Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Ferðasögur
Ferðasögur
Ferðasögur
Ebook174 pages2 hours

Ferðasögur

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

"Hefirðu nokkurn tíma sofnað fullur, lesari góður, og vaknað upp með timburmenn? Það er lítið betra að hafa sofnað með sjóveikis-klígju í kverkunum og sjóveikismixtúru í maganum."
Í bókinni ferðasögur má finna samansafn sjálfsævisögulegra texta eftir Jón Trausta. Textarnir birtust í tímaritum og dagblöðum yfir ævi Jóns Trausta og segja frá ferðum hans um heiminn. Jón Trausti þótti einstaklega næmur á umhverfi og samfélag. Ferðasögur höfðar til þeirra sem eru forvitnir um upplifanir fólks á liðnum öldum. Hér er hægt að fá innsæi í hvernig ferðalögum var háttað á 20. öldinni.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateNov 23, 2023
ISBN9788728281550

Related to Ferðasögur

Titles in the series (14)

View More

Related ebooks

Related categories

Reviews for Ferðasögur

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Ferðasögur - Jón Trausti

    Ferðasögur

    Cover image: Unsplash, public domain

    Copyright © 2023 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728281550

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrieval system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    FERÐASAGA AF SNÆFELLSNESI

    Kl. 3 eina nóttina, skömmu fyrir Jónsmessu Hólabiskups, vaknaði ég við það, að sólargeislar hentust beint í augun á mér.

    Þeir voru rauðleitir og stefndu lágt, eins og vant er að vera á morgnana, komu ýmist beint frá sólinni sjálfri eða höfðu numið niðri á boðaföllunum út frá skipinu. Hvað sem því leið, hittu þeir allir ofurlítið kringlótt kýrauga á skipshliðinni, og þaðan komu þeir framan í mig.

    Mér datt í hug sagan, sem hann Tryggvi setti í almanakið, um sólargeislana, sem vöktu alt lifandi, nema letingjann. Hann sneri sér á hina hliðina og svaf sem áður.

    Hefirðu nokkurn tíma sofnað fullur, lesari góður, og vaknað upp með timburmenn? Það er lítið betra að hafa sofnað með sjóveikis-klígju í kverkunum og sjóveikismixtúru í maganum. Það fæðir að sér lífs- og sálarástand, sem ekki gefur timburmönnum mikið eftir.

    Ein af fyrstu hugsununum þennan morgun var: Nú fer ég líklega að kasta upp.

    Klefinn, sem ég lá í, var með fjórum bólum, öllum vel skipuðum. Í bólinu undir mér lá Torfi gamli í Ólafsdal. Í réttan vinkil út frá honum lá danskur grasafræðingur, sendur hingað af Carlsbergs-sjóðnum, og yfir honum, jafnhátt mér, lá sonarsonur Torfa, ungur garðyrkjumaður.

    En fyrst hann Torfi fer ekki að kasta upp, þá er skömm að því að fara að kasta upp. Væri ekki nær að skreppa á fætur og vita, hve langt við værum komnir.

    Ég smeygði mér fram úr fletinu, fór í eitthvað af fötunum og yfirfrakkann utan yfir og labbaði upp á þilfar — upp á efra þilfar, meira að segja, því að „Sterling" hefir háþiljur, yfir öllum herbergjum, sem ætlaðar eru farþegum til útsýnis og þæginda.

    Það var stinnings norðaustankaldi, sem tók fastara á vegna þess, að skipið brunaði nærri því beint á móti honum. Sólin var komin svo sem þverhönd upp fyrir Barðastrandarfjöllin. Við vorum fram undan Ólafsvík og stefndum inn Breiðafjörð.

    Á þiljum uppi var blessuð kyrð. Ekkert var kvikt á háþiljunum nema ég. Frammi í stafni sáust einhverjir syfjaðir hásetar, og stöku sinnum sá á kollinn á einhverjum yfirmanni skipsins upp yfir seglbrúnina á stjórnpallinum. Ekkert heyrðist nema gutlandinn í sjónum, gnauðið í vélinni og ofurlítið klapp í stýrisfestunum, sem lágu aftur með báðum borðstokkum.

    Morguninn var kaldur og fagur. Í suðrinu var Snæfellsjökull, skínandi bjartur. Norðan í honum er hvilft mikil, og þar hafði þokutoddi hreiðrað sig um nóttina. Uppi yfir honum gnæfðu mjallhvítar hyrnurnar. Og nú var sólin og norðanvindurinn að reka þennan þokuflóka burtu. Aldrei er friður.

    Uppi hélzt ég ekki lengi við fyrir kulda. En þegar ég kom í bólið mitt aftur, gat ég ekki sofnað um langan tíma fyrir skjálftanum á skipinu. Öll járnskip skjálfa við átök knýisins (skrúfunnar), og þeim, sem þessum skjálfta eru óvanir, fellur hann engu betur en ruggið. En menn venjast honum, jafnvel fyr en rugginu.

    Undir fótaferðartímann sofnaði ég þó, en vaknaði undir eins eftir við það, að skipið öskraði. Þá var auðvitað komið inn að Stykkishólmi.

    Nú vöknuðu allir og fóru að klæða sig. Vatn höfðum við nóg, en hvorki sápu né greiðu, svo að þvotturinn varð hreinn og beinn kisuþvottur. Bezt er þeim, sem ferðast með skipum hér við land, að muna eftir að hafa með sér sápu og greiðu, ef þeir kæra sig um að líta út eins og siðaðir menn.

    Þegar við komum upp á þiljur, var verið að tosa „Vestra frá bryggjunni og hnoða honum út fyrir „Sterling, því að hann átti að fara þaðan fyr. Þetta gekk seigt og fast, því að þröngt er í sundinu. Í krikanum við bryggjuhausinn lá borðlág snekkja, en traustleg, með háum reykháf og lét ekki mikið yfir sér. Það var „Varanger", Breiðafjarðarbáturinn.

    Loks varð „Sterling" komið svo að bryggjunni, að við náðum í hendurnar á kunningjunum, sem þar stóðu.

    II.

    Stykkishólmur liggur á nyrzta odda hins fornfræga Þórsness. Súgandisey skýlir höfninni fyrir sjógangi, en straumur er þungur um sundið með sjávarföllum, nærri því eins og í á. Kaupstaðurinn er ofurlítil, vingjarnleg húsaþyrping milli grænna hóla og uppi á þeim. Landið er einkennilegt og viðfeldið. Útsýn fögur úr kaupstaðnum til eyja og fjalla og út eftir Breiðafirði. Verzlun fer vaxandi, en mestmegnis er hún með gamla laginu: verzlunarskuldir og vanskil. Peningaverzlun sama sem engin. Ekki er þar nema ein dönsk fastaverzlun: einn anginn af Tangsverzlun, sem víða er á Vesturlandi. Hinar verzlanirnar eiga íslenzkir menn, sem byrjað hafa efnalitlir, en komist vel áfram. Stykkishólmur er hreppsfélag út af fyrir sig, og búa þar um 600 manns. Kaupstaðurinn á jörðina, sem hann stendur á, og fylgja henni nokkrar eyjar, þær er næst liggja.

    Það, sem ég held, að Stykkishólm vanti einna tilfinnanlegast, er banki — útibú frá öðrumhvorum bankanum, sem gæti starfað þar á staðnum og aukið viðskiftalífið. Kaupstaðnum er svo vel í sveit komið, þar liggja að svo góðar sveitir, bæði á landi og eyjum, að nokkur hundruð þúsund krónur mundu gefa þar góðan arð. Enn er þar alt of mikil kyrstaða og framtaksleysi. Ég er viss um, að Stykkishólmur og héraðið umhverfis á fagra framtíð í vændum.

    Í Stykkishólmi er bókasafn Vesturamtsins niður komið, — auðvitað í óþökk hinna sýslnanna, því að allar vildu þær hafa það hjá sér. Afleiðingin varð auðvitað sú, að Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla hefir orðið að bera þyngstu byrðarnar af bókasafninu, en hefir þess líka mest not. Og Stykkishólmsbúum þykir vænt um safnið. Þeir hafa bygt því hús uppi á hæsta höfðanum í kaupstaðnum, svo að langt sést til af landi og sjó. Á húsinu er dálítill turn, og á honum stundaklukka kaupstaðarins. Fram að þessu hefir hún verið stilt eftir sólargangi og því verið ósamkvæm öðrum klukkum landsins. Nú lagast það — eða ólagast —, þegar ritsíminn kemur þangað.

    Mesta mannvirki kaupstaðarins er hafskipabryggjan, sem bygð var að miklu leyti á landssjóðs kostnað. Hún er myndarleg samgöngubót, — á meðan hennar nýtur við. En sorglegt útlit er fyrir, að hún ætli ekki að endast vel.

    III.

    Frá Stykkishólmi lagði ég á stað ríðandi með töskuhest í taumi. Enginn var með mér nema guð, — eins og vant er. Við fórum hægt, því að guð vill láta fara vel með hesta, ekki sízt hestana hans Sveins í Hólum.

    Næsti áfanginn var Helgafell.

    Helgafell er dálítill stuðlabergshnúður uppi í miðju Þórsnesi, úr sama efni og flestar Breiðafjarðareyjarnar. Það er eins og það hafi ætlað sér út í fjörðinn og verða ey, en dagað þarna uppi. Norðan í fellinu er stuðlabergið fegurst og reglulegast. Og þar mun það hafa verið, sem smalamaðurinn sá fellið opið og landvættirnar sitja að langeldum til að fagna Þorsteini þorskabít kvöldið, sem hann druknaði í Breiðafirði. Eins og menn muna, hafði faðir hans, Þórólfur Mostrarskegg, mikla helgi á fjallinu og lagði svo fyrir, að þangað mætti enginn óþveginn líta. Og því trúðu þeir feðgar, að þangað færu þeir eftir dauðann. Ég vona, að eitthvað slæðist þar eftir af þeim enn.

    Hið forna höfuðból stendur sunnan undir fellinu. Nafn þess er ógleymanlegt í sögu Íslands, tengt minningunni um Snorra goða og Guðrúnu Ósvífursdóttur og marga fleiri ágætismenn. Enginn veit, hve margt af ágætustu fornsögum vorum er fært þar í letur eða aukið og afskrifað á dögum klaustursins. Sjálfsagt hefir þar oft verið líf og glaðværð. Því kvað útilegumaðurinn:

    Leiðist mér að liggja hér í ljótum helli.

    Betra er heima á Helgafelli

    að heyra þras og glímuskelli.

    Uppi á fellinu er ofurlítil grjóttóft, sem kölluð er kapella. Vel getur verið, að hún sé síðan á dögum klaustursins og þangað hafi munkarnir gengið til bænagerðar. Sú trú er langt frá því aldauða í Helgafellssveit, að þar eigi maður að fá eina ósk uppfylta — jafnvel þrjár. En steinþegjandi á maður að ganga þangað upp og líta hvorki til hægri né vinstri á leiðinni. Hvað sem þessu líður, er tilvinnandi að ganga upp á Helgafell, því að þaðan er útsýn fögur yfir Þórsnes og Breiðafjarðareyjar, alla leið inn í Hvammsfjörð. Og þangað gekk Snorri goði jafnan, er honum voru vandamál á höndum, því að þau ráð kvað hann sízt að engu orðið hafa, sem þar hefðu verið ráðin.

    Af Helgafelli blasir við Vigrafjörður, þar sem Eyrbyggjar börðust við Þorbrandssyni á jólaföstu 997. Þeir börðust á ísnum. Hafði ísinn sigið niður um fjöruna og hallaði út af skerjunum, og varð það Þorbrandssonum að vígi. Nesið milli fjarðanna, Álftafjarðar og Vigrafjarðar, heitir Orustunes. — Inn við Álftafjarðarbotninn sést Úlfarsfell, sem svo mjög er tengt sögnum Eyrbyggju um Þórólf bægifót, þessa mögnuðu afturgögu, sem loks varð að apalgráu nauti! — Hinum megin Álftafjarðarins blasir við Narfeyri, sem nefnd er Geirröðareyri í Eyrbyggju. Þar bjó Oddur lögmaður Sigurðsson á valda- og velgengnisdögum sínum, og mátti þá heita, að alt Ísland lyti Narfeyri. — Hinum megin á nesinu er Hofsvogur og í honum Dritsker. Þar eru stöðvar gamla Þórsnesþings. Þar var völlurinn, þar sem ekki mátti „álfrek" ganga, og varð sú helgi orsök til bardaga og mannvíga, sem kunnugt er. En eftir bardagann var þingið flutt framar í nesið að austanverðu, því að völlurinn helgi hafði saurgast af heiftarblóði. Þar heita enn Þingvellir.

    Inn eftir að líta eru eintómar eyjar, svo þéttar, að hverja ber í aðra. Eyjaklasinn lokar Hvammsfirði, svo að skip, sem þangað ætla, sýnast stefna á þurt land. Í miðri eyjaþrönginni liggur Brokey, höfuðból Guðmundar ríka, sem gaf Fuhrmann stiftamtmanni allar eigur sínar til málafylgis gegn Oddi lögmanni, en gerði erfingja sína snauða. Um það var svo kveðið:

    Sínum örfum sinti ei par

    sálugi Gvendur ríki.

    Auður í Brokey eftir var,

    þá öndin skrapp úr líki.

    Norðar og utar liggur Hrappsey, sem auk annarar sæmdar hefir orðið til þess að fóstra hina fyrstu óháðu prentsmiðju á Íslandi, sem prenta mátti alt, bæði andlegt og veraldlegt, án verulegs eftirlits. Það var prentsmiðja sú, sem Ólafur Ólafsson sekreteri (Olavius) flutti hingað 1772. Nafn Hrappseyjar geymist ómáanlegt á mörgum ágætum bókum frá síðari hluta 18. aldar.

    Við Hrappsey standa Klakkeyjar eða Dímunarklakkar, þar sem Eiríkur rauði leyndi skipi sínu, þegar Snorri goði gerði hann sekan á Þórsnesþingi. Þaðan fylgdi Arnkell goði og menn hans Eiríki út fyrir Elliðaey. Í þeirri ferð, sem þá var hafin, fann Eiríkur Grænland (982).

    Á landi, fyrir innan eyjarnar, sér heim að Staðarfelli Boga hins fróða og einnig að Dagverðarnesi og Kambsnesi, sem kunn eru úr sögu Auðar djúpúðgu.

    Í vestri rís Bjarnarhafnarfjall, og sést þar höfuðból Bjarnar austræna undir fjallinu. Innan við Bjarnarhöfn sést dökkblá rák frá fjöllum í sjó fram. Það er Berserkjahraun. Rétt austan við það er bær samnefndur. Það er bær Víga-Styrs. —

    Sögulegar minningar, hvert sem litið er.

    IV.

    Frá Helgafelli lagði ég suður á Kerlingarskarð.

    Vegurinn er landssjóðsvegur og mjög fjölfarinn, svo að ekki þarf um hann að kvarta um þetta leyti ársins. Og nú standa ritsímastaurar með honum alla leið yfir fjallið. Síminn lá með veginum hingað og þangað, vafinn upp í stóra hringi, en króka og klukkur vantaði ennþá.

    Vegurinn liggur skamt fyrir neðan bæinn og fjallið í Drápuhlíð. Þetta fjall er dálítið einkennilegt, því að norðan í því eru ljósgular líparítskriður, og hafa þar fundist gyltir steinar. Einu sinni gaus upp sú trú, að gull væri í fjallinu og það svo mikið, að aldrei mundi þrjóta. Þá flaug nafn Drápuhlíðarfjalls um land alt og jafnvel víðar. Nú er sú trú farin að láta sig. Fjallið er myndað af eldgömlu brennisteinsumróti, og gyltu steinarnir eru brennisteinskís. Þó kvað finnast í þeim ofurlítill vottur málma, þar á meðal gulls, en engum hefir það orðið að notum enn. Ég reið framhjá Drápuhlíð að þessu sinni, en kom þar nokkrum dögum seinna. Þá hafði ég með mér þaðan nokkra „gullsteina" og tel mig ekki mikið ríkari.

    Framhjá Drápuhlíð rennur ofurlítil á ofan úr fjöllunum, og á henni er brú. Þessi brú á sína sögu, eins og nærri því allar brýr á Íslandi. Fyrir nokkrum árum var Stykkishólmspósturinn á ferð norður yfir fjallið og maður með honum. Það var að vetri til og blindhríð með miklu frosti. Mennirnir héldu þó réttri leið, en þegar þeir komu að ánni, var hún uppbólgin og ófær. En hinum megin árinnar voru bæirnir. Þeir gengu nú upp og ofan með ánni og komust ekki yfir hana. Urðu þeir því að hafast þar við á bersvæði um nóttina og urðu báðir úti. Eftir þetta slys skildist mönnum loksins, að betra væri að brúa ána.

    Nú slepti bygðinni, og vegurinn lá á fjall upp.

    Neðan undir fjallgarðinum stendur afarmikill steinn, sem nefndur er Grettistak. Ekki skil ég, hvernig nokkur maður hefir getað trúað því, að Grettir hafi valdið því bjargi, því að þó 60 manns röðuðu sér á hann, eða svo margir, sem að honum gætu komist, mundu þeir hvergi bifa honum. Steinninn er ekki heldur Grettistak í nýrri merkingunni, þ. e. steinn, sem skriðjöklar hafa flutt. Hann hefir blátt áfram oltið ofan úr hömrunum fyrir ofan og numið þarna staðar. Hann er af því bergi brotinn — þursabergi — og ekkert ísnúinn. En utan á hann hefir fjöldi ferðamanna reynt að krassa fangamörk sín. Vel sé þeim, sem nennir að lesa það alt saman.

    Svo kemur Kerlingarskarð. — Á vinstri hönd eru sundurtætt móbergsfjöll með alla vega löguðum strýtum og klettum. Einn þeirra er „kerlingin með silungakippuna á bakinu", sem skarðið dregur nafn af. Á hægri hönd eru rauðleitar gjallhrúgur, sem nefndar eru Rauðkúlur. Eru það gamlir gígar, og hefir Berserkjahraun runnið þaðan, klofið sig um Bjarnarhafnarfjall og runnið í sjó fram beggja megin við það.

    Uppi á sjálfu skarðinu eru tvær dysjar, kendar við einhverja smalamenn, sem þar hafa borist á banaspjót. Eru það stórar grjóthrúgur, því að margir, sem um veginn hafa farið, hafa gert sér að skyldu að kasta steinum á dysjarnar. Slíkar dysjar eru víða nálægt fjölförnum vegum hér á landi, t. d. á Ferstikluhálsi, Svínaskarði, Kópavogshálsi o. s. frv., og siðurinn að leggja stein á þær er gamall, líklega sprottinn af einskonar hluttekningu með þeim dánu, sem oftast eru sakamenn, fremur

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1