Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Hálfbróðirinn
Hálfbróðirinn
Hálfbróðirinn
Ebook887 pages16 hours

Hálfbróðirinn

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Örlagasaga fjögurra kynslóða sem eru markaðar af átakanlegum atburði.
Veru Jebsen er nauðgað en hún segir engum frá, allt þar til Fred sonur hennar fæðist. Atburðurinn hefur afdrifarík áhrif á ævi Freds og fjölskyldu hans, en sagan er sögð frá sjónarhóli Barnum bróður hans. Inn í frásagnir Barnums af sérstöku sambandi þeirra bræðra tvinnast þroskasaga hans sjálfs og bréf langafa hans til langömmu hans frá Norður-Íshafinu og Grænlandi. Sagan segir jafnt frá bræðrunum og ævi formæðra þeirra, sem leiðir allt að sömu endalokunum. Inn í átakanlegan söguþráðinn tvinnast svo húmor höfundar, sem gerir lesandanum ómögulegt að leggja bókina frá sér.
Bókin hefur unnið til fjölda verðlauna, meðal annars bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, og verið gerð að vinsælli sjónvarpsþáttaröð, sem var tilnefnd til Prix Europa, evrópsku sjónvarpsverðlaunanna.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateJan 11, 2024
ISBN9788727086170

Related to Hálfbróðirinn

Related ebooks

Reviews for Hálfbróðirinn

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Hálfbróðirinn - Lars Saabye Christensen

    Hálfbróðirinn

    Translated by Sigrún Kristín Magnúsdóttir

    Original title: Halvbroren

    Original language: Norwegian (Bokmål)

    Cover image: Midjourney

    Copyright ©2001, 2023 Lars Saabye Christensen and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788727086170

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrieval system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    (formáli)

    – Kærar þakkir!

    Ég tyllti mér á tá, teygði handlegginn eins langt og ég gat og Esther gaf mér til baka, tuttugu og fimmeyring af krónu. Hún beygði sig út um þrönga lúguna og stakk hendinni í ljósu krullurnar mínar og hélt henni þar um stund, mér var ekkert sérstaklega um það gefið, en þetta var ekki í fyrsta skipti og ég var farinn að venjast þessu. Fred hafði snúið við okkur baki fyrir löngu, troðið kandíspokanum í vasann og ég sá á göngulaginu að hann var reiður yfir einhverju. Fred var reiður og ekkert gerði mér eins órótt. Hann nuddaði skónum við gangstéttina eins og til þess að ryðja sér leið, kýldi höfuðið niður á milli kýttra herðanna, eins og hann væri að berjast móti stormi af öllu afli, en þetta var bara lygn eftirmiðdagur í maí, að auki laugardagur, og himinninn yfir Marienlyst-hverfinu var skínandi og blár og valt hægt eins og risastórt hjól í átt að skóginum handan við borgina. – Er Fred farinn að tala aftur? hvíslaði Esther. Ég kinkaði kolli. – Hvað sagði hann? – Ekkert. Esther flissaði. – Flýttu þér nú á eftir bróður þínum. Svo hann borði ekki allt.

    Hún tók höndina úr hárinu á mér og þefaði andartak af henni, en ég hljóp af stað til þess að ná Fred, og það er þetta sem ég man, þannig starfar minnið, ekki gulir fingur gömlu konunnar í krullunum mínum, heldur að ég hleyp og hleyp á eftir Fred, hálfbróður mínum, og það er næstum ómögulegt að ná honum. Ég er litli, litli bróðirinn og ég undrast af hverju hann er svona reiður, ég finn hjartað slá í brjóstinu og heita, hráa lykt í munninum, kannski vegna þess að ég hef bitið mig í tunguna þegar ég hljóp út á götuna. Ég kreppi hnefann um skiptimyntina, heitan peninginn, og ég hleyp á eftir Fred, háum og dökkum í allri birtunni í kringum okkur. Klukkan við norska ríkisútvarpið er átta mínútur gengin í fjögur og Fred er þegar sestur á bekkinn við runnana. Ég hleyp eins hratt og ég get, yfir Kirkeveien, það er næstum engin umferð af því að það er laugardagur, aðeins líkbíll sem keyrir framhjá, allt í einu drepur hann á sér á miðjum gatnamótunum og gráklæddur bílstjóri kemur út og lemur og lemur á vélarhlífina og bölvar, og inni í bílnum, í aflöngu farangursrýminu fyrir aftan sætin, er hvít kista, en hún er örugglega tóm, enginn er jarðaður á laugardagseftirmiðdegi, grafararnir eiga örugglega frí núna, ef einhver liggur þarna, þá gerir það örugglega heldur ekkert til, því þeir látnu hljóta að hafa nógan tíma, þannig hugsa ég, ég hugsa þannig til þess að hafa um eitthvað annað að hugsa, og gráklæddi bílstjórinn, með svarta hanska, kemur bílnum loksins aftur í gang og hverfur í átt að Majorstua-stöðinni. Ég dreg djúpt andann í þungri lykt af pústi og bensíni og hleyp yfir grasið, framhjá gangbrautum og umferðarljósum og gangstéttum, tilbúnum á þessum stað, eins og í bæ fyrir dverga, og einu sinni á ári var farið með okkur þangað til þess að læra umferðarreglurnar af hávöxnum lögregluþjónum í einkennisbúningum og með þröng, breið belti. Það var þarna, í litla bænum, sem ég hætti að stækka. Fred situr á bekknum og lítur í allt aðra átt. Ég sest við hliðina á honum og við erum bara tveir hérna núna, þennan laugardagseftirmiðdag í maí.

    Fred stingur hrjúfum kandísmola í munninn og sýgur lengi, það kraumar í andlitinu á honum, ég sé í brúnt munnvatn sem er alveg að renna af vörunum. Augu hans eru dökk, næstum svört, og þau titra, augu hans titra. Ég hef séð þetta áður. Hann þegir. Dúfurnar vagga hljóðlaust í möttu grasinu. Ég bíð. Og ég held þetta ekki lengur út. – Hvað er að? spyr ég. Fred kyngir og það fer kippur um grannan háls hans. – Ég tala ekki með munninn fullan af mat. Fred treður meiri kandís upp í sig og bryður molann hægt. – En af hverju ertu svona reiður? hvísla ég. Fred klárar kandísinn, krumpar brúnan pokann saman og fleygir honum út á gangstéttina. Mávur stingur sér, hræðir dúfurnar, sker í malbikið skrækjandi og hefur flugið aftur í áttina að ljósastaur. Fred strýkur toppinn aftur, en hann fellur aftur niður á ennið og hann leyfir honum að hanga þannig. Loksins segir hann eitthvað. – Hvað sagðirðu við kellinguna? – Við Esther? – Hverja aðra? Eruð þið farin að þúast? Ég er svangur og mér er flökurt. Mig langar að leggjast niður í grasið, sofna þar, hjá dúfunum. – Ég held ég muni ekki hvað ég sagði. – Þú hlýtur að gera það. Ef þú hugsar þig svolítið um. – Ég sver það, Fred. Ég man það ekki. – Hvers vegna man ég það þá? Úr því að þú manst það ekki? – Ég veit það ekki, Fred. Er það þess vegna sem þú ert reiður? Hann leggur höndina allt í einu á höfuð mitt. Ég kikna. Höndin er kreppt. – Ertu vitlaus? spyr hann. – Nei. Ég veit það ekki, Fred. Vertu nú almennilegur. Gerðu það? Hann lætur hnefann liggja í krullunum. – Gerðu það? Þú ert volgur, litli minn. – Ekki tala svona. Gerðu það. Hann lætur fingurna renna niður andlitið á mér, lyktin er sæt, eins og hann sé að bera á mig lím. – Á ég að segja þér nákvæmlega hvað þú sagðir? – Já. Gerðu það. Segðu það. Fred hallar sér að mér. Ég get ekki horfst í augu við hann. – Þú sagðir kærar þakkir.

    Mér var eiginlega létt. Ég hélt að ég hefði sagt eitthvað annað sem hefði getað verið miklu verra, eitthvað sem ég hefði aldrei átt að segja, sem ég hefði misst út úr mér, orð sem ég vissi ekki að væru til, hórugat. Ég hóstaði. – Kærar þakkir? sagði ég það? – Já. Þú sagðir svei mér kærar þakkir! Fred hrópaði, þótt við sætum á sama bekk, þétt hvor upp við annan.

    Kærar þakkir! hrópaði hann. Ég vissi ekki alveg hvað hann átti við. Og nú varð ég enn hræddari. Mér var svo mál að komast á klósett. Ég hélt niðri í mér andanum. Mig langaði svo til að segja það rétta en ég vissi ekki hverju ég ætti að svara, því ég vissi ekki hvað hann átti við. Kærar þakkir. Og ég gat heldur ekki farið að hlæja núna. Þá yrði Fred aðeins enn reiðari, eða hann hlær að mér, og það var næstum verst af öllu, að hann hlæi að mér. Ég hnipraði mig saman. – Og svo? hvíslaði ég. Fred stundi. – Og svo? Ég held að þú sért vitlaus þrátt fyrir allt. – Ég er ekki vitlaus, Fred. – Hvernig veistu það, ha? Ég varð að hugsa mig um. – Mamma segir það. Að ég sé ekki vitlaus. Fred þagði svolitla stund. Ég þorði ekki að líta á hann. – Og hvað segir mamma um mig, ha? – Það sama, sagði ég hratt. Ég fann handlegg hans á öxlinni. – Þú lýgur ekki að bróður þínum, sagði Fred lágt. Þó að ég sé bara hálfbróðir þinn? Ég leit upp. Birtan í kringum okkur blindaði mig. Og það var alveg eins og sólin væri full af hljóði, háu, æpandi hljóði úr öllum áttum. – Er það þess vegna sem þú ert reiður út í mig, Fred? – Hvers vegna? – Vegna þess að ég er bara hálfbróðir þinn? Fred benti á höndina á mér, sem hélt ennþá á skiptimyntinni, tuttugu og fimmeyringi, hann var heitur og klístraður, eins og flatt nammi sem einhver hafði sogið lengi og spýtt út úr sér. – Hver á hann? spurði Fred. – Við eigum hann, er það ekki? Fred kinkaði oft kolli og mér hitnaði af gleði. – En þú mátt alveg fá hann, sagði ég hratt. Ég ætlaði að rétta honum peninginn. Fred sat aðeins og starði á mig. Ég varð aftur órólegur. – Hvers vegna segirðu þá kærar þakkir? Þegar þú færð peninga sem við eigum til baka? Ég dró andann. – Sagði það bara. – Þú hugsar þig betur um næst, er það ekki? – Jú, hvíslaði ég. – Því að ég vil ekki eiga bróður sem verður sér til skammar. Þó að þú sért bara hálfbróðir minn. – Nei, hvíslaði ég. Ég skal hugsa mig betur um. – Kærar þakkir eru asnaleg orð. Segðu aldrei kærar þakkir. Skilið? Fred reis á fætur, spýtti brúnum hráka í stórum boga og hann lenti með hvelli í grasinu beint fyrir framan okkur. Ég sá hóp af maurum skríða í áttina að honum. – Ég er þyrstur, sagði Fred. Verð svo helvíti þyrstur af kandís.

    Við fórum aftur til Estherar, í sjoppuna í portinu beint á móti Majorstuen-kirkju, hvítu kirkjunni þar sem presturinn vildi ekki skíra Fred, og neitaði seinna að skíra mig líka, en það var bara út af nafninu. Ég tyllti mér fyrir framan lúguna, á tá, Fred hallaði sér upp að þakrennunni, lyfti hendinni og kinkaði kolli eins og við hefðum komið okkur saman um eitthvað mikilvægt. Esther kom í augsýn, brosti þegar hún sá mig og varð að koma við krullurnar mínar einu sinni enn. Fred rak tunguna út úr sér eins langt og hann gat, og þóttist æla. – Og hvað ætlarðu að fá núna, litli minn? spurði Esther. Ég hristi fingur hennar af höfðinu. – Svaladrykk. Rauðan. Hún leit undrandi á mig. – Já, já. Rauður svaladrykkur skal það vera. Auðvitað. Hún náði í það sem ég ætlaði að fá. Fred stóð þarna, í skugganum, næstum blindaður líka, af bjarma hvítkalkaðs kirkjuveggjarins á móti. Fred starði bara á mig. Hann sleppti ekki af mér augunum. Hann sá allt. Hann heyrði allt. Ég lagði peninginn í lófa Estherar og hún lét mig strax fá fimmeyring til baka. – Gerðu svo vel. Ég horfðist í augu við hana. Ég stóð á tá og horfðist í augu við hana, kyngdi oft og yfir okkur valt himinninn ennþá, hægt, eins og stórt, blátt hjól í átt að skógunum. Ég benti á fimmeyringinn.

    – Við eigum hann, sagði ég. Bara svo þú vitir það! Esther var næstum dottin út um þrönga lúguna. – Í guðanna bænum. Hvað er að þér? – Ekkert að þakka, sagði ég. Og Fred tók í höndina á mér og dró mig upp Kirkeveien. Ég rétti honum svaladrykkinn. Mig langaði ekki í svaladrykk. Hann beit hornið af og kreisti rauðan safann út í rák á eftir okkur. – Ekki slæmt, sagði hann. Þú kemur til. Ég varð svo glaður. Ég ætlaði að láta hann fá fimmeyringinn líka. – Þú mátt eiga hann, sagði hann. Ég kreisti fingurna utan um brúnan peninginn. Ég gat farið í hark með hann, ef einhver vildi koma í hark við mig.

    – Kærar þakkir, sagði ég.

    Fred andvarpaði og ég var hræddur um að hann yrði reiður aftur. Ég hefði getað bitið úr mér tunguna og kyngt henni. En þess í stað tók hann utan um mig, á meðan hann kreisti síðasta dropann af svaladrykknum niður í rennusteininn. – Manstu hvað ég spurði þig um í gær? spyr hann. Ég kinka kolli og þori varla að draga andann. – Nei, hvísla ég. – Nei? Manstu það ekki? Ég man það. En ég vil ekki muna það. Og ég get ekki gleymt því. Ég hefði, þrátt fyrir allt, frekar óskað að Fred hefði ekki farið að tala aftur.

    – Nei, Fred. – Á ég að spyrja einu sinni enn? – Já, hvísla ég. Og Fred brosir. Hann er ekki reiður. Ekki þegar hann brosir svona.

    – Á ég að drepa pabba þinn fyrir þig, Barnum? spyr hann.

    Ég heiti Barnum.

    SÍÐASTA HANDRITIÐ

    (hátíðin)

    Þrettán tímar í Berlín og orðinn ræfill. Það var síminn sem hringdi. Ég heyrði í honum. Hann vakti mig. En ég var annars staðar. Ég var rétt hjá. Ég var ekki í sambandi. Ég var ekki jarðtengdur. Ég var ekki með són, aðeins hjarta sem sló þungt og taktlaust. Síminn hélt áfram að hringja. Ég opnaði augun, úr flötu myrkri án mynda. Nú sá ég höndina á mér. Það var ekki sérlega fögur sjón. Hún nálgaðist. Hún snerti andlit mitt, þreifaði fyrir sér, eins og hún hefði vaknað hjá einhverjum ókunnugum í rúminu, fest við handlegg annars manns. Þrýstnir fingurnir vöktu hjá mér ógleði. Ég lá kyrr. Hringingarnar hættu ekki. Ég heyrði lágværar raddir, stunu á milli, hafði einhver tekið símann fyrir mig? Hvers vegna hélt hann þá áfram að hringja? Hvers vegna var einhver í herberginu mínu? Hafði ég ekki sofnað einn eftir allt saman? Ég sneri mér við. Ég sá að hljóðið kom frá sjónvarpinu. Tveir menn á einni konu. Hún leit ekki út fyrir að vera glöð, stóð næstum á sama. Hún var með húðflúr á annarri rasskinninni, eins og fiðrildi á sorglega röngum stað. Lærin voru öll í marblettum. Mennirnir voru of þungir og fölir og þeim stóð varla, en þeir gáfust ekki upp, stundu holt á meðan þeir tóku hana frá öllum hliðum. Það var gróft og hryllilegt. Eitt augnablik kom sársauki í stað afskiptaleysis í svip konunnar, þegar annar mannanna danglaði slöppum limnum yfir munn hennar og sló. Höndin hvarf frá andliti mínu. Rétt á eftir hvarf myndin. Ef ég slægi inn herbergisnúmerið mitt gæti ég horft á pay-tv í tólf tíma í viðbót. Mig langaði ekki að sjá meira. Ég mundi ekki á hvaða herbergi ég var. Ég lá þversum í rúminu, hálfskriðinn úr jakkanum, sennilega að reyna að sofna eðlilega, háttaður og venjulegur, en ég hafði ekki komist lengra áður en ljósið hafði slokknað innst í kytrunni vinstra megin í höfðinu. Jú, það var skór í gluggakistunni. Hafði ég staðið þar og dáðst að útsýninu, eða hugsað um eitthvað allt annað? Sennilega. Ósennilega. Ég hafði ekki hugmynd. Ég fann til í hnénu. Ég fann höndina aftur. Þetta var höndin á mér. Ég ýtti henni í áttina að náttborðinu, og þegar hún hékk þar eins og sjúkur sperrtur fugl yfir hvítri rottu sem blikkaði rauðu, óhugnanlegu auga hætti síminn að hringja. Höndin flaug heim. Þögnin kom aftan frá og renndi niður þöndum rennilásnum í hnakkanum á mér og sleikti hrygginn með járntungu. Ég lá hreyfingarlaus lengi. Ég varð að rétta mig af. Græna loftbólan varð að ná jafnvægi í holdinu sem var á hvolfi, í sálarkimanum. Ég man ekkert. Stóra strokleðrið hafði farið yfir mig eins og svo oft áður. Þau voru ófá strokleðrin sem ég hafði notað upp til agna. Ég mundi aðeins hvað ég hét, hver getur gleymt slíku nafni: Barnum. Barnum! Hvað halda foreldrar eiginlega að þeir séu, að dæma börnin sín til að dúsa í ævilöngu fangelsi á bak við rimla bókstafanna. Geturðu ekki bara skipt um nafn? sagði einhver, sem vissi ekki um hvað hann var að tala. Það bætir ekkert úr skák. Nafnið veitir þér eftirför með tvöfaldri skömm ef þú reynir að losa þig við það. Barnum! Ég hafði lifað hálfa ævina með þetta nafn. Ég var næstum farinn að kunna við það. Það var það versta. Þá sá ég að ég hélt á einhverju í hinni hendinni, lykilkortinu, venjulegri skífu úr plasti með ákveðnum fjölda af götum með sérstöku munstri, henni er hægt að stinga í hurð hraðbankans og tæma reikning herbergisins, ef hann er ekki með yfirdrætti síðasta gests, sem hafði aðeins skilið eftir sig afbitnar neglur undir rúminu og dæld í dýnunni eftir þunga drauma. Ég gæti verið hvar sem er. Herbergi í Osló, herbergi á Røst, herbergi án útsýnis. Taskan stóð á gólfinu, gamla, þögla taskan, óopnuð, hún var líka tóm, ekkert lófatak, aðeins handrit, nokkrar hraðsoðnar síður. Ég var kominn og farinn. Þannig er ég. Kominn og farinn og skriðinn aftur til baka. En ég gat ennþá lesið. Hvítum baðsloppi frá hótelinu hafði verið slengt yfir stólinn við gluggann. Á honum sá ég nafn hótelsins. Kempinski. Kempinski! Þá heyrði ég í borginni. Ég heyrði í Berlín. Ég heyrði í skurðgröfunum í austri og kirkjuklukkunum í vestri. Ég stóð rólega á fætur. Þessi dagur var byrjaður. Hann hafði hafist án mín. Nú mundi ég líka eftir einu. Ég átti að fara á fund. Rauða augað á símanum hélt áfram að blikka. Það voru skilaboð til mín. Mér var skítsama. Peder gat beðið. Hver annar gæti það verið en Peder sem hringdi og skildi eftir skilaboð einmitt núna? Auðvitað var það Peder. Hann gæti beðið. Peder var góður í að bíða. Það var ég sem hafði kennt honum það. Enginn með vit í kollinum heldur fund fyrir hádegi fyrsta daginn í Berlín, bara Peder, vinur minn, félagi minn, umboðsmaðurinn minn, hann hafði skipulagt fund fyrir morgunverðinn, því það var búið að temja Peder. Klukkan var að verða hálf eitt. Tölustafirnir skinu með ferköntuðu grænu letri fyrir neðan svartan sjónvarpsskjáinn og urðu hálf eitt mitt á milli tveggja óekta hjartaslaga. Ég dró af mér fötin, opnaði míníbarinn og drakk tvo Jägermeister. Ég hélt þeim niðri. Ég drakk einn í viðbót og fór fram á baðið og ældi til vonar og vara. Ég mundi ekki hvenær ég hafði borðað síðast. Brotið á klósettpappírnum var óhreyft. Ég hafði ekki einu sinni farið á klósettið. Svo burstaði ég tennurnar, sló baðsloppnum um mig, stakk fótunum í hvítar hóteltöfflurnar og áður en ég gekk út sá ég að rautt auga símans starði ennþá á mig, en Peder gat beðið, það var vinnan hans Peders. Peder gat talað mann í kaf.

    Ég tók lyftuna niður að sundlauginni, fékk lánaða sundskýlu, drakk einn bjór og einn Jägermeister enn og náði þremur ferðum áður en ég varð uppgefinn. Ég lá í vatnsborðinu. Sígild tónlist streymdi úr hátölurunum sem ég kom ekki auga á, að sjálfsögðu Bach, vélrænar útsetningar, sem mannshöndin hefur hvergi komið nærri. Nokkrar konur lágu á bakinu og flutu hljóðlega. Þær flutu á amerísku, með handleggina eins og vængi, og voru með sólgleraugu sem þær ýttu sífellt upp á ennið til þess að sjá betur, til þess að mæta augum einhverra, því kannski kæmi Robert Downey á ská eftir bakkanum, Al Pacino á þykkbotna skóm eða gamli vinur minn Séan Connery, þá hefði ég splæst almennilegu glasi á hann og sagt kærar þakkir fyrir síðast. En enginn svo frægur var í augsýn og það var heldur ekki sjón að sjá mig. Konurnar sveifluðu sólgleraugunum á sinn stað aftur og héldu sér fljótandi með hægfara, bláum handleggjum, þær voru englar í klór, með litla, uppblásna maga. Þetta gerði mig allt í einu svo rólegan, svo uppgefinn og rólegan og nærri glaðan. Ég flaut líka. Ég flaut á norsku, með handleggina niður með síðunum og fingurna eins og skóflur til þess að halda jafnvæginu, ég flaut í öfuga átt. Nú hafði ég rétt mig af. Svo kom hræðslan, hún kom alltaf jafn skyndilega, þó að ég vissi að hún myndi koma, eins og snjór. Hræðslan nartaði í ró mína. Hræðslan tæmdi ró mína. Hafði eitthvað gerst í nótt? Var einhver sem ég þurfti að kaupa blóm fyrir, biðja afsökunar, biðja um fyrirgefningu, vinna ókeypis fyrir, sleikja upp? Hafði ekki hugmynd. Allt gæti hafa gerst. Ég var á valdi efans. Ég velti mér við og kom af stað öldum undir amerísku konunum, kleif hrufóttar tröppurnar, eins og kroppinbakur og tvíkynja afródíta, heyrði lágan hláturinn yfir vatnið, og um leið kom Cliff Richard út úr búningsklefanum, svei mér þá ef þetta var ekki hann, í baðslopp og töfflum frá hótelinu. Hárið á honum var eins og hetta á höfðinu og andlitið var frísklegt og upplyft. Hann líktist múmíu sem hafði flúið úr pýramída sjöunda áratugarins. Hann hélt sér með öðrum orðum vel og konurnar létu á sér bera þarna úti, þær önduðu eins og vingjarnlegar hnísur, þótt Cliff væri kannski ekki efst á óskalistanum þeirra. En fyrir mig var hann meira en nógu góður. Hann kom mér til að gleyma hræðslunni, eitt augnablik, hann gaf mér frímínútur, aðeins með nærveru sinni, alveg eins og hann gerði einu sinni, í lífinu sem er saga okkar, saga mín og Freds, sem ég kalla einu sinni, þegar ég sat í herberginu okkar, einu sinni, við Kirkeveien, með eyrað límt við plötuspilarann og hlustaði á Livin’ lovin’ doll, meðan Fred lá mállaus í rúminu með galopin augu, hann hafði ekki talað í 22 mánuði, jafn langan tíma og meðganga fíla tekur, hafði ekki sagt eitt einasta orð síðan Sú Gamla dó, og allir höfðu gefist upp á að fá hann til að tala, mamma, Boletta, bekkjarráðsmaðurinn, skólatannlæknirinn, Esther í sjoppunni, Guð og allir hinir, enginn gat togað út úr honum eitt orð, og síst af öllu ég. En þegar ég lyfti nálinni og ætlaði að fara að spila Livin’ lovin’ doll í tuttugasta skiptið reis Fred upp úr rúminu, reif nálina af, fór niður í húsagarðinn, og fleygði öllum plötuspilaranum í ruslatunnuna og fór að tala. Það þurfti Cliff til. Og fyrir þetta vildi ég gjarnan þakka honum. En sir Cliff gekk bara framhjá mér í stórum boga, settist á þrekhjólið á milli speglanna í horninu, hjólaði af stað á móti spegilmynd sinni án þess að taka af stað, eins og múmía með tennisolnboga. Og höndin á mér rann yfir barborðið og tók það fyrsta sem fyrir henni varð, gin og tónik, hreinasta sælgæti. Fjórar klukkur sýndu hvað tímanum leið í New York, Buenos Aires, Djakarta og Berlín. Ég lét mér nægja Berlín. Korter í tvö. Peder svitnaði núna. Peder hélt uppi samræðum, baðst afsökunar, náði í bjór, kaffi, samlokur, hann hringdi á hótelið, lýsti eftir mér, skildi eftir skilaboð, hljóp um herbúðir fjölmiðlanna og kinkaði kolli til allra sem hann þekkti og hneigði sig fyrir öllum sem hann þekkti ekki og lét alla sem ekki þekktu hann aftur fá nafnspjaldið sitt. Ég gat næstum því heyrt hvað hann sagði: Barnum kemur bráðum, hann hefur bara tafist aðeins, þið vitið hvernig það er, er það ekki, góðu hugmyndirnar kvikna oftast í höfðum sem eru utan við sig, ég er aðeins praktíska ímyndunaraflið sem gerir þær sýnilegar, skál fyrir Barnum! Jú, Peder svitnaði áreiðanlega núna og hann hafði gott af því. Ég hló, ég hló hátt á sundlaugarbakkanum á Hótel Kempinski, á meðan Cliff Richard hjólaði í kapp við þrjá spegla og gráðug augu amerísku kvennanna, og eins snöggt og hræðslan og hláturinn gripu mig laust mig skuggi. Hvað var að mér? Af hvaða öfugusnúnu vímu var ég fanginn, hvers konar ólán elti mig? Var þetta síðasti hláturinn, áður en að því kæmi, sem ég vissi ennþá ekkert um en óttaðist samt mest af öllu? Mér var kalt. Eitt augnablik hrasaði ég, á grænum marmaraflísunum. Ég sogaði hláturinn í mig. Ég kallaði hann til baka. Þetta var ekki lognið á undan storminum. Þetta var lognið sem fær kettina til þess að titra löngu áður en rigningin fellur.

    Ég fór í sturtu og hugsaði um stund hvort ég ætti að fara í ljós. Svolítil brúnka og andlitslyfting fyrir fundinn gæti komið sér vel. En ég var í ráðalausa og kærulausa fasanum. Í staðinn fékk ég mér bjór. Þjónninn brosti varla þegar hann rétti mér flöskuna. Það sló mig skyndilega hve ungur hann var. Hann bar einkennisklæðnað hótelsins með klaufskri virðingu, næstum þrjósku, eins og krakki sem hefur stolið dökku fötunum hans pabba síns. Ég taldi víst að hann væri frá Austur-Þýskalandi, það var eitthvað við þrjóskuna sem gaf það í skyn. Hann hafði lagt af stað í löngu klifurferðina í sundlauginni á Kempinski. – Hr. Barnum? sagði hann lágt. Hann hélt greinilega að það væri eftirnafnið. Hann var ekki einn um það. Honum var fyrirgefið. – Já? Það er ég. – Það eru skilaboð til yðar. Hann rétti mér breitt umslag með merki hótelsins. Peder fann mig alltaf. Þótt ég feldi mig á bak við hjallana á Røst fann hann mig. Ef ég þurfti að sofa úr mér fylliríið í steininum var sennilegast að það væri Peder sem vekti mig. Ef ég vaknaði á gistiheimili Cochs við Bogstadsveien, var það Peder sem bankaði upp á. Ég hallaði mér að borðinu. – Hvað heitirðu? spurði ég.

    – Kurt, sir. Ég kinkaði kolli í átt að speglunum í horninu. – Sérðu manninn þarna, Kurt. Sem hjólar og hjólar. – Já, sir. Ég sé hann. – En sérðu hver þetta er? – Því miður, sir. Nei. Og það ránn upp fyrir mér, hægt en örugglega, að ég var líka orðinn gamall. – Það skiptir engu, Kurt. Færðu honum kók. Diet. Og láttu það á reikninginn minn.

    Ég braut umslagið saman fjórum sinum og stakk því í vasann á sloppnum. Ef Peder vildi að ég svitnaði líka fengi hann ósk sína uppfyllta. Ég tók bjórinn með og fór í gufuna. Efstu hillu. Það var einhver þar fyrir, sem ég kannaðist við en kom ekki alveg fyrir mig, þess vegna heilsaði ég án þess að horfa, aðeins smá hreyfing með höfðinu, sérgrein mín, sérstaklega persónuleg kveðja til heimsins. En hinir störðu á mig blygðunarlaust. Ég vonaði aðeins að engir landar mínir væru á staðnum, dramatúrgar frá Norsk Film, blaðamenn frá gleðisíðunum, kjaftaskar frá tímaritunum og aðrir stjórar. Ég sá strax eftir þessu bragði, að hafa tekið á mig þennan heita krók, því hér áttu allir að vera naktir og það voru bæði konur og karlar. Og sá sem var með venjulegt handklæði um sig miðjan var boðflenna sem lét hina fara hjá sér. Ég var í fötum og það gerði nekt þeirra samstundis svo sýnilega og óþolandi, alla æðahnútana, flata rassana, björgunarhringina, hengibrjóstin, örin, fæðingarblettina sem kannski voru illkynja. Ég varð að sleppa handklæðinu. Það var ekki um annað að ræða. Ég gat ekki farið út, það hefði afhjúpað hugleysi mitt og stimplað mig sem grunsamlegan, gluggagægi, og það voru enn þrír dagar eftir af hátíðinni. Með erfiðismunum lagði ég handklæðið til hliðar og sýndi þeim að ég gæti líka verið eðlilegur, undir öllum grímubúningunum hefði ég haldið nekt minni. Þannig sat ég, með krosslagða fætur, klæðlaus í þýska gufubaðinu, og undraðist að í þessu lögfasta og húmorlausa landi væri maður nánast skyldugur til þess að sitja saman, karlar og konur, ef maður vildi svitna aðeins. Í hinum náttúrlega Noregi, þar sem menn eru varla komnir út úr snjóhúsunum, myndi slíkt koma af stað stjórnarkreppu og lesendabréfum. En vegna þess að þetta var skylda var nokkurs konar rökfesta í þessu. Það var aðeins eitt gufubað á hótelinu og það urðu bæði karlar og konur að nota nakin og samtímis. Ef það hefði verið af fúsum og frjálsum vilja hefði það verið ósæmilegt. Þetta hlaut að tengjast stríðinu einhvern veginn. Allt var út af stríðinu hér og ég hugsaði um útrýmingarbúðirnar, síðustu sturtuna, þar sem karlar og konur voru skilin að, í eitt skipti fyrir öll, af smásmugulegum fjöldamorðingjunum, það voru meira að segja sérstakar búðir fyrir konur, Ravensbrück, og eitt augnablik, nærri æstur, hélt ég að það væri hægt að nota þetta til einhvers, þetta flug, hugarflug, frá útrýmingunni til þessa tilviljunarkennda fundar í gufubaðinu á Kempinski meðan á kvikmyndahátíðinni stóð í hinni nýju Berlín. En eins og svo oft upp á síðkastið missti ég takið. Hugsunin rann af, öngullinn var of slappur, á meðan ég missti takið sökk ég dýpra í efann. Hvað gat ég eiginlega gert? Hvaða sögur gat ég staðið við? Hve miklu getur maður stolið áður en maður er staðinn að verki? Hve miklu verður maður að ljúga áður en manni er trúað? Hafði ég kannski ekki alltaf verið efasemdamaður, venjulegur efasemdamaður? Jú, ég hafði efast um flest, að ekki sé talað um sjálfan mig, ég var meira að segja efins um að það væri eitthvað til sem kalla skyldi „mig, á döprum stundum leit ég á sjálfan mig sem ákveðið magn af kjöti staflað eftir ákveðnu kerfi sem væri kallað Barnum. Ég hafði efast um allt nema Fred, því Fred var án vafa, hann var hafinn yfir allan vafa. Ég man að pabbi var vanur að segja: Það mikilvæga er ekki það sem þú sérð, heldur það sem þú heldur að þú sjáir. Ég tæmdi flöskuna og nú kannaðist ég við eina af þeim sem sátu þarna. Það var það sem ég hafði óttast, þekktur gagnrýnandi, gamall kunningi, ég nefni hana ekki með nafni, við kölluðum hana alltaf Elginn, vegna þess að hún minnti okkur alltaf á sólarlag. Hún hafði á sínum tíma skrifað að ég væri „fólksvagn á meðal Rolls Royce bifreiða, en ég las aldrei greinina, því ég var ekki meðal manna þá. Peder undirbjó málaferli vegna eineltis, sem til allrar hamingju varð aldrei neitt úr, en ef hún vildi skora mig á hólm með líkingum, þá hafði hún valið rangan mann. Nú leit hún í áttina til mín og byrjaði að brosa og þó að hún virkaði miklu lágstemmdari hér en í dálkunum, eins og hún væri lítill mjúkur ávöxtur sem hafði verið skafið innan úr með hefli, vildi ég helst sleppa við að endurgjalda brosið. Þar fyrir utan gæti komið fyrir að ég segði eitthvað sem ég hefði aldrei átt að segja. Hún var illi fyrirboðinn minn. Við hverju var hún að vara mig í þetta sinn? Ég þorði ekki að hugsa um það. Ég brosti til hennar. – Fjandinn hirði ykkur! sagði ég. Ég beygði mig saman og hóstaði kröftuglega. Þetta gat ekki verið satt. Tungunni í mér varð aftur á. Tungan í mér var að bregða fyrir mig fæti. Tungan í þér er rennibraut, var Fred vanur að segja. Það var bara ég sem hafði heyrt það. Fjandinn hirði ykkur. Elgurinn leit undrandi upp, ég hóstaði af öllum kröftum, ég var nærri búinn að æla, og enn einu sinni kom Cliff Richard mér til bjargar. Hann kom nefnilega inn í gufubaðið um leið, með kók í hendinni og minnti á plötuumslagið á Livin’ lovin’ doll, stóð í nokkrar sekúndur við stundaglasið þar sem sandurinn féll og reis, eins og tíminn væri ekki eitthvað sem maður legði að baki heldur til hliðar. Svo settist Cliff efst, þar sem ég sat líka. Það var þröngt. Það var nærri því of heitt. Nálin benti á níutíu. Elgurinn var búinn að fá nóg. Hún smokraði sér út á bak við handklæðið sitt og gjóaði augunum yfir öxlina. Hló hún? Hló hún að mér? Kunni hún nú sögu til þess að segja við barborðið í kvöld? Einhver skvetti vatni á steinana, það kraumaði. Og rakinn varð sýnilegur eins og sjóðandi þoka. Ég sneri mér að Cliff. Hann svitnaði ekki. Hann var þurr. Hárið var í lagi. Hann var fallega brúnn. Nú gæti ég loksins sagt það. – Takk, sagði hann allt í einu. Fyrir kókið. – Það er þvert á móti ég sem ætti að þakka, sagði ég. Takk. Cliff lyfti flöskunni, brosti. – Fyrir hvað þá? – Söngur þinn fékk bróður minn til að tala aftur, sagði ég. Hann hugsaði sig um eitt augnablik. – Þá var það ekki söngur minn, heldur vilji Guðs, hvíslaði Cliff.

    Það varð of heitt. Ég dró handklæðið með mér og slangraði út, í svima og þorsta, fór aftur í sturtu og kom auga á Kurt á barnum. Hann kinkaði kolli svo lítið bar á og blikkaði mig. Hann var minn maður núna. Ég tók lyftuna upp á herbergið. Það var ennþá rautt ljós á símanum. Ég lyfti tólinu, sleppti því aftur og fleygði baðsloppnum á rúmið, fór í jakkaföt og setti flösku úr míníbarnum í hvern vasa. Það voru margir vasar á þeim jakkafötum. Ég var vopnaður áfengi. Svo drakk ég síðasta Jägermeisterinn sem stóð eins og brennandi súla frá maganum að barkanum, borðaði eina skeið af tannkremi og setti innleggin á sinn stað í nýju, ítölsku skóna. Ég var tilbúinn á fundinn.

    Og hvernig gæti ég svo sem vitað um allt sem gerðist þar sem ég var ekki, um hreyfingar sem voru utan seilingar? Ég vissi það ekki. Ég var ennþá óviss, á valdi misskilningsins, og ég vildi ekki vita það, þar sem ég stóð í hægfara lyftunni með spegla á öllum veggjum, það var meira að segja spegill í loftinu. Ég vildi bara vera í þessu augnabliki, samtímamaður sem tók eina sekúndu í einu, lokaður inni í allraminnsta tímarúmi, þar sem aðeins var pláss fyrir mig. Ég kom auga á andlit mitt í speglunum og hugsaði um barn sem dettur, stendur aftur upp og fer ekki að gráta fyrr en það sér hrætt og áhyggjufullt fólkið í kringum sig, eins og verkur sem kemur of seint, bergmál af áfalli. Ég náði að drekka eina vodka. Svo opnaði hvíthærður dyravörður dyrnar og ætlaði að fylgja mér út með regnhlíf. Ég gaf honum fimm mörk til þess að fá hann ofan af því. Hann leit hryggur á seðilinn áður en hann var skyndilega horfinn milli sleipra, grárra fingranna og það var ómögulegt að sjá hvort ég hafði móðgað hann með því að gefa of mikið eða alltof lítið. Hann minnti á þjón frá nýlendutímanum. Það var hann sem hafði alla þræði í hendi sér á Kempinski-hótelinu. Það var hann sem braut upp á klósettrúlluna. Ég kom út á rauða dregilinn sem var orðinn slitinn á köntunum. Fjórum svörtum limmum með svörtum gluggum var lagt við gangstéttarbrúnina. Engin fyrir mig. Það var gamalt máltæki í greininni: No limo, no deal. Mér var andskotans sama. Vodkinn brann á tungunni. Ég kveikti í sígarettu. Lið frá tveimur sjónvarpsstöðvum, CNN og NDR, biðu þess að eitthvað gerðist. Þunnt lag af rigningu lá yfir Berlín. Lykt af ösku. Trylltur hávaði frá byggingarlóðunum. Kranarnir snerust hægt fram og til baka, vart sýnilegir undir þungbúnum himni. Það var eins og Guð væri að leika sér með mekkanó. Enn ein limma, löng hvít eimreið með bandarískum fánum, stoppaði beint fyrir framan hótelið og út steig kona með beinasta bak sem ég hafði nokkurn tíma séð. Nítján regnhlífar komu henni til bjargar. Hún hló og hláturinn sá var steinkaður með viskíi, smurður tjöru og pússaður með grófum sandpappír. Hún hélt áfram að hlæja og steig á rauða dreglinn um leið og hún vinkaði með grannri hendi sem smeygði sér með glæsileika vasaþjófsins milli dropanna utan seilingar svörtu regnhlífanna. Og enginn gat gengið á rauðum dregli eins og hún. Þetta var Lauren Bacall. Þetta var engin önnur en Lauren Bacall. Hún var í eigin líkama, til staðar í hverju einasta grammi. Hún fyllti hann alveg fram í fingurgóma, út í eyrnasneplana, upp í augabrúnirnar. Regnhlífarnar snerust um hana þegar hún lyfti hökunni. Hún var nýbúin að gera innrás í Þýskaland. Og ég stóð eins og skrúfaður fastur við þessa rafmögnuðu sýn: Lauren Bacall sem gengur hægt og alveg einstök framhjá mér og ég stend í súgnum sem fylgir í kjölfarið og þetta er eins og viðvörun á röngunni, spegilmyndin af fyrri upplifun: Ég sé það fyrir mér, Rosenborg-bíó, 14. bekkur, sæti 18, 19 og 20, The Big Sleep, Vivian situr í miðjunni, það er skýrt og greinilegt, ég finn meira að segja fyrir nýju rúllukragapeysunni sem mig klæjar undan í hnakkanum, ég heyri Lauren Bacall sem hvíslar að Humphrey Bogart, með röddinni sem við fáum gæsahúð í munninn af, iðandi í skinninu: Alot depends on who’s in the saddle, og við Peder leggjum handlegginn utan um Vivian samtímis, höndin á mér rekst í fingur Peders, ekkert okkar segir neitt og Vivian brosir, brosir út af fyrir sig og hallar sér aftur á bak, að handleggjum okkar. En þegar ég sný mér að henni sé ég að hún grætur.

    Og nú stóð ég í rigningunni í Berlín, við hliðina á rauða dreglinum, fyrir utan Hótel Kempinski. Eitthvað hafði gerst. Einhverjir voru ennþá að kalla og ég heyrði ekki orð. Það var búið að slökkva á kösturunum, skrúfa fyrir kvikmyndavélarnar, limmunum hafði verið ekið burt. Sami dyravörðurinn tók í handlegginn á mér. – Er allt í lagi, sir? – Ha? Andlit hans færðist nær. Allir verða að beygja sig niður að mér. – Sir, er allt í lagi með yður? Ég kinkaði kolli. Ég leit í kringum mig. Kranarnir voru hljóðir, Guð nennti ekki að leika sér með mekkanó lengur, eða ef til vill voru það bara skýin sem þutu um himininn í gagnstæða átt sem létu þetta líta þannig út. – Ertu viss, sir? Sígarettan flaut í rennusteininum. Einhver hafði misst myndavél. Hún lá þarna og spólaði til baka. – Geturðu útvegað mér leigubíl? – Með ánægju, sir. Hann blés í flautu sem hann hafði haldið á tilbúinn. Ég fann seðil, ég ætlaði að gefa honum hann, hann átti það skilið. En hann hristi höndina og leit í hina áttina. – Eigðu hann bara, sir. Ég stakk peningunum aftur í vasann. – Kærar þakkir, sagði ég.

    Leigubíllinn kom, dyravörðurinn opnaði dyrnar fyrir mig. Það var lykt af kryddi eða reykelsi í bílnum. Bænamotta lá upprúlluð í framsætinu. – Zoo Palast, sagði ég. Bílstjórinn sneri sér snöggt við og brosti. Það glampaði á stóra gulltönn í svörtum munninum. – Á ég að stoppa við Dýragarðinn? Ég varð líka að brosa. – Nei, við Hátíðarmiðstöðina. Það eru skemmtilegri dýr þar.

    Það tók hálftíma að komast þangað. Það hefði tekið fimm mínútur að ganga. Ég tæmdi einn koníak og sofnaði. Í svefninum sá ég mynd: Fred sem dregur kistu á snjónum í portinu. Bílstjórinn varð að vekja mig. Við vorum komnir. Hann hló. Nú heyrði ég í honum. Þetta var miskunnarhlátur. Gulltönnin blindaði mig. Ég borgaði langtum meira en ég þurfti og hann hélt kannski að það væri misskilningur, að ég væri ferðamaður sem ekki kynni að telja eða fullur kvikmyndahússtjóri í of dýrum jakkafötum. Hann ætlaði að gefa mér peninga til baka, heiðarlegi músliminn í Berlín, en ég var þegar kominn út á gangstéttina, milli húsarústa og dómkirkna, milli apa og stjarna. Einhver vildi strax selja mér leðurjakka. Ég ýtti þeim frá mér. Það hætti að rigna. Byggingarkranarnir héldu áfram hægum hringferðum sínum og himinninn í Berlín varð skyndilega heiðskír og nærri gagnsær. Svöl sól skein beint í augun á mér um leið og dúfnahópur hóf sig á loft og skar birtuna í búta.

    Ég fór inn í Hátíðarmiðstöðina. Tveir vopnaðir verðir skoðuðu aðgangskortið með litlu myndinni, sem hafði verið tekin kvöldið áður, Barnum Nilsen, screenwriter, störðu svolítið of lengi framan í mig og hleyptu mér í gegnum öryggiseftirlitið, heilaga hliðið á milli þeirra sem eru með og hinna sem eru ekki með. Nú var ég með. Fólkið hljóp um eins og vitleysingar, með hendurnar fullar af bjór, bæklingum, snældum, farsímum, plakötum og nafnspjöldum. Konurnar voru háar og grannar, með uppsett hár, gleraugu í bandi um hálsinn, og í þröngum gráum pilsum sem öll voru nýkomin úr sömu búð. Karlanir voru flestir feitir, lágvaxnir, á mínum aldri og hjartaflöktið spann í blóðhlaupnum augunum og við vorum svo líkir að það hefði verið hægt að ruglast á okkur og einn okkar myndi áreiðanlega deyja áður en dagurinn væri allur. Treilerinn fyrir japanska glæpamynd var sýndur á stórum skjá. Fagurfræðilegt ofbeldi var víst að verða vinsælt. Að drepa hægt var viðurkennt. Einhver lét mig fá glas af sake. Ég drakk. Ég fékk ábót. Ég gerði þéttar árásir á lifrina. Bille August var í viðtali við ástralska sjónvarpsstöð. Skyrtan hans var alltaf jafn hvít. Enginn var í hvítari skyrtum en Bille August. Þau hefðu átt að spyrja hann að því. Hve margar hvítar skyrtur eigið þér? hve oft skiptið þér um skyrtu? Annars staðar stóð Spike Lee og pataði fyrir framan myndavél. Í gegnum allt þetta kom Peder stormandi, bindishnúturinn hékk á miðjum maganum, munnurinn var alltaf á hreyfingu, það leit út fyrir að hann ofandaði eða væri að gera tilraun til þess að setja nýtt met í óbeinum reykingum. Það var ekki ólíklegt að það yrði Peder sem dæi um kvöldið. Hann nam staðar fyrir framan mig og reyndi að ná andanum. – Jæja, sagði hann. Þú ert sprunginn. – Ég hef aldrei verið þéttur. – Hversu fullur ertu? – Fimm og hálfur. Peder hallaði sér að mér, nefið á honum titraði. – Fimm og hálfur? Þetta lítur frekar út fyrir að vera refsigjald, Barnum. – Ekki til að tala um. Ég ræð. Ég hló. Mér fannst gaman þegar Peder notaði gömlu brandarana okkar. En Peder hló ekki. – Hvar í fjandanum hefurðu verið? – Í gufubaðinu. – Í gufubaðinu, veistu ekki hvað við höfum beðið lengi eftir þér? Veistu það ekki? Peder hristi handlegginn á mér. Hann var ekki í jafnvægi. – Ég er svei mér þá búinn að segja svo margt fallegt um þig að ég er við það að æla! Hann fór að draga mig í áttina að skandinavísku deildinni. – Slappaðu af, sagði ég. Ég er kominn. – Geturðu ekki andskotast til að fá þér farsíma! Eins og venjulegt fólk! – Ég vil ekki fá krabbamein í höfuðið, Peder. – Fáðu þér þá símboða! Ég skal svei mér sjálfur kaupa símboða handa þér! – Heldurðu að þeir virki í gufubaði? – Þeir virka á tunglinu! – Þú finnur mig hvort eð er alltaf, Peder. Hann stansaði skyndilega og horfði lengi á mig. – Veistu hvað? Þú líkist svei mér meira og meira þessum brjálaða hálfbróður þínum! Og þegar Peder sagði þetta sprakk augnablikið, neðanjarðarbyrgið mitt, og tíminn kom að mér á alla vegu. Ég greip í jakkann hans og þrýsti honum upp að veggnum. – Aldrei segja þetta aftur! Aldrei. Peder leit undrandi á mig og það var sake á buxunum hans. – Svei mér þá, Barnum. Ég meinti það ekki þannig. Ég held að einhverjir hafi verið farnir að taka eftir okkur. Ég þekkti tæpast reiðina sem var innra með mér. Mér leið næstum því vel. Það var eitthvað sem hægt var að ganga fyrir. – Mér er skítsama hvað þú meintir! En berðu mig aldrei saman við Fred! Skilurðu? Peder reyndi að brosa. – Ég skil! Slepptu mér nú, Barnum. Ég varð að bíða aðeins. Svo sleppti ég Peder. Hann stóð alveg kyrr, uppi við vegginn, undrandi og var ekki sama. Mér rann reiðin og hún skildi aðeins eftir sig skömm, hræðslu og blygðun. – Ég vildi ekki láta minna mig á hann, sagði ég lágt. – Fyrirgefðu, hvíslaði Peder. Það var ónærgætið af mér að segja þetta. – Þetta er allt í lagi.Við gleymum þessu. Fyrirgefðu. Ég tók upp vasaklútinn og reyndi að nudda japanska áfengið af buxunum hans. Peder hreyfði sig ekki. – Eigum við bráðum að fara á fundinn? sagði hann. – Hverjir verða þar? Peder andvarpaði. – Tveir Danir og Englendingur. – Skemmtilegt. Er þetta brandari? Tveir Danir og Englendingur. – Þeir eru með skrifstofur í London og Kaupmannahöfn. Þeir voru innstu koppar í búri í Driving Miss Daisy. Ég sagði þér þetta í gær, Barnum. Ég hafði líka sullað sake á skóna hans. Ég var á hnjánum og pússaði þá eins vel og ég gat. Peder fór að sparka. – Vertu eins og maður, hvæsti hann. Ég reis á fætur. – Hvað vilja þeir eiginlega? – Hvað vilja þeir? Hvað heldur þú? Hitta þig, auðvitað. Þeir elska Víkinginn. – Kærar þakkir, Peder. Smjöðrum við líka hvor fyrir öðrum núna? – Nei. Núna förum við, Barnum.

    Við fórum. Fólkinu fækkaði smám saman. Það var dæmigert að norski básinn var lengst í burtu, úti í horni, við höfðum ekki ennþá náð okkur eftir Hættur sjómannslífsins, sjálfan hornstein norsks þunglyndis, og hún ýtti okkur út á jaðar Evrópu og hátíðarinnar. Það var heljarinnar leiðangur að komast til Noregs. Peder leit ógnvekjandi á mig. Það heyrist í þér eins og fullum míníbar þegar þú gengur. – Hann er bráðum tómur, Peder. Ég opnaði eina viskí og drakk hana. – Við þurfum á þessu að halda, Barnum. Mér er alvara. – Miss Daisy? Var það ekki eiginlega hundléleg mynd. – Hundléleg? Veistu hvað hún fékk margar tilnefningar? Þetta eru stórir gæjar. Stærri en við. – Hvers vegna hafa þeir þá nennt að bíða í þrjá tíma? – Ég sagði það, Barnum. Þeir elska Víkinginn.

    Þeir sátu við borð í skonsu inn af barnum. Þeir voru á fertugsaldri, í klæðskerasaumuðum jakkafötum, með sólgleraugu í brjóstvasanum, tagl, hring í eyranu, stóran maga og þröngan sjóndeildarhring. Þeir voru nútímamenn. Ég var þegar farinn að kunna illa við þá. Peder dró að sér andann og ýtti bindishnútnum upp. – Og þú ert almennilegur, kurteis og edrú, Barnum? – Og snjall. Ég klappaði Peder á bakið. Hann var blautur í gegn. Svo gengum við inn til þeirra. Peder klappaði saman lófunum. – Hér höfum við vin okkar sem við höfum saknað svo sárt! Hann villtist einhvers staðar í dýragarðinum. Sá engan mun. Þeir stóðu upp. Settu upp brosin. Peder hafði talað sig niður í lágkúruna og klukkan var ekki enn orðin þrjú. Annar Daninn, Torben, beygði sig yfir öskubakkann þar sem tveir vindlar lágu og glóðin í þeim dó. – Er Barnum dulnefni eða þitt rétta nafn? spurði hann. – Það er nafnið mitt. En ég nota það sem höfundarheiti. Það var hlegið smávegis að þessu og Peder reyndi að lyfta glösunum, en Daninn gaf sig ekki svo auðveldlega. – Er það fornafnið eða eftirnafnið? – Hvort tveggja. Fer eftir því við hvern ég tala. Torben brosti. – Var Barnum ekki amerískur svindlari? There’s a sucker born every minute. – Nei, sagði ég. Það var bankamaður sem sagði það. David Hannum. Barnum sagði: Let’s get the show on the road. Peder tókst loksins að koma að skál. Við klingdum glösum og það var komið að hinum Dananum, Preben, að halla sér yfir borðið. – Við hreint og beint elskum Víkinginn! Frábært handrit. – Kærar þakkir, sagði ég og tæmdi snafsaglasið. Bara sorglegt að það skyldi aldrei vera gerð mynd eftir því. Peder greip orðið. – Við skulum ekki hengja okkur í smáatriðin. – Jú, mér finnst að við ættum að gera það. Peder sparkaði í mig undir borðinu. – Nú lítum við til framtíðar, sagði hann. Ný verkefni. Nýjar hugmyndir. Ég var nærri staðinn upp en gat það ekki. – En ef ykkur finnst handritið frábært, hvers vegna gerið þið ekki myndina? Peder leit niður og Torben engdist eitt augnablik á stólnum, eins og hann sæti á risastórri teiknibólu. – Ef við hefðum fengið Mel Gibson í aðalhlutverkið hefði það ef til vill gengið. Hinn Daninn, Preben, hallaði sér að mér. – Þar að auki er aksjón out. Aksjón er old fashioned. – But what about vikings in outer space? spurði ég. Einn símanna hringdi. Allir gripu eftir sínum, eins og dálítið þreyttir byssumenn. Tim, Englendingurinn, vann. Þetta var samtal um háar tölur og nokkur jafn há nöfn voru nefnd í leiðinni, Harvey Keitel, Jessica Lange. Það var ekki um annað að ræða en brosa til hinna og klára úr glösunum. Mér tókst að standa upp og fór á klósettið. Ég tæmdi eina gin, hallaði enninu að veggnum og reyndi að komast að því hvað mér ætti að finnast. Ég vildi ekki gefa þeim það sem ég var með. Ég var óþekkti handritshöfundurinn sem þeir höfðu beðið eftir í þrjá tíma. Skyndilega varð spegilmyndin í lyftunni greinileg fyrir mér. Það var ekki fögur sjón. Skemmda augnlokið lak niður, þungt. Ég reyndi að finna augnablik sem ég gæti falið mig í. Ég fann það ekki. Þegar ég kom aftur var Peder búinn að skipta á snafsinum mínum og kaffi. Ég pantaði tvöfaldan snafs. Tim sat tilbúinn með vasadagbókina, hún var þykkari en biblían á Hótel Kempinski. – Eins og þú skilur, Barnum, ertu ofarlega á lista okkar yfir handritshöfunda sem við viljum vinna með. Brosið á Peder náði á milli eyrnanna – Eruð þið með einhver tiltekin verkefni í huga? spurði ég. – Við viljum gjarnan heyra hvað þú hefur meðferðis. – Þið fyrst, sagði ég. Þá veit ég einhvern veginn svolítið betur hvernig landið liggur. Tim flutti augnaráðið hægt af mér á Danina. Peder svitnaði aftur kröftuglega. – Barnum finnst gaman að gefa upp bolta, sagði hann hratt. Þetta hljómaði svo innihaldslaust að ég gat ekki annað en hlegið. Ég hló hátt. Barnum finnst gaman að koma boltum á loft. Peder sparkaði aftur í sköflunginn á mér. Nú vorum við orðnir eins og gömul hjón. Snafsinn var allt í einu fyrir framan mig. Torben tók orðið. – Ókei, Barnum. Við erum fyrir boltaleiki. Við viljum gera Villiöndina. Aksjón er sem sagt úti. Áhorfendur hafa áhuga á því sem stendur þeim næst, er það ekki? Fjölskyldunni, til dæmis. Þess vegna Villiöndina. Peder sat og starði á mig án afláts. Það var verulega taugatrekkjandi. – Þetta er eitthvað fyrir þig, Barnum, sagði hann að lokum. Er það ekki? Þú snýrð verkinu í mynd á nokkrum mánuðum, ekki rétt, Barnum? En enginn hlustaði á Peder núna. – Á framleiðslan að vera norsk? spurði ég. Eða skandinavísk? – Stærri, sagði Torben og brosti. Amerísk. Keitel. Lange. Robbins. Það er ekkert því til fyrirstöðu að fá Max eða Gitte með. En samtölin verða á ensku. Annars koma engir peningar. – Og svo verðum við að uppfæra aðeins, sagði Preben snöggt. Við færum atburðarásina fram til okkar tíma. Villiöndin á tíunda áratugnum. – Hvaða tilgangi þjónar það? spurði ég. – Auðvitað færum við atburðarásina til nútímans, sagði Peder. Við höfum ekki áhuga á búningakvikmynd, er það nokkuð? Það varð þögn eitt augnablik. Ég fann einn snafs enn. Tim hvíslaði einhverju að Preben sem sneri sér að mér. – Við hugsuðum okkur eitthvað eins og Rainman mætir Haustsónötunni, sagði hann. Ég varð að halla mér nær. – Fyrirgefðu? Hver mætir hverjum? – Við viljum sýna fram á snilld Ibsens, sagði Torben. Hvað hann er sígildur. – Sígildur? Eins konar Miss Daisy mætir Sölumaður deyr. Það vottaði fyrir gremju í augnaráði Torbens. Hinir hlógu snöggt. Peder þoldi ekki meir. Hann reyndi að finna tóninn. Má bjóða einhverjum eitthvað að borða? spurði hann. Enginn svaraði. Peder fór að reykja. Hann hafði verið hættur í átta ár. Torben krosslagði handleggina og leit á mig yfir hnúana. – Og hvaða bolta getur þú gefið upp, Barnum? – Klámmynd, sagði ég. – Klámmynd? – Ég sat á herberginu mínu í morgun og horfði á pay-tv. Og þá tók ég eftir hvað þessar klámmyndir eru heimskulegar og klaufalegar. Engin dramatúrgía. Vonlaus persónusköpun. Skelfilegt casting. Óvenju léleg samtöl. Fráhrindandi leikmynd. Torben varð óþolinmóður. – Þú átt við erótíska mynd, er það ekki? – Nei, nei. Ég á við klám. Hörkuklám. Með góðri sögu, áhugaverðum persónum og hárbeittri dramatúrgíu. Aristótelísk uppbygging að fullnægingunni. Klám fyrir nútímaáhorfendur. Jafnt fyrir konur og karla og okkur öll. Nóra mætir Deep Throat. Það er sígilt.

    Englendingurinn stóð fyrstur upp. Danirnir fylgdu á eftir. Þeir tóku í höndina á Peder. Skiptust á nafnspjöldum. – Við verðum í sambandi, sagði Peder. Barnum getur verið tilbúinn með drög eftir tvo mánuði.

    – Minntu hann á að það er Ibsen, sagði Torben. En ekki pay-tv. Peder hló hátt. – Engin hætta! Ég hef stjórn á Barnum.

    Stóru gæjarnir fóru. Við sátum eftir. Peder var þögull. Peder er sá eini sem ég lýsi þannig. Þegar Peder kaus að þegja var hann nefnilega þögull. Nú var hann þögulli en nokkru sinni fyrr. Ég hef lært að búa við það. Ef það er eitthvað sem ég get, þá er það að umgangast þögult fólk. Þá verður maður bara að halda kjafti sjálfur og sjá hver segir eitthvað fyrstur. Peder tapaði. – En þetta gekk alveg glimrandi, sagði hann og leit á mig. Þú komst þremur tímum of seint og þegar þú loksins komst, þá varstu dónalegur, pissfullur annan daginn í röð og tómhentur. Fullkomlega tómhentur. Það er ótrúlegt. Skál, Barnum. Við drukkum svolítið og það var komið að mér að segja eitthvað. – Heldur þú að Meryl Streep myndi vilja leika öndina? spurði ég. Peder leit í hina áttina. – Þú ert á mörkunum núna, Barnum. Guð minn góður. Aristótelískt klám! – Hvað áttu við með á mörkunum? – Þú veist það alveg. – Nei, ég veit það ekki alveg. Peder sneri sér aftur snöggt að mér. – Ég hef séð þetta áður, Barnum. Ég hef séð þig falla. Og ég nenni ekki að fylgja þér lengur. Ég stóð upp. Mér varð allt í einu órótt. Það var andlitið úr lyftunni sem var komið aftur, heill glás af andlitum sem var troðið á mig einu eftir annað. – Fjárinn, Peder. Ég þoli ekki hvernig þeir tala. Rainman mætir Haustsónötunni. Allt bullið sem þeir geta látið út úr sér. Ég hata það bara. – Svona, svona. Ég hata það líka. En þykist ég nokkuð fínni fyrir því? Það er svona sem þeir tala. Allir tala svona. Graduate mætir Aleinn heima og Waterfront mætir Pretty Woman. Við munum líka tala svona einhvern tíma. Peder lagði snafsinn frá sér, hvíldi höfuðið í höndunum og varð þögull aftur. – Ég hitti Lauren Bacall, sagði ég. Peder leit hægt upp. – Hvað ertu að segja? Ég settist aftur. Ég varð að sitja þegar ég sagði þetta. – Ég sagði Lauren Bacall, sagði ég. Ég straukst næstum því við hana. Peder dró stólinn nær og næstum brosti. – Okkar Lauren Bacall? – Peder, þó. Eru til aðrar Lauren Bacall en okkar? – Auðvitað ekki, afsakaðu. Ég er ekki alveg með sjálfum mér. Ég var rétt í þessu að horfa á þrjá peningapoka yfirgefa herbergið. Ég tók í höndina á honum, hún var heit og óróleg. – Hvernig leit hún út? hvíslaði hann. Ég gaf mér góðan tíma. – Eins og sfinx, sagði ég. Eins og blá sfinx sem hefur rifið sig lausa af súlu flóðlýsingarinnar. – Gott, Barnum. – Það rigndi, og hún varð ekki blaut, Peder. – Ég sé það fyrir mér, Barnum. Ég held að Peder hafi líka dreymt í nokkrar sekúndur. Á meðan varð hann alveg eins og barn í framan og ég sá greinilega gæsahúðina frá skyrtuflibbanum og að eyranu, eins og hún væri gróin föst, frá því þarna um kvöldið í Rosenborg-bíó 14. bekk, þegar við lögðum handlegginn samtímis utan um Vivian um leið og Lauren Bacall sagði með hásri æsandi röddu: Nothing you can’t fix.

    Svo var eins og hann kæmi aftur og hann var allt í einu orðinn eldri. Stór hrukka sem ég hafði ekki tekið eftir fyrr lá skáhallt frá vinstra auga, í miðju neti af hrukkum, og kom andlitinu í ójafnvægi sem velti næstum höfðinu á honum. Peder og ég vorum farnir að líkjast. – Vivian hringdi annars, sagði hann. Ég held að hún hafi áhyggjur af Thomasi. – Vivian hefur alltaf haft áhyggjur. Peder hristi höfuðið, sorgmæddur. – Mér finnst að við ættum að kaupa eitthvað fínt fyrir Thomas, sagði hann. Ég reyndi að brosa. Það gekk illa. – Auðvitað, hló ég. Þú manst hvað stóru gæjarnir sögðu? Það er fjölskyldan sem gildir núna. Peder einbeitti sér að glasi og var þögull um stund. – Öllum finnst þú skíthæll, hvíslaði hann að lokum. Ég heyrði að hann sagði það, en orðin náðu ekki alla leið. – Öllum? spurði ég. Peder horfði á mig. – Ég man ekki eftir neinum í bili sem ekki finnst það, sagði hann. – Thomasi líka? Peder sneri sér í aðra átt. – Thomas er rólegur strákur, Barnum. Ég veit ekki hvað hann skilur mikið. Ég kveikti mér í sígarettu. Ég var aumur í munninum. Ég lagði höndina yfir fingur Peders. – Kannski splæsum við í eitthvað fyrir hann? Eitthvað almennilegt. Er það ekki? – Að sjálfsögðu, sagði Peder.

    Seinna fórum við yfir að hátíðarbarnum. Þar hélt bransinn sig. Peder fannst að við ættum að vera sýnilegir. Hann orðaði það þannig. Við yrðum að vera á vellinum, á punktinum, á réttum stað og réttum tíma, Við borðuðum nokkrar feitar pylsur til þess að halda jafnvæginu. Við drukkum framköllunarvökva með ís. Við urðum sýnilegir. Það var aftur talað um Sigrid Undset og hvort karlkyns leikstjóri gæti gert mynd um Kristínu Lafransdóttur. Þetta var fína fólkið. Ég blandaði ekki geði. Ég blandaði bara drykki og hugsaði um Thomas. Ég var skíthællinn. Ég ætlaði að kaupa stóra gjöf handa honum. Ég ætlaði að taka mekkanósettið hans Guðs með svo að Thomas, sonur Vivian, gæti skrúfað himininn aftur saman. Raddirnar komu nú úr öllum áttum. Ég drakk mig niður. Ef ég lagði aftur augun hurfu öll hljóðin, eins og sjóntaugin væri tengd völundarhúsi eyrans, en það var langt síðan ég trúði því að veröldin hyrfi líka, leikandi létt, ef ég aðeins lokaði augunum nógu vel. Helst vildi ég að hvort tveggja hyrfi, bæði hljóðin og sá heimur sem hljóðin spruttu úr. Þegar ég opnaði augun kom gagnrýnandinn úr gufubaðinu í áttina til mín, hún sem var illi fyrirboðinn minn. Hún var þegar komin með augnaráð hátíðarinnar, framköllunarvökva með prómillum. Hún strauk auðvitað niður bakið á Peder. – Hafið þið nú eitthvað til þess að skrifa um heim, strákar? Annað en að Barnum splæsi kók á Cliff í gufubaðinu? Peder hallaði undir flatt, eins og það væri hættulega lágt undir loft. – Of snemmt að segja, sagði hann. En kveikurinn brennur. Skrifaðu að Miil og Barnum séu mættir. Elgurinn sveipaði kjólnum um hann. Ég var farinn að óska mér köfunarpípu. – Eruð þið um borð í Kristínarlestinni? Á Barnum kannski að þýða handritið úr sænsku? Peder lagði höndina á henni til hliðar. – Ef Kristín Lafransdóttir verður kampavín, sagði hann, þá framleiðum við þunga vatnið. Elgurinn hló aðeins og fetti sig aftur á bak til þess að ná öllu sem eftir var í breiða koníaksglasinu. – Segið mér nú eitthvað annað, strákar. Við eigum meira en nóg af gömlum líkingum. – Hugsaðu þér Elginn mæta Sólarlagi, sagði ég. Hún sneri sér hægt í áttina að mér og lét eins og hún yrði fyrst núna vör við að ég stæði þarna. En það varð hún auðvitað ekki. Hún hafði séð mig allan tímann. Hún gretti sig hægt. – Við látum þig vita þegar kemur að því, sagði Peder hratt. Bara þig. En hún hélt áfram að horfa á mig. – Við semjum þá um það. Skilaðu kveðju til Cliff, Barnum. Elgurinn hallaði sér allt í einu þétt að eyranu á mér. – Fjandinn hirði ykkur, hvíslaði hún.

    Svo hvarf hún í þokuna við salernin. Peder fór að toga í jakkann minn. – Sagði hún Cliff í gufubaðinu? Cliff og Barnum í gufubaðinu? – Það er sameiginlegt gufubað í Þýskalandi, Peder. Heldurðu að það tengist stríðinu einhvern veginn? – Um hvað ertu að tala? Varstu í gufubaði með Cliff? – Elgurinn var þar fyrir. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef séð hana nakta. – Ég vil helst komast hjá því að hlusta á þetta, Barnum. – Hún var eins og mjúk pera. – Hverju hvíslaði hún að þér? – Bara gamla slagorðinu mínu. Fjandinn hirði ykkur. Peder ranghvolfdi augunum og féll saman aftur. – Ekki mana hana til þess að skrifa meiri vitleysu um þig, Barnum. Það er það síðasta sem þú þarft á að halda.

    Þá sjaldan að Peder varð fullur, þá vísaði allt niður um hann, hárið, hrukkurnar, munnurinn, fingurnir, herðarnar. Áfengið hékk eins og sakka í kroppnum. Peder var allur á leiðinni niður í skóna. Ég hefði getað sagt honum að við værum næstum því gamlir núna, að við værum merkilegir vinir sem hefðum deilt öllu í lífinu og myndum aðeins eftir helmingnum af flestu. Og svo gæti ég, með brosi, strokið fingri varlega eftir dýpstu hrukkunni í andliti hans.

    – Það síðasta sem ég þarfnast er að þú segir mér hvers ég þarfnast.

    – Það síðasta sem við þörfnumst er eitthvað að drekka, sagði Peder.

    Hann rétti upp handlegginn, en hann hékk líka og hafnaði innan um öskubakka, blautar servíettur og flöskur. Einhverjir voru að syngja á norsku við borð þar sem ekki var pláss fyrir fleiri, til allrar hamingju. Það var að koma að kreditlistanum. Síðustu drykkirnir sem við þörfnuðumst komu. Peder lyfti glasinu með báðum höndum. – Skál fyrir þér, Barnum. Þá höfum við nú eiginlega ekki mikið meira að gera hér í Berlín. Nema að kaupa gjöf fyrir Thomas. Eða ertu þegar búinn að gleyma því? Ég leit niður og mundi allt í einu hvað ég var með í töskunni á hótelherberginu. – Ég er með handrit með mér, sagði ég. Peder lagði glasið hægt frá sér. – Og það ertu fyrst að segja núna? Að þú

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1