Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Síðasti njósnarinn
Síðasti njósnarinn
Síðasti njósnarinn
Ebook361 pages5 hours

Síðasti njósnarinn

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Það er njósnari í Dönsku leyniþjónustunni og það er aðeins einn maður sem starfar hjá KGB getur komið upp um hann, fyrir rétta upphæð. Jette Jensen, yfirmaður leyniþjónustu dönsku lögreglunnar, er reiðubúinn til þess að greiða það sem þarf. Það gerir hún þrátt fyrir að afleiðingarnar séu þær að hún þarf að hafa samband við Tom Gubrowski, fyrrverandi kærasta og samstarfsfélaga sem er búsettur í Taílandi.Sagan gerist rétt eftir fall Berlínarmúrsins, þegar ný heimsýn er að verða til og allir eru óöruggir hvað varðar njósnara og leyniþjónustur, óvini og vini. Söguþráðurinn fylgir aðalpersónunni í kringum heiminn og eru lýsingar hverrar staðsetningar skrifaðar á einkar trúverðugan máta af höfundinum ásamt því að lesandinn er togaður inn í heim þeirra lyga sem sögupersónurnar upplifa.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateApr 13, 2021
ISBN9788726647518

Related to Síðasti njósnarinn

Titles in the series (1)

View More

Related ebooks

Reviews for Síðasti njósnarinn

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Síðasti njósnarinn - Leif Davidsen

    Síðasti njósnarinn

    Translated by

    Copyright © 1991, 2021 Leif Davidsen and SAGA Egmont

    All rights reserved.

    ISBN: 9788726647518

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser. SAGA Egmont

    www.sagaegmont.com

    Saga Egmont - a part of Egmont, www.egmont.com

    Sumarið 1988 drukknaði yfirmaður PET, leyniþjónustu lögreglunnar, Anders Walsted Hansen, með sviplegum hætti í Finnlandi. Við starfi hans tók Hanne Bech Hansen lögreglustjóri, sem blöðin kölluðu fyrsta kvennjósnaforingja í heimi.

    Minnst var á þetta dauðaslys í lítilli fréttaklausu sem ég las rétt nýkominn heim frá Moskvu. Þessi fréttaklausa varð kveikjan að „Síðasta njósnaranum" sem einnig litaðist af því sem Vaclav Havel hefur kallað þessa undarlegu tíma þegar mannleg ásýnd veraldarinnar breyttist svo hratt að engir pólitískir hraðamælar dugðu lengur.

    En til að hafa allt á hreinu langar mig til að leggja áherslu á að konan sem er yfirmaður Leyniþjónustunnar í þessari bók er hreinn tilbúningur, eins og allar hinar persónurnar. Líkist þær á einhvern hátt núlifandi eða látnu fólki er það tilviljun og ekki með ráðum gert.

    Fréttaklausa í dagblaði er bara einn af mörgum og oft óútskýranlegum hvötum sem geta allt í einu kveikt í alltof frjósömu ímyndunarafli skáldsagnahöfundarins.

    Fyrsti hluti sögnin af sigurði fáfnisbana

    Frelsið sálir okkar

    við ærumst af andarteppu

    flýtið ykkur að koma

    hlustið á okkur í landi

    SOS-in okkar verða sífellt daufari

    og óttinn sker sálina

    í sundur

    — Vladimir Vysotskíj

    1

    Hann leit niður á brakandi stíft dagblaðið og las greinina enn einu sinni, enda þótt hann kynni hana utanað. Hún var tenging hans við raunveruleikann. Hann hélt sér dauðahaldi í þetta kýrillíska letur til þess að tapa ekki glórunni. Hann las ekki. Það var erfitt í morgunbirtunni sem skarst eins og rautt strik yfir fjöllin. Sergej Míkhaílovits Zaikov studdi sig við blaðið og orð þess frá yfirvöldunum um að martröðinni mundi senn ljúka, eins og særður félagi styðst við hækju. Þeir voru að hverfa burt úr landinu. Hann átti að fara heim. Hann átti ekki að sitja hér uppi í fjallinu alla átján mánuðina og bíða eftir að falla fyrir óvinakúlu eða drepast úr leiðindum. Þegar hann dró sígarettureykinn djúpt oní sig og lokaði augunum hurfu fjöllin og svöl morgungolan og hann sá ekki lengur fyrstu eldana sem verið var að kveikja í þorpinu bak við jarðsprengjubeltið tveim kílómetrum utar í dalnum. Þess í stað sá hann stigaganginn heima í Moskvu þar sem Ludmilla bjó. Hann fann lykt af káli og gamalli steikingarolíu og heyrði fyrstu morgunformælingarnar og þurran tóbaks- og vodkahóstann gegnum þunnar hurðir og veggi meðan hann hljóp fimm hæðir niður tröppurnar á leið út í bæinn. Ludmilla lá eftir í rúminu og reykti og nennti ekki á fætur, en hann ætlaði heim í fínu íbúðina að skipta um föt hjá mömmu. Loftið mundi vera hrollkalt og nístandi og farið að ýra snjó úr þungum skýjum. Lödurnar voru þaktar brúnum forarklessum og ósuðu af illa brenndu bensíni, og nú var kominn tími til að taka fram skíðin sín og hlakka til vetrarins.

    Sergej opnaði augun aftur. Hann heyrði í varðmanninum fremur en hann sá hann. Það skrölti í vopnum hans eins og hann væri kýr að brölta í tjóðrinu. Sergej sá brúna skothelda vestið og skuggann af hjálmi í gráblárri morgunskímunni sem lyfti fjöllunum upp við sjóndeildarhring þannig að það var eins og þau svifu í lausu lofti. Varðmaðurinn reykti, en Sergej vissi að það var tilgangslaust að skipta sér af því. Hasslyktinni sló fyrir vit hans og hún blandaðist reyknum frá sígarettunni hans. Það birti hratt og hann fór að grilla í einstök hús í þorpinu niðri í græna dalnum. Brún, lágreist húsin stóðu í þyrpingu við ána. Vatnið var silfurgrátt og streymdi hratt fram. Úti við sjóndeildarhring voru fjallshlíðarnar í skugga. Hann stóð undir felunetinu og lauk við sígarettuna. Hann lokaði augunum aftur og reyndi að sjá fyrir sér morgun í Moskvu.

    Nú kem ég út um dyrnar. Ég hleyp við fót að strætisvagninum. Hann er troðfullur en ég finn mér stað aftast á pallinum við hliðina á fallegri stúlku með ólundarsvip. Hún horfir út á ferkantaða vörubílana sem blása frá sér bláum díselreyk. Hún er með prjónahúfu. Hún virðir mig ekki viðlits í fyrstu en að lokum tekst mér að tæla fram bros. Við stöndum klemmd hvort upp að öðru á afturpallinum og horfum út um skítugan gluggann. Það er alltaf að koma nýtt fólk inn í vagninn og það lyktar af Moskvu. Af brúnsápu og tannkremi frá verksmiðjunni í Leníngrad. Ég finn fyrir mjöðm hennar við mína. Hún er bústin en ung. Og ég velti fyrir mér hvort ég eigi að segja Ludmillu að ég sé á vakt í kvöld svo ég geti heimsótt þessa bústnu stúlku úr strætisvagninum í fínu íbúðina hennar þar sem hún býr með móður sinni, gamalli og heyrnardaufri. Veturinn er að koma og ég finn sápulyktina af hörundi hennar þegar vagninn beygir inn á Sadovaja og fer að erfiða upp brekkuna. Á götunni er örtröð af fólki á leið til vinnu og úr bakaríinu berst ilmur af nýju brauði.

    Myndin leystist upp í huga hans. Þess í stað heyrði hann bílhljóð en þegar hann opnaði augun var þetta bara skröltið í rafalnum sem þrengdi sér inn í vitund hans þegar vindurinn breytti um átt og fór að blása að vestan.

    Hann braut blaðaúrklippuna vandlega saman. Það var rifið upp í hana. Hann hafði ekki klippt hana út sjálfur heldur fundið hana á naglanum á kamrinum. Hann hafði tekið hana til handargagns. Hún hafði orðið að verndargrip. Þegar blöðin höfðu komið með þyrlunni ásamt öðrum pósti höfðu þeir verið of uppveðraðir til að klippa út og geyma. En hann taldi það vera góðs viti að hann hafði mörgum dögum seinna fundið opinberu tilkynninguna á naglanum sem stóð í staurnum við kamargatið. Snyrtilega rifin út. Hann var annars sammála óbreyttu hermönnunum um að bullið sem blaðamennirnir skrifuðu um stríðið átti ekki betra skilið en að hafna á naglanum.

    Nú kom hljóðið sem rak hann á fætur í dögun á hverjum morgni. Hann sá á varðmanninum að það gerði hann órólegan líka. Hljóðið var eymdarlegt og langdregið og hljómaði eins og ásökun í fjallaskarðinu. Það hóf sig upp til þeirra. Fyrst stutt og lágvært en því lauk ævinlega með þessu langdregna og ógnandi ákalli. Sasja sagði að það minnti hann á úlfana heima í Síberíu. Hann hafði að vísu hvorki séð þá né heyrt í blokkinni sinni í Irkútsk en sögur afa hans voru honum runnar í merg og blóð. Sergej heyrði að mennirnir voru farnir að bæra á sér innan við tjalddúkinn. Þeir bölvuðu og rögnuðu í þrengslunum. Innan skamms mundi þetta enda með áflogum. Við hverju var að búast þegar fjórtán manns áttu að hírast saman á klettasyllu sem var ekki nema tuttugu metra löng? Sönglandi hvatning múllans til morgunbæna steig nú vægðarlaust upp til þeirra. Þetta var ómennskt hljóð. Þetta voru allt eintómir heiðingjar, að sníkjudýrunum í Kabúl meðtöldum. Sergej fann að hárin risu út um allan skrokkinn og hann teygði sig eftir hríðskotarifflinum við fætur sér til að finna öryggi í stálinu og sléttum viðnum í skeftinu. Nú mundi mótleikurinn koma bráðum, hugsaði hann. Vani, vani, vani. Hann heyrði þá bölva og svo barst hás rödd Voronja úr kassettutækinu. Sama sagan á hverjum morgni: söngur óvinanna neðan úr þorpinu og síðan tilraunir þeirra til að þagga niður í þessum skeggjaða djöfli með Vysotskíj. Þeir hittu á sönginn um úlfinn á öðru af þeim tveim böndum sem þeir höfðu með honum. Varðmaðurinn henti frá sér sígarettunni og renndi kíkinum eftir sjóndeildarhringnum. Í æfingabúðunum hafði þeim verið sagtað morgunninn væri hættulegasti tími sólarhringsins. Þeir voru nú búnir að hengslast hér í átta mánuði en höfðu ekki hleypt af skoti nema þegar þeir voru skakkir af hassi og skutu í mark á niðursuðudósir eða köstuðu handsprengjum til að reyna að sprengja jarðsprengjurnar í loft upp. Hann var hættur að fá samviskubit yfir að skrifa í skýrsluna að þeir hefðu hafið skothríð á meint óvinalið. Það var hvort eð er allt að fara til fjandans bæði hér og heima. Allt sem hann hafði eitt sinn trúað á var hrunið til grunna.

    Hann renndi augunum yfir þorpið. Fyrstu litlu mannverurnar voru nú komnar á kreik og reykinn lagði þráðbeint til himins frá lágum leirhúsunum. Reykjarslæðurnar stóðu stundarkorn kyrrar eins og þær hefðu verið málaðar á loftið, þangað til vindgustur fór um dalinn og dreifði þeim. Hann sá konurnar á leið niður að ánni eftir vatni með háværan barnaskarann á hælum sér. Asnarnir í þorpinu voru eins og litlir svartir dílar. Þeir gengu um með hefta framfætur og bitu gras. Líkamar kvennanna voru huldir en engu að síður lét hann sig dreyma um þá á hverjum morgni. Hann horfði í gegnum kíkinn á þessar hjúpuðu, ólögulegu verur sem kjöguðu áfram. Karlmennirnir lágu með andlitin niðri í skítugum teppunum sínum og það sem eftir var dagsins mundu þeir sitja með svipbrigðalaus andlit. Þeir voru af öðrum heimi. Það var geðveiki að halda að það væri hægt að breyta þeim. Að hafa sig á brott var það eina skynsamlega sem yfirvöldin höfðu tekið sér fyrir hendur árum saman.

    Nú var morgunfriðurinn úti. Hann dró húfuna upp úr vasanum og skellti henni á höfuðið áður en hann hneppti næstefsta hnappinum á einkennisjakkanum yfir blá og hvítröndótta skyrtuna. Vysotskíj þrumaði enn: „Nú eltum við flýjandi fjendur á fljúgandi ferð/en á þeysireið þeirri missum við félagana bestu/og tökum ekki eftir að sá við hliðina er horfinn."

    Sergej beið. Hann vissi að mennirnir mundu ekki fá sér morgunmat fyrr en kveinstafirnir neðan úr dalnum væru hættir. Þeim lauk á hverjum morgni jafn skyndilega og þeir hófust. Vysotskíj fékk að syngja bandið á enda, síðan lauk hans söng einnig og mennirnir komu út einn á fætur öðrum með svefndrukkin, órökuð andlit. Þyrlan mundi sennilega koma í dag með póstinn frá Kabúl og nýjar birgðir. Hann leit í síðasta skipti út yfir brún fjöllin sem umluktu grænan dalinn. Áin var nú orðin stálgrá með hvítt löður og í kíkinum gat hann auðveldlega greint stóra klettana. Einhvers staðar í fjöllunum voru skæruliðarnir staddir. Einhvers staðar sátu þeir eins og hann og biðu. Þeir földu sig í hverri klettasprungu. Hver einasti stígur og hvert einasta gil var heimili þeirra. Þeir voru fótvissir og hljóðlausir í hreyfingum. Það var geggjun að halda að hægt væri að vinna sigur í styrjöld gegn þjóð þar sem tólf ára drengur gat með hægðarleik borið vélbyssu á bakinu og klifrað í klettunum eins og fjallageit frá Kákasus. Um nætur læddust þeir niður í þorpin og endurnýjuðu birgðir sínar. Sergej var búinn að sjá í gegnum þetta allt saman. Heimsvaldasinnarnir sögðu að Sovétríkin hefðu hernumið Afganistan. En sú fjarstæða. Hann var jafn rammlega lokaður inni hér eins og hann væri í fangelsi. Tuttugu metra löng og tíu metra breið klettasylla umkringd af jarðsprengjum. Eina leiðin burt var eftir mjóum klettastíg sem enginn maður með fullu viti mundi fara eftir. Eða þyrla sem aldrei kom. Hver hafði hernumið hvern?

    Hann heyrði mennina bölva. Hann lét þá í friði nokkrar mínútur í viðbót. Leyfði þeim að ljúka sér af að pissa. Svo dró hann andann djúpt.

    „Jæja þá, félagar, sagði hann með skipunarröddinni sem hann hafði lært á foringjaskólanum í Frunze. „Þið fáið kortér til að raka ykkur. Svo er nafnakall. Verið nú snöggir.

    Þeir störðu reiðilega á hann, allir þessir ungu menn. Þeir voru rétt rúmlega tvítugir eins og hann sjálfur. Þeir voru búnir að komast að því að stríð er ekki hetjudáðir heldur skítverk. Leiðindi, sjálfsfróun, rifrildi og sífelldur ótti við að óvinunum tækist fyrir slembilukku að senda flugskeyti gegnum felunetið einhverja nóttina meðan þeir væru sofandi og breyta þeim í brúnt afganskt ryk. Það eina sem hélt þeim á sínum stað var aginn sem herinn hafði barið inn í þá. En virðingin fyrir honum dvínaði með hverjum deginum sem leið. Þeir voru meira að segja úrvalsherdeild. Sergej skildi mætavel hvers vegna venjulegir fótgönguliðar enduðu í dópi eða brennivíni eða skutu foringjana í bakið.

    Sergej rakaði sig upp úr köldu vatni og lét síðan mennina stilla sér upp í röð. Í fimmtán mínútur æpti hann að þeim skipanir. Fékk þá til að standa í réttstöðu meðan fáninn var dreginn að húni en nennti ekki að taka í taumana þegar Volodíj rak fingurinn hinn rólegasti uppíloft í átt að flagginu. Rauði fáninn blakti fyrir golunni. Hann varð að vera við hún ef allt í einu kæmu foringjar með þyrlunni frá Kabúl til að kanna búðirnar, en Sergej vissi að hamarinn og sigðin var ögrun sem gæti kannski egnt einhvern skæruliðann til að nota eitt af sínum dýrmætu flugskeytum. Sem betur fer voru þeir kolómögulegar skyttur. Hann lét þá fara í gegnum nokkrar æfingar, hreinsa vopnin sín og stilla sér aftur upp til liðskönnunar. Til að sýnast hafnaði hann tveim rifflum, þó að þeir virtust reyndar þokkalega hreinir. Hann lét hina bíða í hvíldarstöðu meðan rifflarnir voru hreinsaðir á nýjan leik. Það var farið að hitna og svitinn lak niður undan hjálmunum sem hann hafði heimtað að þeir settu upp. Hann reyndi í þeim þolrifin eins mikið og hann þorði, síðan lét hann leysa varðmanninn af og leyfði þeim að borða morgunverð.

    Sasja og Volodíj voru enn að rífast. Það mundi enda með enn einum áflogum. Tvær vikur voru liðnar síðan þeir ruku saman síðast. Nú var nýr árekstur í uppsiglingu. Hann ákvað að gefa þeim klukkutíma. Síðan ætlaði hann að láta þá gera erfiðar æfingar í tvo tíma og þar á eftir æfa þá í bardögum í návígi og með byssustingjum. Þvínæst leikfimi og æfingar með sandpokann sem þeir höfðu hengt upp bak við tjaldið. Vonandi kæmi þyrlan með póstinn í dag. Vonandi mundu allir fá bréf. Vonandi yrðu ekki of margar bullgreinar í dagblöðunum. Hver vissi hvað gæti orðið til að tendra neistann í þetta skiptið.

    Sergej Míkhaílovits Zaikov varð uppgefinn við tilhugsunina um enn einn óendanlegan dag og gekk að litla foringjatjaldinu sínu. Hann náði sambandi við aðalstöðvarnar í Khost, áttatíu kílómetra í burtu, sem höfðu verið einangraðar næstum allan tímann sem styrjöldin hafði staðið.

    Hann tilkynnti að allt væri með felldu. Það urgaði og vældi í hátölurunum. Án þess að hann vissi hvers vegna varð honum allt í einu hugsað til ljóðs eftir Jevtúsjenkó, sem hann taldi reyndar að væri tækifærissinni. „Ég renn hratt á skíðum … ég er sorgmæddur en samt léttur í lund … snjórinn er djúpur … og djúpur andardráttur minn … yfir mig hvelfist djúpur himinninn … rennið elsku skíði, rennið áfram … svo þú sem ert langt í burtu … gleymir ótta þínum … " sagði hann við sjálfan sig án þess að vita hvort hann fór rétt með ljóðið. Skáldið hafði verið gestur heima hjá þeim þegar Sergej var lítill. Hann mundi ekki nema óljóst eftir honum. Það höfðu komið svo margir gestir þarna á sjöunda áratugnum, þegar heimurinn hafði verið svo bjartur og glaðvær. Það höfðu líka komið útlendingar að heimsækja föður hans. Það var afar óvenjulegt. Hann minntist móður sinnar frá þessum árum. Jarpt hárið og mjúkir handleggirnir þegar hún lagði hann í rúmið í litla herberginu innst í íbúðinni sem þau deildu með þremur öðrum fjölskyldum. Hann heyrði öll hljóðin. Pabbi hans og mamma að elskast, Tolja frændi að rífast við konuna sína í næsta herbergi. Skolað niður úr klósettinu. Það ólgaði svo skrítilega í niðurfallinu. Sporvagninn úti á götu og einhver nágranni að brauka við eldavélina í sameiginlegu eldhúsinu. Hann mundi eftir lyktinni af kolum, fitu og káli og fann bragðið af saltinu á harðfisknum sem faðir hans kom með heim ásamt flötu brauði frá grúsíska bakaranum. Brauði sem var snjóhvítt að innan og með yndislegri stökkri skorpu … Andartak var hann allur á valdi minninganna, svo drundi í hátalaranum.

    „Sergej Míkhaílovits lautinant. Komdu inn!"

    „Zaikov lautinant hér."

    „Kúlíkov ofursti hér. Skipti."

    „Ég hlusta, félagi ofursti."

    „Við lentum í klandri í gær. Dusmaníarnir gerðu árás á flutningalest en ég held við höfum hitt nokkra af þessum andskotum. Upplýsingar halda að tveir særðir hafi verið fluttir í þorpið ykkar í nótt. Sendu sveit þangað niðreftir að gá. Skipti."

    „Væri hugsanlega hægt að fá liðsauka?"

    „Nei, félagi lautinant. Það er útilokað. Sendu fimm menn og liðþjálfann. Upplýsingar segja að það sé enginn í þessu þorpi nema gamlar kerlingar."

    „Bið um leyfi til að stjórna sveitinni sjálfur. Skipti."

    „Ertu orðinn geðbilaður, Zaikov? Skipti."

    „Hvert er verkefnið, félagi ofursti?"

    „Ertu búinn að sitja of lengi uppi á þessu andskotans fjalli, lautinant? Finna þessa andskota og skjóta þá!"

    „Skilið. Skipti."

    „Komdu þér þá af stað, lautinant. Skipti og út."

    Sergej teygði úr fótleggjunum. Hann leit á litla hópinn sem sat þarna með dældaðar blikkkrúsir milli handanna. Þeir áttu enn dálítið eftir af góðu indversku tei. Sem betur fer voru þeir ekki byrjaðir á hassinu enn. Hann var lélegur foringi, hugsaði hann með sér. Hann hafði einu sinni verið góður en þessi nafnlausi fjallstindur hafði breytt honum.

    „Sjúra, komdu hingað!" kallaði hann þýðlega til liðþjálfans. Það var best að Sjúra veldi sjálfur þá fimm sem hann vildi hafa með sér. Það yrði ekki erfitt að finna sjálfboðaliða. Þetta gat þrátt fyrir allt verið úr lausu lofti gripið. Ef svo væri gætu þeir verslað dálítið við tannlausu karlana í þorpinu.

    Hann horfði á eftir mönnunum sex niður fjallshlíðina, eftir stígnum sem hlykkjaðist gegnum jarðsprengjusvæðið. Þeir voru léttir á fæti en samt klunnalegir með byrðarnar og þunga vélbyssuna á öxlinni á Misja. Sergej beindi kíkinum að þorpinu niðri í dalnum. Það var í þetta tveggja kílómetra fjarlægð í loftlínu en mennirnir þurftu að ganga að minnsta kosti fimm kílómetra eftir stígnum niður í dalinn. Stígurinn lá í bugðum niður eftir og stundum hvarf sveitin þeim sýnum uppi á klettasyllunni. Stígurinn lá í sveig bak við fjallið. En þeir höfðu valið útsýnisstaðinn af kostgæfni. Beina leiðin þangað var girt jarðsprengjum. Og ef dusmaníarnir nálguðuðust mundu þeir sjást fjögur hundruð metrum áður en þeir kæmust að fyrstu sandpokunum. Þungu vélbyssurnar mundu stöðva hvern þann sem reyndi að komast upp.

    Sergej setti einn mann í viðbót á vörð og lét hina vera viðbúna. Aldrei þessu vant var enginn að rífast Sergej vissi hvað þeir voru að hugsa. Sex menn voru of fáir, enda þótt þeir fyndu tæplega annað en hrukkóttar kerlingar og soltin börn. Þeir höfðu áður komið til þorpsins. Þeir höfðu fengið þar hass og te í skiptum fyrir hluta af einkennisbúningum, belti og einkum kjöt og fisk í dósum. Þorpsbúar höfðu ekki tekið þeim fjandsamlega. Ekki vinsamlega heldur, bara með þegjandi afskiptaleysi. Þarna voru um það bil tuttugu hús, hvert öðru hrörlegra. Og enginn vissi hvort staðurinn ætti sér nafn. Í Rússlandi var jafnvel alminnsta þorpi gefið nafn. Ef þetta afganska þorpskríli átti sér nafn höfðu þeir ekki nennt að komast að því hvað það var. Hæðin þeirra var Stjórnstöð 678. Það nægði þeim. Þeir höfðu keypt hass, ungan grís og indverskt te og slegið með þessu upp veislu um nóttina.

    „Sjúra. Komdu inn. Þetta er Sergej. Skipti."

    „Allt í fína lagi. Við höldum niður eftir og köllum á kortérs fresti, er það í lagi, lautinant?"

    „Ladna. Skipti og út," sagði Sergej og beið meðan hann barðist við löngunina til að vefja sér hassvindling.

    Þegar leið að hádegi titraði loftið af hita yfir rauðbrúnu rykinu í fjallshlíðinni. Í kíkinum sá hann konurnar þvo föt í ánni. Börnin voru að leika sér. Í rúmt ár hafði verið friðsamlegt á þessu svæði. Múdjahedínarnir einbeittu sér að umsátrinu um Khost. Sem betur fer hafði flugherinn ekki kastað leikfangasprengjum hér. Sergej hafði séð handalaus börn í Kabúl. Í fyrstu hafði honum orðið illt við að sjá hvítrákað hörundið þanið yfir beinið. Drengurinn var ekki nema sjö ára gamall. Og nú sat hann hér í hitanum og lét sig dreyma. Um veturinn og að fara að veiða á fljótinu með föður sínum og að drekka gott sterkt vodka af stút. Þeir sátu á ísnum hvor við sína vök og dorguðu, og faðir hans sagði frá framtíðarvonum sínum. Eða frá yngri árum sínum þegar hann þekkti öll ungskáldin og rithöfundana. Áður en hann fór að vinna fyrir þá nafnlausu.

    Sergej sá rykið frá sprengikúlunni áður en hann heyrði hvellinn og síðan brak og bresti frá þungri vélbyssu.

    „Sjúra. Komdu inn. Hvað er að gerast?" æpti hann í senditækið áður en hann uppgötvaði að hann hafði ekki ýtt á sendihnappinn.

    „Það er skotið á okkur! Misja er fallinn. Þeir ráðast á okkur," heyrði hann ískrandi rödd Sjúra segja gegnum hávaðann frá sovéskum AK-47 byssum við hliðina á honum.

    Sergej horfði gegnum kíkinn á þorpið fyrir neðan. Konurnar voru á leiðinni að húsunum. Hann renndi kíkinum yfir fjallshlíðina. Könnunarsveitin var komin næstum því alla leið niður. Hún hafði verið stöðvuð í gilinu, rétt áður en hún kom út í sjálfan dalinn. Hann kom auga á þrjá skæruliða bak við klettana. Þeir höfðu komið þar upp vélbyssu. Þeir hlutu að hafa farið þangað um nóttina.

    „Sprengjuvörpuna, fjandinn hafi það. Sprengjuvörpuna. Miðið á klukkan sautján," öskraði hann. Þjálfun mannanna sagði til sín. Þeir komu þungri sprengjuvörpunni fyrir og tóku að þeyta sprengjukúlum yfir fjallið. Rykið barst fyrir vindinum útyfir dalinn. Það glumdi í eyrum hans þegar Alexei byrjaði að skjóta úr þungu vélbyssunni.

    „Sjúra. Þetta er Sergej. Komdu inn. Skipti."

    „Sergej. Náðu í hjálp. Við erum fastir hérna. Sasja er búinn að vera. Misja er fallinn. Náðu í hjálp, djöfullinn hafi það. Skipti."

    „Við komum niður."

    „Nei, andskotinn hafi það. Það eru minnst þrjátíu óvinir hérna. Þeir eru líka fyrir aftan okkur. Þeir eru á leiðinni upp til ykkar. Fáðu hjálp frá Khost. Fáðu djöfuls þyrlu, maður."

    Senditækið þagnaði með snarki. Sergej skreið yfir að sandpokunum. Óbreyttu hermennirnir skotruðu óttaslegnum augum undan fölsku öryggi hjálmanna. „Niður! öskraði hann. „Flugskeyti á leiðinni! Flugskeytið, framleitt í Kína, fór of hátt og lenti í fjallinu fyrir ofan þá. Sprengingin þeytti steinum og brotum úr klettunum yfir þá en þeir sluppu ómeiddir. Skæruliðarnir höfðu einhvers staðar komið fyrir sprengjuvörpu. Sprengjukúlurnar náðu of stutt og sprengdu jarðsprengjurnar í loft upp þannig að ryk og reykur huldi allt svæðið. Sovésku hermennirnir lyftu höfðunum yfir sandpokana og sendu stutta kúlnahríð niður í rykmökkinn, en beygðu sig síðan í skjól aftur. Sergej reyndi að taka sig á. Hann gat ekki hugsað í hávaðanum og ringulreiðinni. Hann skreið að senditækinu og kallaði upp Khost. Hann náði sambandi um leið og fyrsta kúlan frá sprengjuvörpunni skall niður svo nálægtað sprengjubrotin tættust inn í sandpokana, þeyttu flaggstönginni um koll og gerðu stór göt á felunetið.

    „Komdu inn, Khost. Komdu inn, Khost. Það er ráðist á okkur."

    „Allt í lagi, lautinant. Kúlíkov hér. Skipti."

    „Djöfullinn sjálfur. Þeir eru að mala okkur. Könnunarsveitin situr föst niðri í dalnum. Við þurfum hjálp."

    „Rólegur, félagi, rólegur. Skilið? Skipti."

    „Skilið, félagi ofursti. Skipti."

    „Gefðu skýrslu."

    Sergej lá á bakinu. Hann sá að menn hans voru nú farnir að skjóta markvisst niður fjallshlíðina. Þunga vélbyssan snerist rólega í boga. Þeir héldu aga, hugsaði hann og var næstum stoltur.

    „Djöflamergirnir eru að gera árás á flutningalest fyrir utan Khost. Við erum aðkrepptir sjálfir, lautinant. En nú sendum við hjálp. Hafa skepnurnar stingerflugskeyti?"

    „Veit það ekki. Þeir sendu okkur eitthvert skeyti rétt áðan en það hitti ekki. Skipti."

    „Geitasmalar. Við skulum gleðjastyfir því, lautinant. Skipti og út."

    Sergej kallaði Sjúra upp aftur en fékk ekkert svar. Það gat verið að senditækið væri ónýtt. Hann skreið yfir að sandpokunum. Fjallshlíðin var hulin rykmekki sem barst undan vindinum út í dalinn. Þegar vindhviða feykti reyknum og rykinu frá sem snöggvast sá hann hvar óvinirnir voru staðsettir. Þeir voru á ská niður til vinstri. Þeir höfðu skorðað vélbyssuna milli tveggja kletta. Sprengjuvarpan hlaut að vera rétt bak við litlu klettasylluna. Hann taldi fimm sex menn í kíkinum. Strákslöttólfur lá fremst á kletti og reyndi að leiðbeina sprengjuvörpuskyttunni. Þeir voru of langt í burtu til að geta hæft af öryggi með vélbyssunni. Hættan stafaði af sprengjuvörpunni. Sprengjurnar frá henni féllu sífellt nær. Sprengjuhríð óvinanna var að nálgast þá. Hann þorði ekki að snúa sinni eigin sprengjuvörpu. Sjúra hafði þörf fyrir stuðninginn af sprengjunum, hversu lítinn usla sem þær gerðu. Hann reyndi að rýna gegnum kíkinn niður í dalinn þar sem Sjúra var en sá enga hreyfingu. Hann gat ekkert heyrt. Það suðaði í eyrum hans undan stöðugu glamri rifflanna og þungu vélbyssunnar. Enn var enginn af hans mönnum fallinn. Honum var óglatt og hann var að pissa þegar honum varð allt í einu ljóst hvað var að gerast. Stöðin var ekki aðalskotmark skæruliðanna. Þeir ætluðu að granda könnunarsveitinni. Þessir gamalkunnu svikarar í Kabúl höfðu gefið GRU rangar upplýsingar um særða menn í þorpinu. Eins og hann hefði ekki átt að vita það. Það hafði verið farið yfir þetta hvað eftir annað á herskólanum. Hann ætlaði að kalla þá upp aftur í senditækinu, en það var um seinan.

    Orustuþyrlurnar tvær nálguðust með sólina að baki sér. Þær voru einna líkastar risavöxnum flugeðlum með fallbyssur fram úr trjónunni og flugskeytin undir búknum. Flugmaðurinn og skyttan sáust ekki bak við litaðar rúðurnar. Hann sá þriðju þyrluna sveima hátt uppi, tilbúna til varnar ef stingerflugskeytin skelfilegu skyldu vera einhvers staðar nærri.

    „Skjótið andskotans glóðarkúlunum!" æpti Sergej. Vélbyssan þagnaði eitt andartak meðan þeir skiptu um hleðslu en sendi síðan langa slóð af glóðarkúlum í mjúkum boga niður að staðnum þar sem sprengjuvarpa óvinanna var.

    Þyrlurnar sveigðu hvor frá annarri og skutu samtímis flugskeytum að staðnum þar sem slóð glóðarkúlnanna endaði. Rykmökkur og grjótflug huldi óvinina. Þyrlurnar sveigðu frá og hækkuðu flugið meðan blossasprengjur féllu frá þeim eins og snjór.

    Þær nálguðust aftur og beittu fallbyssunum gegn skæruliðunum sem voru gersamlega huldir ryki og reyk. Sergej sá þær fljúga lágt og kasta klasasprengjum, en síðan sveigðu þær aftur frá og hækkuðu sig meðan blossasprengjur hrundu frá hliðum þeirra. Hann hugsaði um flugeldana yfir Moskvu og gleymdi sem snöggvast svitanum sem rann niður bakið og í stríðum straum úr handarkrikunum. Skothelda vestið kreppti að honum og hjálmurinn klemmdi hnakkann. Klasasprengjurnar sprungu og það var eins og fjallið hyrfi. Þetta getur enginn maður lifað af, hugsaði hann.

    Þyrlurnar tvær hækkuðu flugið aftur og hnituðu hringi þangað til áhafnirnar höfðu kannað ástandið nánar. Sergej heyrði illa en reyndi að rýna í kíkinn gegnum reykinn þangað sem Sjúra var. Þeir virtust hættir að skjóta. Onnur þyrlan varð eftir og hnitaði stóra hringi eins og ránfugl en hin steypti sér niður í dalinn og kastaði röð af klasasprengjum fyrir framan staðinn þar sem Sjúra var. Sergej sá þær springa áður en hljóðið náði honun, en það var eins og hann væri með bómull í eyrunum. Nú voru skæruliðarnir áreiðanlega á leiðinni burt. Þeir mundu hverfa inn í ósigrandi fjöllin eins skyndilega og þeir höfðu birst.

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1