Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Kynleg gifting
Kynleg gifting
Kynleg gifting
Ebook559 pages8 hours

Kynleg gifting

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Rosamond Lovell er ung og fögur stúlka, aðeins átján ára þegar hún giftist hinum auðuga Gordon Caryll. Í ljós kemur að Rosamond er ekki af eins göfugum ættum og eiginmaður hennar taldi, heldur er hún komin af lágstéttafólki og hefur unnið fyrir sér sem söngkona. Gordon verður ævareiður og sækir um skilnað. Nú þarf Rosamond að finna nýtt heimili fyrir sig og nýfætt barn sitt og upp hefst örlagarík atburðarás.Bókin naut mikilla vinsælda á Íslandi áður fyrr sem hluti af Sögusafni heimilanna.Persónurnar og notkun á tungumáli í verkinu endurspegla ekki skoðanir útgefandans. Verkið er gefið út sem sögulegt skjal sem inniheldur lýsingar á tíðaranda og skynjun manna sem tíðkaðist á tímum skrifanna.Serían samanstendur af eldri sögum sem eiga það sameiginlegt að hafa verið eftirsóttar til lengri tíma í flokki rómantískra bókmennta. Bækurnar henta einstaklega vel þegar þú vilt gleyma þér í rómantík og ævintýrum gamla tímans.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateJan 23, 2023
ISBN9788728128077

Related to Kynleg gifting

Titles in the series (4)

View More

Related ebooks

Related categories

Reviews for Kynleg gifting

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Kynleg gifting - May Agnes Fleming

    Kynleg gifting

    Translated by Jón Leví

    Original title: A mad marriage

    Original language: English

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1875, 2022 May Agnes Fleming and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728128077

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    1. hluti

    I.

    Húsið lá í dalverpi, og á bak við það var hæð, vaxin háum furutrjám.

    Það var umgirt fjórum timburveggjum, hafði tvo háa reykháfa, og út að veginum vissu tveir skuggalegir gluggar, sem litu út eins og reiðileg augu. Það gekk undir nafninu „húsið, sem enginn vill leigja".

    Það stóð ekki við neinn veg.

    Þeir, sem þangað vildu fara, urðu að fara frá Quebec gegnum Jóhannesarhliðið og eftir Jóhannesargötunni, þangað til þeir voru komnir út á bersvæði. Þegar þeir voru komnir mílu vegar frá borginni, áttu þeir að snúa inn á þröngan stíg, sem illmögulegt var að koma auga á vegna kjarrs og jurtagróðurs, sem nær því huldi hann.

    Þegar menn höfðu gengið hér um bil mílufjórðung eftir þessum vegi, stefndu menn beint á Saltmörk, en svo hét „húsið, sem enginn vildi leigja".

    Þetta var líka svo óskemmtilegur, afskekktur og einmanalegur staður, að tæplega var hægt að hugsa sér annað eins, en þó lá alls ekki í augum uppi, hvers vegna ekki var hægt að fá leigjanda að húsinu.

    Leigan var blátt áfram hlægilega lág, og herra Barteaux, eigandinn, hélt húsinu vel við.

    Húsinu fylgdi stór matjurtagarður, og ef sá, er í því byggi, hefði hina allra minnstu hugmynd um jarðrækt, gat hann fengið þar margfalda uppskeru.

    Í skóginum voru veiðidýr, og í nærliggjandi vatni var nægur fiskur. Þrátt fyrir þetta kom enginn duglegur veiðimaður til þess að setjast að í „húsinu, sem enginn vildi leigja".

    Það var ekki einu sinni hægt að staðhæfa, að draugagangur væri þar, því þótt segja mætti, að húsið væri draugalegt í fyllsta máta, þá var ekki hægt að benda á eina einustu reimleikasögu þaðan. Aldrei sást neina draugaskímu leggja út um gluggana á efri hæðinni, aldrei heyrðist neitt óp eða öskur rjúfa næturkyrrðina, og aldrei sást nein hávaxin, hvít vofa sveima um eyðilegu herbergin í Saltmörk. Enginn hafði verið myrtur þar í manna minnum, engin saga hafði verið sett í samband við húsið, en saga þess var svo einföld og hversdagsleg sem mest mátti verða.

    Þrátt fyrir allt þetta hékk árið út og árið inn svohljóðandi auglýsing á húshliðinni: „Til leigu", en leigjandinn, sem auglýst var eftir, kom aldrei.

    Sá sem átti húsið var vanur að tauta:

    „Þessi Tom Grimshaw hlýtur að hafa verið hálfgeggjaður, þegar hann byggði þetta hræðilega greni! Þarna stendur það með öllum sínum sköttum og viðgerðarkostnaði og étur sig sjálft. Svona getur það gengið til dómsdags. Jafnvel trén í kringum það virðast hvísla:

    „Þér, sem gangið yfir þennan þröskuld, varpið voninni frá yður."

    Ef þér spyrjið eigandann um sögu hússins, munuð þér að líkindum heyra eftirfarandi:

    „Tom gamli Grimshaw byggði kofann. Hann var móðurbróðir minn — megi hann vera sæll í himnaríki. Ég vona, að hann sé orðinn vitrari, þar sem hann er nú, heldur en hann var í jarðlífinu. Hann var svo ákafur kvenhatari, meðan hann lifði, að slíks eru varla dæmi. Ég veit ekki hvað kvenfólkið hefur gert honum, en það hlýtur að hafa verið eitthvað venju fremur hryllilegt. En hvað sem því líður, þá er það víst, að konur höfðu álíka áhrif á hann og rauð dula á naut. Hann keypti þennan fátæklega og afskekkta landskika og byggði svo þennan hræðilega húsræfil. Þar bjó hann eins og Róbinson Krúsó, eða einhver þvílíkur einsetumaður. Þegar hann dó, erfði ég svo kofann, en ég hef haft fremur litla ánægju af honum fram að þessu. Enginn vill leigja hann af mér, en ég neyðist til að halda honum við, og hefði mér þó í sannleika verið kærara að gamli maðurinn hefði tekið grenið með sér inn i eilífðina, heldur en að arfleiða mig að þvi!"

    Þetta var saga hússins.

    Og í átta ár stóð það autt. Það er bæði upphaf og endir sögunnar.

    Grátt, einmana og af sér gengið. Þannig hafði ég séð húsið í hér um bil tuttugu ár, og þannig sá ég það líka kvöld það, er hér um ræðir.

    Síðan ég var smábarn, hafði hús þetta haft undarleg áhrif á mig, eins og það væri höll Bláskeggs.

    Eftir því sem ég eltist, uxu þessir töfrar, og þegar ég var orðin tuttugu og sjö ára, voru þeir orðnir enn sterkari en fyrir sjö árum, þegar ég stóð á tvítugu.

    Þetta skeði febrúarkvöld eitt. Veður var kalt, og himinninn var alskýjaður.

    Ískaldur vindur blés utan af gaddfrosnu djúpinu og næddi um hæðirnar í kringum Quebec, yfir ömurlegan og auðan veginn, sem ég hljóp eftir, og blés beint í andlit mér.

    Sólin hneig í vestri á bak við óveðursský, sem lýstu ömurlega, með rauðum, eldgulum og gráum litum við sólarlagið. Glampi af þessu reiðilega sólarlagi skein á efstu gluggunum á Saltmörk, svo rúðurnar lýstu eins og eirblandið gull.

    Ég ætlaði að flýta mér, því að ég hafði slæmar fréttir að flytja. Eins og áður er sagt, var nístingskuldi, og nú var tekið að snjóa. Ég átti enn eftir hálfa mílu vegar, og það var tekið að dimma, en töfrarnir frá Saltmörk tóku að verka á mig eins og fyrri daginn. Ég stóð kyrr og horfði á þessi tvö kolsvötru Kýklópsaugu hússins og allt hið grimmdarlega útlit þess.

    „Það lítur alltaf út fyrir að vera í álögum, hugsaði ég með sjálfri mér. „Vel gæti verið, að heil tylft manna hafi verið myrt þarna inni, án þess að nokkur maður hafi minnstu hugmynd um það. Mér væri forvitni á að vita, hvort nokkurt mannsbarn muni nokkru sinni gera Saltmörk að heimili sínu.

    „Er þetta hús til leigu?"

    Venjulega er ég ekki taugaveikluð, en ég dauðhrökk við, þegar ég heyrði þessi orð sögð í lágum rómi rétt hjá mér.

    Ég hafði ekki heyrt neitt fótatak, en það stóð kona við hlið mér á snævi þöktum veginum.

    „Fyrirgefið, ég hef víst gert yður hrædda. Ég er búin að standa hér stundarkorn og horfa á húsið; ég sé að það er til leigu".

    Ég hörfaði eitt skref aftur á bak og horfði á hana, alltof undrandi til þess að koma upp nokkru orði.

    Það var sannarlega undarlegt að sjá ókunna konu standa hér á frostköldu febrúarkvöldi, og það slíka konu.

    Þarna stóð ég og glápti á hana og hugsaði með sjálfri mér, eins og ég geri enn þann dag í dag og mun gera til æviloka, að ég stæði frammi fyrir einhverju því fegursta andliti, er Guð hefði nokkru sinni skapað.

    Hún hlaut að vera kornung ennþá, varla yfir sautján ára. Hún var fremur lítil vexti og vöxturinn afar fíngerður, og gerði það hana barnalega útlits. Sjálf er ég fremur stór kvenmaður, enda náði hún mér varla í öxl.

    Kjóll hennar var vandaður og svo síður, að faldurinn dróst á eftir henni í snjónum. Að ofan var hún klædd í selskinnsjakka; um hálsinn hafði hún hið dýrasta loðskinn, og höndunum hafði hún stungið í handskjól, sömuleiðis úr dýrindis skinni.

    Húfu hafði hún á höfði. Var hún brydduð með loðskinni og fóðruð með silki. Fegurð hennar var ennþá meira áberandi vegna hins dýra klæðnaðar, og sá ég nú í fyrsta skipti á ævinni, hve fagurt kvenfólk getur verið.

    Mörg ár eru liðin síðan þetta gerðist, en þetta dásamlega andlit sem ég sá frammi fyrir mér þetta febrúarkvöld í hálfrökkrinu, stendur mér ennþá lifandi fyrir hugskotssjónum, og liður mér aldrei úr minni, hve gömul sem ég verð.

    Stór, kolsvört, glampandi augu, snjóhvítt hörund, rauður barnsmunnur, lágt enni, beint nef, fagurlega mynduð haka, ofursmáar, snjóhvítar tennur, eins og perlur þræddar á band. Allt þetta sá ég frammi fyrir mér og skildi þegar í stað hvernig á því stendur, að karlmenn gátu misst vitið og oft lífið líka, ásamt æru og samvizku vegna slíkrar veru, sem þessi var.

    Þetta var í sannleika sagt undarleg heimsókn fyrir húsið, sem enginn vildi leigja, þar sem hún þar að auki átti sér stað í myrkri.

    Allt þetta datt mér í hug á örfáum mínútum, meðan við stóðum og horfðumst í augu.

    Síðan heyrði ég aftur hina blíðu og ofurlítið seimdregnu rödd, með keim af ótta og óþolinmæði:

    „Fyrirgefið, þér hafið sennilega ekki heyrt hvað ég sagði. Er húsið til leigu?"

    „Þessi kvenmaður hefur minnsta kosti ekki lært að bíða", hugsaði ég með sjálfri mér.

    „Ég get annars séð það á auglýsingunni. Það stendur autt ennþá, er ekki svo?" hélt hún áfram, og kenndi óþolinmæði í röddinni.

    „Já, það er búið að standa autt í síðastliðin átta ár," sagði ég stuttaralega.

    Hin dásamlegu, kolsvörtu augu, sem stundum tóku á sig bleikleitan blæ, opnuðust dálítið meira af undrun, og færðust af mér yfir á húsið einmanalega.

    „Hvers vegna?" sagði hún loksins.

    Ég yppti öxlum.

    „Þér þurfið ekki annað en líta á húsið, sagði ég. „Hver ætli kæri sig um að eiga heima í jafn ömurlegu og eyðilegu húsi?

    „Æ, jú, ég! Hingað kemur að minnsta kosti enginn".

    Hún sagði þetta í hálfum hljóðum, fremur við sjálfa sig en mig, og sneri fölu andlitinu að húsinu.

    „Nei, hún er víst örugg fyrir heimsóknum hérna, hugsaði ég með sjálfri mér. „Þú þarft þá að fela þig, fagra kona, og óttast að þú kunnir að finnast. Þú ert fögur og rík, ef dæma skal eftir klæðnaði þínum. En mér þætti fróðlegt að vita, hver þú ert í raun og veru, og hvað þú ert að gera hérna, svona alein að kvöldi til.

    Síðustu geislar sólarinnar voru nú horfnir með öllu. Vetrarhiminninn hvelfdist yfir okkur grár og kuldalegur, og frostvindurinn næddi um okkur frá allögðu St. Lawrencefljótinu.

    Hvít snjóský þyrluðust nú yfir himininn, hríðin og nóttin fóru í hönd, og ég átti ennþá hálfa aðra mílu vegar ófarna heimleiðis.

    „Ef þér viljið vita eitthvað nánar um húsið frú, þá verðið þér að snúa yður til herra Barteaux í St. Louisegötu í Quebec; hann er eigandi þess. Húsið er til leigu, og honum mun þykja vænt um að fá leigjanda. Góða nótt".

    Hún svaraði ekki og virtist ekki einu sinni hafa heyrt, hvað ég sagði.

    Þarna stóð hún með hendurnar faldar í handskjólinu og starði undarlega fast á garðshliðið. Andlit hennar var jafnfölt, kalt og hörkulegt og stálgrár himinninn.

    Sjálf þekkti ég lítið til ástríðna eða örvæntingar, en víst var það, að ég hafði aldrei séð jafnofsalega örvæntingu og þá, er lýsti úr svip hennar og starandi steingerðum augunum.

    Ég sneri mér undan og yfirgaf hana.

    Að vísu fann ég til áhuga fyrir kjörum hennar, en ég gat með engu móti farið að standa þarna yfir henni fram á nótt.

    Ég flýtti mér heimleiðis eftir veginum, án þess að líta til baka nema einu sinni.

    Litla, einmanalega veran stóð ennþá kyrr þar sem ég hafði skilið við hana, og bar við hrímgráan kvöldhimininn eins og ofurlítill dökkur depill.

    „Hér liggur eitthvað á bak við, hugsaði ég. „Bara að ég vissi, hver hún er og hvers hún leitar hér. Varla er hún kona eða dóttir neins af fyrirliðunum í hernum. Ég hef séð þær allar í húsi majórsins. Ég er sannfærð um, að hera Barteaux leigir aldrei slíkri konu húsið.

    Því næst gleymdi ég þessari leyndardómsfullu konu og öllu sem henni fylgdi, því rauða ljóstýran í húsi móður minnar lýsti á móti mér, og slæmu fréttirnar, sem ég hafði að flytja, tóku allan huga minn.

    Áður en ég held lengra með þessa kynlegu frásögu mína, frásögu, sem ég finn mér skylt að birta, verð ég að fara nokkrum orðum um sjálfa mig.

    Ég hét Joan Kennedy, og það heiti ég reyndar ennþá.

    Ég var tuttugu og sjö ára að aldri og eina stoð og stytta hrumrar og gamallar móður minnar og tólf ára systur. Móðir mín hafði á yngri árum verið kennslukona í Glasgow og hafði menntað mig eftir beztu föngum, alið mig upp að ósviknum, enskum hætti og kennt mér að tala frönsku með skozkri áherzlu, allt saman til þess að ég yrði fær um að taka að mér sama starfa og hún hafði haft á hendi sjálf.

    Þegar faðir minn dó fyrir tíu árum, tók ég að vinna fyrir mér og hef haldið því áfram til þessa dags.

    Daginn, sem ég flýtti mér heim gegnum fannirnar, hafði ég þá hryggilegu frétt að færa móður minni og systur, að ég hefði misst stöðu mína, og sem stóð hafði ég enga von um aðra vinnu.

    Þetta er allt og sumt, sem lesarinn þaif að vita um Joan Kennedy fyrst um sinn.

    Kafaldið þyrlaðist um mig, þegar ég opnaði dyrnar að húsi móður minnar og gekk inn.

    Hér var allt bjart og vistlegt. Það var rauð glóð í arninum, dúkur var breiddur á borðið, og ofurlítill nasbitinn ketill sendi gufustróka út í loftið. Móðir mín sat í uppáhaldskróknum sínum og prjónaði, og litla, fallega systir mín, hún Jessie, sat með sauma sína við borðið og söng við vinnuna.

    Báðar lögðu undrandi frá sér vinnuna, þegar ég kom alsnjóug inn til þeirra.

    „Joan!"

    Jessie lagði hendur um háls mér, og andlit móður minnar geislaði af ánægju á móti mér.

    „Joan! Og svona seint ein í þessu voðaveðri. Því þú kemur víst ein, er ekki svo?"

    „Jú, hver ætti svo sem að vera með mér, Jessie mín? Auðvitað er ég ein, og þið fáið víst meira af minni gleðilegu nærveru, en þið kærið ykkur um og gagnlegt er, ef satt skal segja. Ég er búin að missa stöðuna, mamma mín."

    „Joan".

    „Já, mér var ómögulegt að gera við því, mamma. Gerðu þér í hugarlund. Frú Engelhart hefur komið því inn í sauðarhausinn á sér að vera afbrýðisöm gagnvart mér, aðeins af því að gamli, hjartagóði og vingjarnlegi majórinn hefur öðru hverju yrt á mig um leið og hann hefur gengið framhjá mér. Og þetta fékk ég fyrir. En við skulum ekki tala meira um það. Snemma á morgun ætla ég að ganga hús úr húsi í allri Quebec og ráða mig í nýja vist, eða farast að öðrum kosti. Og nú langar mig í ofurlítinn tesopa, ungfrú Jessie".

    Og ég tók af mér hatt og sjal, settist og rak upp skellihlátur, til þess að fara ekki að gráta.

    Í sama bili heyrðist barið svo rösklega að dyrum, að Jessie hafði nær því misst tebollann, sem hún hélt á.

    „Guð hjálpi mér, Joan. Hver er nú þetta?"

    Ég fór til dyra, opnaði og hrökk undrandi aftur á bak, því að í glampanum frá arininum og ljósinu blasti við hið fagra andlit konunnar, sem ég hafði skilið við hjá Saltmörk.

    „Má ég koma inn?"

    Hún beið ekki eftir leyfi, en gekk framhjá mér, beint að arninum, og staðnæmdist fyrir framan hann.

    Föt hennar voru alsnjóug. Hún dró hendurnar út úr handskólinu, lagði það til hliðar, dró af sér glófana og tók að orna sér við eldinn.

    Mamma sat grafkyrr og starði orðlaus og agndofa á þennan kynlega gest. Jessie glápti á hana með galopinn munninn, og ég sjálf var alveg frá mér numin.

    Hver var hún, og hvað vildi hún hér?

    Hún stóð þarna kyrr í rúma mínútu og starði inn í eldinn. Svo fann ég, að einhver varð að segja eitthvað. Ég hleypti í mig kjarki og sagði, um leið og ég gekk skrefi nær.

    „Hríðin hefur víst skollið á yður áður en yður varði. Mér datt þetta í hug. Viljið þér ekki fá yður sæti?"

    Hún gaf engan gaum að þessu kurteislega ávarpi mínu, en leit kolsvörtum augunum af eldinum og á mig.

    „Má ég spyrja, hvað þér heitið?" spurði hún allt í einu.

    „Joan Kennedy".

    „Ögift?"

    „Já, frú".

    „Og búið í húsi þessu með —?"

    Hún þagnaði og leit á móður mína og systur.

    „Með móður minni og systur, eins og stendur, áð minnsta kosti. Venjulega er ég í vist í borginni".

    „Þjónustustúlka? "

    Hún þagnaði aftur og starði á mig.

    „Munduð þér ekki vera fáanleg til þess að ráðast til mín, Joan Kennedy?"

    Það lá við að ég yrði að steingervingi við þessa spurningu.

    „Hjá yður, frú?" stamaði ég.

    „Já, hjá mér. Ég þarf á þjónustustúlku að halda, lagskonu, eða hvað það nú er, sem þið kallið það. Launin eru aukaatriði. Ég vil greiða stúlku, er ég get reitt mig á, hvað sem hún setur upp. Ég er ein míns liðs — alein. Varir hennar titruðu og röddin bilaði. „Alein í heiminum! Ég hef orðið fyrir sárri sorg og leita nú að stað, sem ég get hvílt mig á í ró og næði. Ég vildi gjaman leigja húsið, sem stendur autt þarna úti. Hríðin skall á mig óvarða, og því gekk ég á eftir yður í stað þess að halda til veitingahússins. Mér leizt svo vel á yður, mér sýndist á yður, að þér hefðuð orðið fyrir einhverju mótlæti og gætuð þess vegna fundið til með öðrum. Ég vildi gjarna hafa yður hjá mér, því ég hef orðið fyrir sárri sorg, eins og ég sagði yður.

    Hún þagnaði, en óumræðileg angist skein úr hverjum drætti i andliti hennar. Svo hélt hún áfram hálfgrátandi:

    „Ég missti manninn minn —".

    Hún huldi andlitið i höndum sér og brast í svo átakanlegan grát, að slíkt hafði ég aldrei séð eða heyrt fyrr.

    „Veslings barnið", sagði móðir mín.

    Ég stóð þegjandi og horfði á gestinn.

    Ekkjan, sem klæddist pelli, loðskinnum og rauðu silki! Ég leit á vinstri hönd hennar. Jú, þar á milli ópala, smaragðra og rúbína var mjóa gullröndin, sem færir konunum svo mikla hamingju eða svo mikla eymd, eftir því sem atvik standa til — giftingarhringurinn.

    „Ég heiti Gordon, sagði hún, „og eins og ég sagði áðan, er ég ein míns liðs. Ég kom í gær til Quebec og sá hús þetta auglýst til leigu og fór til að skoða það. Mér leizt vel á húsið og ætla að leigja það í sex mánuði fyrst um sinn. En ég get ekki verið þar ein. Mér lízt vel á yður. Viljið þér vera hjá mér?

    Hvort ég vildi vera hjá henni? Hvort ég vildi búa í „húsinu, sem enginn vildi leigja?"

    Uppástunga þessi verkaði á mig eins og köld vatnsgusa. Ég saup hveljur.

    „Ég greiði þeim, sem mér lízt á, hvaða laun, sem vera skal, heyrið þér það, hvaða laun, sem krafizt er og það fyrirfram. Þetta er einmanalegt hús, og þessvegna hentar það mér. Ég er ekki ein af þeim, sem hræðist drauga, og þér virðist ekki vera það heldur, eftir því sem ég lít til. En ef þér viljið ekki vera hjá mér, verð ég að reyna að finna einhverja aðra". bætti hún við drembilega.

    „Ég hef ekki afsagt það, stamaði ég. „Þetta kemur mér aðeins á óvart. Ég þarf að hugsa mig um. Þér skuluð fá svar mitt á morgun.

    Framkoma hennar breyttist nú allt í einu. Hún leit upp og framan í mig eins hjálparvana og biðjandi barn. Hún spennti greipar og bað í aumkunarlegum rómi:

    „Ó, komið til min! Ég skal borga yður það, sem þér farið fram á! Ég þarf að hafa kyrrð og næði um tíma. Ég er alger einstæðingur. Ég missti manninn minn — missti — missti — missti —."

    „Henni er að verða illt!" hrópaði Jessie.

    Þetta var orð og að sönnu.

    Hvort sem það var nú hitinn frá eldinum eða hin mikla sorg, er hún hafði minnzt á, sem hafði orðið henni ofjarl, reikaði hún, orðin dóu á vörum hennar, og ég greip hana þegar hún var að detta.

    Þannig kom fyrsti leigjandinn í húsinu, sem enginn vildi leigja, inn í hús okkar og inn í æviferil minn, sem frá þessari stundu tók miklum stakkaskiptum.

    II.

    Frú Gordon gisti hjá okkur um nóttina og yfirgaf ekki húsið næsta hálfa mánuðinn, en þá flutti hún loks í „húsið, sem enginn vildi leigja".

    Það er óþarfi að skýra nánar frá því, hvernig og hvers vegna ég gekk í þjónustu frúarinnar. Aðalatriðið var launin, er voru fjórum sinnum hærri en í vistinni, sem ég var rekin úr. Þar að auki voru þau greidd fyrirfram.

    Um fortíð frúarinnar hafði ég mínar eigin hugmyndir, en fátæklingar geta ekki verið sérlega vandlátir, svo að ég tók við peningum hennar og gerðist þjónustustúlka hennar og lagskona.

    Þegar fyrstu nóttina, þegar móðir min og Jessie voru háttaðar, sat ég lengi á rúmstokknum hjá ungu konunni og hlustaði á það, sem hún sagði um sjálfa sig.

    Sagan var bæði stutt, óákveðin og ófullnægjandi.

    Hún kvaðst hafa misst foreldra sína, þegar á unga aldri. Hún átti þá engar eignir, en komst aðeins af. Svo steðjaði ógæfan að henni, og hún missti mann sinn, eftir aðeins fjögurra mánaða hjónaband.

    Þetta var allt og sumt að efni til.

    Ég leit til hennar bæði forvitnislega og spyrjandi.

    „Svo þér misstuð hann. Dó hann?"

    Þetta var mjög blátt áfram og eðlileg spurning, en andlit hennar, sem áður hafði verið fremur fölt, varð nú nábleikt.

    „Já, auðvitað dó hann, sagði hún með hásum rómi, „en ég bið yður að spyrja ekki frekar um þetta. Það er ekki liðin nema vika síðan, og ég þoli ekki að hugsa til þess ennþá. Ekki nema vika, og þó finnst mér hún eins löng og heil öld. Og þegar ég renni huganum yfir hin óendanlega löngu, einmanalegu og innihaldslausu ár sem framundan eru, verður mér ljóst að ég fæ aldrei framar að heyra rödd hans, aldrei framar að sjá andlit hans — aldrei framar!

    Og svo yfirbuguðu tilfinningarnar hana, og hún grét — ó hvað hún gat grátið. Sál min fylltist meðaumkun með henni — og þó. Aðeins vika síðan hún varð ekkja, og samt þaut hún svona út í heiminn, ein síns liðs. Yfirgefin af öllum, þrátt fyrir fegurð, æsku og auðæfi. Eitthvað bjó hér undir, sem ekki var eins og það átti að vera.

    Svo mikill máttur fylgir fegurð kvenna, jafnvel gagnvart öðrum konum, að ef hún hefði verið ófríð, hefði ég ekki, þó meira hefði verið í boði, farið til hennar og jarðað sjálfa mig með henni í Saltmörk. En hin aðdáanlega fegurð hennar hreif mig og sigraði allan efa og undanfærslu.

    Og þar sem hinir dásamlegu andlitsdrættir hennar höfðu slík áhrif á mig, hvílíkri eyðileggingu gátu þeir þá ekki valdið meðal karlmanna?

    „En hvað herra Gordon hlýtur að hafa fallið það þungt að skilja hana eftir eina síns liðs, hugsaði ég um leið og ég fór að hátta. „En hvað hún hefur elskað hann heitt.

    „Mér þætti vænt um að mega dvelja hér þangað til búið er að lagfæra húsið okkar, sagði hún morguninn eftir, eins og sú sem ekki er vön að láta neita sér um neitt. „Ég hata þessi hótel, þar sem allir glápa á mann. Ég skal alls ekki vera yður til trafala og óska aðeins eftir að fá að vera í friði og næði.

    Þar sem hún stóð í allri sinni ólýsanlegu fegurð, skrautbúin og með dýrindis skrauthringa á fingrum sér, stakk hún mjög í stúf við hið fátæklega, en ánægjulega heimili okkar.

    Ég var ekki viss um, hvort það væri rétt af okkur að lofa henni að vera, en fátækt okkar gerði okkur leiðitamar, svo ég leigði húsið handa henni, lét flytja í það húsgögn og kom öllu fyrir, meðan hún dvaldi hjá okkur og kom hvergi nærri.

    Ég byrjaði vistina undir eins fyrsta daginn með því að fara til herra Barteaux og segja honum formálalaust, að ég hefði leigjanda handa honum í auða húsið.

    „Hún er ekkja, sagði ég; „frú Gordon að nafni. Hún er fús til að greiða sanngjarna leigu, og ég er í þjónustu hennar sem lagskona hennar.

    „Nei, er þetta satt? hrópaði herra Barteaux. „Þetta er þá ljóslifandi leigjandi? Og ekkja? Hvað er fjölskyldan stór, Joan?

    „Hér er ekki um neina fjölskyldu að ræða, herra Barteaux. Þetta er ung og barnlaus ekkja, og þér verðið að semja að öllu leyti við mig um leiguna. Hún er nýbúin að missa manninn sinn og er alltof örvæntingarfull til þess að sinna nokkrum viðskiptamálum. Í staðinn fyrir ábyrgð ætlar hún að greiða fyrirfram."

    Herra Barteaux hafði, að því er virtist, séð fyrir sér fyrirferðarmikla ekkju á sextugsaldri með stóran barnahóp. Hann varð því hinn ánægðasti, er ég sagði honum allar ástæður, og skrifaði samstundis undir leigusamninginn, og daginn eftir var húsið opnað í fyrsta sinn, til þess að hleypa inn í það hreinu lofti.

    Tilfinningar mínar voru einkennilegar er ég gekk með hinni nýju húsmóður minni um grafhljóð herbergi hússins.

    Herbergin voru tíu. Fjögur þeirra átti að lagfæra, mála, veggfóðra og búa húsgögnum. Allt þetta varð ég að annast, og eftir hálfan mánuð var öllu lokið og hafði tekizt mætavel, að því er mér sjálfri virtist. Og innan fárra daga var það alkunnugt í Quebec, að frú Gordon og Joan Kennedy voru fluttar í húsið, sem enginn vildi leigja.

    Þegar ég renni huganum yfir liðna tíma, undrast ég, að ég skyldi geta þolað þetta einmanalega og tilbreytingarlausa lif, er við lifðum þarna, en fátæktin hjálpaði mér.

    Þetta voru innantómir, tilgangslausir dagar, sem við reyndum að stytta með lestri. Langar og þreytandi nætur, þegar vindurinn hvein á þakinu og rotturnar hömuðust uppi á loftinu.

    Aldrei kom nokkur maður til hússins, nema gömul og þrekvaxin frönsk kerling, sem þvoði upp og vann öll grófari verk, en var heima hjá mér á nóttunni.

    Sjálf hafði ég lítið annað að gera en að hirða laun mín, sem mér féll næstum þyngst af öllu.

    Og húsmóðir mín!

    Já, dagar, vikur og mánuðir liðu svo, að hún var sem lokuð bók.

    Hvaðan hún kom, hve lengi hún ætlaði að dvelja þama og hvert hún ætlaði héðan, var mér ennþá sama ráðgátan. Hún skrifaði aldrei bréf og fékk heldur aldrei bréf. Þó hún hefði lagzt í likkistu og látið grafa sig, þá hefði hún ekki verið dauðari heiminum en hún var.

    Mestan hluta hinna þegjanlegu daga dvaldi hún út við gluggana. Unglingur, klæddur dökkum klæðum, sorgmætt yndislegt andlit, tvö stór þunglyndisleg augu — mannvera, er hafði liðið skipbrot á úthafi lífsins.

    Ævisaga hennar, hvernig sem hún annars var, og hún var vafalaust ekki hversdagsleg, var eins og sakir stóðu á enda. Leiksýningunni var lokið, ljósin slokknuðu, og nú sást ekkert annað en tjaldið, sem hafði verið dregið niður.

    Þótt hún væri ung, þá var hún ein af þeim konum, er skuggi hvílir yfir; ein af þeim, sem bera myrkur í sál sinni, í stuttu máli, kona, sem bar með sér þungbært leyndarmál.

    Aðeins tvennt fékk ég að vita.

    Hið fyrra var, að maður hennar var ekki dáinn, heldur hafði hún yfirgefið hann; að hún hafði leikið á hann og falið sig hér, yfirkomin af ótta við að svo kynni að fara, að hann fyndi hana.

    Hitt var, að þótt hún hefði flúið frá honum, þá elskaði hún hann ennþá af öllu hjarta.

    Kvöld nokkurt kom ég inn í herbergi hennar án þess að berja að dyrum. Kom ég henni þá á óvart, þar sem hún sat með litla mynd fyrir framan sig. Oft hafði ég séð hana horfa á mynd þessa, en aldrei hafði ég séð af hverjum myndin var.

    Nú kallaði hún á mig, á sinn venjulega stuttaralega hátt:

    „Komið hingað, Joan".

    Ég tók eftir því að hún hafði grátið.

    Ég gekk til hennar og horfði á myndina yfir öxl hennar.

    Myndin var af ungum góðlegum, já, næstum því aðdáanlega fögrum manni.

    Hann horfði þarna á mig frá myndinni með barnslegum en þó karlmannlegum svip. Andlitið var skegglaust og augun brosandi og full af trúnaðartrausti.

    „Þetta er allt, sem ég á eftir af honum, sagði hún með titrandi vörum. „Ég fæ aldrei að sjá hann aftur. Ég elskaði hann, en eyðilagði allt líf hans, þrátt fyrir það. Það hefði verið betra fyrir hann, að hann hefði dottið dauður niður, heldur en að sjá mig og kynnast mér.

    „Jæja", sagði ég ósjálfrátt.

    Ég var vön því að heyra hana segja alls konar fjarstæður og tók því ekki sérlega mikið mark á þessu.

    „Er þetta einhver kunningi yðar?"

    Hún leit ástaraugum til myndarinnar.

    „Þetta er maðurinn minn", sagði hún.

    Ég hrökk við og leit undrandi til hennar.

    „Maðurinn yðar? endurtók ég. „Þér hafið líklega ætlað að segja, að þetta hafi verið maðurinn yðar, því þér hafið, eins og þér munið, sagt mér, að hann væri dáinn.

    „Dáinn fyrir mér, Joan — dáinn fyrir mér, en hann er á lífi og líður vel! En þótt ég yrði hundrað ára að aldri, fengi ég aldrei að sjá hann, og þó vildi ég gjarnan gefa líf mitt til þess að fá að sjá hann aðeins einu sinni ennþá. Aðeins eitt augnablik!"

    „Þér elskið hann þá, og hann hefur yfirgefið yður", áræddi ég að segja.

    „Ég elska hann, og ég yfirgaf hann. Ég elska hann með öllum sálarstyrk mínum, og þó hljóp ég frá honum og faldi mig hér. Það er kraftaverk, að ég skuli ekki missa vitið eða deyja. Einu sinni hélt ég, að ég gæti ekki lifað án hans, en lífið togar okkur nauðug með sér, og við erum að jafnaði of huglaus til þess að binda endi á það. Hann elskaði mig líka einu sinni, Joan — og hversu heitt! Hann elskaði mig og gerði mig að konu sinni, og nú, Joan, ef hann finnur mig einhverntíma, þá drepur hann mig!"

    Ég leit enn á hreinskilnislega drengjalega andlitið á myndinni.

    „Hann að drepa yður! Þessi glaðlegi ungi maður. Nei, frú Gordon. Morðingjar líta allt öðruvísi út."

    „Hann er heiðarlegasti, hreinskilnasti og bezti maðurinn sem til er í heiminum. Trúr vinur og sannur riddari."

    „Og þrátt fyrir allt þetta strýkur kona hans frá honum og er hrædd um að hann muni finna sig og lífláta sig."

    Hún heyrði víst varla, hvað ég sagði. Hún laut áfram og faldi andlitið í spenntum greipum sér, eins og hún ætlaði aldrei framar að líta upp.

    „Ó, látið mig um það, sagði hún. „Þér þekkið hvort sem er ekkert til málavaxta. Bara að ég gæti dáið og allt fengi góðan endi á þann hátt! Eitt, aðeins eitt ætla ég að segja yður, Joan. Um leið leit hún upp, eins og óvæntur ótti hefði gripið hana. „Mig dreymdi í nótt, að hann væri að leita að mér og fyndi mig hér. Og hann stóð frammi fyrir mér, ógurlegur á svip, og hélt á dauðadóminum í hendinni. Þér megið ekki hleypa honum inn — þér megið það ekki! Ef það kemur nokkurntíma fyrir að hann finni mig, þá drepur hann mig. Ég er viss um það."

    Ég spurði sjálfa mig, hvort veslings konan væri ekki að missa vitið.

    Að því spurði ég sjálfa mig þá, og ég gerði það á hverju kvöldi í langan tíma á eftir.

    Mér leið hálfömurlega í þessu umhverfi og var oft að hugsa um að losa mig einhvernveginn úr þessari ánauð, þegar allt í einu kom breyting á af sjálfu sér.

    Marz, apríl og maí voru liðnir, og nú var farið að síga á seinni hlutann af júní.

    Seinnipart dags hafði ég gengið til borgarinnar, til þess að afla matfanga og var á heimleið með körfu á handleggnum.

    Ég gekk sem leið lá eftir St. Louisegötunni, og þegar ég kom á móts við skrifstofu herra Barteaux, sá ég hann standa í dyrunum og ræða í ákafa við einhvern ókunnan mann.

    Um leið og ég sá framan í ókunna manninn, hrökk ég saman af skelfingu. — Hann var sá, sem myndin var máluð af.

    Þetta var maður frú Gordon.

    Hinn hræðilegi maður og hið hræðilega augnablik var komið!

    Hvorugur þeirra tók eftir mér. Ég stóð kyrr um stund og horfði á þá.

    Það lék ekki nokkur minnsti vafi á því, að þetta var hann, — að vísu horaður, skuggalegur og alvarlegur, en þó sami maðurinn. Unglingurinn með trúnaðartraustið í svipnum var nú horfinn fyrir fullt og allt, en í hans stað var kominn örvæntingarfullur maður, sem að þvi er virtist mundi ekki láta sér allt fyrir brjósti brenna.

    Hann hafði á höfði stráhatt, sem slútti ofan yfir augun, og hann var í ljósum sumarfrakka, er hann hafði hneppt að sér. Hvað sem öðru leið sást glöggt á honum, að hann var göfugmenni.

    Ég beygði inn í hliðargötu og hljóp sem fætur toguðu. Mér fannst það skylda mín að láta húsmóður mína vita, að það, sem hún hefði svo lengi óttast, væri nú að ske, að maður sá, er hún hafði flúið frá, væri nú í þann veginn að finna hana. Ég flýtti mér allt hvað ég orkaði, og innan hálfrar stundar var ég kominn til Saltmerkur.

    „Hún sagði, að hann mundi drepa sig, sagði ég við sjálfa mig. „Og skeð getur, að það sé rétt hjá henni. Færi svo, væri hann ekki sá fyrsti, er yrði að bana þeirri konu er hafði svikið heit sín.

    Ég hljóp inn í húsið, hrædd og lafmóð, leitaði í öllum herbergjunum og kallaði á hana með nafni.

    Hún var ekki í húsinu. Eftir að vora tók gekk hún oft út sér til skemmtunar, og það hafði hún einmitt gert í þetta sinn.

    Ég þóttist þó vita nokkurnveginn, hvar hana væri að finna. Niður við fljótið var ræma af gulum sandi, og þar var hún vön að ganga fram og aftur í sólskininu. Hún hlaut að vera þar.

    Ég hljóp út og horfði allt í kringum mig.

    Almáttugur! Hann var þá kominn þarna, hái hermannlegi maðurinn í gráa frakkanum, með stráhattinn. Hann gekk hratt í áttina til mín.

    Ég var í svo mikilli geðshræringu, að mér lá við að æpa upp yfir mig.

    Ef hann yrði nú á undan mér og hún sæi hann óviðbúin, gæti hún dáið af hræðslunni einni saman, því heilsu hennar hafði verið töluvert ábótavant upp á síðkastið.

    Ég sneri við, hljóp sem fætur toguðu niður kleifina og hélt áfram að kalla á hana.

    Já, þarna var hún ein. Hægt og hægt gekk hún aftur og fram um götuna og horfði út yfir fljótið, sem rann straumþungt framhjá.

    Hún staðnæmdist og horfði forviða á mig, agndofa yfir þessum ósköpum sem á gengu. En hvað hún var fögur! Jafnvel á þessu ógurlega augnabliki tók ég fyrst eftir því.

    „Leggið á flótta! Í hamingjunnar bænum, flýið! Hann er kominn!"

    Hún tók hendinni til hjartans, og glampa af ólýsanlegri gleði brá yfir andlit hennar.

    „Hver?" spurði hún hásum rómi.

    „Maðurinn yðar — maðurinn, sem myndin er af, sem þér sýnduð mér. Flýtið yður burt ef þér óttist hann. Ég segi yður, að ég sá hann; hann getur komið á hverri stundu. Drottinn minn dýri! Hann er kominn!"

    Ég hrökk óttaslegin aftur á bak.

    Hann hafði elt mig. Hann hafði gengið niður kleifina. Hann var kominn!

    Ég sneri mér að húsmóður minni.

    Mundi hún falla í ómegin? Eða mundi hún leggja á flótta?

    Hvorugt.

    Hver getur staðhæft, að hann þekki konur? Að visu mátti lesa ótta úr andliti hennar, nábleiku af geðshræringu; en jafnframt mátti lesa úr því slíkan fögnuð, að annan eins hef ég aldrei séð, hvorki fyrr né síðar, hvorki á manni né konu. Hún elskaði hann, og nú var hann kominn aftur; það réði úrslitunum.

    Hann kom alveg niður á götuna.

    Hún gekk eitt eða tvö skref á móti honum, breiddi út faðminn og kallaði: „Gordon! — Gordon! — Gordon!"

    III.

    Nú var þáð skeð.

    Ég gat ekki komið í veg fyrir það. Ég gat ekki annað gert en hörfað frá og hlustað, með nær óþolandi hjartslætti, á þennan sorgarleik.

    Hann var nú kominn niður á götuna og stóð augliti til auglitis við konu þá, er hafði flúið frá honum.

    Bjart sólskin júnídagsins skein beint á andlit hans, og mér sýndist hann ennþá inneygðari, gremjulegri og blóðlausari en áður. Andlitið var mótað af föstum ásetningi, hart og miskunnarlaust, hræðilega rólegt og steinrunnið andlit.

    Hann bandaði henni frá sér með vart sýnilegri handhreyfingu, en hún hrökk við eins og barn, sem er slegið að óvörum.

    „Komdu ekki nær mér! sagði hann með kuldalegri og hörkulegri rödd, og augun, sem störðu á hana, voru miskunnarlaus og grimmdarleg. „Ef heyrn þín hefur ekki bilað síðan nóttina, sem Lovell dó, þegar þú lást á hleri með svo góðum árangri, þá hlýtur þú að heyra til mín þar sem þú stendur. Ég skal ekki tefja þig lengi, og þú þarft ekki að setja upp þennan angistarsvip. Ég ætla ekki að gera þér neitt lengur. En ég fullvissa þig um, að ef þú hefðir ekki legið á hleri þessa eftirminnilegu nótt fyrir fimm mánuðum, og ekki flúið áður en ég kom aftur, ef ég hefði þá hitt þig, þá hefðir þú ekki lifað til næsta morguns. Þá var ég einn af mestu aulum, sem nokkru sinni hafa þekkzt, og hefðir þú komizt í hendur mér þá nótt, hefði ég líka orðið morðingi.

    Hann talaði hægt og kuldalega, og úr gráu augunum, sem hvíldu á henni, skein svo mikið hatur, að því verður ekki með orðum lýst.

    „Miskunn, Gordon!" svaraði hún með þungum ekka. „Hlifðu mér!ʻ

    „Hlífa þér? sagði hann með kaldri fyrirlitningu. „Hef ég ekki sagt, að ég vil ekki snerta þig með minum minnsta fingri, hvorki til að gera þér illt eða til að bjarga þér, þó að ég sæi þig drukkna fyrir augum mér. Þú ert jafndauð fyrir mér, og ég hefði ráðið þér bana nóttina, sem Lovell dó. Bæði reiðin og ástin eru horfin, nú og að eilifu. Ég hef þurrkað þig burt úr lífi minu. Mér var sagt, að þú hefðir falið þig hér, af þvi að þú værir hrædd um líf þitt. Þess þarft þú ekki lengur. Þú ert frjáls ferða þinna og getur komið og farið hvert sem þú vilt. Héðan í frá mun ég ekki verða á vegi þínum, ef ég fæ því ráðið.

    Hún rak upp óskiljanlegt óp, en ennþá rétti hún höndina biðjandi í áttina til hans.

    Hann hélt áfram í sama kuldalega og miskunnarlausa rómnum:

    „Ég kom ekki hingað til Quebec til þess að leita að þér, láttu þér ekki koma það til hugar. Ég var í heimsókn í virkinu hjá Forrester yfirforingja, þangað þurfti ég að koma áður en ég yfirgæfi þetta bölvaða land, — bölvaða af því að ég kynntist þér þar".

    Hún hóf hendurnar biðjandi, huldi andlit sitt í þeim og andvarpaði hástöfum, en yfir andliti hans læddist grimmdarlegt bros, þegar hann sá þegjandi örvæntingu hennar. Ég fór að hata hann.

    „Á ég að segja þér, hvernig ég fann þig, og hvers vegna ég kom hingað? hélt hann áfram og talaði hægt. „Hlustaðu þá! Við kvöldverðinn í gær töluðu ungu foringjarnir mikið um unga og fagra stúlku, unga og leyndardómsfulla ekkju, sem hefði leigt sér einmanalegt hús utan við borgina. Hún lokaði sig þar inni og vildi engum kynnast. Nafn hennar var frú Gordon. Enginn vissi, hvaðan hún hafði komið eða hversvegna hún faldi sig þarna. En ég vissi þegar, áður en nafnið var nefnt, að þetta hlyti að vera þú, að þú hefðir flúið hingað frá Toronto, og að ég hefði fundið hér konuna, sem hafði verið konan mín.

    Hendur hennar hnigu niður.

    Í fyrsta sinni stóð hún keik frammi fyrir honum og horfði beint í augu honum, eins og síðustu orðin hefðu sært hana djúpu sári.

    „Sem hafði verið konan þín?" hrópaði hún með ástriðufullum rómi. „Sem er konan þín, Gordon Garyll! Ekkert" — og eins konar fagnandi sigurglampa brá á andlit henni, þegar hún sagði þetta, „ekkert nema dauðinn einn getur breytt því".

    Hann hlustaði á hana og um varir hans lék alltaf grimmdarlegt bros, sem kom inn hjá mér löngun til að slá hann beint í andlitið.

    Í heila mínútu stóð hann kyrr og starði á hana með grimmdarlegu sigurhrósi í augunum.

    „Svo þú heldur það? sagði hann loks. „Ekkert nema dauðinn? Já, við skulum nú tala um það síðar. En hlustaðu nú á mig! Ég vissi þá, að þessi umtalaða kona eða ekkja hlaut að vera þú, og ég ásetti mér að leita þig uppi. Einu sinni enn ætla ég að líta framan i hana; í síðasta sinni á ævinni, hugsaði ég með sjálfum mér. Og ég ætla að reyna að uppgötva, hvað það er í þessu vaxbrúðuandliti, sem getur rænt öllu viti frá karlmönnum og gert þá að heimskingjum. Burt með hendurnar, Rósamunda, og lof mér að sjá framan í þig.

    Orð hans höfðu valdið henni ósegjanlegri kvöl, og hún hafði aftur hulið andlitið í höndum sér. En nú hlýddi hún skipun hans. Hendurnar hnigu niður, og hún horfði á hann tárvotum skelfingaraugum.

    „Hafðu meðaumkun með mér; ég elska þig".

    Og enn á ný rétti hún hendurnar biðjandi í áttina til hans og rak upp skelfingaróp, þegar hann bandaði henni frá sér á ný og brosti háðulega.

    „Stattu kyrr!" skipaði hann.

    Hún hlýddi.

    Þannig störðu þau hvort á annað í fullar tvær mínútur, og úr felustað mínum starði ég agndofa á þennan undarlega sorgarleik.

    Hann, standandi með ískalt augnaráð og steinrunnið bros á vörunum.

    Hún, standandi niðurbeygð frammi fyrir honum og yndislegt andlitið biðjandi til hans. Slegið hárið flaksaðist í golunni, og varirnar barnslega titrandi í bæn, hún var svo ung, fögur og að því er virtist saklaus.

    Og þannig stóðu þau, dómarinn strangi og miskunnarlausi og hin litla, titrandi brotlega kona, þangað til jafnvel ég gat ekki þolað að horfa lengur á þau.

    „Þú ert fögur kona, Rósamunda, sagði hann loks. „Ein af þeim, sem alltaf verða fagrar, þótt þær verði áttræðar, og þetta fagra andlit þitt mun hafa eyðileggingu í för með sér til þinnar hinztu stundar. Og til þess eins að geta í fjóra mánuði kallað þetta fagra andlit mitt, hef ég glatað öllu, sem karlmenn meta nokkurs; nafni, æru, heimili, vinum, auðæfum — öllu! því ég vil ekki lengur nota nafn það, er þú hefur hulið skömm og svívirðingu. Ég hef sagt mig úr herþjónustu; veizt þú það? Faðir minn hefur gert mig arflausan. Allir, sem voru mér kunnugir, henda nú gaman eitt að mér og hafa nafn mitt í flimtingum, og þegar ég lít yfir síðustu atburðina, undrast ég stórlega mína eigin blindni. Ég elskaði þig og reiddi mig á þig — Drottinn minn dýri! æpti hann og afmyndaðist af geðshræringu; „að ég skyldi kvænast þér. Þér! Þú kunnir að halda á spilunum, þú og Lovell. Þið komuð því svo kænlega fyrir í sameiningu, að ykkur varð lítið fyrir því að blekkja mig, fáráðlinginn. Þið höfðuð ástæðu til að óttast, og þið vissuð það bæði! Ennþá einu sinni segi ég við þig: Þú varst heppin að flýja! Ég þaut eins og vitfirringur frá banasæng Lovells — ef ég hefði þá hitt þig heima, hefði verið úti um þig!"

    Hún hrökklaðist frá honum og skalf nú af ótta.

    „Nú þarft þú ekki lengur að skjálfa af hræðslu!" hélt hann áfram, og reiði hans hjaðnaði nú allt í einu og rödd hans varð kuldaleg og ósnortin sem áður.

    „Ég sagði þér áðan, að öllu væri lokið. En áður en við skiljum fyrir fullt og allt vildi ég gjarnan

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1