Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Ferðaminningar
Ferðaminningar
Ferðaminningar
Ebook187 pages3 hours

Ferðaminningar

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Ferðaminningar Jóns Trausta hafa að geyma frásögn hans af flakki um Þýskaland, Sviss og England á síðari hluta 19. aldar. Þess merkilega bók veitir innsýn í hvernig ferðalögum var háttað á fyrri öldum og hvernig íslendingur upplifði umheiminn áður en aðgengi að upplýsingum var á hverju strái.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateNov 23, 2023
ISBN9788728281567
Ferðaminningar

Related to Ferðaminningar

Titles in the series (14)

View More

Related ebooks

Related categories

Reviews for Ferðaminningar

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Ferðaminningar - Jón Trausti

    Ferðaminningar

    Cover image: Unsplash, public domain

    Copyright © 2023 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728281567

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrieval system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    ATHUGAGREIN

    Ferðaminningar þessar voru upphaflega fluttar sem alþýðufyrirlestrar í Reykjavík. Nokkur hluti þeirra hefir komið í blaðagreinum, en til þess að menn gætu haft þeirra sem mest not að hægt er, hefi ég nú safnað þeim saman í eina bók. Sum ljóðin hafa einnig verið prentuð áður. Myndirnar eru teknar eftir myndum, sem ég hefi keypt hingað og þangað á ferðinni og hafa verið misjafnlega til þess fallnar að taka eftir þeim, og eru þær þess vegna misgóðar.

    Ég verð að láta bókina fara frá mér án þess að geta lagað öll þau lýti, sem á henni eru, þótt mér séu mörg af þeim fullljós. Einkum á ég við mikla örðugleika að stríða að því er málið snertir. Ég hefi allan hug á því að hafa það hreint og fagurt, en til þess skortir mig bæði þekkingu og æfingu. Hrein og fögur íslenzka er ekki viðvaningameðfæri, einkum þegar fengizt er við ýmsar hugmyndir, sem mega heita á landnámsferð. Tökin á óbundinni ræðu verða líka enn þá stirðari þeim, sem tamið hafa sér hið bundna mál.

    Útlend nöfn hefi ég alls staðar látið halda sér, nema þar sem nöfnin eru orðin íslenzk, t. d. Berlín, Lundúnaborg, Rín, Jómfrúin o. s. frv. En til leiðbeiningar fyrir þá, sem ekki eru handgengnir þýzkri tungu, skal ég geta þess, að bókstafurinn ü er borinn fram sem uj, t. d. Nürnberg = nujrnberg, ei er borið fram sem æ, ie sem í, au sem á, ee sem breitt e (t. d. Bodensee = bodense), ä sem e, v sem f og w sem v (t. d. Vierwaldstätter = fírvaldstetter), en ch með einkennilegu blísturshljóði, sem helzt líkist hj (t. d. München = mujn-hjen). Donau (Doná, Duná) og Thames (tems, Temsá) læt ég halda nöfnum sínum, af því hin nöfnin eru auðsjáanlega ekki annað en afbökun úr þeim. Og þannig er með fleiri nöfn. Við nokkur ensk nöfn hefi ég sett framburðinn í svigum á eftir, en ekki er það alls staðar og erfitt að gera það, svo nákvæmt sé. Þar sem skýrt er frá mælingum, sem ég hefi fyrir mér í metrum, t. d. á fjöllum í Sviss, hefi ég breytt því í fet með því að þrefalda töluna, en það er ekki nákvæmt og munar ofur litlu á háum tölum, en gefur þó nokkra hugmynd um stærðina. Á enskum mælingum er um ensk fet að ræða.

    Ef ég ætti að skýra frá því, hvaðan einstakar upplýsingar eru teknar, yrði það alllöng skrá. Ég læt mér því nægja að geta þess, að þær eru teknar úr bókum, sem ferðamönnum eru ætlaðar til leiðbeiningar á hverjum stað fyrir sig, eða úr alfræðibókum (lexikon), að því leyti, sem þær eru ekki frá eigin brjósti.

    Reykjavík, í júní 1905.

    G.M.

    [Myndirnar, sem um getur í athugagrein höfundar, hefir af ýmsum ástæðum reynzt ógerlegt að taka með í þessa útgáfu, og sleppt er einnig söngnótum af lagi ráðhúsklukkunnar í Kaupmannahöfn. Þá eru og felld burt í þessari útgáfu ljóðin, sem höf. minnist á, með því að þau verða prentuð ásamt öðrum ljóðum hans í sérstöku bindi. Að öðru leyti eru Ferðaminningarnar prentaðar hér eins og höfundur hefir frá þeim gengið í frumútgáfunni, nema hvað lagfærð hafa verið einstök mállýti og orða skipun vikið við í nokkrum setningum.]

    INNGANGUR

    „Íslendingar viljum vér allir vera."

    Þessi orð hafa hljómað milli landshorna frá því Fjölnismenn gjörðu þau að einni grundvallarsetningunni í félagslögum sínum.

    Annað mál er það, hvað þau hafa átt djúpar rætur, að minnsta kosti hjá sumum.

    Og þótt viljann vanti ekki, er það efasamt, hvort allir gera sér skilyrðin fyrir því að geta fylgt þessari meginreglu fullkomlega ljós.

    En þau eru auðvitað til.

    Og þau eru ekki einungis það, að vera nógu forn í skapi og forn í máli, trúa á fornan hetjuþrótt og stæra sig af fornri menningu, því að slíkt er að halla sér að brjósti múmíunnar. Okkar forna menning er góður og blessaður arfur, sem ég ber djúpa lotning fyrir, en hún veitir ekki andlegu lífi voru nú á dögum næringu nema að nokkru leyti. Það er mikil minnkun að þekkja hana ekki og kunna ekki að meta hana, en það er þó enn þá meiri minnkun að þekkja ekkert annað.

    Hún er í raun og veru ekki nema einn kafli úr heild, sem vér eigum að þekkja alla og þekkja vel, — sögu þjóðarinnar.

    Vér Íslendingar höfum miklu meiri tilhneigingu til að líta aftur fyrir oss en fram fyrir oss, að líta til Íslands eins og það var, en ekki eins og það á að verða. Þess vegna hættir framförum vorum við að ganga út á hliðina eins og krabbanum.

    ____________

    Vér verðum fyrir óþarflega miklum áhrifum frá einni útlendri þjóð, Dönum, en allt of litlum áhrifum frá öðrum þjóðum.

    Og þannig hefir það verið um margar aldir. Íslendingar hafa fengið rétt að kalla alla sína útlendu menningu innflutta frá Danmörku.

    Allt það, sem ekki er íslenzkt á Íslandi, það er danskt. Áhrif frá öðrum þjóðum eru varla teljandi.

    Menningarstraumurinn frá Danmörku hefir orðið oss til góðs að sumu leyti, en ills að sumu leyti, eftir því sem hann hefir átt hér við. En eitt er að minnsta kosti víst: Hann hefir ekki fullnægt oss.

    Sú breyting, sem á þessu hefir orðið á seinni árum og er að verða árlega, er ekki enn farin að koma þjóðlífi voru að neinum verulegum notum. Það er ekki heldur laust við ótrú á ýmsu því, sem kemur annars staðar frá, t. d. frá Ameríku.

    Íslendingar eru gjarnir á að fara utan til að afla sér menningar, en allur fjöldinn fer enn þá ekki annað en til Kaupmannahafnar, — og kemur svo auðvitað aftur án þess að hafa neinu kynnzt öðru en Kaupmannahöfn og það kannske ekki einu sinni á sem hollastan hátt.

    Embættismannaefnin fara til Kaupmannahafnar, — en þeim er raunar mest vorkunn, því að þar fá þeir námsstyrk, sem þeim flestum veitir ekki af. Þeim, sem leita sér verklegrar menntunar, eða þeim, sem fara í verzlunarerindum eða til að sjá sig um, er miklu minni vorkunn.

    Smíðavitið, verzlunarþekkingin, matartilbúningurinn og — meira að segja — búnaðarvitið — allt er sótt til Kaupmannahafnar. Og nú eru menn farnir að sækja danska lýðháskóla líka. Það er eins og engin þjóð á jörðu kunni neitt eða sé neitt í neinu nema Danir.

    Og eina útlenda málið, sem almennt er lesið hér á landi, er danskan.

    Meiri hlutinn af bókmenntum þeim, sem lesnar eru í landinu, er á dönsku.

    Jafnvel helmingurinn af hugsununum, sem vér hugsum, eru hugsaðar á dönsku. — Og svo kemur allur þessi hópur, sem til Danmerkur fer, heim aftur með meira og minna danskt loft í lungunum, — lífsskoðanir, sem hingað hafa lítið að gera, og þekkingu, sem ekki kemur oss að hálfum notum. En eitt hefir mikill fjöldi lært af Dönum: Að vera ákaflega hrifnir af þeim, en líta smáum augum á þjóðlíf vort — eins og þeir.

    Danir gera líka sitt til að halda þessu í horfinu. Það er fráleitt tilviljun ein, að fargjaldið með póstskipunum er haft jafnt til Kaupmannahafnar og Englands. Það er víst sú eina skipaleið í heimi, þar sem ekkert tillit er tekið til vegalengdar, þegar fargjald er ákveðið. Tekið jafnt fyrir helminginn af leiðinni eins og alla leiðina. Með þessu móti er lagður drjúgur skattur á alla þá, sem ekki ætla sér að nota póstskipið lengra en til Skotlands.

    Og þetta gerir þingið og landsstjórnin ekkert til að hindra.

    Þar við bætast ýmsar ívilnanir og hlunnindi frá Dana hálfu, sem auðvitað vilja heldur, að Íslendingar sæki fremur til sín en annarra. Og það nota þeir sér. Það liggur eins konar þjóðbraut fyrir Íslendinga til Danmerkur. Allar aðrar leiðir eru óruddar og mosagrónar — nema útflytjendabrautin til Ameríku.

    En Danir sjálfir senda sína menn til allra nágrannalandanna til náms. Þeir eru búnir að sjá það fyrir löngu, að áhrifin frá einni einstakri þjóð verða einhliða og óholl.

    Íslendingar hafa ekki lært að sjá það enn. Það er raunar að byrja og sannarlega vert að hlynna að þeirri viðleitni.

    Íslenzk framtíðarmenning verður aldrei byggð á því að apa eftir Dönum — eða nokkurri annarri einstakri þjóð. Áhrifin verða að koma frá mörgum þjóðum. Því betur sem fleiri menningarstraumar geta leikið um þjóðlíf vort, og því betur sem þeir geta verið nýrri og ferskari og átt greiðari leið til vor.

    Vér eigum að kynnast öðrum þjóðum, ekki einungis til að dást að þeim, heldur miklu fremur til að læra af þeim. Með því að bera oss sjálfa saman við þær lærum vér bezt að þekkja oss sjálfa og sjá, í hverju oss er ábótavant. Og með því að bera þær sjálfar saman innbyrðis, komum vér einnig betur auga á kosti þeirra og ókosti.

    Upp úr þvílíkri þekkingu á vor íslenzka menning að vaxa.

    Hún á að byggjast á traustri, vel grundvallaðri þekkingu á afstöðu vorri í menningarlegu tilliti gagnvart öðrum þjóðum.

    Og vér eigum að taka eftir þeim, hverri þeirra sem er, það, sem oss hentar bezt í hverri grein, og gera það íslenzkt — bæta það upp frá eigin brjósti og laga það eftir eigin þörfum. Því að vér getum sjaldan búizt við því að fá fyrirmyndir utan úr heiminum, sem að öllu leyti falla í vorar þarfir.

    Með því einu móti eignumst vér innlenda menningu. Það gerir minna til, þótt hún verði að einhverju frábrugðin annarra, ef hún hefir sjálfstæðisblæ og samsvarar þörfum vorum og ástæðum. Aðalatriðið er ekki það, að líkjast sem mest einhverri þeirra — því að vér getum ekki líkzt þeim öllum —, heldur að skipa sæti sitt með heiðri á meðal þeirra.

    Hvað gera Englendingar? — Þeir hafa orð fyrir að vera afturhaldssamir og búa að því, sem þeir hafa, meðan það er notandi. En þeir ferðast um allt og þeir hafa sannarlega augun með sér. Svo þegar þeir setjast á ráðstefnur til að koma á einhverjum umbótum hjá sér, þá vita þeir út í æsar, hvað aðrar þjóðir eru búnar að gera, og þekkja það allt. Og verkin sýna merkin. Nýjungarnar hjá Englendingunum hafa engan eftiröpunarblæ á sér; þær eru til fyrirmyndar — í hvaða grein sem er.

    Og þeir eru vafalaust einhver sjálfstæðasta menningarþjóð heimsins.

    Þannig á framtíðarmenningu vorri að vera farið. Hún á að vera sjálfstæð og innlend, sniðin eftir vorum ástæðum og með glöggu auga — ekki einungis fyrir framförum Dana og Norðmanna, heldur alls heimsins.

    En þetta verður ekki gert með bókum eða blaðavaðli. Hér þarf sjón og raun að koma til skjalanna.

    Og fyrsta sporið eru nánari persónuleg kynni af nágrannaþjóðunum.

    Þau mundu þegar í stað hafa þær verkanir að stæla vora eigin þjóðernistilfinningu og styrkja oss í baráttunni gegn dönsku áhrifunum, sem þrengja sér eins og suddi inn í allt vort þjóðlíf.

    Það, sem hér fer á eftir, getur lítið orðið til þess að greiða mönnum veg um önnur lönd. Það er ekki heldur ritað í þeim tilgangi. Það eru aðeins lauslegar ferðaminningar frá ferð minni um Þýzkaland, Sviss og England, ritaðar alþýðu manna til skemmtunar. Enda er stærð þessarar bókar takmörkuð, og aðrar kringumstæður hindra það, að hún geti orðið eins og ég hefði viljað. Enda getur engin bók orðið fullnægjandi til leiðbeiningar þeim, sem hyggja á ferðir um önnur lönd; til þess er tilgangur ferðanna allt of margvíslegur. Mínir vegir gætu ekki orðið þeirra vegir. Gæti þessi bók — auk þess að stytta mönnum löng vetrarkvöld — einnig orðið til þess að glæða löngun einhvers til þess að stefna í einhverja aðra átt en endilega til Danmerkur til að afla sér menningar, þá þætti mér vænt um.

    Grýla er það og annað ekki, að það sé miklu meiri erfiðleikum bundið að komast til annarra landa en Danmerkur og komast þar áfram. Það ætti auk heldur að vera auðveldara að komast til Englands, en ekki munar nema nokkrum krónum á fargjaldi til Þýzkalands og Danmerkur, og þeir, sem verklegt nám stunda, geta auðveldlega komið sér þar fyrir og fengið eins góð eða betri kjör en hjá Dönum. Þetta er að minnsta kosti reynsla þeirra, sem þegar hafa brotið ísinn. En eitt skilyrði er óhjákvæmilegt. Það er tungumálaþekkingin. Og það er enginn skaði skeður, þótt hún aukist að því er lifandi málin snertir. Hún getur orðið að liði jafnvel þeim, sem heima sitja.

    Ferðirnar einar út af fyrir sig hafa menntandi áhrif, og margt ber þá fyrir augun, sem dregur að sér athyglina og skilur eftir rótgrónar minningar, sem seinna verða manni bæði til gagns og ánægju. Náttúran stendur að minnsta kosti öllum opin með sínum óendanlega breytileik og rífur augu manna opin fyrir fegurð sinni. Eitt af skilyrðunum fyrir því að geta metið fegurð síns eigin lands til fullnustu er að bera hana saman við náttúrufegurð annarra landa. Aldrei finnur Bjarni Thorarensen eins vel til tignar og fegurðar Íslands og þegar hann ber það saman við Danmörku í kvæðinu „Eldgamla Ísafold".

    En það er meira en náttúran, sem hverjum manni stendur opin. Mannvirkin, söfnin og — meira að segja — mannlífið gerir það líka.

    Og það, sem mest er um vert: Framtíðarmöguleikar Íslands standa mönnum opnir. Erfiðleikarnir skreppa saman í hnút, þegar maður sér, hvernig aðrar þjóðir hafa sigrazt á sínum erfiðleikum.

    „Við höfum skapað Holland," segir Hollendingurinn og bendir á flóðgarðana miklu og uppþurrkuð fenin, skipgeng síki um allt landið og akra á fyrrverandi sjávarbotni.

    „Vér eigum eftir að skapa Ísland," dettur manni þá í hug.

    Og það er oftar, sem sú hugsun vaknar á ferðum um önnur lönd. Það má heita, að hún vakni við hvert spor. —

    Að svo mæltu tek ég þig við hönd mér, kæri lesari, og leiði þig í anda út í önnur lönd. Fljótt verður yfir sögu að fara; ég geri ráð fyrir, að ég aðeins æsi fróðleiksþrá þína, án þess að geta hugsað til að svala henni. En um það tjáir ekki að fást. Enda er ekki líklegt, að leiðir okkar lægju saman, þegar til nánari þekkingar kæmi. Hver hefir þar sinn tilgang. Vér mennirnir erum ekki allir hneigðir til sömu hluta — sem betur fer.

    KAUPMANNAHÖFN

    Enginn má skilja orð mín þannig, að ég vilji telja menn algerlega af að fara til Danmerkur til að afla sér menningar framvegis, eins og að undanförnu. Það hefir mörgum orðið til góðs, og mun svo verða framvegis. Ég vil aðeins brýna fyrir þeim, sem mögulega geta það, að komast einnig eða jafnvel heldur til annarra þjóða, til þess að þeir — og þjóðlíf vort í gegnum þá — verði fyrir fleiri áhrifum en þeir eiga kost á hjá Dönum einum.

    Danir eru þjóð, sem stendur mjög framarlega í menningu meðal Norðurálfuþjóðanna og stærri og betur mannaðar þjóðir en vér álíta sig hafa gott af að kynnast. Og höfuðstaður þeirra, Kaupmannahöfn, er ekki þeim mun ómerkilegri en höfuðstaðir stórþjóðanna sem hann er minni en þeir.

    Það væri því mikið skarð í þekkingu vor Íslendinga á nágrannaþjóðum vorum, ef vér værum fáfróðir um Dani, og mjög misráðið að nota ekki það tækifæri, sem þeir stöðugt bjóða oss, til að gera þekkingu sína að vorri þekkingu, jafnmisráðið eins

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1