Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Kínversku klukkumorðin
Kínversku klukkumorðin
Kínversku klukkumorðin
Ebook286 pages4 hours

Kínversku klukkumorðin

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Dee dómari, hinn frægi meistari í uppljóstrun glæpa, er nýtekinn við dómstólnum í borginni Poo-yang. Hans fyrsta verkefni er að hnýta lausa enda í hrottalegu morðmáli sem bíður úrskurðar. Hin unga Hreina Jaði hefur verið myrt á heimili sínu á Hálfmánastræti og bendir allt til þess að leynilegur elskhugi hennar hafi verið að verki. Inn í málið flækjast sögusagnir af kraftaverkum úr munkamusteri þar sem fjölmargar konur hafa orðið barnshafandi í nafni trúarinnar.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateMar 31, 2023
ISBN9788728449172

Related to Kínversku klukkumorðin

Related ebooks

Related categories

Reviews for Kínversku klukkumorðin

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Kínversku klukkumorðin - Robert van Gulik

    Fyrsti

    Kafli

    Fagurkeri verður fyrir kynlegri reynslu í sölubúð með fágæta muni; dee dómari tekur til starfa sem yfirvald í poo-yang

    Dómari skal vera fólkinu sem faðir og móðir,

    hrósa þeim góðu og traustu, líkna sjúkum og öldnum,

    öllum illvirkjum skal hann refsa grimmilega

    en forvörn fremur en refsing sé þó meginstefnan.

    Nú eru sex ár síðan ég hætti störfum við blómlega tesölufyrirtækið sem ég erfði eftir föður minn og settist í helgan stein á sveitasetri okkar utan við eystra borgarhliðið. Þar fékk ég loks tíma til að helga mig eftirlætisiðju minni, sem sé að safna munum úr sögu glæpa og uppljóstrana.

    Nú er hin frábæra Ming-keisaraætt við stjórn, friður og regla ríkir í keisaradæminu og glæpir og ofbeldisverk eru fátíð og því komst ég fljótlega að raun um að ég varð að leita til fortíðar til að finna gögn um dularfull illvirki og uppljóstranir þeirra fyrir tilstilli glöggskyggnra dómara. Þetta var heillandi viðfangsefni og í áranna rás hafði ég komið mér upp athyglisverðu safni af munum sem tengdust frægum glæpamálum, vopnum sem í raun höfðu verið notuð við grimmileg morð, fornlegum innbrotstólum og fjölmörgum öðrum munum sem tengdust sögu glæpamála.

    Einn var sá hlutur sem ég mat öðrum meira. Það var fundarhamar, ílangur bútur úr sortuviði sem hafði fyrir mörgum öldum verið í eigu Dees dómara, hins fræga meistara í uppljóstrun glæpa. Á þennan fundarhamar var grafið ljóðið sem birt er hér að framan. Samkvæmt heimildum notaði Dee dómari ævinlega þennan fundarhamar þegar hann sat í dómarasæti til að áminna sig um heilagar skyldur sínar við ríkið og samfélagið.

    Ég hef skráð ljóðið eftir minni því að ég á fundarhamarinn ekki lengur. Hin skelfilega reynsla sem ég varð fyrir í sumar, fyrir svo sem tveimur mánuðum, varð til þess að ég hætti fyrir fullt og allt við glæparannsóknir mínar og losaði mig við hið mikla safn muna sem tengdust blóði drifnum illvirkjum liðins tíma. Nú hef ég snúið mér að því að safna celadon-postulíni og hef komist að raun um að sú kyrrláta tómstundaiðja hentar mér einkar vel, svo friðelskandi sem ég er að eðlisfari.

    En eitt verð ég þó að gera áður en ég get sest í helgan stein fyrir alvöru. Ég verð að rífa upp með rótum allar hinar óhugnanlegu minningar sem enn þann dag í dag verða til að raska svefnró minni. Til að losna við hina síendurteknu martröð hlýt ég að ljóstra upp hinum kynlegu leyndarmálum sem birtust mér á svo annarlegan hátt; aðeins með því móti get ég gleymt til frambúðar hinni hroðalegu reynslu sem varð mér svo skelfilegt áfall og svipti mig næstum ráði og rænu.

    Þennan fagra haustmorgun sit ég í fallega garðhúsinu mínu og dáist að mjúkum hreyfingum tveggja eftirlætishjákvenna minna sem eru að hlúa að tryggðablómunum með fínlegum fingrum – í þessu friðsæla umhverfi hef ég loks kjark til að rifja upp það sem gerðist þennan örlagaríka dag.

    Það var síðdegis á níunda degi áttunda tungls – dagsetningin verður að eilífu grópuð í huga mér. Um hádegið hafði verið mjög heitt og þegar á leið varð veðrið jafnvel enn mollulegra. Ég var niðurdreginn og eirðarlaus og loks ákvað ég að fara út í burðarstólnum mínum. Þegar burðarmennirnir spurðu hvert ferðinni væri heitið varð mér fyrst fyrir að biðja þá að flytja mig að verslun Lius sem selur fágæta muni.

    Verslunin ber hið drembilega nafn „Gullni Drekinn" og stendur andspænis musteri Konfúsíusar. Liu, eigandinn, er ágjarn drjóli, en hann kann sitt fag og hefur oft fundið handa mér áhugaverða muni sem tengjast sögu glæpa og uppljóstrana. Ég hef átt margar góðar stundir innan um fjölbreytilegan varninginn í verslun hans.

    Þegar ég kom inn var aðeins aðstoðarmaður Lius þar fyrir. Hann sagði mér að Liu væri ekki vel hress; hann væri uppi á lofti, í salnum þar sem verðmætustu hlutirnir voru geymdir.

    Þar fann ég Liu í fúlu skapi og hann kvartaði um höfuðverk. Hann hafði lokað gluggahlerunum til að bægja frá mesta hitanum. Í hálfrökkrinu virtist kunnuglegt herbergið framandlegt og fjandsamlegt og mér flaug í hug að fara samstundis. En svo mundi ég hversu heitt var úti og ákvað að doka við smástund og fá Liu til að sýna mér fáeina hluti. Og þess vegna settist ég í stóran hægindastól og blakaði ákaft með blævængnum mínum úr hegrafjöðrum.

    Liu tautaði eitthvað um að hann gæti ekki sýnt mér neitt sérstakt. Hann horfði stundarkorn ráðvilltur í kringum sig en dró síðan fram úr einu horninu svartan, lakkaðan spegilstand og setti á borðið fyrir framan mig.

    Þegar hann var búinn að þurrka rykið af hlutnum sá ég að þetta var venjulegur húfuspegill, með öðrum orðum spegill úr fægðu silfri sem festur var ofan á ferhyrndan kassa. Slíkan spegil nota embættismenn til að hagræða svörtu slæðuhúfunni á höfði sér. Lakkramminn var þakinn örsmáum sprungum og hluturinn virtist því æði gamall; en svona hlutir eru algengir og lítils virði fyrir safnara.

    Allt í einu kom ég auga á mjóa línu úr silfurstöfum á rammabrúninni. Ég hallaði mér áfram og las:

    „Eign Dee-embættisbústaðarins, Poo-yang"

    Mér tókst með herkjum að bæla niður fagnaðaróp. Þetta hlaut nefnilega að vera húfuspegill sem enginn annar en hinn frægi Dee dómari hafði átt! Ég minntist þess að samkvæmt fornum heimildum hafði Dee dómari leyst að minnsta kosti þrjár dularfullar glæparáðgátur með feikilegri snilli meðan hann starfaði sem dómari í Poo-yang, litlu héraði í Kiangsu sýslu. Illu heilli höfðu nánari lýsingar á þessum afrekum hans ekki varðveist. Ættarnafnið Dee er ekki sérlega algengt og því var nær öruggt að þessi húfuspegill hefði í raun verið í eigu Dees dómara. Þróttleysi mitt hvarf eins og dögg fyrir sólu. Með sjálfum mér blessaði ég fáfræði Lius sem hafði komið í veg fyrir að hann bæri kennsl á þennan ómetanlega grip sem hafði verið í eigu eins mesta uppljóstrara sem uppi hefur verið í keisaraveldi okkar.

    Ég gerði mér upp kæruleysi, hallaði mér aftur á bak í stólnum og bað Liu að færa mér tebolla. Um leið og hann var farinn niður spratt ég á fætur, beygði mig yfir húfuspegilinn og skoðaði hann með ákefð. Af rælni dró ég út skúffuna í kassanum undir speglinum og sá að þar lá samanbrotin dómarahúfa með svörtum slæðum!

    Ég braut varlega sundur hálfmorkið silkið. Ský af fíngerðu ryki hrundi úr saumunum. Enn var húfan óskemmd þrátt fyrir nokkur mölgöt. Ég lyfti henni í auðmýkt með skjálfandi höndum því að þessa húfu hafði hinn mikli Dee dómari borið þegar hann sat í dómarasæti.

    Ágústhiminninn einn veit hvaða duttlungar ollu því að ég lyfti þessum ómetanlega helgidómi og setti á óverðugt höfuð mitt. Ég leit í spegilinn til að athuga hvernig húfan færi mér. Fágaður spegilinn var dökkur af elli og í honum sást aðeins dökkur skuggi. En allt í einu tók þessi skuggi á sig ákveðna mynd. Ég sá framandlegt, tekið andlit stara á mig brennandi augum.

    Á samri stund kvað við drynjandi þrumuhljóð fyrir eyrum mér. Allt varð svart, það var eins og ég félli niður í botnlaust hyldýpi. Ég missti alla skynjun á tíma og rúmi.

    Það var eins og ég væri á sveimi gegnum skýjaþykkni. Skýin tóku smám saman á sig mannlega mynd og ég sá óljóst hvernig nakin stúlka varð fyrir hrottalegri árás karlmanns sem ég gat ekki greint andlitið á. Mig langaði til að koma henni til hjálpar en gat mig hvergi hrært. Mig langaði til að hrópa á hjálp en gat ekki komið upp orði. Síðan tók við runa af óteljandi ógnvekjandi atvikum og ýmist var ég máttvana áhorfandi eða kvalið fórnarlamb.

    Þegar ég var að sökkva hægt og hægt niður í illa þefjandi poll með fúlu vatni komu tvær fagrar stúlkur mér til hjálpar og þær voru dálítið áþekkar eftirlætishjákonunum mínum tveimur. En þegar ég var í þann veginn að ná taki á útréttum höndum þeirra, bar sterkur straumur mig burt og ég fór að hringsnúast í freyðandi iðu. Ég var í miðri hringiðunni og sogaðist niður hægt og hægt. Þegar ég rankaði við mér var ég staddur í dimmu, þröngu rými og lamandi þungi þrýsti mér niður með skelfilegu afli. Ég reyndi í ofboði að losna undan þessu fargi en fingur mínir fundu ekki annað en sléttan málmvegg. Þegar ég var alveg að kafna létti þrýstingnum og ég sogaði ferska loftið niður í lungun. En þegar ég reyndi að hreyfa mig uppgötvaði ég mér til hrellingar að ég var rígbundinn við gólfið. Sverir kaðlar voru tengdir við úlnliði mína og ökkla og endarnir á þeim hurfu í grárri móðu. Ég fann hvernig reipin hertust að mér og kveljandi sársauki heltók alla útlimi mína. Ógurlegur ótti nísti hjarta mitt. Ég vissi að verið var að slíta líkama minn sundur með hægð! Ég byrjaði að öskra af skelfingu. Þá vaknaði ég.

    Ég lá á gólfinu í herberginu hjá Liu, baðaður köldum svita. Liu kraup hjá mér og kallaði nafn mitt í sífellu skelfdri röddu. Gamla dómarahúfan hafði runnið af höfðinu á mér og lá nú milli spegilbrotanna.

    Með aðstoð Lius reis ég á fætur og lét fallast skjálfandi niður í hægindastólinn. Liu bar í skyndi tebolla að vörum mér. Hann sagði að þegar hann var nýfarinn niður til að sækja teketilinn hefði kveðið við ærandi þrumuhljóð og meðfylgjandi skýfall. Hann þaut upp á loftið til að festa gluggahlerana og kom að mér liggjandi í öngviti á gólfinu.

    Ég þagði drykklanga stund og dreypti með hægð á ilmandi drykknum. Síðan sagði ég Liu einhvern uppspuna um svimaköst sem ég fengi endrum og eins og bað hann að kalla á burðarmenn mína. Þeir báru mig heim í úrhellisrigningunni. Enda þótt burðarmennirnir hefðu breitt vaxdúk yfir burðarstólinn var ég gegndrepa þegar heim kom.

    Ég fór rakleitt í rúmið, var öldungis örmagna og með nístandi höfuðverk. Fyrsta eiginkona varð skelkuð og gerði boð fyrir lækni og þá var ég kominn með óráð.

    Ég var fárveikur í sex vikur. Fyrsta eiginkona heldur því fram að ég hafi því aðeins fengið bata að hún bað svo ákaft fyrir mér og brenndi daglega reykelsi í Musteri læknaguðsins. En ég vil heldur þakka það hinni einstöku hollustu tveggja hjákvenna minna sem skiptust á að sitja við rúmstokkinn hjá mér og mata mig á mixtúrunum sem hinn hálærði læknir hafði gefið fyrirmæli um.

    Þegar ég var orðinn nógu hress til að geta setið uppi spurði læknirinn hvað hefði komið fyrir í fornsölunni hjá Liu. Ég vildi ógjarnan ræða um hina furðulegu reynslu mína og sagði því að ég hefði allt í einu fengið svimakast. Læknirinn sendi mér kyndugt augnaráð en lét þar við sitja. Þegar hann kvaddi gat hann þess í framhjáhlaupi að svona óvænt kast af illkynjaðri heilabólgu gæti stundum komið þegar menn hefðu handfjatlað gamla muni sem tengdust voveiflegum dauða, vegna þess að slíkir munir gefa frá sér illa áru sem getur haft skaðvænleg áhrif á huga þeirra sem komast í of nána snertingu við þá.

    Þegar þessi klóki læknir var farinn gerði ég samstundis boð fyrir yfirþjóninn. Ég gaf honum fyrirmæli um að pakka öllum glæpamálamununum mínum niður í fjóra, stóra kassa sem síðan ætti að senda til Hwangs, föðurbróður fyrstu eiginkonu. Fyrsta eiginkona þreytist aldrei á að hrósa þessum Hwang föðurbróður sínum, en í rauninni er hann illgjarn leiðindagaur sem hefur unun af að standa í málaferlum. Ég samdi kurteislegt bréf til hans og sagðist vilja færa honum allt glæpamálasafnið mitt að gjöf sem dálítinn virðingarvott vegna hinnar víðtæku þekkingar hans á öllum málum sem tengdust bæði almennri löggjöf og refsilöggjöf. Ég ætti kannski að taka það fram að ég hef haft djúpa andúð á Hwang frænda síðan hann vélaði af mér dýrmætt landsvæði með lagarefjum. Ég vona staðfastlega að meðan hann er að kanna safnið mitt komist hann líka einn góðan veðurdag í of náið samband við einn af þessum skuggalegu munum og verði fyrir eins yfirgengilegri reynslu og ég varð fyrir í fornsölunni hans Lius.

    Nú ætla ég að reyna að setja fram á skipulegan hátt frásögnina af því sem ég upplifði þá stuttu stund sem ég bar höfuðbúnað Dees dómara. Ég læt hinum umburðarlynda lesanda eftir að dæma að hve miklu leyti þessi lýsing af þrem, löngu liðnum glæpum kemur heim við raunverulega atburði, og hversu mikið eru hugarórar sjúks og sárkvalins heila. Ég hef ekki hirt um að kanna staðreyndirnar í gömlum skýrslum. Eins og áður er sagt er ég búinn að gefa algerlega upp á bátinn allar rannsóknir á sögu glæpa og uppljóstrana. Ég hef engan áhuga lengur á þessum óheillavænlegu málum, því að nú sinni ég eingöngu söfnun minni á hinum frábæru celadon-gripum frá tímum Sung-keisaraveldisins.


    Síðla kvölds fyrsta daginn í Poo-yang, nýja umdæminu sínu, sat Dee dómari í einkaskrifstofu sinni bakvið réttarsalinn, niðursokkinn í lestur á skjölum héraðsins. Á skrifborðinu logaði á tveimur stórum messingkertastjökum og borðið var hlaðið skjölum og höfuðbókum. Flöktandi ljósið féll á græna, glitofna skikkju dómarans og gljáandi svart silkið í húfu hans. Öðru hvoru strauk hann ræktarlegt svart hökuskeggið eða gældi við síða bartana. En hann leit aldrei lengi af skjölunum fyrir framan sig.

    Við minna skrifborð andspænis dómaranum var Hoong Liang, óaðskiljanlegur liðsmaður hans að flokka dómskjölin. Hann var magur vexti, nokkuð við aldur, með grátt og gisið yfirskegg og þunnan hökutopp; hann var klæddur upplituðum, brúnum kufli og með litla kollhúfu. Hann hugsaði með sér að nú færi að líða að miðnætti. Endrum og eins gaut hann augunum til hávaxna og herðabreiða mannsins við hitt skrifborðið. Sjálfur hafði hann fengið sér langan síðdegislúr en Dee dómari hafði ekki átt eina einustu hvíldarstund allan liðlangan daginn. Þótt Hoong vissi að húsbóndi hans var hið mesta hraustmenni hafði hann samt dálitlar áhyggjur af honum.

    Fyrrum hafði hann verið í þjónustu föður Dees dómara og bar dómarann iðulega í fangi sér meðan hann var á barnsaldri. Seinna hafði hann fylgt dómaranum til höfuðborgarinnar þegar hann var að ljúka námi sínu þar og hann hafði einnig fylgt honum þegar hann starfaði úti á landsbyggðinni. Poo-yang var þriðja héraðsdómaraumdæmi Dees dómara. Öll þessi ár hafði Hoong verið honum trúnaðarvinur og ráðgjafi. Dee dómari hafði óhikað rætt við hann um öll mál, jafnt opinber sem einkamál, og Hoong hafði iðulega gefið honum góð ráð. Til að styrkja stöðu Hoongs hafði dómarinn skipað hann varðstjóra réttarins og eftir það var hann ævinlega ávarpaður sem „Hoong varðstjóri".

    Hoong varðstjóri rýndi í hlaða af skjölum og fór að hugsa um hinn erfiða dag sem Dee dómari átti að baki. Snemma um morguninn, þegar dómarinn og fylgdarlið hans, eiginkonur, börn og þjónar, höfðu komið til Poo-yang, hafði dómarinn haldið samstundis til móttökusalarins í dómhúsinu meðan aðrir úr fylgdarliðinu héldu að embættisbústað dómarans á norðurhluta svæðisins. Þar hafði fyrsta eiginkona Dees dómara með aðstoð yfirþjónsins stjórnað affermingu farangursvagnanna og byrjað að koma sér fyrir í hinum nýju húsakynnum. Dee dómari gaf sér ekki tíma til að skoða húsið. Hann varð að taka við innsiglum dómstólsins af forvera sínum, Feng dómara. Að athöfninni lokinni hafði hann boðað til sín allt starfsfólk dómstólsins, allt frá yfirritara og yfirmanni gæslumanna til fangelsisstjóra og fangavarða. Um hádegið hafði hann stjórnað dýrindis kveðjuveislu til heiðurs fráfarandi dómara og síðan hafði hann fylgt Feng dómara og fylgdarliði hans út fyrir borgarmörkin eins og hefðir mæltu fyrir um. Þegar Dee dómari kom til baka þurfti hann að taka á móti helstu góðborgurum í Poo-yang sem komu til að bjóða hann velkominn í héraðið.

    Eftir flýtiskvöldmáltíð á einkaskrifstofu sinni hafði Dee dómari tekið til við að kanna skjalasafn dómstólsins og starfsmennirnir voru á þönum við að rogast með leðurskjalahylki úr skjalasöfnunum. Eftir tvær klukkustundir hafði hann loks leyft réttarþjónunum að fara en sjálfur sýndi hann ekki á sér neitt fararsnið.

    En seint og um síðir ýtti Dee dómari frá sér skjalahlaðanum og hallaði sér aftur á bak í stólnum. Hann leit á Hoong varðstjóra undan úfnum brúnum og sagði brosandi:

    „Jæja, varðstjóri, hvernig væri að fá sér heitan tesopa?"

    Hoong varðstjóri reis á sætur í skyndi og sótti teketilinn að hliðarborðinu. Meðan hann hellti í bollana sagði Dee dómari:

    „Máttarvöldin hafa litið í náð til Poo-yang héraðs. Ég sé af skýrslunum að þetta er frjósamt land, hér hafa hvorki orðið flóð né þurrkar og bændunum búnast vel. Poo-yang hérað er við skurðinn mikla sem liggur yfir Keisaradæmi okkar frá norðri til suðurs og nýtur góðs af umferðinni um hann. Skip í eigu hins opinbera og einkaeign hafa alltaf viðkomu í hinni ágætu höfn utan við vesturhlið borgarinnar og helstu kaupmennirnir hagnast vel á viðskiptunum. Það er mikil fiskigengd í skipaskurðinum og ánni sem rennur út í hann og þannig geta fátæklingarnir aflað sér viðurværis og skammt héðan er allstór herstöð og hermennirnir eiga góð viðskipti við litlu veitingahúsin og búðirnar. Fólkið í héraðinu kemst vel af, unir vel sínum hag og greiðir skattana á tilsettum tíma.

    Síðast en ekki síst virðist forveri minn, Feng dómari, vera samviskusamur og dugandi maður því að skýrslurnar ná fram á þennan dag og allar skrár eru í fullkomnu lagi."

    Það hýrnaði yfir varðstjóranum og hann sagði:

    „Það gleður mig að heyra. Síðasta embætti þitt í Han-yiian var svo erfitt að ég hafði oft áhyggjur af heilsufari hans tignar!"

    Hann strauk gisinn hökutoppinn og bætti við:

    „Ég hef verið að rýna í dómskjölin og sé ekki betur en glæpir hafi verið mjög fátíðir hér í Poo-yang. Og hafi verið um afbrot að ræða hefur verið tekið á þeim af festu og réttlæti. Það er aðeins eitt mál sem bíður úrskurðar. Það er fremur hrottalegt nauðgunar- og morðmál sem hans náð, Feng dómari, leysti á nokkrum dögum. Þegar hinn virðulegi dómari fer yfir málskjölin á morgun getur hann séð að þar eru aðeins örfáir lausir endar."

    Dee dómari lyfti brúnum.

    „Oft eru það lausu endarnir sem valda erfiðleikum! Segðu mér frá þessu máli!"

    Hoong varðstjóri yppti öxlum.

    „Eiginlega liggur þetta alveg ljóst fyrir. Dóttir smákaupmanns, slátrara nokkurs að nafni Hsiao, fannst myrt í herbergi sínu og henni hafði verið nauðgað. Það kom á daginn að hún hafði átt elskhuga, úrkynjaðan námsmann að nafni Wang. Hsiao ákærði hann. Þegar Feng dómari hafði kannað sönnunargögnin og hlustað á vitnin, var talið sannað að Wang væri morðinginn, en hann fékkst ekki til að játa. Þá lét Feng dómari pynda Wang en maðurinn missti meðvitund áður en hann gat játað. Feng dómari varð síðan að segja skilið við málið því að komið var að brottför hans.

    Og fyrst búið er að finna morðingjann og afla nægra sönnunargagna gegn honum til að heimila pyntingar, má telja að málið sé upplýst."

    Stundarkorn þagði Dee dómari og strauk skeggið íhugandi. Síðan sagði hann:

    „Mig langar til að heyra alla málavexti, varðstjóri."

    Það dofnaði yfir svip Hoongs varðstjóra.

    „Það er komið undir miðnætti, virðulegi dómari, sagði hann hikandi. „Væri ekki betra að hans náð drægi sig nú í hlé og fengi sér góðan nætursvefn? Á morgun höfum við nægan tíma til að fara í saumana á þessu máli.

    Dee dómari hristi höfuðið.

    „Það var undarleg ósamkvæmni í þessum útdrætti þínum áðan. Nú er ég búinn að rýna í allar þessar stjórnunarskýrslur og glæpamál er einmitt það sem mig vantar til að koma skipulagi á hugsanir mínar! Fáðu þér sjálfur tebolla, varðstjóri, sestu niður í makindum og rektu staðreyndir málsins!"

    Hoong varðstjóri vissi hvað til síns friðar heyrði. Hann gekk að skrifborði sínu og rýndi í fáein skjöl. Síðan hóf hann máls sitt:

    „Fyrir tíu dögum, á sautjánda degi þessa mánaðar, kom slátrari nokkur að nafni Hsiao Foo-Han sem á litla sölubúð í Hálfmánastræti í suðvestur hluta borgarinnar, æðandi í öngum sínum á hádegisfund í þessum dómstóli. Í fylgd með honum vou þrjú vitni, sem sé Gao, borgarvörður í suðurhlutanum, Loong, klæðskeri sem býr andspænis verslun Hsiaos og formaður Slátraragildisins.

    Hsiao slátrari lagði fram skrifaða ákæru á Wang Hsiendjoong, námsmann í bókmenntum. Wang þessi er fátækur stúdent sem á einnig heima í nánd við slátrarabúðina. Hsiao fullyrti að Wang hefði kyrkt Hreinu Jaði, einkadóttur hans, og stolið tveim hárprjónum úr gulli. Hsiao gat þess að Wang námsmaður hefði átt í leynilegu ástarsambandi við dóttur sína í sex mánuði. Morðið var uppgötvað þegar stúlkan mætti ekki næsta morgun til að sinna skylduverkum sínum á heimilinu."

    „Þessi Hsiao slátrari, greip Dee dómari fram í, „hlýtur annaðhvort að vera alger auli eða ágjarn þrjótur! Hvað kom til að hann lét óátalið að dóttir hans ætti ástarævintýri á sínu eigin heimili og gerði það nánast að vændishúsi? Það er ekki að undra þótt slíkt kallaði á ofbeldi og morð!

    Hoong varðstjóri hristi höfuðið.

    „Nei, virðulegi dómari, sagði hann. „Skýringar Hsiaos slátrara varpa allt öðru ljósi á glæpinn!

    Annar

    Kafli

    Dee dómari hugleiðir glæpinn í hálfmánastræti; óvænt athugasemd hans kemur hoong varðstjóra á óvart

    Dee dómari spennti greipar í víðum skikkjuermunum.

    „Haltu áfram!" sagði hann festulega.

    „Þangað til þennan sama morgun," hélt Hoong varðstjóri áfram, „hafði Hsiao slátrara verið gersamlega ókunnugt um þá staðreynd að Hreina Jaði ætti elskhuga. Hún svaf á hanabjálka sem var í senn þvottahús og saumastofa yfir skemmu sem stendur spölkorn frá versluninni. Fjölskyldan hefur ekkert þjónustufólk, eiginkonan og dóttirin vinna öll húsverk. Tilraunir sem gerðar voru samkvæmt fyrirmælum Fengs dómara sýndu að jafnvel hávært samtal uppi á hanabjálka þar sem stúlkan svaf heyrðist hvorki inn í svefnhebergi slátrarans né til nágrannanna.

    Wang stúdent er af vel metinni ætt í höfuðborginni. En foreldrar hans eru látnir og vegna fjölskyldudeilna er hann eignalaus.

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1