Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

DAGNÝ
DAGNÝ
DAGNÝ
Ebook237 pages3 hours

DAGNÝ

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Óður morðingi gengur laus, en enginn hefur áttað sig á því enn.
Lögreglumaðurinn Ólafur er ekki að rannsaka málið. Hann er heldur ekki þunglyndur, ekki ennþá í það minnsta. Vinnufélagar hans eru að vinna í því. Og þeim fer hratt fjölgandi vegna þess að fólkið biður um það.
Dagný er á yfirborðinu nauða-ómerkileg skrifstofublók sem vinnur hjá tilgangslausri ríkisstofnun sem er bara til vegna þess að það varð aldrei neitt hrun árið 2008. Það þarf að koma öllu þessu auka-skattfé í lóg einhvernvegin.

LanguageÍslenska
Release dateMay 1, 2022
ISBN9798201397807
DAGNÝ

Read more from ásgrímur Hartmannsson

Related to DAGNÝ

Related ebooks

Related categories

Reviews for DAGNÝ

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    DAGNÝ - Ásgrímur Hartmannsson

    1.

    MORÐINGINN ÓK JEPPANUM sínum eftir hlykkjóttum sveitaveginum.  Hann var á leið heim með fjölskilduna úr sumarbústað.  Konan svaf rótt í framsætinu með kaffibrúsa í fanginu, og bæði börnin sátu í aftursætinu og dreymdi litríka og skemmtilega drauma.

    Hann þurfti aldrei að mylja nema tvær til þrjár töflur af Imovane út í mjólkina þeirra áður en þau lögðu af stað, og fjölskyldan amaðist ekkert við honum alla leið í bæinn, sama hvað gekk á.

    Morðinginn slakaði á.  Meðan fjölskyldan var sofandi gat hann látið hugann reika, talið rollur og hlustað á ríkisútvarpið.  Hann geispaði, og varð þá litið í baksýnisspegilinn.  Það var einhver að nálgast hann aftan frá; maður á mótorhjóli.  Morðinginn lyfti augabrún.  Sjálfur var hann á um það bil löglegum hraða með krúskontrólið á, svo ekki gat verið að mótorhjólamaðurinn væri að fara að lögum.  Það var jafn-góð afsökun og hvað annað, ekki það að hann þyrfti afsökun.

    Ekki leið á löngu þar til mótorhjólið var komið upp að honum og virtist ætla frammúr.  Morðinginn sveigði rólega yfir á hinn vegarhelminginn, og passaði eins og hann gat að það liti ekki út fyrir að vera viljandi.  Mótorhjólamaðurinn hætti við að taka frammúr.

    Morðinginn brosti með sjálfum sér.  Þetta hafði heppnast fullkomlega.  Mótorhjólamanninn grunaði ekkert.  En nú var langur beinn kafli framundan.  Morðinginn dæsti.  Hann gat heyrt þegar mótorhjólamaðurinn gaf inn.  Hann yppti öxlum.  Svona varð þetta þá að vera, hugsaði hann með sér og beygði í veg fyrir manninn.  Mótorhjólið lenti á bílnum og féll við það á hliðina.  Maðurinn flaug af hjólinu og rúllaði langt útaf veginum.

    Konan rumskaði.  Morðinginn leit á hana.  Hún bylti sér, en hélt áfram að sofa.  Morðinginn stöðvaði bílinn úti í vegkanti og steig út.  Hann lét vélina malla.  Heimurinn yrði bara að taka þessu svifryki sem myndaðist við það á meðan.  Hann skimaði í kringum sig eftir umferð.  Það var bíll í fjarska, sá hann, og áætlaði að það væru fimm mínútur í hann.

    Mótorhjólamaðurinn lá kjur úti í móa.  Morðinginn opnaði afturhlerann, og náði í felgujárnið.  Bara til öryggis.  Svo gekk hann hröðum skrefum að manninum.  Maðurinn virtist ekki alveg dauður, en það var erfitt að sjá það fyrir hjálminum.  Morðinginn nam staðar þegar hann var kominn alveg að skrokknum, og skoðaði hann nánar.  Hann leit líka á bílinn sem hann hafði séð í fjarska.  Það voru örugglega fjórar mínútur í hann enn.  Eða þrjár.  Hann var ekki viss.

    Mótorhjólamaðurinn hreyfði sig.  Morðinginn sá það.  Hann mundaði felgujárnið, sparkaði í manninn til að velta honum á magann, steig á hjálminn til að færa hann ofar á höfuðið og barði hann svo bylmingsfast í hnakkann með felgujárninu.  Að því búnu hraðaði hann sér í bílinn aftur, henti felgujárninu undir sætið, og ók af stað um leið og hann setti á sig beltið. 

    Hann var kominn á góðan skrið þegar hann mætti bílnum.  Þá var bara að bíða eftir fréttunum.

    DAGNÝ VAR HÁVAXIN, grönn, og bar sig tígullega.  Hún gekk oftast mjög hægt, því þó hún bæri sig vel, þá var hún augljóslega hölt, sem kom síður fram ef hún gekk hægt.  Hún var líka lengi að setjast og standa upp sökum krónískra verkja sem hún þjáðist af.  Allar hennar hreyfingar og þær stellingar sem hún setti sig í voru af þessum sökum mjög meðvitaðar.  Það hamlaði henni þó lítið í starfi.

    Úr fjarska leit hún ágætlega út, var með sítt skollitað hár, og grunsamlega hvíta húð.  Hún var með áberandi mjórri mjaðmir en herðar, og var nær alltaf í hnipri til að fela það.  Hún gekk alltaf í eins fötum: grænu pilsi sem náði rétt niður að hnjám, þykkum svörtum sokkabuxum, hvítri rúllukragapeysu, grænum jakka, hönskum sem náðu alla leið upp fyrir olnboga og þægilegum hvítum strigaskóm.  Um hálsinn hafi hún þórshamar hangandi á gylltri keðju, og þar yfir lét hún gleraugun sín oftast hanga, í svörtu bandi.  Þau bar hún einungis á nefinu ef hún þurfti að lesa eitthvað, og þegar hún ók.  Stundum bar hún slæðu um hálsinn.

    Þegar nær var komið sást að hún var aðeins of mikið förðuð.  Svo mjög að hún minnti helst á postulínsdúkku, eða kabúkí-leikara.  Reyndar sást hvergi í bert hold á henni, hvort sem var fyrir klæðum eða farða, nema augun.  Þau voru lítillega blóðhlaupin, og mátti sjá votta fyrir gulri slikju á þeim stundum.  Hárið huldi alltaf eyrun á henni, svo ekki varð séð hvort hún bar eyrnalokka.

    Sjaldan sást hún bregða svip, og aldrei hafði nokkur heyrt hana tala.  Sem gerði það að verkum að hún minnti ennþá meira á postulínsdúkku.  Þeir sem þekktu hana vissu sem var að hún var mállaus, sumir höfðu séð glitta í ör á hálsinum á henni eftir atvikin sem því ollu, en ástæðan fyrir svipleysinu héldu flestir að væri vegna þess að hætt væri við að farðinn molnaði af andlitinu á henni ef hún til dæmis brosti.

    Dagný hafði komist í vinnu sem einkaritari jafnréttisráðherra.  Þar vann hún við að standa með möppu í fanginu og líta virðulega út.  Stundum þurfti hún að vélrita eitthvað.  En það var ekkert mál.  Þetta var algjört sýndar-ráðuneyti.  Enginn las nokkurn tíma það sem Dagný skrifaði, og hún hefði þess vegna getað skrifað og sent dónalega brandara án þess að nokkur hefði orðið var við það.

    En hún gerði það ekki.  Hún sat við tölvuna og njósnaði um alþýðuna í staðinn.  Komst að því hver átti barn með hverjum, hvernig bíla fólk átti; hvað það átti, hvað það skuldaði og hvar það bjó.  Þarna var meira að segja hægt að komast að því hvort fólk var í landinu eða ekki.

    Á tveggja tíma fresti tók hún töfluna sína.  Ef aðrir sáu til hennar brosti hún og bauð þeim brjóstsykur.

    Dagný staulaðist frá tölvunni.  Hún tók möppuna sína, og kom henni fyrir í fanginu.  Það tók smá stund, því brjóstin þvældust eitthvað fyrir henni.  Það var áliðið, og enginn sá til, svo hún haltraði af stað út.  Þegar út var komið hægði hún á sér.  Engin ástæða til að vera hölt þegar einhver gæti séð til.

    Hún læddist að bílnum sínum, hvítum Ford F-250 extra cab, og seildist í vasann eftir lyklunum.  Henni flaug í hug að hún ætti kannski að vera með tösku undir þetta, en leist illa á hugmyndina að venju.  Það að vera með tösku væri náttúrlega bara aðferð til að týna öllu samtímis.

    Hún fann lyklana til og opnaði bílinn.  Því næst klifraði hún inn og kom sér vel fyrir.  Mappan fór í farþegasætið.  Öryggisbeltið var spennt.  Svo ræsti hún vélina.  Bíllinn fór af stað með miklum díesel-drunum, og skildi eftir sig voldugan svartan mökk.

    ÞAÐ VAR VERIÐ AÐ LEGGJA síðustu hönd á frágang við endurbætur á lögreglustöðinni á Selfossi.  Það átti bara eftir að klára skiltið.  Þetta var ljósaskilti, sem átti að gera lýðum ljóst hvaða bygging þetta væri á tveimur tungumálum.  Bæði á því ástkæra ylhýra, og engilsaxnesku.

    Þegar Ólafur kom í vinnuna var verið að setja upp péið í seinna orðinu.  Hann nennti ekki að fylgjast með því, heldur gekk beint inn.  Þar var ekkert á seyði.  Hann tók af sér húfuna, hengdi jakkann á snaga og fór aftur að róta í gömlum málum þar til einhver þyrfti á honum að halda.

    Hann fékk að vera í friði í tíu mínútur.  Þá gægðist Leó inn, og sagði að kaffið væri tilbúið.  Ólafur lagði skjölin frá sér og fór að fá sér kaffi.  Þegar hann kom inn á kaffistofu voru þar fyrir bæði Leó og Snorri, og auk þeirra tveir menn sem hann hafði aldrei séð áður, í fullum skrúða.  Leó brosti, og sagði:

    „Ólafur, þetta eru nýju mennirnir."

    „Hvaða nýju menn?" spurði Ólafur.

    „Bara nýju mennirnir.  Þú veist að það er verið að fjölga í liðinu," sagði Leó.

    „Alveg rétt," sagði Ólafur.

    „Það er ágætt að þú kynnist þeim svona áður en þú ferð," sagði Leó.

    Ólafur dæsti.

    „Þetta er Páll og þetta er Einar," sagði Leó.

    Ólafur heilsaði mönnunum.

    „Ykkur mun vonandi ekki leiðast of mikið hérna," sagði hann við þá.

    „Þeim mun ekkert leiðast, það eru að koma tveir aðrir eftir viku, þeir geta talað við þá.  Svo eru fjórir væntanlegir til viðbótar innan tveggja mánaða," sagði Snorri.

    „Sex í viðbót? sagði Ólafur, „við höfum ekkert að gera fyrir svo marga menn.  Við höfum varla nokkuð að gera sjálfir.  Hvað eru þeir að hugsa?

    „Æi, þú veist, aukið ofbeldi í miðbænum..." sagði Snorri.

    „Miðbæ Reykjavíkur já, hvað kemur það okkur við?" spurði Ólafur.

    „Það var nú eiginlega ekkert að gerast í Reykjavík," sagði Einar.

    „Jæja?" sagði Ólafur.

    „Já, svo er búið að fjölga þar svo mikið, þrefalda liðið síðan í fyrra, sagði Einar, „svo ég held þeir eigi nú að ráða við þetta.

    „Komuði á bíl?" spurði Ólafur.

    „Auðvitað.  Við komum á tveimur bílum, sagði Einar, „Volvo.

    „Gott, ég held nefnilega að jeppinn sé að gefa sig."

    Þeir sötruðu kaffi.

    „Hvernig lýst ykkur svo á stöðina?" spurði Ólafur.

    „Bara ágætlega, sagði Páll, „Kaffistofan hér er stærri en í borginni.

    „Já, við máttum ráða þessu alveg.  Það er verið að fjölga svo í liðinu, en það er minna og minna að gera, svo við létum gera kaffistofuna extra stóra," sagði Snorri.

    „Já, ég held þeir ætli að hafa nýju stöðina í bænum þannig líka," sagði Einar.

    Hinir kinkuðu kolli.  Nýju mennirnir glottu bara.  Þeir drukku saman meira kaffi og spjölluðu þangað til þeir heyrðu bíl fara í gang og aka á brott.

    „Þarna eru þeir að fara, sagði Leó, „Þá hljóta þeir að vera búnir.  Förum út og lítum á þetta.

    Þeir gengu allir á dyr með kaffibollana með sér til að sjá hvernig nýja skiltið hefði heppnast.  Á planinu mættu þeir sjálfum lögreglustjóranum þar sem hann var að renna í hlað á nýja Patról jeppanum sínum.  Hann steig út úr bílnum og leit á lögreglustöðina, hæst ánægður.  Og hann ávarpaði menn sína:

    „Svona á þetta að vera drengir!  Nú erum við alþjóðleg deild!"  Og hann benti á merkinguna á lögreglustöðinni.

    Mennirnir horfðu á ljósaskiltið, og glottu sumir, aðrir hölluðu undir flatt.  Snorri var fyrstur til að tjá sig:

    „Ég er ekki viss um að þeir hafi haft þjóðina alveg á hreinu."

    „Hvað meinarðu?" spurði lögreglustjórinn.

    Snorri benti bara á skiltið.  Þar stóð stórum, glóandi stöfum: „Lögregla, og undir því, á ensku: „Polish.

    2.

    MORÐINGINN SAT OG SÖTRAÐI kaffi með vinnufélögunum og hlustaði á Gufuna með öðru eyranu.  Eftir svona korter þyrftu þau að fara og taka til eftir hádegismatinn á elliheimilinu.  Venjulega hjálpaði hann vistmönnum að færa sig um set ef þeir vildu það.  Sumir vildu bara sitja kjurir við borðið eftir mat.  Tveir kallar tóku í spil eftir matinn, stundum fleiri, og sátu við það oft klukkutímum saman.  Aðrir bara sátu og horfðu út í loftið.

    Sumir gamlingjarnir settust annarstaðar og röbbuðu saman.  Gamla fólkið heyrir ekkert í hvort öðru, né talar það mjög hátt, en það sækist heldur ekkert eftir að skilja hvort annað, heldur er það félagsskapurinn sem skiptir það máli.

    Morðinginn beið rólegur þegar hádegisverði lauk.  Þetta tók alltaf lengri tíma en yfirstjórnin gerði ráð fyrir.  Hann gat náð fyrstu tíu mínútunum af fréttunum.

    Það var ekkert mikilvægt í fréttum, svo fréttamenn gátu velt sér uppúr atburðum í Afríku sem skipta venjulega íslendinga engu máli.  En að lokum kom fréttin sem hann var að bíða eftir, hún byrjaði á „Enn eitt banaslys varð..."

    Morðinginn sperrti eyrun: „Karlmaður á fertugsaldri lést eftir að bifhjól hans fór út af veginum við..."

    Morðinginn hallaði sér aftur í stólnum og brosti.  Hann kláraði úr bollanum og fór að hjálpa til við hreingerningar.

    DAGNÝ KOM HEIM.  HÚN lagði trukknum sínum í stæðið fyrir fatlaða, og setti merkið sitt í gluggann. Svo hoppaði hún út úr bílnum, læsti honum, og haltraði inn.

    Heimilið lyktaði af pizzu.

    Maja leit við, lækkaði í sjónvarpinu og brosti til Dagnýjar þegar hún sá hana.

    „Hæ!  Ég pantaði pizzu, komdu inn og fáðu þér," kallaði hún til hennar.

    Dagný lagði frá sér möppuna sína og stakk lyklunum í vasann.  Svo fór hún í rólegheitunum úr jakkanum og hengdi hann á snagann áður en hún rölti inn í stofu eins virðulega og hún gat.  Hún brosti til Maju áður en hún fékk sér sæti.

    Maja stóð upp og hljóp inn í eldhús.  Hún kom til baka skömmu seinna með hníf og gaffal, og rétti Dagnýju.  Dagný tók við þeim, nældi sér í sneið af pizzunni og hófst handa við að hluta hana í litlar einingar áður en hún borðaði þær.  Maja hélt bara á sneiðinni sinni og stakk henni uppí sig.

    Þegar þær höfðu snætt nægju sína horfðu þær á sjónvarpið litla stund, og sötruðu gos.  Þegar fréttirnar voru að klárast spurði Maja:

    „Eigum við að gera eitthvað í kvöld?"

    Dagný kinkaði kolli.  Hún benti út um gluggann.  Maja kinkaði kolli á móti.  Svo stóð hún upp og hljóp úr stofunni og inn í herbergi:

    „Já, ég get verið tilbúin eftir korter," sagði hún.  Dagný slappaði af, fékk sér sopa af kóki og lét þreytuna leka úr sér á meðan.  Þegar Maja birtist aftur var hún lítillega betur klædd og greidd en áður.

    „Ég er til," sagði hún.  Dagný stóð upp, og rölti inn á salerni.

    „Ó..." sagði Maja, og elti hana.

    Tuttugu mínútum síðar komu þær út aftur.

    „Ég er eiginlega ekki í stuði lengur," sagði Maja.

    Dagný bara glotti, og togaði í hana.

    „Nei," sagði Maja.

    „Komdu út í smá bíltúr," hvíslaði Dagný.

    Maja hváði.  Dagný hristi hausinn og náði í möppuna sína.  Þar fann hún til blað og penna, og skrifaði nokkur orð til Maju.  Maja las orðsendinguna, og kinkaði kolli.

    „Svo þú ætlaðir ekki... ég skil."

    Og að svo búnu fóru þær út.  Maja hjálpaði Dagnýju að komast upp í fjallatrukkinn sinn.

    „Af hverju fékkstu þér bíl sem er svona erfitt að komast uppí?" spurði Maja þegar hún hélt undir fótinn á Dagnýju.  Dagný gat ekkert svarað því, bara brosti til hennar þegar hún var búin að koma sér fyrir í bílnum.  Maja átti léttara með að hoppa upp í bílinn.  Dagný hrærði í hárinu á henni með hendinni þegar hún var komin inn.

    „Viltu hætta þessu?"

    Dagný brosti og setti bílinn í gang.  Hún fjarlægði skiltið úr glugganum og rétti Maju það.  Hún setti það í hanskahólfið.

    „Um hvern erum við að fara að njósna núna?" spurði Maja.

    Dagný yppti öxlum.

    „Af hverju er ég að spyrja?  Þú ert ekki einu sinni með barka."

    Þau keyrðu upp fyrir snjólínu í Grafarholtið, framhjá öllum gráu kössunum sem þar eru.  Þar ók Dagný fram og aftur um stund, leitandi að einhverju.  Loksins sá hún það sem hún leitaði að, og nam staðar.  Hún beið, og starði út um gluggann.

    „Hvað er svona merkilegt við þetta hús? spurði Maja.  „Ég meina, það er grátt og ljótt, alveg eins og öll hin.

    Dagný leit á hana, svo aftur á húsið.  Virti það fyrir sér, líkt og það væri heimsins undur.

    „Hver býr hérna?  Gamall kærasti?  Kærasta?" spurði Maja, að verða pirruð.

    Dagný sneri sér að henni, og byrjaði að stara á hana.  Svo setti hún bílinn í bakkgír og bakkaði af bílastæðinu.

    Á næstu ljósum losaði Maja beltið og renndi sér yfir til Dagnýjar.

    „Eigum við ekki að fara niðri í bæ?"

    Dagný kinkaði kolli.

    ÓLAFUR LÁ YFIR GÖMLU skýrzlunum eins og svo oft áður.  Hann var búinn að flokka þær í nokkra mismunandi bunka, eftir efni og innihaldi.  Stærsti flokkurinn var óspektir og ölvun, og rétt á eftir komu umferðarlagabrot.

    Ólafur hafði verið nógu lengi í starfi til að muna þá tíð þegar flest umferðarlagabrot voru smámál.  Núorðið voru þetta allt stórglæpir sem gátu sett menn á hausinn.  Miklu alvarlegri mál en barnaníð, til dæmis, eða líkamsárás.

    Ólafur var reyndar enn inná því að umferðarlagabrot væru smámál, og

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1