Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Sagan af Tuma litla
Sagan af Tuma litla
Sagan af Tuma litla
Ebook284 pages4 hours

Sagan af Tuma litla

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Tumi er ungur drengur sem býr hjá Pollý frænku sinni og er eilíflega til vandræða. Frænkan refsar honum reglulega fyrir strákapörin, en einhvern veginn tekst Tuma alltaf að koma sér hjá refsingunum. Hann verður líka ástfangin af skólasystur sinni og tekur upp á ýmsu til að koma sér í mjúkinn hjá henni. Tumi vingast fljótlega við Stikilsberja-Finn, ungan flækingsdreng í þorpinu, og saman koma þeir sér í enn fleiri vandræði, ekki síst þegar þeir verða vitni að morði. Sagan af Tuma litla (The Adventures of Tom Sawyer) er eitt af þekktustu verkum Mark Twains, sem og eitt af þekktustu verkum bandarískra bókmennta. Sagan er uppfull af prakkarastrikum, spennu og drama og í henni er að finna eitthvað fyrir alla, bæði unga og aldna.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateFeb 1, 2022
ISBN9788728194416
Author

Mark Twain

Frederick Anderson, Lin Salamo, and Bernard L. Stein are members of the Mark Twain Project of The Bancroft Library at the University of California, Berkeley.

Related to Sagan af Tuma litla

Related ebooks

Related categories

Reviews for Sagan af Tuma litla

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Sagan af Tuma litla - Mark Twain

    Sagan af Tuma litla

    Translated by Unknown

    Original title: The Adventures of Tom Sawyer

    Original language: English

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1876, 2021 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728194416

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    This work is republished as a historical document. It contains contemporary use of language.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    1. Kafli

    „Tumi!"

    Ekkert svar.

    „Tumi!"

    Ekkert svar.

    „Hvað ætli gangi að stráknum? Heyrirðu ekki, Tumi?!"

    Gamla konan færði gleraugun fram á nefið og leit yfir þau út um herbergið. Síðan færði hún þau upp aftur og leit undir þau. Hún horfði sjaldan eða aldrei gegnum þau, þegar hún var að leita að svo litlum hlut sem strákkútling, því að þetta voru stássgleraugun hennar, sem hún var mjög upp með sér af og meira til skrauts en gagns. Hún hefði alveg eins getað horft í gegnum stóarspjöld. Hún stóð andartak ráðvillt og sagði síðan reiðilega, en þó nógu hátt til að húsgögnin gátu heyrt til hennar: „Já, já, bíddu bara við, þangað til ég næ í þig, þá skal ég —"

    Hún lauk ekki við setninguna, því að hún var að bograst við að leita undir rúminu með sópnum, og til þess þurfti hún að draga svo djúpt andann við hvert átak, að orðin stöðvuðust af sjálfu sér. En hún hafði ekki annað upp úr því en að flæma köttinn á fætur.

    „Aldrei hef ég vitað annan eins dreng!"

    Hún gekk síðan út í opnar dyrnar, nam staðar og skyggndist út á milli tómatrunnanna og eplatrjánna, sem voru aðalskrautið í garðinum. En hún sá engan Tuma. Þá hóf hún upp raust sína, svo að heyra mátti álengdar og hrópaði:

    „Tu-mi!"

    Lágt þrusk heyrðist að baki henni, og hún sneri sér mátulega snemma við til að ná í öxlina á dálitlum strákhnokka og stöðva hann á flóttanum. „Svona! Ég mátti svo sem vita, að þú sætir inni í klæðaskápnum. Hvað hefur þú nú haft fyrir stafni þar?"

    „Ekkert."

    „Ekkert! Líttu á hendurnar á þér og munninn. Hvaða óþverri er þetta? — Jæja, ég veit það þá. Það er sulta, ójá, það er það. Fjörutíu sinnum er ég búin að segja þér, að ef þú lætur ekki sultuna í friði, flæ ég af þér höfuðleðrið. Fáðu mér kaðalspottann þarna."

    Svipan var þegar komin á loft. Hættan var yfirvofandi.

    „Hamingjan góða! Líttu fram fyrir þig, frænka!"

    Gamla konan snerist á hæli og greip í pilsið sitt til að forða því, en drengurinn tók til fótanna, klifraði upp á háan skíðgarð og hvarf hinum megin við hann. Pollý frænka stóð andartak steinhissa, en hló síðan góðlátlega.

    „Þessi ólukkans strákangi, get ég aldrei lært neitt af honum? Er hann ekki búinn að leika nógu oft á mig, til að ég geti farið að vara mig á honum? En gömul flón eru alltaf mestu flónin, og það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, eins og sagt er. Og svo beitir hann aldrei sömu snillibrögðunum nema einn dag, svo að maður veit aldrei, hvað kemur næst. Það lítur út fyrir, að hann viti nákvæmlega, hve langt honum er óhætt að ganga án þess að þolinmæði mín bresti, og hann veit líka fullvel, að geti hann aðeins stöðvað mig eina mínútu eða komið mér til að hlæja, þá er ég ekki lengur reið og nenni þá ekki að berja hann. Ég geri ekki skyldu mína við þennan dreng, það er því miður heilagur sannleiki. Sparirðu vöndinn, spillirðu barninu, stendur skrifað. Ó, ég hleð synd og skömm upp yfir höfuð á okkur báðum með þessu lagi. Hann er ákaflega pöróttur, en herra minn trúr, hann er þó sonur hennar systur minnar sálugu, vesalings strákurinn, og ég hef ekki brjóst í mér til að refsa honum eins og vera ætti. Hvert sinn er ég læt hann sleppa, ásakar samviska mín mig fyrir það, og í hvert sinn er ég refsa honum að verðleikum, ætlar hjarta mitt að bresta. Ojá, ojá, maður af konu fæddur lifir skamma stund og mettast óróleika, eins og skrifað stendur í ritningunni. Nú leikur hann náttúrlega svín í stíu það sem eftir er dagsins, og ég verð að halda honum stranglega að vinnunni á morgun til að refsa honum. Það liggur við, að það sé of strangt farið í sakirnar að láta hann vinna allan laugardaginn, þegar allir félagar hans eiga frí. En hann hatar vinnuna meira en nokkuð annað, og einhverjar af skyldum mínum við þetta barn verð ég að uppfylla, ef endirinn á ekki að verða sá, að hann fari alveg í hundana."

    Tumi lék sér það sem eftir var dagsins og skemmti sér hið besta. Hann kom seint heim, en gafst þó tími til að hjálpa Jim, litla negrastráknum, við að höggva brenni til næsta dags og kljúfa nokkra lurka undir kvöldmatiun, að minnsta kosti kom hann nógu snemma til að segja Jim frá afreksverkum sínum, meðan Jim vann þrjá fjórðu hluta verksins. Yngri bróðir Tuma (eða réttara sagt hálfbróðir), Siddi, hafði þegar lokið störfum sínum (að tína saman spæni), því að hann var hæglátur drengur og ekkert gefinn fyrir ærsl og óþekkt. Meðan Tumi var að borða kvöldmatinn og stela sykri, þegar færi gafst, lagði Pollý frænka fyrir hann nokkrar vel hugsaðar spurningar í von um að geta komið Tuma til að tala af sér og koma þannig upp um sín eigin strákapör. Eins og algengt er um hrekklaust og einfalt fólk, ímyndaði hún sér, að hún væri þeirri gáfu gædd að kunna að beita kænsku og slægð, og hún lifði í þeirri sælu trú, að hinar sérlega áberandi snörur hennar væru hámark slægviskunnar í heiminum. Hún sagði: „Var ekki sæmilega heitt í skólanum í dag, Tumi?"

    „Jú, frænka."

    „Fjarska heitt kannski?"

    „Já, frænka."

    „Langaði þig þá ekki að synda?"

    Tuma fór að gruna margt og var á varðbergi. Hann leit rannsakandi framan í Pollý frænku, en varð einskis vísari. Hann sagði því:

    „Nei — jæja, ekki mikið."

    Gamla konan rétti út höndina og þreifaði á skyrtu Tuma og sagði:

    „En þér er þó ekkert of heitt núna."

    Hún var upp með sér yfir því með sjálfri sér, að hún var búin að komast að því, að skyrtan var þurr, án þess nokkurn grunaði, hvað hún var að fara. En Tuma grunaði nú mjög greinilega, hvað á seyði var, og sagði því til að slá varnagla í tíma:

    „Við dældum sumir vatni hver á höfuðið á öðrum. Hárið á mér er ekki orðið þurrt enn — finndu."

    Pollý frænku þótti við sjálfa sig fyrir að hafa látið þetta atriði fara fram hjá sér. En rétt á eftir datt henni nokkuð nýtt í hug:

    „Tumi, þú þurftir þó ekki að rífa upp skyrtulíningarnar, sem ég hafði saumað saman, þó að vatni væri dælt á höfuðið á þér. Hnepptu treyjunni frá þér, góði minn."

    Tumi fann, að óveðrið leið hjá. Hann hneppti frá sér treyjunni, og það kom í ljós, að ekki hafði verið hreyft við líningunum.

    „O, mikill þó — jæja, farðu nú! Ég var annars handviss um, að þú hefðir verið að leika þér og synda. Ég verð þá víst að láta þig sleppa að þessu sinni. En gættu þín. Þér hættir til að brenna þig. Þú mátt vara þig."

    Hálft í hvoru þótti henni fyrir, að grunsemdir hennar höfðu ekki haft við rök að styðjast, en að hinu leytinu var hún fegin, að drengurinn hafði þó einu sinni verið hlýðinn.

    En Siddi, fullu nafni Sidney, sagði:

    „Ég man ekki betur en þú saumaðir skyrtuna hans með hvítum tvinna, en hann hefur víst verið svartur."

    „Nei, ég saumaði með hvítum tvinna! — Tumi!"

    En Tumi beið nú ekki boðanna. Um leið og hann hljóp út úr dyrunum, sagði hann:

    „Siddi, ég skal borga þér þetta."

    Þegar Tumi var kominn úr allri hættu, athugaði hann tvær stórar nálar, sem hann geymdi í treyjufóðrinu. Var önnur með hvítum þræði en hin með svörtum. Hann sagði við sjálfan sig:

    „Hún hefði aldrei tekið eftir því, ef Siddi hefði ekki bent henni á það. Stundum saumar hún með hvítu og stundum svörtu. Ég skyldi vera henni mjög þakklátur, ef hún notaði aðeins annan hvorn litinn. En Siddi skal sannarlega fá að kenna á því."

    Tumi var engan veginn fyrirmyndardrengurinn í þorpinu. Hann þekkti þann dreng vel en gat ekki þolað hann.

    Tveim mínútum síðar eða jafnvel ennþá fyrr hafði Tumi gleymt öllum áhyggjum sínum. Það stafaði þó ekki af því, að þær hvíldu léttar á honum en fullorðnu fólki, heldur af hinu, að allt í einu skaut upp öðru umhugsunarefni, sem lét allt annað gleymast, alveg eins og fullorðnir gleyma sorgum sínum fyrir hugaræsingu nýrra áhrifa. Þetta nýja umhugsunarefni var hvorki meira né minna en spánný aðferð við að blístra, eins og blökkudrengur einn, sem fram hjá gekk, notaði. Tumi óskaði nú þess eins að fá tíma og næði til að æfa hana. Hljóðið var mjög óvanalegt, einna líkast dillandi fuglasöng, og var framleitt með því að slá tungunni öðru hverju upp í góminn. Lesandinn veit sennilega vel, hvað ég á við, ef hann hefur nokkurn tíma verið drengur. Með elju og ástundun náði hann brátt mikilli leikni, og gekk hann nú hreykinn niður götuna með munninn fullan af hinum fjörugustu tónum og hjartað fullt af þakklæti til forsjónarinnar. Honum var svipað innanbrjósts og stjörnufræðingi, sem er nýbúinn að finna nýja stjörnu. Sumarkvöldin voru löng, og það var ekki enn orðið dimmt. Skyndilega hætti Tumi að blístra. Hann kom allt í einu auga á ókunnan dreng, lítið eitt stærri en hann sjálfur. Ókunnur maður, hvort heldur var ungur eða gamall, karl eða kona, vakti mikla eftirtekt í litla þorpinu Sankti Pétursborg. Þessi drengur var vel búinn — of vel á virkum degi. Þetta var óskiljanlegt Húfan hans var mjög skrautleg, bláa klæðistreyjan ný og falleg, og ekki voru buxurnar síðri. Hann hafði skó á fótum, og þó var aðeins föstudagur. Hann var meira að segja með hálsklút, bláan og skínandi fallegan. Það var eitthvað stórborgarlegt við hann, sem vakti sára öfund í brjósti Tuma. Því lengur sem hann starði á þennan glæsta dreng því tötralegri og aumlegri fannst honum sinn eiginn útgangur. Hvorugur drengjanna mælti orð. Í hvert sinn, sem annar þeirra hreyfði sig, hreyfði hinn sig líka, en alltaf út á hlið, alltaf í hring. Þannig stóðu þeir um stund hvor andspænis öðrum. Að endingu sagði Tumi:

    „Á ég að slá þig?!"

    „Mér þætti gaman að sjá það."

    „Ég get það vel."

    „Nei, það geturðu ekki."

    „Jú, ég get það víst."

    „Nei, þú getur það ekki."

    „Ég get það."

    „Þú getur það ekki."

    „Get það."

    Geigvænleg þögn. Síðan sagði Tumi:

    „Hvað heitir þú?"

    „Kemur þér ekkert við."

    „Ég skal segja þér, að það kemur mér við."

    „Jæja, lof mér að sjá."

    „Ef þú segir miklu fleira, skaltu fá að kenna á því."

    „Miklu fleira — miklu fleira — miklu fleira! Hananú?!!"

    „O, þú heldur víst, að þú sért fyndinn. Ég gæti lamið þig í klessu með aðra höndina fyrir aftan bak, ef mér sýndist."

    „Jæja, hvers vegna gerirðu það þá ekki? Þú segist geta gert það."

    „Vertu ekki með neinn gorgeir, annars geri ég það."

    „Það er nú lítill vandi að segja það."

    „Ertu nú að reyna að vera fyndinn aftur?"

    „Þvílíkur hattur!"

    „Þú getur svo sem slegið hattinn af höfðinu á mér, ef þér geðjast ekki að honum. Ég skal veðja, að þú þorir það ekki. En það væri laglegur bjáni, sem þyrði að veðja við mig um það."

    „Það er lygi."

    „Aftur lygi."

    „Þú ert bara monthani, sem þorir ekki að koma."

    „Jæja, komdu bara."

    „Ef þú kemur með meira bull, þá tek ég stein og mola á þér hausinn."

    „Já, náttúrlega."

    „Ég geri það nú samt."

    „Jæja, hvers vegna gerirðu það þá ekki? Til hvers er að standa þarna og stagast alltaf á því, að þú ætlir að gera það. Reyndu heldur að koma þér að því. En þú ert raggeit!"

    „Ekki meiri raggeit en þú."

    „Jú."

    „Nei."

    „Jú."

    Aftur varð þögn, reiðileg augnatillit og skref út á hliðina. Þeir stóðu brátt hlið við hlið. Tumi sagði:

    „Farðu þarna frá!"

    „Farðu frá sjálfur!"

    „Ég fer ekki."

    „Ég ekki heldur."

    Þannig stóðu þeir um stund með annan fótinn út undan sér og stimpuðust hvor við annan eldrauðir af heift og reiði. En hvorugur vann nokkuð á. Eftir að þessi átök höfðu farið fram um stund, hættu báðir aðilar með gætni, og Tumi tók aftur til máls:

    „Þú ert raggeit og aumingi. Ég skal biðja hann stóra bróður minn að jafna um þig. Hann getur slegið þig í klessu með litla fingrinum, og ég skal láta hann gera það."

    „Hvað kemur mér stóri bróðir þinn við? Ég á bróður, sem er stærri en hann. Og það sem meira er, hann getur hent honum yfir girðinguna þarna." (Hvorugur bróðirinn var til).

    „Það er lygi."

    „Það verður líklega ekki lygi, þó að þú segir það."

    Tumi dró strik á jörðina með stóru tánni og sagði:

    „Ég mana þig að stíga yfir þetta strik, þá skal ég lúberja þig svoleiðis, að þú getir hvorki staðið né legið. Sá færi flatt á því, sem veðjaði um, að þú ynnir."

    Ókunni drengurinn gekk rakleitt yfir og sagði:

    „Jæja, látum okkur sjá, hvað þú gerir."

    „Komdu ekki of nærri mér, gættu þín."

    „Þú þorir þá ekki?!"

    „Þori. Fyrir túskilding skal ég gera það."

    Ókunni drengurinn tók tvo koparskildinga upp úr vasa sínum og hampaði þeim framan í Tuma með ögrandi fyrirlitningu.

    Tumi sló til þeirra, svo að þeir féllu glampandi til jarðar.

    Í næstu andrá kútveltust báðir drengirnir í göturykinu, samanslungnir eins og tveir kettir, og á næstu mínútu tóku þeir allóþyrmilegum tökum í hár og föt hvor annars, veittu hvor öðrum vel útilátin högg, rifu í nefið hvor á öðrum, ötuðu sig ryki og unnu hreystiverk. Skyndilega var áflogunum hætt, og út úr rykmekkinum birtist Tumi, þar sem hann sat ofan á ókunna drengnum og lét hann kenna óspart á hnefunum.

    „Gefstu upp?" sagði hann.

    Hinn braust um fast til að losa sig. Það voru tár í augunum á honum, en aðallega af reiði.

    „Gefstu upp?" Og löðrungarnir byrjuðu að nýju.

    Loks stundi hinn sigraði hálfkæfðum rómi: „Gefst upp!"

    Þá sleppti Tumi honum og sagði: „Þetta getur kennt þér að aðgæta betur næst við hvern þú átt, áður en þú ferð að gera þig merkilegan við hann."

    Ókunni drengurinn snautaði burtu, dustaði af sér mesta rykið og leit snöktandi við öðru hvoru. Þegar hann hafði gengið spölkorn, sneri hann sér við og hafði í hótunum um það við Tuma, hvað hann skyldi gera við hann, þegar hann næði í hann næst. Tumi svaraði með háu húrrahrópi og hélt heimleiðis sigri hrósandi og ákaflega rogginn með sig, en hann var ekki fyrr búinn að snúa bakinu við andstæðingi sínum en hann tók upp stein og henti honum í bakið á Tuma, en tók því næst til fótanna eins og tófa. Tumi elti hann alla leið heim að húsinu hans og komst þannig að því, hvar hann bjó. Hann hafði ögranir í frammi utan við dyrnar, skoraði á andstæðing sinn að koma út, ef hann þyrði, en andstæðingurinn lét ekki tæla sig og lét sér nægja að setjast í gluggann og glenna sig framan í Tuma. Að lokum kom móðir ókunna drengsins, kallaði Tuma leiðan og ljótan óartaranga og sagði honum að snauta þegar burtu. Hann sneri því á brott, en sagði áður, að hann skyldi jafna um „þennan dreng" síðar.

    Hann kom seint heim um kvöldið, og þegar hann skreið með mestu gætni inn um gluggann, kom sjálf frænka hans á móti honum úr launsát. Og er hún sá, hvernig fötin hans voru útleikin, varð sá ásetningur hennar óhagganlegur að láta hann vinna allan laugardaginn í refsingarskyni.

    2. Kafli

    Laugardagsmorgunninn var runninn upp bjartur og fagur með fuglasöng og unaði sumarsins. Hvert andlit ljómaði af gleði, gangur fólksins var léttur og fjaðurmagnaður, og trén stóðu í fegursta blómskrúði sínu, og angan þeirra fyllti loftið. Kardiffhæðin, sem gnæfði yfir bæinn, var fagurgræn og mátulega fjarlæg til að líta út eins og draumaland, er lofaði hvíld og unaði.

    Tumi birtist á hliðarstíg einum með kalkfötu og bursta í hendinni. Er hann virti fyrir sér skíðgarðinn, fannst honum sem náttúran hefði misst allan yndisleik sinn, og það setti að honum megnasta þunglyndi. Þrjátíu metra langur skíðgarður og þriggja metra hár! Hve tóm og tilgangslaus var ekki þessi tilvera, sem hvíldi á honum eins og vættaþungt farg! — Hann dýfði burstanum ofan í fötuna, strauk honum um efsta plankann, endurtók hið sama tvisvar sinnum, bar síðan saman með augunum þennan óverulega, hvíta blett og hinn óendanlega flöt skíðgarðsins og lét síðan fallast niður á viðardrumb einn, þreyttur og sinnulaus. Í sömu svifum kom Jim skoppandi út úr portinu með blikkflötu í hendinni og lék á als oddi. Hann söng fullum hálsi: „Telpurnar í Buffaló." Tuma hafði alltaf fundist það hryllilegast af öllu að sækja vatn í götudæluna, en nú leit hann þó öðrum augum á það. Nú datt honum það í hug, að það mátti þó að minnsta kosti búast við einhverjum félagsskap við dæluna. Hvít börn og blökk og múlattabörn stóðu þar alltaf í hóp og biðu þess, að röðin kæmi að sér, og þau eyddu tímanum við að hafa kaup á leikföngum sínum, rífast, fljúgast á eða blístra. Og nú rifjaðist það líka upp fyrir honum, að Jim var aldrei skemur en klukkustund að sækja vatn, þó að dælan væri ekki nema svo sem hundrað metra í burtu, og þurfti oftast þar á ofan að senda sérstaklega eftir honum. Þessar hugleiðingar leiddu til þess, að Tumi sagði:

    „Heyrðu mig, Jim, ég skal sækja vatn fyrir þig, ef þú vilt kalka fyrir mig á meðan."

    Jim hristi höfuðið og svaraði:

    „Ekki hægt, herra Tumi. Gamla frúin segja ákveðið, að ég fara og sækja vatn strax og ekki stansa eða tala á leiðinni. Hún segja líka, að herra Tumi myndi sjálfsagt biðja mig að kalka, en ég bara eiga að hugsa um mitt verk, hún skuli sjálf hugsa um kölkunina."

    „O, kærðu þig kollóttan um það, sem hún segir, Jim. Þetta segir hún alltaf. Fáðu mér nú fötuna, ég skal ekki vera eina mínútu. Hún þarf aldrei að vita neitt um það."

    „Nei, nei, ég ekki þora, herra Tumi. Gamla frúin ógna með að slíta höfuðið af Jim. Hún gerir það áreiðanlega."

    „Hún! Hún hefur aldrei á ævi sinni barið neinn, svo að um munaði — hún baðar bara út höndunum yfir höfðinu á manni, og hvað ætli það geri manni til? Hún talar bara, og ekki finnur maður til af því — nema þá hún fari að gráta. Heyrðu, Jim, ég skal gefa þér marmara (í Ameríku er algengur drengjaleikur, sem kallaður er marmari. Í honum eru notaðar kúlur úr lituðum leir eða granítkúlur, og eru þær dýrari) — eða jafnvel granít, viltu það?"

    Jim fór auðsjáanlega að verða á báðum áttum.

    „Hvít granítkúla, Jim, og hún í stærra lagi."

    „Ó, þetta er náttúrlega agalega fallegur marmari. En herra Tumi, ég voðalega hræddur við gömlu frúna."

    En Jim var ekki annað en breyskur maður — freistingin var of lokkandi. Hann setti frá sér fötuna og tók fallegu granítkúluna. Í næstu andrá þaut hann eins og kólfi væri skotið niður götuna með fötuna dinglandi á eftir sér, en Tumi kalkaði, eins og hann ætti lífið að leysa, því að frænka hans hafði komið óvænt á vettvang og var nú aftur að ganga inn í húsið með morgunskóinn sinn í hendinni og sigurgleði í hjarta.

    En iðjusemi Tuma entist ekki lengi. Hann fór að hugsa um öll þau skemmtilegu uppátæki, sem hann hafði ætlað að framkvæma í dag, og við það varð honum enn þyngra niðri fyrir. Nú myndi þess víst skammt að bíða að allir drengirnir, sem áttu frí, kæmu út og færu í alls konar leiki. Hvað þeir myndu þá stríða honum, er þeir sæju hann standa þarna við skíðgarðinn og vinna nauðungarvinnu. Hann þoldi varla að hugsa til þess.

    Hann dró allar eigur sínar og veraldlega fjársjóði upp úr vasa sínum og athugaði gaumgæfilega — hlutar af leikföngum, marmarakúlur og þess háttar, kannski nægilegt til að fá einhvern til að skipta á vinnu, en engan veginn nóg til að kaupa sér svo sem hálftíma frelsi. Hann stakk því dóti sínu aftur í vasann, daufur í dálkinn, og hafði enga von um að geta mútað neinum af félögum sínum. En er hann hafði hugleitt þessar vonlausu kröggur sínar, kom honum skyndilega ráð í hug — fyrirtaks hugmynd! Hann greip snarlega bursta sinn og tók að vinna af kappi. Skömmu síðar birtist Benni Rogers, einmitt sá af kunningjum hana, sem hann óttaðist mest, að myndi hæðast að honum. Benni fór á gangi, sem var sambland af háu hoppi, stuttu tipli og löngum stökkum, og var það greinilegt merki þess, að vel lá á honum. Hann var að gæða sér á epli, en rak þess á milli upp langdregið og ámátlegt væl og söng á eftir því með tónum, sem virtust koma neðan úr maga: ding dong, ding dong, ding dong, og þóttist hann vera að herma eftir skipi. Er hann kom í námunda við Tuma, hægði hann ferðina, sneri snöggt á stjórnborða og tók beygjuna með miklum erfiðismunum, því að hann var að leika „Stóra Missúri" og átti samkvæmt því að rista níu fet. Hann sameinaði í einni og sömu persónu skipið, skipstjórann, klukkuna og vélina. Hann hugsaði sér þannig, að hann stæði á sínum eigin stjórnpalli, gæfi sjálfum sér skipanir og framkvæmdi þær sjálfur.

    „Stopp! Linga-linga-ling. Ferðin stöðvaðist því nær alveg, um leið og hann sneri upp að gangstéttinni. „Aftur á bak! Linga-ling! Hann teygði handleggina beina niður með síðum. „Aftur á bak á stjórnborða! Dinga-linga-ling! Kovo-vovo! Og hann sveiflaði hægri handlegg í hægum hringjum. Það átti auðvitað að tákna snúning spaðahjólsins. „Aftur á bak á bakborða! Dinga-linga-ling! Kovo-vovo! Vinstri handleggur tók líka að veifa í hringjum út í loftið. „Stoppið á stjórnborða! Dinga-ling! Stoppið á bakborða! Eitt slag stjórnborða - stopp! Mjög hægt áfram! Linga-ling! Kovo-vovo! Fleygið línu í land, fljótir piltar! Afturtrossuna inn — svona, verið nú handfljótir! Bregðið henni um staurinn! Takið á móti landgöngupallinum! Allt í lagi í vélinni. Dinga-linga-ling!"

    „Sht! Sssht! Ssht!" (Gufuhaninn var reyndur).

    En Tumi hélt áfram að kalka án þess að gefa nokkurn gaum að gufuskipinu. Benni glápti undrandi á hann andartak og sagði síðan:

    „Hí — hí — hí! Nú hefur þú farið fallega flatt á því!"

    Ekkert svar. — Listamaðurinn horfði aðdáunaraugum á

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1