Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Á heimleið: saga úr sveitinni
Á heimleið: saga úr sveitinni
Á heimleið: saga úr sveitinni
Ebook255 pages3 hours

Á heimleið: saga úr sveitinni

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Á heimleið er fyrsta skáldsaga Guðrúnar Lárusdóttur sem gefin var út árið 1913. Hún segir frá hinni ungu Margréti í Hlíð. Lesandi kynnist Margréti þegar hún er komin um borð í skip og heldur af stað út í heim, burt frá æskuslóðum sínum. Hún fékk boð frá kaupmannshjónum í Noregi um að dvelja hjá þeim. Fljótt verður hún heltekin af heimþrá en leitar huggunar í náttúrufegurð, trúrækni og vináttu sinni við aðrar ungar konur. Margrét er ekki feimin við að fylgja eigin sannfæringu og myndar náið samband við prestinn, séra Björn. Í fyrstu virðist ekki hlýtt á milli þeirra, Margrét gagnrýnir ræður hans og tekur séra Björn því mis vel, en þegar áföll dynja á í nærumhverfi verður vinátta þeirra sterkari. Á heimleið (1913) er saga af tryggri ást, trúmennsku og fórnfýsi. En einna helst um hetjudáð ungrar konu. Verkið hlaut góða dóma úr mörgum áttum og þótti vönduð frumraun. -
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateApr 3, 2023
ISBN9788728569320
Á heimleið: saga úr sveitinni

Related to Á heimleið

Titles in the series (11)

View More

Related ebooks

Related categories

Reviews for Á heimleið

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Á heimleið - Guðrún Lárusdóttir

    Á heimleið: saga úr sveitinni

    Translated byGuðrún Lárusdóttir

    Cover image: shutterstock

    Copyright © 2023 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728569320

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrieval system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    I.

    FRÁ LANDI.

    Snjórinn var löngu horfinn úr giljunum og túnin orðin skrúðgræn; lóan var farin að syngja og spóinn að vella. Vorið var komið.

    Uppi við fjallsrætur stóð bærinn. Hlíðin var slétt og gróin, túnið fagurt og engið mikið. Spegiltærar árnar runnu um sléttar grundir. Sveitin var fögur í spánnýja vorskrúðinu.

    Margrét í Hlíð sat uppi í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Hún virti fyrir sér hið fagra útsýni, en fuglakvakið lét í eyrum hennar eins og yndislegur hljóðfærasláttur. Skemmtilegt þótti henni á þessum stöðvum, enda voru það æskustöðvarnar. Hún var borin og barnfædd í Hlíð, og hvert sem litið var, urðu vinir á vegi hennar. — Stóri, mosagróni steinninn þarna, — margar endurminningar voru tengdar við hann, í skjóli hans hafði hún byggt húsin sín og leikið að leggjum og skeljum. Og blessaður litli lækurinn í lautinni rétt hjá! Glaður og léttfættur stökk hann á stein af steini og söng í sífellu. Þá var hann einn kunningi hennar. Og berjalautirnar hringinn í kringum hana, rennsléttu grundirnar og árbakkarnir, þar var gaman að hleypa gæðingunum! Og hver þúfa og hvert moldarbarð, — allt átti það sína eigin sögu, nátengda ævisögu barnsins, og rifjuðust nú upp margar umliðnar unaðsstundir, er Margrét sat þarna í hópi æskuvinanna og bjóst til að kveðja þá um stundarsakir. Innan fárra daga hugði hún að láta í haf frá ættlandi sínu. Hún vissi, að margt nýtt og fagurt mundi bera fyrir augun í ferðinni, en þetta var þó landið hennar, og hjarta hennar var samgróið landinu með háu fjöllin og hvítu faldana.

    „Svo traust við Ísland mig tengja bönd,

    ei trúrri binda son við móður,"

    raulaði hún fyrir munni sér á leiðinni heim að bænum.

    Fáum dögum síðar bar eimskipið hana áleiðis á burt frá föðurlandinu.

    Hún stóð á þilfarinu og horfði á land. Hún gat enn þá greint foreldra sína, sem stóðu í flæðarmálinu.

    Ströndin fjarlægðist. Húsin í kauptúninu sýndust nú svo undur smá, eins og skeljar í fjöru. Byggðin færðist fjær. Bæirnir uppi í hlíðunum beggja megin fjarðarins fóru að týna tölunni.

    Öldurnar ólmuðust í kringum skipið, og skrúfan lúskraði þeim, þegar þær gerðust of áleitnar, en svo var sem glímuskjálfti færi um skipið, því að leikurinn við Ránardætur var því kær og kunnur.

    Margrét frá Hlíð ætlaði nú að sigla saltan mar og kanna ókunna stigu í öðrum löndum, var förinni heitið til Noregs. Kaupmannshjón norsk, er dvalið höfðu um nokkur ár í kauptúninu í nágrenni hennar, buðu henni heim með sér, er þau fluttu nú alfarin til Noregs aftur. Foreldrar hennar féllust á að þiggja boðið og hugðu gott til ferðar dóttur sinnar, sem að allra dómi var hin gervilegasta stúlka, bjuggust þau við, að hún mundi hafa beztu not af för þessari.

    Skipið var komið góðan spöl út úr firðinum. Ströndin var horfin og fjöllin fóru óðum lækkandi. Gamla landið var að hverfa. Seinustu sólargeislum dagsins stafaði yfir hafflötinn. Þeir voru að kveðja íslenzku fjöllin, sem báru við sjóndeildarhringinn, dimm og þögul. En fjöllin hurfu, og geislarnir hurfu, og kvöldmóðan hvolfdist yfir gráleita kvikuna.

    __________

    Himinn og haf! Himinninn lykur um hafið óendanlegum örmum, og bárur hafsins bregða upp spegli og sýna honum litina hans: Sólskinið, heiðblámann, marglitu skýin og geisladýrð stjarnanna. Hafflöturinn blikaði í kveldsólar skininu, öldurnar risu og féllu í fögrum eltingaleik, ólgandi eins og lifandi vera með stórfelldum æðaslætti.

    Margrét studdist við borðstokkinn og litaðist um. Himinn og haf fengu henni ærið að hugsa.

    Litlu fjallalækirnir heima komu henni í hug. Þeir hoppuðu flissandi ofan hlíðarnar og runnu leiðar sinnar um fagrar grundir og grýtta mela, alltaf jafnhýrir á brá og hressir í bragði, og nú miðluðu þeir þessu heljarflæmi tæru dropunum sínum. Þeir voru smáir í samanburði við hafið.

    Á svipaðan hátt var lífsskeið hennar örlítill hluti af eilífu tilverunni. Æviárin hennar voru fá og smá í samanburði við eilífðina, en öldurnar hvísluðu því í eyru henni, að hún sjálf væri einn þátturinn í eilífðar keðjunni. Og nú fannst henni hafið ekki vera eins ógurlega stórt og himinninn ekki eins fjarri. Það laut sömu lögum og hún sjálf. Hin volduga hönd, er stýrði öldum hafsins, stjórnaði einnig lífi hennar.

    Sólin sat eins og eldrauður vígahnöttur á haffletinum, yzt út við sjóndeildarhringinn, og rauðu geislarnir brotnuðu á öldunum.

    Skipið brunaði áfram, nóttin kom og grúfði yfir öllu. Margrét gekk til hvíldar, og svefninn flutti anda hennar heim í íslenzku sveitakyrrðina.

    II.

    ELÍN.

    Það var orðið áliðið sumars.

    „Bráðum byrja fjallaleitirnar heima, hugsaði Margrét, „gaman væri að vera horfin heim.

    Fólkið var gott við hana, og landið var fagurt, og fjöllin minntu hana á fjöllin heima, en þó bjó þrá í huganum — það var heimþráin.

    Heimili norsku kaupmannshjónanna var ríkmannlegt, skorti þar ekkert, er prýða mátti. Sunnudagskvöld eitt að áliðnu sumri var þar gestkvæmt, eins og oft endranær. Húsið var allt uppljómað, og gestirnir skemmtu sér við fjörugar samræður. En Margrétu fannst óvenjulega þröngt um sig, og hún var þreytt. Var það af því að hlusta alltaf á erlent mál, eða af því hana vantaði íslenzka fjallaloftið?

    Hún laumaðist burt frá gestunum og gekk út í garðinn. Hann var fagur og blómlegur, þótt haustið væri í nánd. Hún stóð rétt hjá blómareit. Ljósið úr gluggunum féll á hann. Blómin beygðu kollana sofandi. Nú voru fjallafíflarnir hennar heima víst löngu dánir og fölnaðir í næturfrostinu, og langt er að bíða eftir næstu sumarsól.

    Þarna blikaði stjarna. „Blessuð stjarnan, hugsaði Margrét. „Skyldi ekki mamma vera að horfa á hana, eins og ég? Um þetta leyti var fólkið líklega að koma heim af engjunum. Hún sá það allt í huganum svo undur greinilega. Stúlkurnar gengu heim á hlaðið. Þær reistu hrífurnar upp við skemmuþilið en lögðu hrífuvettlingana á hefilbekkinn í bæjardyrunum. Svo var farið að skammta skyrið í skálarnar og þær bornar inn í baðstofu, menn mötuðust, sitjandi á rúmum sínum. Því næst var háttað, og fólkið lagðist til hvíldar, þreytt að loknu dagsverki.

    Nú var hún fjarri átthögunum. Henni var sem hún heyrði óminn af málinu sínu, fagra og hreina móðurmálinu. Það voru faðir og móðir, sem fólu barnið sitt föðurumsjón guðs. Henni vöknaði um augu, og ósjálfrátt varð henni litið í vestur.

    En þetta dugði ekki, ef hún færi að hugsa heim, þá gæti hún ekki tekið þátt í glaðværð gestanna. Og þó langaði hana svo mikið til að vera ein og láta hugann hlaupa lengst norðvestur um haf, — þar var landið hennar.

    Útlendingur í landi forfeðra sinna! Íslendingur í Noregi hugsar svo oft, óþreyjufullur og angurvær, um allar breytingarnar, sem orðið hafa á liðnum öldum. Hann þekkir landið víða allvel, en þó er margt svo ókunnugt. Aðra stundina óskar hann, að forfeðurnir hefðu aldrei leitað á burt úr þessu landi, en hina stundina flýgur heimþráin með hann norðvestur um hafið.

    Margrét vaknaði af þessum hugleiðingum við það, að einhver kom út í garðinn. Hver skyldi það vera? Líklega einhver að svipast eftir henni. Hún var búin að vera fulllengi úti.

    Það var Elín, systir kaupmannsins, er út kom.

    „Þér eruð einsömul hér úti, sagði hún vingjarnlega og brá hendi undir handlegg Margrétar. „Eigum við ekki að setjast inn í lystihúsið?

    Þær gengu að laufskála. Þar logaði Ijós, og brá rauðleitum bjarma um skálann.

    „Yður hálfleiðist? sagði Elín, er þær voru setztar niður inni í lystihúsinu. „Ég þykist sjá það á yður.

    „Mér leiðist eiginlega ekki, sagði Margrét, „en einstöku sinnum finn ég sárt til þess, að blessuð eyjan mín hvíta er svo langt í burtu, — þá hálflangar mig heim.

    „Ég skil yður, sagði Elín, „ég finn sjálf til þess, hve föðurlandið mitt er fjarri.

    „Föðurlandið yðar? sagði Margrét og leit forviða á hana. „Er það ekki hér?

    Elín brosti. „Vort rétta föðurland er á himnum, sagði hún, „það var það, sem ég átti við.

    Margrét roðnaði ofurlítið. Hvernig gat henni dottið þetta í hug? Reyndar vissi hún, að Elín var ákaflega alvörugefin stúlka, og sumir sögðu, að hún gæti helzt ekki talað um annað en trúarefni og væri allsvæsin, þegar því væri að skipta. En Margrét kunni mjög vel við Elínu. Hún var hispurslaus, góðlátleg í viðmóti og bar það með sér, að hún var sannmenntuð stúlka.

    Margrét leit á hana. Elín hélt samræðunni áfram: „Já, föðurlandið okkar er á himnum," sagði hún, „og að því leyti erum við öll útlendingar hér. En gott er að mega vera þess fullviss, að allt, sem veldur okkur óyndi eða áhyggjum, megum við koma með til hans, því að hann ber umhyggju fyrir okkur. Ekkert er svo smátt, að Jesús vilji ekki sinna því, og ekkert svo stórt, að hann geti ekki ráðið fram úr því, ef við leitum á hans fund með það. Og yndislegast af öllu er að eiga friðinn hans. Skiljið þér mig, Margrét? sagði hún og leit blíðlega á Margrétu. „Þekkið þér af eigin reynslu, hve dýrmætur frelsarinn er?

    Margrét þagði. Elín horfði á hana og sá, að hún var í vandræðum með svarið.

    „Ég — — ég hef eiginlega hugsað fremur lítið um þessi efni, sagði Margrét loksins hikandi. „En ég veit, að þér segið þetta satt, og ég vildi gjarna eiga þennan frið, sem þér töluðuð um.

    „Þér getið eignast hann, Margrét, sagði Elín. „Frelsarinn heyrir og skilur hverja hreyfingu hjartans, hann skilur einnig öll tungumálin. Og hann þráir að gefa mannshjartanu frið. Engin sönn gleði er til án hans. Ég þrái ekkert eins heitt og það, að sem flestir fái að eignast þessa gleði; sjálf hef ég notið hennar lengi. Tárin glitruðu í augum hennar, þegar hún sagði þetta, en Margrét svaraði engu.

    „Viljið þér muna það, sagði Elín og leit í augu Margrétar, „að hvar, sem leið yðar liggur, þá elskar Jesús yður og vill gefa yður eilíft líf með sér?

    Hún stóð á fætur. „Nú er mál til komið að fara inn aftur," sagði hún.

    „Hér er svo undir rólegt," sagði Margrét og sat kyrr. Hún vildi fegin heyra Elínu tala meira um þetta.

    „Hjá honum er friður, sagði Elín, og lagði höndina á öxl Margrétar, „þar og hvergi annars staðar. En nú verðum við að fara inn til gestanna.

    __________

    Margrét var einsömul inni í svefnherbergi sínu og var að lesa bréf nýkomin að heiman.

    Móðir hennar skrifaði henni langt mál.

    „.... Elsku barnið mitt! Þú mátt nú ekki hugsa um neitt, nema að nota tímann sem bezt fyrir sjálfa þig, læra allt gott og nytsamlegt. Okkur hér heima líður öllum vel. Heyskapurinn gengur bærilega. Túnið spratt í góðu meðallagi. Ær og kýr gera gott gagn, svo nú er nóg til af skyri, og smjörsafnið vex óðum .... Allir biðja að heilsa þér, en einkum verð ég að muna eftir að skila kveðju til þín frá Páli gamla. Hann sér helzt ekki glaðan dag, síðan þú fórst, karlauminginn. .... Það er satt, — ég var nú rétt búin að gleyma aðaltíðindunum. Við fáum spánnýjan prest í haust. Ég sagði þér víst frá láti séra Jóns heitins. Nú er nýr prestur kominn í staðinn hans. Þeir bera nú helzt kvíðboga fyrir því, búhöldarnir hérna, trúi ég, að þessi nýi prestur, séra Björn, er mér sagt, að hann heiti, muni ekki vera eins góður búmaður og gamli maðurinn. En til hvers er verið að bera áhyggju út af öðru eins? Þetta kusu þeir, og nú sitja þeir með hann .... Skárra er það nú bréfið, Margrét mín! — Ég er svo hissa á sjálfri mér, sem aldrei nenni að skrifa. En ég á nú heldur ekki nema eina dótturina. Þú fyrirgefur þetta kattarklór, góða mín. Ég hef oftast haft annað á milli handanna um ævina en penna og blek, enda fer klórið eftir því.

    Pabbi þinn biður innilega að heilsa þér, hann hlakkar til, að þú komir heim, er ég hrædd um. Það gera nú reyndar fleiri en hann ...."

    Margrét braut bréfið saman og lagði það ofan í hirzlu sína. „Elsku foreldrarnir mínir, sagði hún í lágum hljóðum. „Betur, að ég gæti einhvern tíma endurgoldið eitthvað af allri fyrirhöfninni og stritinu fyrir mig. Þau eru bæði orðin allþreytt á búskapnum og öllu stritinu. Og hvert, sem hún leit, var alls staðar sama lífsbaráttan, allir voru háðir sama lögmálinu: „Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta." Og það var vissulega margt fleira en erfiðið! Öll mæðan og þreytan frá æskuárunum allt til ellidaga! Þau voru sárfá andlitin, sem geymdu brosið og barnsgleðina í öllum daglegum þrautum og umsvifum. Þegar öllu var á botninn hvolft, virtist henni Elín vera einna glöðust í bragði af því fólki, er hún þekkti. Eitthvað hafði hún þó heyrt talað um, að Elín hefði ratað í ýmsar raunir á yngri árum sínum. Og þó töldu sumir hana framúrskarandi siðavanda og stranga. Þær voru stundum að fleygja því á milli sín, vinnukonur kaupmannsins. Það var nú sízt að furða, þótt jafn vel menntuð stúlka og Elín hefði skömm á léttúðinni og kæruleysinu, sem of oft gerði vart við sig, bæði hjá þeim og öðrum. Og hvað sem öllu leið, þá gat Margrét ekki að því gert, hún hændist ósjálfrátt að Elínu. Og þó að spurningar hennar yrðu stundum talsvert nærgöngular, þá fann Margrét það, að ef hún eignaðist vináttu Elínar, ætti hún þar sanna og trygga vinstúlku.

    Enda leið eigi á mjög löngu, að með þeim tækist vinfengi. Margrét naut hinnar beztu tilsagnar hjá Elínu, sem geðjaðist einkar vel að íslenzku stúlkunni, er var svo háttprúð og einlæg.

    __________

    Þær gengu út í skóginn, utanvert við bæinn. — Kveldsólin sendi skáhalla geisla um skóginn. Trjálaufin voru orðin flekkótt, Ijósgræni sumarliturinn var að hverfa, en haustið tekið að lita þau. Þögn var og hljótt, líkt og á íslenzkum heiðum.

    „Ég kann bezt við skóginn í þessum búningi, sagði Margrét. „Hann hefur svo margt að geyma, og flekkóttu laufin kunna frá ýmsu að segja.

    „Þau þekkja bæði vor og haust lífsins, svaraði Elín, „en grænu laufin kunna eigi aðra sögu en söguna af sól og sumri.

    „Við skulum sitja hérna svolitla stund, sagði Margrét. „Héðan sé ég rönd af hafinu, og ég hef ávallt gaman af að horfa á sjóinn. Það er nú vegurinn heim til mín.

    „Langar yður eins oft heim nú og fyrst, þegar þér komuð," spurði Elín.

    „Nei, nú er ég orðin kunnug og á hér ýmsa kunningja, og þér eruð alltaf svo góð við mig," sagði Margrét hlýlega.

    Þær settust hjá hárri eik, er breiddi lim sitt umhverfis þær og skýldi þeim fyrir hafgolunni. Það þaut í skóginum, en sól stafaði á voginn í vestri, og lengra í burtu blikaði úthafið.

    „Þetta er yndislegt kveld," sagði Margrét. Elín var að horfa á laufin, er smáhrundu af trjánum í kringum þær, hún horfði með angurværum svip á trén, sem voru í sífellu að týna meiru og meiru af skrauti sínu. Elín var óvenju fálát. Hún var vön að vera svo glöð í bragði, en nú sýndist Margrétu jafnvel hrynja tár eftir kinninni, sem að henni sneri.

    Það var rúmt ár síðan Margrét fór að heiman. Hún kynntist Elínu í húsi bróður hennar, og bauð Elín henni vist með sér um lítinn tíma á heimili sínu. Þar hafði hún nú dvalið fáar vikur og unað sér hið bezta. Það var svo unaðslega rólegt á heimili Elínar, sami friðurinn, sem jafnan fylgdi henni, virtist hvíla yfir heimili hennar. Og hún breytti við Margrétu öldungis eins og hún væri eldri systir hennar. Augljóst var það á öllu, að Elín hugsaði mest um að gleðja aðra og bæta kjör þeirra. Margrét sá daglega dæmi þess.

    Allt í einu sneri Elín sér að Margrétu: „Kveldið er fagurt, sagði hún. „En það er einkennilegt, hvað ég verð stundum þunglynd einmitt á svona kveldum. Ég á ævinlega að vera glöð og varpa burtu áhyggjum og sorgum, og það hafa nú einmitt erfiðustu stundir mínar kennt mér, að svo miklu leyti, sem ég kann það. Þér skiljið, hvað ég fer, Margrét, og vitið, hver það er, sem gefur mér þrek og gleði á lífsbraut minni.

    „Hefur yður ekki alltaf liðið vel?" spurði Margrét.

    „Jú, mér hefur liðið vel, svaraði Elín. „Ég skal segja yður, hvað ég á við. Þér eruð svo ung enn þá, hver veit, hvað kann að mæta yður í lífinu, og skeð gæti, að sagan mín kenndi yður eitthvað. Það er réttast, að ég lofi yður að heyra kafla úr ævisögu minni. Ég vona, að þér sjáið þá greinilega, hver það var, sem bezt studdi mig, þegar mér fannst, að vonir mínar hefðu liðið skipbrot að fullu og öllu.

    Hún þagði við ofurlitla stund, en tók svo aftur til máls.

    „Þegar ég var á yðar aldri, kynntist ég ungum manni. Við felldum ástarhug hvort til annars og hétum hvort öðru ævilöngum trúnaði. Ég var mjög hamingjusöm. Mér fannst lífið brosa við mér. Hvert blóm, sem varð á vegi mínum, jók gleði mína, og mér sýndist sólargeislarnir enn þá bjartari en áður. Sólskin gleðinnar bjó í hjarta mínu.

    Ég sagði föður mínum strax frá gæfu minni. Unnusti minn var efnismaður og bezti drengur. Faðir minn tók mig í fang sér og lagði höfuðið á mér undir vanga sinn. Hann var miklu alvarlegri en ég hafði búizt við, og hann sagði ekki eitt orð.

    „Því segirðu ekkert, pabbi? Ætlarðu ekki að óska mér til hamingju?" sagði ég.

    „Guð gefi þér alla sanna gæfu og gleði, barnið mitt, sagði pabbi minn þá, „en mundu það, góða mín, að gæfan og gleðin fæst hvergi, nema hjá guði.

    „Ég veit það, pabbi, sagði ég, „og nú hefur Guð gefið mér ástríkan unnusta, og við ætlum að lifa hvort fyrir annað.

    „Lifðu Guði fyrst og fremst," sagði pabbi og strauk hendinni um höfuðið á mér. Ég leit á hann. Tár voru í augum hans. Því var pabbi svona þungbúinn og alvarlegur? Mér varð hálfórótt.

    „Ertu óánægður með hann?" spurði ég hikandi.

    „Er hann trúaður maður, pilturinn þinn?" spurði pabbi þá.

    Trúaður! Satt að segja, vissi ég það ekki. Við höfðum aldrei farið neitt út í þá sálma. Við áttum auðvitað margt ótalað, en framtíðin var eign okkar.

    „Ég veit það eiginlega ekki," sagði ég.

    „Veiztu það ekki? sagði hann með sorgbitinni rödd. „Hefurðu gefið manni hönd þína og hjarta, sem á svo ef til vill engan hlut með þér í æðstu gæðum lífsins? Hefurðu aldrei spurt hann, hvort hann elski frelsarann?

    Það hafði ég ekki gert. Og hverju ætli Karl hefði svarað slíkri spurningu?

    „Spurðu hann að því. Finnst þér ekki eðlilegt, að pabba gamla langi til að vita, í hvaða hendur hann lætur ástkæra barnið sitt?"

    Ég þóttist skilja hann vel. En eigi að síður fannst mér, að pabbi hefði átt að segja eitthvað annað við mig í þetta skiptið. Um kveldið sofnaði ég með tár á kinnum.

    Við Karl ráðgerðum að opinbera trúlofun okkar um jólin.

    Hann kom stundum heim til okkar. Mér fannst hann oft verða hálffeginn, þegar pabbi var ekki viðstaddur. Pabbi var þó ævinlega vingjarnlegur við Karl, en hann talaði oft um trúmál við hann og ýmisleg alvarleg efni. Karl tók því svo dæmalaust vel, og ég var í sjöunda himni af ánægju. Það var svo sem auðvitað, að hann væri í raun og veru trúaður maður, þótt hann væri ekki símasandi um þess konar efni.

    Við fórum einu sinni fagran sunnudag skemmtiferð út í skóg ásamt fleiru ungu fólki. Við skemmtum okkur hið bezta. Á heimleiðinni heyrðum við kirkjuklukkunum hringt til síðdegis guðsþjónustu. Ég mundi þá allt í einu

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1