Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Norræn Sakamál 2004
Norræn Sakamál 2004
Norræn Sakamál 2004
Ebook402 pages6 hours

Norræn Sakamál 2004

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Í þessari fjórðu bók í bókaflokknum Norræn Sakamál eru alls fjórtán frásagnir af ólíkum sakamálarannsóknum og baráttu lögreglunnar við ýmiskonar glæpastarfsemi. Þar á meðal eru fjórar íslenskar sögur. Efni bókarinnar helgast að öllu jöfnu af því sem markverðast hefur verið að gerast í sakamálarannsóknum á Norðurlöndunum á liðnum misserum. Efnisvalið kann því að vera mismunandi á milli ára, allt eftir því hvaða frásagnir eru í boði hverju sinni í sameiginlegum gagnabanka Norrænu Sakamálabókarinnar.Öll þau erlendu mál sem fjallað er um í bókinni að þessu sinni hafa vakið mikla athygli og umræðu á þeim slóðum þar sem þau gerðust. Þau hafa beint sjónum manna að rannsóknum málanna og dómsuppkvaðningum í kjölfar þeirra.Því er haldið fram að heimurinn hafi breyst mikið á síðari árum, ekki síst eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum þann 11. september 2001. Það gerist sífellt algengara að ýmsir öfgahópar beini sjónum umheimsins að sér og sjónarmiðum sínum með ýmiskonar ódæðisverkum. Sem betur fer höfum við íslendingar sloppið við þessa ógn fram til þessa. Aðrar norðurlandaþjóðir hafa ekki verið jafn heppnar og þar hafa verið starfandi skipulagðir hópar hryðjuverkamanna eins og fram kemur í athyglisverðri grein Per Larsen yfirlögregluþjóns í Kaupmannahöfn. Hann fjallar um þau hryðjuverk sem framin hafa verið í Danmörku og hópana sem staðið hafa að baki þeim.Það er von okkar sem stöndum að útgáfu þessarar bókar, að lesendur hennar verði einhvers vísari um hið fjölbreytta starf lögreglumannsins nú á tímum. Ef svo er, þá er tilganginum með útgáfu bókarinnar náð.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateAug 18, 2020
ISBN9788726523492
Norræn Sakamál 2004

Read more from Forfattere Diverse

Related to Norræn Sakamál 2004

Related ebooks

Related categories

Reviews for Norræn Sakamál 2004

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Norræn Sakamál 2004 - Forfattere Diverse

    Norræn Sakamál 2004

    Norræn Sakamál 2004

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 2004, 2020 Ýmsir höfundar and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788726523492

    1. e-book edition, 2020

    Format: EPUB 2.0

    All rights reserved. No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    SAGA Egmont www.saga-books.com – a part of Egmont, www.egmont.com

    Formáli

    Í þessari fjórðu bók í bókaflokknum Norræn Sakamál eru alls fjórtán frásagnir af ólíkum sakamálarannsóknum og baráttu lögreglunnar við ýmiskonar glæpastarfsemi. Þar á meðal eru fjórar íslenskar sögur. Efni bókarinnar helgast að öllu jöfnu af því sem markverðast hefur verið að gerast í sakamálarannsóknum á Norðurlöndunum á liðnum misserum. Efnisvalið kann því að vera mismunandi á milli ára, allt eftir því hvaða frásagnir eru í boði hverju sinni í sameiginlegum gagnabanka Norrænu Sakamálabókarinnar.

    Öll þau erlendu mál sem fjallað er um í bókinni að þessu sinni hafa vakið mikla athygli og umræðu á þeim slóðum þar sem þau gerðust. Þau hafa beint sjónum manna að rannsóknum málanna og dómsuppkvaðningum í kjölfar þeirra.

    Því er haldið fram að heimurinn hafi breyst mikið á síðari árum, ekki síst eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum þann 11. september 2001. Það gerist sífellt algengara að ýmsir öfgahópar beini sjónum umheimsins að sér og sjónarmiðum sínum með ýmiskonar ódæðisverkum. Sem betur fer höfum við íslendingar sloppið við þessa ógn fram til þessa. Aðrar norðurlandaþjóðir hafa ekki verið jafn heppnar og þar hafa verið starfandi skipulagðir hópar hryðjuverkamanna eins og fram kemur í athyglisverðri grein Per Larsen yfirlögregluþjóns í Kaupmannahöfn. Hann fjallar um þau hryðjuverk sem framin hafa verið í Danmörku og hópana sem staðið hafa að baki þeim.

    Það er von okkar sem stöndum að útgáfu þessarar bókar, að lesendur hennar verði einhvers vísari um hið fjölbreytta starf lögreglumannsins nú á tímum. Ef svo er, þá er tilganginum með útgáfu bókarinnar náð.

    Árni Þór Sigmundsson

    ritstjóri

    Skeljungsránið

    ,,Hinn fullkomni glæpur"

    Eftir Árna Þór Sigmundsson aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík.

    Á árinu 2002 var sýndur í sjónvarpinu þáttur í þáttaröðinni Sönn íslensk sakamál. Þátturinn bar nafnið ,,Hinn fullkomni glæpur". Hann fjallaði um tvö óleyst ránsmál frá árinu 1995. Sýning þessa sjónvarpsþáttar átti sinn þátt í því að rannsókn þessara mála var hafin á ný þegar flestir höfðu gefið upp vonina um að þau leystust.

    Fyrri hluti

    Mánudagurinn 27. febrúar 1995

    Mánudagurinn 27. febrúar 1995 virtist ætla að verða ósköp venjulegur dagur. Nokkur snjór var á jörðu í Reykjavík eins og svo oft í febrúar en veður var ágætt og borgarbúar á leið til vinnu sinnar eins og venjulega. Talsverð umferð ökutækja og gangandi vegfarenda var í miðborginni og atvinnulífið var að taka á sig hefðbundna mynd eftir helgina.

    Þessi dagur átti þó eftir að verða óvenjulegur og eftirminnilegur fyrir margra hluta sakir.

    Hann varð án efa ógleymanlegur tveimur starfsstúlkum olíufélagsins Skeljungs sem höfðu það starf að safna saman helgarsölu fyrirtækisins á bensínstöðvum þess á höfuðborgarsvæðinu. Þær höfðu fram að þessu getað sinnt starfi sínu án þess að þurfa að óttast um öryggi sitt.

    Hann hefur án efa orðið eftirminnilegur þremur grímuklæddum mönnum sem að morgni dags sátu íklæddir vinnusamfestingum í hvítri Saab-bifreið á bifreiðastæði við Íslandsbanka í Lækjargötu 12.

    Hann átti eftir að verða óvenju annasamur fyrir allflesta lögreglumenn sem voru við störf í Reykjavík og nágrenni.

    Atburðir dagsins áttu einnig eftir að verða eftirminnilegir þeim sem þetta ritar. Hann átti eftir að eyða nokkurra mánaða vinnu í rannsóknir og vangaveltur tengdar atburðum dagsins, rúmum átta árum eftir að þeir gerðust.

    Þennan dag var framið rán í Reykjavík sem átti sér fáar hliðstæður hér á landi á þessum tíma. Ránið var óvenjuvel skipulagt og þrátt fyrir gríðarlega mikla rannsóknarvinnu, sem unnin var af Rannsóknarlögreglu ríkisins, var það lagt til hliðar sem óupplýst nokkrum árum síðar.

    Þess var beðið að nýjar upplýsingar bærust svo að hægt yrði að taka það til rannsóknar á ný. Á því virtist þó ætla að verða bið og líkur á að það fyrntist að lokum.

    Eftir breytingar á lögreglulögum var Rannsóknarlögregla ríkisins lögð niður og embætti ríkislögreglustjóra stofnað þann 1. júlí 1997. Í framhaldi af því var Lögreglustjóranum í Reykjavík sent málið til þóknanlegrar meðferðar, eins og það er orðað, með bréfi Ríkislögreglustjóra dagsettu 28. apríl 1998. Þetta þýðir einfaldlega að engar nýjar upplýsingar höfðu borist sem kynnu að koma að gagni við rannsókn málsins. Það leit því út fyrir að þetta vel skipulagða og undirbúna rán ætlaði að heppnast.

    Skoðum málið nánar.

    Lækjargata/Vonarstræti, mánudaginn 27. febrúar, kl. 10.07

    Lítilli fólksbifreið, hvítri að lit, merktri Skeljungi, er ekið inn á bifreiðastæði Íslandsbanka á gatnamótum Lækjargötu og Vonarstrætis um klukkan tíu að morgni.

    Í bifreiðinni eru tvær ungar konur, starfsmenn Skeljungs, með háa fjárhæð í fórum sínum. Þennan dag eru þær með helgarsölu um það bil fimmtán afgreiðslustöðva fyrirtækisins, sem þær hafa lokið við að safna saman um morguninn, í sérstakri, þar til gerðri peningaflutningatösku. Uppgjörið er geymt í sérstökum, renndum pokum í peningaflutningatöskunni og hafa pokarnir að geyma bæði peninga og greiðslukortakvittanir að upphæð nálægt sex milljónum króna.

    Konurnar höfðu ekki veitt neinu óvenjulegu athygli á ferð sinni þennan morgun og nú var komið að því að leggja fjármunina inn á bankareikning fyrirtækisins í Íslandsbanka við Lækjargötu. Að því loknu tækju við önnur störf rétt eins og venjulega.

    Á bifreiðastæðinu við Íslandsbanka eru nokkrar bifreiðar sem vekja ekki sérstaka eftirtekt kvennanna tveggja. Þær finna sér stæði, leggja bifreiðinni, stíga út úr henni og heldur önnur þeirra á peningaflutningatöskunni en hin fylgir henni áleiðis í bankann. Þær hafa gert þetta oft áður samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun sem þær fylgja í einu og öllu.

    Skyndilega er hvítri Saab-fólksbifreið ekið úr einu stæðinu og út úr henni ryðjast tveir grímuklæddir menn í bláum vinnusamfestingum. Þriðji maðurinn, einnig grímuklæddur, situr undir stýri og leggur bifreiðinni aftan við bifreið kvennanna tveggja og króar hana af.

    Mennirnir tveir veitast að konunum og annar þeirra slær til þeirrar sem heldur á töskunni með handslökkvitæki sem hann síðan missir frá sér í atganginum. Að svo búnu hrifsar hann töskuna af konunni. Mennirnir forða sér inn í Saabinn og aka á brott vestur Vonarstræti.

    Atburðarásin er hröð. Framganga mannanna er fumlaus og ákveðin og innan örskammrar stundar eru þeir á brott en konurnar standa ráðvilltar eftir á bifreiðastæðinu.

    Á meðan á þessu stóð höfðu mennirnir ekki sagt eitt einasta orð, hvorki ávarpað hver annan né gefið konunum fyrirskipanir.

    Konurnar hraða sér inn í bankann og hringja á lögregluna.

    Tilkynningin berst kl. 10.07, bæði með árásarboði frá bankanum og einnig símleiðis og er nærstaddri lögreglubifreið þegar beint á staðinn.

    Þegar ljóst var hvað hafði gerst var öllum lögreglubifreiðum tilkynnt um ránið og jafnframt haft samband við Rannsóknarlögreglu ríkisins sem var til húsa að Auðbrekku 6 í Kópavogi. Þaðan voru þegar í stað sendir bæði tæknirannsóknar- og aðrir rannsóknarlögreglumenn.

    Svæðið var girt af og farið að vinna út frá þeim fáu vísbendingum sem fyrir lágu. Reyndar var einungis vitað að um þrjá menn var að ræða, á hvítri, snjóugri Saab-bifreið sem hafði verið ekið út af bifreiðastæði bankans til hægri vestur Vonarstræti og eftir það var ekkert vitað um ferðir þeirra.

    Á meðan rannsóknarlögreglumennirnir leituðu frekari vísbendinga á staðnum hóf lögreglan í Reykjavík skipulagða leit að Saabinum.

    Það var eins og að leita að saumnál í heystakki.

    Fjöldi slíkra bifreiða var til og á þeim stutta tíma sem það tók að tilkynna um ránið og fá lögregluna á staðinn hefði mátt aka bifreiðinni talsverða vegalengd og koma henni þannig fyrir að erfitt yrði að finna hana.

    Peningaflutningataskan, sem ræningjarnir höfðu á brott með sér, var útbúin þjófavarnarkerfi sem átti að gefa frá sér þykkan, rauðan reyk ef farið yrði með töskuna í ákveðna fjarlægð frá peningaflutningabifreið Skeljungs í tiltekinn tíma. Ef taskan virkaði sem skyldi ætti hún nú að hafa spúið þykkum reykjarviðbjóði inn í bifreiðina. Auk þess hefði rauður litur auðkennt innihald hennar svo sem peningaseðla. Það hlyti að vekja athygli vegfarenda ef kerfið í töskunni virkaði sem skyldi.

    Fjarskiptarás lögreglunnar var stöðugt í notkun og margar fyrirspurnir bárust sem svara varð samtímis. Settir voru upp eftirlitspóstar þar sem lögreglubifreiðum var lagt og grunsamlegar bifreiðar stöðvaðar eða skráningarnúmer þeirra skrifuð niður. Það gat orðið erfitt að finna þessa bifreið og þar réði heppnin án efa mestu um.

    Allt tiltækt lögreglulið á höfuðborgarsvæðinu leitaði nú með skipulögðum hætti að mönnunum þremur og flóttabifreiðinni.

    Samtímis unnu rannsóknarlögreglumenn á ránsstaðnum við að ljósmynda vettvanginn og leita að einhverjum sönnunargögnum, auk þess sem aðrir reyndu að hafa uppi á vitnum sem kynnu að gefa gagnlega lýsingu af atburðarásinni eða mönnunum sem leitað var að.

    Ásvallagata klukken 11.09

    Lögreglumenn, sem voru við leit að Saab-bifreiðinni í vesturborginni, tilkynntu kl. 11.09 að þeir hefðu fundið hana í innkeyrslu við hús á Ásvallagötu, örskammt frá Ljósvallagötu.

    Rannsóknarlögreglunni var þegar gert viðvart og sendi hún strax menn á staðinn. Í bifreiðinni var peningaflutningataskan og þjófavarnakerfið hafði sýnilega ekki virkað sem skyldi því að engin merki voru neins staðar um rauðan reyk. Taskan hafði greinilega verið opnuð og innihald hennar fjarlægt. Á afturgólfi bifreiðarinnar var peningapoki sem hafði gleymst og auk þess voru ákveðin atriði sem vöktu strax athygli lögreglumannanna og báru glögg merki um vandlega skipulagningu og ítarlegan undirbúning ránsins.

    Í aftursætinu var dagblað sem reynt hafði verið að kveikja í. Auk þess rauðvínsflaska, full af eldfimum vökva og með kveikjuvöndi í stút. Einnig hafði verið reynt að kveikja í henni. Þess konar íkveikjusprengjur eru kallaðar Molotoff-kokkteilar og eru alþekktar.

    Í hanskahólfi fundust fjögur haglaskot og í klæðningu við hlið aftursætisins hafði opnum vasahníf verið stungið. Hnífurinn var því tiltækur og hægt að beita honum með litlum fyrirvara.

    Gat verið að ræningjarnir hefðu verið vopnaðir haglabyssu án þess að hafa hótað að beita henni? Þessi spurning leiddi af sér vangaveltur um hvað kynni að hafa gerst ef svo hefði verið og einhver hefði reynt að stöðva þá á flóttanum.

    Undir bílstjórasætinu fannst hið rétta skráningarnúmer bifreiðarinnar og í ljós kom að henni hafði verið stolið á bifreiðastæði við innanlandsflug Flugleiða skömmu eftir að eigandi hennar hafði brugðið sér flugleiðis vestur á firði. Númerin, sem voru á henni þegar hún fannst, reyndust einnig vera stolin og tilheyra gamalli DAF-bifreið sem staðið hafði ónotuð um nokkurn tíma í Þingholtunum.

    Saab-bifreiðin var flutt með kranabifreið að Auðbrekku 6 þar sem hún var skoðuð af sérfræðingum RLR sem meðal annars leituðu fingrafara og alls þess sem kynni að koma að gagni við rannsóknina.

    Leitað var til íbúa í nágrenni við fundarstaðinn eftir vísbendingum um hugsanlega flóttaleið ræningjanna en sú leit bar ekki árangur. Sporhundur var fenginn á staðinn ef vera kynni að hægt yrði að rekja slóðina frá bifreiðinni.

    Hann reyndist ekki koma að gagni og ekki var heldur hægt að finna nýtanleg fótspor í snjónum.

    Þegar hér var komið sögu var því í rauninni mjög lítið vitað um ræningjana. Það var eins og jörðin hefði gleypt þá. Ekkert var vitað um þá eftir að þeir yfirgáfu bifreiðina við Ásvallagötu eða hvernig þeir hefðu farið þaðan. Það var ekki einu sinni full vissa fyrir því að mennirnir væru Íslendingar því að þeir höfðu ekki mælt eitt einasta orð frá vörum meðan á ráninu stóð. Það var nokkuð ljóst að þetta yrði flókin rannsókn ef ekki kæmi fram eitthvað nýtt sem kæmi henni á verulegt skrið.

    Hvammsvík, Hvalfirði, klukkan 16.08

    Vegfarandi, sem leið átti norður Vesturlandsveg, skammt innan við Hvammsvík í sunnanverðum Hvalfirði, hringdi í lögregluna og tilkynnti að hann hefði séð logandi eld í fjörunni neðan við veginn.

    Þannig háttar til á þessum slóðum að vegurinn liggur skammt frá sjó en norðar tekur við alllöng brekka. Nokkru sunnar er svo bærinn Hvammsvík þar sem á þessum tíma var rekin ferðaþjónusta.

    Vegfarandinn kvaðst hafa séð reyk stíga upp úr fjörunni og því hafa farið og kannað aðstæður nánar. Fann hann þá tösku með alls konar fatnaði og allmörgum pokum og reikningum merktum Skeljungi og logaði í sumu skammt frá fjöruborðinu. Maðurinn hafði heyrt um ránið í útvarpinu og áttaði sig á að þessir hlutir kynnu að tengjast því. Því slökkti hann eldinn og hafði símasamband við lögregluna um bílasíma klukkan 16.08.

    Lögreglumenn úr Mosfellsbæ voru næstir staðnum þegar kallið kom og voru þegar í stað sendir áleiðis þangað. Skömmu síðar lokaði lögreglan Vesturlandsvegi við Þingvallaafleggjarann fyrir allri umferð. Haft var tal af öllum þeim sem leið áttu til borgarinnar.

    Lögreglan í Borgarnesi athugaði sömuleiðis alla ökumenn sem áttu leið um Hvalfjörð í gagnstæða átt, skammt frá Hvalstöðinni í norðanverðum firðinum.

    Um það leyti sem lögreglan fékk tilkynninguna og fyrsti bíll var á leiðinni á staðinn byrjaði að snjóa og síðan jókst snjókoman verulega þannig að skyggni varð afar slæmt. Á leið sinni á staðinn töldu lögreglumennirnir, sem fyrstir fóru, allar bifreiðar sem þeir mættu og skráðu niður númer þeirra. Alls mættu þeir 23 bifreiðum á leiðinni.

    Þegar komið var á staðinn fundu lögreglumennirnir brunaleifarnar og tóku til þess ráðs að breiða teppi yfir þær og nágrenni þeirra í þeirri von að ekki snjóaði frekar í skóför sem enn greindust, en nú kyngdi niður snjó og skyggnið var orðið mjög slæmt.

    Fleiri lögreglubifreiðar höfðu verið sendar áleiðis með það í huga að kanna vegaafleggjara á leiðinni, en þessi mikla snjókoma gerði það að verkum að fljótlega snjóaði í öll nýleg hjólför.

    Rannsóknarlögreglan sendi menn til þess að ljósmynda vettvanginn og leita þar frekari sönnunargagna. Þarna fundust peningatöskur merktar Skeljungi sem innihéldu ýmis mikilvæg gögn svo sem greiðslunótur og fleira og fékkst staðfesting á að þessir hlutir höfðu verið á meðal þess sem rænt hafði verið um morguninn. Þarna var líka ýmis fatnaður og margt fleira sem tekið var til frekari rannsóknar hjá tæknideild rannsóknarlögreglunnar.

    Allir þeir hlutir sem fundust voru vættir í bensíni og í um það bil fjörutíu metra fjarlægð frá fjöruborðinu flaut bensínbrúsi á sjónum.

    Þrátt fyrir að lögreglumennirnir, sem fyrstir komu á staðinn, hefðu brugðist rétt við og breitt yfir þá staði þar sem þeir töldu vera nýtileg skóför kom í ljós að það dugði ekki til og ekki reyndist unnt að greina mynstur í skóförunum sakir þess hve snjóað hafði í þau.

    Meðal þess sem fannst í Hvammsvík voru 30 peningapokar, sumir brunnir en aðrir ekki. Engir peningar voru í pokunum, einungis greiðslukortanótur og fleira slíkt.

    Tvær skíðahettur sem á höfðu verið gerð göt fyrir augu og nef.

    Svört íþróttataska af gerðinni Puma.

    Íþróttagalli, svokallaður glansgalli, blár að lit.

    Hvítur íþróttaskór.

    Svartir, uppháir, reimaðir leðurskór.

    Fjólublá prjónapeysa úr acrylefni.

    Þrír einnota Latex-hanskar, brunnir að hluta.

    Brúsi með Zippo-kveikjarabensíni, 133 ml.

    Hlutirnir voru mismikið brunnir, sumir nánast ónýtir á meðan aðrir voru næstum óskemmdir. Leitað var fingrafara á þeim öllum en án árangurs. Framundan var mikil vinna við að rannsaka þessa hluti, leita fingrafara á þeim og reyna að ná af þeim lífsýnum. Þá þurfti að vinna úr upplýsingunum sem fyrir lágu varðandi umferðina til og frá Hvammsvík á þessum tíma svo og öðrum ábendingum sem sífellt bárust.

    Ljóst var að ræningjarnir höfðu gert mistök með því að losa sig við hlutina með þessum hætti. Þau gátu átt eftir að reynast þeim dýrkeypt.

    Vitni gefa sig fram

    Eins og gefur að skilja varð strax mjög mikill og stöðugur fréttaflutningur af ráninu og rannsókn þess. Mikil almenn umræða varð líka um málið og ýmsar getgátur um það hverjir kynnu að hafa verið að verki. Fjöldi manns hafði samband við lögregluna á komandi dögum í þeim tilgangi að gefa upplýsingar sem reyndust síðan misgagnlegar.

    Til að gera langa sögu stutta verða einvörðungu taldar upp hér þær vísbendingar sem síðar komu að gagni við rannsókn málsins. Hinar reyndust þó mun fleiri og það mun oft hafa tekið talsverðan tíma að kanna þær áður en hægt var að leggja þær til hliðar.

    Strax að kvöldi ránsdagsins bárust athyglisverðar upplýsingar varðandi atvikið í Hvammsvík.

    Tveir ungir menn, sem störfuðu við daglega vöruflutninga frá Borgarnesi til Reykjavíkur, höfðu tekið eftir einkennilegu atviki á ferð sinni skammt innan við Hvammsvík.

    Þeir voru að koma frá Reykjavík þegar þetta gerðist, síðdegis, á tímabilinu milli klukkan þrjú til hálffjögur. Lítils háttar snjókoma var þá að sögn þeirra og hálka á veginum. Þeir reiknuðu með því að þurfa að fara varlega framundan í brekkunni sem beið þeirra.

    Mennirnir ræddu saman í rólegheitum þegar þeir tóku eftir lítilli, rauðri bifreið í vegkantinum framundan og bar þeim saman um að hún hefði verið fimm dyra, af gerðinni Daihatsu Charade, árgerð 1986–1987, á gömlum skráningarnúmerum. Neyðarljósin loguðu á henni þar sem hún stóð í akstursstefnu til suðurs, áleiðis til Reykjavíkur. Í fjöruborðinu neðan við hana voru tveir úlpuklæddir menn eitthvað að bjástra við logandi eld. Á sjónum skammt þar frá var eitthvað á floti sem mennirnir í flutningabifreiðinni greindu ekki hvað var.

    Mennirnir í fjörunni tóku til fótanna þegar þeir sáu til ferða flutningabifreiðarinnar, flýttu sér frá eldinum, settust inn í bifreiðina og óku af stað.

    Þeir í flutningabílnum undruðust þetta og fannst þeim háttarlagið undarlegt en veltu því ekki frekar fyrir sér og héldu áfram för sinni. Rifjaðist þetta upp fyrir þeim síðar um daginn þegar þeir heyrðu fréttir af ráninu í fyrsta skipti. Þeir voru búnir að vera uppteknir við vinnu sína allan fyrripart dagsins og höfðu því ekkert hlustað á útvarpið. Engin lýsing fékkst á mönnunum í fjörunni, önnur en sú að þeir hefðu verið úlpuklæddir. Þrátt fyrir að þessar upplýsingar virtust ekki sérstaklega gagnlegar, komu þær að talsverðu gagni við rannsóknina löngu síðar.

    Sama daginn og ránið var framið gaf sig fram við lögregluna maður sem hafði fram að færa upplýsingar sem hann taldi að tengdust málinu.

    Hann hafði verið á gangi skammt frá gamla kirkjugarðinum við Hringbraut, á leið til vinnu sinnar á Háskólasvæðinu, er hann mætti tveimur aðilum sem hegðuðu sér mjög grunsamlega að hans mati.

    Vitnið hafði gengið eftir göngustíg sem liggur meðfram bakgörðum húsa samhliða Ásvallagötu að Ljósvallagötu, einnig samhliða Ljósvallagötu að Hringbraut. Nokkrar gönguleiðir liggja inn á stíginn um undirgöng.

    Vitnið sagðist hafa laust eftir klukkan tíu um morguninn mætt grímuklæddum manni sem hjólaði hratt framhjá honum eftir göngustígnum frá Ljósvallagötu, beygði síðan til vinstri meðfram bakgörðunum við Ljósvallagötu í áttina að Hringbraut, þar sem hann hvarf honum sjónum um undirgöng. Hjólreiðamaðuinn hafði verið með hettu fyrir andlitinu, íklæddur dökkum anorak og með lítinn bakpoka.

    Skömmu síðar hafði vitnið mætt öðrum manni sem kom hlaupandi um sömu undirgöngin sem liggja frá Ljósvallagötu inn á göngustíginn og hafi þeir mæst í undirgöngunum miðjum. Þessi maður hafði verið klæddur í kuldagalla, samfesting sem merktur var EIMSKIP á bakinu. Hann hafði verið með upprúllaða húfu á höfði og með dökka, belgmikla tösku meðferðis. Taskan hafði verið með löngum burðarböndum.

    Vitnið hafði veitt þessu sérstaka athygli og skömmu eftir að hann mætti manninum í undirgöngunum hafði hann lagt frá sér töskuna.

    Vitnið sagðist hafa haldið áfram göngu sinni suður Ljósvallagötu í átt að Hringbraut þegar þessi sami maður kom skyndilega hlaupandi fram úr honum og hljóp í átt að Hringbrautinni. Tvisvar á leiðinni hafði hann hlaupið inn í undirgöng en komið til baka innan tíðar. Hann kom svo hlaupandi aftur enn eina ferðina með töskuna í fórum sínum og hvarf þá inn í undirgöngin þar sem þeir mættust fyrst.

    Þetta þótti vitninu að vonum undarleg hegðun. Hann hafði tekið nokkuð vel eftir manninum og taldi sig geta þekkt hann aftur af ljósmynd. Maðurinn hafði verið stæltur og velbyggður, lægri vexti en hann sjálfur en hann sagðist vera 186 sentimetrar á hæð. Honum virtist maðurinn vera með einhvers konar blett á annarri kinninni. Hann var sem fyrr segir klæddur bláum, illa förnum kuldagalla, öllum í málningarslettum og með áberandi áletrun þar sem stóð hvítum stöfum EIMSKIP þvert yfir bakið.

    Vitnið sagðist hafa haldið áfram göngu sinni suður Ljósvallagötu og svo áfram suður Birkimel. Þá sagðist hann aftur hafa séð til ferða manns sem hann taldi vera þennan sama og var hann þá staddur á Víðimel, sunnan við Hringbraut. Þar hafi hann horfið skömmu síðar.

    Þegar þetta gerðist hafði vitnið ekkert heyrt um ránið enda ekki von þar sem þetta atvik gerðist örfáum mínútum eftir að það var framið.

    Vitni þetta fletti að kvöldi 27. febrúar ljósmyndum úr myndasafni Rannsóknarlögreglu ríkisins í þeim tilgangi að bera kennsl á manninn en sú skoðun bar ekki árangur. Á síðari stigum rannsóknarinnar fór hann í fylgd lögreglumanna þessa gönguleið og benti nánar á þá staði þar sem atburðirnir höfðu gerst.

    Þann 28. febrúar fóru tveir rannsóknarlögreglumenn að heimili roskinna hjóna við Víðimel. Maðurinn, sem þar bjó, hafði haft símasamband við lögregluna og skýrt frá undarlegum mannaferðum framan við heimili sitt að morgni 27. febrúar.

    Vitnið sagðist hafa staðið við stofugluggann á heimili sínu er hann veitti athygli bifreið sem ekið var eftir götunni. Hann sagðist hafa veitt þessu sérstaka athygli þar sem hann taldi að ökumaðurinn ætlaði sér að leggja fyrir framan innkeyrsluna að húsinu hans. Hann og kona hans voru á leið í ökuferð og maðurinn hafði engan hug á að láta loka sig af inni í innkeyrslunni. Hann stóð því við stofugluggann og fylgdist með því sem gerðist.

    Maðurinn sagði að bifreiðinni hefði verið lagt í stæði framan við næsta hús við hliðina. Skömmu seinna hefði komið þar að önnur bifreið sem í voru tveir menn. Hann sagðist hafa séð mennina bera tösku og skó á milli bifreiðanna tveggja.

    Bæði hjónin voru viss um að fyrri bifreiðin væri skutbifreið og taldi konan að hún hefði verið fölgræn að lit. Fáar nýjar bifreiðar væru þannig á litinn þannig að þessi hlyti að vera komin nokkuð til ára sinna.

    Maðurinn var nokkuð viss um að bifreiðin hefði verið af gerðinni Ford Taunus.

    Á Víðimel, við heimili hjónanna, fundust tvö reiðhjól sem enginn í nágrenninu kannaðist við. Hjólin voru talin tengjast ræningjunum og voru tekin til ítarlegar rannsóknar hjá tæknideild rannsóknarlögreglunnar en ekki tókst að rekja þau til ræningjanna eða tengja þau málinu frekar.

    Upplýsingunum varðandi flóttaleiðina frá Ásvallagötu og reiðhjólafundinn var ekki komið á framfæri við fjölmiðla. Þessi atriði voru því einungis á fárra vitorði og var það þannig áfram þar sem þetta var einungis ein fjölmargra vísbendinga sem lögreglunni bárust á þessum tíma og var alls ekki hægt að tengja hana með óyggjandi hætti við ræningjana.

    Ekki var um það að ræða að þessum upplýsingum væri haldið frá fjölmiðlum, heldur hitt að fjöldi áhugaverðra vísbendinga barst vikurnar eftir að ránið var framið og starfsmenn rannsóknarlögreglunnar voru uppteknir við að vinna úr þeim öllum.

    Nokkrir menn voru handteknir á næstu vikum í tengslum við rannsókn málsins en um þann þátt verður ekki fjallað hér þar sem þeir reyndust ekki tengjast málinu eins og talið var.

    Engar vísbendinganna, sem lögreglunni bárust á þessum tíma, leiddu til þess að málið upplýstist. Smám saman minnkaði athygli fjölmiðlanna og önnur mál urðu fréttnæmari. Annað slagið bárust þó vísbendingar en sumar þeirra áttu sér rót í persónulegri óvild manna á milli og voru ekki marktækar.

    Í undirheimum Reykjavíkur áttu ýmsir það til að eigna sér glæpinn og koma af stað sögusögnum um þetta og hitt sem sagt var tengjast málinu. Þessar sögur bárust reglulega til eyrna lögreglumanna og voru kannaðar svo sem efni stóðu til.

    Skeljungsránið hafði fengið á sig þjóðsagnakenndan blæ en eftir því sem tíminn leið minnkuðu óneitanlega líkurnar á því að það upplýstist.

    Seinni hluti

    Áhugaverðar vísbendingar

    Haustið 2002 bárust áhugaverðar vísbendingar um Skeljungsránið sem leiddu til þess að rykið var dustað af pappakössunum sem innihéldu málsgögnin og málið var tekið til rannsóknar á ný.

    Því er ekki að neita að ekki gætti nema hóflegrar bjartsýni um að lausn málsins væri í sjónmáli þegar tölvupóstur frá lögreglumanni á Norðurlandi barst auðgunarbrotadeild lögreglunnar í Reykjavík, þess efnis að kona hefði haft samband og skýrt svo frá að hún þekkti til eins ræningjanna, hefði reyndar verið gift honum í eina tíð og ætti með honum þrjú börn.

    Þetta var ekki í fyrsta skipti sem fyrrum eiginkona hafði haft grunsemdir um aðild fyrrum maka síns að þessu máli. Þær vísbendingar höfðu ekki leitt til neins og hvers vegna skyldi þá þessi vísbending gera það, nú þegar tæp átta ár voru liðin frá því ránið var framið?

    Rannsóknarlögreglumenn þekkja manna best hve erfitt það getur reynst að fá fram skýra frásögn og nýtilegan vitnisburð, jafnvel í mjög nýlegum málum. Minni fólks er misgott eða slæmt og eftirtektarsemin einnig.

    Við rannsókn þessa máls átti aftur á móti eftir að koma í ljós, oftar en ekki, að þeir sem rætt var við mundu ótrúlega vel eftir málsatvikum, þrátt fyrir að langt væri um liðið. Sennilega hefur sérstaða þessa máls á sínum tíma, svo og mikil umfjöllun og almenn umræða átt sinn þátt í að gera það svona eftirminnilegt.

    Ekki verður hjá því komist í þessari frásögn að nefna lítillega bankarán sem framið var um miðjan desember 1995 í útibúi Búnaðarbankans við Vesturgötu í Reykjavík. Ránið frömdu í það minnsta þrír grímuklæddir menn, vopnaðir haglabyssu. Þeir gengu fram af mikilli ákveðni og notuðu skotvopnið til þess að leggja áherslu á alvöru málsins, án þess þó að hleypa af skoti.

    Í ljós kom að ræningjarnir höfðu komið á staðinn á stolinni bifreið, með stolnum númeraplötum eins og gerst hafði í ráninu í Lækjargötu fyrr á árinu. Stolnu bifreiðina skildu þeir eftir skammt frá staðnum við Ásvallagötu þar sem flóttabifreiðin hafði verið skilin eftir í fyrra skipið.

    Margt þótti líkt með málunum tveimur en tekið skal fram að mjög ítarlega hafði verið fjallað um Skeljungsránið í öllum fjölmiðlum, þannig að hver og einn hefði getað skipulagt síðara ránið með hliðsjón af hinu fyrra. Samt sem áður voru þessi tvö mál oftast nefnd í sömu andránni og almennt talið að þau hefðu verið framin af sömu aðilum.

    Þessi tvö mál voru því bæði tekin til rannsóknar á ný eftir að upplýsingarnar bárust að norðan.

    Hinn fullkomni glæpur?

    Konan, sem hafði haft samband við lögregluna og skýrt frá aðild fyrrum eiginmanns síns, gerði það skömmu eftir að sýndur var í sjónvarpinu þáttur sem bar nafnið ,,Hinn fullkomni glæpur."

    Þátturinn var hluti af íslenskri sakamálaþáttaröð og fjallaði á nokkuð dramatískan hátt um ránin tvö sem framin voru á árinu 1995, Skeljungsránið og Búnaðarbankaránið. Bæði voru óupplýst og í sjónvarpsþættinum var skýrt frá málavöxtum, vikið nokkuð að rannsókn málsins, auk þess sem rætt var við nokkra aðila sem tengdust málunum með einum eða öðrum hætti.

    Sýning þessa sjónvarpsþáttar varð til þess að konan skýrði sambýlismanni sínum frá því að fyrrum eiginmaður hennar hefði átt aðild að Skeljungsráninu. Saman ákváðu þau að að hún hefði samband við lögregluna sem hún og gerði. Viðræður hennar við áhugasaman lögreglumann leiddu til þess að hann sendi tölvupóst til auðgunarbrotadeildar Lögreglunnar í Reykjavík þar sem hann kom þessum upplýsingum á framfæri.

    Lögreglufulltrúi í auðgunarbrotadeildinni hafði á sínum tíma unnið að rannsókn ránanna tveggja er hann var rannsóknarlögreglumaður hjá RLR. Hann þekkti því vel til málsins og þeirrar rannsóknar sem farið hafði fram á fyrri stigum þess. Það sama var einnig að segja um yfirlögregluþjón rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík. Hann hafði verið yfirlögregluþjónn hjá RLR þegar málið var þar til rannsóknar. Þessir tveir menn voru því gjörkunnugir málinu og sáu þegar í stað ýmislegt athyglisvert í frásögn konunnar.

    Áhugi manna var vakinn en ljóst var að þessar viðræður konunnar við lögreglumanninn dugðu ekki til þess að koma málinu á skrið, þar þyrfti að koma til undirrituð framburðarskýrsla hennar. Hún hafði í fyrstu ekki viljað að nafn hennar yrði bendlað við málið með formlegri skýrslutöku. Þessu var komið á framfæri við lögreglumanninn sem hafði rætt við konuna en öllum til mikillar undrunar féllst hún á að gefa skýrslu. Hún sagði að vitneskja hennar um Skeljungsránið hefði legið á henni eins og mara í gegnum tíðina og nú væri tímabært að létta á samvisku sinni.

    Konan gaf svo ítarlega og greinargóða skýrslu hjá lögreglunni í heimabæ sínum. Þar komu fram ýmis atriði sem höfðu verið nefnd í tölvupósti lögreglumannsins og sérstaklega höfðu vakið athygli þeirra sem unnið höfðu að rannsókn málsins á fyrri stigum þess, nefnilega frásögnin af notkun reiðhjólanna á flótta ræningjanna. Þessar upplýsingar höfðu hvergi komið fram áður í opinberri umfjöllun svo vitað væri.

    Hinn þýðingarmikli vitnisburður

    Þann 1. mars 2003 gaf konan skýrsluna sem skipti sköpum í rannsókn þessa máls. Hún skýrði frá því að á þeim tíma sem ránið var framið, þann 27. febrúar 1995, hefði hún verið búsett í Reykjavík og þá skilin við eiginmann sinn og barnsföður. Hann hefði verið búsettur vestur á fjörðum og hafi samband þeirra á milli verið lítið og stopult.

    Konan sagði að daginn sem ránið var framið eða í það minnsta áður en hún hafði af því spurnir, hefði þessi fyrrum eiginmaður hennar haft símasamband við hana og beðið hana um að koma og hitta sig á heimili systur hans sem búsett var í Hafnarfirði. Konan sagðist hafa átt erfitt með að hitta hann vegna þess að hún var bíllaus en hann hafði beðið hana að taka leigubíl, hann myndi borga bílinn, hann þyrfti nauðsynlega að hitta hana. Konan sagði að honum hefði verið mikið niðri fyrir og auðheyrilega var hann í miklu uppnámi.

    Konan kvaðst hafa ákveðið að fara til fundar við þennan fyrrum eiginmann sinn og hitti hún hann skömmu seinna á heimili systur hans eins og hann hafði stungið upp á. Þau fengu sér kaffisopa og ræddu stuttlega saman áður en maðurinn sagði henni að hann hefði gert svolítið ,,svakalegt".

    Hún sagðist hafa tekið þessu fálega þar sem hún hefði verið ýmsu vön þegar hann ætti í hlut, en hún hefði þó spurt hann hvað hann hefði nú gert af sér.

    Hann spurði hana á móti hvort hún hefði ekki heyrt fréttir af ráninu og hváði hún við, enda hafi hún ekki verið búin að heyra neinar fréttir af einhverju ráni.

    Hann sagði henni frá því að hann, ásamt tveimur mönnum, sem hann tilgreindi ekki nánar, hefði framið rán í miðborg Reykjavíkur. Þeir hefðu lengi verið búnir að undirbúa verknaðinn sem hann lýsti síðan fyrir henni svo og ránsstaðnum og hvernig þeir hefðu farið þangað á stolnum bíl með stolnum númeraplötum. Þeir hefðu beðið, grímuklæddir, eftir stelpunum sem voru að koma í bankann með innkomuna frá Skeljungi og þegar þær komu hefðu þeir ráðist á þær. Hann hefði gripið með sér slökkvitæki sem hann hefði ætlað sér að sprauta úr ef stelpurnar yrðu með læti. Hann hefði panikerað og slegið aðra stelpuna í höfuðið með slökkvitækinu.

    Konan sagði að maðurinn hefði verið miður sín yfir því að hafa slegið stelpuna með slökkvitækinu, það hefði ekki verið ætlun hans að meiða hana.

    Mennirnir þrír hefðu hrifsað peningatöskurnar af stelpunum og forðað sér á stolna bílnum sem þeir hefðu síðan skilið eftir í einhverri götu skammt frá ránsstaðnum. Þar hefðu mennirnir tekið hver sitt reiðhjólið og hjólað burt, að einhverjum bíl sem þeir höfðu áður skilið þar eftir.

    Maðurinn sagði henni svo frá því að þeir hefðu farið upp í Hvalfjörð þar sem þeir brenndu greiðslunótur, fötin og peningatöskurnar.

    Þegar þarna var komið í frásögn mannsins sagðist konan hafa haft á orði að hún tryði honum ekki. Hann hefði þó oft, á meðan þau bjuggu saman, verið að skipuleggja og velta fyrir sér að fremja rán en hún hefði aldrei tekið hann alvarlega á þeim tíma.

    Maðurinn sótti þá svartan, samanvafinn ruslapoka sem hann sýndi konunni. Ofan í honum var hvítur poki sem innihélt mörg seðlabúnt, vafin teygjum. Hún hefði séð þarna bæði 500, 1.000 og 5.000 krónu seðla í búntum og þá hafi hún loksins trúað honum.

    Hann hefði þessu næst beðið hana um að geyma fyrir sig peningana. Hún hefði orðið reið og sagt honum að það kæmi ekki til greina og við svo búið hefði hún farið.

    Konan tók fram í skýrslunni að maðurinn hefði nokkrum sinnum á næstu dögum haft símasamband við hana.

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1