Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Mannamunur
Mannamunur
Mannamunur
Ebook285 pages4 hours

Mannamunur

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Mannamunur er þekktasta verk Jóns Mýrdals. Það var gefið út árið 1872. Skáldsagan segir frá lífi og æsku í fögrum íslenskum dal og fjallar um tvo vini, Ólaf og Vigfús, sem reyna að heilla sömu stúlkuna með misjöfnum árangri. -
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateOct 4, 2022
ISBN9788728281826
Mannamunur

Related to Mannamunur

Related ebooks

Reviews for Mannamunur

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Mannamunur - Jón Mýrdal

    Mannamunur

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1912, 2022 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728281826

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    This work is republished as a historical document. It contains contemporary use of language.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    Á austanverðu Íslandi var í gamla daga bygð þar sem enn er hún, þótt hún sé nú á dögum nokkuð umbreytt frá því sem þá var, og veldur því hvorttveggja, bæði háttaskifti mannanna, þar sem oftast nær með nýjum herrum hafa komið nýir siðir; líka, og það öllu heldur, umbrot náttúrunnar, því þar sem áður stóðu háreistir bæir og falleg höfuðból, eru nú uppblásnir melahólar, stórgrýtt urð, eður mórauð moldarflög, og valda því stórkostleg skriðuföll, lemjandi langviðri og fossandi ár og lækir, sem árlega og iðulega breyta farvegum sínum og bera þar yfir aur og leðju, sem áður voru grænar lendur, grundir og engi; og fyrir þessa sök er þeim, sem nú ferðast þar um, ekki hægt að sjá svo glögglega, hvernig þá hefir verið til hagað, þótt hann hafi lesið þeirrar tíðar sögur. Bæir eru færðir og settir á annan stað, sumstaðar afnumdir með öllu, og á öðrum stöðum bygðir nýir, sem þá með nýrri tilveru hafa fengið nýtt nafn, svo margt er þar sem endurskapað frá því sem áður var.

    Í því héraði, sem frásaga sú, er hér skal skráð, á einkanlega ætt sína til að rekja, er landslagi svo háttað, að fyrir ofan, eður í útsuður af bygðinni, liggur fjallgarður með grænum hlíðum, víða þöktum lyngi og víðirunnum, og á einstöku stöðum fallegum skógarflesjum.

    Á mörgum stöðum er fjallgarður þessi í sundur skorinn af fögrum grasdölum, sem sumir ná langt upp til öræfa, og voru þeir ýmist búfjárhagar bygðarmanna, eður afréttarlönd fyrir geldfé á sumrum.

    Næstum undantekningarlaust renna lækir eður smáár eftir dölum þessum, silfurtærar, suðandi, og liðast í ótal hlykkjum alt fram að sjó.

    Með fram fjallinu eru sléttar, beinharðar valllendis grundir, og þar niður undan liggja græn og rennislétt tún, og stóðu bæir oftast rétt á miðju túni.

    Milli túnanna voru ýmist mjó eður breið mýrarsund, kafloðin af elting og smágresi, og á sumum stöðum hárri og breiðri stör, fullkomlega töðugæfri. Sund þessi voru engi bænda, og var þeim skift millum býlanna, eftir því sem þau lágu nær eða fjær hverju fyrir sig. Víðast hvar í þessu bygðarlagi er skamt til sjávar, og gengur því lax og silungur þar í læki og ár á sumrum, og varð bændum það oft að góðu gagni.

    Í bygðarlagi því er hér segir frá, var í þá daga ein kirkjusókn, og hét prestssetrið að Hofi; það var lítil, en fremur góð og farsæl bújörð.

    Bjarni hét prestur sá sem þar var, þegar saga þessi gerðist; hann var sannnefnt átrúnaðargoð sóknarbarna sinna, og bar margt til þess. Hann var maður mjög reglusamur, og svo háttprúður, að enginn hafði heyrt þess hlutar getið í fari hans, sem gæti orðið orðstír hans til niðrunar; klerkur var hann líka ágætur.

    Bjarni prestur hafði verið kvæntur, en ári eftir að hann kvongaðist, andaðist kona hans úr landfarssótt, var það honum hinn mesti harmur, því hann unni henni mikið.

    Honum varð söknuðurinn því sárari og tómlegri, sem þeim hafði ekki orðið barna auðið, svo hann var að því leyti sem einstæðingur.

    Sveinn hét vinnumaður prests, ungur maður, rösklegur og hinn duglegasti til allra starfa, og var hann fyrir öðrum húskörlum, þegar Einar ráðsmaður var ekki við. Einar var um fertugs aldur þegar hér var komið sögunni; hann annaðist um bú prests, og það með þeirri samvizkusemi og aðgætni, að tapaðist svo mikið sem sylgja af klifberagjörð, mátti segja að hann sneri því upp sem niður var á hverjum hlut, svo varð hann þá æfur yfir því, og kvað að eigum prests væri spilt.

    Það bar ekki svo sjaldan við, að þótt séra Bjarni hefði gefið einhverjum fátæklingi upp tekjur sínar, að þegar Einar varð þess var, tók hann hest sinn og reið til bónda, og hætti þá ekki fyrri við, en hann hafði náð einhverjum gjaldgengum aurum að upphæð sem skuldin var, því hann vissi upp á sínar tíu fingur hvað hver búandi átti að gjalda presti.

    Anna hét bústýra séra Bjarna; hún var dóttir gilds bónda þar í sveitinni, hin fríðasta kona og vel mentuð, eftir því sem þá var títt.

    Svo bar við tveimur árum eftir að séra Bjarni varð ekkjumaður, að bústýra hans ól barn, það var drengur, og var hann skírður Ólafur; hún lýsti Svein vinnumann föður að barninu, og gekst hann liðlega undir það.

    Ári síðar gifti séra Bjarni þau Svein og. Önnu, og bygði þeim beztu kirkjujörðina sem til var þar, og reistu þau þar sæmilegt bú, því þau voru bæði vel að efnum.

    Þegar þau Sveinn og Anna fóru frá Hofi beiddist séra Bjarni þess að Ólafur yrði þar eftir; kvað hann sér það hina mestu ánægju, þar honum sýndist sveinninn efnilegur, og að öllu hinn gæfulegasti.

    Lítið ástríki hafði Ólafur af föður sínum, en hann var móður sinni því kærari, og þó unni honum enginn eins dátt sem fóstri hans, enda var Ólafur honum svo eftirlátur, að hann varla eirði nokkurstaðar, nema hjá honum, og sjaldan hafði Ólafur grátið svo mikið, þá fóstri hans setti hann á kné sér, að hann ekki þegar brosti gegnum tárin, sem þá líka innan stundar þornuðu.

    Eftir því sem Ólafi fjölguðu aldurs ár og jókst vit, því ástúðlegri varð hann séra Bjarna, og um engan hlut var honum svo ant, sem að gjöra vilja fóstra síns í smáu og stóru, og fyrir það varð hann þegar í barnæsku mjög siðprúður, því hann lét sér ant um að veita eftirtekt framferði hans og áminningum.

    Hann varð og hverjum manni hugþekkur, bæði á heimilinu og utan þess, og þegar hann var kominn lítið yfir fermingu, var enginn sá, sem hafði séð hann reiðast, eða heyrt hann tala ljótt orð.

    Ólafur var þegar í æsku fríður sýnum, kringluleitur, rjóður í kinnum, bjartur á hár og liðaðist hárið, bláeygur og fagureygur.

    Alla æfi var hann lítill vexti, en snotur; kraftalítill, en þeim mun mýkri og fimari í öllum líkama æfingum, því þótt hann glímdi við sér tvöfalt sterkari mann, átti hann ætíð vísan sigur, og naut að því mjúkleika síns.

    Snemma var hann mjög námfús, og lærði þess vegna ungur skrift og talnafræði, og undirstöðu í útlendum tungumálum, því fóstri hans var mjög vel að sér í þeim greinum, eftir því sem þá tíðkaðist.

    Nokkru norðar, en þó skamt frá Hofi stóð reisulegur bær, sem hét á Hóli; þar bjó bóndi sem Jón hét; hann var hreppstjóri og einhver hinn ríkasti í þeirri sveit, bæði að löndum og lausum aurum. Hann hafði fjölda kvikfjár, og að öllu leyti vel í búi. Jón átti bróður þann sem Þorvaldur hét; hann var 10 árum eldri en Jón, var Jón þá maður frumvaxta, þegar faðir þeirra deyði; skiftu þeir bræður þá arfi með sér, og hlaut Þorvaldur skotsilfur, sem var afar mikið, en Jón fasteign og gangandi fé; bjó hann eftir það um nokkur ár með móður sinni, en Þorvaldur fór suður þangað sem kölluð er Skaftafellssýsla hin eystri, og kvongaðist þar ríkri ekkju, og græddi of fjár.

    Eftir að móðir þeirra bræðra andaðist, fékk Jón konu þeirrar er Sigríður hét, og sögðu nábúar hans að það hefði ekki verið hætt við því, að hann Jón litli hefði ekki haft vit á að velja þá sem átti spjarirnar utan á sig.

    Sigríður var kona sköruleg, nokkuð fljótráð og örmálug, en þó mesta sómakona og bústýra hin bezta. Þau hjón áttu eina dóttur barna, og hét hún Kristín.

    Hún var í æsku lík móður sinni í lunderni; en þegar hún eltist, fékk hún meir skaplyndi föður síns, en Jón var maður stiltur og fámálugur, þó glaðlyndur hversdagslega, þéttur í lund, og að öllu hinn staðfastasti.

    Svo er háttað landslagi á Hóli, að túnið liggur hátt, og tekur við að norðan lyngholteitt, en að sunnanverðu með fram öllu túninu er brekka lítil, og þar fyrir neðan engi mikið og fagurt, sem heyrir til báðum jörðunum, Hofi og Hóli.

    Á rennur eftir miðju enginu, og er veiði í; vestur frá túninu liggja grundir, þar til fjallið tekur við; var þar sameiginlegt beitarland frá báðum jörðunum; að austanverðu er holt hátt og graslítið, og þá tekur sjórinn við.

    Austur úr túninu á Hóli liggur tangi langur og mjög grasgefinn; þar hafði Jón á Hóli bygt hjáleigu, sem ýmist var kölluð Hali eða Rófa. Þar bjó sá maður, er Árni hét; hann var kallaður vera aulamenni, seinn og sigalegur, en mesti hæglætis og meinleysis maður; hann átti konu þá, sem Þorbjörg hét; hún var hið mesta kvenskass, margmálug og illmálg, og mátti Árni nær því heldur kallast sorpreka hennar en eiginmaður; hún dreif hann fram með oddi og egg til óhreinlegustu skarnverka, en lét hann hafa það lakasta af öllum mat, og kom það þó ekki til af skorti, því þau hjón voru í góðum efnum. Það sögðu menn að við hefði borið, að Þorbjörg hefði á stundum tekið það, sem Snati fjárhundur var genginn frá, og látið í ask bónda síns, og þorði hann ekki að að finna, enda var hann í öllu mjög undir hana gefinn.

    Son áttu þau Árni og Þorbjörg, þann er Vigfús hét; hann var snemma mikill vexti og sterkur, en ekki þótti hann sem gæfumannlegastur; hann var stórskorinn í andliti, og líktist hann í því móður sinni, en fegri var hann sýnum, og kallaður ekki ófríður. Skaplyndi móður sinnar hafði Vigfús að nokkru leyti, en vitsmuni föður síns; hann var framhleypinn og reiðigjarn, uppvöðslu-mikill og orðhvass; hugðist hann jafnan skyldi koma fram vilja sínum með trölldómi og afli, ef ekki gekk öðruvísi; flestum sem við hann kyntust, og það þegar í æsku, varð hann hvumleiður, og margir voru þeir, er spáðu honum hrakspám, og kváðu hann mundu verða hinn mesta ólánsmann.

    Þau Ólafur að Hofi og Kristín á Hóli voru mjög jafnaldra, en Vigfús á Hala lítið eldri.

    Lítil var samganga þeirra barnanna, þar til þau komust nokkuð á legg.

    Það var snemma auðséð, að Kristín á Hóli mundi verða hin fríðasta og kurteisasta kona; vöxturinn var afbragðs nettur, og andlitið fagurt og gáfulegt.

    Þegar Vigfús á Hala fór nokkuð að vitkast, tók hann fljótt eftir því, að Ólafur fékk lof af allra munni, en sjálfum sér heyrði hann hvarvetna hallmælt, og bætti það lítið skapsmuni hans; hann öfundaðist yfir Ólafi, og vildi helzt gera honum alt það ilt, er hann mátti.

    Þegar Ólafur var átta vetra, var það um vorið, að hann var látinn sitja yfir kúm; þeim var beitt á engi það, sem áður var frá sagt, og liggur suður frá túninu á Hóli. Ólafur hafði það sér til skemtunar, að hann hafði dorg sína og veiddi í ánni; var þá silungur lítið genginn í vötn, og varð honum því lítið fengsamt, og hlaut því oft að fara heim öngulsár, og var hann þá með daufara bragði, því hann sagði sér þætti svo vænt um að geta fært fóstra sínum á diskinn sinn.

    Einn dag sem oftar sat Ólafur yfir baulum sínum, og voru nú aflabrögð hans með bezta móti; um miðdegi var hann búinn að fá þrjá silunga allvæna, og hafði séð hinn fjórða, og hann langstærstan; hann beitir því nákvæmlega öngul sinn, og rennir honum síðan mjög áhyggjufullur í ána. Þegar lítil stund var liðin, skotraðist silungurinn undan bakkanum hinu megin og yfir í miðja ána, og skauzt síðan til baka og faldi sig. Ólafur ímyndaði sér að silungurinn hefði séð sig og þess vegna orðið hræddur; hann lagðist því flatur og hélt niðri í sér andanum, eftir lítinn tíma kom silungurinn enn, og syndir nú hægt og hægt að önglinum, og þykist Ólafur nú viss um sigurinn. En í sama bili heyrir hann kallað ákaflega: »Strákur þarna, hvað ertu að grúska, ætlarðu að drepa þig í ánni? Þér er nær að hjálpa mér til að ná klárskrattanum hérna«.

    Ólafi verður bilt við, og sprettur hann skjótlega upp, og sér hvar Stína litla frá Hóli, berhöfðuð með flaksandi hárið og kófsveitt, hleypur á eftir Rauðskjóna, reiðhesti Jóns hreppstjóra, og vill taka hann, en hesturinn rann undan og mæddist mærin á hlaupunum, þegar hana bar þar að, sem Ólafur var. Þau hlupu nú bæði, en hesturinn stöðvaðist lengra niðri á enginu, og fengu þau þar eftir nokkra snúninga tekið hann. Stína tekur nú sokkabandið sitt, og knýtir upp í hestinn; er henni nú runnin reiðin, snýr sér að Ólafi og heilsar honum. »Sæll vertu nú Óli minn. Eg þakka þér kærlega fyrir hjálpina; eg er búin að elta ólukku klárinn heiman af túni og hingað«.

    »Mér þótti nú líka að þú vera hálf orðvond áðan, telpa mín; hann fóstri minn segir, að börnin megi aldrei tala ljótt, og eg geri það aldrei, en komdu nú samt sæl Stína litla«.

    Stína roðnaði við þessa ofanígjöf, sneri sér til hálfs undan, og sagði næstum í hálfum hljóðum: »Eg veit að eg á ekki að tala ljótt; eg skal reyna til að gera það aldrei oftar«.

    »Eg ætlaði ekki að fara að sneypa þig Stína mín. Kom þú nú, og farðu á bak; eg skal taka undir fótinn á þér«.

    »Ríddu Óli minn, eg ætla að ganga þangað til við skiljum«.

    »Nei, eg ríð ekki, við skulum þá ganga bæði«.

    »En hvað varstu að gera þarna við ána, Óli minn?«

    »Það var nú nokkuð skrítið Stína; eg skal sýna þér það«, segir Ólafur, og tekur þegar á rás eftir árbakkanum, því hann mundi nú fyrst eftir því, að hann skildi við dorgina í ánni. Dorgarendinn var að sönnu fastur um hæl, sem hann hafði rekið ofan í bakkann, en silungurinn gat vel hafa tekið öngulinn, og nú annaðhvort dinglað þar fastur eða slitið dorgina.

    Kristín litla hélt nú áfram alt hvað hún gat látið klárinn fylgja sér, til þess að hana bar þangað, sem Óli var, hún sér að hann er hryggur og grætur.

    »Æ! hvað er þetta Óli minn? Hvað gengur að þér?«

    »Og ekki neitt«.

    »Jú, víst er það eitthvað; blessaður segðu mér það. Eg kann svo illa við að sjá þig gráta«.

    »Og það er nú svo sem ekki neitt. Eg klaufaðist til að skilja dorgina mína eftir í ánni, og hefir silungurinn slitið hana meðan eg var burtu«.

    »Og það er mér að kenna«, sagði Stína og tárfeldi.

    »Vertu ekki að því arna; heldur þú eg geti ekki bætt það aftur; dorgin er nógu löng, og hérna á eg annan öngul, líttu á; komdu nú og sjáðu veiðina mína«. Hann tekur í höndina á henni, og leiðir hana þar að, sem peysan hans lá, hann grípur hana upp, og liggja silungarnir þar.

    »Ja, hérna Óli! hvaða einstakur veiðimaður ertu. Eg er hissa!«

    »Þú mátt ekki vera að háða mig, Stína mín, en taktu við, þú átt að eiga þetta til að gefa henni mömmu þinni. Heldur þú hún hafi ekki gaman af því?« sagði Ólafur og fékk henni vænsta silunginn.

    »Æ, lofaðu mér að kyssa þig, góði Óli; en eg skammast mín að taka við«.

    »Hvaða vitleysa, því sem þér er gefið«.

    Stína hleypur nú upp um hálsinn á honum og kyssir hann stóran koss, og það var sá fyrsti.

    Eftir það hjálpar hann henni á bak, og ríður hún í einum spretti heim á hlað.

    Nokkrum dögum síðar var Ólafur enn við ána, og gengu aflabrögðin ekki vel; hann hafði fengið einn silung og ekki séð fleiri; voru nú í honum hálfgerð leiðindi, og í því bili verður honum litið við, og sér hann þá, hvar Stína litla kemur hoppandi eftir árbakkanum, og er nú svo léttfætt, að hún sýnist ekki koma við jörðina.

    Hann hleypur þegar í móti henni og segir brosandi: »Æ, komdu nú sæl Stína mín«.

    »Sæll vertu nú, Óli minn. Eg má til með að heilsa þér með kossi; við skulum nú setjast hérna niður. Eg þarf ögn að tala við þig«, segir hún kátbrosleg og þó nokkuð feimin.

    Ólafur tekur eftir því, að hún ber eitthvað í svuntu sinni, sem hana eins og langar til að láta koma til sýnis, en kemur sér ekki að því, þangað til hún alt í einu brýtur niður svuntuna, tekur þar úr ofurlítinn böggul, og fleygir að honum.

    »Hana Óli minn, þú átt að eiga þetta fyrir silunginn þann um daginn«.

    »Hvað er þetta — nýir blákemdir sokkar; eg tek ekki við þeim; eg ætlaði mér aldrei að selja brönduna«.

    »Það veit eg vel; hún mamma skipaði mér að gefa þér sokkana. Eg hefi prjónað þá sjálf. Kann eg ekki nógu vel að prjóna? Líttu á, eru þeir ekki dáfallegir í laginu?«

    »Jú, jú, það held eg«.

    »Og líttu á, hérna saumaði eg stafina þína í fitjarnar. Þeir eru nú ekki góðir; mér gekk svo illa með S-in. Ó-in eru betri«.

    »Mér sýnast báðir stafirnir fallegir«.

    »Nei, nei, það er nú samt ekki. Eg ætla að reyna að læra það betur, svo þegar eg er orðin stór, skal eg sauma fallega stafi í sokkana þína. Vittu til«.

    »Þú líklega saumar þá ekki í sokka handa mér, Stína mín«. — »Kanske ekki«, sagði Kristín og dró það nokkuð við sig. »O, hver veit. Það getur þó skeð. En hvað ætli eg sé að hugsa; eg átti að flýta mér. Vertu nú sæll, Óli minn«.

    »Bíddu nú við, hvaða ósköp liggur þér á; komdu hérna, gefðu henni mömmu þinni brönduna þá arna«.

    »Nei, nei, þakka bér fyrir. Eg ætla mér nú ekki að hafa út úr þér silung í annað sinn«.

    »Hafa út úr mér; en eg að hafa út úr þér nýja sokka, einn silungsmurti fyrir tvo nýja sokka, það er fallegur kaupskapur. Ef þú ekki þiggur hann, þá læt eg hann liggja hér, og svo getur hrafninn étið hann«.

    »Nú jæja, fyrst þú verður svona alvörugefinn, þá ætla eg að þiggja hann, hvenær sem eg get borgað«.

    »Borgað!«

    »Eg þakka þér fyrir, góði Óli minn, og vertu nú blessaður og sæll«.

    »Farðu æfinlega vel, Stína mín«.

    Eftir þetta komu þau oft saman börnin þar á enginu, því þau höfðu kúasetu hvort frá sínum bæ, og höfðu þau þar leiki sína. Vigfús frá Hala var þar lika með kýr móður sinnar, því engin lágu öll saman frá þessum þremur bæjum.

    Vel samdi þeim ætíð Ólafi og Kristínu, en heldur vildi bera út af því með Vigfús; hann var apur og óþýður í geði, og spilti hann oft með því skemtun þeirra. Ólafur þoldi það alt með stillingu og umburðarlyndi, og svaraði Vigfúsi aldrei stygðaryrði.

    Kristín þoldi honum ver ójöfnuð hans; sagði hún honum stundum skorinort til syndanna, og þoldi hann henni vonum fremur, og lét þá stundum reiði sína bitna á Ólafi með því að skaprauna honum.

    Einn dag sem þau voru þar börnin, höfðu þau það til gamans, að þau bygðu sér bæ; var Ólafur veggjasmiðurinn, og gerði hann það snoturlega, því hann var þegar ungur mjög laginn, en þau Kristín og Vigfús höfðu fyrir aðflutningum.

    Þegar byggingunni var lokið, sagði Kristín: »Nú skulum við fara að verða hjón Ólafur, en Vigfús á að vera vinnumaður hjá okkur. Svo ætla eg að fara að skamta, úr því við ekki erum búin að borða; eg ætla að reyna að vera ósköp konuleg«.

    »Eg vil vera hjón« sagði Vigtús, »en ekki vinnumaður«.

    »Viltu vera hjón? Hvaða ólukkans bögumæli er það. En eg vil ekki hafa þig fyrir bónda. Hann Ólafur kann svo vel að byggja bæ«.

    »Þú skalt verða bóndi á stundum«, sagði Ólafur, og vildi gera eftir skapi Vigfúsar.

    »Já, en þá má hann nú fá sér aðra konu en mig. Eg fer nú að skamta« sagði Kristín, og tók matarpoka sinn. »Má eg ekki skamta þér matinn þinn líka« Óli minn«?

    »Jú, það máttu, en ætlar þú ekki líka að skamta honum Fúsa, Stína«?

    »Nei, hann vill ekki vera vinnumaður, og því er bezt að hann skamti sér sjálfur«.

    Kristín fór þá til og bar matinn í nýja búrið, og varð þá, — eins og hún kallaði það —, ósköp konuleg.

    Í þessu bili sá hún að kýrnar voru komnar á rás, og kallaði þá til Vigfúsar:

    »Fúsi« sagði hún, »farðu fyrir kýrnar. Eg vil hafa það, að þú sért vinnumaður. Eg skamta þér á meðan«.

    »Eg verð enginn vinnumaður, og fer ekkert fyrir kýrnar«.

    »Þú ert mikið óhræsi«, sagði Kristín, og hljóp á stað eftir Ólafi, sem var nú kominn á stað til að snúa kúnum aftur. Þau ráku þær þangað sem þau vildu hafa þær, og var það stundarkorn, þangað til þau komu aftur heim að litla bænum.

    Kristín hygst þá að taka til og fara að skamta þeim hjónaleysunum, en þegar hún kom inn í búrið sitt, sá hún að heldur hafði verið óvinsamlega um gengið. Vigfús hafði spilt sumu af matnum, en sumu hafði hann stolið og étið, svo lítið var eftir, sem þeim Ólafi gæti orðið að notum.

    Vigfús stóð og glotti leiðinlega, þegar hann sá hvernig Stínu brá við, því hún reiddist mjög.

    »Þú ert versti strákur«, sagði hún, og ætlaði að reka honum löðrung.

    Ólafur hljóp fram fyrir Stínu og sagði: »Æ, það er ósköp ljótt fyrir börnin að vera að berjast. Stína, það hjálpar ekki; við skulum fyrirgefa honum Fúsa, og biðja hann að gera það aldrei oftar«.

    »Eg er góð með að fyrirgefa honum það aldrei varginum þeim arna. Það er skrítið Óli, að þú skulir geta verið svona góður við hann Fúsa. En eg skal gera það fyrir þig, að reyna að fyrirgefa honum. Það er eina bótin, að þú gefur æfinlega felt hann, þegar þið glímið, því hann er svo nautstirður«.

    Nú líður til þess Ólafur er 10 vetra gamall, og hafði hann þá náð svo góðri framför í ýmsri mentun, að það þótti afbrigði á þeim aldri. Hann skrifaði fallega rithönd, og skildi talsvert í dönsku og þjóðversku máli; sundfær var hann vel, og fimur við skot; hafði fóstri hans kent honum hvorttveggja.

    Einhvern dag þá um haustið, kom Ólafur að máli við fóstra sinn og sagði: »Mig hefir lengi langað til að minnast á það við þig, að eg kenni svo mikið í brjóst um aumingjann hann Fúsa litla á Hala fyrir það, að hann lærir svo sem ekki neitt af neinu. Hann ætti þó að læra að skrifa. Eg kann nú orðið svo að skrifa að eg get kent honum það«.

    »Þú mátt gjarnan bjóða honum að ganga hingað á daginn, þegar gott er veður, og segja honum til. Það er fallega gert af þér. Mér þykir vænt um það«.

    »Eg ætla að biðja þig að nefna það sjálfur við hann fóstri minn«.

    »Það skal eg gera, það er réttast að minnast á það við móður hans; en heldur þú að hana Kristínu á Hóli langi nú ekki líka til að læra að skrifa?«

    »Hana Stínu; mega stúlkurnar líka læra að skrifa?«

    »Og ekkert held eg sé á móti því að þær megi það, þó það sé nú ekki algengt«.

    »Já, eg er viss um að hún vill það; eg skal tala um það við hana«.

    Nokkrum dögum síðar var byrjaður skólagangur þeirra Vigfúsar og Kristínar.

    Þungt féll Vigfúsi að þurfa að þiggja tilsögn og þola aðfinningar af Ólafi; gerði hann honum því oft og tíðum alt það til stríðs sem hann þorði, og var Ólafi það mikil skapraun, því framför Vigfúsar varð fyrir þá sök minni, en hún annars hefði getað orðið.

    Alt öðru máli var að gegna um Kristínu; hún keptist við, sem hún gat, að læra, og var Ólafi svo þæg og eftirlát sem hún gat, og gekk því mikið betur en Fúsa.

    Ólafur fékk ekki heldur dulið það, að hann var Stínu alúðlegri og vinveittari í viðmóti, sem alt miklu fremur spilti en bætti skaplyndi Vigfúsar, svo þegar komið var fram yfir miðjan vetur, yfirgaf hann alveg lærdóm sinn, og hafði þó, þrátt fyrir trassadóm sinn og kergju, fengið svo góða undirstöðu í skript og tölvísi, að hann fyrir árvekni Þorbjargar móður sinnar, var kallaður þolanlega að sér þegar hann var fermdur.

    Stína var nokkrum tíma lengur við kenslu Ólafs, og var svo vel á veg

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1