Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Annað tækifæri
Annað tækifæri
Annað tækifæri
Ebook371 pages4 hours

Annað tækifæri

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Kvennamorðklúbburinn kemur aftur saman, nú til að takast á við hættulegri glæpamann en þær hafa nokkru sinni áður komist í tæri við.
Röð morða í San Francisco virðast ótengd í fyrstu en Lindsay Boxer rannsóknarlögreglukona skynjar fljótt rauða þráðinn sem tengir þau saman. Hún hóar því í Kvennamorðklúbbinn; blaðakonuna Cindy Thomas, aðstoðarsaksóknarann Jill Bernhardt og réttarmeinafræðinginn Claire Washburn og saman uppgötva þær hvað fórnarlömb morðanna eiga sameiginlegt. Morðinginn er með þeim grimmdarlegri sem þær hafa tekist á við, bæði saman og hver í sínu lagi. Mun þeim takast að koma höndum yfir hann?
Árið 2007 voru gerðir sjónvarpsþættir sem byggðu á bókunum og báru sama nafn.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateNov 21, 2023
ISBN9788728542057
Author

James Patterson

James Patterson is the CEO of J. Walter Thompson, an advertising agency in New York. He has written several successful fiction and nonfiction books, including The New York Times best seller The Day America Told the Truth.

Read more from James Patterson

Related to Annað tækifæri

Titles in the series (3)

View More

Related ebooks

Related categories

Reviews for Annað tækifæri

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Annað tækifæri - James Patterson

    Annað tækifæri

    Translated by Magnea J. Matthíasdóttir

    Original title: 2nd Chance

    Original language: English

    Cover image: Unsplash, Himmelsfoto, Shutterstock

    Copyright ©1999, 2023 James Patterson, Andrew Gross and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728542057

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrieval system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    INNGANGUR

    Telpnakórinn

    Aaron winslow gleymdi aldrei næstu mínútum. Hann þekkti skelfileg hljóðin um leið og þau tóku að gelta í rökkrinu. Honum kólnaði öllum. Hann trúði varla að einhver væri að skjóta af kraftmiklum riffli í þessu hverfi.

    Ka-þá, ka-þá, ka-þá ... ka-þá, ka-þá, ka-þá.

    Kórinn hans var rétt í þessu að ganga út úr La Salle Heights kirkjunni. Fjörutíu og átta ungar telpur flykktust fram hjá honum og út á gangstétt. Þær voru nýkomnar af lokaæfingunni fyrir kórakeppnina í San Francisco og höfðu staðið sig með ágætum.

    Þá hófst skothríðin. Mikil skothríð. Ekki bara eitt skot. Kúlnaregn. Árás.

    Ka-þá, ka-þá, ka-þá ... ka-þá, ka-þá, ka-þá.

    „Kastið ykkur niður! hrópaði hann eins hátt og hann gat. „Leggist allar á jörðina! Skýlið höfðinu. Skýlið ykkur! Hann trúði varla orðunum sem hrutu af vörum hans.

    Fyrst virtist enginn heyra í honum. Telpurnar í hvítu spariblússunum og pilsunum hlutu að halda að skotin væru púðurkerlingar. Þá buldi skothríð á fallega, steinda kirkjuglugganum. Myndin af Kristi að blessa barn í Kapernám splundraðist, glerbrotin þeyttust út um allt og sum hrundu á höfuð barnanna.

    „Það er einhver að skjóta!" æpti Winslow. Kannski fleiri en einn. Hvernig gat þaðverið? Hann hljóp eins og óður maður á milli telpnanna, æpti, baðaði út höndunum, ýtti eins mörgum og hann gat niður í garsið.

    Þegar telpurnar voru loksins farnar að hnipra sig saman eða kasta sér á jörðina, kom Winslow auga á tvær af kórtelpunum, Chantal og Tamöru, sem stóðu líkt og steinrunnar á grasflötinni meðan kúlurnar þutu fram hjá þeim. „Fleygið ykkur niður, Chantal og Tamara!" hrópaði hann, en þær hreyfðu sig ekki, héldu dauðahaldi hvor í aðra og kveinuðu af skelfingu. Þær voru perluvinkonur. Hann hafði þekkt þær síðan þær voru smábörn og léku sér í reitabolta á malbikinu.

    Það komst aldrei neinn efi að honum. Hann þaut að telpunum tveimur, greip þéttingsfast um handleggina á þeim og velti þeim um koll. Svo grúfði hann sig yfir þær og og þrýsti þeim þétt saman.

    Kúlurnar hvinu yfir höfðinu á honum, aðeins fáeina þumlunga frá þeim. Hann verkjaði í hlustirnar. Hann hríðskalf og því var eins farið um telpurnar sem hann skýldi með líkama sínum. Hann var nærri því viss um að nú myndi hann deyja. „Þetta er allt í lagi, elskurnar," hvíslaði hann.

    Svo hætti skothríðin jafn skyndilega og hún hófst. Það varð grafarþögn. Svo skrítin og ankannaleg þögn, að það var engu líkara en allur heimurinn hefði numið staðar til að leggja við eyrun.

    Þegar hann reis á fætur, sá hann alveg ótrúlega sjón. Hvarvetna voru telpurnar að skreiðast hægt á fætur. Það var svolítið um grát, en hann sá hvergi blóð og enginn virtist vera særður.

    „Eruð þið allar ómeiddar? kallaði Winslow. Hann fikraði sig í gegnum hópinn. „Er einhver meidd?

    „Ekki ég ... Ekki ég," var svarað. Hann horfði vantrúaður í kringum sig. Þetta var kraftaverk.

    Þá heyrði hann eina telpuna kjökra.

    Hann sneri sér við og sá Maríu Parker, sem var aðeins tólf ára gömul. María stóð á kölkuðum timburtröppunum upp að kirkjudyrunum. Hún virtist ekki vita sitt rjúkandi ráð. Hún barðist við grátinn.

    Þá sá Aaron Winslow hvað hafði valdið móðursýkiskasti telpunnar. Jafnvel ekki í stríðinu, jafnvel ekki á uppvaxtarárunum á götum Oaklands hafði honum liðið svona hræðilegra, fundið fyrir slíkri hryggð og tilgangsleysi.

    „Ó, Guð. Ó, nei. Hvernig gastu látið þetta gerast?"

    Tasha Catchings, aðeins ellefu ára gömul, lá í hnipri í blómabeði við kirkjuna. Hvíta skólablússan hennar var gegndrepa af blóði.

    Þá fór séra Aaron Winslow loksins að gráta líka.

    FYRSTI HLUTI

    Kvennamorðklúbburinn – enn á ný

    1. KAFLI

    Það var þriðjudagskvöld og ég var að spila Ólsen-Ólsen við þrjá íbúa unglingaathvarfsins í Hope Street. Ég skemmti mér konunglega.

    Í lúna sófanum andspænis mér sátu Hector, strákur úr spænska hverfinu sem hafði losnað úr unglingafangelsi tveimur dögum áður, Altsha, hljóðlát og lagleg, en átti sér fjölskyldusögu sem enginn myndi kæra sig um að þekkja, og Michelle, sem hafði selt sig á götum San Francisco í heilt ár þegar hún var fjórtán ára.

    „Hjarta," tilkynnti ég, fleygði niður áttu og breytti um lit einmitt þegar Hector ætlaði að fara að setja út.

    „Fjandinn sjálfur, löggukona, vældi hann. „Hvernig stendur á því að alltaf þegar ég er að fara að meika það, þá stingurðu mig í bakið?

    „Það ætti að kenna þér að treysta aldrei löggu, aulinn þinn," sagði Michelle hlæjandi og sendi mér samsærisbros í leiðinni.

    Síðasta mánuðinn hafði ég verið eitt eða tvö kvöld í viku í unglingaathvarfinu. Eftir brúðhjónamálið hræðilega í fyrrasumar hafði ég lengi vel ekki náð neinum áttum. Ég tók mér mánaðarfrí frá morðdeildinni, skokkaði við smábátahöfnina, starði út á flóann úr öruggri íbúð minni í Potrero Hill.

    Ekkert dugði. Hvorki sálfræðiráðgjöf eða skilyrðislaus stuðningur vinkvenna minna – Claire, Cindy og Jill. Ekki einu sinni það að byrja aftur að vinna. Ég hafði séð lífið fjara út hjá manni sem ég unni án þess að geta nokkuð aðhafst. Mér fannst ég enn bera ábyrgð á dauða félaga míns við skyldustörf. Ekkert virtist geta fyllt þetta tómarúm.

    Svo ég fór hingað – í Hope Street.

    Og góðu fréttirnar voru þær að þetta hjálpaði mér svolítið.

    Ég gjóaði augunum af spilunum á Angelu, nýkomna stúlku sem sat í járnstól hinum megin í herberginu og hélt á þriggja mánaða dóttur sinni í fanginu. Veslings stúlkan, á að giska sextán ára, hafði sagt fátt um kvöldið. Ég ætlaði að reyna að tala við Angelu áður en ég færi.

    Dyrnar opnuðust og inn kom Dee Collins, ein af yfirráðgjöfunum í athvarfinu. Á eftir henni kom blökkukona ströng á svip í gamaldags grárri dragt. Það leyndi sér ekki að hún var frá Barna- og fjölskyldudeild.

    „Angela, félagsráðgjafinn þinn er kominn." Dee kraup á hnén við hliðina á henni.

    „Ég er ekki blind," sagði unga stúlkan.

    „Við verðum að taka barnið núna," greip félagsráðgjafinn fram í, rétt eins og framkvæmd þessa verkefnis væri það eina sem gæti tafið hana frá því að ná næstu lest.

    „Nei! Angela þrýsti barninu fastar að sér. „Þið getið haldið mér í þessu greni, þið getið sent mig aftur til Claymore, en þið takið ekki barnið mitt.

    „Gerðu það, elskan, það er bara í nokkra daga," reyndi Dee Collins að tala um fyrir henni.

    Stúlkan hélt verndandi utan um dóttur sína, sem fór að gráta eins og hún fyndi að það ætti að gera henni mein.

    „Ekki vera með læti, Angela, sagði félagsráðgjafinn í viðvörunartón. „Þú veist hvernig þetta fer fram.

    Þegar hún gekk í áttina að Angelu, stökk stúlkan upp úr stólnum. Hún hélt á barninu á öðrum handleggnum og saftglasi sem hún hafði verið að drekka úr í hinni hendinni.

    Með snöggri handarhreyfingu braut hún glasið á borðbrún svo á það komu skörðóttar brúnir.

    „Angela. Ég stökk upp frá spilaborðinu. „Settu þetta frá þér. Það fer enginn neitt með telpuna þína nema þú sleppir henni.

    Tæfan þarna er að reyna að eyðileggja líf mitt. Hún sendi henni illt auga. „Fyrst lætur hún mig vera þremur dögum lengur en ég átti að vera í Claymore, svo vill hún ekki leyfa mér að fara heim til mömmu. Nú reynir hún að taka frá mér stelpuna mína.

    Ég kinkaði kolli, horfði í augun á unglingnum. „Fyrst verðurðu að setja frá þér glasið," sagði ég. „Það veistu, Angela."

    Félagsráðgjafinn gekk nær, en ég stöðvaði hana. Ég gekk hægt í áttina að Angelu. Ég greip um brotið glasið, svo tók ég barnið blíðlega úr fanginu á henni.

    „Hún er það eina sem ég á," hvíslaði stúlkan og svo fór hún að gráta.

    „Ég veit það. Ég kinkaði kolli. „Þess vegna ætlarðu að breyta ýmsu í lífi þínu og fá hana aftur.

    Dee Collins var búin að taka utan um Angelu og vefja klút um blóðuga höndina á stúlkunni. Blökkukonan var árangurslaust að reyna að sefa grátandi barnið.

    Ég fór til hennar og sagði: „Þessu barni verður komið fyrir einhvers staðar í grenndinni og má fá heimsóknir daglega. Og vel á minnst, ég sá ekki neitt gerast hérna sem er þess virði að skrásetja ... En þú?" Félagsráðgjafinn sendi mér illt auga og sneri sér undan.

    Allt í einu gall í kalltækinu mínu, þrír ósamhljóma tónar sem rufu spennuþrungið andrúmsloftið. Ég tók það fram og las símanúmerið. Jacobi, fyrrverandi félagi minn í morðdeildinni. Hvað skyldi hann vilja?

    Ég afsakaði mig og fór inn á skrifstofu starfsmanna. Hann var í bílnum þegar ég náði sambandi við hann.

    „Það kom svolítið slæmt fyrir, Lindsay, sagði hann þungur í máli. „Mér datt í hug að þú vildir fá að vita af því.

    Hann sagði mér frá hræðilegri skotárás á La Salle Heights kirkjuna. Ellefu ára telpa hafði verið skotin.

    „Jesús minn ..." Ég andvarpaði og mér varð þungt um hjartarætur.

    „Mér datt í hug að þú vildir kannski taka þátt í þessu," sagði Jacobi.

    Ég dró djúpt andann. Það voru liðnir rúmir þrír mánuðir síðan ég hafði komið á morðstað. Ekki síðan daginn sem brúðhjónamálinu lauk.

    „Ha? Ég heyrði ekkert," sagði Jacobi ýtinn. „Viltu vera með, aðstoðaryfirlögregluþjónn? " Þetta var í fyrsta sinn sem hann hafði notað nýja titilinn minn.

    Ég skildi að hveitibrauðsdögunum var lokið. „Já, muldraði ég. „Ég vil vera með.

    2. KAFLI

    Það fór að rigna þegar ég ók Explorernum mínum upp að La Salle Heights kirkjunni við Harrow Street, í þeim hluta Bay View hverfisins þar sem blökkumenn eru í meirihluta. Reitt og kvíðið fólk hafði hópast þar saman – ýmist hryggar mæður úr hverfinu eða þessir venjulegu fýldu og hoknu gengjadrengir í skærlitum Tommy Hilfiger bolum – og allir reyndu að troðast fram hjá fáeinum einkennisklæddum lögregluþjónum.

    „Þetta er ekkert andskotans Mississippi," kallaði einhver þegar ég tróð mér í gegnum þvöguna.

    „Hvað margir í viðbót?" kveinaði roskin kona. „Hvað margir í viðbót?"

    Ég veifaði lögregluskírteininu og komst fram hjá taugaóstyrku lögreglumönnunum í fremstu röð. Það sem ég sá næst kom mér til að súpa hveljur.

    Framhlið hvítu timburklæddu kirkjunnar var sundurtætt af hrikalegu mynstri úr kúlnagötum og blýlitum sprungum. Stór gluggi úr steindu gleri hafði verið skotinn í sundur og í veggnum gein við stórt gap. Skörðóttar eggjar litaðs glers héngu niður eins og grýlukerti. Telpurnar voru enn á víð og dreif á grasflötinni, augljóslega miður sín og sumar nutu aðhlynningar bráðaliða.

    „Ó,Jesús minn," hvíslaði ég í hálfum hljóðum.

    Ég kom auga á tæknideildarfólk í svörtum stormblússum sem laut yfir lík ungrar telpu við kirkjutröppurnar. Tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn voru skammt frá þeim. Annar var fyrrverandi félagi minn, Warren Jacobi.

    Ég stóð sjálfa mig að því að hika. Ég hafði gert þetta ótal sinnum. Það voru ekki liðnir nema fáeinir mánuðir síðan ég leysti stærsta morðmál sem komið hafði upp í borginni allt frá því að Harvey Milk var myrtur, en það hafði svo margt gerst síðan þá. Mér leið undarlega, eins og ég væri nýgræðingur. Ég kreppti hnefana, dró djúpt að mér andann og gekk til Jacobi.

    „Velkomin aftur til jarðar, aðstoðaryfirlögregluþjónn," sagði Jacobi og velti nýja titlinum mínum á tungu sér.

    Það fór enn fiðringur um mig þegar ég heyrði þetta orð. Allan minn feril hafði ég stefnt að því að verða yfirmaður morðdeildarinnar: Fyrsti kvenkyns morðdeildarvarðstjórinn í San Francisco og nú fyrsti kvenkyns aðstoðaryfirlögregluþjónninn í deildinni. Þegar fyrrverandi yfirmaður minn, Sam Roth, kaus að taka við þægilegri stöðu í Bodega Bay, kallaði Mercer lögreglustjóri mig á sinn fund. Ég get gert annað af tvennu, sagði hann við mig. Ég get sent þig í langt leyfi á fullum launum og þú getur hugleitt hvort þú hafir geð í þér að koma aftur í þetta starf. Eða ég get látið þig fá þetta, Lindsay. Hann ýtti gullskildi með tveimur röndum yfir borðið. Ég held að ég hafi aldrei séð Mercer brosa fyrr en á þessu andartaki.

    „Yfirmannsskjöldurinn gerir þetta ekkert léttara, er það nokkuð, Lindsay?" sagði Jacobi og undirstrikaði þannig að þriggja ára samstarf okkar hefði tekið breytingum.

    „Hvað erum við með?" spurði ég.

    „Vopnaður maður sem virðist hafa verið einn á ferð skaut úr runnunum þarna. Hann benti á þétt runnaþykkni við hliðina á kirkjunni, í um það bil fimmtíu metra fjarlægð. „Helvítið náði krökkunum um leið og þeir komu út. Skaut eins og óður.

    Ég andaði djúpt, horfði á grátandi og skelfingu lostin börnin sem voru alls staðar á grasflötinni. „Sá einhver kauða? Það sá hann einhver, var það ekki?"

    Hann hristi höfuðið. „Allir köstuðu sér á grúfu."

    Rétt hjá dánu telpunni grét niðurbrotin blökkukona við öxlina á vini sem var að reyna að hugga hana. Jacobi tók eftir að ég leit á dánu telpuna.

    „Hún hét Tasha Catchings, tautaði hann. „Í fimmta bekk í St. Anne’s skólanum. Góð stelpa. Sú yngsta í kórnum.

    Ég gekk nær og laut yfir blóði drifinn líkamann. Það er alveg sama hvað þetta gerist oft, það tekur mann alltaf jafn sárt. Skólablússa Töshu var gegnvot af blóði og regndropunum sem féllu til jarðar. Skammt frá henni lá marglitur bakpoki í grasinu.

    „Enginn annar? spurði ég vantrúuð. Ég skimaði yfir vettvanginn. „Varð enginn nema hún fyrir skoti?

    Kúlnagötin voru út um allt, glerbrot og tréflísar. Fjölmörg börn höfðu hópast út á leiðinni út á götu ... Öll þessi skot og ekki nema eitt fórnarlamb.

    „Við erum heppin í dag, ha?" hnussaði Jacobi.

    3. KAFLI

    Paul chin, einn af morðdeildarmönnunum mínum, stóð á kirkjutröppunum og var að yfirheyra hávaxinn og myndarlegan blökkumann í svartri rúllukragapeysu og gallabuxum. Ég hafði séð hann áður í fréttum. Ég vissi meira að segja hvað hann hét, Aaron Winslow.

    Jafnvel þó að Winslow væri mjög brugðið og hann væri miður sín, þá bauð hann af sér góðan þokka – reglulegir andlitsdrættir, tinnusvart hárið snöggklippt og vaxinn eins og framherji í ruðningsbolta. Allir í San Francisco vissu hvað hann var að gera fyrir hverfið sitt. Hann var sagður vera sönn hetja og ég verð að játa að hann bar það með sér.

    Ég gekk til þeirra.

    „Þetta er séra Aaron Winslow," sagði Chin og kynnti okkur.

    „Lindsay Boxer," sagði ég og rétti fram höndina.

    „Boxer aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagði Chin. „Hún hefur yfirumsjón með rannsókn málsins.

    „Ég kannast við þig af afspurn, sagði ég. „Þú hefur gert mikið fyrir þetta hverfi. Mér þykir mjög fyrir þessu. Ég á ekki til nein orð til að lýsa því.

    Hann leit af mér og á myrtu telpuna. Hann tók til máls, ótrúlega blíðróma. „Ég hef þekkt hana síðan hún var pínulítil. Þau eru gott og ábyrgt fólk. Mamma hennar ... hún ól Töshu og bróður hennar upp ein síns liðs. Þetta voru allt ungar telpur. Kóræfing, aðstoðaryfirlögregluþjónn."

    Ég vildi ekki vera ágeng, en ég var tilneydd. „Má ég spyrja þig nokkurra spurninga? Er það í lagi?"

    Hann kinkaði kolli svipbrigðalaus. „Auðvitað."

    „Sástu einhvern? Mann á flótta? Skuggamynd? Í sjónhendingu?"

    „Ég sá hvaðan skotin komu, sagði Winslow og benti á runnaþykknið þar sem Jacobi var núna. „Ég sá skotferlið. Ég reyndi allt hvað ég gat að fá þær til að kasta sér niður. Þetta var sturlun.

    „Hefur einhver hótað þér eða kirkjunni þinni nýlega?" spurði ég.

    „Hótanir? Winslow hnyklaði brýnnar. „Kannski fyrir mörgum árum, þegar við fengum fyrst fjárveitingu til að endurbyggja sumt af þessum húsum.

    Skammt frá okkur heyrðist nístandi kvein frá móður Töshu Catchings þegar líki dóttur hennar var lyft á sjúkrabörur. Þetta var svo sorglegt. Hópurinn í kringum okkur var farinn að tvístíga. Háðsyrði og ásakanir tóku að kveða við. „Af hverju standið þið þarna eins og þvörur? Farið og finnið morðingjann!"

    „Best að ég fari til þeirra, sagði Winslow, „áður en þetta þróast á verri veg. Hann lagði af stað, sneri sér svo við með herptar varir og uppgjafarsvip. „Ég hefði getað bjargað veslings barninu. Ég heyrði skotin."

    „Þú gast ekki bjargað þeim öllum, sagði ég. „Þú gerðir það sem þú gast.

    Hann hikaði en kinkaði svo kolli. Mér krossbrá við það sem hann sagði svo. „Þetta var M-sextán, aðstoðaryfirlögregluþjónn. Þrjátíu skota hylki. Helvítið hlóð tvisvar."

    „Hvernig getur þú vitað það?" spurði ég hissa.

    „Persaflóastríðið, svaraði hann. „Ég var herprestur. Það er útilokað að ég gleymi nokkurn tímann þessu hræðilega hljóði. Það gleymir því enginn.

    4. KAFLI

    Ég heyrði að kallað var á mig gegnum hávaðann í mannþrönginni. Það var Jacobi. Hann var í trjáþykkninu bak við kirkjuna.

    „Heyrðu, aðstoðaryfirlögregluþjónn, komdu og kíktu á þetta."

    Á leiðinni til hans velti ég því fyrir mér hvers konar maður gæti unnið svona skelfilegt ódæði. Ég hafði unnið að mörg hundruð morðmálum og yfirleitt voru eiturlyf, peningar eða kynlíf helsti hvatinn að þeim. En þetta ... ϸetta átti að vekja hrylling.

    „Líttu á þetta," sagði Jacobi og laut yfir blett á jörðinni. Hann var búinn að finna skothylki.

    „Örugglega M-sextán," svaraði ég.

    Jacobi kinkaði kolli. „Hefur litla frökenin verið að hressa upp á kunnáttuna í fríinu? Þetta er Remington tveir tuttugu og þrír."

    „Litla fröken aðstoðaryfirlögregluþjónn, væni minn." Ég glotti. Svo sagði ég honum hvernig ég vissi þetta.

    Margar tylftir af tómum skothylkjum lágu á víð og dreif. Við vorum í miðju runna- og trjáþykkni, úr sjónmáli frá kirkjunni. Skothylkin voru í tveimur auðsæjum hvirfingum með um það bil fimm metra millibili.

    „Það er hægt að sjá hvar hann byrjaði að skjóta, sagði Jacobi. „Ég held að það hafi verið hér. Hann hlýtur að hafa fært sig til.

    Frá fyrri skothylkjahvirfingunni skyggði ekkert á kirkjuhliðina. Steindi glugginn sást greinilega ... öll börnin sem flykktust út á götu ... Ég skildi af hverju enginn hafði komið auga á hann. Það gat enginn séð felustaðinn.

    „Þegar hann hlóð aftur, hlýtur hann að hafa fært sig þangað." Jacobi benti.

    Ég gekk þangað og settist á hækjur mér við seinni skothylkjahvirfinguna. Þetta kom ekki alveg heim og saman. Héðan sást framhlið kirkjunnar, kirkjutröppurnar þar sem Tasha Catchings hafði legið. En ekki greinilega.

    Ég rýndi í gegnum ímyndað sigti, leit þangað sem Tasha hlaut að hafa verið þegar hún var skotin. Það var varla hægt að sjá staðinn. Það var útilokað að hann hefði miðað á hana af ásettu ráði. Hún hafði verið skotin af mjög ólíklegu færi.

    „Algjör hending, tautaði Jacobi. „Hvað heldur þú? Endurkast?

    „Hvað er þarna á bak við?" spurði ég. Ég leit í kringum mig, tróðst í gegnum þétta runnana í áttina frá kirkjunni. Það hafði enginn séð skotmanninn komast undan, svo hann hafði augljóslega ekki farið um Harrow Street. Runnaþykknið var um sex metra breitt.

    Þar sem því sleppti, tók við hálfs annars metra há vírnetsgirðing sem skildi kirkjulóðina frá nágrannalóðunum. Girðingin var ekki há. Ég greip um vírinn og hífði mig yfir.

    Nú stóð ég andspænis lokuðum bakgörðum og litlum raðhúsum. Þangað voru komnar fáeinar hræður sem fylgdust með atburðarásinni. Á hægri hönd voru leikvellirnir við Whitney Young bæjarblokkirnar.

    Jacobi náði mér á endanum. „Slakaðu á, foringi, másaði hann. „Þarna eru áhorfendur. Þú gerir mér skömm til.

    „Svona hlýtur hann að hafa komist burt, Warren." Við litum í báðar áttir. Öðrum megin var húsasund, hinum megin húsaröð.

    Ég kallaði til hóps áhorfenda sem hafði safnast saman á verönd bak við eitt húsið. „Sá einhver eitthvað?" Enginn svaraði.

    „Það var einhver að skjóta á kirkjuna, hrópaði ég. „Lítil telpa var myrt. Hjálpið okkur. Við þörfnumst aðstoðar ykkar.

    Allir þögðu þumbaralegri þögn fólks sem segir lögreglunni aldrei neitt.

    Svo gekk kona um þrítugt hægt í áttina til okkar. Hún ýtti ungum dreng á undan sér. „Bernard sá dálítið," sagði hún lágt.

    Bernard leit út fyrir að vera um sex ára gamall, kringlótt augun með tortryggnissvip og hann var í gylltum og fjólubláum Kobe Bryant bol.

    „Það var sendiferðabíll, hrökk upp úr Bernard. „Eins og hans Reggie frænda. Hann benti á malarveginn sem lá að húsasundinu. „Honum hafði verið lagt þarna."

    Ég kraup, brosti blíðlega við óttaslegnum augum drengsins. „Hvernig var sendiferðabíllinn á litinn, Bernard?"

    „Hvítur," svaraði drengurinn.

    „Bróðir minn á hvíta Dodge-skutlu," sagði mamma Bernards.

    „Var hann eins og bíll frænda þíns, Bernard?" spurði ég.

    „Næstum. En samt eiginlega ekki."

    „Sástu manninn sem ók honum?"

    Hann hristi höfuðið. „Ég var að fara út með ruslið. Ég sá hann bara keyra burt."

    „Heldurðu að þú myndir þekkja hann aftur ef þú sæir hann?" spurði ég.

    Bernard kinkaði kolli.

    „Af því að hann var eins og bíllinn hans frænda þíns?"

    Hann hikaði. „Nei, af því að það var mynd aftan á honum."

    „Mynd? Áttu við vörumerki? Eða einhvers konar auglýsingu?"

    „Uh-uh. Hann hristi höfuðið og kringlótt augun skimuðu í allar áttir. Svo birti yfir honum. „Ég meinti svona. Hann benti á pallbíl í heimreiðinni hjá einum nágrannanum. Á afturstuðaranum var límmiði með tákni Cal Golden Bear íþróttafélagsins.

    „Áttu við límmiða?" spurði ég til að fá staðfestingu.

    „Á hurðinni."

    Ég tók blíðlega um axlir drengsins. „Hvað var á límmiðanum, Bernard?"

    „Eins og Múfasa, sagði drengurinn, „í Konungi ljónanna.

    „Ljón?" Allt sem kom til greina þaut í gegnum huga minn. Íþróttafélög, háskólamerki, fyrirtæki ...

    „Já, eins og Múfasa, endurtók Bernard. „Nema hann var með tvo hausa.

    5. KAFLI

    Tæpri klukkustund síðar tróðst ég í gegnum iðandi mannþröng sem hafði safnast saman á tröppunum við dómhúsið. Ég fann til tómleika og skelfilegrar hryggðar, en vissi að ég gæti ekki sýnt það hér. Anddyrið í steindranginum þar sem ég vann var fullt af fréttamönnum frá blöðum og sjónvarpi og þeir otuðu hljóðnemunum að öllum sem komu inn og báru lögregluskilti. Flestir glæpafréttaritararnir könnuðust við mig, en ég bandaði þeim frá mér svo ég kæmist upp.

    Þá gripu hendur um axlirnar á mér og kunnugleg rödd gall við: „Linds, við þurfum að tala saman."

    Ég sneri mér við og sá Cindy Thomas, eina af nánustu vinkonum mínum, þó að það vildi reyndar líka svo til að hún var fremsti glæpafréttaritari Chronicle. „Ég ætla ekki að ónáða þig núna, sagði hún yfir hávaðann. „En erindið er mikilvægt. Hvað segirðu um á Susie’s, klukkan tíu?

    Cindy var blaðamannsspíra í bæjarfréttadeild blaðsins þegar hún komst með hægðinni að kjarna brúðhjónamálsins og hjálpaði mér að leysa það. Cindy, sem það var ekki síður að þakka en okkur hinum að nú var ég komin með gullmerki á lögregluskjöldinn.

    Mér tókst að kreista fram bros. „Sjáumst þar."

    Ég fór upp á þriðju hæð og skálmaði þar inn í þröngt flóðljósavætt herbergið þar sem varðstjórarnir tólf sem önnuðust morðmál fyrir borgina héldu til. Lorraine Stafford var að bíða eftir mér. Hún var sú fyrsta sem ég skipaði í stöðu, átti að baki sex ára árangursríkt starf í kynferðisbrotadeildinni. Og Cappy McNeil var líka kominn.

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1