Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Undir Svörtum Sandi
Undir Svörtum Sandi
Undir Svörtum Sandi
Ebook361 pages5 hours

Undir Svörtum Sandi

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Pétur nýtur sín í heimi peninga og valda þar sem menn í viðskiptum reyna að hagnast og stjórnmálamenn þykjast vera heiðarlegir. Hann er tilbúinn til að ryðja forsætisráðherra úr vegi þegar hún reynir að koma í veg fyrir yfirtöku hans á stærsta orkuframleiðanda landsins. Ekkert getur staðið í vegi fyrir honum.

Ekkert nema martraðirnar sem spanna þúsund ár í Íslandssögunni. Þær eru þreytandi tímasóun sem hann reynir að leiða hjá sér. Allt breytist þegar honum er send ljósmynd af konunni í draumunum. Hann skilur ekki hvernig nokkur gat vitað af tilvist hennar, hvernig hún gat sloppið úr ímyndunum hans og inn í raunheiminn.

Skilin milli veruleikans og martraðanna brenglast þegar maður er myrtur á skrifstofunni. Gamla húsið úr draumunum virðist vera lykillinn að myrkri fortíðinni og þegar hann stígur inn fyrir þröskuldinn verða martraðirnar áþreifanlegri en heimurinn sem hann lifir í.

LanguageÍslenska
Release dateOct 16, 2019
ISBN9780463248591
Undir Svörtum Sandi
Author

Villi Asgeirsson

Villi Asgeirsson was born in Iceland as Major Tom ascended to the skies, to be lost forever. He spent the seventies learning to read and write. He also moved houses a lot, having lived in at least six places by the time he was ten.On his tenth birthday, he received a small transistor radio and was scared witless by a huge spider sitting on his chest. This may have formed him in a small way, or it may be irrelevant. Such is the nature of our human existence. There are no absolutes and we may never know what matters until much later, if at all.The eighties were spent listening to questionable music and dressing badly. He also tried to learn the guitar, but the dang things never stayed in tune so he gave up.He moved to London in the nineties to study audio engineering. If that guitar thing didn't work for him, at least he could record other people playing. He worked as a live engineer for a while. As impatience would have it, he moved again at the end of the twentieth century, this time to the Netherlands. Supposedly to have a normal life. He still lives there with a wife, child and cat and spends his time working for a major airline, writing and dabbling in photography.First attempt at writing were stories, written in childhood. He played with poetry as a teen, even if reading poetry is something he still can’t do easily. His first attempt at a novel in 1997 was uninspiring. His second, in 2001, was cut short by world events. It wasn’t very good either. The first successful attempt at novel writing, Under the Black Sand, was published in 2013. People seemed enthusiastic about it so we got Blood and Rain and now Mont Noir.The author translated Under the Black Sand into Icelandic in 2019 and 2021 saw the publishing of two translations of Blood and Rain, in Portuguese and Italian. Moments, a collection of short stories is in the works.

Related to Undir Svörtum Sandi

Related ebooks

Related categories

Reviews for Undir Svörtum Sandi

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Undir Svörtum Sandi - Villi Asgeirsson

    Óskastund

    ~ 1947 ~

    Aldrei. Á þúsund árum hafði það aldrei hvarflað að henni að þetta myndi enda svona.

    Stormurinn öskraði, barði á gluggana og reif með sér allt sem laust var. Svefn varð að bíða betri tíma. Eldingar voru sjaldséðar á Íslandi, en nú átti að bæta það allt upp. Það var eins og Guð væri að sýna vanþóknun sína á atburðum næturinnar. Eins og Hann vildi hafa það alveg á hreinu að fórnin sem átti að færa í kvöld yrði ekki vel þegin. Guð gat barist um eins og Hann vildi en það skipti engu máli. Enginn var að hlusta.

    Húsið var hulið myrkri, fyrir utan tvo lampa sem vörpuðu daufum skuggum á veggina. Gangurinn inn af útidyrahurðinni var eins og úr útlenskri bíómynd. Hátt til lofts, vítt til veggja og fylltur þungum húsgögnum sem höfðu verið valin vegna útlits frekar en notagildis. Stiginn upp á efri hæðina var breiður og stóð í miðju rýminu. Húsið var stórt, en hann hefði sæmt sér betur í einhverskonar höll.

    Emilía stóð í efstu tröppunni, eins og vofa í hvíta náttsloppnum. Blóð rann úr nösinni og óhreinkaði hvítt silkið. Hún leit til baka og sá hann. Ástina sína. Hann studdi sig sauðdrukkinn við dyrakarminn á svefnherberginu, leit á hana og staulaðist af stað. Hún greip um handriðið og næstum datt niður stigann. Hún ríghélt sér og náði að komast niður án þess að missa fótana. Hann elti hana eins og uppvakningur, draugur, skrímsli í draumi sem er alltaf á hælum manns, sama hvað hratt er hlaupið.

    Berar iljarnar fundu fyrir köldu viðargólfinu. Hún leit upp og sá hann efst í stiganum, þar sem hún hafði staðið fyrir augnabliki. Hann studdi sig við handriðið með annarri hendinni. Hin höndin hélt þétt um silfurlitaða skammbyssuna. Hann þurrkaði svita af enninu og tók fyrsta skrefið niður. Hún tók til fótanna, hljóp að stóru hurðinni og snéri húninum. Hurðin var læst og lyklarnir héngu ekki það sem þeir áttu að vera. Örfáum klukkustundum áður hafði hún hengt lyklana sína við hliðina á hurðinni, en þeir voru horfnir.

    Þetta var gildra, ekki stundarbrjálæði eins og hún hafði haldið. Þetta var skipulagt. En það gat ekki verið. Ekki hann. Hvernig gat hann látið sér detta þetta í hug? Hugmyndin ein var sturluð, en að láta verða af henni? Þetta myndi eyðileggja allt sem þau höfðu gert, skapað saman. Allt sem þau trúðu á. Þetta var svo mikið meira en morð. Hann hlýtur að skilja það? Þetta yrðu endalok þeirra beggja. Ef hann tæki í gikkinn, myndi hann drepa þau bæði. Það væri sjálfsmorð.

    Hún barðist við húninn og lamdi á hurðina en það var tilgangslaust. Húsið var virki og það hefði þurft heilan her til að opna án lykla.

    Ennið snerti viðinn. Þetta var vonlaust. Hún snéri sér hægt við. Hún vildi ekki láta honum bregða. Pétur var kominn niður stigann. Hann stóð þarna með byssuna við mjöðmina, eins og eins og einhver kúreki í annars flokks vestra. Þetta fór honum illa. Hann var ekki þessi gangsteratýpa. Hún horfði í augun á honum. Hann leit undan. Hún fylgdi augnaráðinu. Gamla porselínskálin sem hann hafði keypt í útlöndum fyrir stríð. Eitthvað tilgerðarlegt blómamunstur með gullrönd. Emilía hafði alltaf ætlað að gefa skálina, en nú var innihald þessa blómadæmis það eina sem hún vildi. Lyklarnir.

    Hvað var hann að hugsa? Hann ætlaði ekki bara að drepa hana, heldur var hann að búa til leik úr því. Ef hún reyndi að ná lyklunum, gæti honum brugðið. Byssunni var beint að Emilíu og hún mátti ekki gera mistök. Ef hann vildi að hún slyppi, hefði hann látið lyklana vera þar sem þeir áttu að vera. Hvað var hann að hugsa?

    Hún vissi að staðan væri vonlaus en teiknaði þó áætlun í huganum. Ná lyklunum, aftur að hurðinni, lykill í skráargatið, snúa, opna hurðina, fara út, hlaupa gegnum garðinn og út á götu. Eina sem hann þurfti að gera var að taka í gikkinn. Það var augljóst að þetta var gildra. Kjallarahurðin var sennilega opin, en til að komast þangað þurfti Emilía að hlaupa í átt að stiganum. Í áttina að Pétri. Hún varð að hugsa rökrétt, ekki missa tökin. Sjá hvað hann vildi. Hún varð að komast að því af hverju hann var að þessu. Var það fyrir horaða skuggann sem elti hann út um allt? Fallegu veruna sem stóð nú efst í stiganum, blásandi frá sér reyk og horfandi niður á þau? Litlu þokkadísina sem hann lék sér með? Táningsstelpuna sem leit út eins og Veronica Lake og bauð honum undir sæng til sín? Allt hafði breyst þegar þessi elska ákvað - allt of snemma - að hún væri orðin fullorðin.

    Hann horfði á lyklana og brosti. Andlitið strekkt, hendurnar skjálfandi. Svitinn. Hann færði sig nær henni. Voru þetta tár í augunum á honum? Andlitið var rennandi blautt og birtan dauf, svo það var vonlaust að greina milli svita og tára. Hann myndi ekki gráta mig, hugsaði hún. Hann myndi ekki gráta neitt. Ekki lengur. Hann var breyttur. Ekki lengur maðurinn sem hún hafði orðið ástfangin af.

    Emilía rétti út hendurnar. Þetta var búið spil. Hann fengi það sem hann vildi. Höndin fór í vasann. Hún fann eitthvað. Hún fann það eina sem gæti bjargað henni. Hún brosti í átt til mannsins sem hún hafði elskað. Elskaði enn. Strauk fingrunum eftir steinunum í vasanum. Lét gömlu rúnirnar leika við fingurgómana.

    Ertu að leita að þessu, elskan?’ Hún rétti fram höndina, brosandi.

    Skotið bergmálaði um húsið.

    ~ 2012 ~

    Hún var dauð. Loksins var gamla kérlingin farin. ‘Ertu búin að finna hann? Pétur, fannstu Pétur?’ Raus deyjandi konu, eina skiptið sem Margrét hafði minnst á hann.

    Brynja laug að systur sinni. ‘Nei.’

    Margrét hafði aldrei verið félagslynd. Systurnar höfðu varla sést í hálfa öld, en endurfundirnir voru jafn þvingaðir og þeir höfðu alltaf verið. Brynja flaug til Íslands af því að Margrét var veik. Það hafði aldrei verið gaman að vera með Margréti og það skipti engu máli hvort hún var frísk eða á dánarbeðinu.

    Brynja reyndi að tala við systur sína um hjónabandið með Pétri Halldórssyni. Athafnamanninum sem sagan hafði gleymt. Manninum sem hafði átt stóran þátt í að byggja upp borgina á öndverðri tuttugustu öldinni. Brynja vildi fylla í eyðurnar, en Margrét hafði ekki áhuga á að ræða manninn sem hún hafði tileinkað lífi sínu. Um það hvernig samband þeirra hafði þróast eftir að fyrri kona hans hvarf rétt eftir stríð. Emilía var grafin í fortíðinni og Margrét hafði ekkert um hana að segja. Hún hafði engan áhuga á að ræða um líf sitt sem ekkju eftir að Pétur drukknaði. Hún kvartaði undan kössunum sem voru ennþá í kjallaranum. Hún hefði átt að henda þessu drasli fyrir lifandis löngu.

    ‘Þú leyfðir mér það ekki,’ sagði Margrét bitur við systur sína. Allt þetta drasl sem Pétur og Emilía höfðu safnað saman. Þau voru dauð og kassarnir tóku pláss. Af hverju hafði hún aldrei hent þessu? Sektarkennd?

    Margrét var einbúi í miðri borg. Brynja hafði eytt öllum sínum fullorðinsárum erlendis. Jóhann og Guðmundur, viðskiptafélagar Péturs, höfðu ekki skipt sér neitt af henni. Enginn kom í heimsókn. Hver hefði átt að koma í veg fyrir að hún henti þessu gamla drasli? Enginn. Hún hafði lifað í skugga annars fólks. Tveggja dauðra sála. Húsið hafði aldrei verið hennar, nema að nafninu til. Lífið hafði aldrei verið hennar. Hún hafði verið aukaleikari í grískum harmleik. Hún hefði getað verið aðalleikari, en hún vissi nákvæmlega hvenær hún missti hlutverkið. Stormasama nóttin fyrir svo löngu síðan hafði aldrei yfirgefið hana. Hafði aldrei yfirgefið þetta hús. Hafði aldrei leyft henni að vera hún sjálf. Óveðursskýin höfðu kastað skuggum sínum yfir áratugina.

    Völd og peningar höfðu ekkert hjálpað við að þurrka út fortíðina. Margrét vissi allt og atburðirnir myndu fylgja henni þar til dauðinn frelsaði hana. Hún var bara aukaleikari, lífið snérist ekki um hana, svo hún hafði aldrei hent neinu. Það var ekki hennar verk. Hún hafði skemmt nóg samt. Einhvern daginn myndi hún deyja og þau tvö kæmu aftur til að þrífa upp skítinn sem þau höfðu skilið eftir sig. Pétur og Emilía. Pétur og þessi helvítis Emilía.

    Hana langaði til að öskra. Segja heiminum hvað hafði gerst þessa nótt. Hvað áratugir í útlegð frá samfélaginu hefðu kennt henni. Hana langaði helst til að leggjast á gröf Emilíu og drepast þar eins og hundur sem syrgir húsbónda sinn. En það myndi aldrei gerast. Hún var of veikburða til að ferðast og orðin komu ekki nú, frekar en áður. Brynja myndi eflaust keyra hana að gröfinni, en Margrét bað aldrei um það. Hún var undir álögum. Orðin neituðu að fara gegn um muninn, strönduðu alltaf í kokinu. Hún var löngu búin að gefast upp. Leyndarmálið myndi fara með henni í gröfina.

    Leyndarmálið myndi gleymast þangað til þau kæmu aftur. Þau myndu rifja það upp. Hata hana um aldir. Hrækja á minningu hennar eftir fimm hundruð ár, ef þau nenntu að rifja hana upp.

    Síðasta hugsun Margrétar á dánarbeðinu var að hún óskaði sér að hafa aldrei fæðst.

    Brynja sat við rúmið. Horfði á systur sína. Reyndi að ímynda sér hvað þessi gamla og bitra kona væri að hugsa.

    Margrét reyndi að hreyfa höfuðið svo hún gæti séð systur sína í síðasta sinn. Þessa fullkomnu konu sem hafði lifað fullkomnu lífi. Hún vissi ekkert. Hvernig í andskotanum ætti Brynja að geta skilið nokkurn skapaðan hlut?

    Svitinn lak af glasinu. Hvað var það við íslendinga og bjór á flugvöllum? Hann ætlaði að fá sér kaffi, en pantaði bjór. Pétur potaði í dropa og horfði á hann leka niður á borð. Vélin rann upp að hliðinu og raninn fór af stað. Falleg kvenmannsrödd tilkynnti að farþegar í fluginu til Keflavíkur væru vinsamlegast beðnir um að hafa brottfararspjöld og vegabréf tilbúin. Pétur fékk sér sopa af bjórnum. Hann nennti ekki að bíða í röðinni. Engin ástæða til. Hann flaug í bisniss og myndi fara að hliðinu þegar aðrir farþegar voru farnir um borð. Síminn hringdi. Jóhann. ‘Hvernig gekk fundurinn?’

    ‘Vel.’

    ‘Reddast þetta?’

    ‘Mér sýnist það. Ég segi þér allt á morgun en þeir buðu mér einhverja milljarða á móti hlutabréfum.’

    ‘Glæsilegt. Við þurfum þá bara að fá ríkið til að samþykkja eignarhaldið.’

    ‘Það er málið. Landsvirkjun í höndum erlendra aðila. Við búum til einhvern strúktúr.’

    ´Já já. Auðvitað. Er vélin á tíma?’

    ‘Já.’

    ‘Gott að heyra. Sé þig í fyrramálið.’

    ‘Já.’

    Fallegt af honum að hringja, en það var eitthvað í röddinni. Eitthvað stress. Það var svo sem við því að búast. Það voru margir á móti því að raforkuframleiðsla á Íslandi kæmist í hendur einkaaðila, en fólk tuðar alltaf yfir framförum. Pétur vissi hvað hann vildi.

    Þingholtin voru sennilega fallegasta hverfi Reykjavíkur. Húsin voru byggð rétt fyrir 1930, fyrir kreppuna. Tíu árum eftir að þjóðin fékk fullveldi. Bjartsýni tímabilsins var augljós. Íslendingar voru ung þjóð, upptekin við að móta eigin framtíð. Göturnar lágu í sveig til að takmarka rokið, garðarnir voru alltaf sunnan megin, svefnherbergin norðanmegin í húsunum, setustofurnar sunnanmegin, á móti sól. Hæð húsanna og fjarlægðir milli þeirra úthugsaðar til að koma í veg fyrir skugga.

    Göngustígurinn lá í gegnum djúpan garðinn. Einhvern tíma hafði húsið prýtt götumyndina, en nú sást það varla fyrir risavöxnum trjám. Það var ennþá reisulegt og fallegt, þó að hvíta málningin væri löngu horfin og ber steinsteypan væri dökk og drungaleg. Margrét hafði séð til þess að lekar og annað yrðu lagaðir, en hún hafði aldrei haft áhuga á að halda útliti hússins við. Lekt þak og óþéttir gluggar fóru í taugarnar á henni, því húsið varð svo kalt. En útlitið? Þetta hús var fangelsi og fangelsi eru ljót.

    Öll þessi ár hafði eina lífsmarkið verið dauf birtan af sjónvarpinu í einum glugga. Annars virtist það vera yfirgefið. Eins og það væri hulið myrkri, einhverri áru sem kom í veg fyrir að fólk tæki eftir að það væri yfirleitt á lóðinni. Önnur hús í götunni höfðu skipt um hendur, verið keypt af bankamönnum og viðskiptajöfrum, gerð upp og notuð sem stöðutákn. Þetta hús stóð bara á sínum stað og skipti sér ekki af þjóðfélaginu og breyttum tímum.

    Sama sagan inni. Húsið var snyrtilegt, fyrir utan þunnt ryklag sem lá eins og hula yfir húsgögnum sem höfðu ekki verið notuð í áratugi. Svörtu símarnir voru minjagripir frá öðrum tíma. Þeir voru enn tengdir, vegna þess að Margrét hafði aldrei farið í að láta aftengja þá. Ef þeir hringdu, var það fólk sem vildi selja henni eitthvað. Hún svaraði aldrei. Lét þá hringja út. Eina manneskjan sem hún hringdi í var Jóhann. Það gerðist ekki oft. Hún hafði ekki áhuga á fjármálunum, átti nóg til að geta leyft sér að vera fangi í húsinu. Jóhann sá um að reikningar væru borgaðir en hann hringdi þó aldrei. Hafði lært að það hafði ekkert upp á sig. Ef hann þurfti að tala við hana, bankaði hann uppá.

    Margrét hætti að anda. Veikur líkaminn streittist á móti, reyndi að fá loft í lungun, en vöðvarnir höfðu gefist upp. Brynja sat á stólnum og beið eftir þögninni. Hún hafði búist við einhverjum tilfinningum, trega, söknuði, sektarkennd, en fann ekkert. Dauðinn var eitthvað sem þær þurftu að ljúka af. Því fyrr, því betra.

    Hún tók upp símtólið og snéri skífunni. Hugsaði með sér að þetta hlyti að líta út eins og atriði í gamalli svart-hvítri mynd. Dauf götuljósin lýstu gegnum gluggatjöldin sem hreyfðust rólega í kvöldgolunni. Líkið og svarti síminn fullkomnuðu myndina.

    ‘Hún er farin.’

    ‘Best að koma þessu af stað.’ Jóhann reyndi að virka yfirvegaður, en það tókst ekki. ‘Strax eftir jarðarförina.’

    ‘Sammála. Við klárum jarðarförina áður en ég læt sjá mig á skrifstofunni.’ Brynja hálf skammaðist sín fyrir tilfinningaleysið. ‘Ég er með mynd af þeim. Pétri og Emilíu. Verður athyglisvert að sjá hvort það hafi einhver áhrif. Við getum reynt að ýta þeim áfram, en þau verða að gera þetta sjálf.’

    Pétur horfði gegnum skítugan flugvélargluggann. Kvöldsólin baðaði borgina í gulbrúnni slekju, eins og klassískt málverk. Hann lokaði augunum og endurlifði atburði dagsins. Hann flaug út um morguninn, tók leigubíl inn í miðborg, borgaði, fór inn og var vippað inn á risastóra skrifstofu. Hann var yfirheyrður, brotinn í frumeindir með augnaráðum. Hann hafði tekið möppu með sér, en þeir litu varla við henni. Vissu um hvað málið snérist. Þeir voru ekki að greina stöðuna. Þeir voru að rannsaka hann.

    Það skipti engu máli. Pétur var ekki hræddur við feitu bindin. Hann vildi peningana þeirra. Þurfti fjármagn. Iðnaðarráðherra var upptekinn við að einkavæða Landsvirkjun og Pétur vildi kaupa. Það yrði ekki auðvelt. Forsætisráðherra var algerlega á móti því að Pétur kæmist yfir fyrirtækið, eða hún hafði einhvern annan í huga. Alltaf sama helvítis einkavinavæðingin. En það skipti engu. Kosningar í vor og heill vetur er eilífð í stjórnmálum. Hann yrði samt að vinna hratt. Málið þurfti að komast í eitthvað ferli og hann varð að hafa ráðherrana sín megin. Með góðu eða ekki.

    Hann varð að hafa einbeitinguna í lagi. Gat ekki látið martraðirnar flækjast fyrir. Pétur vonaði að hann gæti sofið almennilega í nótt. Ísland átti það til að hræra í hausnum á honum þegar tók að skyggja.

    Þau stóðu þögul við gröfina og horfðu á kistuna síga ofan í jörðina. Brynja henti hvítri rós ofan á kistuna og Jóhann tók utan um hana. Hvað höfðu þau þekkst lengi? Áratugum saman hafði hún búið erlendis, en fjarlægðir skiptu ekki máli. Henni hafði mislíkað við hann vegna tengsla hans við Pétur og honum hafði mislíkað við hana því hún hún var systir konunnar sem eyðilagði Pétur. Það var langt aftur í forneskju og það var löngu fokið í fótspor fortíðarinnar. Pétur og Emilía voru löngu farin og Margrét lá nú í kistu í gröf sem yrði fljótlega fyllt af mold. Af moldu ertu kominn, af moldu skaltu aftur verða. Manneskjurnar tvær sem stóðu við gröfina voru þau einu sem eftir voru og þau myndu móta framtíðina.

    Það var eins og heimurinn, með öllum sínum vandamálum, hindurvitnum, reglum og hlekkjum hefði verið leystur upp. Að þau tvö væru loksins frjáls. Eins og draugar fortíðarinnar hefðu losað takið og myndu leyfa þeim að leggja óttann og sársaukann til hvílu.

    Framtíðin var hér og þeirra hlutverk var að leiðbeina Pétri inn í hana.

    Svartnætti

    Skotið bergmálaði um húsið.

    Fyrirsjáanlegt. Pétur var kominn heim og draumarnir byrjaðir um leið. Og þeir voru að versna. Hann reyndi að leiða þá hjá sér, reyndi að gleyma þeim þegar hann vaknaði. Pétur hafði meira en nóg að gera og hafði engan tíma fyrir fantasíur og drauma. Hann dreifði huganum með því að horfa á fréttir meðan hann klæddi sig, hlustaði á háværa tónlist í bílnum og sá til þess að hann væri upptekinn á morgnana. Flestir draumarnir voru gleymdir þegar hann mætti á skrifstofuna en það voru nokkrir sem neituðu að láta sig hverfa.

    Þetta voru alls konar draumar. Skástu draumarnir voru þegar hann sá hamingjusamt par í miðaldaklæðum hlaupandi upp og niður grænar hlíðar eins og hallærisleg sena í lélegum söngleik. Það var verra þegar hann sá slys og mannvonsku. Það kom fyrir. Í nótt hafði draumurinn verið sérstaklega ógeðslegur. Morð. Hvers konar rugl var það?

    Pétur stóð nakinn fyrir framan stóra gluggann og horfði yfir flóann. Tunglið lýsti upp Esjuna sem var enn snjólaus. Hann hafði fundað allan daginn í útlöndum, verið á þönum eftir að hann kom heim, skoðað kort af hálendinu og reiknað út hvað marga milljarða hann þyrti til að klára þetta dæmi sem hann var að vinna í. Hann hafði farið að sofa eins snemma og hann gat því hann þurfti að vera úthvíldur, en draumurinn lét hann ekki í friði. Hann kláraði dýra skoska viskíið sitt og lagði glasið frá sér. Morgundagurinn var mikilvægur, það var margt sem hann þurfti að gera og hann þurfti að sofa. Jóhann var upptekinn við eitthvað og þeir höfðu ekki hittst. Eitthvað dauðsfall, enginn sem Pétur þekkti.

    Hann varð að fá einhverja hvíld. Hann horfði á tunglið og bað það um að gefa sér draumlausan svefn.

    Heimurinn var brjálaður. Ef Guð var til, var hann öskrandi á litla og aumingjalega morðingjann og þetta heimska kynlífsleikfang sem elti hann út um allt. Pétur var rennandi blautur, honum var kalt og leið eins illa og mögulegt var, en þetta þurfti að gerast. Gat ekki beðið. Jörðin var eins og kviksyndi og rennandi blautur sandurinn fyllti gröfina næstum eins hratt og hann gróf. Hann ímyndaði sér hermennina í skotgröfunum, ímyndaði sér að hann væri einn þeirra, að hann ætti að hætta þessu væli og harka að sér, en þetta var öðruvísi. Þeir voru andspænis andstæðingnum sem vildi skjóta þá og sprengja í loft upp. Þeir vissu hver óvinurinn var. Pétur horfði í augun á einhverju sem var verra. Einhverju sem neitaði að opinbera sig.

    Blaut drullan náði honum upp að hnjám og hann skalf. Kannski skalf hann ekki af kulda. Kannski var það ódæðið sem hann hafði framið. Morð. Hann hafði brotið samninginn, svikið loforðið sem þau höfðu gefið hvoru öðru. Hann var ekki viss. Var ekki viss um neitt. Hann vissi að þetta hafði gerst en hann skildi það ekki fullkomlega, skildi ekki hvaða afleiðingar þetta myndi hafa. Þær myndu koma, hann var viss um það.

    Nóttin var kolsvört en bílljósin blinduðu hann. Þau skinu í augun á honum, ekki ofan í holuna sem hann var að grafa. Hann leit upp og horfði í áttina að litla húsinu. Hún var þarna, skuggamynd í hurðaropinu. Dauf birtan flúði út í nóttina eins og hún vildi hverfa frá þessum stað, frá þeim. Hvað var þessi skuggavera að gera þarna? Það hafði tekið hálfa nóttina að keyra hingað. Af hverju hafði hún krafist þess að koma með? Emilía vildi kaupa þetta hús, þetta var hennar staður og kom Margréti ekkert við.

    Þúsund ára ástarsamband hafði verið eyðilagt í kvöld, samband hans og Emilíu var búið. Drottningin var dauð. Lengi lifi nýja drottningin. Vonda nornin tapaði alltaf í ævintýrunum, en þetta var ekki ævintýri.

    Alheimurinn hafði allan rétt á að mótmæla, allan rétt á að lýsa vanþóknun sinni á þessum atburðum og mannverunum tveimur sem stóðu fyrir þeim. Margrét hélt á sígarettu og stóð í dyragættinni eins og fyrirsæta í drengjablaði. Hún var sennilega ekki að reyna að vera eins og fyrirsæta, en hún gat ekkert að því gert. Litla stúlkan, svo full sjálfsálits, svo fullkomin, svo ótrúlega falleg að utan. Pétur var ekkert annað en vondi kallinn í lélegri bíómynd og hún var glæpakvendið sem dáleiðir mennina og leiðir þá í freistni. Femme fatale.

    Var þetta ekki allt henni að kenna? Hann var ekki viss. Hann hafði tekið í gikkinn. Það var hann sem var búinn að fá nóg af tuðinu í Emilíu, þessu endalausa jarmi um að bæta heiminn, tali um fortíðina, framtíðina, allt sem þau höfðu gert saman. Það var eins og þau ættu bara fortíð. Hann hafði hjálpað Emilíu að koma stelpunum fyrir í kjallaranum en hún hafði neytt hann til þess. Hana hafði alltaf langað til að eignast börn og þar sem þau gátu ekki eignast börn, hafði hann látið það eiga sig að mótmæla þegar hún ákvað að stelpurnar mættu vera áfram hjá þeim. Hann hafði engan áhuga á að fylla húsið af öskrandi krökkum, en Margrét og Brynja voru saklausar og sætar stelpur og hann hafði séð hvað verður um munaðarleysingja. Hann hafði orðið vitni að því hvernig þau svelta, eru misnotuð, oft af frammámönnum í þjóðfélaginu og það var verra en hungur og fátækt. Emilía krafðist þess að þau hjálpuðu þessum litlu, fallegu stúlkum og hann skipti sér ekkert af því.

    Auðvitað vildi hann bæta heiminn, gera hann að betri stað fyrir alla, en það var ekki hægt að bjarga öllum og þessi þráhyggja hennar var að ganga frá honum.

    Stúlkurnar stækkuðu. Þær höfðu alltaf verið í kjallaranum, aldrei verið teknar inn sem fullgildir fjölskyldumeðlimir, eða kannski hafði honum verið hafnað og fjölskyldan færst niður í kjallara. Emilía var yfirleitt þar með þeim, ekki uppi hjá honum.

    Heimurinn var breyttur eftir stríðið. Hann var löngu búinn að fá nóg af því að hún væri á endalausum þönum, alltaf að gera eitthvað, upptekin af því að láta gott af sér leiða eða hvað það var sem hún kallaði það, en hún hafði látið hann í friði að mestu leyti. Hún hafði látið hann í friði, svo hvað hafði farið úrskeiðis í kvöld?

    Hann gat ekki hugsað heila hugsun. Hann hafði sínar ástæður fyrir þessu. Það hlaut að vera. Hann gat bara ekki hugsað um þær núna. Kannski þurfti hún að fara, kannski hafði það ekkert með konuna í dyragættinni að gera. Kannski hafði hann bara misst sig, gengið of langt. Hann hlaut að eiga einhvern rétt á hamingju, ekki þessu endalausa tuði frá manneskju sem þekkti hann út og inn og þekkti alla hans galla og gat notfært sér þá. Emilía átti heima í fortíðinni. Hún var dauð og fljótlega grafin hér. Ein, einhversstaðar í rassgati, grafin undir jökli. Fullkomlega óviðeigandi endalok fyrir manneskju eins og hana. Pétur hefði viljað gefa henni almennilega útför, en hvernig hefði það verið hægt?

    Hún var þyngri en hann hafði búist við. Þessi litla og granna kona átti ekki að vera svona þung. Hún yrði myllusteinn um háls hans um ókomna tíð. Albatross sem myndi aldrei framar taka til flugs. Hann þyrfti að venjast því að bera þyngd hennar. Hann lyfti henni upp úr skottinu, passaði sig að reka höfuð hennar hvergi í. Hann bar hana eins og barn, hélt henni eins og brothættum litlum hlut. Höfuðið lá á öxl hans, hárið fliksaðist framan í hann. Hann mundi hvernig hann hafði grafið sig í hári hennar fyrir öllum þessum árum. Mundi hvað hún hafði verið fullkomin. Það var fyrir eilífð síðan. Öldum, í öðru lífi. Nú var hárið kalt og blautt og það sló hann í andlitið eins og svipa, ýfandi upp sárin innra með honum, sár sem myndu aldrei gróa. Hann bauð sársaukann velkominn. Átti hann skilinn.

    Þau komu að holunni og hann lét sig renna ofan í hana, passaði að konan hreyfðist ekki í faðminum. Hann lagði hana varlega niður, lét höfuð henna síga rólega. Hún hefði getað verið sofandi. Regnið skolaði blóðið úr andlitinu á henni og hún lá þarna eins og í hlýju baði. Hann lagaði hárið og þurrkaði regnið af andlitinu. Hann tók í höndina og kyssti hana á kinnina. Lagðist niður við hliðina á henni. Skalf í ískaldri gröfinni. Þau voru saman í síðasta sinn. Hann var ekki viss hvort hann væri grátandi. Andlitið var rennandi blautt eftir rigninguna og hann fann ekkert, engar tilfinningar, hann var jafn kaldur að innan sem utan.

    Hann setti hendur hennar í kross, tók steininn sem hékk um hálsinn og setti hann á hennar. Steinarnir tveir. Þeir voru hennar, ekki hans. Hann klifraði upp úr gröfinni, tók skófluna og fyllti hana af aur og drullu. Blóð, sem hann vissi ekki hvernig til var komið, rann niður andlitið og fæturnir báru hann varla. Hann fann ekki fyrir regninu sem skall á andlitinu eins og byssukúlur.

    Þetta hafði verið þeirra staður, þeirra skjól frá heiminum. Litla húsið í skugga jökulsins og eldfjallsins, húsið sem enginn gat fundið nema fuglarnir og kannski refirnir. Staðurinn þeirra, þar sem ljótleiki heimsins átti ekkert erindi. Þetta var staðurinn hennar núna.

    Jagúar

    Svarti Jagúarinn rann inn í bílastæðið. Pétur læsti honum og gekk hratt í átt að skrifstofubyggingunni. Hann gekk alltaf hratt, en það var einhverskonar léttleiki eða fágun í fótatakinu. Snerpa og sjálfstraust sem tilheyrði manni sem vissi hvað hann vildi og hvernig hann myndi eignast það. Hann brosti til einhvers í móttökunni. Hann tók aldrei lyftuna þegar hann var einn. Skrifstofan var á annarri hæð og það var fljótlegra að nota stigann.

    J.P. Verktakar var gamalt fyrirtæki sem lét lítið fyrir sér fara. Það vissu fáir hvenær það var stofnað og fæstir landsmenn höfðu heyrt á það minnst. Samt hafði það tekið þátt í gríðarlega stórum verkefnum í gegn um tíðina. Það hafði tekið þátt í vega- og virkjanaframkvæmdum, byggt ógrynni húsa í höfuðborginni og á landsbyggðinni, en yfirleitt gert það gegn um undirverktaka. Forstjóri og aðaleigandi var Jóhann Björnsson. Hann var kominn á eldri ár og Pétur sá um daglegan rekstur.

    ‘Ég er einfaldlega að segja að hann verður að fara.’ Björn Jóhannsson var órólegur og sópaði gólfið með rándýra ítalska skónum sínum. Ritarinn sat við borðið og reyndi að einbeita sér að vinnunni.

    ‘Pétur er ekki að fara neitt.’ Jóhann stóð eins og klettur fyrir framan son sinn. Áttatíu ár höfðu lítið unnið á og valdið geislaði af honum.

    ‘Hann er stórslys. Við förum öll til fjandans ef við stoppum hann ekki.’

    Halla var upptekin við að skrifa tölvupóst og pikkaði eins hátt og hún gat.

    ‘Ég elska þig. Þú ert einkasonur minn og ég myndi gera hvað sem er fyrir þig, en ég þarf á Pétri að halda. Fyrirtækið er ekkert án hans. Hvað eigum við að gera ef ég læt hann fara? Ekki sé ég þig taka við.’

    ‘Pabbi…’

    ‘Ert þú með einhverjar hugmyndir? Ef svo er, vil ég heyra þær. Ég sé þig einfaldlega ekki taka við fyrirtækinu. Þú hefur aldrei sýnt því áhuga.’ Jóhann leit á úrið.

    Halla leit upp frá tölvuskjánum. ‘Strákar, Stefán er inni á skrifstofunni hans Péturs. Getið þið ekki rifist annars staðar?’

    ‘Segir blow-up dúkkan hans.’ Björn leit á Höllu.

    ‘Farðu til andskotans,’ tautaði hún í tölvuna.

    ‘Eins og ég var að segja, við erum öll á leiðinni til hans.’

    Jóhann sló í borðið með meiri krafti en hann hafði ætlað sér. ‘Getið þið tvö ekki hagað ykkur eins og fullorðið fólk?’

    ‘Nei, get ekki leikið fullorðinsleiki með dömunni. Einhver annar er ríðandi henni.’

    Pétur opnaði dyrnar og næstum flaug inn í móttökuna. Hann leit í augun á fólkinu, fyrst Jóhanni, svo Birni og loks Höllu. ‘Fundur? Var hann erfiður? Er einhver með sveðju svo ég geti hoggið mér leið gegn um andrúmsloftið?’ Enginn svaraði. ‘Ég var að missa af einhverju góðu, er það ekki?’ Pétur hló. Þau voru að tala um hann, það var augljóst. Þegar Björn var í fýlu, snérist það yfirleitt um Pétur.

    Halla brosti. ‘Stefán bíður eftir þér.’

    ‘Hvernig var jarðarförin, Jóhann?’ Pétur lagði höndina á öxl gamla mannsins.

    ‘Falleg.’

    ‘Gott. Var ég búinn að spyrja hvern var verið að jarða?’

    ‘Margrét, gömul vinkona. Efast um að þú hafir þekkt hana.’

    Hún var svo ung, svo

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1