Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Norræn Sakamál 2007
Norræn Sakamál 2007
Norræn Sakamál 2007
Ebook370 pages5 hours

Norræn Sakamál 2007

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Þú er nú að handleika 7. bókina í ritröðinni Norræn Sakamál. Þessi bók er sérstök að því leyti að nær helmingur hennar eru frásagnir af íslenskum sakamálum. Og þau eru öll sérstök og áhugaverð. Sum þeirra vöktu sérstakan áhuga almennings og voru mikið á forsíðum dagblaða meðan þau voru í rannsókn. Þau höfðu líka áhrif á íslenskt samfélag og einstöku áhrifa þeirra gætir enn í dag, mörgum árum síðar.Þar má nefna málverkafölsunarmálið en afleiðingar þess hafa enn áhrif á verð íslenskra málvera á uppboðsmörkuðum að sögn kunnugra. Frásögnin um slysið á Viðeyjarsundi er ógleymanleg og eftirmálar þess eru enn á dagskrá fjölmiðla. Líkfundarmálið á Neskaupstað var forsíðuefni dagblaða í margar vikur, það komst einnig á síður erlendra blaða og enn er mjög áhugavert að lesa um það sem raunverulega gerðist.Sveðjumálið í Garðabæ er frásögn af máli sem olli skjálfta í heilu bæjarfélagi og áhrif þess finnast enn í dag. Frásögnin um kynferðisbrot er nokkuð sem allir ættu að lesa því hún er ekki aðeins frásögn af sérstökum og áhugaverðum málum, heldur líka lýsing á þessum viðkvæma og erfiða málaflokki sem allir ættu að kynnast nánar.Hundurinn leysti málið er hugnæm frásögn af því hvað fíkniefnahundur er á margan hátt hæfileikaríkari en við sjálfir. Sagan allt í lagi þið náðuð mér lýsir því vel að við erum ekki lengur afskekktir heldur í miðri hringiðu afbrota heimsins þótt við gerum okkur það ekki alltaf ljóst.Auk þessara íslensku frásagna eru greinar um mál frá hinum Norðurlöndunum. Þær eru margar mjög sérstakar og þess eðlis að enginn ætti að láta þær fram hjá sér fara. Þær eru líka spennandi og margt hægt af þeim að læra. Það er tvímælalaust að frásagnirnar í þessari bók eru bæði áhugaverðar og lærdómsríkar og enginn ætti að láta þær ólesnar.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateSep 28, 2020
ISBN9788726512243
Norræn Sakamál 2007

Read more from Forfattere Diverse

Related to Norræn Sakamál 2007

Related ebooks

Reviews for Norræn Sakamál 2007

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Norræn Sakamál 2007 - Forfattere Diverse

    Norræn Sakamál 2007

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 2007, 2020 Ýmsir höfundar and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788726512243

    1. e-book edition, 2020

    Format: EPUB 2.0

    All rights reserved. No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    SAGA Egmont www.saga-books.com – a part of Egmont, www.egmont.com

    Formáli

    Ágæti lesandi!

    Þú er nú að handleika 7. bókina í ritröðinni Norræn Sakamál. Þessi bók er sérstök að því leyti að nær helmingur hennar eru frásagnir af íslenskum sakamálum. Og þau eru öll sérstök og áhugaverð. Sum þeirra vöktu sérstakan áhuga almennings og voru mikið á forsíðum dagblaða meðan þau voru í rannsókn. Þau höfðu líka áhrif á íslenskt samfélag og einstöku áhrifa þeirra gætir enn í dag, mörgum árum síðar.

    Þar má nefna málverkafölsunarmálið en afleiðingar þess hafa enn áhrif á verð íslenskra málvera á uppboðsmörkuðum að sögn kunnugra. Frásögnin um slysið á Viðeyjarsundi er ógleymanleg og eftirmálar þess eru enn á dagskrá fjölmiðla. Líkfundarmálið á Neskaupstað var forsíðuefni dagblaða í margar vikur, það komst einnig á síður erlendra blaða og enn er mjög áhugavert að lesa um það sem raunverulega gerðist.

    Sveðjumálið í Garðabæ er frásögn af máli sem olli skjálfta í heilu bæjarfélagi og áhrif þess finnast enn í dag. Frásögnin um kynferðisbrot er nokkuð sem allir ættu að lesa því hún er ekki aðeins frásögn af sérstökum og áhugaverðum málum, heldur líka lýsing á þessum viðkvæma og erfiða málaflokki sem allir ættu að kynnast nánar.

    Hundurinn leysti málið er hugnæm frásögn af því hvað fíkniefnahundur er á margan hátt hæfileikaríkari en við sjálfir. Sagan allt í lagi þið náðuð mér lýsir því vel að við erum ekki lengur afskekktir heldur í miðri hringiðu afbrota heimsins þótt við gerum okkur það ekki alltaf ljóst.

    Auk þessara íslensku frásagna eru greinar um mál frá hinum Norðurlöndunum. Þær eru margar mjög sérstakar og þess eðlis að enginn ætti að láta þær fram hjá sér fara. Þær eru líka spennandi og margt hægt af þeim að læra. Það er tvímælalaust að frásagnirnar í þessari bók eru bæði áhugaverðar og lærdómsríkar og enginn ætti að láta þær ólesnar.

    Verði þér að góðu ágæti lesandi, ég vonast til að þú verðir ánægður eftir lestur þessarar bókar.

    Með kveðju frá ritstjóranum,

    Guðmundur Gígja.

    Málverkafölsunarmálið

    Eftir Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá embætti ríkislögreglustjóra og starfandi tengifulltrúa Íslands hjá Europol.

    Sumarið 1997 hófst ein umfangsmesta lögreglurannsókn sem fram hefur farið á Íslandi, rannsókn sem hefur gengið undir nafninu MÁLVERKA-FÖLSUNARMÁLIÐ. Málið snerist um að forráðamaður stærsta uppboðshúss landsins var grunaður um að hafa falsað eða látið falsa hátt í 200 málverk eftir flesta þekktustu og dáðustu listmálara Íslands og síðan blekkt viðskiptavini til að kaupa verkin. Grunur lék á um að um skipulagða brotastarfsemi hefði verið að ræða sem hafi staðið yfir árum saman.

    Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum enda hafði það slík áhrif á málverkamarkaðinn á Íslandi að eftirspurn eftir myndverkum eftir látna, íslenska málara dróst verulega saman og verð féllu. Vantraust ríkti á íslenskum listaverkamarkaði sem varla hefur gróið um heilt enn. Áhrifin, sem málið hafði á feril og orðspor listamannanna sjálfra, voru þó enn alvarlegri, ekki síst þar sem þeir voru allir látnir og gátu því ekki sjálfir borið hönd fyrir höfuð sér. Segja má að tilraun hafi verið gerð til að breyta ásýnd og listamannaferli 13 af ástsælustu listmálurum Íslands.

    Heildarrannsókn málsins tók alls um 6 ár en ekki var unnt að beita hefðbundnum rannsóknaraðferðum nema að litlu leyti enda hafði engin sambærileg rannsókn fyrr verið framkvæmd á Íslandi. Þrátt fyrir nákvæmar athuganir víða um heim gátu rannsóknarar ekki fundið erlendar rannsóknir sem unnt var að byggja einstaka rannsóknarþætti á heldur urðu þeir að leita til fjölmargra innlendra og erlendra sérfræðinga og raða einstökum niðurstöðum þeirra saman í rannsóknarniðurstöður.

    Í þessari grein verður fjallað um fyrri hluta þessa máls sem varðar 3 málverk en sérstök ákæra var gefin út vegna þess hluta. Um síðari hluta málsins, sem snerist um 180 myndverk, verður fjallað síðar.

    Öllum nöfnum á mönnum og íslenskum fyrirtækjum hefur verið breytt.

    Aðdragandi málsins

    Fram yfir miðja síðustu öld voru flestir íslenskir listmálarar menntaðir í Danmörku og tileinkuðu sér þannig tækni, vinnubrögð og stíl sem kenndur var og ríkti þar í landi. Lengi hefur verið vitað að eitthvað af málverkum eftir nokkra þekkta íslenska listmálara væru í Danmörku, m.a. frá námsárum þeirra þar, og nokkrir áhugamenn um íslenska myndlist hafa lagt mikið á sig við að hafa upp á þeim, flytja þau til Íslands og bjóða þau upp á málverkauppboðum. Fram yfir 1990 voru slík uppboð frekar fátíð og tiltölulega fá íslensk myndverk komu fram við eftirgrennslan þessara manna í Danmörku.

    Á þessu varð hins vegar mikil breyting um 1993 þegar ungur íslenskur athafnamaður, Ari Arason, eignaðist galleríið og uppboðsfyrirtækið Gallerí Sögu í Reykjavík. Ari, sem hafði verið starfsmaður fyrirtækisins í nokkur ár og þá m.a. séð um að afla listaverka erlendis, fann talsverðan fjölda íslenskra listaverka í Danmörku, flutti þau til Íslands og hélt uppboð. Ari virtist vera afar glúrinn við að hafa upp á íslenskum málverkum sem enginn hafði heyrt um áður eða tekist að komast yfir. Bylting varð í framboði á málverkum „íslensku meistaranna en svo er hópur þekktustu íslenskra listmálara frá fyrri helmingi 20. aldar kallaður. Gallerí Saga náði svo miklu forskoti á keppinauta sína á listaverkamarkaði á Íslandi að þeir lögðu allir niður starfsemi eða urðu gjaldþrota. Þetta olli ýmsum deilum og ásökunum á báða bóga og menn, sem létu sig þessi mál varða á Íslandi, skiptust nokkuð í tvær fylkingar. Stór hópur varð þó mjög ánægður með þennan dugnað starfsmanns Gallerís Sögu og taldi hann vinna stórvirki fyrir íslenska myndlist með því að draga til landsins fjölda áður óþekktra málverka eftir þekktustu málara Íslands. Frá 1993 voru haldin 1–2 uppboð í mánuði í Reykjavík á vegum Gallerís Sögu og á hverju þeirra voru nokkur málverk eftir „gömlu meistarana til sölu, sem enginn hafði séð áður. Menn voru reyndar sammála um að flest þessara málverka væru afar léleg og ýmsar vangaveltur voru um þá staðreynd.

    Einn af þeim mönnum sem var vantrúaður á að allur þessi fjöldi áður óþekktra málverka væri ófalsaður var Ingólfur Óli Jónsson, forvörður¹ hjá forvörslufyrirtækinu Gráskinnu í Reykjavík. Fyrirtækið Gráskinna sinnti hreinsunum og viðgerðum á listaverkum auk innrömmunar. Margir töldu Gráskinnu vera keppinaut Gallerís Sögu, m.a. á sviði innrömmunar og jafnvel miðlun listaverka. Þar af leiðandi væri verið að gera tilraun til að ryðja keppinauti úr vegi með kærunum. Lögreglan kannaði því grundvöll kæranna mjög gaumgæfilega áður en ákveðið var að hefja opinbera rannsókn á grundvelli þeirra. Ingólfur Óli mætti á skrifstofu Rannsóknarlögreglu ríkisins í mars 1997 þar sem hann lagði fram kæru vegna sölu Gallerís Sögu á þremur málverkum. Kærunum fylgdu rannsóknarskýrslur Ingólfs Óla þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að málverkin væru ekki eftir þá listamenn sem þau voru höfundarmerkt. Í júní sama ár bárust kærur um viðskipti með sjö ætluð fölsuð málverk frá Ingólfi Óla. Samtals lagði Ingólfur Óli, með aðstoð lögfræðings síns, fram kærur vegna viðskipta með um 120 myndverk en síðustu kæruna lagði hann fram í júní 1999.

    1 Forvarsla er fræðigrein sem varðar varðveislu, rannsóknir og viðgerðir listaverka. Ingólfur Óli nam sitt fag á Ítalíu en hefur alla tíð síðan stundað forvörslu á Íslandi. Hann er nú starfsmaður forvörsludeildar Listasafns Íslands.

    Upphaf lögreglurannsóknar

    Í kærugögnum Ingólfs Óla var lögð áhersla á að sýna fram á að verkin væru fölsuð. Ekki komu fram sterkar ábendingar eða sönnunargögn um hver falsarinn væri eða hvort verkin hafi vísvitandi verið seld fölsuð. Það setti rannsóknarlögregluna í nokkurn vanda til að byrja með. Fyrsta spurning hennar var því: Á rannsóknarlögreglan að taka við upplýsingum um fölsuð listaverk ef hún hefur ekki ábendingar um falsarann eða að svikabrot hafi verið framin í viðskiptum með verkin? Er það kannski menningarmálayfirvalda að eiga við slík mál? Um þetta voru lögfræðingar rannsóknarlögreglunnar ekki alveg sammála. Þar sem kærurnar báru með sér að nánast öll kærðu myndverkin hefðu verið seld í Gallerí Sögu var tekin sú ákvörðun í júlí að kynna Ara Arasyni, eiganda og framkvæmdastjóra Gallerís Sögu, kærurnar og óska eftir gögnum um viðskipti með hinar kærðu myndir svo og hvaðan myndirnar hefðu komið til gallerísins.² Ekki höfðu þá komið fram þær grunsemdir sem gáfu tilefni til að Ari fengi réttarstöðu sakbornings.³ Honum var því ritað bréf og óskað eftir samvinnu hans við að kanna bakgrunn og eigendasögu umræddra myndverka en einnig var óskað eftir gögnum úr bókhaldi gallerísins um viðskipti með umrædd myndverk en sem söluaðili listaverka bar galleríinu lagaleg skylda til að halda skrá um móttöku, meðferð og sölu listaverkanna.

    2 Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður þegar embætti ríkislögreglustjóra var stofnað með nýjum lögreglulögum þann 1. júlí 1997. Hið nýja embætti tók því sjálfkrafa við þessari rannsókn.

    3 Samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála hefur fólk annaðhvort stöðu vitnis eða stöðu sakbornings við yfirheyrslur eða aðra meðferð hjá lögreglu. Þegar rökstuddur grunur er talinn vera fyrir því að einstaklingur hafi framið tiltekið brot fær hann réttarstöðu sakbornings, sem skilgreind er nánar í fyrrgreindum lögum.

    Erfiðlega gekk að fá svör frá Gallerí Sögu og Ari, framkvæmdastjóri, virtist ekki vera fús til samvinnu í málinu. Viðbótarupplýsingar, sem rannsóknarlögreglunni bárust sumarið 1997, leiddu til þess að ákvörðun var tekin um að hefja lögreglurannsókn þann 1. júlí 1997. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans var falin rannsókn málsins undir stjórn saksóknara deildarinnar.

    Eftir margar ítrekanir frá lögreglunni um svör barst loks bréf frá lögmanni Gallerís Sögu í lok október 1997 þar sem fram kemur að í sumum tilfellum séu ekki til nein gögn eða upplýsingar um þann eða þá sem galleríið fékk myndverkin hjá. Í einhverjum tilfellum voru verkin fengin hjá nafngreindum, oftast látnum Íslendingum en í flestum tilfellum hafi verkin komið frá Danmörku, sum frá nafngreindum Íslendingi sem þar bjó, Birni Breiðdal, viðskiptafélaga Ara, en önnur frá ýmsum nafngreindum Dönum, sem flestir voru nýlátnir. Viðbrögð framkvæmdastjóra gallerísins og svör hans við skriflegum fyrirspurnum um viðskiptin með kærðu verkin felldu að mati rannsóknara málsins grun á hann og í framhaldinu var ákvörðun tekin um að hann fengi stöðu sakbornings í rannsókn málsins. Lögreglurannsóknin beindist því að ætluðum fölsunar-, fjársvika- og bókhaldsbrotum Ara.

    Fölsunarbrotin fólust í því að hafa falsað eða látið falsa myndirnar sjálfar eða höfundarmerkingar á þeim. Fjársvikabrotin fólust í því að hafa blekkt viðskiptavini til að kaupa fölsuð málverk og greiða verð samkvæmt því. Bókhaldsbrotin lágu aðallega í því að hafa ekki fært viðskipti með hin vefengdu verk í bókhald fyrirtækisins en einnig í því að hafa ekki fært bókhald á tilteknum tímabilum í rekstri Gallerís Sögu.

    Þar sem hér var um að ræða fyrstu rannsókn síns eðlis á Íslandi fóru rannsóknarar rækilega yfir það hvaða sönnunargagna væri unnt að afla, hvar þau væri að finna og hverjir gætu aðstoðað við rannsóknina en ljóst var að þörf var á ýmiss konar sérfræðiaðstoð í rannsókn málsins. Leita þyrfti svara við nokkrum lykilspurningum, þar á meðal:

    Eru listaverkin fölsuð? Hver er falsarinn? Seldi Gallerí Saga vísvitandi fölsuð listaverk eða voru forráðamenn þar í góðri trú? Hver er afstaða kaupendanna til þess að kæra viðskiptin? Hvað varð um söluandvirði hinna fölsuðu verka? Var um skipulagða brotastarfsemi að ræða og hverjir stóðu þá að henni?

    Umfang rannsóknarinnar – rannsóknaráætlun

    Kærur Ingólfs Óla Jónssonar leiddu til þess að rannsóknarar fóru yfir allar uppboðsskrár auk gagna og ljósmynda af verkum sem Gallerí Saga hafði selt á uppboðum frá 1993. Rætt var við kaupendur og sum verkanna skoðuð. Þessi almenna athugun varð til þess að nokkrir kaupendur lögðu fram sjálfstæðar kærur eftir að þeir höfðu látið sérfræðinga kanna verkin sín. Um mitt árið 1999 hafði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans til rannsóknar viðskipti með samtals um 180 myndverk eftir 13 af þekktustu listmálurum Íslendinga, færeyska listmálarann Samuel Mikines og danska cobra-málarann Asger Jorn. Um var að ræða olíumálverk á striga, vatnslitamyndir á pappír, akrýlverk, blek, túss- og blýantsteikningar.

    Rannsóknarar leituðu til lögregluyfirvalda erlendis og beiðni var send um samskiptakerfi Interpol um ráðleggingar og aðstoð við einstaka rannsóknarþætti, sérstaklega þá sem vörðuðu tæknilegar rannsóknir á málverkunum sjálfum. Þær beiðnir skiluðu afar takmörkuðum árangri þar sem mjög fá mál virðast hafa komið til rannsóknar sem varða falsanir myndverka frá 20. öld. Öðru máli gegnir um eldri verk, t.d. miðaldaverk sem oft hafa verið rannsökuð ítarlega.

    Þar sem Listasafn Íslands var og er eina ríkislistasafnið í landinu og sérstök lagaákvæði eru um ráðgjafar- og rannsóknarhlutverk þess, leituðu rannsóknarar til safnsins eftir ráðgjöf. Þá lá fyrir að eitt af hinum kærðu verkum hafði Listasafnið keypt á uppboði í Gallerí Sögu en Listasafnið hafði ekki tekið ákvörðun um það hvort það óskaði eftir að þeirri kæru yrði haldið til streitu eða ekki. Vegna þessarar aðkomu safnsins að málinu, óskuðu rannsóknarlögreglumenn eftir sérstakri lögfræðilegri athugun og ákvörðun um það hvort eitthvað væri við það að athuga að starfsmenn Listasafns Íslands kæmu að ráðgjöf eða einstökum rannsóknarþáttum. Niðurstaðan var sú að svo væri ekki.

    Viðræður rannsóknara við innlenda og erlenda sérfræðinga leiddu til þess að gerð var rannsóknaráætlun sem byggðist í meginatriðum á eftirfarandi þáttum:

    Rannsókn á uppruna og eigendasögu verkanna.

    Tæknilegar rannsóknir forvarða og annarra sérfræðinga á verkunum sjálfum.

    Rannsóknir og greiningar listfræðinga sem aðallega fólust í rannsóknum á tækni, efnis- og litameðferð, mótífum, viðfangsefnum og samanburði við önnur listaverk listamannanna, auk rannsókna á ferli og lífi listamannanna sjálfra.

    Rannsókn á bókhalds- og skráningargögnum um viðskipti með hin kærðu verk bæði hér á landi og erlendis.

    Rannsókn á greiðslum og ráðstöfun söluandvirða verkanna.

    Hefðbundin lögreglurannsókn; önnur gagnaöflun, rannsóknir á skýringum grunaðra, yfirheyrslur, viðtöl við vitni, húsleitir o.s.frv.

    Þegar afar takmörkuð svör framkvæmdastjóra og eiganda Gallerís Sögu við skriflegum spurningum rannsóknara lágu fyrir í nóvember 1997 var fenginn dómsúrskurður og gerðar húsleitir í Gallerí Sögu og á heimili Ara. Lagt var hald á öll fyrirliggjandi skráningar- og bókhaldsgögn frá árinu 1993, uppboðsskrár, ljósmyndir, liti, pappír, striga svo og ýmis önnur gögn sem talin voru tengjast málinu. Nokkuð af þeim gögnum áttu eftir að vera mjög þýðingarmikil við rannsókn málsins en mikil vinna fór í að flokka þau og bera saman við aðrar upplýsingar sem aflað var.

    Tvístígandi eigendur

    Ingólfur Óli, sem var upphafsmaður þessa máls, taldi sig vita um mun fleiri fölsuð verk en hann hafði upphaflega afhent lögreglunni með kærubréfum sínum. Hann sagðist hafa skoðað allmörg verk á heimilum eigendanna og sannfærst strax eftir fyrstu skoðun um að mörg þeirra væru fölsuð. Allir hefðu eigendurnir sagst hafa keypt verkin hjá Gallerí Sögu eftir 1993. Hann afhenti rannsóknurum lista með nöfnum eigenda og lýsingum á málverkunum og fór fram á að eigendunum yrði gefinn kostur á að óska eftir rannsókn.

    Rannsóknarar ræddu við nokkra af þessum eigendum, ýmist á heimilum þeirra eða á skrifstofu ríkislögreglustjóra. Komu gjarnan fram mjög skiljanleg sjónarmið hjá eigendunum. Í fyrsta lagi sögðust þeir margir hafa lagt talsvert fé í að fjárfesta í dýru málverki eða málverkum eftir þekkta íslenska málara og þeir hefðu enga tryggingu fyrir því að fá það fé endurgreitt þrátt fyrir að þeir legðu fram kæru. Margir sögðust hafa leitað til forráðamanna Gallerís Sögu um hugsanlega endurgreiðslu ef í ljós kæmi að verkin væru fölsuð en ekki fengið fullnægjandi svör þaðan. Í öðru lagi var augljóst að sumir eigendanna töldu vandræðalegt og jafnvel ákveðna niðurlægingu í því að hafa látið blekkja sig til að kaupa fölsuð listaverk. Vildu þeir jafnvel frekar láta kyrrt liggja og eiga verkið áfram til að sleppa við hugsanlega auðmýkingu. Í þriðja lagi birtist gamla, góða hégómagirndin; sumir eigendurnir höfðu keypt málverk eftir þekktan íslenskan málara og sett það upp í stofunni sinni fyrir augum allra vina og kunningja til að ganga í augun á þeim. Þeir vildu frekar láta Kjarvalinn sinn hanga áfram á veggnum heldur en að missa hann, jafnvel þótt hann væri líklega falsaður. Síðastan en ekki sístan skal nefna þann hóp fólks sem hafði einfaldlega keypt sér fallegt málverk og stóð nánast á sama hvort það reyndist falsað eður ei. Sá hópur hafði einungis hug á að eiga sitt verk áfram án þess að hafast frekar að.

    Rannsóknarar ræddu það sín á milli og við saksóknara hvernig bregðast ætti við slíkri stöðu. Niðurstaðan var sú að eigandinn yrði alfarið að ráða því sjálfur hvort hann vildi leggja fram kæru eða ekki, rannsóknararnir mundu alls ekki leggja það að honum. Það væri ekki hlutverk lögreglunnar að safna upplýsingum og kortleggja véfengd og jafnvel fölsuð listaverk heldur að rannsaka lögbrot. Ef eigandinn teldi sig ekki hafa verið blekktan eða vildi ekki leggja fram kæru mundi lögreglan ekki aðhafast frekar.

    Fyrsti kafli heildarrannsóknarinnar

    Rannsókn þessa máls þróaðist þannig að vorið 1998 lá fyrir rannsóknarniðurstaða um þrjú málverkanna og viðskipti með þau. Rannsóknarar töldu að fyrir lægju sterk sönnunargögn um að Ari Arason, framkvæmdastjóri og eigandi Gallerís Sögu, hefði sjálfur falsað eða látið falsa höfundarmerkingar á þessum þremur málverkum og blekkt kaupendur á Íslandi til að kaupa verk með falsaðri höfundarmerkingu. Um var að ræða dönsk verk sem upprunalegar höfundarmerkingar höfðu verið máðar af og yfirmálaðar á nýjan leik en verkin síðan merkt íslenska listmálaranum Jóni Stefánssyni, sem er einn dáðasti, virtasti og verðmætasti listmálari Íslands. Fyrir lágu sönnunargögn sem sýndu ótvírætt að mati rannsóknara að Ari keypti verkin þrjú í Danmörku, þá höfundarmerkt danska listmálaranum Wilhelm Wils, sem var jafnaldri og skólabróðir Jóns Stefánssonar í Listaakademíunni í Kaupmannahöfn upp úr aldamótunum 1900. Ari seldi sömu þrjú verk nokkru síðar á uppboðum hjá Gallerí Sögu með höfundarmerkingu Jóns Stefánssonar. Þess má geta að Wilhelm Wils var talinn miðlungs málari og verk hans seldust að jafnaði á mjög lágu verði í Danmörku. Verk Jóns Stefánssonar voru hins vegar mjög eftirsótt á Íslandi og í hæsta verðflokki. Í því lágu ætluð fjársvik Ara.

    Saksóknari efnahagsbrotadeildar þurfti því að taka þá vandasömu ákvörðun hvort gefa ætti út sérstaka ákæru vegna þessara þriggja verka eða bíða eftir niðurstöðu heildarrannsóknarinnar. Þar sem fyrir lá að langt væri í að heildarniðurstaða lægi fyrir í þessu umfangsmikla máli ákvað hann að ákæra Ara í maí 1998 vegna þessara þriggja verka sem hér verður fjallað um.

    Málverk merkt Wilhelm Wils eignuð Jóni Stefánssyni

    Í upphaflegum kærugögnum benti Ingólfur Óli Jónsson á að aftan á blindramma⁴einnar af hinum kærðu myndum, sem seld var á uppboði Gallerís Sögu nr. 6 á Akureyri þann 21. maí 1995, væru tölustafirnir 422 og 489 ritaðir. Verkið var á uppboðinu selt sem málverk eftir Jón Stefánsson og höfundarmerking hans greinilega rituð á verkið. Í uppboðsskrá hét verkið „Uppstilling. Ingólfur Óli vísaði til þess að lýsing á myndverki númer 422 í uppboðsskrá nr. 489 við uppboð hjá uppboðshúsinu Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn þann 10. desember 1986 kæmi einmitt heim og saman við hið kærða verk. Í uppboðsskrá Bruun Rasmussen heitir verk nr 422/489 „Pelargonie på et bord og sagt eftir danska listmálarann Wilhelm Wils sem fæddur var 1880. Verkið var höfundarmerkt „Wils 12 þegar það var selt á uppboðinu í Kaupmannahöfn á DKK 3.000. Ingólfur Óli fullyrti að við skoðun verksins undir útfjólubláu ljósi hefði komið greinilega í ljós að um nýja yfirmálningu væri að ræða á nokkrum stöðum á verkinu. Hann hefði fjarlægt hluta af einum slíkum flekk og undir honum væri tölustafinn „12 að finna, sem að hans mati staðfesti að um sama verk væri að ræða og selt var á uppboðinu í Danmörku árið 1986.

    4 Blindrammi er grindin sem striginn er strengdur á.

    Haustið 1997 var haft samband við ríkislögreglustjórann í Danmörku og óskað eftir aðstoð við gagnaöflun og aðra rannsókn málsins þar í landi, m.a. að kanna feril málverksins sem hafði uppboðsnúmer 422 á uppboði Bruun Rasmussen í desember 1986. Danskir rannsóknarlögreglumenn gengu hratt til verks og í byrjun október sendu þeir íslenskum starfsfélögum gögn frá Bruun Rasmussen sem báru með sér að málverkið „Pelargonie på et bord eftir danska málarann Wilhelm Wils og höfundarmerkt „Wils 12 hafi verið selt fyrir eigandann Hanne Krag á uppboði nr. 489 í desember 1986. Verkið hafði uppboðsnúmerið 422 og á bakhlið verksins var ófullgerð mynd af nakinni, liggjandi konu. Kaupandinn var danskur maður að nafni Jens Hansen frá Holbæk í Danmörku. Dönsku lögreglumennirnir höfðu samband við nefndan Jens Hansen sem staðfesti að hafa keypt verkið en hafa selt það aftur á uppboði í Vejle í Danmörku í ágúst 1994. Uppboðshús Bruun Rasmussen í Vejle gat upplýst lögregluna um að samkvæmt gögnum uppboðshússins hefði kaupandi verksins verið Íslendingur að nafni Ari Arason.

    Með þessar staðreyndir í farteskinu fór íslenskur rannsóknarlögreglumaður með saksóknara til Danmerkur í nóvember 1997 til funda með fulltrúum lögreglu og ákæruvalds þar í landi um samstarf við rannsókn málsins. Jafnframt voru haldnir fundir með forráðamönnum Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn og Vejle og óskað eftir samvinnu þeirra við að upplýsa málið. Uppboðshúsið lagði fram öll þau gögn sem óskað var eftir varðandi viðskipti með umrætt málverk. Gögnin sem til voru um þetta tiltekna málverk voru mjög skýr:

    Fyrrgreindur Jens Hansen kom með málverk sem selt var fyrir hann á uppboði Bruun Rasmussen, nr. 33 í Vejle þann 18. ágúst 1994. Málverkið var selt undir heitinu „Opstilling på potteplante samt liggende nøgen model. Það bar höfundarmerkinguna „Wils 12 og hafði uppboðsnúmerið 1125. Á bakhlið málverksins var ófullgerð mynd af liggjandi nakinni konu. Kaupandinn hafði fengið úthlutað boðsnúmerinu 249 á uppboðinu og hjá uppboðsfyrirtækinu lá fyrir undirritað umsóknareyðublað sem hann hafði fyllt út með eigin hendi þegar hann sótti um boðsnúmer á þessu uppboði. Undir eyðublaðið ritaði Ari Arason, framkvæmdastjóri og eigandi Gallerís Sögu á Íslandi.

    5 Allir þátttakendur á uppboðunum sækja um uppboðsnúmer með útfyllingu sérstaks eyðublaðs, sem þeir undirrita með eigin hendi. Á uppboðinu sjálfu rétta þeir síðan upp skilti með uppboðsnúmerinu vilji þeir bjóða í það sem er til sölu í hvert sinn.

    Boðsnúmerið 249 kom fram á reikningi sem uppboðsfyrirtækið gaf út vegna viðskiptanna en hann bar með sér að kaupandi nr. 249 hafði keypt tvö málverk á uppboðinu, númer 1125 og 1126 í uppboðsskránni. Verk nr. 1125 var slegið á DKK 1.600 og verk 1126 á DKK 2.600.

    Þegar gögn um verk númer 1126 voru skoðuð kom í ljós að það var einnig eftir Wilhelm Wils og bar höfundarmerkinguna „Wils. Um var að ræða olíumálverk af vínflösku, ávaxtaskál og drykkjarkönnu á borði og verkið selt fyrir sama Jens Hansen og átt hafði verk númer 1125. Verkið hét „Opstilling med vin, krus samt frugter í uppboðsskránni.

    Meðal ljósmynda, sem haldlagðar voru í húsleit í Gallerí Sögu, var ein af málverki sem bar höfundarmerkinguna „Jón Stefánsson og var einmitt af vínflösku, ávaxtaskál og drykkjarkönnu á borði. Við skoðun á uppboðsskrám Gallerís Sögu kom í ljós að málverkið á ljósmyndinni var selt á uppboði nr. 12 í Reykjavík þann 1. september 1994 á IKR 360.000 en litmynd af verkinu var á forsíðu uppboðsskrárinnar. Verkið var boðið upp og selt sem olíumálverk eftir Jón Stefánsson undir heitinu „Uppstilling og hafði númerið 82 í uppboðsskrá.

    Starfsmenn danska ríkislögreglustjórans höfðu milligöngu um að rannsóknarlögreglumaður frá Íslandi hitti Jens Hansen í Danmörku og tók af honum skýrslu. Jens skoðaði ljósmyndir af málverkinu af pelargóníunni sem selt var á uppboði Gallerís Sögu í maí 1995 og fullyrti að um sama málverk væri að ræða og hann hefði keypt 1986 og selt aftur í ágúst 1994 á uppboði nr. 33 í Vejle en þá hefði verkið verið höfundarmerkt Wilhelm Wils. Jens átti ekki ljósmynd af því málverki en lét lögregluna hins vegar hafa ljósmynd af málverkinu sem hafði númerið 1126 í uppboðsskránni í Vejle. Á þeirri ljósmynd fer ekki milli mála að málverkið er með höfundarmerkinguna „Wils". Sú ljósmynd staðfesti einnig að verkið, sem Jens seldi í Vejle nr. 1126 eftir Wils, var sama verk og Ari Arason seldi í Gallerí Sögu, merkt Jóni Stefánssyni, mánuði síðar.

    Í haldlögðum bókhaldsgögnum fundust gögn um kaupanda málverksins nr. 82 á uppboði Gallerís Sögu í september 1994. Reyndist það vera einn af sendiherrum Íslands í Evrópu. Lögreglan hafði samband við hann og staðfesti hann að hafa keypt verkið sem olíumálverk eftir Jón Stefánsson á umræddu uppboði. Hann sagðist vera afar hreykinn af verkinu og hafa sett það á áberandi stað upp á vegg í sendiherrabústaðnum. Eftir að lögreglan upplýsti hann um grunsemdir sínar sendi hann verkið til Íslands til rannsóknar og lagði síðar fram kæru á hendur Ara Arasyni fyrir að hafa blekkt sig til að kaupa falsað málverk.

    Tækni- og sérfræðirannsókn hefst

    Tæknirannsóknardeild ríkislögreglustjórans átti VSC-skimunartæki (Video Spectral Comparator) sem venjulega var notað við skjalarannsóknir. Með tækinu er m.a. unnt að sjá í gegn um efnislög af ýmsu tagi með því að skima yfirborð með síum og breytilegum samsetningum infrarauðs og útfjólublás ljóss. Ákveðið var að prófa að setja málverkin af pelargóníunni og vínflöskunni í þetta skimunartæki til að freista þess að sjá undirliggjandi höfundarmerkingu, sem búið var að mála yfir eða slípa niður. Tilraunin heppnaðist og leifar af höfundarmerkingunni „Wils 12 ljómuðu undir nýlegri yfirmálningu í geislum tækisins á öðru málverkinu en „Wils á hinu.

    Þessi niðurstaða varð til þess að ákveðið var að óska eftir ítarlegri rannsókn forvarða Listasafns Íslands á þessum gömlu, yfirmáluðu höfundarmerkingum. Um leið var leitað ráðgjafar hjá Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum og Listasafni Íslands um þann eða þá listfræðinga sem væru helstu sérfræðingar í verkum Jóns Stefánssonar. Forstöðumenn beggja safnanna voru sammála um það hver væri sá sérfræðingur. Í desember 1997 hófu því sérfræðingurinn og forstöðumaður forvörsludeildar Listasafns Íslands, hér eftir nefndur forvörðurinn, rannsóknir á þessum tveimur verkum.

    Íslenskir listfræðingar og forverðir höfðu aldrei fengist við verkefni af þessu tagi og tóku sér nokkurn tíma til að þreifa fyrir sér um hentugar aðferðir. Framangreindur sérfræðingur lagði mikla vinnu í að rannsaka verkin, meðal annars með tilliti til aðferða, tækni, meðferðar lita, myndflatar og annarra listaverka eftir Jón Stefánsson, svo og með því að lesa allar hugsanlegar heimildir um líf og list Jóns. Við rannsókn á listamannanámi Jóns kom í ljós að hann lærði myndlist hjá sama kennara í Kaupmannahöfn upp úr aldamótunum 1900 og Wilhelm Wils, enda voru Jón og Wils jafnaldrar. Ýmis almenn einkenni í verkum Wils voru því þekkt í listaverkum Jóns, t.d. fylgdu þeir sömu grunnreglum um myndskipan í málverkum. Það sem aðgreindi þessi tvö verk að mati sérfræðingsins frá málverkum Jóns Stefánssonar var þó aðallega litameðferð, tækni og gæði verkanna. Niðurstaða sérfræðingsins var sú að þessi verk gætu tæplegast verið eftir Jón Stefánsson.

    Eftir almenna skoðun og ljósmyndun, skoðaði og ljósmyndaði forvörðurinn verkin undir útfjólubláu ljósi. Gamlir olíulitir ljóma mjög ljóst og skært undir útfjólubláu ljósi en nýir eru dökkir. Súrefnið í andrúmsloftinu hefur þau áhrif á litina með tímanum að þeir oxast og svara útfjólubláu ljósi skærar eftir því sem þeir eru eldri. Þessi einfalda aðferð gefur því mjög góða vísbendingu um aldur olíulita. Undir útfjólubláu lömpunum kom mjög greinilega í ljós að um var að ræða nokkuð gömul verk en nýlega var búið að yfirmála verkin á nokkrum stöðum. Nýlega málningin kom fram sem dökkar skellur. Áberandi dökkar skellur voru einmitt yfir þeim stöðum þar sem höfundarmerkingarnar komu fram í skimun tæknirannsóknardeildar lögreglunnar.

    Í samráði við rannsóknara hóf forvörðurinn að vinna sig í gegn um yfirmálninguna og skoða hvað lá undir henni. Sú vinna var afar vandasöm og tímafrek og unnin undir smásjá með því að lyfta örsmáum bútum af málningarlagi með hárbeittum læknaskurðhnífum. Þannig fjarlægði forvörðurinn yfirmálninguna og vann sig niður á upphaflegt yfirborð málverksins. Í ljós kom að strigaflöturinn hafði mjög líklega verið slípaður niður með sandpappír til að eyða eldri höfundarmerkingu. Smásjárskoðun á striganum sýndi hins vegar að leifar af rauðri málningu voru í smáum holum strigans sem mynduðu merkinguna „Wils 12 á öðru málverkinu en „Wils á hinu. Forvörðurinn kortlagði og merkti alla þá flekki sem enn voru eftir af upprunalegu höfundarmerkingunni undir smásjá.

    Ekki var um að villast að rannsókn forvarðarins studdi fullkomlega framkomin gögn sem rannsóknarar höfðu aflað um uppruna verkanna, um var að ræða verkin tvö sem Jens Hansen seldi á uppboðinu í Vejle og Ari Arason keypti þar í ágúst 1994.

    Einn Wils í viðbót

    Framangreindur sendiherra sagði rannsóknurum að hann hefði gjarnan farið á uppboð Gallerís Sögu ásamt vini sínum, framkvæmdastjóra í Reykjavík. Þeir væru í þeim fjölmenna hópi íslenskra listunnenda sem væru afar ánægðir með framtakssemi og dugnað hins nýja og unga eiganda Gallerís Sögu sem hefði tekist að hafa upp á svo miklum fjölda myndverka eftir látna og ástsæla íslenska myndlistarmenn í Danmörku, flytja þau heim til Íslands og leyfa íslenskum almenningi að njóta þeirra. Þeir félagarnir hefðu einmitt farið á uppboðið í byrjun september 1994 og keypt hvor sitt málverkið eftir Jón Stefánsson. Sendiherrann benti rannsóknurum á ljósmynd af málverkinu, sem framkvæmdastjórinn keypti, á forsíðu uppboðsskrárinnar. Verkið var nr. 89 í skránni og bar heitið „Páskaliljur, höfundarmerkt Jóni Stefánssyni. Framkvæmdastjórinn staðfesti í samtali við rannsóknara að hann hefði keypt myndina „Páskaliljur sem málverk eftir Jón Stefánsson og greitt kr. 473.000 fyrir. Hann tók því strax vel að koma með málverkið til skoðunar og sagðist mundu leggja fram kæru ef í ljós kæmi að honum hefði verið selt falsað verk.

    Það þurfti ekki mikla sérfræðiþekkingu til að sjá að nafn málverksins passaði alls ekki við viðfangsefnið á myndinni. Verkið hét „Páskaliljur" á uppboði Gallerís Sögu en á myndinni var vasi með gulum túlípönum! Þetta furðulega misræmi olli nokkrum vangaveltum án þess að botn fengist í þær.

    Starfsmenn í tæknirannsóknardeild settu málverkið undir VSC-skimunartækið og neðarlega í hægra horninu, rétt fyrir ofan höfundarmerkinguna „Jón Stefánsson sást greinilega bókstafurinn „W og ljómandi flekkir þar fyrir aftan sem virtust mynda stafina „ils". Stafirnir lágu undir málningarflekk sem greinilega sást að var mun nýrri en annar hluti málverksins þegar myndin var skoðuð undir útfjólubláu ljósi.

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1