Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Hvorki meira né minna
Hvorki meira né minna
Hvorki meira né minna
Ebook303 pages4 hours

Hvorki meira né minna

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Háskólakennari, listaverkasali, læknir og enskur lávarður; fjórir menn með ólíkan bakgrunn koma saman með eitt sameiginlegt markmið: Að hnekkja á Harvey Metcalfe, sem sveik af þeim aleiguna. Hver hefur sín ráð til að vinna aftur það sem hann tapaði, en sá fjórði kemur með snilldaráform um að vinna saman að markmiðinu. Þeir þurfa þó að fara varlega - Metcalfe er klókur og jafnframt mjög hættulegur. Upphefst því eltingarleikur sem liggur meðal annars um Monte Carlo, veðreiðarnar í Ascot, Wall Street og fínustu listagallerí í London. Markmiðið er aðeins eitt: Að vinna aftur þá formúu sem Harvey Metcalfe skuldar - hvorki meira né minna.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateJan 26, 2022
ISBN9788728200698
Author

Jeffrey Archer

Jeffrey Archer, whose novels and short stories include the Clifton Chronicles, Kane and Abel and Cat O’ Nine Tales, is one of the world’s favourite storytellers and has topped the bestseller lists around the world in a career spanning four decades. His work has been sold in 97 countries and in more than 37 languages. He is the only author ever to have been a number one bestseller in fiction, short stories and non-fiction (The Prison Diaries). Jeffrey is also an art collector and amateur auctioneer, and has raised more than £50m for different charities over the years. A member of the House of Lords for over a quarter of a century, the author is married to Dame Mary Archer, and they have two sons, two granddaughters and two grandsons.

Related to Hvorki meira né minna

Related ebooks

Related categories

Reviews for Hvorki meira né minna

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Hvorki meira né minna - Jeffrey Archer

    Hvorki meira né minna

    Translated by Björn Jónsson

    Original title: Not a penny more, not a penny less

    Original language: English

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1976, 2021 Jeffrey Archer and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728200698

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    Tileinkuð Mary

    og feitu mönnunum

    Hart móti hörðu

    Inngangur

    „Jörg, þú átt von á 7 miljónum dala frá Crédit Parisien í reikning númer tvö klukkan sex síðdegis, að Mið-Evróputíma; þú leggur þetta inn yfir nóttina hjá traustustu bönkum og fésýslufyrirtækjum. Að öðrum kosti fjárfestir þú á Evródalamarkaðinum til morguns. Er þetta skilið?"

    „Já, Harvey."

    „Leggðu eina miljón dala inn í Banco do Minas Gerais, Rio de Janeiro, á nöfn Silvermans og Elliotts og aflýstu bráðabirgðaláninu í Barclays Bank í Lombard Street. Er þetta skilið?"

    „Já, Harvey."

    „Kauptu gull út á lausafjárreikning minn þangað til þú ert kominn upp í 10 miljónir dala og bíddu svo þangað til þú færð nánari fyrirmæli. Reyndu að kaupa þegar smálækkun verður og vertu ekkert að flýta þér – vertu þolinmóður. Er það skilið?"

    „Já, Harvey."

    Harvey Metcalfe sá reyndar að síðustu fyrirmælin væru óþörf. Jörg Birrer var einn af íhaldssömustu bankamönnunum í Zürich og hafði reynst einna slóttugastur þeirra síðasta aldarfjórðunginn – og það skipti mestu máli í augum Harveys.

    „Geturðu hitt mig á Wimbledon þriðjudaginn 25. júní klukkan tvö síðdegis; ég verð í sætinu mínu í Centre Court."

    „Já, Harvey."

    Sambandið rofnaði. Harvey kvaddi aldrei. Hann bar ekkert skynbragð á það sem gerði lífið ljúft og geðfellt og það var um seinan fyrir hann að fara að átta sig á því nú. Hann greip símtólið, hringdi í sjö stafa númerið sem átti að gefa honum samband við Lincoln Trust í Boston og spurði eftir ritara sínum.

    „Ungfrú Fish?"

    „Já, herra."

    „Finndu heimildaskrána um Prospecta Oil og eyðileggðu hana. Eyðileggðu öll bréfaskipti sem henni eru tengd og skildu engin verksummerki eftir. Er þetta skilið?"

    „Já, herra."

    Sambandið rofnaði. Harvey Metcalfe hafði gefið svipuð fyrirmæli þrisvar sinnum síðustu tuttugu og fimm árin og ungfrú Fish hafði lærst að spyrja einskis.

    Harvey dró andann djúpt, dæsti næstum; þetta var hljóðlátt sigurandvarp. Nú átti hann að minnsta kosti 25 milljónir dala og ekkert gat orðið honum til hindrunar. Hann opnaði flösku af Krug kampavíni frá 1964, flutta inn af Hedges &Butler í London. Hann dreypti hægt á drykknum og kveikti í Romeo y Julieta Churchill vindli sem ítalskur innflytjandi smyglaði til hans frá Kúbu í tvö hundruð og fimmtíu vindla kössum einu sinni í mánuði. Hann hreiðraði um sig og lét sér líða vel; það var ástæða til að halda svolítið upp á þetta. Nú var klukkan 12.20 á hádegi í Boston, Massachusetts – næstum kominn tími til að snæða hádegisverð.

    Í Harley Street, Bond Street, King’s Road og Magdalen College, Oxford, var klukkan 6.20 síðdegis. Fjórir menn, sem hver um sig hafði enga hugmynd um tilvist hinna, gaumgæfðu markaðsverð Prospecta Oil í nýjasta tölublaði Evening Standard. Verðið var 9.10 dalir. Fjórmenningarnir voru allir efnamenn og hlökkuðu til þess hver og einn að skunda áleiðis á þeirri framabraut sem við þeim blasti. Í fyrramálið yrðu þeir allir öreigar.

    1

    Það hefur alltaf reynst erfitt að eignast eina miljón á löglegan hátt. Það hefur alltaf verið heldur auðveldara að eignast eina miljón á ólöglegan hátt. Að halda miljóninni þegar henni hefur verið náð er ef til vill erfiðast af öllu. Henryk Metelski var einn þeirra fáu sem tókst þetta allt saman. Og þótt hann eignaðist miljón á löglegan hátt eftir að hann hafði komist yfir miljón með ólöglegum hætti, tókst honum að halda öllu fé sínu og það skipaði honum skör ofar flestum öðrum.

    Henryk Metelski fæddist í Lower East Side í New York 17. maí 1909 og lifði kreppuna á mesta mótunarskeiði sínu. Foreldrar hans voru pólskir og höfðu flust til Bandaríkjanna um aldamót. Faðir Henryks var bakari og hafði honum reynst auðvelt að fá vinnu í New York, þar sem innfluttir Pólverjar sérhæfðu sig í rúgbrauðsgerð og rekstri smáveitingastaða. Báðir foreldrarnir hefðu fegnir séð Henry ná frama á menntabrautinni, en hæfileikar hans lágu ekki á því sviði og hann varð aldrei neinn fyrirmyndarnemandi í gagnfræðaskóla. Þetta var lítill slóttugur stráklingur, litinn hornauga af skólastjórnendum vegna tómlætis hans þegar rætt var fjálglega um Frelsisstríðið forðum daga og Frelsisklukkuna, og þar að auki stjórnaði hann prangi á áfengi og öðrum vímugjöfum í skólanum. Það sem lífið hafði best að bjóða fékkst ekki ókeypis að áliti Henryks litla, og því var honum jafneðlilegt að leita fjár og valda eins og ketti að elta mús.

    Þegar Henryk var fjórtán ára, bólugrafinn en bærilega haldinn, dó faðir hans úr því sem við köllum nú krabba. Móðir hans lifði bónda sinn aðeins fáeina mánuði, en síðan stóð piltur einn uppi og varð að sjá um sig sjálfur. Að réttu lagi hefði Henryk átt að fara á munaðarleysingjahæli, en á miðjum þriðja áratugnum var leikur einn fyrir strák að láta sig hverfa í New York – þótt erfiðara væri að halda líftórunni. Henryk varð bráðsnjall að bjarga sér, og sú reynsla átti eftir að duga honum vel síðar á ævinni.

    Hann flæktist um East Side í New York með reyrða beltisól og opin augu, burstaði skó hér og þvoði upp þar en leitaði stöðugt að inngangi í völundarhúsið þar sem auður og metorð biðu innst inni. Hann fann þennan inngang þegar Jan Pelnik herbergisfélagi hans, sendill í Kauphöllinni í New York, veiktist skamma hríð eftir að hann lét ofan í sig pylsu sem krydduð var með salmonellu. Henryk var sendur af stað til að skýra yfirsendli frá óhappinu, og í frásögn hans magnaðist matareitrunin í berkla; síðan tókst honum að kjafta sjálfan sig inn í starfið sem þarna losnaði. Að því búnu skipti hann um verustað, fór í nýja einkennisbúninginn og hóf störf.

    Flest skilaboðin sem hann flutti á þriðja áratugnum hljóðuðu upp á kaup. Við mörgum þeirra var brugðist umsvifalaust og þetta voru blómatímar. Henryk sá ýmis dusilmenni auðgast stórum, en sjálfur var hann aðeins áhorfandi. Eðlishvöt hans beindi honum í átt til þeirra sem efnuðust meira í kauphallarviðskiptum á einni viku en honum yrði auðið á héilli ævi með þessu kaupi.

    Hann fór að rýna í kauphallarviðskiptin, hlustaði með íhygli á samræður manna, las skilaboðin og áttaði sig á því hvaða dagblöð hann ætti að lesa vandlega. Þegar hann varð átján ára átti hann fjögurra ára reynslu að baki í Wall Street; fjögur ár sem flestir sendlar hefðu einungis notað til að ganga erinda annarra og bera blaðsnepla manna á milli; fjögur ár sem voru Henryk Metelski jafndýrmæt og meistaragráða frá Harvard Business School (og grunaði hann þá síst að einn góðan veðurdag ætti hann eftir að tala í þeirri æruverðugu stofnun).

    Í júlí 1927 fór hann með skilaboð á miðjum morgni til Halgarten &Co., stöndugs verðbréfamiðlara, og kom við á salerninu eins og venja hans var. Hann hafði mótað ákveðna starfshætti er fólust í því að hann lokaði sig inni í salernisklefa, las skilaboðin sem hann flutti áleiðis, velti því fyrir sér hvort einhver akkur væri í þeim og ef svo var, hringdi hann til Vitolds Gronowich, roskins Pólverja, er rak lítið trygginga- og miðlarafyrirtæki fyrir landa sína. Henryk átti von á 20 til 25 dala aukaþóknun á viku fyrir þessar upplýsingar. Gronowich hafði hins vegar ekki umtalsvert fé til að leggja fram á markaðinn og lét aldrei neinar vísbendingar berast aftur til boðberans.

    Þegar Henryk sat þarna í klefanum, varð honum ljóst að hann hefði ekki neina hversdagsvitneskju í höndunum. Ríkisstjórinn í Texas ætlaði að veita Standard Oil Company heimild til að leggja olíuleiðslu frá Chicago til Mexíkó, og höfðu allir opinberir aðilar sem hlut áttu að máli þegar fallist á þessa hugmynd. Markaðsaðilar vissu ofur vel að olíufélagið hefði leitað eftir þessari heimild í nærri heilt ár. Skeytinu átti að skila umsvifalaust í hendur Tuckers Anthony, miðlara Johns D. Rockefeller. Þessi leiðsla veitti öllum Norðurríkjunum beinan aðgang að olíu, og því fylgdi aukinn hagnaður. Henryk sá þegar að hlutabréf Standard Oil hlytu að stíga í verði þegar fréttin bærist út, ekki síst þegar á það var litið að Standard Oil hafði þegar náð völdum í 90% olíuhreinsunarstöðva í Bandaríkjunum.

    Að öllum jafnaði hefði Henryk látið þessa vitneskju berast umsvifalaust til Gronowich karlsins, og ætlaði einmitt að fara að gera það þegar hann sá talsvert feitlaginn mann (sem hafði greinilega snætt of marga hádegisverði í Wall Street) missa blað á gólfið þegar hann gekk fram af salerninu. Þar sem enginn annar var þarna nærstaddur, hirti Henryk blaðið og smokraði sér aftur inn í klefann; það var aldrei að vita nema eitthvað væri á þessu að græða. Blaðið reyndist vera ávísun á 50 000 dali, stíluð á nafn konu að nafni Rose Rennick.

    Henryk var snar í snúningum. Hann hljóp við fót fram af salerninu og stóð brátt úti á Wall Street. Hann hraðaði sér yfir í lítið kaffihús í Rector Street, hugsaði ráð sitt gaumgæfilega og hófst síðan handa.

    Fyrst seldi hann ávísunina í útibúi Morgan Bank suðvestan megin í Wall Street; hann var klæddur snyrtilegum einkennisbúningi kauphallarsendils og vissi að menn myndu ætla að hann ræki erindi einhverra virtra aðila. Að því búnu fór hann í Kauphöllina og keypti þar af miðlara 2 500 hlutabréf í Standard Oil á 19.85 dali bréfið og átti þá eftir 126.61 dali að greiddri umboðsþóknun. Þessa upphæð lagði hann inn á bankareikning í Morgan Bank. Að því búnu sneri hann sér að venjulegum störfum, en beið jafnframt spenntur eftir tilkynningu frá skrifstofu ríkisstjórans; hann var með allan hugann við Standard Oil og lét meira að segja hjá líða að koma við á salerninu til að gægjast í skilaboðin sem hann flutti áleiðis.

    Engin tilkynning kom. Henryk vissi ekki að henni var seinkað þangað til Kauphöllinni hafði verið lokað formlega klukkan 4 síðdegis, af því að ríkisstjórinn var sjálfur önnum kafinn að kaupa upp hlutabréf hvar sem hann gat læst klónum í þau, enda hækkaði verðið upp í 20.05 dali fyrir lokun án þess að nokkur opinber tilkynning hefði verið gefin út. Henryk hélt heimleiðis þetta kvöld miður sín af skelfingu yfir því sem hann hafði gert. Hann sá í huganum að sér yrði varpað í fangelsi; hann myndi missa vinnuna og allt sem hann hefði reynt að búa sér í haginn undanfarin fjögur ár.

    Honum varð ekki svefnsamt þessa nótt og hann varð sífellt órólegri í litlu herbergiskytrunni. Klukkan 1 þoldi hann ekki lengur við, fór á fætur, rakaði sig, klæddi sig og fór með lest til Grand Central stöðvarinnar. Þaðan gekk hann upp á Times Square og keypti fyrstu útgáfu af Wall Street Journal skjálfandi höndum. Þar blasti við honum risavaxin fyrirsögn:

    RÍKISSTJÓRI VEITIR ROCKEFELLER HEIMILD TIL OLÍULEIÐSLU

    og undirfyrirsögn:

    verðbréf standard oil verða eftirsótt

    Henryk gekk eins og í dvala yfir í næsta næturkaffihús, á East 42nd Street, pantaði þar stóran hamborgara með frönskum og reif hann í sig; hann minnti fremur á mann sem snæðir síðasta morgunverð sinn áður en hann sest í rafmagnsstólinn en þann sem fetar fyrstu skref sín í átt til auðsöfnunar. Hann las ítarlega um málið á forsíðu, en síðan hélt frásögnin áfram á bls. 14, og klukkan 4 um morguninn hafði hann keypt fyrstu þrjár útgáfurnar af New York Times og fyrstu tvær útgáfurnar af Herald Tribune. Henryk hraðaði sér heim á leið, svífandi í sælli vímu, og dreif sig í einkennisbúninginn í einni svipan. Hann kom til Kauphallarinnar klukkan 8 um morguninn og vann störf sín eins og svefngengill; nú sýslaði hugur hans allur við næsta þátt ráðagerðarinnar.

    Þegar Kauphöllin var opnuð formlega, fór Henryk yfir í Morgan Bank og tók 50 000 dali að láni gegn tryggingu í 2 500 hlutabréfunum í Standard Oil, sem höfðu verið verðlögð þá um morguninn á 21.30 dali. Hann lagði 50 000 dalina inn á reikning sinn og lét bankann gefa sér ávísun á 50 000 dali stflaða á frú Rose Rennick. Að því búnu gekk hann út og leitaði uppi heimilisfang og símanúmer velgjörðarkonu hans, er hafði ekki minnstu hugmynd um það sem gerst hafði.

    Frú Rennick var ekkja er hafði framfæri af fésýslu þeirri sem bóndi hennar sálaður hafði stundað; bjó hún í lítilli leiguíbúð við Park Avenue, einu vænsta hverfi New York borgar. Hún undraðist nokkuð þegar Henryk Metelski hringdi til hennar og beiddist þess að fá að ræða við hana um áríðandi einkamál. Henni þótti viðmælandinn trúverðugri þegar hann minntist á Halgarten &Co. og féllst hún á að hitta hann í Waldorf-Astoria klukkan 4 síðdegis.

    Henryk hafði aldrei komið í Waldorf-Astoria, en eftir fjögur ár í Kauphöllinni voru fá hótel eða veitingahús sem hann hafði ekki heyrt nefnd í samræðum annarra. Hann vissi að frú Rennick yrði fúsari til að drekka te með honum þar en eiga tal við mann með annað eins nafn og Henryk Metelski í heimahúsum, ekki síst vegna þess að pólski málhreimurinn var langtum skýrari þegar hann talaði í síma en ræddi við fólk augliti til auglits.

    Henryk eldroðnaði fyrir sveitamannslegt útlit sitt þegar hann stóð á þykku mjúku gólfteppinu í forsal Waldorf-Astoria. Honum fannst allir stara á sig og því hnipraði hann sig, stuttur og þéttvaxinn, niður í stóran leðurstólinn. Sumir aðrir þarna inni voru ærið þéttvaxnir líka, þótt Henryk byggist fastlega við að holdafar þeirra stafaði af Pommes de Terre Maître d’Hôtel fremur en frönskum kartöflum. Nú var um seinan að óska þess að hann hefði makað heldur minna klístri í svart hrokkið hárið og iðrast þess að skórnir hans voru svona illa gengnir að aftan. Hann klóraði í leiðinlega graftarbólu við annað munnvikið. Jakkafötin hans, sem höfðu léð honum hugmyndir um sjálfstraust og góðan efnahag í kunningjahópi, voru gljáandi af sliti, orðin of þröng, ódýr í sniðinu og ósmekkleg. Hann fór illa við umhverfíð, var lágkúrulegur í samanburði við fastagestina og þar sem hann fann til vesældar sinnar í fyrsta skipti á ævinni læddist hann svo lítið bar á inn í Jefferson-salinn, skreið í felur bak við eintak af New Yorker og bað þess í hljóði að gestur hans kæmi sem fyrst. Þjónar sveimuðu stimamjúkir kringum borð þau sem vel voru setin en leiddu Henryk hjá sér með þeim hroka sem fylgir óskeikulli eðliskennd. Einn þjónninn hafði ekki annað fyrir stafni en trítla léttum skrefum um tedrykkjusalinn og bjóða molasykur með silfurtöngum úr hanskaklæddri hendi. Henryk fannst feikilega til um þetta allt.

    Rose Rennick kom nokkrum mínútum síðar með tvo smáhunda og alveg ódæmilegan hatt. Að mati Henryks var hún yfir sextugt, yfir kjörþyngd, ofmáluð og ofklædd, en hún brosti hlýlega og virtist þekkja alla þarna inni, gekk frá einu borðinu til annars og hjalaði við fasta tedrykkjugesti í Waldorf-Astoria. Seint og um síðir kom hún yfir að borðinu sem hún hafði með réttu eignað Henryk, og það var ekki laust við að henni brygði dálítið, ekki aðeins vegna skrýtilegs klæðaburðar hans, heldur af því að hann sýndist enn yngri en átján árin hans bentu til.

    Frú Rennick pantaði te meðan Henryk sagði henni frá þeim óheppilegu mistökum sem orðið hefðu með ávísunina hennar, er lent hefði hjá fyrirtæki hans í Kauphöllinni af hreinni slysni daginn áður. Fyrirtæki hans hefði skipað honum að skila ávísuninni þegar í stað og biðjast einlæglega afsökunar. Að þessu búnu afhenti Henryk 50 000 dala ávísunina og tjáði frú Rennick að hann myndi missa vinnu sína ef hún léti þetta mál ganga lengra, þar sem mistökin væru algerlega hans sök. Frú Rennick hafði raunar ekki frétt um hvarf ávísunarinnar fyrr en þennan sama morgun og gerði sér ekki grein fyrir því að hún hefði verið leyst út, þar sem fáeinir dagar hefðu liðið þangað til hún hefði komið inn á reikning hennar. Kvíði Henryks var ósvikinn og leyndi sér ekki í slitróttri frásögn hans; hefði hann nægt til að sannfæra óvægnari gagnrýnanda mannlegs eðlis en frú Rennick. Hún samþykkti þegar að láta málið niður falla, var fegin að fá féð í sínar hendur, og þar sem ávísunin var gefin út af Morgan Bank hafði hún engu tapað. Henryk dæsti af feginleika og fór nú fyrst að slaka svolítið á og hafa gaman af tilverunni. Maðurinn með sykurinn og silfurtengurnar var meira að segja kvaddur á vettvang.

    Eftir hæfilegan tíma kvaðst Henryk verða að snúa aftur til vinnu sinnar. Hann þakkaði frú Rennick fyrir, greiddi reikninginn og gekk leiðar sinnar. Þegar út var komið, blístraði hann af einskærum feginleika. Nýja skyrtan hans var rennblaut af svita (frú Rennick hefði kallað þetta útgufun), en hann var kominn út undir bert loft og gat dregið andann að nýju. Fyrsta stóraðgerð hans hafði heppnast með ágætum.

    Hann stóð þarna á Park Avenue og það var dálítið gaman að hugsa til þess að hann hefði átt fund með frú Rennick í Waldorf-Astoria, hótelinu þar sem John D. Rockefeller (forseti Standard Oil) hafði einkaíbúð. Henryk hafði komið fótgangandi á vettvang og gengið inn um aðaldyr, en Rockefeller hafði verið fyrr á ferð, komið með neðanjarðarlest og farið í einkalyftu upp í Waldorf-turnana. Fæstir New York búar vissu að Rockefeller hafði látið byggja einkastöð fyrir sig 17 metra í jörðu niðri undir Waldorf-Astoria til þess að hann þyrfti ekki að fara spölinn með lestinni yfir í Grand Central stöðina, því að viðkomustaðir voru engir þaðan og yfir í 125th Street. (Stöðin er enn á sínum stað, en nú býr enginn Rockefeller í Waldorf-Astoria og lestin stansar þar aldrei nú orðið.) Meðan Henryk ræddi um 50 000 dalina við frú Rennick, ræddi Rockefeller um 5 miljón dala fjárfestingu við Andrew W. Mellon, fjármálaráðherra Coolidge Bandaríkjaforseta.

    Daginn eftir hélt Henryk til vinnu sinnar eins og venjulega. Hann vissi að hann yrði að selja hlutabréfin áður en fimm dagar liðu til að greiða skuld sína við Morgan Bank og verðbréfamiðlarann – viðskiptareikningur í Kauphöllinni í New York er nefnilega miðaður við fimm virka daga eða sjö almanaksdaga. Síðasta daginn sem reikningurinn stóð var gengi hlutabréfanna 23.30 dalir. Hann seldi þau á 23.15, greiddi yfirdrátt sinn er nam 49 625 dölum og að greiddum öllum tilkostnaði nam hagnaður hans 7 490 dölum, sem hann lagði inn í Morgan Bank.

    Næstu þrjú árin lét Henryk hjá líða að hringja í Gronowich karlinn og tók að stunda verðbréfaviðskipti sjálfur, í smáum stíl framan af. Enn voru þetta góðir tímar, og þótt hann hagnaðist ekki á öllum viðskiptum, náði hann tökum á glímunni við lægðatímabil á markaðinum, ekki síður en velgengnina sem algengari var. Þegar lægðir urðu fólst kerfi hans í því að selja umsvifalaust í hagnaðarskyni þótt um beint eignarhald væri ekki að ræða; siðavöndum aðilum í þessum viðskiptum þykir slíkt ekki til fyrirmyndar, en honum lærðist samt brátt að selja hlutabréf sem hann átti ekki, þegar hann þóttist sjá verðfall vofa yfir. Eðliskennd hans varðandi markaðsþróun tók jafnskjótum framförum og smekkur hans í klæðaburði, og vélabrögðin sem hann hafði lært í öngstrætunum í Lower East Side dugðu honum býsna vel. Henryk hafði komist að raun um það að veröldin var einn frumskógur endimarka á milli – en ljón og tígrisdýr gengu stundum um klædd jakkafötum.

    Þegar markaðurinn hrundi 1929 hafði hann aukið fé sitt úr 7 490 dölum í 51 000 dali í handbæru fé, enda hafði hann þá selt hvert einasta hlutabréf sem hann átti. Hann hafði flutt í snotra íbúð í Brooklyn og ók um á heldur oflátungslegum Stutz. Henryk hafði snemma gert sér grein fyrir því að þrennt var honum einkum í óhag þegar hann lagði út í lífið – nafn hans, forsaga og féleysi. Fjárhagsvandamálið var að leysast, svo að hann afréð að ganga frá hinum vandkvæðunum tveimur. Í fyrsta lagi sótti hann um heimild til að breyta nafni í sínu í Harvey David Metcalfe. Í öðru lagi rauf hann öll tengsl við vini sína úr pólsku byggðinni, og þannig varð hann fullveðja í maí 1930 með nýtt nafn og nýja fortíð.

    Það var síðar þetta sama ár sem hann hitti Roger Sharpley, ungan mann frá Boston sem hafði erft innflutnings- og útflutningsfyrirtæki föður síns, er hafði sérhæft sig í innflutningi á viskí og útflutningi loðskinna. Sharpley hafði numið í Choate og síðar í Dartmouth College og bar með sér sjálfsöryggi og glæsibrag Boston-liðsins, sem aðrir Bandaríkjamenn líta oft öfundaraugum. Hann var hávaxinn og Ijóshærður og virtist af víkingum kominn eftir útliti að dæma; hann hafði yfirbragð hins eðlisgreinda manns og hafði komist að raun um það að flest var honum auðsótt, sér í lagi konur. Hann var alger andstæða Harveys. Það voru andstæðurnar sem urðu upphaf að kynnum þeirra.

    Roger hugsaði um það eitt að komast í sjóherinn, en þegar hann hafði lokið námi í Dartmouth varð hann að taka til starfa í fjölskyldufyrirtækinu, þar sem faðir hans var þá hrumur orðinn. Hann hafði ekki unnið í fyrirtækinu nema nokkra mánuði þegar faðir hans andaðist. Roger hefði helst kosið að selja Sharpley &Son þeim sem fyrstur sýndi áhuga, en Henry faðir hans hafði sett það skilyrði í erfðaskrána að yrði fyrirtækið selt fyrir fertugsafmæli Rogers (er var síðasta tækifæri til að ganga í sjóherinn), skyldi andvirðinu skipt milli ættingja hans.

    Harvey velti máli Rogers vandlega fyrir sér, og þegar hann hafði setið tvo langa fundi með slyngum lögfræðingi í New York, lagði hann til við Roger að eftirfarandi leið yrði valin: Harvey keypti 49% hlut í Sharpley &Son fyrir 100 000 dali og fyrsta 20 000 dala ágóðann ár hvert. Þegar Roger yrði fertugur seldi hann 51% sem eftir var fyrir 100 000 dali til viðbótar. Stjórn fyrirtækisins yrði skipuð þremur mönnum – Harvey, Roger og aðila sem tilnefndur yrði af Harvey, og fengi hann þannig fulla stjórn þess í sínar hendur. Harvey lét sér á sama standa þótt Roger gengi í sjóherinn og kæmi á árlegan hluthafafund.

    Roger gat naumast trúað annarri eins hundaheppni. Hann hafði ekki samráð við einn né neinn hjá Sharpley &Son, þar sem hann vissi ofur vel að reynt yrði að telja sér hughvarf. Harvey hafði reiknað með þessu og lesið viðmælanda sinn ofan í kjölinn. Roger velti uppástungunni fyrir sér í fáeina daga, en lét síðan ganga frá löglegum samningi í New York, nógu fjarri Boston til þess að tryggt

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1