Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Tvær gamlar sögur
Tvær gamlar sögur
Tvær gamlar sögur
Ebook198 pages3 hours

Tvær gamlar sögur

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

"En fámálugir og þunglyndir voru þeir menn, sem ólu aldur sinn undir jökli á vetrarvertíðinni. Fámálugir og þunglyndir voru Íslendingar yfirleitt á liðnum öldum, og enn er það ríkt í eðli þeirra. "
Í þessari bók er að finna tvær sögulegar skáldsögur Jóns Trausta. Hann blæs hér lífi í sögu Íslands með skáldagleði sinni og þekkingu. Sýður á Keipum er saga frá byrjum 17. aldar. Krossinn helgi í Kaldaðarnesi er saga frá siðaskiptum. Bókin hentar öllum sem eru forvitnir um sögu Íslands. Hún hentar sérstaklega unnendum klassískra bókmennta og þeim lesendum sem vilja kynnast verkum Jóns Trausta betur.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateDec 8, 2023
ISBN9788728281581
Tvær gamlar sögur

Related to Tvær gamlar sögur

Titles in the series (14)

View More

Related ebooks

Reviews for Tvær gamlar sögur

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Tvær gamlar sögur - Jón Trausti

    Tvær gamlar sögur

    Cover image: Unsplash, public domain

    Copyright © 2023 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728281581

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrieval system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    Sögur þessar hafa ekki við sannsöguleg drög að styðjast og eiga þess vegna ekki heima í ritsafninu „Góðir stofnar. Líflát Axlar-Bjarnar, sem vikið er lauslega að í fyrri sögunni, fór fram í lok 16. aldar (1598). — Þær eiginlegu heimildir, sem til eru um Kaldaðarneskrossinn, eru dregnar saman í eitt í bók dr. Jóns Þorkelssonar „Om Digtningen paa Island, bls. 67—68. Gissur biskup Einarsson reið í Kaldaðarnes á kyndilmessu veturinn 1548 og tók ofan krossinn. Í þeirri ferð tók hann sótt þá, er leiddi hann til bana. Sagan er sett í samband við þennan atburð, en er ekki sannsöguleg að öðru leyti.

    Höfundurinn.

    SÝÐUR Á KEIPUM

    SAGA FRÁ BYRJUN 17. ALDAR

    I.

    „Yfir hraun og hrjóstur" — yfir bert og blásið landið gnæfir Snæfellsjökull, hið mikla og útbrunna eldfjall, með gíginn í miðju fjallinu, fullan af jökli. Þar stendur þessi mikli og fagri fjallajöfur sem risavaxið minnismerki löngu-löngu liðinna stórviðburða í ríki hljóðrar og þunglyndislegrar náttúrunnar. Hið efra er eilífur jökull, og ber mjallhvítar hyrnurnar hátt, en undan jöklinum kvíslast breiðar hraunelfur alla leið í sjó fram, eins og storknaðir blóðstraumar úr brjósti fjallsins. Umhverfis fjallið eru fangamörk jarðeldanna hvarvetna — leifar gamalla gíga og hver hraunsteypan ofan á annarri. Brimið erjar hvíldarlaust á hraunbrúnunum og brýtur þær upp. Há hraunskör gnæfir meðfram sjónum á löngum kafla, þar sem sjórótið sýður og drynur í kolsvörtum hellum og spýtist upp um gjárnar. Það eru Svörtuloft. Annars staðar er eldgamall gígur kominn í sjóinn, gjallhrúgunni er sópað burtu, en hrauntapparnir standa eftir eins og risavaxin tannabrot. Það eru Lóndrangar.

    En Snæfellsjökull er líka minnismerki miklu yngri atburða, atburða í sögu Íslands. Nú er hljótt og dauflegt undir jöklinum að vestanverðu, þeim megin, sem við hafinu horfir, en svo hefir ekki ætíð verið. Á því svæði voru fjölmennustu veiðistöðvarnar fyrr á öldum. Þaðan var skemmst út á fiskimiðin, og þangað sóttu menn úr öllum nálægum héruðum til sjósóknar. Þar var háður ramur hildarleikur við óblíðu náttúrunnar á vetrarvertíðinni. Þangað fóru flestir kvíðandi og með hálfum huga í fyrsta skipti, sem þeir fóru, en jafnan síðan með tilhlökkun og fögnuði, því að þangað sóttu menn kjark og karlmennsku. Sá þótti enginn aukvisi heima í héraði sínu, sem róið hafði „undir jökli". — Þar sigu menn sjálfir á árarnar, en létu ekki gangvélar hræra sjóinn undir sér, og þar öttu menn kappi við brimlendingarnar án þess að lægja löðrið með lýsi eða olíu. Þar varð að duga eða drepast — og flestum lærðist að duga. Þar gat að líta mannval að hreysti og harðfengi — meðan nokkurt mannval var til meðal Íslendinga. Margs ætti Snæfellsjökull að minnast og betur að hann mætti mæla.

    En fámálugir og þunglyndir voru þeir menn, sem ólu aldur sinn undir jökli á vetrarvertíðinni. Fámálugir og þunglyndir voru Íslendingar yfirleitt á liðnum öldum, og enn er það ríkt í eðli þeirra. Gleðimenn voru þeir að vísu á glöðum stundum og gleymdu sér þá í gleði sinni. En eftir slíkar gleðistundir kom þögnin og þunglyndið tvöfalt þyngra en áður, og alltaf voru þær stundirnar langsamlega yfirgnæfandi. Undir jökli var allt skapað til þess að ala og fóstra þunglyndið. — Þögul, hörð og hrikaleg náttúran alls staðar umhverfis: — kolsvört, gróðurlaus hraunin, og himinninn oftast byrgður dimmum regnskýjum, sem lágu lágt og byrgðu allt, sem bjart var á jöklinum, sjórinn dimmblár og sífelldur brimsúgur með fjöruklungrinu. — Allt hart og fúlt og fjandsamlegt, en þó með slíka auðlegð í skauti sínu, að það launaði karlmennsku og kjarki ríkulega. Í slíku umhverfi urðu menn stálslegnir hið ytra, — þögulir og þungbúnir, með sigg í höndunum, hnykla í brúnunum, harðir, illir og óþjálir — en logandi eldur hið innra, eins og fjallið, sem yfir þeim gnæfði. Þetta voru menn, sem gæddir voru magni til að elska og hata — og dylja hvort tveggja vel. Til þess að halda órjúfanlegri tryggð við vini sína og launa hverja eina velgerð með tíu, en hefna þess grimmilega, ef gert var á hluta þeirra, og gleyma því aldrei — þótt hefnt væri. Bregðast við drengilega, ef einhverjum þurfti að hjálpa og hjálpa jafnt vinum sem fjendum, — eða jafnvel fremur fjendum en vinum, en hata þá eftir sem áður. Þetta voru menn, sem ekki blöskraði að horfast í augu við hættuna, menn, sem þá voru fyrst í essinu sínu, er komið var í krappasta dansinn, menn, sem gátu fallið, en ekki flúið. — Meðal slíkra manna hlaut að draga til stórviðburða, og hefir dregið til stórviðburða, fleiri og meiri en nú eru sögur geymdar um. Þess vegna mundu hraunin kringum Dritvík kunna frá mörgu og merkilegu að segja, ef þau mættu mæla.

    Meðal þessara manna gerist sagan, sem ég ætla að segja.

    II.

    Í byrjun 17. aldar gengu um 60 bátar úr Dritvík, eins og oft hafði verið áður og oft var síðan. Þá voru hörð ár og bágindi manna á meðal. En í víkinni var afli og allsnægtir á vetrarvertíðinni. Þar skorti engan mann föng.

    Þessi litli vogur, þessi hraunskora, sem sjórinn féll inn í, var fræg um land allt fyrir aflasældina, enda brást hún sjaldan vonum manna. Hrikalegar hraunsteypubyggingar vernduðu hana fyrir briminu. Við þær sogaðist sjórinn upp og niður, sjóðandi og vellandi af hvítu, þungu brimlöðri. Sjórokið gaus hátt í loft upp, þegar holskeflurnar hvolfdust upp að lóðréttum standbjörgunum. Gríðarlegir fossar steyptust fram úr hellunum, þegar út sogaði. — En inni í sjálfri víkinni var sífellt logn og ládeyða. Allur sjórinn var þakinn lifrarbrá og fljótandi innyflum úr fiski. Dauðspakir sjófuglar, nærri því mannelskir, syntu þar um í stórhópum og héldu sér veizlu í þessu mikla æti. Hvít ský af mávum og rytum svifu yfir víkinni. Fjöruborðið var allt þakið slógi og dálkum úr fiski, en hausar sáust þar engir, því að þeir voru allir hirtir og verkaðir, til sölu eða heimflutnings. Þegar sjómenn voru í landi, stóðu bátarnir þeirra, hver við annars hlið uppi í mölinni fyrir víkurbotninum, eins og gripir á garða, svo þétt, að tæplega var gengt á milli þeirra. Allir voru þeir svartir, tjargaðir, sumir með málaða borðstokka, aðrir ekki. Í öllum lá mastur með samanvöfðu segli, — rásegli, líku því, sem verið hafði á víkingaskipunum. Í öllum bátunum lágu árarnar ofan á þóftunum, svo margar sem ræði voru til á bátnum, og ein eða tvær til vara, allar hvítar, úr seigri, kvistalausri furu, en mjög misstórar, því að sumar voru ætlaðar einum manni til róðurs, en aðrar aðeins fyrir eina hönd — eða sumar til barnings og aðrar til andþófs, eins og tíðkanlegra var að greina þær sundur. En sjá mátti það á sumum árunum, að engum vesalmennum voru þær ætlaðar.

    En í hrauninu fyrir ofan bátana var þéttbýli allmikið af sjóbúðum og hjöllum — heilt hverfi. Engin byggð var þar önnur, því að enginn bær stendur í nánasta nágrenninu við Dritvík; — slíkt ódáðahraun er engra manna meðfæri að græða upp. Sjóbúðirnar stóðu á víð og dreif úti um hraunið, þó svo, að gatan væri sem skemmst til sjávar. Flestar voru þær byggðar í skjóli við einhvern hraunhólinn eða klettinn; einkum var leitað skjóls fyrir norðanáttinni, sem þar er nöprust, eins og annars staðar. Sumar voru byggðar yfir gjótur eða gjár. Allar voru þær hver annarri líkar, og engin þeirra bar verulega af annarri. Allar áttu þær sammerkt í því, að lítið bar á þeim, og varla urðu þær greindar frá hrauninu, fyrr en þær urðu, svo að kalla, fyrir fótum manna. Allar voru þær hlaðnar upp úr hraungrýtinu, sem alls staðar var hendinni næst, allar reftar með rekavið og dyttað að þeim með mosa úr hrauninu og þangi úr fjörunni eftir beztu föngum. Engin þeirra var líkleg til að vera vistlegur mannabústaður, en allar voru þær mannabústaðir engu að síður. Flestar stóðu þær auðar og ónotaðar allt sumarið og haustið, og fór þá um þær sem vildi. En þegar vetrarvertíðin byrjaði, var sem hraunið kringum víkina lifnaði við og allt yrði þar kvikt. En þá var oft rýrt til fanga að byggja upp búðirnar að nýju, og varð þá að tjalda því, sem til var.

    Hjallarnir stóðu aftur á móti flestir uppi á hraunhólunum, og bar suma þeirra hátt, því að þar reið mest á því að nota sem bezt vindinn til þerris. Flestir voru þeir úr rekavið og tilsýndar eins og blásnar beinagrindur úr stórgripum stæðu þar uppréttar. Sums staðar stóðu grindahjallar, byggðir sem hús og læstir með stórum hengilásum úr kopar. Í öllum þessum hjöllum blöktu feitar freðýsur, landfrægar fyrir það, hve ljúffengar þær voru; enda áttu margar þeirra þann frama fyrir höndum að vera reiddar suður í Skálholt og ilma þar á borði biskupsins og vildargesta hans, en fyrir öðrum lá utanför á fund ríkra riddara og aðalsmanna eða jafnvel konunga.

    Þannig var víkin — útötuð og fjarri því að vera þrifaleg, en jafnframt talandi vottur um fengsæld og atorku. Sjóföng, sjóföng voru alls staðar, hvert sem litið var. Hjallarnir tóku ekki helminginn af þeim. Hraunið sjálft var notað, enda var það vel til slíkra hluta fallið. Hver gjóta, skvompa og skonsa, sem súgur gat leikið um, var aðstoðarhjallur. Hver hraunstrýta var síbreidd með sjóföngum, og klungrið sjálft, sem gangandi mönnum var tæplega fært um, var notað í sama tilgangi. Yfir að líta var sem hraunið væri alþakið gróðri — sjaldgæfum góugróðri, breiðum af hvítum ætisveppum, eða einhverju því um líku, sem þyti upp úr beru brunagrjótinu. Og í vissum skilningi var þetta gróður, því að þarna lágu margir tugir hundraða í landaurum.

    Jökullinn var oft alhvítur ofan að rótum, og hraunbreiðurnar niður af honum aðeins með dökkum dílum, allt annað á kafi í fönn. En í hrauninu næst víkinni festi aldrei snjó. Seltan á grjótinu bræddi hann allan niður, og mannaumferðin hjálpaði til. En þegar hlákurnar komu og hraunin urðu dökk, skinu breiðurnar kringum veiðistöðina eins og silfurgráar, slitróttar fannir. Þá hjálpuðust sól og vindur að því að gera það arðbært, sem á land var komið, en mennirnir voru úti á miðum að sækja meira — meira. Þar var ekki verið að biðja guð um lítið.

    III.

    Nú verður að segja frá tveim mönnum, sem koma við sögu þessa, öðrum fremur. Það eru þeir Sæmundur í Hraunbót og Sigurður í Totu. Þeir voru kenndir hvor við sína búð, og lágu búðir þeirra skammt hvor frá annarri.

    Báðir áttu þeir heima langt uppi í sveitum og sinn í hvoru héraði, svo að engin kynni höfðu þeir hvor af öðrum önnur en þau, sem þeir höfðu í verinu. En sama mátti segja um flesta eða alla þar í víkinni. Þeir sáust sjaldan annars staðar en þar og kynntust hvergi nema þar. Þeir komu úr öllum áttum í vertíðarbyrjun og hurfu í allar áttir í vertíðarlok. Sigurður og Sæmundur höfðu kynnzt um nokkra vetur í Dritvík, en hvergi sézt þess á milli. Flest kynni þeirra höfðu farið miður en skyldi. Báðir voru þeir formenn og að því leyti líkt á komið fyrir þeim, að þeir höfðu álíka stór skip og álíka miklum mannafla á að skipa. Báðir voru þeir minni háttar útgerðarmenn og skip þeirra minni en margra annarra. Samt sem áður var hvorugur þeirra eftirbátur hinna, sem stærri höfðu fleyturnar, í sjósókn og aflasæld að tiltölu. Báðir voru þeir harðvítugir sjómenn, og þar sem nú svo líkt var á komið fyrir þeim að skipakosti og mannafla, var það eðlilegt, að þeir kepptu hvor við annan. Samkeppnin varð þá með tímanum harðari en góðu hófi gegndi, og jafnframt dró til töluverðs kala þeirra á milli.

    Þegar hér var komið sögunni, var Sigurður hættur sjósókn að mestu, en Sigurður sonur hans tekinn við formennskunni. Reri hann með bróður sínum, er Árni hét, og einum háseta á litlu fjögramannafari. En Sigurður vann að aflanum í landi. Sæmundur stundaði aftur á móti enn þá sjóinn, og reri hann með syni sínum uppkomnum, sem Jón hét, og einum háseta, sem hét Salómon og kallaður Salómon hnýtti, vegna vaxtarlýta. Einum manni var því fleira hjá Sigurði í Totu. Samt gekk allt heldur betur Sæmundar-megin. Þetta sárnaði Sigurði og sonum hans, en fengu ekki að gert, því að Sæmundur virtist betur liðaður við þriðja mann en þeir við fjórða.

    Ekki voru þeir skaplíkir, Sæmundur og Sigurður, og ekki voru þeir líkir í neinu, þegar skip þeirra og útgerð var undanskilin.

    Sæmundur var heljarmenni að vexti og burðum, en geðspakur og lét lítið yfir sér. Hann var örlyndur og greiðvikinn og kom sér vel við hvern mann í veiðistöðinni, nema þá Totumenn. Skemmtinn var hann og glaðvær, en þó hæglátur, og talinn var hann sjómaður með afbrigðum. Jón sonur hans var honum líkur að vexti og afli, en lét meira yfir sér. Hann var örgeðja og reiddist illa, nokkuð ofstopafenginn og hafði gaman af að glettast til við menn, einkum þá, sem honum var kalt til fyrir; enda treysti hann karlmennsku sinni við hvern sem var að etja þar í víkinni, og jafnvel tvo eða þrjá af meðalmönnum þar. Enginn þótti hann skýrleiksmaður, sízt á við föður sinn. Þótti gaman hans stundum grátt og lítt hugsað fyrir. Var hann ekki svo vinsæll manna á meðal sem faðir hans.

    Sigurður var þessum mönnum harla ólíkur. Hann var lítill vexti, rýr og væskilslegur og nú kominn á gamals aldur. Hann þótti nirfill hinn mesti, svo að sagt var, að hann tímdi ekki að éta. Hann hafði mikinn huga á því að græða fé, þótti viðsjáll í viðskiptum og undirhyggjumaður í hvívetna. Geðstirður þótti hann og öfundsjúkur um fengsæld annarra. Var hann sívinnandi til þess að láta ekkert undan ganga og oft úti um nætur. Brýndi hann sonu sína fast, sem ekki voru gæddir slíkum áhuga, og ögraði þeim einkum með Sæmundi og þeim Hraunbótarmönnum, sem væru einum færri, en þó aflasælli en þeir. Var Sigurður jafnan svo önnum kafinn við útgerð sína, að hann gaf sér engan tíma til að þrifa sig og ræsta sem aðrir menn, og var því jafnan óhreinn og illa til fara, með hárið úfið og skeggtoddana í allar áttir. Þótti hann manna ófríðastur og ómannlegastur. Einhver græðgis- og gremjusvipur var orðinn samgróinn andliti hans. Hann var myrkur á brúnina og skotraði augunum tortryggilega út undan sér, eins og hann ætti sér jafnan ills von. Allra manna var hann spéhræddastur, enda varð hann oft að kenna á hæðni manna, því að flestum var fremur kalt til hans. Oftast var einhver ólundartota á svip hans, en þegar hann glotti í hefndarhug, dróst totan sundur til beggja kinnanna, og grillti í tennurnar. Kom þá einhver dýrbítssvipur á andlitið. Eftir þessu höfðu vermennirnir tekið, og var hann ýmist kallaður Sigurður tota — sem bæði gat verið dregið af búðarnafninu og svip hans — eða Sigurður dýrbítur. Fékk hann oft að heyra bæði nöfnin, og gerði það ekki hug hans mýkri.

    Synir Sigurðar voru honum nokkuð ólíkir og báðir mannvænlegir menn. Sigurður var fullþroskaður, en Árni var enn þá á unga aldri og ekki fullséður. Sigurður þótti ganga Jóni Sæmundssyni í Hraunbót einna næst að afli og atgervi, og var mælt, að þeir hefðu oftar reynt með sér en menn vissu. Skaplíkur þótti Sigurður

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1