Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Kona eldhúsguðsins
Kona eldhúsguðsins
Kona eldhúsguðsins
Ebook556 pages9 hours

Kona eldhúsguðsins

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Winnie fæðist inn í auðuga fjölskyldu í Kína, þar sem hún elst upp. Örlögum lífs hennar er stjórnað af fjölskyldu og eiginmanni hennar. Dóttir Winnie, Pearl, hefur alist upp í Bandaríkjunum. Pearl gengur um með sjúkdóm og mun það verða hlutverk Helen, frænku þeirra, að tengja mæðgurnar tvær saman í gegnum merkilega fortíð Winnie og kínverskan uppruna þeirra, sem Pearl hefur hingað til forðast sem heitan eldinn.Saga mæðgnanna endurspeglar stórt samhengi lífs marga Kínverja sem lifðu stórbrotnum lífum á fyrri hluta 20. aldar. Saga Winnie nær frá því þegar hún er lítil stúlka í Kína og til þess þegar hún flyst til Bandaríkjanna á efri árum. Ástarsambönd, flókin hjónabönd, fjölskyldutengsl og sönn vinátta eru þemu sem birtast í gegnum sögupersónurnar ásamt kínverskri speki Winnie sem gefa sögunni meiri líf og lit.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateJul 26, 2021
ISBN9788726696349

Related to Kona eldhúsguðsins

Related ebooks

Reviews for Kona eldhúsguðsins

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Kona eldhúsguðsins - Amy Tan

    Kona eldhúsguðsins

    Translated by Sverrir Hólmarsson

    Original title: The Kitchen God's Wife

    Original language: English

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1991, 2021 Amy Tan and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788726696349

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga Egmont - a part of Egmont, www.egmont.com

    Verslun guðanna

    Ævinlega þegar móðir mín talar við mig hefur hún samræðurnar eins og við værum þegar staddar í miðri orðasennu.

    „Pearl-ah, verð að fara, get ekki annað," sagði móðir mín þegar hún hringdi í vikunni sem leið. Eftir allmargar mínútur komst ég að því af hverju hún var að hringja: Helen frænka var að bjóða allri fjölskyldunni í trúlofunarveislu frænda míns, Bao-baos.

    „Öll fjölskyldan þýðir Kwong-fjölskyldan og Louie-fjölskyldan. Kwongarnir eru Helen frænka, Henry frændi, Mary, Frank og Bao-bao. Og núorðið á „Louie-fjölskyldan eiginlega bara við móður mína og mig þar sem faðir minn er dáinn og Samuel bróðir býr í New Jersey. Við höfum verið kölluð „öll fjölskyldan" síðan ég man eftir mér, enda þótt Kwongarnir séu ekki skyldir okkur heldur bara tengdir. Fyrri maður Helen frænku var móðurbróðir minn sem dó löngu áður en ég fæddist.

    Og svo er það frændi minn, Bao-bao, sem heitir réttu nafni Roger. Allir í fjölskyldunni hafa kallað hann Bao-bao síðan hann var kornabarn og bao-bao þýðir líka „elsku barn". Seinna héldum við áfram að kalla hann þetta vegna þess að hann var grenjuskjóða sem fór alltaf að væla undir eins og frænka mín og frændi komu inn og hélt því fram að við hinir krakkarnir hefðum verið að striða honum. Og þó að hann sé nú orðinn þijátíu og eins köllum við hann ennþá Bao-bao – og við erum ennþá að stríða honum.

    „Bao-bao? Hvernig getur hann haldið trúlofunarveislu? sagði ég. „Þetta verður þriðja hjónabandið hans.

    „Fjórða trúlofunin! sagði móðir mín. „Þeirri síðustu giftist hann ekki, sleit því eftir að við vorum búnar að senda gjöf. Auðvitað kallar Helen þetta ekki trúlofunarveislu. Hún segir að þetta sé ættarmót fyrir Mary.

    „Kemur Mary?" spurði ég. Samband okkar Mary er annað og meira en bara frænkna. Hún er gift Doug Cheu sem var í læknisfræði með manninum mínum, Phil Brandt, og það var reyndar hún sem kynnti okkur fyrir sextán árum.

    „Mary kemur, með mann og börn," sagði móðir mín. „Þau fljúga frá Los Angeles í næstu viku. Enginn tími til að fá afslátt. Miðar á fullu verði, hugsaðu þér!"

    „Í næstu viku? sagði ég og leitaði að afsökunum. „Það er ansi stuttur fyrirvari til að breyta okkar áætlunum. Við eigum að …

    „Helen frænka gerir ráð fyrir ykkur. Matarveisla á Water Dragon Restaurant – fimm borð. Ef þið komið ekki hefur hún hálfu borði of mikið."

    Ég sá Helen frænku fyrir mér gildna um hálft borð og er hún þó gild fyrir. „Hverjir koma fleiri?"

    „Fullt af málsmetandi fólki, svaraði móðir mín og sagði „málsmetandi eins og hún ætti við fólk sem henni líkaði ekki við. „Auðvitað segir hún fólki líka að Bao-bao verði þarna með nýju unnustuna. Og þá spyrja allir: „Unnustu? Er Bao-bao kominn með nýja unnustu? Þá segir Helen: „Æ, klaufi er ég. Þetta átti að vera óvænt tilkynning í veislunni. Lofaðu að segja engum.

    Móðir mín hnussaði. „Hún lætur alla vita svona. Svo nú verðurðu að koma með gjöf, líka óvænt. Hvað keyptirðu síðast?"

    „Handa Bao-bao og þessari háskólastelpu? Veit það ekki, kannski bakka undir konfekt."

    „Sendi hann bakkann til baka eftir að slitnaði upp úr því?"

    „Líklegast ekki. Ég man það ekki."

    „Þarna sérðu! Svona eru Kwongarnir. Ekki eyða eins miklu í þetta skipti."

    Tveim dögum fyrir kvöldverðinn hringir móðir mín aftur.

    „Nú er of seint að gera eitthvað í málinu," sagði hún eins og það væri mér að kenna hvað sem það var. Og svo sagði hún mér að Du frænka hefði dáið níutíu og sjö ára gömul. Þessi frétt kom mér á óvart; ég hélt hún væri dáin fyrir mörgum árum.

    „Hún arfleiddi þig að fallegum hlutum, sagði móðir mín. „Þú getur komið og sótt þá um helgina.

    Du frænka var reyndar skyld Helen, hálfsystir föður hennar eða eitthvað í þá áttina. Ég man hins vegar að það var móðir mín sem hafði alltaf hjálpað til við að annast Du. Hún fór út með ruslið fyrir hana einu sinni í viku. Hún kom í veg fyrir að gamla konan gerðist áskrifandi að tímariti í hvert skipti sem hún fékk freistandi inngöngutilboð. Hún lagði hvað eftir annað fram beiðni um að opinber sjúkrastuðningur greiddi jurtalyfin sem Du notaði.

    Árum saman kvartaði móðir mín undan því að hún skyldi gera þetta allt – ekki Helen. „Helen, hún býðst ekki einu sinni til þess, var móðir mín vön að segja. Og svo einn daginn – fyrir kannski svona tíu árum – stakk ég upp í móður mína. Ég sagði: „Af hverju segirðu ekki bara Helen frænku hvað er að angra þig og hættir að kvarta? Þetta var það sem Phil hafði lagt til að ég segði, skynsamleg aðferð til að fá móður mína til að átta sig á hvað það var sem mæddi hana svo hún gæti loksins gert eitthvað raunhæft í málinu.

    En þegar ég sagði þetta horfði móðir mín á mig steinþegjandi og sviplaus í framan. Og eftir þetta hætti hún að kvarta við mig. Og þegar við fórum aftur að tala saman var aldrei framar minnst á Du. Ég hugsa það sé þess vegna sem ég fór að halda að hún væri dáin fyrir löngu.

    „Hvað var það? spurði ég þegar ég heyrði fréttina og reyndi að tala stillilega eins og þetta væri áfall. „Hjartaslag?

    „Strætisvagn," sagði móðir mín.

    Du hafði víst verið við hestaheilsu alveg fram í lokin. Hún var á ferð í strætisvagni þegar hann slangraði til hliðar til þess að forðast það sem móðir mín kallaði „tryllitæki með brjáluðum táningum" sem fór yfir á rauðu. Du kastaðist fram fyrir sig og datt á gólfið. Móðir mín hafði auðvitað farið strax að heimsækja hana á spítalann. Læknarnir fundu ekkert annað en þessar venjulegu bólgur og skrámur. En Du sagðist ekki hafa tíma til að bíða eftir að læknarnir kæmust að því sem hún vissi þegar. Svo hún lét móður mína skrifa fyrir sig erfðaskrá og hún átti að fá þrjátíu ára gamla sófann hennar, svarthvíta sjónvarpið hennar og þess háttar nokkuð. Seint sama kvöld dó hún úr heilameiðslum sem ekki höfðu fundist.

    „Bao-bao Roger sagði að við ættum að fara í mál, eina milljón, skýrði móðir mín frá. „Geturðu hugsað þér? En sá hugsunarháttur. Þegar við heyrðum að Du væri dáin grét hann ekki einu sinni, hann vill bara græða peninga á líkinu! Huh! Af hverju ætti ég að segja honum að hún arfleiddi hann að tveim lömpum? Kannski gleymi ég að segja honum það.

    Móðir mín tók sér málhvíld. „Hún var góð kona. Fjórtán blómvendir nú þegar. Og svo hvíslaði hún: „Það fá auðvitað allir tuttugu prósent afslátt hjá okkur.

    Móðir mín og Helen frænka eiga saman Ding Ho-blómabúðina við Ross Alley í Chinatown. Þeim datt í hug að stofnsetja verslunina fyrir um það bil tuttugu og fimm árum, rétt eftir að faðir minn dó og Helen var sagt upp í vinnunni. Ég býst við að blómabúðin hafi á sinn hátt orðið draumurinn sem átti að koma í stað áfallanna miklu.

    Móðir mín hafði notað peningana sem hún hafði fengið að gjöf frá kínversku baptistakirkjunni þar sem faðir minn var aðstoðarprestur. Og Helen notaði peninga sem hún hafði sparað saman af launum sínum í annarri blómabúð, en þar hafði hún fengið þjálfun í starfinu. Það var líka þar sem hún var rekin. Fyrir að vera „of heiðarleg" tjáði hún okkur að ástæðan hefði verið. En móðir mína grunaði að það hefði verið vegna þess að Helen hvatti viðskiptavinina alltaf til að kaupa ódýrustu blómvendina til að spara peninga.

    „Stundum sé ég eftir að hafa gifst inn í kínverska fjölskyldu," sagði Phil þegar hann heyrði að við yrðum að fara til San Francisco, hundrað og fimmtíu kílómetra báðar leiðir frá húsinu okkar í San Jose og ekki bætti úr skák að spila átti heila umferð í fótboltanum yfir helgina. Þó að honum sé farið að þykja verulega vænt um móður mína eftir þau fimmtán ár sem við höfum verið gift gera kröfur hennar honum ennþá gramt í geði. Og helgi með stórfjölskyldunni er tvímælalaust ekki það besta sem hann getur hugsað sér þegar hann á frí frá spítalanum.

    „Ertu viss um að við verðum að fara? sagði hann annars hugar. Hann var á kafi í að leika sér með nýja hugbúnaðinn í ferðatölvunni sinni. Hann ýtti á hnapp. „Hana! æpti hann að skjánum og klappaði saman höndunum. Phil er fjörutíu og tveggja ára með grátt strítt hár og flestum finnst hann vera hlédrægur og virðulegur. En á þessari stundu var hann jafn uppveðraður og smástrákur að leika sér að leikfangaherskipi.

    Ég þóttist vera jafn upptekin við að lesa atvinnuauglýsingarnar. Fyrir þrem mánuðum tók ég við starfi sem tal- og máltæknir við skólana hér í bænum. Og þó að ég væri í rauninni ánægð með starfið hafði ég undir niðri áhyggjur af að ég hefði misst af betra tækifæri. Móðir mín hafði komið þessari flugu inn hjá mér. Strax eftir að ég sagði henni að ég hefði verið tekin fram yfir tvo aðra umsækjendur sagði hún: „Tvo? Voru ekki nema tveir sem vildu þessa stöðu?"

    Og nú leit Phil upp frá tölvunni, áhyggjufullur. Og ég vissi um hvað hann var að hugsa, um „heilsufar mitt eins og við sögðum, um MS-sjúkdóminn sem hingað til hafði ekki bæklað mig en gert það að verkum að ég þreyttist fljótt. „Þetta verður erfið helgi, sagði hann. „Auk þess hélt ég að þú þyldir ekki Bao-bao frænda þinn. Svo ekki sé minnst á að Mary kemur. Sá nefapi, drottinn minn."

    „Mmm."

    „Svo þú getur ekki sloppið?"

    „Mm-nei."

    Hann andvarpaði. Og þar með lauk þessari umræðu. Á þeim árum sem við höfum búið saman hefur okkur lærst að sneiða hjá að ræða um fjölskyldu mína, um skyldur mínar. Einu sinni var þetta helsta ágreiningsefni okkar. Fyrst eftir að við giftum okkur sagði Phil oft að ég væri rekin áfram af ótta og sektarkennd. Ég svaraði að bragði að hann væri eigingjarn, að það yrði oft að gera fleira en gott eða skemmtilegt þætti. Og þá sagði hann að eina ástæðan fyrir því að við yrðum að fara væri sú að mér hefði verið talin trú um að ég ætti engra kosta völ og að ég væri að gera það sama við hann. Og svo fæddist fyrsta barnið okkar, hún Tessa, og ári seinna var sjúkdómur minn greindur. Sennur okkar tóku á sig aðrar myndir. Við hættum að deila sjálfbirgingslega um heimspekilegan ágreining varðandi valkosti einstaklingsins, kannski vegna þess að Phil fylltist skyldurækni gagnvart barninu, og mér reyndar líka, eða að minnsta kosti heilsufari mínu. Þar með voru valkostir einstaklingsins orðnir viðsjált deiluefni, byrði sem varð að bera þangað til hún félli burt.

    Þessa dagana rífumst við frekar um smærri og tilteknari mál, til dæmis að ég láti undan kröfu Tessu um að fá að horfa á sjónvarp hálftíma í viðbót, en ekki um mismunandi viðhorf okkar til aga almennt. Og á endanum verðum við nærri alltaf sammála – kannski of auðveldlega – vegna þess að við vitum þegar hvernig flestar deilur okkar enda.

    Þetta er þægilegra líf, eins auðvelt og við getum gert það. Samt angrar það mig dálítið annað slagið. Stundum óska ég þess reyndar að við gætum snúið aftur til fyrri daga þegar Phil hélt fram sínum skoðunum og ég varði mitt sjónarmið og sannfærði að minnsta kosti sjálfa mig um að ég hefði á réttu að standa. Núorðið – til dæmis í dag – er ég hins vegar ekki almennilega viss um hvers vegna ég læt ennþá undan kröfum fjölskyldunnar. Ég mundi að vísu aldrei viðurkenna þetta fyrir Phil, en mér er farin að gremjast þessi skylda. Ég hlakka ekkert til að hitta Kwongana, einkum ekki Mary. Og alltaf þegar ég hitti móður mína finnst mér ég stanslaust verða að gæta mín á jarðsprengjum.

    Svo að kannski var það út af sektarkennd gagnvart Phil eða reiði út í sjálfa mig að ég gerði þetta: ég beið þangað til daginn eftir með að segja Phil að við mundum verða að gista – til að vera líka við jarðarför Du ffænku.

    Þessa skelfilegu helgi höfðum við Phil ákveðið að fara snemma inn í borgina til að koma okkur fyrir og kannski fara með stelpurnar í dýragarðinn. Daginn áður höfðum við átt í kurteislegri sennu við móður mína um það hvar við ættum að gista.

    „Þetta er mjög fallega boðið, Winnie, sagði Phil við móður mina í símann. „En við erum búin að panta á hóteli. Ég hlustaði í hinum símanum, fegin að ég hafði stungið upp á að hann hringdi og bæri fram afsakanir.

    „Hvaða hóteli?" spurði móðir mín.

    „Á TraveLodge," laug Phil. Við áttum reyndar pantað á Hyatt.

    Æ, alltof dýrt! ályktaði móðir mín. „Af hverju sóa peningum svona? Þið getið gist hjá mér, nóg pláss.

    Og Phil hafði kurteislega hafnað boðinu. „Nei, nei, í alvöru talað, það er alltof mikið vesen."

    „Vesen fyrir hvern?" sagði móðir mín.

    Þannig að núna er Phil að koma stelpunum fyrir í herbergi sem yngri bróðir minn hafði einu sinni. Þar gista þær alltaf þegar við Phil förum á læknaráðstefnur. Raunar segjum við bara stundum að það sé læknaráðstefna og förum svo heim og gerum öll húsverkin sem við komumst aldrei yfir þegar börnin eru heima.

    Phil hefur ákveðið að Tessa, sem er átta ára, eigi að sofa í rúminu en Cleo, þriggja ára, eigi að fá beddann sem hægt er að brjóta saman.

    „Það er komið að mér að fá rúmið, segir Cleo. „Ha-bu sagði það.

    „En Cleo," andmælir Tessa, „þér finnst beddinn góður."

    „Ha-bu! Cleo kallar á móður mína sér til björgunar. „Ha-bu!

    Við Phil erum í gamla herberginu mínu sem enn er troðfullt af gamaldags húsgögnum. Ég hef ekki gist hér síðan ég giftist. Burtséð frá því að allt er einum of hreint lítur herbergið alveg eins út og þegar ég var unglingur; tvíbreitt rúmið með þunglamalegri grind og fótum, snyrtiborðið með kringlóttum spegli og innlögðum skreytingum úr aski, eik, mösurviði og perlumóður. Skrítið hvað ég hataði þetta borð einu sinni. Nú finnst mér það í rauninni bráðsnoturt, art deco. Skyldi móðir mín vilja gefa mér það?

    Ég tek eftir því að hún hefur sett gömlu kínversku inniskóna mína undir rúmið, þá sem eru báðir með gat við stórutána; aldrei neinu hent ef það skyldi þurfa að nota það aftur tuttugu árum seinna. Og Tessa og Cleo hljóta að hafa verið að róta í skápunum, leita í kössum með gömlum leikföngum og drasli. Nálægt inniskónum liggja dúkkuföt á víð og dreif, höfuðdjásn með gervidemöntum og bleikt skartgripaskrín úr plasti með orðunum „Leynifjársjóður minn" á lokinu. Þær hafa meira að segja hengt aftur á dyrnar þessa bjánalegu stjörnu í Hollywood-stíl, þessa sem ég bjó til í sjötta bekk, þar sem nafnið mitt er stafað með perlum: P-E-A-R-L.

    „Vá, segir Phil með hálfvitarödd. „Þetta er svaka miklu flottara en að búa á TraveLodge. Ég slæ hann á lærið. Hann klappar á ósamstæðu gestahandklæðin sem liggja á rúminu. Þessi handklæði voru jólagjöf frá Kwongunum rétt eftir að fjölskylda mín flutti frá Chinatown út í Richmond-hverfið og hlutu þess vegna að vera þrjátíu ára gömul.

    Og nú koma Tessa og Cleo þjótandi inn í herbergið og hrópa að þær séu tilbúnar að fara í dýragarðinn. Phil ætlar með þær meðan ég fer í Ding Ho-blómabúðina til að hjálpa til. Móðir mín bað mig ekki beinlínis um aðstoð en hún sagði nokkuð snögg upp á lagið að Helen frænka færi snemma úr búðinni til að búa sig undir matarveisluna miklu – enda þótt það væri mikið að gera í búðinni og jarðarför Du frænku væri daginn eftir. Og svo minnti hún mig á að Du hefði alltaf verið mjög hreykin af mér – í minni fjölskyldu er „hreykinn það sem við komumst næst því að segja „elskar. Og hún stakk upp á að ég gæti kannski komið við snemma til að velja krans.

    „Ég ætti að vera komin aftur hálf sex," segi ég við Phil.

    „Mig langar að sjá Afríkufílana, segir Tessa og hlammar sér á rúmið okkar. Og svo telur hún á fingrum sér: „Og kóalabirni og mauraætu og hnúfubak. Ég hef oft velt fyrir mér hvaðan hún hafi þennan sið að telja upp hluti – frá Phil? frá mér? úr sjónvarpinu?

    „Segðu „má ég fá að sjá, áminnir Phil, „og ég held ekki það séu neinir hvalir í dýragarðinum."

    Ég sný mér að Cleo. Ég hef stundum áhyggjur af að hún verði of óvirk í skugganum af sjálfsöryggi systur sinnar. „Og hvað langar þig til að sjá?" spyr ég hana blíðlega. Hún horfir á tærnar á sér og leitar að svari.

    „Nefapa," segir hún að lokum.

    Þegar ég kem inn í Ross Alley fær allt í kringum mig þegar í stað dempaðra yfirbragð. Hér er ekki lengur glampandi síðdegissól og hávaðinn á gangstéttunum fullum af fólki sem er að gera laugardagsinnkaupin í Chinatown. Hér í öngstrætinu eru hljóðin lágværari, deyfast fljótt, og birtan er mistruð og næstum grænleit.

    Hægra megin strætisins er gamla rakarastofan hans Als Fook sem ég sé að notar ennþá rafmagnsklippur til að snyrta bartana á viðskiptavinum sínum. Hinum megin götunnar eru sömu gömlu fjölskyldufyrirtækin, þar á meðal eitt sem sendir minjar um forfeðurna aftur til Kína – gegn þóknun. Lengra niður með götunni hefur spákona aðsetur sitt. Handskrifað skilti sem fest er með límbandi á gluggann staðhæfir að þar séu „bestu heillatölurnar, bestu spádómsráðin en á skilti sem er fest á dyrnar stendur: „Starfsemi hætt.

    Þegar ég geng framhjá dyrunum skrjáfar í gulri rúllugardínu. Og allt í einu birtist lítil stúlka sem þrýstir lófum á glerið. Hún starir á mig alvörugefin á svip. Ég veifa en hún veifar ekki á móti. Hún horfir á mig eins og ég eigi hér ekki heima og þannig líður mér líka sjálfri.

    Og nú er ég við Sam Fook-verslunina, nokkrum húsum frá blómabúðinni. Þar eru hillurnar fullar af happagripum og postulíni og tréstyttum af happaguðum, hundruðum saman. Ég hef kallað þennan stað Verslun guðanna eins lengi og ég man. Þar er líka selt þess háttar dót sem fólk fær sér fyrir búddistajarðarfarir – andapeningar, pappírsskartgripir, reykelsi og þannig lagað.

    „Halló, Pearl!" Það er Hong, eigandinn, sem bendir mér að koma inn. Þegar ég hitti hann fyrst hélt ég að hann héti Sam Fook eins og verslunin. Seinna komst ég að því að sam fook þýðir „þrefold blessun" á kantonsku og eftir því sem móðir mín segir – eða réttara sagt viðskiptavinir hennar frá Hong Kong – hljómar sam fook eins og brandari.

    „Ég sagði honum að hann ætti að breyta nafninu, hafði móðir mín sagt. „Mundi færa meiri gæfu. En hann segir að það sé þegar verslað allt of mikið hjá honum.

    „Sæl, Pearl, segir Hong þegar ég geng inn. „Ég er með dálítið hérna handa mömmu þinni fyrir jarðarförina á morgun. Viltu færa henni það frá mér?

    „Sjálfsagt." Hann réttir mér mjúkan böggul.

    Ætli þetta þýði ekki að jarðarför Du verði búddísk. Þó að hún hefði sótt baptistakirkjuna árum saman hættu bæði hún og móðir mín að fara þangað strax eftir að faðir minn dó. Annars held ég ekki að Du hafi nokkurn tima aflagt annan átrúnað sinn, sem ekki var beinlínis frá Búdda kominn heldur bara allir hjátrúarsiðirnir sem eiga að færa gæfu og afstýra ógæfu. Þegar ég kom upp í íbúðina hennar var ég vön að leika mér með altarið hennar, pínulítið rautt musteri sem í var mynd af kínverskum guði. Fyrir framan það var krukka úr koparlíki full af brunnum reykelsisstöngum og við hliðina á henni fórnargjafir: appelsínur, sígarettur og smáflaska af viskí. Þetta var svona kínversk útgáfa af jólajötunni.

    Og nú kem ég að sjálfri blómabúðinni. Hún er á jarðhæð í þriggja hæða húsi. Búðin er á stærð við einfaldan bílskúr og er bæði kunnugleg og dapurleg að sjá. Á framhliðinni er rauð og flögnuð hurð með ryðgaðri grind til varnar gegn innbrotsþjófum. Á slípúðu glerinu stendur: „Ding Ho-blómabúðin" á ensku og kínversku. En þessu er auðvelt að veita enga eftirtekt þar sem staðurinn er dálítið frá götunni og lítur alltaf út eins og þar sé dimmt og lokað og þannig er það líka í dag.

    Móðir mín og Helen völdu búðinni þannig ekki beinlínis fjölfarinn stað. Samt virðist þeim hafa vegnað vel. Það er út af fyrir sig stórmerkilegt. Í öll þessi ár hafa þær næstum því ekkert gert til að fylgjast með tímanum eða gera búðina viðfelldnari. Ég opna dyrnar og það hringlar í bjöllum. Samstundis er ég umlukin þungum pelargóníuilmi en þá lykt hef ég alltaf tengt við útfararstofur. Búðin er dauflega upplýst, aðeins ein flúrpípa yfir peningakassanum – og þar er móðir mín og stendur á litlum skemli svo hún sjái yfir búðarborðið, með ódýr lesgleraugu úr kjörbúð á nefinu.

    Hún er að tala hratt á kínversku í símann og veifar mér óþolinmóð að koma inn og bíða. Hárið á henni er sett upp í hnút á hnakkanum og hver einasti lokkur alltaf á sínum stað. Í dag hefur hún gert hnútinn þykkari með knippi af gervihári sem hún kallar „tagl" og ber aðeins við sérstök tækifæri.

    En nú heyri ég á hvellri tónhæðinni og mörgum neikvæðum „vú-vú-vú hljóðum að hún á í orðasennu á Shanghai-máli, ekki bara venjulegri mandarínkínversku. Þetta er alvarlegt. Sennilegast er hún að deila við heildsala í hverfinu eftir því að dæma hvernig hún slær tölur inn á vasatölvu og les síðan útkomurnar upp eins og þær væru greinar úr hegningarlögunum. Hún slær á „engin sala hnappinn á búðarkassanum og þegar skúffan skyst fram dregur hún upp samanbrotna kvittun, opnar hana með snöggri úlnliðshreyfingu og les tölur upp af henni líka.

    „Vú! Vú! Vú!" segir hún ákveðin.

    Búðarkassinn er bara notaður til að geyma hitt og þetta og hann er bilaður. Þegar móðir mín og Helen frænka keyptu búðina með öllum búnaði komust þær fljótlega að því að í hvert skipti sem þær seldu fyrir upphæð með tölunni 9 lamaðist kassinn gersamlega. En þær ákváðu að hafa kassann áfram engu að síður, út af ræningjum sagði móðir mín mér. Ef þær yrðu einhvern tímann rændar, og það hefur enn ekki gerst, mundi ræninginn ekki fá annað en fjóra dollara og hrúgu af smámynt, einu peningana sem geymdir eru í kassanum. Alvörupeningarnir eru faldir undir búðarborðinu, í tekatli með stút sem hefur tvisvar brotnað af og verið límdur á aftur. Og teketillinn stendur á hitaplötu sem vantar á innstungu. Ætli hugsunin sé ekki sú að enginn mundi nokkurn tímann ræna búðina til að fá sér bolla af köldu te.

    Ég sagði móður minni og Helen einu sinni að enginn ræningi mundi trúa því að búðin ætti ekki nema fjóra dollara í eigu sinni. Mér fannst þær ættu að setja að minnsta kosti tuttugu dollara í kassann til að gera brelluna trúverðugri. En móður minni fannst tuttugu dollarar of mikið til að láta ræningja fá. Og Helen sagði að hún mundi deyja úr áhyggjum yfir að missa þessa peninga – og hvaða gagn mundi þá vera að brellunni?

    Þegar þetta var íhugaði ég að gefa þeim tuttugu dollarana sjálf til þess að sanna að ég hefði á réttu að standa. En svo hugsaði ég: Hef ég það? Og þegar ég lit í kringum mig í búðinni núna verður mér ljóst að kannski höfðu þær rétt fyrir sér. Hverjum mundi nokkurn tímann detta í hug að hann hefði meira upp úr því að ræna þessa búð en fyrir farmiða í strætisvagninn?

    Búðargólfið er það sama og fyrir tuttugu og fimm árum, daufgrátt steinsteypugólf en nú orðið glansandi af sliti. Búðarborðið er klætt með sama plastinu, með grænu og hvítu bambusmynstri að ofan og viðarmynstri á hliðunum. Jafnvel síminn sem móðir mín er að nota er sama gamla svarta gerðin með skífu sem snýst og tausnúru sem hvorki vinst né strekkist. Og í áranna rás hafa grænlitir veggirnir upplitast og fengið á sig bletti, síðan sprungið í jarðskjálftanum 1989. Þannig að staðurinn hefur nú fengið svipmót hrörnonar og myglu.

    „Ho, ho," heyri ég nú móður mína segja. Hún virðist hafa komist að einhvers konar samkomulagi við heildsalann. Loks skellir hún tólinu á. Þó að við höfum ekki sést síðan á jólum, fyrir næstum mánuði, föðmumst við ekki og kyssumst óformlega eins og við Phil gerum þegar við hittum foreldra hans og vini. Þess í stað gengur móðir mín fram fyrir búðarborðið og tautar: „Hugsaðu þér! Maðurinn er að svindla á mér! Reyndi að láta mig borga fyrir óvenju hraða afgreiðslu. Hún bendir á kassa með birgðum af vír, glæru sellófani og grænum vaxpappír. „Það er ekki mér að kenna að hann gleymdi að koma í síðustu viku.

    „Hvað mikið aukalega?" spyr ég.

    „Þijá dollara!" hrópar hún upp yfir sig. Ég hætti aldrei að furða mig á því tilfinningauppnámi sem móðir mín kemst í út af örfáum dollurum.

    „Af hverju gleymirðu þessu ekki? Þetta eru ekki nema þrír dollarar …"

    „Það eru ekki peningarnir! segir hún öskureið. „Hann er að svindla á mér. Það er ekki rétt. Í síðasta mánuði reyndi hann líka að hafa af mér annars konar aukagreiðslu. Ég sé að hún er að byrja á smáatriðalýsingu á þeirri deilu þegar tvær vel klæddar, Ijóshærðar konur rýna inn um gættina.

    „Er opið hérna? Talar einhver ensku?" spyr önnur þeirra með Texas-hreim.

    Það birtir strax yfir móður minni og hún kinkar kolli, bendir þeim að koma inn. „Komið, komið," kallar hún.

    „Ó, við viljum ekki vera að trufla, segir önnur konan. „En þú gætir kannski sagt okkur hvar verksmiðjan er sem framleiðir spádómasmákökur.

    Áður en ég get svarað stífnar móðir mín í framan, hristir höfuðið og segir: „Skil ekki. Tala ekki ensku."

    „Af hverju sagðirðu þetta? spyr ég þegar konurnar tvær hörfa aftur út á götu. „Ég vissi ekki að þér væri svona illa við túrista.

    „Ekki túrista, segir hún. „Konan sem á þessa verksmiðju var einu sinni andstyggileg við mig. Því ætti ég að senda henni góða viðskiptavini?

    „Hvernig ganga viðskiptin hér?" spyr ég og reyni að beina samtalinu frá reiðilestrinum sem áreiðanlega er í vændum um smákökukonuna neðar í götunni.

    „Skelfilega! segir hún og bendir á vörur sínar hér og þar í búðinni. „Svo mikið að gera – drep mig á allri þessari vinnu. Líttu á, bara í morgun varð ég að búa allt þetta til.

    Og ég lit á. Það eru engar nýstískulegar skreytingar úr sveigðum greinum eða körfur með framandlegum blómum sem heita latínunöfnum. Móðir mín opnar glerhurð á kæliskáp sem eitt sinn geymdi gosdrykki og bjórflöskur.

    „Sérðu?" segir hún og bendir á litla nellikublómvendi og hnappagatsskreytingar sem er snyrtilega raðað eftir litum: hvítar, bleikar og rauðar. Við eigum eflaust að bera eitthvað af þessu í kvöld.

    „Og þetta, heldur hún áfram. Næsta hilla er troðfull af hvítum glervösum og í hverjum þeirra er aðeins einn rósahnappur, burknablað og örlítið af brúðarslæðu. Það eru svona blómaskreytingar sem maður gefur sjúklingum sem leggjast inn á spítala í smáaðgerðir, þegar maður veit ekki hvort viðkomandi á eftir að vera þar sérlega lengi. Faðir minn fékk margar af þessu tagi þegar hann fór fyrst á spítala og svo seinna rétt áður en hann dó. „Voða vinsælar, segir móðir mín.

    „Þessar varð ég líka að búa til, segir hún og bendir á neðstu hilluna þar sem eru nokkrar litlar borðskreytingar. „Sumar fyrir kvöldið í kvöld. Sumar fyrir kveðjusamsæti, segir móðir mín og kannski vegna þess að þetta virðist ekki hafa mikil áhrif á mig bætir hún við: „Fyrir aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Wells Fargo."

    Hún gengur um til að skoða handverk sín annars staðar í búðinni. Meðfram veggjunum standa stórir útfararblómsveigar á trönum. „Aha?" segir móðir mín og bíður eftir áliti mínu. Mér hafa alltaf fundist blómsveigar vera hræðilega dapurlegir, eins og skreyttir björgunarhringir sem er kastað út of seint.

    „Mjög fallegir," segi ég.

    Og nú stýrir hún mér að því sem er stolt hennar og gleði. Fremst í búðinni, á eina staðnum sem nýtur dempaðrar dagsbirtu nokkra klukkutíma á dag, eru „endingargóð kjarakaup" eins og hún kallar þau – kærleikstré, gúmmíplöntur, dvergrunnar og lítil tangerínutré, skreytt með rauðum borðum sem óska þessu og hinu fyrirtækinu til hamingju með opnun nýju verslunarinnar.

    Móðir mín hefur alltaf verið mjög hreykin af þessum rauðu borðum. Hún skrifar ekki þessar venjulegu heillaóskir eins og „Gæfa og gengi eða „Velgengni og langlífi. Öll orðatiltækin, skrifuð með gylltum kínverskum stöfum, eru hennar eigin hugljómanir, hugsanir hennar um lífið og dauðann, gæfuna og vonina: „Fyrsta flokks líf fyrir fyrsta þarnið ykkar, „Tvöföld hamingja í brúðkaupi þrefaldar hagsæld fjölskyldunnar, „Góð peningalykt í nýja veitingahúsinu ykkar, „Heilsan snýr skjótt aftur, vonin varir.

    Móðir mín heldur því fram að það sé út af þessum borðum sem Ding Ho-blómabúðin hefur notið velgengni öll þessi ár. Með velgengni geri ég ráð fyrir að hún eigi við að sama fólkið hefur komið aftur og aftur síðustu tuttugu og fimm árin. En nú er það minna og minna vegna feiminna brúða og ringlaðra brúðguma og meira og meira vegna sjúkra, aldinna og látinna.

    Hún brosir skelmislega og togar í handlegginn á mér. „Nú skal ég sýna þér kransinn sem ég bjó til handa þér."

    Ég er felmtri slegin en svo rennur upp fyrir mér um hvað hún er að tala. Hún opnar dyrnar aftast í búðinni. Þar fyrir innan er niðamyrkur og ég greini ekkert nema höfugan ilminn af jarðarfararblómunum. Móðir mín fálmar eftir spottanum sem kveikir ljósið. Loks fellur skerandi birta á herbergið frá nakinni peru sem sveiflast fram og aftur á snúru sem hangir neðan úr háu loftinu. Og það sem ég sé er skelfilegt og fagurt, röð eftir röð af skínandi krönsum úr hvítum gardeníum og gulum krýsantemum, með rauða borða sem hanga niður frá trönunum. Þeir líta út eins og himneskir þjónar, allir eins klæddir.

    Það þyrmir yfir mig hvað það liggur mikil erfiðisvinna að baki þessu. Ég sé fyrir mér litlar hendurnar á móður minni, gamla og þurra húðina, önnum kafnar við að toga í skökk blöð, stinga inn hvössum vírendum, koma hverju blómi fyrir á réttum stað.

    „Þessi hérna. Hún bendir á krans í miðri fremstu röð. Hann lítur út alveg eins og allir hinir. „Þetta er þinn. Ég skrifaði óskirnar sjálf.

    „Hvað stendur?" spyr ég.

    Fingur hennar hreyfist hægt niður rauðan borðann meðan hún les á formlegri kínversku sem ég skil ekki. Og svo þýðir hún: „Vertu sæl, frænka, himnaríki er heillaríkt. Frá uppáhaldsfrænku þinni, Pearl Louie Brandt og eiginmanni."

    „Æ, ég var nærri búin að gleyma. Ég rétti henni böggulinn frá Sam Fook. „Hong bað mig um að fá þér þetta.

    Móðir mín klippir á borðann og opnar pakkann. Inni í honum er rúmur tugur af búntum af andapeningum, peningum sem Du á að geta notað til að múta sér leið inn í kínverska himnaríkið.

    „Ég vissi ekki að þú tryðir á svona lagað," segi ég.

    „Hvað er að trúa, segir móðir mín önuglega. „Þetta er að sýna virðingu. Og svo segir hún lágt. „Ég á hundrað milljón dollara. Æ! Hún var góð kona."

    „Þá leggjum við í hann," segi ég og anda djúpt um leið og við leggjum af stað upp tröppurnar að veislusalnum.

    „Pearl! Phil! Þið eruð komin." Þetta er Mary frænka mín. Ég hef ekki hitt hana þau tvö ár sem eru liðin síðan þau Doug fluttu til Los Angeles. Við bíðum meðan Mary ryður sér braut gegnum mannþröngina. Hún kemur þjótandi til okkar og kyssir mig, nuddar síðan á mér kinnina og hlær að roðanum sem hún hefur bætt á hana.

    „Þú lítur æðislega út! segir hún og horfir síðan á Phil. „Og þið bæði, í alvöru. Alveg stórkostleg.

    Mary hlýtur að vera orðin fjörutíu og eins árs, um það bil hálfu ári eldri en ég. Hún er mikið máluð og með gerviaugnahár og hárið á henni er ruglingsleg hrúga af skrýfðum liðum. Silfurrefssjal er alltaf að renna út af öxlinni á henni. Þegar hún ýtir því upp í þriðja skiptið hlær hún og segir: „Doug gaf mér þetta í jólagjöf, þvílíkt vesen." Ég velti fyrir mér af hverju hún sé að þessu veseni núna, eftir að við erum komin inn í veitingasalinn. En svona er Mary, elsta barn fjölskyldnanna tveggja, þannig að henni hefur alltaf fundist skipta miklu að líta út eins og hún komist vel af.

    „Jennifer og Michael, kallar hún og smellir fingrum. „Komið hingað og heilsið upp á frænku og frænda. Hún dregur börn sín tvö á táningsaldri upp að hlið sér og kreistir þau bæði. „Svona nú, hvað segið þið?" Þau stara á okkur luntaleg á svip, síðan rymur í þeim og þau kinka kolli.

    Jennifer er orðin þybbin en svartmáluð augun í henni sýnast lítil og hörð. Hárið á hvirflinum er teygt upp í oddmjóa tinda en afgangurinn fellur slyttislega niður á mitt bak. Hún lítur út eins og hún hafi verið í rafmagnsstólnum. Og andlitið á Michael – það er farið að taka á sig skörp horn og hakan er þakin bólum. Þau eru hætt að vera sæt og ég velti fyrir mér hvort þetta eigi líka eftir að koma fyrir Tessu og Cleo, hvort mér eigi eftir að finnast það sama um þær.

    „Þið sjáið hvernig þau eru, segir Mary afsakandi. „Jennifer fékk fyrstu nælonsokkana og háhælaskóna á jólunum. Hún er svo stolt, ekki mömmustelpan lengur.

    „Æ, mamma!" vælir Jennifer, slítur sig síðan frá móður sinni og hverfur í fjöldann. Michael fylgir henni eftir.

    „Sjáiðið að Michael er næstum eins hár og Doug? segir að Mary og horfir hreykin á son sinn þar sem hann röltir burt. „Hann er í fijálsíþróttaliðinu í skólanum og þjálfarinn segir að hann sé besti hlauparinn þeirra. Ég veit ekki hvaðan hann hefur þessa hæð og þessa íþróttahæfileika – allavega ekki frá mér. Þegar ég fer út að skokka er ég gersamlega bækluð á eftir, segir Mary og hlær. Og svo, þegar henni verður ljóst hvað hún hefur sagt, hverfur brosið allt í einu og hún skimar um hópinn. „Ó, þarna eru foreldrar Dougs. Ég verð að heilsa upp á þau."

    Phil kreistir á mér höndina og þó að við segjum ekkert veit hann að ég er reið. „Gleymdu þessu bara," segir hann.

    „Það mundi ég gera," ansa ég, „ef hún gæti það. Hún gerir þetta alltaf."

    Þegar við Phil giftum okkur voru Mary og Doug svaramenn okkar þar sem þau höfðu kynnt okkur. Þau voru þau fyrstu sem við trúðum fyrir að ég væri ólétt að Tessu. Og fyrir svona sjö árum var það Mary sem dró mig með sér í þolfimi þegar ég kvartaði undan því að ég væri alltaf þreytt. Og seinna, þegar ég varð eitthvað svo einkennilega þróttlaus í hægri fótlegg, lagði Phil til að ég færi til Dougs sem þá var bæklunarlæknir á læknamiðstöð fyrir íþróttamenn.

    Nokkrum mánuðum seinna sagði Doug mér að það virtist eitthvað annað ama að mér og ég varð þegar í stað ofsahrædd og hélt hann ætti við beinkrabbamein. Hann fullvissaði mig um að hann ætti bara við að hann hefði ekki vit á að komast að því sjálfur. Svo hann sendi mig til gamals drykkjufélaga síns úr háskóla sem var besti taugasjúkdómafræðingurinn í San Francisco. Eftir rannsóknir sem mér fannst standa yfir árum saman – eftir að ég var búin að sannfæra sjálfa mig um að þreytan stafaði af reykingum og þróttleysið í fætinum væri settaugarbólga eftir meðgönguna – sagði drykkjufélaginn mér að ég væri með mænusigg.

    Mary hafði grátið móðursýkislega og síðan reynt að hugga mig og það hafði gert illt verra. Um tíma leit hún inn með pottrétti eftir „æðislegum uppskriftum sem hún „hafði bara rekist á, þangað til ég sagði henni að hætta. Og seinna gerði hún mikið úr því að segja mér að vinur Dougs hefði fullvissað hana um að tilfelli mitt væri í rauninni „afar milt", eins og hún væri að tala um veðrið, og lífslíkur mínar hefðu ekkert breyst, um sjötugt gæti ég enn sveiflað golfkylfu með góðum árangri þó að ég yrði að gæta þess að hlífa mér við tilfinningalegu og líkamlegu álagi.

    „Svo að allt er í rauninni eins og það var, sagði hún dálítið of glaðlega, „nema hvað Phil verður að vera betri við þig. Og hvað getur verið athugavert við það?

    „Ég leik ekki golf" var það eina sem ég sagði við hana.

    „Ég skal kenna þér," sagði hún hressilega.

    Auðvitað var Mary bara að reyna að vera góð. Ég játa að það var meira mér að kenna að vinátta okkar varð dálítið þvinguð. Ég sagði henni aldrei berum orðum hvað samúðarverk hennar særðu mig mikið. Auðyitað gat hún ekki vitað að ég þurfti ekki neinn til að hugga mig. Ég vildi ekki láta dekra við mig með pottréttum. Vinsemd var uppbót. Vinsemdin minnti mig á að líf mitt hafði breyst, var alltaf að breytast, að fólki fannst ég ætti bara að sætta mig við þetta allt og verða sterk og hugrökk, upplýstari, friðsamari. Ég vildi ekkert af þessu. Þess í stað langaði mig að beina athygli minni að því sama í lífinu og annað fólk gerði – hafa áhyggjur af menntun barnanna minna en ekki því hvort ég yrði viðstödd þegar þau útskrifuðust, að gleðjast yfir að hafa lést um þrjú kíló en ekki óttast að vöðvarnir væru farnir að rýrna. Mig langaði í það sem var orðið ógerningur, mig langaði að gleyma.

    Ég var öskureið yfir því að Doug og drykkjubróðir hans höfðu rætt heilsufar mitt við Mary. Ef þeir höfðu sagt henni þetta hlutu þeir líka að hafa sagt henni hitt, að það var engin leið að segja fyrir um framvindu þessa sjúkdóms. Ég gæti fengið hlé í tíu, tuttugu eða fjörutíu ár. Eða þá að sjúkdómurinn gæti allt í einu farið af stað á morgun og ég á niðurleið, hraðar og hraðar, og mundi enda í hjólastól eða því sem verra var.

    Ég veit að Mary vissi af þessu því að ég stóð hana oft að því að gefa mér hornauga þegar við mættum bækluðum manni. Einu sinni hló hún taugaóstyrk þegar hún ætlaði að leggja bílnum á stæði sem reyndist vera fyrir fatlaða. „Ó, sagði hún og flýtti sér að bakka. „Þetta höfum við sko ekki þörf fyrir.

    Upphaflega hétum við Phil hvort öðru að lifa eins eðlilegu lífi saman og kostur væri. „Eins eðlilegu og kostur væri – þetta var eins og merkingarlaus þula. Ef mér varð á að detta um leikfang sem hafði verið skilið eftir á gólfinu eyddi ég tíu mínútum í að biðja Tessu afsökunar fyrir að hafa æpt á hana og svo heilli klukkustund í að ræða hvort „eðlileg manneskja hefði dottið um sama hlut. Einu sinni þegar við fórum niður á strönd beinlínis í þeim tilgangi að gleyma þessu öllu fylltist ég þess í stað sjúklegum hugsunum. Ég horfði á öldurnar naga ströndina og ég velti því fyrir mér upphátt við Phil hvort ég yrði einhvern daginn slyttisleg eins og þang eða stíf eins og krabbi.

    Og Phil sökkti sér niður í gömlu kennslubækurnar sínar og hverja einustu læknisfræðigrein sem hann gat fundið um þetta efni. Og svo varð hann þunglyndur út af því að læknismenntun hans veitti honum ekki betri skilning á sjúkdómi sem var aðeins hægt að segja að væri „af óþekktum uppruna, „ákaflega breytilegur, „óútreiknanlegur, og „engin sérstök meðferð er til. Hann sótti ráðstefhur um taugasjúkdóma. Hann fór einu sinni með mig á fund í stuðningshópi MS-sjúklinga en við snerum við um leið og og við sáum hjólastólana. Hann gerði það sem hann kallaði „vikulegar öryggisathuganir", prófaði taugaviðbrögð mín og fylgdist með styrknum í útlimum mínum. Við fluttum meira að segja í hús með sundlaug til þess að ég gæti þjálfað vöðvana daglega. Við minntumst ekki á að húsið var á einni hæð og þar voru fá þrep og breiðir gangar sem einhvern daginn væri hægt að fara um á hjólastól ef þörfkrefði.

    Við töluðum saman á dulmáli eins og við tilheyrðum einhverjum leynisöfnuði, leituðum að lækningu eða mynstri sjúkdómseinkenna sem við gætum haft auga með, einhverju sem frelsaði okkur undan stanslausum áhyggjum. Og á endanum lærðist okkur að hætta að tala um framtíðina, hvorki um hugsanlegar hrellingar né um óljósar vonir. Við hugsuðum heldur ekki um fortíðina, um hvort þetta væri til komið af völdum veiru eða erfða. Við fengumst við það sem var hér og nú, litla sigra á hversdagslegum skapraunum lífsins – að fá Tessu til að nota koppinn, að leiðrétta skekkju í greiðslukortareikningnum okkar, að komast að því hvers vegna bíllinn hikstaði í hvert skipti sem við settum hann í þriðja gír. Þetta urðu okkar óbreytanlegu stærðir, það sem við gátum einangrað og haft stjórn á í heimi óþekktra stærða.

    Ég get þess vegna ekki álasað Phil fyrir að láta eins og allt sé eðlilegt. Mig langar meira til þess en hann. Og nú get ég ekki sagt honum hvernig mér líður í raun og veru, hvernig þetta er. Það eina sem ég veit er að ég vakna felmtri slegin á hverjum morgni, dauðhrædd um að eitthvað hafi breyst á meðan ég svaf. Og suma daga fæ ég meinloku ef ég týni einhverju, til dæmis hnappi, og finnst að líf mitt verði ekki eðlilegt aftur fyrr en ég finn það. Suma daga finnst mér Phil vera ónærgætnasti maður í heimi, bara af því hann gleymdi að kaupa einn hlut á innkaupalistanum. Suma daga raða ég í nærfataskúffuna mína eftir litum, eins og það geti skipt sköpum. Þetta eru slæmu dagarnir.

    Á góðum dögum minnist ég þess að ég er lánsöm – lánsöm samkvæmt nýjum viðmiðunum. Á síðustu sjö árum hefur sjúkdómurinn ekki tekið sig upp nema einu sinni, sem þýðir að ég missi auðveldlega jafnvægið, einkum ef ég er í uppnámi eða að flýta mér. En ég get ennþá gengið. Ég fer enn út með ruslið. Og stundum get ég í raun og veru gleymt, í nokkra klukkutíma eða jafnvel næstum heilan dag. Auðvitað er það svo hræðilegt þegar ég man það aftur – oft óvænt – að ég lifi í því óræða landi sem er kallað sóttarhlé.

    Það er alltaf hætta á að þetta ótrygga jafnvægi bregðist þegar ég hitti móður mína. Því að þá finn ég sárast fyrir því að ég er með þennan hryllilega sjúkdóm og hef ekki sagt henni frá því.

    Ég ætlaði að segja henni frá þessu. Í allmörg skipti hafði ég ráðgert það. Þegar sjúkdómurinn greindist fyrst sagði ég: „Mamma, þú veist um þetta vesen með fótinn sem ég sagði þér frá. Guði sé lof þá reyndist það ekki vera krabbamein heldur …"

    Og strax fór hún að segja mér frá viðskiptavini sem var nýdáinn úr krabbameini, hvað hann hafði þjáðst lengi, hvað fjölskyldan hafði pantað marga kransa. „Fyrir löngu sá ég að þessi fæðingarblettur á andlitinu á honum var að stækka, sagði hún. „Ég sagði við hann: Farðu til læknis. Ekkert mál, sagði hann, elliblettur – gerði ekkert í því. Þegar hann dó, nefið og kinnin – alveg uppétin! Og svo varaði hún mig alvarlega við: „Þess vegna verðurðu að gæta þín vel."

    Þegar Cleo fæddist og allt gekk vel hjá okkur báðum reyndi ég aftur að segja móður minni það. En hún greip fram í fyrir mér, í þetta skipti til að harma að faðir minn skyldi ekki vera á lífi til að sjá barnabörnin sín. Og svo hóf hún sitt venjulega og endalausa eintal um að faðir minn hefði hlotið örlög sem hann átti ekki skilið.

    Faðir minn dó úr magakrabba þegar ég var fjórtán. Og árum saman braut móðir mín heilann um orsakirnar, rétt eins og hún gæti enn afturkallað þetta áfall með því að finna ástæðuna fyrir því.

    „Hann var svo góður maður, sagði móðir mín harmþrungin. „Hvers vegna dó hann þá? Og stundum nefndi hún vilja guðs sem ástæðu, þótt hún orðaði það að vísu öðruvísi. „Hann hlustaði á vandræði allra annarra," sagði hún. „Hann kyngdi þeim þangað til hann varð veikur af því. Æ! Jing-gai að finna honum annað starf."

    Jing-gai sagði móðir mín alltaf þegar hún átti við, ég hefði átt. Jing-gai þýddi að hún hefði getað breytt gangi örlaganna, hún hefði getað hindrað áfallið. Í mínum augum þýddi jing-gai að líf móður minnar var þrungið eftirsjá sem dofnaði ekki með tímanum.

    Ef eitthvað var þá óx eftirsjáin eftir því sem hún leitaði að fleiri ástæðum fyrir dauða föður míns. Einu sinni kom hún með sína eigin útgáfu af orsökunum – að rafvirkinn hefði verið veikur þegar hann setti nýjar leiðslur í eldhúsið. „Hann lagði þessa veiki inn í húsið okkar," sagði hún. „Það er satt. Ég var að komast að því að rafvirkinn dó – líka úr krabbameini. Jing-gai að velja einhvern annan."

    Og svo varð þessi hjátrú, sem ég kalla í huganum, að kenningu hennar um Ósköpin níu. Hún sagðist einhvern tímann hafa heyrt að maður sé feigur ef hann verður fyrir átta slæmum uppákomum. Ef maður sér ekki þá áttundu fyrir og afstýrir henni er sú níunda ævinlega banvæn. Og svo braut hún heilann um hverjar þessar átta slæmu uppákomur gætu hafa verið, hvernig hún hefði átt að vera nógu glögg til að koma auga á þær í tíma.

    Enn þann dag í dag gerir það mig vitlausa að hlusta á þessar margvíslegu tilgátur hennar þar sem trúarbrögð, læknisfræði og hjátrú blandast saman við hennar eigin átrúnað. Hún hefur enga trú á rökfærslum annarra – í hennar augum eru rökfærslur bara lymskulegar afsakanir fyrir áföllum, mistökum og slysum. Og að áliti móður minnar gerast engin slys. Hún er eins og kínversk útgáfa af Freud, bara verri. Allt á sér ástæðu. Allt hefði mátt hindra. Þegar ég heimsótti hana síðast til dæmis, felldi ég um koll innrammaða mynd af föður mínum og glerið brotnaði. Móðir mín tíndi upp glerbrotin og kveinaði: „Af hverju gerðist þetta? Fyrst hélt ég að þetta væri bara venjuleg spurning en svo sagði hún við mig: „Veist þú það?

    „Þetta var slys, sagði ég. „Ég rak olnbogann í hana. Og auðvitað hafði spurning hennar komið af stað vangaveltum mínum um hvort þessi klaufaskapur minn væri merki um afturför.

    „Af hverju þessa mynd?" tautaði hún með sjálfri sér.

    Svo ég sagði móður minni það aldrei. Í fyrstunni langaði mig ekkert til að hlusta á kenningar um sjúkdóm minn, hver hefði verið orsökin að þessu, hvernig hún hefði átt að gera þetta og hitt til að afstýra því. Mig langaði ekki að hún minnti mig á það.

    Og nú þegar svona langur tími er liðinn er eins og það geri sjúkdóminn tíu sinnum verri að ég hef ekki sagt henni þetta ennþá. Ég er alltaf minnt á hann í hvert skipti sem ég sé hana, í hvert skipti sem ég heyri rödd hennar.

    Mary veit þetta og þess vegna reiðist ég henni ennþá – ekki vegna þess að hún leggur sig í líma við að forðast að tala um heilsufar mitt. Ég er reið vegna þess að hún sagði móður sinni, Helen frænku frá þessu.

    „Ég varð að segja henni það, útskýrði hún kæruleysislega. „Hún var alltaf að segja við mig: Segðu Pearl að að heimsækja móður sína oftar, það er ekki nema klukkustundarakstur. Segðu Pearl að hún ætti að bjóða móður sinni að flytja til sín, þá væri móðir hennar ekki eins einmana. Loksins sagði ég mömmu að ég gæti ekki sagt þér að gera neitt af þessu. Og hún spurði mig af hverju. Mary yppti öxlum. „Þú veist hvernig mamma er. Ég gæti ekki logið að henni. Auðvitað lét ég hana sverja að segja ekki móður þinni, að þú mundir segja henni það sjálf."

    „Ég get ekið bíl," sagði ég. „Og þetta er ekki ástæðan fyrir því að ég hef ekki boðið móður minni að búa

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1