Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Sögur frá Skaftáreldi
Sögur frá Skaftáreldi
Sögur frá Skaftáreldi
Ebook629 pages10 hours

Sögur frá Skaftáreldi

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

"Á Síðunni var um þessar mundir mikið um fyrirburðasögur. Mörg ár undanfarið höfðu ókennilegar vatnavættis sézt í Feðgakvísl í Meðallandi. Nú bárust líka heldur en ekki mergjaðar sögur af skrímsli, sem lágu í Hólmsá. Sögur gengu miklar um rauðan sjó við Vestmannaeyjar."
Sögur frá Skaftáreldi er fyrsta sögulega skáldsaga Jóns Trausta. Hér eru Skaftáreldar, eldgos sem stóð frá 1783 - 1784, sögusviðið en samhliða náttúruvá glíma sögupersónur við miklar ólgur í sínu persónulega lífi. Þessi tvíræða og margbrotna skáldsaga er bæði fróðleg og skemmtileg, sérstaklega fyrir lesendur sem hafa áhuga á jarðhræringum, sögulegum skáldsögum og sögu Íslands.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateDec 13, 2023
ISBN9788728281604
Sögur frá Skaftáreldi

Related to Sögur frá Skaftáreldi

Titles in the series (14)

View More

Related ebooks

Reviews for Sögur frá Skaftáreldi

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Sögur frá Skaftáreldi - Jón Trausti

    Sögur frá Skaftáreldi

    Cover image: Unsplash, public domain

    Copyright © 2023 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728281604

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrieval system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    FORMÁLI

    Sögur þær, sem hér birtast, eru auðvitað fyrst og fremst skáldsögur. Sannir atburðir eru aðeins notaðir fyrir umgerð. Samt vildi ég feginn, að þær bæru þeim nokkurn sannan fróðleik, sem ekki lesa sagnafræðirit að jafnaði.

    Þegar rita skal sögur frá liðnum öldum, hljóta eftirgreindar spurningar að koma til greina:

    1. Hverju trúðu sögumennirnir og um hvað hugsuðu þeir mest (kirkjutrú, þjóðtrú, hjátrú, lífsskoðanir, hugmyndir um dygð og skyldu o. fl.)?

    2. Hvað vissu þeir — eða gátu vitað — af því, sem menn vita nú alment (þekkingarstig, bókvísi, andleg víðsýni o. s. frv.)?

    3. Hvernig voru ytri lífskjör þeirra (atvinna, húsakynni, klæðnaður, matarhæfi, verzlun, samgöngur o. fl.)?

    4. Hvernig var félagslífið á dögum þeirra (landsstjórn, héraðsstjórn, safnaðarlíf, nágrannasambúð, siðir og hættir, skemtanir o. fl.)?

    5. Hvaða menn voru þeim samtíða og á hvaða aldri voru þeir?

    6. Hvað gerðist merkilegast um daga þeirra?

    Engum höfundi er vorkunn að vita þetta alt um samtíð sína. Öðru máli er að gegna um löngu liðnar aldir, sem litlar upplýsingar hafa eftir skilið og þær mjög dreifðar.

    En þekkingin á þessum atriðum er grundvöllur hverrar sögu, þó skáldsaga sé. Skáldsaga er ætíð menningarsaga.

    Ég veit, að sögufróðir menn virða mér til vorkunnar, þó að fáfræði kunni að kenna hjá mér um síðari hluta 18. aldar. Þeir vita, hve erfitt er að afla sér slíks fróðleiks. Ég mun leitast við að auka þekkingu mína undir næstu bók og tek þakksamlega hverri bendingu.

    Af því að hér er ekki um vísindarit að ræða, hirði ég ekki um að tilgreina heimildir fyrir því, sem þó er sögulega satt. Þó vil ég geta þess með skyldri þakklátsemi, að lýsingarnar á Skaftáreldinum eru í öllum verulegum atriðum teknar eftir ritum Jóns prófasts Steingrímssonar (1728—1791), Lbs. 1552 4bl. og SJS. 422 4bl., sbr. Safn t. s. Ísl. IV. 1. og Lbs. 182 4bl. — Nöfn nokkurra manna, sem þá voru uppi á Síðunni, hefi ég leyft mér að nota fyrir nöfn á sögumönnum mínum og vona, að afkomendur þeirra afsaki það.

    Kærar þakkir á bókin að flytja öllum þeim, sem lánað hafa mér bækur og handrit eða gefið mér munnlegar skýringar. Og kærar þakkir til Skaftfellinga fyrir gestrisni og góðar viðtökur, þegar ég leitaði þangað fyrir fám árum.

    Langafrjádag 1912.

    Höfundurinn.

    SÖGUR FRÁ SKAFTÁRELDI

    FYRSTI ÞÁTTUR

    1. BLESSAÐ VORIÐ.

    Vorið 1783 var eitt hið blíðasta og yndislegasta, sem gamlir menn mundu eftir á Suðurlandi. Allan seinni hluta vetrarins hafði veðráttan verið undur mild, þó að stundum væri hún umhleypingasöm, og síðan á einmánuði höfðu gengið einmuna blíður, svo að varla sá dagamun.

    Í flestum sveitum á Suðurlandsundirlendinu hafði fénaður ýmist gengið sjálfala eða þá sama sem sjálfala allan þennan vetur. Sumstaðar höfðu lömb alls ekki verið tekin í hús og kunnu ekki að éta hey. Annarstaðar höfðu að vísu lömb verið tekin á gjöf og það rýrasta af fénu, en hitt ekki.

    Í Skaftafellssýslunum var það orðin rótgróin venja og lenzka að láta fé ganga úti vetur og sumar og gefa því á gaddinn, þegar allra harðast var. Menn sögðu, að féð yrði harðfengara og héldi sig betur að haga, ef það væri svo hart leikið. Margir höfðu engin fjárhús á jörðum sínum og sumir höfðu rifið þau niður, sem áður höfðu verið. — Þennan vetur hafði að minsta kosti ekki þurft fjárhúsa við, og alt fram á vordaga gekk fé Skaftfellinga í fegursta frelsi um búfjárhaga þeirra. Enda var það fannhvítt á lagðinn, ljónstygt og líktist villikindum.

    Til sjávarins hafði árgæzkan verið lík. Framan af vetrarvertíðinni voru að vísu ógæftir, og leiddi af þeim skipatjón á Suðurnesjum, er kostað höfðu samtals 14 manna líf. Slíkri blóðtöku og þaðan af meiri voru sjómenn orðnið vanir og settu ekki fyrir sig. Þegar á leið vertíðina, bötnuðu gæftir um alt Suðurland, og tók þá að aflast, svo að hlutir sjómanna urðu alstaðar hærri en í meðallagi.

    „Siglingin" var að vísu ekki komin, — það er að segja kaupförin með sumarvörurnar. Um lok vetrarvertíðar var ennþá dæmalaust að sjá slíka gesti. Þó þjakaði nú ekki verzlunarólagið eins sárt og oft hafði áður verið í tíð þeirra manna, sem enn voru á lífi. Almenna verzlunarfélagið — Mjölbótafjelagið, háloflegrar minningar! — hafði látið verzlun Íslands af höndum fyrir nærri því áratug síðan (1774). Síðan var verzlunin rekin á konungs kostnað. Þótti þá skifta til batnaðar að ýmsu leyti, þótt margra bóta þyrfti enn við. Að minsta kosti voru nú eftirlegukaupmenn á öllum helztu höfnum með nokkrar vörur undir höndum, svo að ekki var loku fyrir það skotið, að menn gætu náð í ýmsar nauðsynjar sínar, þegar þeir voru á ferð, á hverjum tíma árs sem var. Þetta var þeim mikil gleði, sem mundu daga Verzlunarfélagsins og Hörmangarafélagsins. Nú voru allsnægtir — sem þá var kallað — geymdar í kóngsverzlunarhúsunum á Eyrarbakka og í Vestmannaeyjum.

    Og um vertíðarlokin, þegar bændur sóttu vermenn sína til sjávar, gátu þeir notað ferðina til að koma við í kaupstaðnum og taka bráðustu nauðsynjar sínar, — að minsta kosti fá sér á kútinn.

    Og „sigling" var komin, — þó að ekki væru það kaupskipin. Síðustu vikur vertíðarinnar höfðu lágbyrðar og hásigldar enskar duggur siglt inn á fiskimiðin. Þeim fjölgaði daglega. Þær voru vel út búnar að heiman, bæði að vistum og veiðarfærum, og það var undarlega freistandi að renna sér að hliðinni á þeim, beint fram undan nefjunum á hreppstjórum og sýslumönnum, vel birgur af sokkum og sjóvetlingum. Menn skildu hvorir aðra — einhvern veginn, og það nægði. Ekki fóru margar sögur af því, sem þar fór fram, en báðir skildu ánægðir.

    Árin á undan höfðu verið uppgangsár fyrir Suðurlandssveitirnar. Hnekkir sá, sem sumar þeirra höfðu beðið við það, að Katla gaus fyrir 28 árum (1755) og Hekla fyrir 17 árum (1766), var nú bættur að mestu. Enda hafði sandurinn úr Heklu fallið mestallur yfir óbygðir og gert aðaltjónið fyrir norðan heiðar. Þessir viðburðir voru að vísu enn í fersku minni og þóttu feitir til frásagna, en ekki stóð nú lengur geigur af þeim.

    Að einu leyti hafði Sunnlendingafjórðungur beinlínis auðgast á kostnað annara landsfjórðunga síðustu árin. Fjársýkin hafði geisað um Norðurland og mikinn hluta Vesturlands um mörg ár og að lokum gereytt allar sveitir að sauðfé allar götur austur að Þjórsá. Af þessu hafði leitt hallæri og mannfelli í mörgum héruðum. En þetta varð Rangæingum og Skaftfellingum fyrir hinu mesta ári. Þeir höfðu fjölgað fé sínu á þessum árum, og nú skapaðist því markaður. Norðlendingar komu suður hópum saman til fjárkaupa. Buðu þeir fjáreigendum gull og gersemar fyrir kindur sínar og horfðu ekki svo mjög í það, þó að verðið hækkaði. Margir þeirra lögðu á stað heimleiðis með allálitlegar hjarðir. Einum hóp þessara fjárkaupmanna barst á, er þeir lögðu norður á Kjöl seint um haustið 1780, 5 saman með 12 hesta og 200 fjár, er þeir höfðu keypt í austurhluta Rangárvallasýslu og vesturhluta Skaftafellssýslu. Urðu þeir úti á fjöllunum með alt féð. Það voru Reynistaðarbræður.

    En Skaftfellingar undu vel hag sínum. Langt var síðan þær sveitir höfðu staðið með öðrum eins blóma. Langt var síðan þar hafði verið jafnalmenn vellíðan. Og aldrei hafði verið þar jafnmikið af dölum og spesíum.

    Yfir þessar sælu sveitir breiddi nú blessað vorið 1783 friðarfaðm sinn. Snjóinn tók upp óvenju snemma. Grasið þaut upp.

    Sjór og land lofuðu öllu góðu.

    En himinninn —?

    Marga daga þessa vors var hann undarlega tvíræður.

    Þó að sólskin væri, logn og blíða, var heiðríkjan aldrei hrein, og sólin naut sín aldrei til fulls. Jafnan var móða eða mistur í loftinu, heitt og mollukent. Sló á það einkennilega dýrðlegum litum um sólsetur og sólarupprás. Gylliniskýjaslæður voru þá með öllum sjóndeildarhringnum og langt upp á loft, eldrauðar neðst, en gular og lýsandi efst. Í þessari gullmóðu óð sólin fyrri og síðari hluta dags, gegnum hana féllu geislar hennar eins og gegnum sáld. Þeir jöfnuðust um alt á láði og legi, svo að alt varð jafnlitt, — engir skínandi blettir, engir skarpir skuggar. Landið var alt í lognheitri ljósmóðu, sem gerði sýnið óskýrt og fjöllin öll jafnblá. Við hafsbrún rann sjórinn og loftið saman í þessari móðu. Nær landi liðu lognöldurnar áfram, glampalausar, skuggalausar, þungar og hægfara, eins og blýöldur.

    Margir kendu þessa móðu í loftinu því, að eldsumbrot hefðu verið á sjávarbotni út af Reykjanesi. Þó voru sagnirnar um það, sem bárust á milli manna um vorið, svo óljósar og kynjakendar, að gætnir menn þorðu engan trúnað á þær að leggja. Þeir, sem komu úr veiðistöðvunum, sem næstar voru Reykjanesi, þóttust einskis hafa orðið varir, en óvanalega votviðrasamt hafði verið þar. Aðrir þóttust hafa heyrt bresti og blástra langt vestur í hafi og orðið varir við undarlega ókyrð í sjónum. En þeir, sem verið höfðu vermenn í Vestmannaeyjum, þóttust hafa séð undir vertíðarlokin, þegar sýni var skýrast, hvar svartir og hvítir reykir stigu upp úr sjónum við hafsbrún, höfuðlangt vestur af yztu fjöllum á Reykjanesi. Höfðu þessir mislitu mekkir tvinnast saman í loftinu, verið miklir fyrirferðar og ógurlegir álits. Síðan höfðu þeir jafnast um loftið og orðið að bliku, sem sólin gekk ofan í.

    Þessar sögur bárust í ýmsum myndum austur um sveitirnar með vermönnum þeim, sem að sunnan komu. Að austan komu keimlíkar sögur af einhverjum ósköpum, sem þar væru að gerast í óbygðum. Austanmenn stóðu fast á því, að þessi móða væri austan af jöklum. Hana legði upp um glufur og jökulsprungur, og þegar gola stæði af jöklunum, fylgdi henni megnasta jökulfýla, enda væru margar af jökulánum óvanalega miklar og þykkar af jökulkorgi.

    Og norðan um land komu þær fregnir, að móðan kæmi norðan af hafi og ókennilegir litir sæjust á loftinu með allri hafsbrún í norðrinu ¹ ).

    Úr öllum þessum sögum varð einskonar kynjasöguhrærigrautur, sem enginn botnaði í. Þó var þetta nóg til þess að æsa ímyndunarafl margra manna, svo að allskonar undur bar fyrir þá í vöku og svefni. Auðvitað voru einhver ósköp í aðsigi. Á allskonar táknum mátti ráða, að óáran, hallæri, drepsótt eða landplága væri í aðsigi. Jafnvel veðurblíðan spáði öllu illu! Að vísu voru þessar illspár árlegt og daglegt brauð, ekki meiri í þetta skifti en önnur, en altaf nægilegar til þess að halda við í alþýðu stöðugum kvíðahrolli og sárasta beyg. Sumir fyltust spámannlegri andagift, sögðu, að dómsdagur væri í nánd, þessi gullna móða á loftinu boðaði komu guðs sonar í skýjum himinsins til að dæma lifendur og dauða.

    Ekkert af þessum illspám lét blessað vorið á sannast enn sem komið var. Það brosti við í öllum myndum náttúrunnar, hvert sem litið var. Það brosti frá tærum uppsprettulindum, sem spegluðu sjálfa sólina. Það brosti í beljandi straumum, sem runnu ofan úr fjöllunum, þar sem snjórinn var að renna sundur. Það brosti frá grænum brekkum og gróandi bökkum, þar sem grasið hækkaði og blómin voru að opna augun, þar sem fannhvítur fénaður dreifði sér og lömbin léku sér, þar sem hryssurnar gengu með hábeinótt folöld og básstirðar beljur skvettu sér upp. Það brosti frá vatnaósunum, þar sem spikaðir selir lágu á heitum sandinum og bökuðu sig í sólskininu, frá bergvatnsánum, þar sem silfurglitrandi laxar hentu sér upp úr stríðasta strengnum, og frá fiskimiðunum, þar sem bátaseglin blikuðu.

    Og það brosti í augum sveina og meyja, sem litu hvort til annars, — ósnortin af kvíða fyrir landplágum, drepsóttum og dómsdegi, með hugann fullan af ást og þrá og framtíðardraumum.

    Blessað vorið!

    2. FÚSI.

    Einn dag um vorið, rétt eftir vertíðarlokin, snemma morguns og í blíðu veðri, var maður á ferð gangandi austur um Mýrdalssand. Hann hét Vigfús Jónsson og átti heima í Holti á Síðu.

    Að leggja á sandana í Skaftafellssýslu er líkast því að leggja út á reginhaf, taka stefnur af útnesjum, framan við breiða flóa, og hafa aðeins hliðsjón af landinu. Þessar jöfnu sandeyðimerkur eru seinstignar gangandi mönnum og lestamönnum. „Land" það, sem lagt er frá, er lengi að fjarlægjast og sporadrjúgt undir næsta nesið. Mikið reynir á þolinmæði og þrautseigju, áður en sú leið er öll á enda stigin. Þó er ferðin bærileg, þegar bjart er til fjalla og sandarnir auðir og þurrir. Nærri má geta, hvernig muni vera að fara yfir þá í dimmviðri, sandfoki, ófærð eða vatnavöxtum.

    Mýrdalssandur er eitt af þessum sandhöfum. Eins og svartur sjór liggur hann milli fjalls og fjöru, hátt upp í þingmannaleið á lengd og líklega annað eins á breidd sumstaðar. Lágar sandöldur liggja um hann þveran frá jöklum til sjávar og vatnsleyningar á milli. Þar hafa jökulhlaupin miklu skrifað sögu sína. Yfir að líta er alt svart og slétt. Eyjar tvær standa upp úr sandinum. Hjörleifshöfði er framar og þó langt frá sjó. Þar segir Landnáma, að fjörður hafi verið og náð inn að höfðanum, þegar þeir komu þangað Hjörleifur og Ingólfur. Höfðinn er fagur á að líta, hvaðan sem á hann sér, líkur kastalaborg mikilli, hár og hnarreistur; enda hefir hann boðið mörgum skellinum byrginn. Að ofan er hann skrúðgrænn og blómlegt býli vestan í honum, en með hamrabrúnunum er fjöldi fugla á sveimi. — Hafursey er ofar á sandinum og sýnist skaga fram úr fjöllunum, þó að breiður dalur sé á milli. Hún er miklu hærri en höfðinn og gnæfir tignarlega yfir sandana. En fátæklega er hún til fara. Jökulhlaupin hafa beljað um hana beggja megin og stundum yfir hana. Þau hafa flett hana klæðum, — rifið burtu jarðveginn frá rótum hennar, skorið neðan af hinum fögru, þykku grastorfum í hlíðunum, svo að sumar þeirra hafa runnið niður. Nú standa þar víðast hvar berar og blásnar skriðurnar eftir.

    Vigfús var kominn austur fyrir Múlakvísl, — sem um þær mundir flutti einnig mestalt Sandvatnið til sjávar, — og stefndi efri veginn austur um sandinn, þann veg, sem liggur austur í Skaftártungu. Í þá daga var neðri leiðin fjölfarnari, og liggur hún austur í Álftaver.

    Sandurinn var orðinn auður og víðast hvar veltiþur. Sumstaðar sáust þó enn langar og mjóar fannir í leyningunum, blakkar af sandroki. Sumar þeirra voru gamlar skarir að vatni, sem runnið hafði þar áður um vorið, en var nú „hlaupið fram".

    Vigfús hafði róið um vetrarvertíðina vestur í Selvogi og fengið góðan hlut. Um vertíðarlokin sendu bændur af Síðunni eftir vermönnum sínum og afla þeirra. Vigfúsi hafði þá verið sendur einn hestur undir sjóföng sín og plögg, en enginn til reiðar. Hann skildi ekki, hvernig á þessu stóð, en varð að láta sér það lynda. Hann hafði þó orðið félögum sínum samferða austur, það sem af var leiðinni, þó að hann væri gangandi, en þeir ríðandi, og fengið hjá þeim flutning yfir árnar. Þó fanst honum förumannsbragur á ferð sinni; enda varð hann að þola ýmsar glósur. Hann var því búinn að fá nóg af samferðinni fyrir löngu, og meðfram þess vegna gerði hann sér erindi upp í Skaftártungu og skildi við samferðamennina á eyrunum við Múlakvísl. Þá voru ekki eftir meiri vötn en svo, að hann treysti sér til að komast yfir þau án þeirra hjálpar.

    Vigfús var piltur um tvítugt, mjög bráðþroska, mikill vexti, knálegur og vel limaður. Hann var dimmleitur í andliti og brúnamikill, en þó ekki ófríður. Göngulagið var að jafnaði nokkuð þungt, og gekk hann oft lotinn og hugsandi. Þó að hann gengi laus, var jafnan sem hann bæri blýþunga byrði. Svipurinn var undarlega þunglyndislegur, og oft var sem kendi þar kvalafullra hugsana. Þó brá út af þessu, einkum þegar hann var einn. Þá liðu draumkend gleðibros um andlit hans og hann var sem viðutan yfir hugsunum sínum. Fyrir þetta undarlega lundarfar var hann ertur og hæddur. Það tók hann sér nærri og gleymdi þeim seint, sem eitthvað gerðu á hluta hans. Dulur í skapi og einrænn hafði hann verið frá barnæsku, en það fór í vöxt með aldrinum.

    Þeir, sem vissu allar ástæður Vigfúsar, hefðu átt að geta skilið raunablæ þann, er hvíldi á svip hans og lundarfari. En til þess skorti flesta nærgætni, og Vigfús bað sér engrar vægðar.

    Hann mundi ekkert eftir móður sinni. Hún var dáin fyrir hans minni. Þau faðir hans og hún höfðu verið gift, búið saman og átt hann einan barna. Þá hafði það borið til tíðinda, að kvensnift nokkur, Guðfinna að nafni, hafði spilt hjónabandi þeirra. Móðir Vigfúsar var veikgeðja og tók sér þetta svo nærri, að það dró hana til dauða. Síðan bjuggu þau saman, faðir Vigfúsar og Guðfinna, og höfðu drenginn hjá sér. Sambúð þeirra spiltist fljótt, og Jón hneigðist meira og meira að drykkjuskap og svalli. Jón var vel gefinn maður til sálar og líkama, líkur því í útliti, sem Vigfús var nú, en enginn stillingarmaður og enginn gæfumaður. Þó fékk hann alment gott orð, þar til hann tók saman við Guðfinnu. Þá fór hann að leggja lag sitt við misindismenn, sem oft vill verða í drykkjuskapnum, og átti með þeim ýms ískyggileg leyndarmál. Þeim þótti heldur en ekki fengur í jafnvasklegum manni og brýndu hann fast til áræðis og æfintýra. Orð fór og af því, að ekki mundi Guðfinna letja hann. Loks kom svo, að Jón braut upp hús á Eyrarbakka og stal bæði vörum og peningum. Var hann þá tekinn og dreginn fyrir dóm. Hann sagði ekki til félaga sinna, en bar sökina einn. Komu þá upp um hann fleiri misgerðir, sem lágu ódæmdar, og sumir af fyrri félögum hans báru vitni á móti honum. Hann var þá dæmdur sem stórglæpamaður, kaghýddur og brennimerktur. Síðan var hann fluttur í járnum út á skip og sendur á Brimarhólm til æfilangrar þrælkunar.

    Nú hafði það frézt til landsins, að hann væri andaður á Brimarhólmi. Líklega hefir sú frétt komið með síðustu skipum sumarið áður, en Vigfús frétti það ekki fyr en hann kom suður á vertíðinni.

    Þessi afdrif föður Vigfúsar píndu hann hvíldarlaust. Hann mundi vel eftir föður sínum og vissi, hve blíður og góður hann hafði getað verið, þegar hann naut sín. Hann þekti drenglyndi hans, karlmensku og hugrekki, og hann mundi eftir mörgu, sem þeim hafði farið á milli, Guðfinnu og honum. Altaf var hann viss um, að hann hefði verið góður maður. Hann sá hann í huganum strengdan nakinn ofan á tréblökk og húðstrýktan, og hann kiptist við í hvert skifti sem hann hugsaði um hvítglóandi þjófabrennimarkið, sem sett hafði verið á bert ennið á honum; honum fanst það vera sett á ennið á sér sjálfum, bundnum og varnarlausum, brenna sig á svipstundu inn í bein og brenna sjálft beinið með ósegjanlegum kvölum, sem læstu sig um alt höfuðið og gerðu hann örvita. — Og þetta brennimark hafði hann tekið í arf eftir vesalings föður sinn. Það var bölvunarmark á honum, sem allir sáu og allir vissu um. Þess vegna hæddu menn hann og atyrtu, þess vegna gekk hann einn og vinalaus og faldi hugsanir sínar og tilfinningar fyrir öðrum mönnum.

    Og nú kveið hann fyrir því að koma heim til sín. Að vísu hafði Guðfinna fóstra hans verið honum góð á sína vísu og alið önn fyrir honum í uppvextinum. En samt hataði hann hana vegna föður síns og móður og hafði einhvern óljósan beyg af henni.

    Þetta var hin blýþunga byrði, sem hann gekk jafnan lotinn undir.

    3. MAÐURINN Í HAFURSEY.

    Þegar Vigfús nálgaðist tána á Hafursey, þá er lengst skagar fram á sandinn, sá hann þar uppi í grastorfu, sem er framan í fjallinu, eitthvað liggja hreyfingarlaust, sem helzt líktist mórauðu ullarreyfi.

    Torfan lá spölkorn uppi í brattanum fyrir ofan sandinn. Lá götuslóði upp í hana, því að þar var algengur hvíldarstaður ferðamanna og einu grasstráin á allri leiðinni yfir Mýrdalssand. Vigfúsi datt fyrst í hug, að einhverjir ferðamenn hefðu skilið þar eftir farangur. En hvað sem þessu leið, ætlaði hann sér upp í torfuna og hvíla sig þar á mjúku grasi ofurlitla stund.

    Þetta, sem uppi í torfunni lá, var maðurí sauðmórauðum fatagörmum. Hann lá á hliðinni með þverpoka undir höfðinu og var náfölur. Í fyrstu hélt Vigfús, að hann væri dauður. Það var engin sérleg nýlunda í þá daga að finna umrenninga dauða úti á víðavangi.

    Hægt og hægt færði Vigfús sig nær manninum og leit framan í hann. Þá þekti hann, hver það var. Það var Ólafur gamli Ísleiksson, hálfbróðir Þórarins bónda í Skál á Síðu og Sigríðar húsfreyju í Mörtungu, miklu eldri en þau.

    Ólafur var rýr og heilsulítill vesalingur og hélt sér uppi á flakki. Allir þektu hann að frómleik og ráðvendni, og eiginlega var hann hvergi illa séður, þrátt fyrir vanstilta geðsmuni.

    „Sæll vertu, Ólafur minn!" mælti Vigfús ofur lágt, svo að kveðjan skyldi ekki vekja Ólaf, ef hann svæfi.

    „Guð blessi þig!" mælti Ólafur nokkuð stygglega. Hann opnaði augun til hálfs, en hreyfði ekki höfuðið af pokanum.

    „Ég var hræddur um, að þú værir dauður".

    „Ó-ekkí. Ég er lífseigur. Ég á eftir að lifa eitthvað dálítið ennþá, — þeim til bölvunar, þó lítið sé".

    „Hverjum?"

    „Við skulum ekki tala meira um það. — En heyrðu. — Viltu ekki kaupa af mér vasahníf?"

    „Nei".

    „En sálmabók?"

    „Sálmabók, ha? Hvern þremilinn ætti ég að gera með sálmabók?"

    „Þér til sáluhjálpar, maður! Það er nýprentuð flokkabók frá Hólum með fjölda af ágætum sálmaflokkum. Þar eru Passíusálmar, Hugvekjusálmar, Fæðingarsálmar og Krossskólasálmar og fjöldi annara sálma. Hreinasta andans feitmeti".

    „Það má einu gilda. Ég hefi ekkert með hana að gera".

    „Jæja, farðu þá til helvítis!"

    Vigfús brosti. Hann þekti Ólaf gamla.

    Svo færði hann sig ofurlítið frá Ólafi. Þar settist hann niður og horfði áhyggjufullur út á sandinn.

    Þar sá hann enn til lestarinnar, sem hann hafði skilið við. Hún var komin austur á móts við Hjörleifshöfða. Önnur lest var vestar á sandinum og stefndi sömu leið. Hin þriðja var að leggja upp frá Hjörleifshöfða, og fjórða kom austan sandinn úr Álftaverinu. Engin lest var á efri veginum.

    Þaðan sem hann sat lá sandurinn flatur fyrir auganu eins og útbreitt landabréf. Þaðan sást það betur, hvílík feikna eyðimörk hann var, en meðan menn óðu sandinn í skóvörp þar niðri á troðningunum. Og þaðan blasti við skýrt yfirlit yfir vatnafarvegina, sem tvinnuðust um hann allan.

    Menn finna sárt til ömurlegrar auðnar og allsleysis við að líta yfir þetta heljarveldi dauðans og auðnarinnar, þar sem ekkert strá vex og engin skepna staðnæmist. Á slíkri reginauðn verður lítið úr hverjum manni. Lestirnar, sem Vigfús horfði á suður á sandinum, voru eins og aflangir smádeplar, — smáletursorð á þessari miklu blaðsíðu. Nokkrar lengdir sínar þyrftu þær að fara, áður en sandurinn þryti. Framan við lestirnar rann sandurinn saman í mjóa mön vegna fjarlægðarinnar, þó að hann skifti mörgum röstum, og framan við hann glitti í hvítan brimgarðinn. Þar fyrir utan sást ofurlítil skínandi brún af hafinu.

    Vigfús mældi með augunum leiðina, sem lestin hans ætti eftir austur í Álftaver. Hún var svo löng, að hún mundi treinast lestinni fram undir miðaftanið að minsta kosti. Austast í sandflæminu grilti í grænleitar slæður. Það var Álftaverið. Þar austur af sást Meðallandið í hillingum, með vötnum og söndum eins og lagskiftum, bragandi blikum, en austan við alt gnæfði Öræfajökull eins og bláhvítt vorský. Þaðan lá aftur heiðblá fjallaröðin vestur fyrir norðan Síðuna. Alt voru það gamlir góðkunningjar Vigfúsar. Lómagnúpur var austast með hvössum eggjum, Skálarfjall og Árfjall vestast. Litla, bláa typpið austan við Skálarfjall var Holtsborg, — beint upp af bænum í Holti.

    „Gefðu mér eina tölu upp í mig, lagsmaður", mælti Ólafur gamli og reis upp við olnboga.

    Vigfús dró tóbak upp úr vasa sínum og gaf karlinum að bíta í.

    „Skrattinn sleppi þér, hrófið mitt, — og mér líka", mælti Ólafur og kjamsaði á tóbakinu.

    „Jæja, lagsmaður, mælti hann eftir dálitla þögn og teygði makindalega úr sér. „Þú ert víst að fara heim úr verinu?

    Vigfús kvað já við því.

    „Komstu ekki við í kaupstaðnum?"

    „Jú, ég gekk þar um".

    Ólafur reis upp meira en til hálfs og starði á hann gráðugum augum.

    „Þá áttu eitthvað í staupinu?" mælti hann.

    Vigfús brosti, en þrætti ekki fyrir það.

    „Guðsþakkaverk væri það nú, lagsmaður, að hressa gamlan vesaling, sem er að dragast áfram manna á milli með veikum burðum — og það yfir þennan bölvaðan sand".

    Nú voru öll hortugheit horfin úr rómi Ólafs. Hann bað auðmjúklega bæði með orðum og augnaráði.

    Vigfús tók til brjóstvasans innan á treyjunni. Þar átti hann fleygmyndað glas, fult upp í axlir af brennivíni.

    Þá var engin bindindisöld á landi hér. Enginn þóttist maður með mönnum, sem ekki hafði glas í vasanum, þegar hann var á ferð. Því meiri höfðingsskapur sem ílátið var stærra, og margir sómabændur höfðu að jafnaði tunnu á stokkum heima hjá sér. Tóbak og brennivín þraut aldrei í kaupstöðunum, og nærri því á hverjum bæ til sjávar og sveita var prangað með tóbak og brennivín. Prestar og sýslumenn höfðu oft eigulegar aukatekjur af þeirri verzlun, þó að lítið bæri á. Jafnvel biskupar og lögmenn höfðu verið af þessu orðaðir.

    Vigfús rétti Ólafi pelann. Ólafur tók úr honum tappann, signdi sig og þuldi nokkur bænarorð; síðan slokaði hann ofan í mitt glasið.

    „A-ha-hæ — Guðs ást fyrir, lagsmaður!" mælti Ólafur og rétti Vigfúsi glasið.

    „Súptu á betur, karlvesalingur, mælti Vigfús. „Ég á ofurlítið meira til en þetta.

    Ólafur gaf ofurlitlum þverpoka, sem Vigfús hafði bundinn yfir öxlina, hýrt hornauga. Þar mótaði skýrt fyrir stærra íláti en þetta var. Svo dreypti hann ögn á glasinu og fékk Vigfúsi það aftur.

    „Hjartans þökk fyrir", mælti hann og rétti Vigfúsi höndina. Hún var vöðvarýr og slyttumjúk. Svo handmjúkir voru ekki aðrir en höfðingjar — og flækingar.

    „Guðs ást fyrir! mælti Ólafur aftur. Nú var hann orðinn glaðari í bragði en hann hafði verið. „Ég hefi nú legið hér síðan í gærkvöldi og skolfið af kulda í alla nótt. Ég vildi, að þetta hefði verið komið til mín þá. Ekkert gat ég sofnað fyr en í morgun, að sólin fór að skína á skrokkinn á mér. Og matarlaus hefi ég verið síðan ég fór frá Höfðabrekku laust eftir dagmál í gær.

    Vigfúst leysti nú af sér þverpokann og náði í bita af nesti sínu til að hressa karlinn á. Sjálfur fékk hann sér bita um leið. Á meðan sagði Ólafur honum frá því, hvernig á ferð hans út yfir sand hefði staðið. Hann kvaðst fara slíka langferð einu sinni á ári, og þá helzt um þann tíma, þegar lestaferðir væru tíðastar, því að fáir væru þá svo ógreiðviknir að hjálpa sér ekki yfir vötnin, og margir gerðu sér ýmsan annan farargreiða. Í þetta skifti hafði hann komist alla leið út í Vestmannaeyjar. Þar hafði hann unnið sér inn fáeina væna fiska með því að yrkja formannavísur og þess háttar. Samt þótti honum sjómenn hafa verið furðu smátækir, því að mikill hafði aflinn verið. Þessa fiska hefði hann lagt inn hjá Hans sínum Klog, sem hann blessaði í hverju orði, og tekið út hjá honum ýmsan smávarning. Einkum voru það vasahnífar, skæri, saumnálar, tölur og tannbakshringir, sem hann ætlaði að pranga með, þegar austur kæmi. En svo hafði hann náð í Norðlending í Eyjunum og haft út úr honum þrjár nýprentaðar sálmabækur frá Hólum ² ) fyrir öll þorskahöfuðin.

    Ólafur var lítill maður vexti, visinn og væskilslegur, fölur í andliti og veiklulegur. Hárið og skeggið var illa greitt og tekið mjög að hærast. Augun lágu djúpt undir loðnum brúnum. Þau voru dökk og hvöss, en hvarmarnir rauðir og þrútnir.

    Þó að eiginlega kynti hann sig hvergi illa, stóð mörgum hálfgerður stuggur af honum, og það var af beyg, að margir voru betri við hann en aðra flækinga, en líka af hinu, að hann gerði sér far um að halda hylli þeirra, sem hann náði tökum á, og gera þeim einhverja þægð, ef hann gat. Hann notaði aldrei gestrisni vina sinna til þrautar, fór aldrei ljúgandi og stelandi, eins og títt var um flækinga, og var orðfár, einnig um óvini sína. Hann kunni heil lifandi ósköp af gömlum skáldskap og bar jafnan með sér skrifaðar skræður, sem hann tók upp sumstaðar og þuldi til skemtunar, og hann gladdi suma með varningi sínum.

    Samt var beygurinn fyrir honum ekki ástæðulaus með öllu. Það var almælt, að hann kynni töluvert fyrir sér og bæri með sér eitthvað dularfult, sem enginn mætti sjá. Allir vissu, að hann var hagmæltur, og auðvitað trúðu þá margir því, að hann væri ákvæðinn. Að minsta kosti var hann illyrtur og napuryrtur, ef hann reiddist, og kviðlingar hans bárust víða, svo að ilt var að verða fyrir þeim. Þegar þar við bættist, að Ólafur var uppstökkur, mesti ofsi, ef hann reiddist, og þó heiftrækinn, var það skiljanlegt, að fleiri vildu eiga við hann gott en ilt.

    Oft hafði Ólafur gist hjá Guðfinnu, fóstru Vigfúsar, og jafnan var hann velkominn þangað. Vigfús hafði þekt hann síðan hann var drengur og jafnan verið honum góður.

    Það lifnaði mjög yfir Ólafi við hressinguna og saðninguna, og þegar vínið fór ofurlítið að svífa á hann, varð hann sem allur annar maður. Þó þáði hann ekki meira af víninu.

    „Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá, mælti hann, „og hefi aldrei drukkið frá mér vitið. Þegar ég finn ofboðlítið á mér, þá hætti ég. Andskotinn skal ekki hafa það sér til skemtunar að læðast að mér fullum og vitlausum.

    Á meðan þeir voru að matast, sagði hann Vigfúsi hverja söguna annari skrítnari og var hinn skemtilegasti.

    „Við verðum auðvitað samferða austur af sandinum, Ólafur minn, fyrst við hittumst hérna", mælti Vigfús.

    „Það er ekki gott að verða mér samferða, mælti Ólafur og glotti við. „Ég fer ekki hart yfir jörðina.

    „Mér liggur ekkert á", mælti Vigfús.

    „Vel er þetta boðið, og vænt þykir mér um að mega verða þér samferða austur yfir sandinn. Annars er ég oftast einn á ferð. Þessi sandur er nægar tvær dagleiðir handa mér. Þó næ ég oftast nær frá Höfðabrekku að Hjörleifshöfða og þaðan austur í Verið, þegar ég fer þá leiðina".

    Vigfús virti karlinn fyrir sér. Hann skildi varla í því, hvernig þessi vesalings beinagrind fór að því að komast yfir þessa eyðisanda, hvílík lífseigja það var og þrautseigja og þolinmæði, að rölta alla þessa leið hungraður með poka sinn á bakinu. Hann hálfsá eftir því að hafa boðið honum samferð sína, en vildi þó ekki frá því ganga. Enda gat verið skemtun að karlinum, sem vægi upp farartálmann.

    En nú vildi Vigfús fara að halda á stað. Það vildi Ólafur ekki. Nú fór hann að leysa upp poka sinn og fór hægt að öllu. Þegar hann var búinn að leysa frá pokanum, tók hann upp úr honum nokkra smábögla, þuklaði þá vandlega og lagði þá gætilega frá sér. Að öllu fór hann með stakri nærgætni. Einn böggullinn var skinnskjóða, sem vandlega var bundið fyrir.

    „Hérna koma þeir", mælti hann og þuklaði á einum böglinum. Síðan rakti hann böggulinn í sundur. Innan í honum var tylft af vasahnífum.

    „Ég veit, að þú þarft að fá þér góðan vasahníf. Duglegir menn eins og þú þurfa oft á góðum hnífi að halda. Hugsaðu þér, að þú kæmist í færi við vænan landsel frammi við Skaftárós. Þú mundir slá hann í rot með morkefli; það er enginn vandi. En hann raknar við, ef þú getur ekki skorið hann á háls, og þá verður hann helmingi verri viðureignar en áður. Sel, sem hefir raknað úr roti, er ómögulegt að rota aftur. — Nei, þú þarft einmitt að eignast góðan vasahníf. Og hér eru kutar, sem vert er um að tala".

    „Ég get ekkert keypt núna, hvorki hníf né annað, mælti Vigfús. „Ég hefi ekkert til að borga með.

    „Ég ætla nú samt að velja úr einn hníf handa þér. Ég kem austur að Holti, ef guð lofar, og þá getum við minst á borgunina. En það verður búið að velja úr hnífunum áður en ég kem austur að Holti; það geturðu reitt þig á. Þess vegna er bezt, að þú fáir hann undireins".

    „Má ég líta á?" mælti Vigfús og seildist til hnífahrúgunnar.

    „Já, velkomið. En láttu mig velja. Ég er eldri en þú og hefi tekið eftir ýmsu um æfina".

    Vigfús tók nokkra hnífa, opnaði þá og reyndi í þeim eggina. Þeir voru sumir álitlegir.

    Ólafur reyndi þá líka, en hann fór öðruvísi að því. Hann opnaði þá og beití blaðið. Á þennan hátt reyndi hann bæði hörkuna og bragðið að stálinu.

    Einn hnífinn skoðaði hann vandlegast. Þegar hann var búinn að reyna hann á sama hátt og hina, þurkaði hann blaðið vandlega á fötum sínum, horfði svo lengi á það og sneri því alla vega fyrir sér. Svo andaði hann á það og beið á meðan döggin, sem á það hafði komið, var að hverfa, beit aftur í blaðið, tannaði það alt, framarlega og ofarlega, reyndi oddinn á nögl sinni o. s. frv. Loks rétti hann Vigfúsi hnífinn.

    „Hvernig lízt þér á þennan?" mælti hann.

    Það var stór sjálfskeiðingur með hornskafti og látúnshlýrum. Fjöðrin var sterk, svo að talsvert átak þurfti til að hreyfa hana. Blaðið var svo sniðið, að það breikkaði fram og mjókkaði svo snögglega aftur, svo að fremri hluti þess líktist snaghyrndri öxi. Eggin var öll bogadregin og skelþunn, oddurinn hvass, bakkinn þykkur og djúpt gróp fyrir nöglina.

    „Ég þori að ábyrgjast, að þetta er afbragðs hnífur, mælti Ólafur. „Betri hníf færðu aldrei. Líttu á „heiðríkjuna í honum".

    Vigfús tók við hnífnum og sneri honum svo fyrir sér, að loftið speglaðist í flötu blaðinu. Þar brá fyrir skínandi bláum flekkjum í spegli stálsins og hvítum skýjahnoðrum á milli. En innan um alt saman voru svartir flókar, sem ekki voru þó til á loftinu þessa stundina. Þeir sveimuðu til og frá í heiðríkjunni.

    Ólafur horfði fast á Vigfús á meðan hann skoðaði hnífinn. Síðan mælti hann:

    „Ég sé, hvað þú ert að horfa á. Ég tók eftir þessu líka. Sannaðu til. Það mæta þér einhverjar raunir á meðan þú átt þennan hníf. Svörtu flókarnir spá engu góðu. En dauða þínum spá þeir þó ekki".

    Vigfúsi seytlaði kalt vatn milli skinns og hörunds við þennan spádóm.

    „Taktu samt við honum og njóttu hans vel, mælti Ólafur. „Skildu hann aldrei við þig, ekki þó að hann verði orðinn brýndur upp í bakka. — En mundu mig um eitt.

    „Hvað er það?" spurði Vigfús hálfhikandi.

    „Taktu vel eftir honum, aður en þú byrjar með honum nýtt verk. Stálið hefir spásagnarnáttúru. Og hugsaðu þig vel um, ef þú sér einhver fyrirbrigði".

    Vigfús brosti góðlega að þessari bábilju. Hann vildi ekki angra Ólaf gamla með því að andmæla honum eða hlæja að honum. Hann þakkaði honum innilega fyrir hnífinn og lét hann í vasa sinn.

    Samt gat hann ekki vel hrundið orðum Ólafs úr huga sér. Eitthvert dularfult magn fylgdi þeim. Ólafur hafði aðra aðferð en aðrir menn til að komast að hörku og gæðum stálsins, og hann sá í því undarlega hluti. Vel gat verið, að stálið hefði spásagnarnáttúru.

    „En eru þetta sálmabækurnar?" spurði Vigfús og seildist til skjóðunnar.

    Það kom fát á Ólaf. Hann hrifsaði til sín skjóðuna í ofboði.

    „Í þessari skjóðu eru þeir hlutir, sem ekki eru við þitt hæfi, góðurinn minn, mælti Ólafur og lagði þunga á orðin. „Taktu eftir, hvað ég segi. Þó að ég finnist dauður einhverstaðar, þá finst ekki skjóðan sú arna hjá mér.

    Litlu síðar héldu þeir á stað.

    4. AUSTUR UM MÝRDALSSAND.

    Þegar kemur austur fyrir Hafursey, verður fjallsýnin fegurri og hrikalegri, en sandurinn víðáttumeiri.

    Þá blasir Mýrdalsjökull við í norðvestrinu í allri sinni hrikalegu hátign. Tvær miklar, fannhvítar jökulbungur ber við himininn. Í dældinni milli þeirra lúrir Kötlugjá, þakin jökli. Þar stíga mekkirnir upp, þegar hún gýs, og þar þykjast menn hafa séð risavaxna jaka á floti uppi í dældinni á undan gosunum, og ráðið af því, að mikil stöðuvötn af bræddum jökli væru þar uppi. Austur eða suður af jöklinum hafa hlaupin dunið. Á syðri leiðinni hefir Hafursey orðið fyrir þeim. Þau hafa beljað upp á hana svo hátt, að gusurnar úr þeim hafa spýzt fram um Klofagil. En um eyna hafa þau klofnað og flóð í tveim höfuðflóðum suður sandinn. Þau flóðin, sem austur af jöklinum hafa fallið, hafa sópað allan sandinn austur í Hólmsá og Kúðafljót.

    Ofan frá þessum breiðu bungum liggur skriðjökullinn eins og bláglær kaka fram á sandinn. Rönd hans er bogadregin, há og ávöl, svört af sandi að neðan og aurrákir langt upp á jökul. Hún liggur í óslitnum boga frá Höfðabrekkufjöllum austur í Sandfell, að minsta kosti um 15 km.

    Norðaustur af þessu jökulbákni rísa há og hvöss fjöll, sundur grafin af fornum skriðjöklum, sem nú eru horfnir. Þau eru skörðótt mjög og tindótt, og sjást aðrir tindar, sem norðar liggja, yfir skörðin. Öll fjöllin mynda þéttan klasa. Blátt stendur við blátt í mismunandi fjarlægð, með mismunandi styrk og mismunandi litblæ. Næstu hnúkarnir eru heiðbláir, þeir fjærstu ljósbláir. Loks rennur alt saman í bláleita slæðu af tindum, fönnum og skýjum.

    Mitt í þessari hnúkaþröng gnæfir Einhyrningur eins og bakuggi á tröllvöxnu stórhveli, sem stingur sér í úfinn öldusjó.

    Lengra austur færist meiri rósemi á þetta trylta landslag. Þar sjást breið bökin á Skaftártunguheiðunum. Landið fær blíðari og mildari svip eftir því, sem austar dregur. Loks fellur það í innileg faðmlög við Síðufjöllin.

    Þannig er um að litast austan til á Mýrdalssandi.

    Mýrdalsjökull var skínandi bjartur þetta vor. Langt var nú síðan Katla hafði ausið yfir hann, og lítið virtist vorsólin vinna á honum. En fjöllin utan við hann voru óvenjulega snjólaus.

    Alt þetta svipmikla landslag var mjúkt og milt vegna veðurblíðunnar. Þýð lognmóða lá yfir því öllu. Svipur náttúrunnar var móðurlega ástúðlegur, fullur blíðu og alvöru. Þetta hrikaríki dauðans og auðnarinnar blessaðist af kyrð og friði vorsins og yl og yndisleik himinsins.

    Samt var eitthvað þunglyndislegt, nærri því raunalegt í þessu öllu saman, eitthvað dularfult og varhugavert.

    Mýrdalsjökull bjó yfir mörgum þungum minningum og mörgum geigvænlegum spádómum. Inn á milli þessara bláu hnúka í norðrinu lá Eldgjáin mikla. Einhvern tíma í fyrndinni höfðu hraunelfur runnið frá henni alla leið fram í sjó. — Hvernig færi nú, ef jörðin færi að skjálfa og fjöllin að gjósa eldi? Hvernig færi nú, ef skriðjökullinn spryngi og spyrntist fram á sandinn fyrir ofurmagni vatnsflóðsins? Þá kæmi dauðinn hastarlega yfir alt, sem þar lifði.

    Svo ógurlega atburði þurfti ekki til. Aðrir tíðari og hversdagslegri voru meira en nóg til þess, að ekki yrði mikið úr þessum mannpeðum, sem voru að mjakast um sandinn. Hvernig færi, ef afspyrnurok brytist fram á milli þessara kröppu fjalla og breytti öllum sandinum í glórulaust moldviðri? Hvernig færi, ef blindbylur brysti á, eða þétt logndrífa, þar sem alt var slétt og vegalaust?

    Þeir Vigfús og Ólafur gamli voru ekki að hugsa um þetta. En það læddist þó að þeim óvörum. Náttúran vafði allar hugsanir þeirra og tilfinningar hárfínum vef, sem þeir vissu ekki af, — einhverju, sem gagntók þá með hljóðlátri alvörugefni og undarlegum, óljósum beyg. Þeir gáfu útsýninu engan gaum. En það læsti sig samt inn í meðvitund þeirra og lagði þar alt með litblæ sínum. Þar voru engir glampandi sólskinsfletir né geigvænlegir skuggar, heldur alt milt og móðudregið, samlitt, svipdökt og leyndardómsfult.

    Þeir fetuðu götuslóðann hvor á eftir öðrum, Vigfús á undan, Ólafur á eftir. Vigfús gerði sér alt far um að stíga ekki hraðar en svo, að Ólafur gæti fylgt honum eftir. Nægur var tíminn, því að nóttin var björt eins og dagurinn. Hvað eftir annað sneri hann sér við til að spyrja Ólaf, hvort þeir gengju ekki oft hart, hvort hann væri ekki orðinn lúinn, hvort hann vildi ekki setjast niður og hvíla sig, eða hvort hann ætti ekki að bera fyrir hann pokann hans. Honum fanst, sem sér hefði verið trúað fyrir þessum gamla manni, fyrst hann hafði rekist á hann svo langt frá mannabygðum, trúað fyrir honum af einhverjum æðri völdum, og nú væri það skylda sín að koma honum heilum til bæja, hvað sem mætti.

    Ólafur fann þessa innilegu alúð leika um sig eins og ljúfan blæ. Hann var mörgu misjöfnu vanur, bæði góðu og illu, en þannig höfðu fáir tekið hann að sér. Slíka góðmensku hafði hann sjaldan fyrir hitt.

    Hann neitaði því jafnan, að hann væri þreyttur, og ekki kvað hann pokann sinn þyngja sig. Hann gæti að vísu ekki gengið hart, en hann seiglaðist; hann væri orðinn þessu hæga rölti vanur. Sjaldan væri hann meira en tvær til þrjár nætur á bæ, oft ekki nema eina. Annars væri hann á sífeldu rölti.

    Langa stund eftir að þeir fóru á stað úr Hafursey töluðu þeir fátt saman, ekki nema orð og orð á stangli. En jafnframt því, sem gekk á sandinn, gekk einnig á daginn og loftið varð svalara. Þá fór samtal þeirra að lifna við.

    Og þá greip það til strengjanna, sem inst lágu og dýpst í eðli þeirra beggja, — það, sem borið var af náttúrunni, eyðilegri og viðsjárverðri, og náttúran sjálf aftur vakti til máls með svip sínum og útliti.

    Það var forneskjan.

    Þetta illa og óguðlega, sem dregur að sér sálir mannanna með alsigrandi hrikaleik og skelfir þær jafnframt frá sér með feigð og firnum. Þetta, sem eins og stígur upp af jörðunni, þar sem hún er auðust og ægilegust, og lyftir huganum á risavöxnum öldum yfir allan veruleika. Þetta, sem gefur ímyndunaraflinu sterka, stælta vængi og skerpir svo sjónina, að hún sér gegnum holt og hæðir, — sér sálirnar í steingervingum náttúrunnar. Þá verður alt fult af lifandi verum, sýnilegum og ósýnilegum, að ýmsu leyti með mannseðli í stórum og hrikalegum myndum, en að ýmsu leyti líka með eðli ferlíkja og fláttskapar, sem hefir yndi af dauða og tortímingu.

    Fjöllin fyrir norðan þá voru ekki auð og óbygð. Nei. Þar bjuggu tröll og forynjur. Sannorðir menn höfðu mætt þeim á sandinum hvað eftir annað, þegar þau fóru fram að sjó til að sækja sér vænan landsel í soðið. Sumir höfðu gert þeim greiða, lánað þeim hestana sína, þegar illa stóð á fyrir þeim, og þegið af þeim margfalda þökk, órjúfandi vináttu með þeirri trygð, sem tröllum einum er gefin. Aldrei báðu þau mennina um neitt, sem þeir gátu ekki veitt þeim, ef þeir vildu. En ef þeir neituðu þeim um greiðann, — vissu þeir síðar, í hverju horninu þeir höfðu þau. Og þeir voru ótaldir, sem þau höfðu tekið — og étið.

    Í nábýli og jafnvel tvíbýli við tröllin bjuggu útilegumennirnir. Í Rótargiljum og Jökuldölum höfðu menn orðið þeirra varir. En hver þekti alla þá dali, sem ef til vill lágu inni á milli jöklanna? Heimturnar á haustin sýndu það bezt, hvort ekki var nóg til af þeim. Og þeir, sem höfðu komist í klærnar á þeim norður í óbygðum, fýstust ekki þangað aftur.

    Vötnin, sem ultu kolmórauð undan jöklunum, voru full af óvættum í öllum myndum. Þau voru þjóðgötur sjóskrímslanna til stórra, djúpra og dimmra vatna, sem lágu undir jöklinum og ekkert mannsauga hafði séð. Á þau vötn skein hvergi sól, og þar kunnu þessi kvikindi við sig. Svo kom það fyrir, þegar þau voru á leiðinni upp eftir jökulánum, að þau viltust upp í tæru árnar, en komust þá í ógöngur. Þá gengu þau á land til að leita að réttri leið. En sælir voru þeir, sem ekki urðu þá fyrir þeim. — Árnar á Mýrdalssandi voru illræmdar fyrir skrímsli.

    Á sandinum sjálfum voru vofur á reiki. Það voru svipir dáinna manna, sem þar höfðu farist af slysum. Hver leið um sandinn var mörkuð óteljandi mannaleifum, fleiri en nokkur vissi. Alstaðar lá feigð og hætta í leynum og vakti yfir hverju misstignu spori. Þegar dimt var á sandinum, fóru vofurnar á kreik. Þá heyrðist til þeirra í öllum áttum eins og spunnið væri á snældur, og þá brá þeim fyrir á sandinum í líki vina eða vandamanna vegfarendanna. Öll starfsemi þeirra laut að því að villa menn og leiða þá í ógöngur.

    Og loks var sjórinn við sandana. Hann söng líka yfir sínum römmu og raunalegu minningum og sínum ömurlegu óheillaspám. Hvenær rann sá dagur, að það væri víst, að ekki væru lík að velkjast þar í brimgarðinum? Hvenær hafði síðasti skiptapinn orðið, og hvenær mundi sá næsti verða? Eins og hamramur griðungur beljaði hann mönnum ógnanir og ósköp í eyru bæði nætur og daga. Hann var líka bygður yfirmannlegum verum. Þar heyrðust neyðarvein og skelfingaróp, formælingar og ferlegar særingar í brimsúgnum. Sjódruknaðir menn risu upp og börðust við brimrótið. Bátar, sem enginn maður vissi deili á, rendu sér þar eins og hvalfiskar, stungu sér í gegnum öldurnar og sýndu ýmist á sér borðstokkana eða botninn. Og þegar minstum vonum varði, kom skip af hafi með himinkljúfandi strók af seglum. Það öslaði áfram í öskuroki beint upp í sandinn. Þar stóð það blýfast, og sjóarnir brotnuðu á því. Illa farnaðist þeim, sem þá brugðu við til bjargar. Þeir lentu í síki og sandbleytur, týndu gripum sínum eða jafnvel sjálfum sér, því að skipið var draugaskip. Það var strandað fyrir mörgum öldum og sandorpið fyrir löngu. Það hafði verið ræningjaskip. Guðs reiði elti það upp í sandinn, og hvert mannsbarn týndist.

    Suðurströnd Íslands er strönd hinna þungu, dökku drauma. Æfintýrablæja liggur yfir landi og sjó. Hún bragar til og breytir myndum, eftir því sem aldirnar líða, en hún hverfur ekki. Þetta voru draumar 18. aldarinnar. Börnum hinnar 20. finst það hjákátleg leikföng sístarfandi ímyndunargáfu, vansköpuð fóstur þekkingarsnauðra sálna. Þeirra draumar eru öðruvísi. En allur þorri þeirra manna, sem áttu leið yfir Suðurlandssandana anno domini 1783, trúði þessu og hugsaði um það.

    Einn þessara manna var Ólafur gamli Ísleiksson. Alla æfi sína hafði hann í hugsunum sínum háð hvíldarlausan hildarleik við reimleika Suðurlandsundirlendisins. Fyrir langalöngu var þessi barátta orðin honum svo samgróin, að hann lifði og andaði í henni einni, hvar sem hann var staddur og hvernig sem á stóð. Það var þó ekki hræðsla, sem þannig þjáði huga hans, heldur sífeld vaka. Hann treysti sér nú orðið til að mæta ýmsu, þótt ekki væri það sem hreinast, ef hann aðeins væri við fundinum búinn. Þá var um að gera að vera ekkert augnablik óviðbúinn. Og Ólafur hafði ætíð ráðin undir hverju rifi liggjandi tilbúin, þegar tröll og óvættir, draugar og djöflar læddust að honum. Hann kunni ráð við öllu, — nema sultinum og fátæktinni.

    En í þessari stöðugu vöku, þessum látlausa viðbúnaði gegn ósýnilegum hættum, hafði hann mist sjónar á hættunni, sem í sjálfri vökunni var fólgin, eða aldrei komið auga á hana. Hann hafði vakað of lengi, vakað yfir sig. Ímyndunargáfan hafði vaxið, trúgirnin aukist, en skynsemin þverrað að sama skapi. Hann hafði beðið tjón á sálu sinni. Hún var lömuð til örkumla.

    Vigfús hlýddi hugfanginn á sögur þær, sem Ólafur þuldi yfir honum austur sandinn. Hann var ungur og óreyndur og kunni engar sögur að segja. Hann hafðialdrei neins undarlegs orðið var. Margar kynlegar sögur hafði hann heyrt að vísu, en sjaldan um þær hugsað. Að öll náttúran væri þannig full af óhreinum kindum, hafði honum aldrei dottið í hug. Hann var fyrir löngu hættur að ganga á undan Ólafi, en gekk utan götunnar við hlið hans, til þess að njóta sagnanna sem bezt.

    Og Ólafur þreyttist ekki að segja frá. Stirður og álútur dróst hann áfram á priki sínu, eins og gangverk í mannsmynd. Hugurinn var allur í heimum hjátrúarinnar. Hver sagan fæddi aðra af sér. Sandinn þraut, en sögurnar þraut ekki. Áður en þeir fjelagar vissu af, voru þeir komnir austur í Loðinsvik.

    5. SKATAN Í HÓLMSÁ.

    Loðinsvikur eru gömul, uppgróin hraun austan til á Mýrdalssandi. Sagnir segja, að þar hafi verið bygð til forna, en lagst í eyði vegna sandfoks og öskufalls. Hvað sem því líður, er það ennþá blessaður blettur, þó að ekki sé hann fjölskrúðugur. Þar ná menn og skepnur í hreint vatn og þar eru ofurlitlir hagar. Þar er kær hvíldar- og hressingarstaður fyrir þá, sem koma vestan af sandeyðimörkinni. Þar geta fótgangandi menn helt sandinum úr skónum sínum, því að þar fyrir austan eru harðar hraungötur.

    Þeir samferðamennirnir hvíldu sig vel á grænum grasbala hjá læk einum. Síðan gengu þeir í einum áfanga það, sem eftir var austur að Hólmsá.

    Á seinni hluta 18. aldar rann Hólmsá á sama stað og hún rennur nú; áður hafði hún átt aðra farvegi. Skamt fyrir ofan bæinn í Hrífunesi ³ ) brauzt hún um í kröppu gljúfri milli hrauns og hlíða. Þegar hún kom fram úr því, rann hún á sléttlendi og var lítið niðurgrafin. Vestan að henni lágu sandorpin hraun, víða upp gróin og viði vaxin, en að austan lá Hrífuneshólmurinn, slétt flatneskja fram af Skaftártunguhæðunum vestri. Um þessa flatneskju þvera rann Tungufljót, tær bergvatnsá, allvatnsmikil, sem klýfur Skaftártunguna, — vestur í Hólmsá, og nefnast þá báðar árnar Kúðafljót. Fremri hluti þessarar fögru, grasgefnu sléttu hét Leiðvallarhólmur og heyrði til hinu fornfræga höfuðbóli Leiðvelli, þingstað héraðsins, sem þá var fremsti bær í Skaftártungu. Rétt fyrir framan Leiðvöll rann kvísl úr Skaftá vestur í Kúðafljót og nefndist Landá.

    Nú er þessu öllu umturnað. —

    Aðalferjustaðurinn yfir þessi vötn var í þá daga á Leiðvelli. Þó var ferja til í Hrífunesi og einnig ferjað þaðan. Tregir voru þó Hrífunesmenn til að ferja ferðamenn; þótti þeir gera sér átroðning og ónæði og fanst sér ekki bera skylda til þess. Þetta varð þó einkum orðlagt eftir að Árni Þorgilsson, mikill vinur Lýðs Guðmundssonar sýslumanns og fyrrum ráðsmaður hans, flutti að Hrífunesi. Hann þótti enginn sérlegur greiðamaður og gat sér litlar vinsældir.

    Ekki hafði þeim félögum sózt ferðin austur um sandinn greiðar en svo, að þegar þeir komu austur að Hólmsá, var komið miðnætti. Þeir gengu þó á móts við bæinn í Hrífunesi og kölluðu á ferju. Engan mann sáu þeir úti, en hundar hlupu upp við köllin og tóku að gelta. Þeir félagar kölluðu þá því meira, því að nærri mátti geta, að hundarnir mundu vekja heimamenn. Lengi virtist þetta þó ekki ætla að stoða.

    „Nú hefir fjandinn stungið því svefnþorn öllu saman, óhræsis hyskinu", mælti Ólafur og var í illu skapi.

    „Ó-nei. Það vill ekki heyra, mælti Vigfús og kallaði enn að nýju. Hann var rómmaður og brýndi nú röddina, svo að köllin hlutu að heyrast alla leið inn í baðstofu. „Það mun vera satt, sem sagt er um Árna, að hann láti ferðamenn kalla sig fullreynda við ána.

    Hann hélt enn áfram að kalla og hundarnir svöruðu honum með nýju gjammi, en enginn maður lét sjá sig.

    „Það er ekki ástæðulaust, sem ég sagði áðan um svefnþornin, mælti Ólafur og var áhyggjufullur. „Mönnum verður undarlega svefnsamt á þessum bæ. Það er ekki einleikið.

    „Hvernig stendur á því?"

    „Hefirðu ekki heyrt það?"

    „Ekki svo að ég muni".

    „Það eru á lög".

    „Álög —?"

    „Maður kom vestan af sandinum í vondu veðri. Hann kom að ánni seint um kvöld og kallaði á ferjuna, en var ekki sóttur. Alla nóttina var hann að kalla. Um morguninn drattaði loks ferjumaðurinn á stað. Þegar hann kom yfir ána, gekk maðurinn fram á bakkann á móti honum. Hann bar munkahettu og mynd af Kristi á krossinum við bænafesti um hálsinn. Hann ávarpaði ferjumanninn og kvað þessa vísu:

    Vært þið sváfuð svæflum á,

    sízt þó nyti’ eg friðar.

    Sofin er heill og heiður frá

    Hrífunesi yðar.

    Svo hvarf hann og þáði ekki ferjuna".

    „Hver halda menn, að þetta hafi verið?"

    „Það veit enginn. Auðvitað hefir það verið einhver heilagur maður, sem Hrífunesmenn hefðu sízt viljað styggja. Menn halda, að það hafi verið bróðir Eysteinn ⁴ ). En það veit enginn".

    Ólafur þagnaði snöggvast og mælti síðan:

    „Þetta hefir orðið

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1