Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Hetjan hennar
Hetjan hennar
Hetjan hennar
Ebook382 pages5 hours

Hetjan hennar

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Harry Latimer og Myrtle Carey eru ástfangin, en Latimer lendir á andstæðri hlið við föður hennar á tímum Bandarísku byltingarinnar. Latimer hefur samstarf með uppreisnarhópum Suður-Karólínu, sem verður að ógn við samband hans og Carey. Mun hann fórna öllu fyrir ástina eða þarf samband þeirra að lúta lægri hlut fyrir byltingunni?Ást, svik og njósnir á tímum frelsisstríðsins gefur góð mynd af sögu byltingarinnar þar sem margir karakteranna eru byggðir á raunverulegum persónum sem áttu stóran þátt í henni, eins og John Rutledge. Sögur karakteranna fléttast listilega vel saman í gegnum söguþráð sem á sér stað í uppbyggingu hins Nýja heims, frá árunum 1775-1779.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateJan 1, 2022
ISBN9788728037201

Related to Hetjan hennar

Related ebooks

Related categories

Reviews for Hetjan hennar

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Hetjan hennar - Rafael Sabatini

    Hetjan hennar

    Translated by Theódór Árnason

    Original title: The Carolinian

    Original language: English

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1924, 2021 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728037201

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    This work is republished as a historical document. It contains contemporary use of language.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    Fyrri þáttur.

    I.

    Tvö bréf.

    Harry Latimer settist niður til þess að skrifa bréf, sem sýnilegt var að olli honum mikils sársauka, því að hann hnyklaði augabrýmar og beit á jaxlinn. Hann hafði, — eins og hann sjálfur orðaði það stuttaralega — hlotið hið fyrsta sárið í þjónustu þess málefnis, sem hann rétt nýlega hafði gengið á hönd — nefnilega Frelsishreyfingarinnar. Þetta sár, sem var bæði djúpt, alvarlegt og, að því er virtist, ólæknandi, hafði hann hlotið af völdum skrifaðra blaða, sem hann hélt nú á. Þetta bréf hafði hann fengið í Savannah, þar sem hann hafði verið önnum kafinn við störf, ekki aðeins í þágu frelsisfylkingar Carolinanýlendunnar, — því að hann var leynilega félagi í þeim uppreisnar-samtökum, — heldur og í þágu nýlendumálsins í heild, þar eð það var hlutverk hans að vekja íbúana í Georgíu af sinnuleysisdvalanum, og fá þá til að skipa sér í flokk með bræðrunum „fyrir norðan" í baráttu gegn því öngþveitisástandi sem ríkjandi var undir stjórn Georgs konungs.

    Þetta bréf, sem stílað var til hans á heimili hans í Charlestown, hafði bryti hans sent þaðan áfram, en brytinn var einn þeirra örfáu, sem hann lét um þetta leyti að staðaldri vita um leynilegar ferðir sínar. Bréf þetta var frá dóttur Sir Andrew Carey, yngismey, sem Latimer hafði gert sér glæstar vonir um að mega innan skamms leiða heim sem brúði sína. Þessum vonum hafði bréfið gersamlega kollvarpað og í umslaginu hafði Latimer ennfremur fundið táknið um trúlofun þeirra, þar sem var hringur sá, sem móðir hans hafði einu sinni átt og hann hafði gefið ástmey sinni.

    Bréfið tilkynnti hreinskilnislega, að Myrtle Carey hefði verið bent á, að landráða-brask hefði verið þess valdandi, að hann hefði verið svona lengi fjarverandi frá Charlestown. Henni ógnaði þetta og það olli henni meiri sorgar en hún gæti með fátæklegum orðum lýst, — að hafa fengið vitneskju um þessa skyndilegu breytingu, sem á honum hefði orðið. Og enn meir ógnaði henni það, er hún hefði skynjað að það væri ekki aðeins í hugsun, sem hann hefði brugðizt hollustu við konunginn, heldur og að hann hefði gengið svo langt að taka þátt í árekstrum, sem ekki væri hægt að álíta annað en opinbera uppreisn. Og með ótal upphrópunum og ávítunarorðum lét hún það í ljós að hún hefði nákvæmar fregnir af einum þessara árekstra. Hún hefði sannfrétt, að það hefði ekki aðeins verið hann, sem skipulagði árásina á hið konunglega vopnabúr í Charlestown í aprílmánuði síðastliðnum, heldur hefði hann og sjálfur stjórnað árásinni og það einmitt á þeim tíma er hún, eins og allir aðrir — að sjálfsögðu að undanteknum félögum hans meðal svikaranna, — hefði haldið að hann væri í Boston önnum kafinn að sinna sínum eigin viðskiptamálum. Henni þætti það ákaflega leitt — og þetta tók hann næstum því sárar en allt annað, — að hann hefði gert sig sekan um slíka lævísi, þó að hins vegar væri fjarri því, að sig furðaði á því, þar sem það væri augljóst mál, að ekki væri hægt að vænta annars en svika og undirferli af manni, sem svo gersamlega hefði glatað skilningi á því, hvað hann ætti konungi sínum að gjalda, eins og raun væri á um hann.

    Bréfið endaði á sársaukaþrunginni yfirlýsingu um það, að hversu heitt sem hún hefði unnað honum áður og hversu mikil ítök, sem hann kynni að eiga í hjarta hennar framvegis, gæti það þó aldrei komið til mála, að hún léti tilleiðast að giftast manni, sem eins og Harry Latimer hefði um aldur og ævi fyrirgert æru sinni með því að gerast sekur um jafn viðurstyggilega hluti og að bregðast trúnaði við konunginn og gerast uppreisnarmaður. Hún ætlaði að biðja guð þess, að honum mætti auðnast að komast aftur á rétta braut áður en það yrði um seinan og að hann fengi aftur réttan skilning á málunum, svo að hann kæmist hjá þeirri ægilegu refsingu, sem stjórnin mundi fyrr eða síðar leggja á hann, ef hann héldi áfram á þessari braut mannvonzku og óguðleika.

    Latimer hafði lesið bréfið þrisvar sinnum og í hvert sinn að loknum lestrinum, hafði hann setið langa stund og íhugað innihald þess — en að sama skapi, sem kvölin jókst dró úr undrun hans. Þegar öllu var á botninn hvolft, var þetta þó ekki annað en það, sem hann hafði búizt við. Vissulega hafði hann séð það fyrir, að hann mundi verða fyrir mörgum og miklum ávítum frá Sir Andrew, — en hann hafði á sínum tíma verið fóstri hans og fjárráðamaður, — þegar hann frétti um skoðanaskipti hans, því að enginn var óvægnari né ákafari Bretavinur í allri Ameríku en hann. Konungshollusta var honum sem heilög trúarbrögð. Og eins og það er algengt að trúarlegar tilfinningar magnist í hlutfalli við þá mótstöðu, sem þær verða fyrir, þannig var um konungshollustu Sir Andrews, að hún varð „hvítglóandi" frá þeirri stundu er hann varð var hinna fyrstu merkja þess að uppreisnin væri í aðsigi.

    Þessi ofstækiskennda konungshollusta Sir Andrews hafði verið orsök þess að Latimer gaf sig ekki strax fram og gekk undir fána Frelsishreyfingarinnar, þegar hann var staddur í Massachusetts, fyrir fjórum mánuðum og varð þá gagntekinn gremju yfir þeirri meðferð sem nýlendurnar urðu að sæta. En honum hafði ekki verið það ljóst fyrr. Hann hafði verið í fóstri hjá Sir Andrew frá því er hann var lítill drengur og eftir margra ára samvistir þótti honum innilega vænt um hinn aldraða aðalsmann. Honum var það ljóst, að það mundi særa Sir Andrew ákaflega mikið, ef hann sneri baki við Toryunum og að það mundi fyrr eða síðar leiða til vinslita milli hans og þess manns, sem hafði gengið honum í föður stað. Tilhugsunin um þetta olli því að beiskju blandin varð gleðin yfir því starfi, sem samvizka hans og rík réttlætistilfinning höfðu boðið honum að taka upp.

    Það sem hins vegar virtist ekki hafa verið honum ljóst, áður en hann fékk þetta bréf, var það að fyrir Myrtle, sem að staðaldri hafðist við í þessu ástríðuþrungna konungshollustu-andrúmslofti, var konunghollustan loks orðin að trúarbrögðum, á sama hátt og var um föður hennar. Þetta skildi Latimer fyrst, er hann hafði lesið bréfið.

    I fyrsta sinn sem hann las bréfið varð hann gripinn beiskri bræði. En við nánari íhugun sefaðist sú bræði og hann fór að ráma í réttan skilning á málinu. Honum var það ljóst, að í þessu tilfelli var jafn fráleitt fyrir hana sem hann að hugsa til sætta. Þó einsetti hann sér að gera allt, sem í sínu valdi stæði, til að laða hana til sín. Hann gat ekki hugsað sér svo dýra fórn, að hann mundi ekki vilja færa hana, enda var engin fórn stærri til en sú, sem hann hafði nú fært málefni sínu með því að missa ástmey sína vegna hollustu við það. Skyldur þær, sem hann hafði tekizt á herðar og málefnið, sem hann hafði svarið að þjóna, var svo mikilvægt, að fyrir því urðu allir persónulegir hagsmunir að víkja. Sá maður, sem látið hefði tilleiðast að svíkja einlægustu sannfæringu sína til þess að ná hylli Myrtle, hefði þegar með slíku eiðrofi gerzt óverðugur þess, að njóta nokkurn tíma ástar hennar.

    Hér kom ekkert val til greina.

    Hann þreif fjaðrapennann og fór að hripa í flýti — ef til vill of miklum flýti, því að gegn vilja hans var ekki trútt um að nokkur gremja slæddist í bréfið.

    „Þú ert ósanngjörn, þess vegna verða athafnir þínar illar og óréttlátar. Því að illska og óréttlæti eru hinir einu ávextir, sem nokkurn tíma hafa vaxið í kræklóttu tré ósanngirninnar. Aldrei framar á ævi þinni muntu fremja jafn grimmilegan og óréttlátan verknað og þann, sem þú hefur framið nú. Aldrei munt þú fyrir hitta mann, er ann þér svo heitt, sem ég ann þér. Sársaukann sem þú hefur nú valdið mér, mun ég telja hið fyrsta djúpa sár sem ég hlýt í baráttunni fyrir málefnið sem ég hef gert að mínu málefni. Ég verð að leitast við að þola sársaukann, því að ég get ekki svikið sannfæringu mína og réttlætiskennd, né heldur get ég svikizt undan skyldum mínum — jafnvel þótt það kosti það, að ég missi þig".

    Og á þennan hátt skellti hann slagbrandi fyrir þær dyr, sem hún hafði sjálf lokað.

    Hann hringdi á Johnson, herbergisþjóninn, en hann var hár og kraftalegur ungur svertingi, sem alltaf var í fylgd með honum, og bað hann að sjá um að bréfið kæmist áleiðis.

    Síðan sat hann langa stund kyrr, niðursokkinn í hugsanir sínar. Loks rétti hann úr sér skyndilega, andvarpaði þungan og tók upp af skrifborðinu annað bréf, sem komið hafði þá um morguninn. Innsiglið á því var enn ósnert. Á utanáskriftinni sá hann þegar, að það var frá góðvini hans, Tom Izard, en systir hans var gift William Campbell lávarði, landsstjóra í Suður-Carolína. Sennilega hafði þetta bréf aðeins inni að halda skemmtilega frásögn um það, sem gerzt hafði í hópi kunningja þeirra í Charlestown, en á því hafði Harry Latimer ákaflega lítinn áhuga þessa stundina. Hann lagði bréfið frá sér, án þess að brjóta það upp, ýtti stólnum aftur fyrir sig, reis hægt á fætur og gekk út að glugganum. Þar stóð hann langa stund og starði út í sólskinið, án þess að sjá þó nokkuð eða skynja.

    Harry Latimer var tuttugu og fimm ára að aldri, en framkoma hans öll og yfirbragð minnti á glæsilegan ungling. Hann var klæddur vönduðum og virðulegum klæðum, en íburðarlausum og hafði ekki hárkollu, en hár hans var þykkt og gljáandi, jarpt að lit. Andlitið var viðfelldið, dregið skörpum dráttum, nefið íbogið og munnurinn lýsti einbeittni og tilhneigingu til glaðværðar, en hörundsliturinn bar vott um frískleik og heilbrigði. Augun voru stór og glampandi blá, en í sérstakri birtu gat brugðið fyrir í þeim grænni slikju. Oftast voru þau í önnum við að athuga allt, sem gerðist innan sjóndeildarhririgsins. En þær hvíldarlausu annir höfðu þessa stundina orðið að víkja fyrir þeim örvæntingarþrungna tómleika, sem venjulega kemur í kjölfar allra sálrænna kvala.

    Á meðan hann stóð þarna við gluggann var hann i sífellu að velta fyrir sér innihaldi bréfsins. En allt í einu kom hann til sjálfs sín aftur og augnaráðið varð eðlilega fjörlegt. Hann teygði úr sér og það var eins og hann skynjaði í sjálfri hreyfingunni, að hann væri að varpa af sér fjötrum.

    Það er vissulega óhugnanlegt, þegar einhverjum málstað er þannig komið, að í honum finnast engin viðunandi atriði. En í þessu tilfelli var pað viðunandi, eða öllu heldur nokkur „meinabót", að nú þurfti ekki lengur að dyljast. Sir Andrew vissi allt! Það var til hagræðis, úr því sem komið var, hugsaði Latimer. Hann þurfti ekki lengur að hafa samvizkubit út af því að hann væri að svíkja Sir Andrew.

    En allt í einu sló spurningu niður í huga hans: — Hvernig hafði þetta komizt upp? Honum hefði ekki komið það á óvart, þó að þau hefðu fengið óljósan grun um skoðanaskipti hans. En hvernig í ósköpunum höfðu þau getað fengið svona nákvæmar upplýsingar um það sérstaka hlutverk, sem hann hafði tekið að sér í árásinni á vopnabúrið í apríl. Það voru yfirleitt ekki aðrir en meðlimimir í aðalnefnd nýlendumálasamkundunnar sem höfðu hugmynd um, að hann var þá í Charlestown. En þá mundi hann eftir því, að þeir voru æði margir meðlimirnir í þessari nefnd, og að hætt er við, að þar sem margir eru munnarnir sé leyndarmáli ekki örugglega borgið. Einhver nefndarmannanna hlaut að hafa fleiprað, og ef ríkisstjórinn vissi að það hefði verið Harry Latimer, sem gekkst fyrir árásinni, — árás, sem stappaði svo nærri því að vera bæði rán og uppreisn, að jafnvel hefði mátt telja hana stríðsyfirlýsingu, þá átti hann vísan kaðal um hálsinn og þeir tuttugu félagar hans, sem höfðu tekið þátt í þessu uppreisnarfyrirtæki með honum.

    Þetta var spurning sem altók nú huga hans. Ef Sir Andrew vissi raunverulega um athafnir hans, mátti það heita alveg víst, að landsstjórinn hefði einnig fengið vitneskju um þær. Hann þekkti Sir Andrew nægilega til þess að vita, að hversu sterk sem þau bönd hefðu verið, sem tengt hefðu þá saman, mundi gamli maðurinn verða fyrstur manna til þess að gefa William lávarði slíkar upplýsingar.

    Loks komst hann að þeirri niðurstöðu, að hér mundi ekki vera um að ræða algengt ógætnis-fleipur. Þó mundi í mesta lagi hafa verið ljóstað upp um fyrirætlanirnar í stórum dráttum, en þeim ekki lýst út í æsar, eins og bréf Myrtle virtist bera vott um, að gert hefði verið. Og yfirleitt gat það varla komið til mála að trúnaðarmenn fleipruðu um svo þýðingarmikið og hættulegt leyndarmál óviljandi, jafnvel þótt málugir væru og fljótfærir. Nei, hann varð smám saman sannfærður um, að hér væri um að ræða alveg sérstaklega kænlega framkvæmd svik, og ákvað því að ná þegar í stað sambandi við vinina í Charlestown, svo að þeir hefðu tækifæri til þess að vera við öllu búnir. Hann ætlaði að skrifa Moultrie vini sínum, einhverjum einlægasta ættjarðarvininum í allri Suður-Carolina.

    Hann vék sér aftur að skrifborðinu og settist. Og enn varð honum litið á bréfið frá Tom Izard. Ef til vill var þar að finna einhverja vísbendingu. Hann braut innsiglið og tók upp bréfið. Og það kom á daginn, að þar fékk hann miklu ýtarlegri upplýsingar en hann hafði búizt við.

    „Minn kæri Harry, skrifaði hinn málliðugi heimsmaður,„hvar svo sem þú ert niður kominn, og hvað svo sem þú ert að fást við, þá ráðlegg ég þér, að láta það eiga sig og koma hingað aftur, til þess að sinna ofurlítið þínum eigin málum. Á því virðist vera mikil þörf. Þó að ég eigi það ef til vill á hættu, að þú skorir mig á hólm, þegar þú kemur heim, vegna þess að ég læt mér aðeins detta í hug eitt andartak að efast um trúfesti Myrtle, vil ég ekki, að þér sé með öllu ókunnugt um það, sem er að gerast í Fairgrove.

    Ég geri ráð fyrir að þú vitir, að eftir orrustuna við Lexington í aprílmánuði, skipaði George hershöfðingi Mandeville kapteini hingað frá Boston, til þess að koma hinum setta landsstjóra í skilning um skyldur hans gagnvart konunginum. Þessi Mandeville kapteinn hefur dvalið hér síðan og hefur á þessum tveim mánuðum náð slíkum tökum á öllum stjórnarfarslegum málefnum nýlendunnar, að hann hefur þegar gerzt leiðbeinandi og ráðgjafi mágs míns, Williams lávarðar, sem kom hingað frá Englandi fyrir hálfum mánuði. Mandeville, sem síðan hefur verið útnefndur aðstoðarmaður landsstjórans, er raunverulega hið ósýnilega vald, sem er að baki hásætinu. Hann er sá raunverulegi landsstjóri yfir Suður-Carolína, þó að sjálfsögðu, að svo miklu leyti sem hægt er að segja að Suður-Carolina sé stjórnað af hinum konunglega landsstjóra.

    Það er nú hugsanlegt, að þér sé þegar kunnugt um allt þetta. Hins vegar er ég alveg viss um, að það kemur þér á óvart, að komin eru á einhvers kónar f jölskyldutengsl — hvort sem þau eru raunveruleg eða uppspuni — á milli þessa náunga og fóstra þíns gamla, Sir Andrew Carey. Sá gamli tory-iski þrákálfur hefur, að því er virðist með óblandinni ánægju tekið þennan konungholla ævíntýramann að breiðum barmi sér, og alltaf þegar hinn glæsti stríðsgarpur hefur ekki skyldum að gegna í Charlestown, heldur hann sig í Fairgrove. Um Mandeville, sem óneitanlega er maður, sem taka verður tillit til og einnig er laginn á að koma sér í mjúkinn hjá kvenþjóðinni, get ég gefið þér eftirfarandi upplýsingar, sem ég hef aflað mér hjá sérstaklega ábyggilegum heimildarmönnum. Hanri er hreinræktaður ævintýramaður, og það er alkunnugt í Englandi, að ástæðan til þess að hann hefur sótt eftir að gegna þjónustu í nýlendunum er eingöngu sú, að hann hefur einsett sér að kvongast til fjár. Það sem hann hefur sér til framdráttar er ekki aðeins það, að hann er glæsilegur maður í sjón og er einkar fágaður í framgöngu, heldur og sú staðreynd, að það stendur til að hann erfi frænda sinn, jarlinn af Chalfont, þó að nú um sinn muni að vísu vera grunnt á því góða milli hans og jarlsins. Ég get tæplega hugsað mér að maður, sem sett hefur sér það takmark, sem hann hefur gert og búinn er hans hæfileikum, mundi gera sér svo tíðförult til Fairgrove, nema að hann þættist einmitt finna þar eitthvað, sem hann er að leita að. Mér er það alveg ljóst, að nú verður þú mér ákaflega reiður. En það væri ekki með réttu hægt að telja mig vin þinn, ef ég þyrði ekki að eiga á hættu, að þú reiddist við mig. Ég kýs það miklu heldur, en að láta ásaka mig fyrir það síðar meir, að ég hefði ekki aðvarað þig í tæka tíð".

    Og svo kom eftirskrift: „Sé starfi þínu þannig háttað, að þér sé ómögulegt að koma hingað til þess að kippa málunum í rétt horf, mundi þér þá þykja nokkurs um það vert, að ég stofnaði til illdeilu við kapteininn og að mér tækist að gera hann óskaðlegan á þann hátt. Ég mundi hafa gert þetta fyrir löngu, og hefði talið það eðlilegan þátt í vináttu okkar, ef ég vissi ekki að minn kæri mágur myndi fordæma mig fyrir það um aldur og ævi og að Sally yrði alveg ösku-grenjandi. Ef William lávarður hefur ekki þennan aðstoðarmann sinn, stendur hann uppi eins og pvara. Og sannarlega finnst honum þetta allt saman vera nógu andskoti erfitt, eins og það er. Auk þess hef ég komizt að því að þessi Mandeville, svo sem títt er um svona þorpara, er fjandanum sjálfum slyngari skotmaður og er auk þess leikinn í að handleika korða".

    Vissulega hefði Latimer brosað að þessari eftirskrift, ef öðruvísi hefði staðið á. En nú sat hann þarna ákaflega alvarlegur á svipinn og hugsandi.

    Hann skynjaði samhengið í þessu öllu ákaflega skýrt og greinilega. Nú var ekki lengur um það að ræða, að Sir Andrew hefði ef til vill skýrt landsstjóranum frá uppreisnar-athöfnum Latimers. Nú var ekki blöðum um það að fletta, að hann hafði gert það. Sir Andrew hafði fengið nákvæmar upplýsingar um málið hjá þessum náunga, — þessum Mandeville, sem Harry hafði að vísu heyrt nefndan nokkrum sinnum upp á síðkastið. Ef það væri sá raunverulegi sannleikur, að Mandeville hefði komið til Suður-Carolina í þeim tilgangi, sem Tom Izard hafði staðhæft, lá það í augum uppi, að hann mundi leggja sig allan fram til þess að stofna til óvildar milli Carey fjölskyldunnar og Latimers. Og það var einmitt það, sem honum hafði nú tekizt.

    En hvernig hafði Mandeville komizt yfir þessar upplýsingar? Við því var aðeins eitt svar? Hann hafði notað njósnara, og það var augljóst mál, að sá maður hafði verið „heimagangur" meðal flokksmanna — já, og honum var jafnvel kunnugt um dýrmætustu leyndarmál aðalnefndarinnar.

    Latimer tók ákvörðun umsvifalaust. Hann ætlaði ekki að skrifa. Hann ætlaði að fara sjálfur. Hann ætlaði samstundis áð leggja af stað áleiðis til Charlestown, til þess að þefa uppi þennan svikara, sem með köldu blóði stofnaði hinu glæsta málefni Frelsishreyfingarinnar í voða og um leið öllum þeim, sem hélgað höfðu þessu málefni líf sitt.

    Í sambandi við þetta var starfið í Georgíu aðeins sem aukaatriði.

    II.

    Cheney.

    William Moultrie, sem nýlega hafði verið útnefndur ofursti í annarri herdeild Suður-Carolina vaknaði af ljúfum svefni, snemma einn júlímorgun við það, að hálfklæddur svertingi rétti honum skrifað pappírsblað.

    Ofurstinn lyfti höfðinu frá svæflunum og birtist þá stórt, klunnalegt höfuð og ákaflega mikilúðlegt andlit, undir hvítri nátthúfu. Augun, sem að jafnaði voru harla góðlátleg, þó að umgjörðin væri hnökrótt, — voru að leitast við að venjast ljósinu, sem svertinginn hélt á.

    „Humm — hva — — hvað er klukkan?" spurði ofurstinn, algerlega áttavilltur.

    „Hún er að verða fimm, massa!"

    „Hvað — — fimm! Þetta vakti hann alveg. Hann rykkti sér til og settist upp í rúminu. „Hver sjálfur andskotinn, Tom — —

    Tom reyndi nú aftur að vekja athygli húsbónda síns á bréfinu, og tókst nú betur. Ofurstinn var að vísu svefndrukkinn, en hann tók við bréfinu, braut það upp, nuddaði augun með hnúunum og fór síðan að lesa. En svo að segja jafnharðan, tók hann viðbragð, fleygði af sér voðunum, bað Tom að rétta sér slopp, draga tjöldin frá gluggunum og leiða gestinn inn til sín.

    Þannig atvikaðist það, að Harry Latimer var andartaki síðar vísað inn til Moultrie ofursta, sem stóð á miðju gólfi þarna í fyrstu glætu hins nýja dags, ekki klæddur öðru fata en slopp, ilskóm og nátthúfu.

    „Nei, nú er mér nóg boðið, Harry! Hvað á þetta að þýða? Hver andskotinn sjálfur rekur þig hingað aftur svona fljótt?"

    Þeir voru góðir gamlir vinir og tókust hressilega í hendur, en á meðan virti Moultrie fyrir sér á augabragði og þó með athygli rykug föt og skó hins unga manns og gremjusvipinn á andliti hans.

    „Þegar ég er búinn að segja þér ástæðuna, munt þú með nokkrum sanni geta sagt, að ég sé kominn hingað heim aftur til þess að láta hengja mig. En þessa stundina er það áhætta, sem hefur svo litla þýðingu, að ég hikaði ekki við að gangast undir hana."

    „Hver er meiningin í öllu þessu?" spurði ofurstinn svakaralega.

    Latimer sagði honum fréttirnar. „Landsstjórinn hefur fengið nákvæmar upplýsingar um það, hvern þátt ég átti í árásinni í apríl.

    „Ja, — hver andskotinn! varð Moultrie að orði.„En hvernig veizt þú það?

    „Lestu þessi bréf. Þá skýrist þetta fyrir þér. Ég fékk þau fyrir þrem dögum í Savannah."

    Ofurstinn tók við bréfunum sem Latimer rétti honum og gekk út að glugganum til að lesa þau. Hann var meðalmaður á hæð og þrekvaxinn, einum tuttugu árum eldri en Latimer, sem hann hafði þekkt frá því er hann var lítill drengur. Moultrie og faðir Latimers höfðu verið vinir og höfðu hlið við hlið tekið þátt í árás Grants á Cherokana, en Latimer hafði þá því miður látið lífið á bezta skeiði ævinnar. Þetta var ástæðan til þess að Harry hafði nú leitað til Moultries, í stað þess að fara til Charlest Pinckney, forseta nýlendusamkundunnar, sem raunar hafði alls ekki hlotið viðurkenningu hinnar konunglegu stjórnar, — né heldur til Henry Lawrens, formanns öryggisnefndarinnar, sem hin konunglega stjórn gerði enn lægra undir höfði. Hin ábyrgðarmiklu störf, sem þessir tveir menn gegndu hefðu átt að veita þeim sjálfsagðan rétt til þess að fá fyrstir manna þessar örlagaríku fréttir, sem Latimer hafði að færa. Engu að síður hafði hann þó kosið að snúa sér fyrst til þessa manns, sem hann var tengdur einlægum vináttuböndum.

    Moultrie bölvaði nokkrum sinnum í hljóði, á meðan hann var að lesa bréfin. Þegar hann að lokum hafði lokið lestrinum, kom hann aftur til Latimers og var þá djúpt hugsandi. Hann rétti Latimer bréfið án þess að mæla orð af vörum, en hann hafði setzt við borðið. Og þegjandi valdi ofurstinn sér pípu, úr haug af pípum, sem lágu á borðinu, og tróð í hana hœgt og rólega úr tinkrús.

    „Jú, það veit sá sem allt veit, að þú hefur rétt að mæla, sagði hann svo með hægð. „Það er ekki einn einasti maður utan nefndarinnar, sem hafði hugmynd um, að þú værir staddur hér í bænum í aprílmánuði. En það er þá líka hverju orði sannara, að hér í bænum úir og grúir af njósnurum. Það var til dæmis fyrir nokkru síðan náungi einn, Kirkland að nafni, er var í landvarnarliðinu, sem við höfðum ríkan grun um að væri sendill Williams lávarðar milli Charlestown og Toryanna uppi í sveitum. Við þorðum ekki að gera honum neitt fyrr en hann var svo ógætinn að strjúka úr herþjónustunni. Skömmu síðar kom hann aftur til Charlestown með öðrum þorpara, sem nefnir sig Cheney. En löngu áður en við höfðum tækifæri til að hafa hendur í hári hans, háfði William lávarður skotið honum undan og út í herskip. Hins vegar var þessi Cheney ekki eins heppinn. Honum náðum við, en sannleikurinn er sá, að ég get ekki komið því fyrir mig, hvað við eigum að gera við hann, þar sem hann er, því miður, ekki flóttamaður, þó að hins vegar sé enginn vafi á því, að hann er njósnari.

    „Jæja — en hvað um það, varð Latimer að orði og gætti óþolinmæði í raddhreimnum. „En sér þú það ekki, að slíkir njósnarar eru hégóminn einn, í samanburði við þetta, sem hér er um að ræða? og hann benti á bréfin.

    Moultrie leit á hann spyrjandi augnaráði og Latimer svaraði:

    „Þessi maður leynist á meðal okkar. Hann er „einn af oss og takist okkur ekki að hafa hendur í hári hans og refsa honum, má guð einn vita, hverjum voða honum gæti tekizt að koma í verk. Eins og sakirnar standa nú, á þessu augnabliki, erum við einir tuttugu, sem eigum gálgann vísan, hvenær sem verkast vill. Því að þér hlýtur að vera það ljóst, að úr því að hann hefur kært mig, hefur hann samtímis kært þá, sem voru með mér, hvort sem þeir tóku Virkan þátt í sjálfri árásinni eða tóku aðeins sinn þátt í áhættunni með okkur.

    Moultrie var búinn að kveikja í pípunni sinni og sat hugsandi og reykjandi í ákafa. Hann lét ekki hrífast af þeim æsingi, sem altók nú hinn unga gest hans, en gekk í hægðum sínum til hans og lagði hendina á öxl Harrys, eins og til að sefa hann.

    „Ég held ekki að við höfum nokkra verulega ástæðu til þess að vera hræddir um líf okkar, drengur minn — að minnsta kosti ekki í svipinn. Hvorki landsstjórinn né aðstoðarmaður hans munu vilja gera gyllingar til þess, að hér í Suður-Carolinu verði endurteknir Lexington-atburðirnir, en það er það, sem þeir mundu eiga á hættu, ef þeir hengdu einhvern ykkar. En að því er hinu viðvíkur, þá hefur þú fullkomlega rétt að mæla. Við verðum að hafa hendur í hári svikarans. Hið eina, sem við vitum með vissu, er það, að hann á að vera að finna í hópi hinna níutíu Ráðsmeðlima. En ég gæti trúað því, að það yrði álíka erfitt að finna hann eins og að finna saumnál í heysátu! Hann þagði andartak og hristi höfuðið hugsi. Síðan spurði hann: „Ekki vænti ég að þú hafir íhugað nánar, hvernig við ættum að fara að því að komast fyrir það, hver þessi maður er?

    „Ég hef ekki um annað hugsað, alla leiðina frá Savannah. En mér hefur enn ekki hugkvæmzt neitt ráð til þess."

    „Við verðum að fá einhvern okkur til aðstoðar, sagði Moultrie, „og að minnsta kosti er það sjálfsögð skylda okkar að skýra þeim Pinckney og Lawrens og nokkrum mönnum öðrum frá þessu.

    „Því færri menn sem við höfum í vitorði með okkur, því betra."

    „Já, að sjálfsögðu, — það liggur í augum uppi. Þetta yrðu einir sex menn, í mesta lagi, og eingöngu menn, sem enginn vafi getur verið um.

    Síðar um daginn urðu sex forustumenn Frelsishreyfingarinnar við eindregnum tilmælum Moultries að koma til fundar að heimili hans í Broad Street.

    Auk þeirra Lawrens og Pinckneys mætti þarna Christopher Gadsden, maður hár og grannur, yfirmaður hinnar nýstofnuðu fyrstu nýlenduherdeildar og bar hann hinn snotra, bláa einkennisbúning herdeildarinnar. Hann var sérlega áhugasamur forseti hinna frelsiselskandi sona Suður-Carolinu, og hann var einn þeirra fáu, sem þegar á þessu frumstigi þorði að halda því fram, að það væri alveg óhjákvæmilegt að Ameríka sliti sambandi við England. Í fylgd með honum var Henry Drayton, en það var um hann eins og Latimer, að það var aðeins skammt síðan hann hafði gengið Frelsishreyfingunni á hönd, en það var ekki um það að villast, að hann hafði gert það af heilum hug og eldheitum áhuga. Þar eð hann var forseti hinnar leynilegu nefndar var hann sjálfkjörinn á þennan fund. Hinir þátttakendurnir í þessu skyndi-„ráði" voru tveir fulltrúar á hinum mikla landsfundi, hinn írski málaflutningsmaður, John Rutledge, maður hálf-fertugur að aldri og yngri bróðir hans, Eduard að nafni.

    Þegar þeir voru búnir að koma sér fyrir við hið stóra borð í bókasafni Moultries, hlýddu þeir með mikilli athygli á skýrslu Latimers um það, að hann hefði fengið vitneskju um, að svikari mundi vera í hópi þeirra sjálfra.

    Hann lauk máli sínu á þessa leið:

    „Einir tuttugu okkar erum algerlega háðir miskunnsemi landsstjórans. William lávarður hefur í höndum fullnægjandi sönnunargögn og getur látið hengja okkur, hvenær sem honum þóknast. Það eitt er í sjálfu sér ákaflega alvarlegt mál. En það getur þó orðið enn alvarlegra ef við tökum ekki til okkar ráða og freistum þess að afhjúpa og taka úr umferð þennan svikara, sem leynist á meðal okkar."

    Drayton notaði tækifærið til þess að krefjast þess enn einu sinni, að landsstjórinn væri handtekinn, en þessa tillögu hafði ráðið þegar áður fellt. Moultrie svaraði honum á þá leið, að það mundi vera í fyllsta máta óráðlegt. En þá rauk Gadsden upp og studdi mál Draytons. Hann heimtaði að fá að vita, hvers vegna í heitasta helvíti það væri óráðlegt. Loks skarst John Rutledge í leikinn, en hann hafði ekkert lagt til málanna fyrri, en setíð þarna eins og steingervingur.

    „Það skiptir ekki máli, hvort það er óráðlegt eða ekki. Hér er hvorki staður né stund til þess að ræða það mál, og það er ekki heldur það mál, sem við ætluðum að ræða hér." Og nokkurrar gremju gætti í rödd hans, er hann bætti við: „Ættum við

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1