Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Niðursetningurinn
Niðursetningurinn
Niðursetningurinn
Ebook567 pages9 hours

Niðursetningurinn

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Þessi fræga saga eftir Jón Mýrdal var gerð að kvikmynd árið 1978. Verkið segir frá Þorgrími á Felli og gerist í íslenskri sveit á 18. Öld. Sagan þykir vera ádeila á viðhorf og framkomu samfélagsins gagnvart þeirra sem minna mega sín.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateOct 4, 2022
ISBN9788728281710
Niðursetningurinn

Related to Niðursetningurinn

Related ebooks

Reviews for Niðursetningurinn

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Niðursetningurinn - Jón Mýrdal

    Niðursetningurinn

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1934, 2022 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728281710

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    This work is republished as a historical document. It contains contemporary use of language.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    Fyrir meira en hundrað árum bjó á Vesturlandi maður, sem Þorgrímur hét, á þeim bæ, sem hét að Felli. Þorgrímur gat rakið bæði föður- og móður ætt sína til frægra og kyngöfugra landnámsmanna, sem höfðu yfirgefið óðul sín og flúið fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra, sem þeir ekki þoldu eður vildu búa undir og tóku sér bólfestu hér á Íslandi.

    Þótt á því tímabili, sem þessi saga gjörðist, það liti svo út, að blóð hinna að dug og drengskap nafnfrægu Norðmanna ekki lengur rynni almennt í æðum Íslendinga, þar fyrst og fremst óbærileg, ill og eigingjörn stjórnarkúgun og þar næst harðæri og aðrar landplágur höfðu svo dregið dáð og dug úr landsmönnum, að kalla mátti, að allur þorri þeirra líktist meir skrælingjum en afsprengi göfugrar hetjuþjóðar, þá var Þorgrímur þar þó undanskilinn. Hann var maður heldur stórvaxinn, þrekinn mjög og sterklegur. Hann var réttvaxinn og herðamikill, bar höfuðið hátt og tígulega og alls staðar á að líta var hann bæði hetjulegur og höfðinglegur. Ekki mátti hann heita fríður sýnum; andlitið var nokkuð stórskorið, alvarlegt og þó góðmannlegt, svipurinn voldugur og lýsti hreinskilni og staðföstu geðslagi.

    Flestum, sem kynntust við Þorgrím bónda, bar saman um það, að í fyrstu sýndist þeim hann ljótur, enda hræðilegur, svo þeim stóð ótti af honum. En því lengur sem viðkynningin varaði og því meir sem þeir höfðu umgengni með honum, dró úr þeirri fölsku ímyndun, og tíminn breytti svo þeirri röngu skoðun, að þeim sýndist hann — ef ekki fríður maður — þá samt geðfelldur og höfðinglegur, og sóttust allir, sem nokkur mannsræna var í, eftir að hafa sem mest saman við hann að sælda og sækja til hans lið og ráð, því hann var bæði ráðkænn og ráðhollur öllum, sem til hans leituðu, og hinn mesti bjargvættur í félaginu.

    Heimamönnum sínum var hann sem faðir, og bar það skjaldan við, að hann skipti um húskarla, því þeir sem til hans fóru vildu ógjarna fara úr þeirri vist, nema ef einhverjar gildar orsakir komu til svo sem gifting eður önnur óumflýjanleg stöðubreyting.

    Þorgrímur var maður vel viti borinn og svo menntaður, að hann tók langt fram sér jafntíða almúgamönnum. Hann hafði fagra rithönd og stóð ekki mikið aftar lærðum mönnum í tölvísi. Líka kunni hann svo mikið í nokkrum útlendum tungumálum, að hann gat lesið sér til fróðleiks og skemmtunar bækur þeirra þjóða, sem þau tungumál töluðu. Þó vissu það fáir, því Þorgrímur var dulur af sér og frásneyddur því að láta mikið yfir sér, en í samkvæmum eður á manna fundum var skjaldan rætt um þá hluti, sem hann ekki bar nokkurt skynbragð á, og oftast var hann heldur fræðandi.

    Hann var hversdagslega stilltur og þó smáspaugsamur og glettinn í orðum. Þó hann reiddist, gaf hann reiði sinni aldrei lausan taum, en var þeim mun þrályndari og keppinn og gætti þó ætíð réttsýni, ef hann átti við mótstöðumenn, sem skjaldan var, því fáir urðu til að leita á hann. Vildi enginn hafa hann á móti sér, enda gjörði hann ekki á annarra hluta að fyrra bragði, því hann vildi öllum hið bezta og var hvarvetna vinsæll.

    Guðhræddur og trúrækinn var hann sem bezt mátti verða. Hann hafði sterkar gætur á, að allt siðferði væri gott á heimili hans, en þó gekk hann ekki jafnríkt eftir neinu eins og því, að ekki væri vanrækt kirkjuganga og húslestrar. Hann áminnti og hvatti hjú sín oft til bænrækni og fagurra dygða. Sjálfur stundaði hann hvort tveggja og var öðrum fögur fyrirmynd í því.

    Þegar hér segir frá, hafði Þorgrímur verið hreppstjóri og sáttanefndarmaður um nokkur ár. Líka var hann meðhjálpari þar í sókninni og yfirhöfuð mest virtur af bændum í þeirri sveit og jafnvel nærliggjandi sveitum, og þó ótrúlegt þyki, þá var það svo, að fáir höfðu á honum öfund, sem þó er fágætt um ríka og vel virta menn eður þá, sem skara fram úr á einhvern hátt. Hann var búsýslumaður mikill og hygginn með starfsemi og átti auð fjár í gangandi fé, löndum og lausum aurum.

    Kvæntur var hann. Hét húsfreyja hans Sigríður, almennt kölluð hin stórráða, og sögðu menn, að hún væri vel að því kenningarnafni komin, og skjaldan höfðu Freyju orðið svo mislagðar hendur að velja saman mann og konu sem þar, því Sigríður var í flestum hlutum það gagnstæða við bónda sinn, enda reyndi fátt eins tilfinnanlega á stillingu hans og staðfestu. Hafði hann þar oft í vök að vérjast, en lét þó aldrei hugfallast eður gleymdi skyldu góðs eiginmanns: að umbera bresti konu sinnar með kærleika.

    Sigríður var kona sköruleg, en svarri í geði. Hún var búkona mikil, starfsöm og hyggin og stjórnaði með dugnaði innanhúss öllu á bæ sínum, svo Þorgrímur þurfti skjaldan að hlutast til um það, enda þoldi hún illa, ef hann skipti sér um.

    Flest annað mátti kalla, að henni væri illa gefið. Hún var sem áður er sagt mesti svarri í skapi og eirði engu nema að fá sinn vilja fram, og það heppnaðist henni vonum betur, nema þegar bónda hennar þótti úr hófi keyra. Þá tók hann með einbeittri hógværð í taumana, og þurfti Sigríður þar aldrei að hugsa til að etja kappi, því hann lét ekki á bug akast fyrir henni.

    Næst eður jafnhliða við reiðigirni Sigríðar var það skaplöstur hennar, að hún var úr hófi virðingagjörn og drambsöm. Kom það daglega fram í heimilislífi hennar. Hún var drottnunargjörn og áleit sig svo sem einvaldsdrottningu innanbæjar að Felli. Var það bæði að hún var sköruleg í stjórn sinni, enda krafðist hún þess harðlega, að fljótt og rækilega væri hlýtt boði sínu og banni, og ef út af því brá, skorti ekki eftirminnilega hegningu, sem kom fram á ýmsan hátt eftir kringumstæðum og málavöxtum.

    Ekki náðu yfirráð Sigríðar lengra en til griðkvennanna, því Þorgrímur hafði sjálfur alla forustu fyrir húskörlum sínum. Þó voru óþroskaðir unglingar, sem lítið gátu aðhafzt utanbæjar, látnir vera undirsátar hennar með þeim parti hjúanna, sem pilsum klæddist.

    Enginn þurfti að verða sekur í lagabroti við Sigríði fyrir það, að lögmálið ekki væri svo skýrt og greinilega fram tekið, að hægt væri að misskilja það. Þegar hún tók nýja vinnukonu, var það hennar fyrsta að lesa fyrir hinni nýkomnu á boðorðatöflurnar það, sem hún átti að lifa eftir allan þann tíma, sem hún dvaldi í vist að Feli.

    „Þú átt að taka þetta eða þetta starf að þér, sagði hún, „og leysa það svo og svo af hendi. Þú skalt vita, að ég hegni harðlega, ef boði mínu og banni er ekki hlýtt með tilbærilegri auðsveipni og undirgefni. En ég umbuna líka ríkulega þeim, sem eru eftir mínu geði. Þú verður að gjöra svo vel og venja þig af skrattans kotungadónasiðnum að tala til húsmóður þinnar blátt áfram með nafni. Til mín talar þú aldrei öðru vísi en: þér og yður, húsfreyja góð, eða þá heillin góð, ef þú vilt það heldur. Láttu þér nú verða þetta hugfast, þér er það sjálfri fyrir beztu, því ef þú bregður út af, muntu sjálfa þig fyrir hitta. Vittu það, að orð mín eru ekki þýðingarlaus, sagði Sigríður, og það var satt, því hún lét aldrei líða langt á milli afbrots og refsingar.

    Stundum heyrði afbrotið undir þá lagagrein, sem ákvað þurra löðrunga. Önnur stærri skyldu afplánast með daglangri föstu. Það kom enda ekki svo skjaldan fyrir, að sökin var svo stór, að varðaði fjárupptekt. Var það þá jafnan, er svo við bar, að hinn seki hlaut að sjá á bak einhverjum sínum eigulegasta hlut — því Sigríður vildi ekki í sektarfé skjaldaskrifli og baugabrot, — svo sem nýrri flík, silfurskeið, silkiklút eður öðru þess konar eftir efnahag hins sakfellda, og það var áreiðanlegt, að þeir hlutir, sem þessum kjörum urðu að sæta, aldrei seinna komu í hendur síns fyrri eiganda. Urðu griðkonur fyrir þessu, því Sigríður hafði yfir þeim ótakmarkað vald.

    Að þær þoldu þetta með þögn og þolinmæði kom til af ýmsum orsökum. Fyrst var það, að því var líkast sem blind hlýðni og undirgefni blönduð ótta lægi í landi þar á heimilinu. Þó voru þær griðkurnar sumar svo viti bornar og kjarkmiklar, að þær þorðu að leita réttar síns, ef þeim var misboðið, en þá var ekki annað en bera sig upp við Þorgrím bónda. Sögðu menn, að hann hefði jafnan beðið að hafa ekki mikið orð á, en borgaði margfalt þeim, sem óréttinn leið, svo skaðinn varð að ábata.

    Sumar sem þessi refsidómur féll á þögðu til þess að ergja ekki húsbóndann með því að klaga yfir klækjum konu hans, því hann var elskaður og virtur af öllum á heimilinu, konum sem körlum.

    Þegar straffið var fasta einn sólarhring, þótti lítið umkvörtunarefni, því allar hinar sýknu griðkur skutu saman handa þeirri dómfelldu, svo hún var vel haldin. Ekki mátti samt húsfreyja vita það, því ef hún komst að því, þá var allsherjar styrjöld í baðstofunni sjálfsögð á eftir.

    Þrátt fyrir þennan ofstopa Sigríðar má þó segja það henni til hróss, að hún stundum umbunaði rausnarlega, þegar henni þótti eitt eður annað vel af hendi leyst, en það kom ekki oft fyrir, því hún skipaði svo fyrir verkum, að griðkonur áttu fullt í fangi, þó röskar væru, að skila af hendi ætlunarverki sínu á tilsettu tímabili, og þótti henni því bezt við eiga, að þær gjörðu þessa játningu: „Ónýtir þjónar erum vér, því vér gjörðum ekki annað en það, sem vér áttum að gjöra", en þess háttar þjónusta krafðist engra verðlauna sérstaklega.

    Það má þykja nokkuð undarlegt eftir því sem frá ofstopa Sigríðar er sagt, að henni hélzt ótrúlega vel á vinnukonum, því þó sumar ekki eirðu þar lengur en eitt ár og einstaka tæplega það, þá voru hinar fleiri, sem voru hjá henni svo mörgum árum skipti og báru ofríki hennar með kristilegri þolinmæði, og voru til þess ýmsar orsakir. Var það fyrst, að Sigríður veitti hjúum sínum rausnarlega, en á þeim tíma voru matgjafir hjá almenningi heldur rýrar. „Þegar fólkið á að vinna vel, verður það að hafa vel að éta", var hún vön að segja og lét það ásannast.

    Þó var enn önnur orsök ekki síður til þess, að Fellsvinnukonur voru vonum framar spakar þar, og var hún sú, að þegar þær höfðu verið staðfastar vissan áratíma, var það nokkurn veginn víst, að Sigríður ekki hætti fyrri við en hún hafði útvegað þeim sæmilega giftingu. Hafði hún þá sem oftast bónda sinn í ráðum með sér. Eirði hún þá ekki öðru en að þær væru svo úr garði gjörðar, að það mætti kalla sæmilegan heimanmund. Þó var það mikið misjafnt eftir sem henni þótti þær hafa verðugleika til.

    Þó að sumar ekki hefðu þreyju til að bíða eftir þessari glæsilegu útlausn, þá voru hinar margar, sem létu þá tálbeitu spekja sig. Þó að lífsreglur Sigríðar væru nokkuð margbrotnar og ekki ætíð svo hægt að varast afbrot, þá hjálpaði það mikið hinum nýkomnu vinnukonum, að þær, sem fyrir voru og lengi höfðu verið, kunnu öll boðorð hennar utanbókar, svo hver lærði óafvitandi af annarri, þó þær þrátt fyrir það oft brygðu út af og yrðu brotlegar, sumar af gleymsku og aðrar af kergju.

    Sú afglapalega synd, hið andstyggilega þú var það, sem þær féllu flestar á, meðan þær voru ungar í vistinni. Var hegning sú, sem fyrir það kom, oftast löðrungur með flatri hendi á vangann eða þá rokna hnefahögg á milli herðanna, ef ekki náði betur til.

    Engin griðkona náði meiri hylli af húsfreyju en sú eða þær, sem báru henni sögur af hinum hjúunum. Hvort það var satt eða logið, gjörði ekki svo mikið til, bara ef hún fékk eitthvað að heyra, því það var vitanlegt, að hjúin gátu og hlutu að tala og gjöra margt, sem hennar árvakra alls-staðar-nálægð í bænum fór á mis við, en það var skjaldan, að hún hafði neina þess konar meðhjálp, því bæði var samlyndi og eindrægni sem oftast einkenni á Fellshjúunum, og svo ef eitthvert þeirra fann upp á því að færa Sigríði slaður — Þorgrími færði enginn það, því þeir fáu, sem höfðu ætlað að verða til þess, fengu í staðinn fyrir áheyrslu eftirminnilega sneypu — þá varð því hjúi illa vært hjá hinum.

    Allgott samlyndi var með þeim hjónum, þó þau væru ekki skaplík. Þorgrímur var, eins og áður er sagt, maður geðspakur og stillti sig jafnan, þó honum rynni í skap, og þótt húsfreyja hans geisaði með miklum pilsaþyt, þá lét hann það eins og hvern annan vind með þögn þjóta um eyrun, eður hann brosti og sagði eitthvert kímnisorð svo sem: „Mér sýndist þú vera orðin að fugli og farin að fljúga, eður: „Ég held þú megir til að bera á mig grjót, elskan mín, svo ég fjúki ekki í loft upp af þessum hvirfilbyljum, og því um líkt.

    Aldrei þykktist Sigríður við bónda sinn fyrir það, því hún sýndist að unna honum. Sumir sögðu, að það væri sú hreina hjónabandsást, sem hún hafði á honum, og þó voru líka nokkrir, sem héldu, að hún vissi ekki, hvað ást í raun og veru væri, en að hennar drambsama geði þætti virðing í að eiga slíkan ágætismann, og fyrir þá orsök hlífði hún honum, enda sæi hún sér ekki til neins að etja kappi við hann.

    Það var satt bezt sagt, að Þorgrímur var frásneyddur því að leita sér metorða á nokkurn hátt, og þó lagðist alltaf meiri og meiri virðing á hann, og sögðu réttsýnir menn, að það færi eftir verðugleikum.

    Sigríður þar á móti leitaðist við á allar lundir að trana sér fram, og aldrei þótti henni sér nægur heiður sýndur fram yfir hinar bændakonurnar, sem hún kallaði kotabikkjur og kumbaldafrúr og öðrum ónöfnum, því hún var framhleypin og grunnhyggin, ef ekki mátti með réttu segja heimsk, en fram úr hófi hégómagjörn og drambsöm. En í staðinn fyrir að auka virðingu sína ávann hún sér í gildum mæli fyrirlitningu, þó almennt væri slett yfir það hræsniskápu, sem hún tók fyrir góða vöru.

    Að sönnu var hún í flestum heimboðum með manni sínum og þá jafnan sett á hinn æðri bekk, en það var ekki nóg, hún vildi fá einhvern virðingartitil sem höfðingskona, syo sem madama eður frú, en hún gat lengi ekki fundið lagið á því að fá þá ósk uppfyllta.

    Ekki lét Sigríður sér nægja það að hafa ótakmarkað ríki og ráð innanbæjar, heldur hlutaðist hún til um utanhúss — sem hún þó engan veginn þurfti — og það stundum um hreppstjórnarstörf, sem hún þó síður en ekki bar nokkurt skynbragð á.

    Við þess konar tækifæri var Þorgrímur ætíð vanur að setja ofan í við hana alvarlega og duglega, því hann vildi feginn venja hana af öllu þess konar ráðríki.

    „Þú hefur nóg að gjöra að hugsa um allt innanbæjar, sagði hann, „það er nógu stór verkahringur handa þér. Þar ræður þú öllu, eins og þú vilt, og skipti ég mér skjaldan af því, og ég þarf þess heldur ekki, það fer allflest í góðu lagi hjá þér. Svo er bezt, að þú skiptir þér ekki um mínar sýslanir. Ég mun reyna að líta eftir, að það fari ekki í mjög miklu ólagi, þó þú ekki komir þar til. Þetta fer bezt eins og er, að við hugsum um hvort fyrir sig og hvort um sitt ætlunarverk og leggjum svo ávöxtinn saman.

    Einu sinni þegar Þorgrímur hafði haft þessu líka umræðu við konu sína í talsvert alvarlegum en þó góðmótlegum rómi, eins og hann var vanur, sagði hún:

    „Þú mátt verða feginn, að ég létti eitthvað undir með þér. Þú heldur, að ég hafi á engu vit nema að kemba ull, spinna band og skammta mat, en þér skjátlast þokkalega í því. Ég hef vit á fleiru og það eins gott vit og þú, en það er nú þessi skrattans yfirdrottnun, sem þið viljið hafa yfir okkur konunum, hversu mikla hæfilegleika sem við höfum, og það kannske meiri en þið, þá segið þið: stattu þar sem ég segi þér, annars verð ég vondur. Það mun heita að bera virðingu fyrir konu sinni, vænti ég. Alltjent er þó það, að ég læt ganga undan mér, hvað sem helzt ég vil vera láta".

    „Hm, því neita ég ekki, en það kæmist nú áfram samt og það ekki síður, þó hægra færi en stundum er. Ég kvarta ekki og hef enga orsök til að kvarta yfir því, að ekki gangi nokkurn veginn sinn jafna gang hjá mér það sem ég á að annast um. Þó það sýnist ekki fara hart, verða skjaldan stórar eyður í eður afglöp, vona ég. Mér þykir betra, að mér sé hlýtt af elsku og virðingu en þrælsótta. Ég held það verði affarasælla. Þegar þú sérð, að allt fer að ganga aflaga og andhælis hjá mér, þá er gott þú takir í taumana og kippir því í lag, en láttu það bíða þangað til".

    „Þú skalt ætíð hafa þínum vilja framgengt í hverju sem er. Það hef ég ætíð mátt þola, hversu hyggilega sem mín ráð voru hugsuð, en ég má lúta í lægra haldinu og láta undan", sagði Sigríður ergileg, af því hann hafði á móti því, sem hún vildi, því þyngra mótlæti kom ekki fyrir hana en ef henni var sýnd minni virðing en hún þóttist eiga skilið — sem var talsvert mikið — og ef einhver hafði á móti uppástungum hennar eður því, sem hún endilega vildi, en það var ekki ætíð svo gott að samsinnast henni, því vilji hennar stjórnaðist svo oft og sem oftast af eintómri drottnunargirni, fégirni eður heimskulegum hégómaskap.

    Þorgrímur hleypti því ætíð fram hjá sér með því að skera einarðlega án orðalengingar skýrt og skorinort úr og segja, hvað vera ætti og vera skyldi, og var það alloftast, að hann hratt ráðum konu sinnar fyrir þá orsök, að þau voru vitleysa ein.

    En vildi það til, að hún kæmi með hyggileg ráð, sem skjaldan var, þá féllst hann á það en fyrirleit ekki, enda virti hann hana í öllu eins og hægt var, en hlaut þó að finna, að hún hafði lítið virðingarvert til að bera.

    Einn vetur var það, að Sigríður á Felli lá veik nokkurn tíma og var venju framar heilsulasin, svo hún allan veturinn aldrei gat farið til kirkju sinnar, sem þó var ekki vani hennar að vanrækja, því hún sótti vel alla mannfundi þar sem hún komst að.

    Um sumarmál var hún orðin svo hress, að hún gat riðið til kirkju með manni sínum. Margir urðu til að fagna henni og lýsa gleði sinni yfir því að sjá hana aftur orðna hrausta og heilbrigða og kváðust hana úr helju heimt hafa; hverjir þar töluðu af hreinskilni eður yfirskini var ekki hægt að greina.

    Sigríður gekk í bæinn fyrir messu, og tók prestskona á móti henni báðum höndum. Ekki voru þær samt mikið kunnugar, því prestur þessi kom að því prestakalli seint á næstliðnu sumri. Hafði Sigríður verið einu sinni við kirkju eftir komu hans og þær þá talað saman nokkur orð. Aðra kynningu höfðu þær ekki haft hvor af annarri.

    „Komið þér blessaðar og sælar, madama góð, sagði prestskona og faðmaði Sigríði að sér. „Þáð gleður mig sannarlega að sjá yður hér komna hrausta og heilbrigða. Ég fór að hugsa um það í vetur, þegar þér láguð þyngst, hvort það mundi bregða svo við mína komu hingað í sveit, að byggðarlagið skyldi missa sína mestu höfðings- og sómakonu. Því er ég svo innilega glöð, að í staðinn fyrir það fæ ég nú að sjá yður hér heila og hrausta. Ég vona eftir og það er mér kært, að við eigum eftir að kynnast betur en enn er orðið. Ég tala ekki um, hvað ég veit það gleður manninn minn að sjá yður hér komna.

    Enginn maður vissi til þess, að Sigríður hefði fyrri af nokkrum manni fengið þvílíkt ávarp. Það var líka svo að sjá, sem hún væri því ekki mjög vön, því á meðan prestskonan talaði, stóð Sigríður með vítt opinn munn og einblíndi á hana, en þegar prestskona þagnaði varð henni orðfall. Hún stiklaði til og frá og baðaði höndunum út í loftið, eins og hún ætlaði að fljúga.

    „Já, ójá, svo er það, sagði hún, þegar hún gat farið að tala. „Ég er komin til góðrar heilsu. Já, ég vona það, að við verðum betur kunnugar en við hingað til höfum verið, heillin — madama góð. Ég hef nú verið svona lasin í vetur og aldrei getað fundið yður. Ég hef nú raunar aldrei tíma á rúmhelgum dögum til að finna kunningjana eður ná kunningsskap göfugra höfðingskvenna. Búskaparsýslið heldur mér rígfastri. Ég hef um margt að sjá og margt að aðgæta.

    „Já, því er nú við brugðið af öllum hvílík búsýslukona þér eruð, enda sér þáð á. Mér er sagt, að þið hjón séuð stórrík".

    „Það er nú samt ekki satt. Við erum ekki rík, en við björgumst fyrir okkur með þessu móti að drífa það með hyggindum og dugnaði. Ég segi yður það satt, mín góða madama, að ég læt stelpurnar hlýða mér og ekki vera iðjulausar. Ég vil láta þetta hyski bæði hlýða mér og virða mig".

    „Já, ég held þér verðskuldið hvort tveggja eftir sögn, madama Sigríður. Það er víst óhætt að hlýða boðum yðar. Þér kunnið svo að segja fyrir, og allir vita, hver sómakona þér eruð".

    Margt fleira hjöluðu þær saman madömurnar og vissu þær ekki hvenær tíminn leið, því þegar þær komu í kirkjuna, var prestur fyrir nokkru kominn upp í ræðustólinn.

    Séra Sigurður — svo hét prestur þessi — var nokkuð hniginn á efri aldur. Hann var afburðamaður bæði að kröftum og knáleika. Hafði hann á yngri árum mikið æft sig við glímur og aflraunir og orðið frægur af. Hann var viðfelldinn í dagfari og mátti heldur heita gleðimaður, nokkuð hneigður fyrir öl, sem þó ekki varð til hneisu, því maðurinn var hraustur og þoldi víndrykkju flestum betur. Ekki var Sigurður álitinn klerkur meira en í meðallagi og það þó tæplega.

    Hann prédikaði blaðalaust, og var það ekki skjaldan, að þegar hann hafði endað innganginn og útleggingin byrjaði eður aðalræðuefni, þá hafði hann gleymt, hvað hann eiginlega ætlaði að tala um, því þó hann hefði áður ráðgjört að tala um eitthvert dásemdarverk drottins, sem hann þá fannst að vera hrifinn af, þá gekk ræðan öll út á það að tæta djöfulinn í sundur fyrir illsku sína. Talaði þá prestur við hann eins og djöfsi sæti þar á ræðustólsbarminum hjá honum.

    Stundum voru ræður hans eintóm bænagjörð fyrir konunginum, föðurlandinu og sérstökum mönnum, sem hann þá nefndi með nafni, þó ekkert sérlegt gengi að þeim og þeir í engan máta hefðu beðið hann að taka sig til bænar.

    Svo leit það út, að Sigurði presti fjndist sjálfum mikið til um andagift sína, því svo fljótt sem hann byrjaði að tala frá sjálfum sér, byrjaði hann að tárfella og grét þá stundum svo mikið, að hann gat ekki talað og hlaut að þagna, þó ekki kæmi lekandi dropi frá nokkurs manns auga. Þó vildi það oft til, að nokkrir fáir urðu til þess að tárast honum til samlætis. Hvort þeir gjörðu það af því þeim fannst það eiga svo vel við eður þeim fannst hann segja eitthvað hjartnæmt er ekki gott að segja.

    Fátækur var séra Sigurður jafnan, og svo var það enn, og kom það þó ekki til af því, að hann ekki gengi eftir tekjum sínum, því það gjörði hann ítarlega og var þá oft í því mjög smásmugulegur og enda hégómlegur.

    Eftir að þær madömurnar komu í kirkjuna, sat Sigríður með einlægum andagtarsvip undir tárvotri mælgi prests. Þó hefur hún líklega ekki verið vel upplögð að gráta með honum þann dag, því nokkrar konur, sem í kirkjunni höfðu verið, voru eftir messu að stinga saman nefjum um það, að allan messutímann, meðan Sigríður var í kirkjunni, hefði hún verið að smábrosa og kippast við. Það þóttust þær aldrei hafa séð til hennar fyrri, og hlutu einhverjar nýjungar að valda því.

    Þegar prestur hafði lokið ræðu sinni, þagnaði hann langa stund, ræskti sig og skimaði um kirkjuna, þar til hann með hárri og þó kjökrandi raust tók svo til orða:

    „Í dag er sannarlegur fagnaðardagur. Já, það er dagur góðs boðskapar í þessu drottins húsi, þar hin dyggðum prýdda, sómasadda höfðings- og heiðurskona madama Sigríður að Felli birtist hér á meðal vor eftir sína þungu og löngu sjúkdómsþjáningu. Æ, fögnum því og verum glaðir. Hún, perla og prýði sveitarinnar, stoð og blómi stéttar sinnar, er nú úr dauðans kverkum hrifin og oss aftur gefin. Lyftum því hjörtum vorum til himins með lofsöng og þakkargjörð. Amen".

    Það var bæði, að fólk hafði ekki vanizt sams kyns guðræknisathöfn sem þessari, enda gjörði hún ýmisleg áhrif á söfnuðinn. Flestallt kvenfólkið leit á Sigríði, eins og þeim hefði verið sameiginlega bent á eitthvert — aldrei fyrri séð — furðuverk og því næst á prestinn, og því fylgdu talsverðar olnbogahnippingar og hvíslingar.

    Bændur litu hver til annars og smábrostu. Þó voru sumir sem ekkert brugðu sér við, eins og þeir hefðu ekkert heyrt.

    Þorgrímur varð dreyrrauður í andliti um stund, en brá sér ekki að öðru. Á einskis látbragð hafði það eins mikil áhrif eins og Sigríðar. Hefði hún orðið forviða, þegar prestskonan sló henni gullhamrana og ávarpaði hana með madömutitlinum, þá var það ekki síður nú.

    Henni varð það fyrst að standa snögglega upp, eins og hún ætlaði að veiða orð prests í loftinu, líkt og börn veiða fiðrildi, en settist þó fljótlega niður aftur, horfði ákaflega stórum augum á prest eður leit í kringum sig til hinna kvennanna, flutti sig fram og aftur í sætinu og hneigði smám saman höfuðið, eins og hún vildi gefa orðum séra Sigurðar enn þá meiri áherzlu og afl.

    Eftir það var lokið messugjörð, og var þá mikið stungið saman nefjum og hvíslazt á, eins og áður er sagt.

    Prestur bauð Þorgrími til stofu, en prestskona stóð í bæjardyrum, þegar Sigríður kom. Hún tók í hönd hennar og sagði:

    „Gjörið þér nú svo vel að koma með mér í baðstofu, madama Sigríður. Þar er hlýrra fyrir yður, heiðurskonan", og leiddi hana inn.

    Ekki er í frásögn fært, hvað þær töluðu saman að því sinni, en það fór ekki leynt, að eftir þetta urðu þær hinar beztu vinkonur.

    Þegar þeir Þorgrímur komu í stofu, bauð prestur honum til sætis, en gekk sjálfur um gólf smábrosandi og gnúði höndum saman. Þeir spurðust þá almæltra tíðinda, töluðu um tíðarfar, veður og vind og því um líkt, sem mönnum er títt, þegar ekkert sérstaklegt umtalsefni er fyrir hendi.

    Þegar svo hafði gengið um hríð, þagnaði prestur, stóð og horfði fram undan sér, eins og hann væri að hugsa um, hvað hann skyldi segja, þar til hann sneri sér að Þorgrími með hátíðlegum svip og sagði:

    „Ég fann mér skylt, signor Þorgrímur, að minnast þess með nokkrum hjartnæmum þakldætisorðum, að húsfrú yðar eftir þungan og langvinnan sjúkdóm birtist í dag að nýju í húsi drottins á meðal vor. Það er sannarlegt gleðiefni almenningi, þegar aðrar eins sóma- og dugnaðarmanneskjur eru hrifnar úr dauðans klóm og settar inn á iðjureitinn að nýju. Ég fyr . . ."

    Hér tók Þorgrímur fram í, eins og honum þætti prestur vera búinn að segja nóg.

    „Já, ég þakka yður fyrir það, sagði hann nokkuð seinlega. „Ég hafði ekki beðið yður þess, af því þess háttar er ekki venja hér. Það sýnist að sönnu að eiga vel við og er líklega drottni þóknanlegt. En þó held ég, að honum sé þóknanlegast það þakklæti, sem hrærð tilfinning manns eigin hjarta knýr mann til, og til þess hefur maður alls staðar vígðan helgidóm, því hvar sem maður er staddur meðtekur hann efalaust með velþóknun þá bæn og lofgjörð, sem fram er borin fyrir hann af hreinu, viðkvæmu hjarta.

    Það var eins og bomsaði í presti við orð Þorgríms, eins og honum fyndist hann ekki jafnhrifinn af þakklæti við sig fyrir þessa auka-fyrirhöfn sína og hann hafði búizt við. Honum varð því orðfall um hríð og sagði síðan með daufum rómi:

    „Þér takið það þó ekki illa upp fyrir mér, hreppstjóri góður. Tilgangur minn var þó ekki slæmur, megið þér vita. Ég . . . "

    Hér tók Þorgrímur enn þá fram í og sagði:

    „Nei, nei, það fer fjærri því, prestur minn. Það gladdi mig, og ég kann yður þökk fyrir. Það er aldrei ofgjört að þakka drottni velgjörðir sínar og á vel við að gjöra það á helgum stað opinberlega, ef það er gjört af einlægu hjarta og þakklætistilfinningu, en ekki öðrum hvötum".

    Ekki töluðu þeir fleira hér um að því sinni. Leið nú að, er þau Fellshjón skyldu heim ríða og voru komin út á hlað.

    „Sæktu hestinn madömunnar, Sveinki", sagði prestskona við dreng, sem stóð þar hjá þeim.

    Þegar hesturinn kom, tók Sigríður í tauminn og teymdi að hestasteininum, sté upp á steininn, sem náði henni rúmlega í kné, og hoppaði svo í söðulinn. Allt fórst henni þetta svo léttilega sem hún hefði vængi að fljúga með.

    Á meðan þetta fór fram, veik prestur Þorgrími afsíðis og sagði: „Mikið er ég óheppinn með skepnuhöldin í ár, hreppstjóri minn. Ég missti nú gemling ofan í á í fyrradag enn að nýju. Ég held, að þeim fari nú að fæKka úr þessu gemsunum mínum".

    „Já, þetta brennur víðar við. Ég hef aldrei orðið fyrir jafnmiklum vanhöldum og í ár og hef lengi ekki átt eins fáa gemlinga og nú. En þeir verða að missa sem eiga", sagði Þorgrímur.

    Prestur lét sem hann ekki heyrði, hvað Þorgrímur sagði. Hann leit þá brosandi til hreppstjóra.

    „Þessi aukaorð, sem ég talaði í dag, voru líkt og þegar við leiðum konur í kirkju, sagði hann, „og eru bændur vanir að þægja eitthvað fyrir það eða í það minnsta hafa þeir gjört mér það. Ætli þér vilduð ekki gjöra svo vel og hjálpa mér um einhvern rýrasta gemlinginn yðar. Ég verð litlu feginn.

    Þorgrímur leit stillilega til prests, en svaraði engu. Gekk hann þá að hesti sínum, kvaddi prest, og riðu þau hjón heimleiðis.

    Þorgrímur gat njósnað það greinilega, að prestur hafði engan gemling misst, og ekki er þess getið, að hann sendi honum neinn.

    Eftir því tók vinnupiltur frá Felli, sem hafði orðið þeim samferða gangandi til kirkjunnar, að Sigríður var venju framar kát og þó áhyggjufull. Hann þóttist skilja, að hún hefði eitthvað á samvizkunni, sem hún vildi tala um við bónda sinn, en jafnframt varð hann þess var, að henni þótti húskarli ofaukið.

    „Þú mátt til að flýta þér heim, Brynki, að hjálpa piltunum til við skepnurnar", sagði hún.

    „Þú heimtar þó líklega ekki af honum, að hann verði fljótari gangandi en við ríðandi, sagði bóndi. „Þeir hafa einhvern tíma verið færri við féð en þeir eru nú, og þó ekki farið í svo miklu ólagi.

    Sigríður leit reiðilega til Brynjólfs, sló í hestinn og hleypti sprett á undan. Ekki brá Þorgrímur sér við það. Hann lét sem áður hestinn tölta seinagang við hliðina á sveininum og talaði við hann um hitt og þetta.

    Þegar húsfreyja hafði haldið sprettinum stundarkorn, hægði hún reiðina, stillti því næst hestinn og beið bónda síns.

    „Hvaða bölvuð hreppakerlingareið er þetta, hjartað mitt. Eigum við ekki að reyna að dragnast einhvern tíma heim í kvöld?" sagði hún ergileg, þegar Þorgrímur mátti heyra mál hennar.

    „Ertu orðin ósköp svöng, elskan mín? svaraði Þorgrímur brosandi. „Ég held annars, að klárgarmarnir séu ekki færir fyrir neinni þeysingsreið að hafa mestpart gengið úti á gaddinum í vetur. Þeir sýna sig, hvað þeir eru holdgrannir og líklega mergsviknir. Þetta vinnst allt með hægðinni, góða mín. Sígandi lukka er bezt. Það er nú farin að styttast leiðin.

    „Við þetta svar var þolinmæði Sigríðar á förum. Hún sló að nýju í hestinn og reið allt sem af tók í einum spretti heim í hlað, og var það talsvert langt. Var hestur hennar kominn að stalli og hún sjálf í búr fyrir löngum tíma, þegar þeir Þorgrímur komu heim.

    Fljótt urðu griðkonur þess varar, að húsfreyja var í meira lagi gustmikil og þusaði með mesta móti, og þótti þó hversdagslega ærið nóg. Enginn hlutur þótti henni vera á réttum stað, og það þeir hlutir, sem enginn hrærði hendi við nema hún sjálf og sem með hógværð stóðu kyrrir í sömu sporum og hún skildi við þá um morguninn.

    Þegar Brynki kom heim, hafði hann nýjungar að segja af því, hvað fram fór í kirkjunni. Hann gat þess líka, að honum sýndist húsmóður vera mjög annt um að verða ein með bónda, og réði hann af því, að hún mundi vilja tala eitthvað við hann, sem henni þótti áríðandi.

    Mikil umræða varð út af þessum nýjungum á milli hjúanna að Felli, og þó að ýmsir meiningarmunir væru, voru allir samdóma í því, að ergelsi húsmóðurinnar þetta kvöld væri engan veginn sprottið af því, að presturinn minntist hennar með madömutitli upp á ræðustólnum og prestskona ávarpaði hana alltaf með sama titli.

    Hitt þótti flestum líklegra, að henni hefði sárnað að fá ekki tómstund til að opna hjarta sitt fyrir manni sínum á að geta eitthvað þessu viðvíkjandi, og þeir, sem kunnugastir og spakvitrastir voru, sögðu, að Sigríði mundi þykja sér leiðinlega sýnd veiði en ekki gefin, ef hún skyldi ekki fá að vera madama lengur en þennan eina dag.

    Það var nú samþykkt, að allt undirfólkið — og þó einkanlega það í kvenlegginn, því það var staðfastara inni í bænum — skyldi veita nákvæma eftirtekt, hvort það af hendingu ekki gæti orðið neins vísara þá í hönd farandi daga.

    Þessi ráðagjörð átti að nokkru leyti rót sína í því, að það hafði ekki svo skjaldan að borið, þegar húsfrú Sigríður flutti eitthvert það mál við bónda sinn, sem henni var mikill hugur á og sem hann var seinn til að samþykkja, að hún varð svo háraustuð, ef til vill á móti vilja sínum, að fleiri gátu heyrt en þeir, sem til þess þings voru kvaddir.

    Að Felli var bæjarbygging reisuleg og fögur fremur því sem þá var almennt hér á landi, þar bændabýli voru um þann tíma allvíða bæði lítil og hrörleg.

    Að Felli var húsaskipun þannig, að fram á hlaðið sneru fimm þil, bæjardyr í miðju, en gestastofa og geymsluskáli sitt til hvorrar handar og sín skemma hvoru megin út frá. Innar frá bæjardyrum voru bein göng, þar til við tók búr og eldahús hvort á móti öðru. Þar innar af beygðust göngin til hægri handar, þegar inn var gengið, þá beygðust þau aftur, og var þá komið í baðstofu. Hún var há og breið með lofti í, alþiljuð og björt. Niðri var í öðrum enda afþiljað stórt herbergi. Þar sváfu húskarlar og óæðri gestir.

    Í hinum enda var annað herbergi lítið, en mjög snoturt. Þar sat Þorgrímur við skriftir sínar og geymdi hreppsskjöl og bókasafn sitt. Kallaði Sigríður það aldrei annað en kontór eður biblíótek. Þar ræddu þau hjón öll mál sín, sem ekki voru aðrir við riðnir en þau tvö.

    Í loftinu uppi yfir skrifstofunni var lítið herbergi, og sváfu þau hjónin þar. Í hinum enda loftsins afþiljuðum sváfu ríkisþegnar Sigríðar, nefnilega griðkonurnar, en á miðloftinu sat allt fólkið við vinnu sína á vetrum og öðrum tíma, sem inni var setið. Kvaðst húsfreyja kunna því bezt að geta litið yfir alla í einu, því þá gæti hún séð, hvort nokkur svikist um.

    Laugardagskvöldið næsta fyrir kirkjuferð húsfreyju, sem áður er getið, hafði ein af vinnukonum verið svo óheppin að geta ekki skilað af hendi viku-ætlunarverki sínu. Hafði hún vakað yfir því fram undir dag á sunnudaginn.

    Á sunnudagsmorguninn hafði Sigríður verið svo áhyggjufull að búa sig til kirkjunnar, að hún gáði ekki að ganga eftir því. Á sunnudagskvöldið sýndist griðkonu svo mikill bylgjugangur á henni, að hún vogaði sér ekki út í þann ólgusjó. Á mánudaginn bjóst griðkona sjálfsagt við því, að húsfreyja kæmi með birtu að heimta vikuverkið og færa henni nýtt verkefni, en það varð ekki, og þótti vinnukonu undarlega við bregða.

    Sigríður skammtaði því næst morgunverð hinni brotlegu griðkunni eins og öðrum án þess að koma og kalla verkið af henni. Þetta þótti vinnukonunni svo undarlegt og ískyggilegt, að hún þóttist viss um, að húsfreyja væri henni fyrir einhverra hluta skuld reið og taldi sér því vísar góðgjörðirnar því geipilegar úti látnar sem þær komu seinna.

    Hún sá nú ekki önnur hyggilegri úrræði en fara á fund húsmóður sinnar og taka með hugrekki og hetjudug því, sem að höndum bæri.

    Henni varð það þá fyrir, að hún tók í fang sér ávöxtinn iðju sinnar síðastliðna viku, sem voru smábandssokkar og þráðarhnyklar. Hyggst hún að finna húsmóður í því allra helgasta, þar var hennar oftast að leita þær stundir dagsins, sem hún tók sér hvíld á milli embættisanna sinna.

    Stúlkan þóttist heyra, þegar hún kom ofan, að þau húsbændur hennar mundu bæði inni í húsinu. Þótti henni það mikill bætikostur, að Þorgrímur var þar líka, því hún þekkti svo til, að þá mundi Sigríður vægari sér í það minnsta í bráðina, því hvað svo sem á eftir kynni að koma þótti henni frestur á illu beztur.

    Hún gengur því örugg að dyrunum og ætlar að drepa högg á þær, en hikar við, því í sama bili hefur húsfreyja upp röddina nokkuð mikilfenglega og segir: „Já, þarna er það komið. Þú ert kallaður monsér, signor og herra. Þar um talar þú ekkert. En ef ég vil láta sýna mér einhverja ofurlitla virðingu, það kallar þú og segir, að aðrir kalli heimsku, hégómaskap og gikkshátt. Þú ert hreppstjóri, meðhjálpari, sáttasemjari og ég veit ekki hvað. Þetta gæti ég allt verið, ef ég klæddi mig í brækur. Þú hefur sjálfur kosið mig þér fyrir konu og hefur líklega álitið mig þess verðuga. Á ég þá ekki heimtingu á því að taka þátt í allri þeirri virðingu, sem á þig er hrúgað, enda veit ég ekki nema ég sé eins snjöll í minni stöðu eins og þú í þinni, þegar á allt er litið".

    „Sussu, sussu", sagði Þorgrímur, en hann hafði svo lágt, að vinnukona ekki heyrði, hvað hann sagði fleira.

    Öðru máli var það að gegna með húsfreyju. Hún svaraði bónda enn þá háraustaðri en áður:

    „Ég held prestur og prestskona hafi vit á því. Nú vil ég og skal ég verða kölluð madama".

    Í þessu heyrði griðkona fótaspark mikið inni í húsinu. Þorði hún þá ekki að haldast við lengur og skauzt inn í svefnherbergi pilta og gat aðeins falizt þar, áður en Sigríður þeystist fram og upp á loft.

    „Hvar í fjandanum er hún Gunna? Er hún ekki búin enn þá með velluna, sem hún átti að skila hina vikuna? Því kemur hún ekki með það? Og gengur nú svona eins og landeyða. Ég skal kenna henni að . . . ."

    Í þessu kom Guðrún upp í stigann. „Ég var að leita að yður, húsfreyja góð, sagði hún. „Ég hélt, að þér væruð fram í búri.

    „Varstu að leita að mér? Ég skal leita að þér, dubban þín, svaraði Sigríður og gaf henni duglegan löðrung. „Þú ert þokkakind, svíkst um aðra vikuna og gengur iðjulaus hina. Það er fallegt háttalag. Skammastu nú til að fara að gjöra eitthvað.

    „Mig vantar ull", sagði Guðrún í hálfum hljóðum.

    „Vantar þig ull? Ég held þig vanti nenningu og menningu, ambáttin þín", sagði Sigríður og þjösnaðist ofan með fóðrapening Guðrúnar í kjöltu sinni.

    Að litlum tíma liðnum kom Sigríður aftur með fulla svuntu sína af ull, fleygði til Gunnu og ætlaði að löðrunga hana um leið.

    „Leystu nú þetta betur af hendi en bölvaða ómyndina vikuna sem leið, sagði hún. „Nú er komið sumar og helmingurinn af ullinni óunnið fyrir svikin úr þér og ykkur öllum.

    Guðrún veik sér undan högginu, því hún þóttist fá nóg af hinu fyrra. Lét húsfreyja við það vera og gekk snúðugt ofan.

    Skjaldan höfðu þær griðkurnar séð hana í jafntrylltu skapi sem þennan morgun, og var þó oft ærið um.

    Ekki minntist Guðrún lengi allra þeirra hörmunga, sem fram við hana höfðu komið í þessum hríðarbyl, fyrir fagnaðar sakir yfir því, að nú vissi hún hér um bil með vissu, hvað olli slíkum ófögnuði og hafði mikla og fróðlega sögu að segja þeim stallsystrum sínum. Það leið heldur ekki á löngu, þegar næði fékkst, að hún hóf upp sögu sína og tjáði sem greinilegast frá, hversu hún hikaði með inngöngu sína í herbergið við háreysti húsfreyju, því næst allt sem hún heyrði inni þar og að síðustu hversu hún slapp nauðuglega fyrir því að verða séð af henni.

    Mikil og merkileg þótti þeim griðkunum saga Guðrúnar. Var nú ýmist hlegið eða hvíslað, rætt og ráðslagað, hvern enda þetta málefni mundi fá.

    Þær, sem kunnugastar voru skaplyndi Sigríðar, sögðu, að hún myndi eira því illa að fá ekki þessu framgengt, er henni var svo mikið áhugamál. En hverjum meðölum og ráðum hún myndi beita til þess, í þær eyður var erfiðara að spá.

    Þegar húskarlar gengu til rekkna um kvöldið, varð því nær hver griðkvennanna til þess að segja þjónustumanni sínum, hvað skeð hafði um daginn, svo það varð ekki lengi neitt launungarmál í bænum að Felli. Ekki liðu heldur langir tímar, þar til Fellsvinnumenn skutu því að kunningjum sínum á hinum bæjunum, og með þeim hætti dreifðist það fljótlega um sveitina og enda út úr henni og rýrnaði þá ekki í meðferðinni. Var mjög margt og misjafnlega um það rætt.

    Fáum dögum síðar en nú er frá sagt var það einn dag, að Sigríður lét söðla hest sinn og reið heim á prestssetrið. Ekki vissu menn þá um erindi hennar, en litlu síðar kvisaðist þó, að hún myndi hafa ráðfært sig við þau hjón um það, hvort hún ekki mundi vítalaust mega bera madömutitil sem hreppstjóra-, meðhjálpara- og sáttasemjarakona í einni persónu.

    Höfðu þau prestur og kona hans svarað því, að það ekki einungis væri vítalaust, heldur ætti hún þann titil með réttu. „Ég vil engan veginn vera að trana mér fram, hafði Sigríður sagt, „en ég vil heldur ekki láta draga það af mér, sem ég á með réttu fram yfir hinar konudruslurnar í sveitinni. En ég sé ekki ráð til að koma því á, svo ekki verði upphlaup og gauragangur út af því.

    Það höfðu þá orðið málalok, að prestur sagði, til að koma í veg fyrir öll ónot, væri bezt að sækja beinlínis um það. Mundi sýslumaður, sem sjálfsagt viðurkenndi rétt hennar til þeirrar nafnbótar, hafa fullt vald til að leiða það í lög. Þetta hafði Sigríður látið sér vel líka, og var hún nú nokkru rólegri til geðsmuna eftir þá ferð.

    Enginn maður sá í neinu, að Þorgrímur vissi neitt um þetta ráðabrugg.

    Ekki liðu margir dagar frá þessum atburðum, er nú voru sagðir, þar til það var einn morgun, sem Þorgrímur kom út árla, að hann sá Brynjúlf á hlaðinu með beizli á handlegg sér.

    „Hvert ætlar þú að fara, Brynki minn?" sagði hann með hógværð, eins og honum var ætíð lagið.

    „Húsmóðirin sagði mér að sækja hann Blesa".

    „Nú, já, já — jæja, gjörðu það, drengur minn. En hafðu með þér hnappheldu og taktu hann Jarp líka, en heftu hann hérna norðan við túnið í lautinni, þegar þú kemur aftur".

    Brynki kom skjótlega með hestana; hefti hann Jarp, eins og honum var sagt, en reið Blesa heim í hlaðið.

    Sigríður var þá úti stödd, prúðbúin.

    „Leggðu nýja söðulinn minn á hestinn. Þú veizt, hvar hann er. Farðu svo og klæddu þig í sparifötin þín. Þú átt að skreppa með mér bæjarleið, og komstu nú einhvern tíma áfram með það".

    Fyrir rúmu ári var sýslumaður kominn í sýslu þessa, sem hét Páll. Hann var ungur maður og hafði fengið sýsluna strax, sem hann var laus við lærdóm sinn, sem hann leysti með heiðri af hendi. Páll sýslumaður var stilltur vel, ljúfur og lítillátur við hvern, sem í hlut átti, en stjórnsamur og einarður í embætti sínu, sem hann stundaði með árvekni og réttvísi án nokkurs manngreinarálits. Varð hann því fljótt ástsæll við alla sýslubúa nema þjófa og bófa, því við þá beitti hann réttvísi eins og aðra menn.

    Engan mann í sýslunni virti Páll jafnmikið sem Þorgrím að Felli. Urðu þeir brátt hinir beztu vinir. Sá sýslumaður fljótt, hvílíkur ágætismaður hann var fyrir hvarvetna sakir, og svo sagði hann, að þann mann hefði hann þekkt með flestum hæfilegleikum og kostum, en fæstum göllum.

    Páll sýslumaður var ókvæntur, þegar hér segir frá, og bjó með ráðskonu, efnilegri bóndadóttur þar úr sveitinni.

    Hann var fátækur, þegar hann kom þar, en leit út fyrir að verða búsýslumaður góður, sem og raun gaf vitni, því þegar fram liðu stundir, varð hann maður stórauðugur. Bær sá, sem sýslumaður bjó á, hét á Völlum.

    Þegar Brynjúlfur hafði dubbað sig upp, sté Sigríður húsfreyja í söðulinn, og héldu þau af stað. Enginn vissi, hvert Sigríður ætlaði, og leiddu heimamenn að því ýmsar getur. Ekki lét Þorgrímur sem hann sæi, hvað fram fór, en þegar Sigríður var fyrir litlum tíma riðin, lét hann taka Jarp, bjó sig skyndilega og reið hvatlega úr hlaði. Þótti það með undarlegum hætti, því það var ekki vani hans. Sögðu húskarlar sín á milli, að honum mundi eitthvað mikið í skapi.

    Ekki höfðu þau Sigríður farið alllangt, er þau sáu mann fara eftir sér, og reið sá mikið.

    „Ég held það sé húsbóndinn á honum Jarp", sagði Brynki.

    „Húsbóndinn á honum Jarp. Hvaða bölvuð vitleysa, eða hvað. Jú, ég trúi það", sagði Sigríður og roðnaði mjög.

    Þorgrímur náði þeim skjótt og heilsaði glaðlega. Ekki tók húsfreyja kveðju hans.

    „Þú þarft nú ekki að fara lengra, Brynki minn, sagði hann. „Farðu heim aftur, drengur minn, og gjörðu við tóftina, sem ég var að tala um við þig í gærkvöld.

    Brynjúlfur sneri þegar aftur. Hann gaf þeim hjónum auga og sá, að þau riðu hægt hvort við hliðina á öðru, þar til þau hurfu honum fyrir holt nokkurt.

    Ekki var hann fyrir löngu kominn heim, þegar sást til Sigríðar á Blesa. Lötraði hann hægt og hægt og beit gras í millum. Var því líkast sem hún svæfi í söðlinum.

    Þegar Blesi loksins kom heim á hlaðið, stökk hún af baki, skipaði að spretta af hestinum og gekk í bæinn. Engum manni heilsaði hún og talaði við engan það sem eftir var dagsins, og nokkra daga þar á eftir var hún venju fremur hæglát og illlyndislaus. Þótti það undarlega við bregða og þó vel.

    Þorgrímur fór leiðar sinnar, þar til hann kom að Völlum. Tók sýslumaður við honum báðum höndum og bauð til stofu.

    Þegar þeir höfðu spurzt almæltra tíðinda og um hríð talað um landsins gagn og nauðsynjar, sagði sýslumaður:

    „Vilduð þér mér nokkuð sérlegt núna, vinur minn? Mér sýnist þér einhvern veginn áhyggjufullur. Það eruð þér ekki vanur að vera".

    „Ónei, sýslumaður minn góður. Ég held ég vilji yður ekki neitt. Ég fór þetta í einhverri ráðleysu og leiðslu".

    „Nú er það í fyrsta sinni, sem ég ekki trúi yður. Ég veit, að þér hafið í einhverjum tilgangi farið á minn fund. Þér eruð ekki vanur að flækjast í erindisleysum, hvorki hingað né annað".

    „Og þó er það svo í þetta sinn. Ég á ekkert erindi við yður, ég segi yður það satt".

    „Já, ég hefi nú ekki spurt yður að því, hvort þér komið beinlínis heiman að. Ég hélt það af því ég sá, hvaða leið þér komuð. Þér komið kannske einhvers staðar annars staðar frá?"

    „Nei, ég kom rakleiðis heiman að".

    „Svo læt ég ekki af minni meiningu. Þér hafið haft eitthvert erindi í huga, þegar þér fóruð af stað. Þér skylduð vera mér hjartanlega velkominn gestur á hverjum degi, en af því ég veit, að þér ekki tíðkið svoleiðis kynnisferðir, þá er ég sannfærður um, að svo er ekki heldur enn".

    „Og þó er það svo, herra sýslumaður, að það verður úr því kynnisferð í þetta sinn".

    „Signor Þorgrímur, sagði sýslumaður nokkuð alvarlegur, „ég vona, að þér hafið ekkert á meðvitund yðar, sem krefur aðgjörða réttvísinnar, en hafið svo séð yður um hönd að opinbera mér. Ég gjöri víst réttlætistilfinningu yðar rangt til að hugsa það. Og þó býr yður eitthvað í brjósti, sem eykur yður talsverða áhyggju, en sem þér ekki þorið að eiga undir drengskap mínum að láta taka þátt í með yður.

    Þorgrímur eins og vaknaði af draumi og svaraði stillt en djarflega: „Nei, herra sýslumaður, gjörið þér mér ekki þær getsakir, að ég hylli með óráðvöndum mönnum klæki þeirra og gjöri mig þannig meðsekan þeim. Frá því vona ég, að drottinn varðveiti mig og það þó mér nákomnir ættu hlut að máli".

    „Ég gef yður líka fullkomlega það traust og vona ég fái aldrei orsök til annars. Þá er það hitt, sem ég gat til, sem gjörir ferð yðar til mín að erindisleysu í þetta sinn, þó það hafi ekki verið ásetningur yðar í fyrstu. Ég játa það, að ég hefi enga heimild til að grennslast eftir því, sem yður kann að liggja þungt á hjarta og sem mér kemur ekkert við. En aftur á móti kemur mér það mjög óvart, ef þér hafið orsök til að rengja vináttu mína svo, að þér þorið ekki að bera traust til mín, þar sem mér þó finnst, að mér væri sönn ánægja að geta létt undir bagga með yður, ef það væri unnt".

    „Nei,

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1