Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Á vængjum morgunroðans
Á vængjum morgunroðans
Á vængjum morgunroðans
Ebook315 pages5 hours

Á vængjum morgunroðans

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Iris Deane er ung og ævintýragjörn kona sem lendir í skipbroti á ferðalagi sínu um Suður-Kínahaf. Sem betur fer er henni bjargað af sjómanninum Robert Jenkins, sem er þó ekki allur þar sem hann er séður. Saman reyna þau að lifa af á eyðieyju með litlar vistir, þar sem þau lenda í fjölda ævintýra. En ástin er alltaf handan við hornið ...Bókin naut mikilla vinsælda á Íslandi áður fyrr sem hluti af Sögusafni heimilanna.Persónurnar og notkun á tungumáli í verkinu endurspegla ekki skoðanir útgefandans. Verkið er gefið út sem sögulegt skjal sem inniheldur lýsingar á tíðaranda og skynjun manna sem tíðkaðist á tímum skrifanna.Serían samanstendur af eldri sögum sem eiga það sameiginlegt að hafa verið eftirsóttar til lengri tíma í flokki rómantískra bókmennta. Bækurnar henta einstaklega vel þegar þú vilt gleyma þér í rómantík og ævintýrum gamla tímans.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateJan 4, 2023
ISBN9788728128053

Related to Á vængjum morgunroðans

Titles in the series (4)

View More

Related ebooks

Related categories

Reviews for Á vængjum morgunroðans

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Á vængjum morgunroðans - Louis Tracy

    Á vængjum morgunroðans

    Translated by Jón Leví

    Original title: The wings of the morning

    Original language: English

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1903, 2022 Louis Tracy and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728128053

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    „Þótt ég lyfti mér á vængi morgunrodans og settist við hið ysta haf, einnig þar myndi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér." (Sálm. 139, 9—10).

    I

    Lafði Toser setti upp einbeittlegan fyrirmannssvip og lagði frá sér gullbúin gleraugu. Hún hafði of lengi átt heima í austurlöndum; hún var nefnd „Mandarin" í Hong Kong, en því nafni nefnast kínverskir höfðingjar. Hún var spurul mjög og spurningar hennar voru svo nærgöngular að öllum stóð stuggur af. Skipherrann á stórskipinu Sirdar, á heimleið til Englands frá Shanghai, vissi vel á hverju hann átti von, er hann settist í forsæti við borðið í hinum stóra borðsal skipsins.

    „Er það satt, skipherra, að hvirfilbylur sé í aðsigi?" spurði frúin drembilega.

    „Hver sagði yður það, lafði Toser?" Skipherrann var forviða en gætti sín þó vel.

    „Ungfrú Deane sagði mér það. Mér skildist svo sem hún hefði þetta eftir yður."

    „Mér?"

    „Sögðuð þér það ekki? Einhver sagði mér þetta, að minnsta kosti fann ég ekki upp á því." Ungfrú Deane horfði bláum sakleysislegum augum til skipstjórans, en hið sanna kom aldrei fram í máli þessu. Herbergisþernan hennar hafði flutt henni fregnina, og þessi snotra og fjöruga mær veiddi öll leyndarmál á skipinu upp úr ungum undirstýrimanni.

    „Nú, ja, líklega. Ég var annars búinn að gleyma því," sagði skipherrann, sem var lipurmenni og kunni sig hið besta.

    „Er það þá satt?"

    Lafði Toser var óvenjulega stutt í spuna þennan dag. Henni þótti sér lítilsvirðing gerð er skipherrann sagði kornungri stúlku leyndarmál viðvíkjandi ferðalaginu, en lét konu fyrrverandi dómstjóra í Hong Kong sitja á hakanum.

    „Já, það er satt," svaraði Ross skipherra álíka stuttaralega og spurt var. Hann varð feginn því með sjálfum sér að þetta var í síðasta sinn sem dómstjórafrúin ferðaðist með skipinu.

    „Hver ósköpin!" sagði hún og auðsætt var að hræðsla hennar var engin uppgerð.

    Við hræðslukast þetta, sem greip um sig meðal kvenfólksins, rann sjómanninum þegar þykkjan.

    Sir John, bóndi hennar, gretti sig dómaralega. Öll lögspeki hans fólst í grettum þessum, en þær voru skildar sem djúpsett speki í réttinum í Hong Kong.

    „Hvaða sannanir hafið þér fyrir þessu?" spurði hann.

    „Lofið okkur að heyra, mælti Iris, og lét sem hún tæki ekkert eftir því, að hún tók fram í fyrir hinum spaka dómara. „Sáuð þér þetta þegar þér voruð að kíkja á sólina í gær?

    Skipherrann brosti. „Þér farið nær því rétta, en yður ef til vill grunar, ungfrú Deane, mælti hann. „Þegar við tókum sólarhæðina í gær, var ljótur rosabaugur um hana. Í morgun hafa komið margar vindhviður og sjór er tekinn að ýfast, loftþyngdarmælirinn fellur hratt og ég á von á mikilli undiröldu þegar á daginn líður. Verði loftið ljótt í kvöld, og einkum ef skuggalegan skýflóka dregur upp í norðvestri, þá megið þið búast við því að diskarnir fari á kreik á kvöldborðinu. Mig grunar að þér séuð ekki vel sjóhraust, lafði Toser. Hvernig líður yður á sjó, ungfrú Deane?

    „Ágætlega! Mig langar mjög til þess að lenda í stormi og stórsjó. Viljið þér gera svo vel að fylgja mér upp á stjórnpallinn þegar veðrið stendur sem hæst?"

    „Hamingjan góða! Ég vona að veðrið verði ekki mjög vont. Er ómögulegt að forðast þennan hvirfilbyl, skipherra? Stendur hann lengi yfir?"

    Skipstjórinn var vanur að sigla milli skers og báru og kaus því heldur að svara lafði Toser í þetta sinn.

    „Það er engin ástæða til að óttast," mælti hann. „Vitanlega eru hvirfilvindarnir í Kínahafinu engin lömb að leika sér við, en stórskipum eins og Sirdar er, verða þeir þó ekki að grandi. Svona skip rífa sig gegnum hvaða veður sem er á einu dægri eða svo. Þar að auki breyti ég stefnu skipsins þegar ég veit hve langt við erum frá miðbiki skýstróksins. Sjáið þér til, ungfrú Deane."

    Ross skipherra tók að teikna á matseðil og útskýra fyrir ungfrú Deane lögun og atferli hvirfilbyljar. Hún fann engan botn í útskýringum hans og torskildu orðum, svo sem norður- og suðurhvel, heimskautastefnu hvirfingarstraumanna í gufuhvolfinu, loftþrýsting og margt fleira að slíku tæi; hún gleymdi út frá þessu að endurnýja beðni sína um að fá að koma upp á stjórnpallinn, meðan veðrið var verst.

    Skipherrann stóð nú snögglega upp og hvarf farþegum það sem eftir var dagsins.

    En hinn vísindalegi fyrirlestur er hann hafði haldið hafði tvennar afleiðingar. Hann losnaði við að synja beiðni er hann átti bágt með að veita, og hughreysti lafði Toser. Þeir sem lítið þekkja til skipa og sjávar óttast mest það er þeir vita minnst um. Heyri þeir að mæla megi hraða storms og stefnu hans, hve lengi hann muni standa áður en hann skellur á, þá hættu þeir að óttast hann. Þeir sættu sig við hann, álíka og við síma, gufuskip, eða eitthvað af því tæi, sem að vísu er furðulegt, en öllum kunnugt af sjón og reynd.

    Frúin lét því samtalið um veðrið falla niður, eins og hvert annað ómerkilegt umtalsefni og leit fast til ungfrú Deane gegnum gleraugun.

    „Sir Arthur áformar að koma heim í júní, að því er mér skilst," sagði hún.

    Iris Deane var einkennilega hraust stúlka. Hún virtist eins og á stóð, hafa allan hugann á stórum banana sem hún var að borða, og kinkaði aðeins ofurlítið kolli til samþykkis.

    „Þér munuð ætla að búa hjá frændum yðar þangað til?" hélt lafði Toser áfram.

    Ungfrúin svaraði, en ekki alveg þóttalaust:

    „Frændum! Við eigum enga, að minnsta kosti enga sem við kærum okkur um að troða um tær. Ég ætla að dvelja einn eða tvo daga í borginni, til þess að heimsækja saumakonurnar, en fara síðan beint til Helmsdale, landseturs okkar í Yorkshire."

    „Þér hafið auðvitað lagskonu með yður?"

    „Lagskonu? Góða lafði Toser, finnst yður faðir minn líklegur til þess að láta gamla, digra og afskiptasama kerlingu lafa á hælum mér aðeins mér til armæðu?"

    Svarið var hálf ónotalegt að því leyti sem vikið var að vaxtarlaginu, en Iris var ekki vön því að láta spyrja sig í þaula. Þá þrjá mánuði sem hún var í Hong Kong hafði henni heppnast að sneiða hjá lafði Toser. Nú var það ekki hægt, og var sú gamla að reyna að vinna það upp. Hún gerði ráð fyrir að ungfrú Deane og hennar ástand yrði gott umræðuefni fyrir sig eftir á.

    Ungfrú Deane var á fyrsta árinu yfir tvítugt og einkadóttir auðugs baróns, sem átti heilan flota stórskipa, þar á meðal var Sirdar; hún hafði stjórnað heimili föður síns frá því að hún kom heim frá meginlandi Evrópu fyrir þremur árum, ung, fríð og auðug. Piltarnir mændu vonaraugum til hennar, en kvenfólkið horfði aftur á móti til hennar með nokkurri öfund.

    Sir Arthur hafði orðið eftir af knýjandi ástæðum. Ófriðarský vofði yfir hinum gulu þjóðflokkum, og hann varð að vera eftir til þess að sjá hvað í skærist. Aftur á móti vildi hann ekki hætta á það að Iris yrði eftir til vorsins, því að vorveðráttan í Kína er hættuleg útlendingum. Þau urðu því að skilja og kvöddust með tárum. Faðir hennar fól Ross skipherra hana til sérstakrar umönnunar. Hvar sem komið var að landi voru umboðsmenn föður hennar eins og á nálum í kringum hana, og síminn flutti fréttir af henni á hverjum degi, hvar hún væri stödd og hvernig ferðalagið gengi, alveg eins og konungleg prinsessa ætti í hlut. Hin unga, grannvaxna og yfirlitsbjarta stúlka, var meira áberandi en ferðamenn almennt gerast. Hún var með fríðustu enskum stúlkum, augun voru blá og skær, hárið dökkjarpt og gljáði á það er birta féll á það.

    Lafði Toser vissi vel hve mikið veður var gert út af henni; hún dæsti íbyggin:

    „Æ, jæja, sagði hún. „Öðruvísi hugsuðu foreldrar mínir þegar ég var ung stúlka. Ég þykist vita að faðir yðar sé að venja yður við frjálsræðið, af því að þér eruð komin að giftingu!

    „Ég komin að giftingu?" sagði Iris, því að nú gekk alveg fram af henni.

    „Já, þér ætlið að giftast Ventnor lávarði … er ekki svo?"

    Þjónn einn heyrði þessa spurningu, og brá kynlega við.

    Hann hvessti augum ákaflega á ungfrú Deane og gleymdi sér svo að hann lét lítinn disk með ísmola, sem hann hélt á, hvíla á berum skallanum á Sir John Toser.

    Iris gat ekki varist þess að taka eftir hinu kynlega háttalagi mannsins. Hún þykktist við spurningu frúarinnar, en snéri öllu saman upp í spaug og svaraði glaðlega:

    „Hver veit nema sú gæfa eigi fyrir mér að liggja, en … Ventnor hefur ekki farið þess á leit við mig ennþá."

    „Það var altalað í Hong Kong," byrjaði frúin.

    „Farðu norður og niður, herjans þrjóturinn! Hvað ert þú að gera?" gall allt í einu í Sir John. Allt í einu hafði hann fundið að eitthvað annað en venjulegur dragsúgur myndi vera að verki á skallanum á honum. Ísinn var farinn að bráðna!

    Þeir er næstir sátu, sáu hvað um var að vera, og höfðu gaman að. En yfirbrytinn, sem var á vakki kringum háborðið, kom hlaupandi og sagði í hálfum hljóðum, náfölur af reiði:

    „Farðu yfir í hinn salinn og vertu þar!" Jafnframt ýtti hann manninum frá stóli dómarans.

    Ungfrú Deane stóð upp, glettnin og gamansemin skein úr augum hennar:

    „Gerið svo vel og lofið manninum að sleppa við refsingu, herra Jones, mælti hún þýðlega. „Þetta var slys af einskærri tilviljun. Hann varð svo forviða. Hefði ég verið í hans sporum, þá hefði ég misst allan ísinn af diskinum!

    Yfirbrytinn hneigði sig auðmjúklega. Hann vissi ekki nákvæmlega hvað fyrir hafði komið, en hvað um það. Þó Sir John væri mikill og máttugur, þá var þó dóttir skipeigandans ennþá máttugri.

    „Sjálfsagt, ungfrú, sjálfsagt," mælti hann og bætti svo við í hálfum hljóðum: „Það er ekkert smáræðismótlæti fyrir þjón að vera sendur á annað farrými, ungfrú. Munurinn er svo mikill á … eh … þóknuninni sem farþegarnir víkja að þeim.

    Stúlkan vissi ekki vel við hvað hann átti. Hún brosti við brytanum eins og hún skildi hann prýðilega; síðan laut hún að Sir John, sem var í óða önn að núa skallann með pentudúk.

    „Ég er viss um að þér erfið þetta ekki, hvíslaði hún í eyra hans. „Ég veit ekki hvernig á því stóð, en aumingja maðurinn starði á mig með slíkri forundran, að hann gætti sín ekki og því fór sem fór.

    Dómstjórinn fyrrverandi varð undir eins mjúkur á manninn. Kvað hann sér alls ekki ógeðfellt að láta þannig halda ísmola að höfði sér … þætti það meira að segja ágætt … Líklega kæmi það við ísinn, ekki síður en annað, hve björt og hlý augu ungfrúarinnar væru.

    Lafði Toser mýktist ekki jafn fljótt. Þegar Iris gekk út úr matsalnum sagði hún snúðugt:

    „Hvernig stendur á því, Sir John, að stjórnin sæmir útgerðarmann baróns-nafnbót, en gerir æðsta dómara aðeins að riddara?"

    „Sú spurning væri athyglisverð og hentug á sínum stað, góða mín," svaraði hann engu að síður snúðugur.

    Allt í einu fannst farþegum þeim er ennþá sátu að borðum, eins og skipið væri orðið að afar stórri lyftu. Síðan var sem þeim væri þrýst með afli miklu niður í sætin, en í skipinu hrikti með braki og brestum. Þegar aldan reið aftur með skipinu, kom gusa inn um opinn glugga.

    „Svona nú, mælti frúin í styttingi. „Þarna er veðrið skollið á eins og ég vissi, en þó lét skipherrann sem … John, leiddu mig upp í klefann minn … fljótt.

    Uppi á efstu þiljum stóð fólk í smáhópum og horfði á hvirfilbylinn nálgast. Menn voru að vísu ekki alvarlega hræddir, en enginn hugði þó gott til. Allir töluðu um það í döprum rómi að ferðinni myndi seinka svo að skipið næði ekki til Singapore á réttum tíma.

    „Við áttum tvö hundruð níutíu og átta mílur ófarnar þangað um hádegisbilið," sagði reyndur sjógarpur nokkur. „Skelli veðrið á bakborðsmegin, heggur skipið ónotalega, en verði vindur mótstæður verður skrúfan upp úr helminginn af tímanum. Ég fór einu sinni um þessar slóðir á „Sumatra" og lentum við þá í suðaustan hvirfilbyl. Hvað haldið þið að við höfum verið lengi til Singapore?"

    Enginn treysti sér til að giska á það.

    „Þrjá daga! Þeir voru álíka langir og þrjú ár! Það veit sá sem allt veit að mig langar ekki til að lenda í slíku veðri aftur!"

    Kona nokkur lagði orð í belg og mælti:

    „Vera má að þetta sé ekki hvirfilbylur eftir allt saman. Er það víst að það sé annað en ægilegt hvassviðri?"

    Af því að hér átti kona í hlut, var þessu ekki háðulega svarað. Ferðagarpurinn hristi höfuðið.

    „Loftþyngdarmælirinn hefur því miður aðra sögu að segja. Ég er hræddur um að mörg sæti verði auð við miðdegisverðarborðið í dag!"

    „Þér haldið að skipið velti mikið," sagði konan í gamni. Hún var óreynd og því alveg geiglaus.

    „Ég er feginn því að ég fékk þó góða máltíð áður," sagði rjóður hermaður í sþaugi, og var hlegið allmikið að þessu gamanyrði hans.

    Iris stóð ein sér álengdar og studdist við þiljugrindurnar. Hún var fegin vindinum eftir lognsvækjuna; hafði hún bundið á sig hattinn og skyggndist nú út undan hattbarðinu og virti fyrir sér hafið og skýjafarið. Enn var þó himinninn að mestu heiðskýr, en sólskinið var orðið eirrautt. Sjórinn var korgaður og allólíkur því er hann hafði verið um morguninn, þá var hann svo blátær að hana hafði næstum því langað til þess að stinga sér niður í hinn skæra kristalsbláma og synda þar eins og hver önnur hafmey.

    Henni leist ekki á þessi snöggu umskipti. Langar og bólgnar öldur byltust hljóðar fram hjá skipinu, og einmitt á þessu augnabliki reið ein þeirra undir framstafn skipsins, og þegar skipið stakk sér í næsta öldudal, kom skrúfan öll upp úr og snérist í lausu lofti; hrikti þá og brakaði í öllu skipinu og Iris fann titring leggja um öldustokkinn. Skipshöfnin var öll önnum kafin. Laskararnir (austurlandasjómtnn eru nefndir laskarar) hlýddu með hermannlegum aga skipunum þeim er yfirmenn skipsins gáfu þeim. Gætt var að öllum bátum, hvort þeir væru vel fastir, og hert á böndunum. Loftventlum var snúið undan væntanlegri ágjöf, búlkahlerar treystir og segl þanin yfir framþiljur. Yfirmenn í mjallhvítum búningum gengu til og frá og aðgættu allt, og um vaktaskiptin sá Iris að skipstjórinn hafði sjóföt með sér upp á stjórnpallinn.

    Náttúrann virtist óróleg og í varasömu skapi, og skipið hagaði sér engu síður kynlega. Allt leit út sem búist væri við miklu veðri og bráðri hættu. Járnfestar glömruðu, og skyndilegt fótatak manna, einkum á efsta þilfari, heyrðist þar er minnst varði.

    Hvarvetna á þilfari heyrðist marra í stólum, er fólk stóð upp, tók saman föggur sínar og taulaðist svo niður í skipið. Yfirleitt var Iris alls ekki ánægð með aðdragandann að hvirfilbyl, hvernig sem hann reyndist sjálfur, þegar hann væri skollinn á. Hvers vegna koma stormar annars alltaf undir kvöldið? Hvers vegna gátu þeir ekki byrjað eftir morgunverð, ólmast með stórkostlegri fegurð um miðdegisleytið, og dáið svo út undir kvöldið, til þess að allir gætu sofið í góðum náðum, án þess að eiga á hættu að hrökkva upp við brak og bresti í skipinu.

    Hvers vegna þurfti þessi gamla slettireka að vera að minnast á orðróminn frá Hong Kong, um að hún væri að hugsa um að gifta sig. Þegar ungfrú Deane datt þetta í hug, varð hún svo gröm, að hana langaði mest til þess að hrista öldustokkinn er hún studdist við. Hún hataði þennan Ventnor lávarð, og ætlaði hvorki að giftast honum né nokkrum öðrum fyrst um sinn. Vissulega hafði faðir hennar ymprað á því, að þetta gæti komið fyrir, vegna þess að lávarðurinn sýndi ljóslega, hvað honum bjó í brjósti … Ventnor greifafrú! Það var alls ekki svo afleit nafnbót. Hvað sem þessu liði, vildi hún vera laus og liðug í tvö ár ennþá, og hvað kom lafði Toser þetta annars við? Og að lokum, hvað kom þjóninum til …? Ó, veslings Toser gamli! Hvað skyldi hafa gerst, ef ísinn hefði runnið niður eftir hálsinum á honum og alla leið niður á bak? Henni varð glatt í skapi, er henni varð hugsað til atburðar þessa, og greip nú tækifærið til þess að skotra sér yfir til stjórnborða og athuga hvort skýflókinn, sem skipstjórinn minntist á, væri kominn hátt á norðvesturloftið.

    Svo var víst! Svartur og ógurlegur skýjabakki hóf sig á loft við hafsbrún. Kringum hann var loftið purpuralitt með dumbrauðum jöðrum. Aldrei hafði hún séð annað eins. Eftir því sem hún hafði lesið í bókum, þóttist hún þess viss, að hvergi væru rykmekkir nema á eyðimörkum og öræfum, og varla gæti það því verið sandmökkur, er óðfluga nálgaðist yfir hafið. Hvað gat það þá verið? Hvers vegna var mökkur þessi svo svartur útlits og ógurlegur? Og hvar var það eyðimerkurflæmi, er jafnast gæti á við hið víðáttumikla úthaf? Hversu smátt var ekki skipið, borið saman við þessar ógnar stærðir! Það fór hrollur um Iris, og hún rétti úr sér, eins og hún væri að varpa af sér einhverjum þunga.

    Það væri miklu nær að taka sér einhverja bók í hönd, eða leggja sig stundarkorn, heldur en standa hér og fá í sig geig af útliti loftsins!

    Þegar blásið var til miðdegisverðar, voru mörg sæti auð í borðsalnum. Var þá Sirdar farið að glíma fast við stórsjóina. En þó fannst öllum betra að vera kominn út í glímuna, en bíða hennar, því öllum jókst hugur við að heyra vélarnar vinna stöðugt og sterklega, og við að finna hið trausta stórskip knýja rásina í stórsjónum.

    Ungfrú Deane hafði ekki gumað um of af því, hve sjóhraust hún væri. Hún brosti glaðlega við skipslækninum, er hann leit til hennar yfir auðu stólana í matsalnum. Hún var ein síns liðs þá stundina, svo læknirinn gekk til hennar.

    „Þér gerið félaginu sóma. Sannarlega sækonungsdóttir!" mælti hann.

    „Læknir, talið þér til allra stúlkna, sem ferðast með skipinu, í þessum tón?"

    „Æ, nei. Það hendir alltof oft, að ég fel sannleikann með þögn!"

    „Ef ég væri lengi á þessu skipi, yrði ég vafalaust að fífli sökum stærilætis! sagði hún hlæjandi. „Ég heyri hér ekkert annað en hól og hrós hjá öllum, allt frá skipstjóranum og niður í …

    „Nei, þér eruð númer tvö á listanum!"

    Ef satt skal segja þá varð henni hugsað til þjónsins og þess hve kynlega bylt honum varð við er hann heyrði nefndan orðasveiminn um trúlofun hennar og Ventnor lávarðar. Henni lék nokkur forvitni á að vita eitthvað frekar um mann þennan. Svo var á honum að sjá að hann hefði einhvern tíma verið meðal heldri manna. Hún renndi augunum um salinn til þess að leita hans, en hann var þá farinn.

    Yfirbrytinn stóð skammt frá henni og hallaði sér á ýmsar hliðar, að því er virtist alveg gagnstætt þyngdarlögmálinu, því að nú var skipið farið að velta ákaflega. Henni flaug snöggvast í hug, að spyrja hann hvað orðið hefði af manni þeim er óhappið kom fyrir, en hvarf frá því aftur. Málið var of ómerkilegt til þess að fara að brjóta upp á því að fyrra bragði.

    Allt í einu sópuðust diskar, glös og hnífapör í einni bendu eftir borðum, til stjórnborða. Hefði allt þetta hrunið ofan á gólf ef ekki hefðu listarnir, sem settir voru á borðrandirnar, tekið við því og stöövað skriðið. Þjónn einn datt kylliflatur á gólfið ofan á bollabakka er hann bar, aðrir gripu til hvar sem þeir náðu handfesti. Einn maður greip í ofboði í hár konu er hjá honum sat, en kona þessi eyddi tveim stundum á dag til þess að setja upp hár sitt svo henni líkaði, áður en hún gengi til miðdegisverðar. Svo snögg var þessi velta að engu var líkara en skipið væri að hvolfast.

    „Nú eru þeir að breyta stefnu, mælti læknirinn. „Þeir reyna jafnan að komast hjá því meðan setið er að borðum, en hvirfilbyljir spyrja ekki um leyfi og banna alla kurteisis útúrdúra. Nú er miðbik hans beint framundan og er því skipinu snúið til stjórnborða, til þess að reyna að komast á snið við skýstrókinn.

    „Ó, ég verð að flýta mér upp á þiljur," sagði ungfrú Deane.

    „Þér fáið ekki að fara upp fyrr en á morgun."

    Hún sneri sér að honum með þykkjusvip. „Víst vil ég fara upp, skipherrann leyfði mér það … það er að segja … ég nefndi það við hann."

    Læknirinn brosti þegar hann sá hve indæl hún var í ákefðinni við að fylgja máli sínu til sigurs. „Það verður nú samt að vera þannig, sagði hann. „Dyrnar að uppgöngunni eru lokaðar með járnslám að utan. Farþegaþilfarið er allt í sjó með köflum og einum bát hefur skolað út. Járnsúlurnar sem héldu honum, brotnuðu eins og reyr. Þetta mun vera í fyrsta sinn á ævinni að þér eruð lokuð inni, ungfrú Deane?

    Stúlkunni mun hafa brugðið eitthvað við þessi tíðindi, því að hann bætti þýðlega við: „Vissulega er þó engin hætta á ferðinni, en þessi varúð er alveg nauðsynleg. Yður langar víst ekki til þess að sjá sjóinn fossa niður stigann og ofan í salinn, eða hvað?"

    „Auðvitað ekki! Svo bætti hún við eftir litla þögn: „Það er ekkert gaman að því að vera lokuð inni í járnkassa, herra læknir. Það minnir mann á stóra líkkistu.

    „O, sussu! Sirdar er traustasta skip sem á sjó flýtur. Faðir yðar hefur jafnan séð um að skip sín væru traust. Séu skip félagsins ekki afar hraðskreið, þá eru þau að minnsta kosti örugg í sjó og leggja og vel byggð í alla staði."

    „Er margt af veiku fólki í skipinu?"

    „Nei. Sama lifrarveikin og gengur og gerist. En hér á skipinu vildi til slys skömmu fyrir miðdegisverð."

    „Hvað eruð þér að segja? Hvað kom fyrir?"

    „Nokkrir „laskarar urðu fyrir brotsjó er gekk yfir framþiljur og einn þeirra fótbrotnaði.

    „Hvað gerðist meira?"

    Læknirinn hikaði við. Hann virtist hafa allan hugann á flösku með burgundarvíni er hjá honum stóð. „Ég get varla sagt að ég viti nákvæmlega um það ennþá, svaraði hann. „Fyrri hluta dagsins á morgun skal ég segja yður alla söguna.

    Enskur undirstýrimaður og fjórir „laskarar" höfðu orðið fyrir brotsjó er skolaði þeim öllum útbyrðis; þeir höfðu svo slegist við skipshliðina miðja og rotuðust fjórir þeirra er þeir skullu í síðu skipsins, en einum skolaði inn á þilfar aftur, fótbrotnum.

    Stundarkorn hægðu vélarnar ganginn. Skipið tók að sveigja á slóð skýstróksins. Nú gaf skipstjórinn merki um að fara á fulla ferð aftur á bak. Hann tautaði fyrir munni sér: „Veslings Jackson, einn af mínum bestu mönnum. Ég man að ég sá konuna hans, laglega litla konu með tvö börn, koma niður á bryggju til þess að taka á móti honum, síðast þegar við komum til Englands. Þau koma aftur núna. Hamingjan góða! Og þessi indverski sjómaður á líklega einhverja ástvini í þorpi hjá Bombay, sem ég þykist vita að fagna muni heimkomu hans."

    Rokið söng líksöng þeirra er bana höfðu beðið, og svo var særokið mikið að varla var hægt að greina loft frá sjó. Yfirmenn þeir er á stjórnpalli voru urðu að snúa sér undan veðrinu til þess að ná andanum. Sterkur segldúkur var strengdur á handrið stjórnpallsins, en samt urðu menn að halda sér með báðum höndum til þess að fjúka ekki. Á aðalþiljum gat enginn haldist við. Gusurnar gengu upp í mið siglutré og öldukambana bar við stjórnpall. Sjórinn hamaðist á skipinu eins og hann ætlaði að mylja það mélinu smærra.

    Skipstjórinn þrammaði þungum skrefum inn í mælingaherbergið. Hann strauk sjóinn úr augunum og leit á loftvogina.

    „Ennþá að falla, tautaði hann. „Ég held þessari stefnu þangað til klukkan sjö, þá beygi ég suður á við. Um miðnætti ættum við að vera komnir út úr því versta.

    Skipherrann fór aftur út á þilfarið og þegar hann bar saman vistina inni í hlýjum mælingaklefanum og hamfarir veðursins, fannst honum því líkast sem hann hefði hrapað úr sælu himnaríkis niður í hið neðsta.

    Farþegar þeir er á ferli voru höfðu safnast saman í setustofunni til þess að stytta sér stundir áður en þeir héldu til herbergja sinna. Sumir þeirra sátu og ræddu saman, einn lék á slaghörpu, aðrir sátu að spilum eða tafli, eða skemmtu sér við eitthvað annað, sem dró hugann frá látunum í veðrinu.

    Þessi ágæta setustofa var skreytt og lýst á hinn fullkomnasta hátt. Þar voru mjúkir legubekkir og eigi skorti heldur þykkar gólfábreiður, gullbrydduð gluggatjöld, eða annað það er augað mátti gleðja. Það var ekki útlit fyrir að þeir sem sátu í þessari dýrlegu fljótandi höll, óttuðust storm né stórsjó hið allra minnsta. En í fjörutíu mílna fjarlægð skoluðust þó fjögur lík í sjónum, ef þau voru þá ekki orðin að hákarlafæðu.

    Skipslæknirinn hafði verið kallaður burtu. Iris var eina konan í salnum; hún horfði um stund á fjóra menn er sátu og spiluðu vist, en svo hvarflaði hún til herbergja sinna. Þar biðu hennar þjónustustúlka hennar og ein af frammistöðustúlkum skipsins. Báðar voru farnar að gráta.

    „Hvað gengur að ykkur?" spurði Iris.

    Frammistöðustúlkan ætlaði að svara spurningunni, en kom engu orði upp fyrir ekka og

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1