyrjast fyrir. Það hefði allt reynst árangurslaust og vildu aðstandendur óska eftir formlegri leit. Ákveðið var að lögreglumenn á tveimur bílum einbeittu sér að því að leita á flugvallarsvæðinu til að reyna að finna bíl þess horfna. Þar sem leitarsvæðið var í öðru lögregluumdæmi, það er Reykjavík, var haft samband við vakthafandi yfirmann þar til að láta vita og leita eftir samstarfi. Var beiðninni vel tekið og þaðan sendur lögreglubíll með áhöfn til að leita flugvallarsvæðið að austanverðu og í Öskjuhlíð. Þá var ákveðið að haft yrði samband við svæðisstjóra Landsbjargar og hann beðinn um að láta hefja skipulagða leit í nágrenni höfuðborgarsvæðisins strax með birtingu morguninn eftir ef maðurinn hefði þá ekki fundist.

    Þegar hinir fáu starfsmenn rannsóknardeildar lögreglunnar í Kópavogi mættu til vinnu klukkan 08.00 að morgni höfðu engar frekari upplýsingar borist nema þær að leit að bifreiðinni hefði ekki borið árangur og að félagar Landsbjargar væru farnir af stað til leitar á fáförnum vegum og slóðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Á fyrsta fundi rannsóknardeildar þennan morgun var útlitið ekki bjart en svo er reyndar oft í upphafi rannsóknar stærri mála. Upplýsingar þær sem fyrir lágu gáfu lögreglu ekki tilefni til þess að ætla að glæpur hefði verið framinn. Allt eins var hugsanlegt að maðurinn hefði sjálfur farið eitthvað en ekki voru heldur nein sérstök rök til að ætla að svo hefði verið. Nauðsynlegt var að leita upplýsinga víða en sérstaka áherslu varð að leggja á að finna bílinn sem maðurinn hafði verið á. Þar gat vísbendingar verið að finna. Skipt var verkum og fólk tók til starfa við að afla upplýsinga.

    Bifreiðin finnst

    Fljótlega tók málið óvænta stefnu. Rétt upp úr klukkan 09.00 um morguninn tilkynnti lögreglan í Reykjavík að bifreiðin væri fundin. Hún var á bifreiðastæði við Loftleiðahótelið sem er austan Reykjavíkurflugvallar, en á austurhluta stæðisins, það er að segja lengst frá hótelinu og næst Öskjuhlíðinni. Bifreiðin var læst og ekkert sérstakt sjáanlegt inn um rúður hennar. Það að bifreiðin fannst á þessum stað kom sérstaklega á óvart, þar sem kvöldið áður og fram á nótt hafði lögreglan leitað þetta svæði og lögreglumaðurinn, sem sá um þá leit, var þekktur að vandvirkni og glöggskyggni. Seinna um daginn kom í ljós að ættingjar höfðu leitað á þessu svæði og einnig vinir hins horfna. Enginn hafði tekið eftir bílnum. Síðar um daginn voru þessir menn sérstaklega spurðir um þetta atriði. Allir sögðu að það væri alveg með ólíkindum að þeim hefði yfirsést það ef bíllinn hefði verið þarna. Sama sagði lögreglumaðurinn sem stjórnaði leitinni að honum um kvöldið. Allir sögðu þó að þeir treystu sér ekki til að fullyrða að bíllinn hefði ekki verið þarna um kvöldið. Nánar verður vikið að þessu atriði síðar.

    Þegar bíllinn var fundinn voru strax fengin föt af hinum týnda, þau voru sett hjá bílnum og sporhundur látinn þefa af þeim en hundurinn fór ekki frá bílnum. Hvað þýddi það? Sennilega hafði hinn týndi ekki gengið frá bílnum. Ef til vill hafði hann farið þarna á staðnum upp í annan bíl. Hafði einhver annar ekið bílnum á staðinn eða var hundurinn að bregðast? Ekki var hægt að velta mikið vöngum yfir þessu en ákveðið var að lyfta bílnum á flutningabíl og flytja hann í starfsstöð lögreglu. Tveir tæknirannsóknarlögreglumenn frá embætti ríkislögreglustjóra komu til að rannsaka bílinn. Síðar þennan dag lágu fyrir frumniðurstöður þeirrar rannsóknar. Þær voru helstar að smávegis blóðkám var finnanlegt á tveimur stöðum sem gat bent til þess að sá sem ekið hafði bílnum hefði verið með blóð á hendi og einnig á skó. Sýni af þessu blóði voru varðveitt.

    Rétt um leið og bíllinn fannst hafði tengillinn hjá Landsbjörg samband til að segja frá árangurslausri leit að bílnum. Leitarmönnum Landsbjargar var þá snúið til svæðisins austan flugvallar og í Öskjuhlíð þar sem þeir fóru um skógivaxnar hlíðarnar með leitarhunda. Sú leit skilaði ekki árangri og var þá frestað að njóta frekari aðstoðar björgunarsveitarmanna þar til meiri upplýsingar væru til að vinna eftir.

    Víkur þá sögunni að almennri upplýsingaöflun. Hinn týndi hét Elías, 27 ára gamall, íþróttamaður, stór vexti og dökkur yfirlitum. Hann hafði verið atvinnumaður í knattspyrnu og m.a. leikið í Noregi. Síðast hafði hann leikið með KR og var þar samningsbundinn en þjálfari mun hafa tilkynnt um vorið að hann uppfyllti ekki væntingar og myndi ekki verða í leikmannahópnum á komandi sumri. Elías mun hafa talið að þarna væri samningi rift með ólögmætum hætti og að hann ætti bótarétt. Þess vegna hafði hann samband við Árna, 33 ára gamlan héraðsdómslögmann, sem hafði um árabil leikið knattspyrnu í meistaraflokki og átti landsleiki að baki. Þetta munu hafa orðið fyrstu kynni þeirra en síðan kom það til að Elías var kominn með viðskiptasambönd erlendis og hafði í hyggju að flytja inn fatnað með vörumerkinu GAP og setja á fót verslun. Það æxlaðist svo að Árni fór að vinna í þessum verslunarhugmyndum með honum og var svo komið að þeir höfðu tekið á leigu húsnæði í miðborg Reykjavíkur, innréttað það og opnað verslun með GAP-vörur.

    Árni var einn af þeim fyrstu sem lögregla talaði við þennan morgun. Hann kaus að koma sjálfur á lögreglustöðina. Þarna var um viðtal að ræða þar sem lögreglukonan, sem talaði við hann, ritaði hjá sér ýmsar upplýsingar sem Árni gaf. Hann kvaðst engar skýringar geta gefið á hvarfi Elíasar en sagði margsinnis að hann væri sjálfur búinn að vera ef Elías kæmi ekki fram, því að þeir hefðu verið sameiginlega í svo miklum ábyrgðum vegna rekstursins og Elías hefði átt að sjá um hann.

    Lögreglukonan, sem tók viðtalið, kallaði á yfirmann sinn áður en því lauk. Það gerði hún til þess að annar en hún sæi manninn og heyrði frásögn hans. Það sem vakti eftirtekt lögreglumannanna var að þessi ungi lögmaður talaði fremur mikið og hratt og vætti varirnar alloft með tungubroddinum. Hið sama virtist koma í huga beggja, það er hvort verið gæti að lögmaðurinn væri undir áhrifum fíkniefna. Því leiddu þeir talið að þeim þætti og spurðu um hvort Elías hefði notað áfengi eða vímuefni og hvort eitthvað slíkt gæti verið tengt hvarfi hans en lögmaðurinn sagði að það gæti ekki verið, Elías hefði ekki verið í áfengis-eða fíkniefnaneyslu og það sama ætti við um hann sjálfan. Eftir samtalið þótti báðum lögreglumönnunum ljóst að þessa fullyrðingu þyrfti að kanna aðeins nánar. Ýmislegt annað yrði þó að ganga fyrir. Nokkru eftir að lögmaðurinn var farinn hringdi hann og sagðist vilja leiðrétta það sem hann hefði sagt ósatt. Það sanna væri að hann hefði farið sjálfur í meðferð vegna áfengisneyslu og væri nú laus við hana en fíkniefni hefði hann ekki notað. Þetta þótti rannsóknaraðilum gefa enn frekari ástæðu til að kanna hvort verið gæti að fíkniefni hefðu átt þátt í hvarfi Elíasar.

    Talað hafði verið við fjölskyldu Elíasar og hafði hún engar upplýsingar um að hann væri í vímuefnaneyslu, miklu fremur væri hann andvígur slíku. Einnig var rætt við fjölda af kunningjum hans og vinum. Greinilegt var að þeir lögðu sig fram um að segja lögreglunni allt sem þeir vissu sannast og réttast og sumir þeirra eyddu miklum tíma í að finna svör við því sem lögreglan var að leita eftir. Niðurstaðan var sú að Elías hefði nánast verið bindindismaður. Hann hafði yfirleitt ekki neytt áfengis með félögum sínum heldur hafði hann þá fremur tekið að sér að aka. Einstaka sinnum hefði hann drukkið smávegis léttvín með mat. Enginn hafði vitað til eða heyrt talað um að hann hefði neytt fíkniefna. Hann hefði verið mjög rólyndur og mannasættir. Enginn vissi til að hann hefði lent í handalögmálum. Hann reyndi að tala menn til en tækist það ekki sneri hann frá til að blandast ekki í illdeilur, þótt hann hefði bæði stærð og afl umfram marga. Sumir sögðu að hann hefði verið hæfileikaríkur knattspyrnumaður en hefði skort nokkuð einbeitingu og sjálfsaga til að ná langt á því sviði, hann hefði ekki verið tilbúinn til að leggja nógu mikið á sig. Þeir sögðu hins vegar að eftir að hann fór að vinna í því að koma verslunarrekstri á fót hefði hann lagt mjög hart að sér og unnið mikið og bundið miklar vonir við þennan rekstur. Enginn af vinum hans gat látið sér detta í hug hver ástæðan væri fyrir hvarfi hans. Sjálfur væri hann alls ekki líklegur til að láta sig hverfa, þvert á móti hefði hann verið fullur bjartsýni og tilhlökkunar vegna verslunarinnar. Þeir vissu heldur ekki til þess að hann ætti neinn óvildarmann. Hér má skjóta því inn í að einn af gömlu félögum Elíasar úr KR spurði lögreglumanninn, sem talaði við hann, hvar bíllinn hefði fundist. Honum var sagt það en félaginn fullyrti þá að Elías hefði ekki lagt bílnum þarna, það væri alveg útilokað. Lögreglumanninum þótti þetta nokkuð djörf fullyrðing en hún var rökstudd þannig að þarna væri ekkert hús nærri og hann gæti ekki hafa átt neitt erindi á þennan stað. Ef hann hefði átt erindi í hús þarna nærri þá hefði hann lagt á stæði nær þeim, en ef ekki hefðu verið laus stæði þar, þá myndi hann hafa lagt uppi á gangstétt. Þegar í ljós kom að í bíl hans voru nokkrir sektarmiðar vegna þess að lagt hafði verið ólöglega fóru að renna stoðir undir þessa fullyrðingu en síðar kom sönnun fyrir því að hún var rétt.

    Í ljós kom að þeir félagar höfðu tekið bankalán að upphæð um 20 milljónir króna vegna verslunarrekstursins. Sú fjárhæð virtist hafa verið nær uppurin og meira fjármagn þyrfti, m.a. til að greiða kostnað við innréttingar á verslunarhúsnæðinu. Aðstandendur Elíasar skýrðu frá því að hann hefði sagt þeim að Árni ætlaði að koma með fjármagn inn í reksturinn og hefði það verið hugsað sem mótframlag hans gegn því að Elías hafði samninginn um sölu á umræddum fatnaði. Elías hefði ætlað að hitta Árna þennan morgun og fá hjá honum peninga til að greiða iðnaðarmönnum. Um þetta atriði bar Árni á annan veg.

    Eftirgrennslanir um ferðir Elíasar frá því að hann fór að heiman frá sér báru engan árangur. Gengið var úr skugga um að hann hefði ekki farið úr landi með flugi. Engin rök fundust fyrir því að hann hefði sjálfur látið sig hverfa, þvert á móti virtist hann hafa verið lífsglaður og fullur tilhlökkunar til að takast á við komandi verkefni.

    Nauðsynlegt var að kanna nánar notkun á GSM-síma Elíasar. Aflað var dómsúrskurðar til að kanna notkun símans þennan dag. Athugað var í hvaða símanúmer hafði verið hringt og hvenær. Sömuleiðis úr hvaða símanúmerum var hringt í hann og hvenær og ekki síður hvar síminn hafði verið. Þegar niðurstöður úr þessu lágu fyrir var ljóst að meiri símasamskipti höfðu verið milli Elíasar og Árna en Árni hafði skýrt frá. Þá kom fram að sími Elíasar virtist, fyrst eftir að hann fór að heiman frá sér í Kópavogi, hafa verið á leið til Reykjavíkur en síðar virtist hann hafa verið á leið til baka og stefnt suður í gegn um Hafnarfjörð og sennilega inn á Reykjanesbraut. Sérstaka athygli vakti að samband hafði verið milli síma þeirra Einars og Árna eftir að komið var suður fyrir Hafnarfjörð. Eftir það varð hlé á hringingum í símann og úr honum þar til að hringt var í síma Elíasar frá foreldrum hans og var það þá endurvarpsstöðin vestan Reykjavíkurflugvallar sem nam símann.

    Grunur fellur á Árna

    Auk þess sem lögreglan talaði við Árna að morgni þess 9. nóvember voru teknar af honum formlegar skýrslur þann 11. og aftur þann 13. sama mánaðar. Grunsemdir voru um að hann hefði ekki sagt satt og rétt frá ferðum sínum daginn örlagaríka. Eftir ítarlega rannsókn var hægt að sýna fram á að hann hefði sagt rangt frá því hvar hann var staddur um hádegisbilið. Hann hafði gefið upp að hann hefði farið á skyndibitastað. Svo vel vildi til að á þeim stað voru myndbandsupptökuvélar og höfðu upptökur verið varðveittar frá þessum degi. Eftir nákvæma skoðun var hægt að fullyrða að Árni hafði ekki komið á staðinn á umræddum tíma. Þetta ásamt fleiru og sérstaklega því að talsvert meiri símasamskipti höfðu verið en hann hafði skýrt frá þótti vekja rökstuddan grun um að Árni hefði ekki sagt rétt frá í veigamiklum atriðum. Nauðsynlegt þótti því að fá frekari upplýsingar um notkun á síma Árna og var gerð krafa fyrir dómi um að símafélagið, sem þjónustaði símann, gæfi lögreglu upplýsingar. Þar var um að ræða annað símafélag heldur en í tilfelli Elíasar. Allt tók nú lengri tíma en áður enda var aðeins um einn tæknimann að ræða hjá símafélaginu til að leysa verkefnið. Hann var staddur úti á landi og það tók hann talsverðan tíma að komast í bæinn og eftir að hann kom tók það verulegan tíma til að ljúka verkinu. Að lokinni athugun kom í ljós báðir símarnir virtust hafa verið á sömu leið suður fyrir Hafnarfjörð. Einnig kom í ljós að endurvarpi við Grindavík hafði þjónustað síma Árna eftir símahringingar milli síma þeirra og áður en sími Elíasar var síðast numinn.

    Fram þótti kominn rökstuddur grunur um að Árni kynni að eiga saknæma aðild að hvarfi Elíasar og að á heimili hans, vinnustað og bifreiðum, sem hann hafði aðgang að, gæti verið að finna sönnunargögn. Gerð var krafa um að dómari heimilaði lögreglu leit á þessum stöðum. Krafan var tekin til greina og leitirnar framkvæmdar. Við þær naut lögreglan í Kópavogi aðstoðar fjölda rannsóknarlögreglumanna frá Reykjavík og einnig frá ríkislögreglustjóra. Lagt var m.a. hald á fatnað og bifreiðar.

    Árni var færður til yfirheyrslu að loknum þessum leitum en hann hélt fram sakleysi sínu. Við tæknirannsókn, sem hófst í beinu framhaldi af leitunum, kom í ljós að blóð fannst á skóm og í fatnaði Árna en það sem mestu virtist þó skipta var að leifar af blóði voru finnanlegar á útbreiddu svæði í farangursgeymslu einkabifreiðar hans. Greinilegt virtist að þar hefði verið talsvert mikið af blóði sem hefði verið þrifið upp að mestu en vegna þess að bifreiðin var skærrauð hefði verið torvelt að sjá hvar blóð leyndist og því verið verr þrifið en ella. Þegar þetta kom í ljós var tekin ákvörðun um að krefjast þess að Árni yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Honum var kynnt það og jafnframt sagt að í kröfugerðinni kæmu fram atriði sem bentu þess til að lögreglan væri með þýðingarmikil sönnunargögn en eins og á stæði væri það aðeins hann sjálfur sem vissi hvort þau hefðu þýðingu. Þetta síðasta hefði lögregla ekki sagt við venjulegt fólk en þarna var verið að tala við lögmann, sem stóð lögreglumanninum jafnfætis í því að geta metið sönnunargögn. Eina svar Árna var þá að hann skildi hvað átt væri við. Síðar um kvöldið var hann færður fyrir dómara og las þar yfir kröfugerðina og sá þar með að lögreglan hefði fundið blóð. Hann kvaðst ekki treysta sér til að svara spurningum fyrir dómi en að loknu dómþingi bað hann um að fá að tala við lækni og að því búnu vildi hann fá að gefa skýrslu. Í þeirri skýrslu lýsti hann því að hann hefði orðið félaga sínum að bana og falið líkið í hraungjótu við Grindavíkurveg. Lögreglumenn fóru á svæðið en fundu ekki staðinn og því var Árni fluttur sjálfur á vettvang. Hann fann fljótlega rétta svæðið og í framhaldi af því fannst líkið þar sem það var að mestu hulið í hraungjótu. Réttarlæknir var kallaður þangað um nóttina og jafnframt tæknirannsóknarlögreglumenn.

    Saga Árna

    Frásögn Árna var á þá leið að þeir félagarnir hefðu mælt sér mót um morguninn á fáförnum vegarslóða í Öskjuhlíð. Hann hefði komið á staðinn á undan Elíasi, lagt bíl sínum og gengið til baka eftir vegarslóðanum. Þangað hefði Elías komið og Árni sest upp í bílinn og síðan hefði verið ekið að hans bíl og lagt við hliðina á honum. Þar hefði hann játað fyrir Elíasi að hann hefði ekki peninga til að láta í fyrirtækið eins og talað hefði verið um. Þeir hefðu verið komnir út úr bílnum og Elías verið orðinn reiður og ógnandi. Sjálfur hefði Árni orðið hræddur, gripið hamar sem hefði verið í bíl hans og slegið til Einars Arnar.

    Elías hefði fallið til jarðar og Árni áttað sig á því að hann væri látinn. Þá kvaðst Árni hafa orðið örvinglaður og ekki getað hugsað rökrétt. Fyrst hefði hann ætlað að setja líkið upp í bíl Elíasar en séð fram á að það kæmist ekki fyrir þar. Því hefði hann sett það upp í farangursgeymsluna á sínum eigin bíl. Síðan hefði hann ekið sem leið lá út úr borginni til suðurs. Þegar hann hefði verið kominn suður fyrir Hafnarfjörð hefði hann heyrt að sími hringdi í farangursgeymslunni. Hann hefði þá ekið út af þjóðveginum, numið staðar, tekið símann af líkinu og sett hann hjá sér í framsætið. Þá hefði honum dottið í hug að fara að hringja á milli símanna til að blekkja lögregluna. Hann hefði hringt úr sínum síma í hinn, ýtt svo á takka á honum til að láta líta út fyrir að það væri svarað og svo öfugt. Eftir það hefði hann leitað að stað til að koma líkinu fyrir en ekki fundið neinn stað sem honum fannst heppilegur. Lítið bensín hefði verið orðið eftir á bílnum og hann því farið inn til Grindavíkur til að fá bensín. Hann hefði svo verið á leið til baka er hann veitti athygli vegarslóða sem lá út í hraun og hefði ekið eftir honum og fundið þar stað til að koma líkinu fyrir. Eftir þetta hefði hann ekið til baka og farið að losa sig við sönnunargögnin. Fyrst hefði hann kastað hamrinum í höfnina í Hafnarfirði. Svo hefði hann losað sig við farsíma Elíasar með því að henda honum út í sjó á leiðinni út á Álftanes. Síðan hefði hann ekið upp í Öskjuhlíð og lagt bíl sínum nokkuð frá bíl Elíasar. Þá hefði hann gengið að bíl Einars og ekið honum á bílastæði í grennd við Loftleiðahótelið. Þaðan hefði hann svo gengið yfir opið svæði upp að trjánum í Öskjuhlíð og síðan meðfram þeim og að sínum bíl. Eftir það hefði hann ekið að sportbátahöfninni við Elliðavog í Reykjavík og hent þar lyklunum að bíl Elíasar. Eftir þetta hefði hann farið í stórmarkað og keypt sér föt til að fara í til að losna við blóðug föt sín en þeim hefði hann hent í sorpílát. Síðan hefði hann farið að þrífa bílinn sinn. Reynt var að sannreyna þessa frásögn með því að leita að hlutunum sem Árni hafði losað sig við. Ekki tókst að finna þá nema hvað lyklarnir að bíl Elíasar fundust í ósi Elliðaánna.

    Lok rannsóknarinnar

    Svæði það í Öskjuhlíðinni sem Árni vísaði á var rannsakað mjög nákvæmlega en þrátt fyrir það fundust ekki nein ummerki þar um átök, ekkert blóð eða slíkt. Veður hefði ekki

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1