Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Isfólkið 3 - Hyldýpið
Isfólkið 3 - Hyldýpið
Isfólkið 3 - Hyldýpið
Ebook236 pages3 hours

Isfólkið 3 - Hyldýpið

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Sunna Angelíka var orðin tvítug og hélt út í hinn stóra heim. Loksins var hún frjáls og gat leitað uppi nornirnar við Brösarps-hæðir, tilbeðið fursta myrkranna og gert allt sem hana hafði svo lengi dreymt um. Sunna var þó ekki með allan hugann við það illa. Hún var reiðubúin að leggja allt í sölurnar fyrir sína nánustu, jafnvel fórna lífi nú ...
LanguageÍslenska
PublisherSkinnbok
Release dateFeb 1, 2022
ISBN9789979640226
Isfólkið 3 - Hyldýpið

Read more from Margit Sandemo

Related to Isfólkið 3 - Hyldýpið

Titles in the series (10)

View More

Related ebooks

Reviews for Isfólkið 3 - Hyldýpið

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Isfólkið 3 - Hyldýpið - Margit Sandemo

    Hyldýpið

    Sagan um Ísfólkið 3

    Hyldýpið

    © Margit Sandemo, 1982

    Bókin heitir „Avgrunden" á frummálinu.

    © Katrin Agency, 2013

    Íslensk útgáfa: JENTAS ehf., 2013

    Þýðing: Snjólaug Bragadóttir

    © kápa: Katrin Agency, 2012

    Hönnun kápu: Jentas

    ISBN 978-9979-64-022-6 (epub)

    Samningar er varða verk höfundar, þýðingu, kápu og útlit texta og notendarétt á þeim eru í eigu © Katrin Agency.

    www.jentas.is

    www.isfolkid.is

    www.galdrameistarinn.is

    JENTAS gefur bókina út á íslensku og dönsku.

    Öll réttindi áskilin.

    Bók þessa, eða hluta af henni, má ekki afrita með neinum hætti, hvorki með ljósmyndun, prentun, hljóðritun né á annan hátt, án skriflegs leyfis útgefanda.

    Sagan um Ísfólkið

    FYRIR ÓRALÖNGU, mörgum öldum, fór Þengill illi út í óbyggðir til að selja Satani sál sína.

    Hann varð ættfaðir Ísfólksins.

    Þengli var lofað gulli og grænum skógum gegn því að ein manneskja að minnsta kosti í hverjum lið ættarinnar skyldi vera í þjónustu Satans og vinna illvirki. Viðkomandi skyldi þekkjast á gulum kattaraugum og vera göldróttari en nokkur dæmi voru til um.

    Bölvunin skyldi hvíla á ættinni þar til staðurinn fyndist þar sem Þengill illi hafði grafið niður pottinn sem hann notaði til að sjóða seyðið sem manaði myrkrahöfðingjann fram.

    Svo segir þjóðsagan.

    Hvort hún er sönn veit enginn.

    Árið 1548 fæddist maður í ætt Ísfólksins, undir þessum álögum. Hann reyndi að snúa hinu illa til góðs með líferni sínu og var því kallaður Þengill góði. Þessi saga er um fjölskyldu hans og afkomendur.

    Kannski má þó segja að hún fjalli mest um konurnar í ættinni.

    1

    Í TRJÁKRÓNUNUM drundi þungur söngur. Hann niðaði og rumdi eins og í munkakór í dómkirkju, dapurlegur eins og hann fjallaði um sorgir og óhamingju. Furutrén svignuðu í storminum svo brakaði í greinunum og hausttungl óð í skýjum á hraðferð.

    Sunna hló á hlaupunum um skóginn. Óveðrið hafði þau áhrif á hana að hún var eins og í vímu.

    Nú var hún fullorðin og frjáls eins og vindurinn í trjátoppunum. Hún hélt á hnýtinu frá Hönnu, Þengill hafði afhent henni það þennan sama dag og hún þrýsti því að brjósti sínu. Fyrr um daginn hafði hún líka kvatt alla heima á Lindigarði.

    Hennar tími var kominn.

    Ari, litli bróðir hennar, hafði fylgt henni áleiðis niður að höfn í Osló þar sem skip lá tilbúið að sigla til Danmerkur. Þau riðu samsíða eftir vegunum en á miðri leið hafði Sunna beðið um að fá að stytta sér leið gegnum skóginn, ein. Loks hafði Ari látið undan, tekið ferðakistuna hennar og haldið áfram með hestana. Þau ætluðu að hittast í skógarjaðrinum. Hann vildi fullvissa sig um að hún næði skipinu.

    Charlotte Meiden hafði útvegað Sunnu farið til Danmerkur. Hún átti að vera lagskona roskinnar aðalsdömu sem var smeyk við að fara ein í siglinguna. Þau heima höfðu árætt þetta því Sunna hafði hagað sér óaðfinnanlega undanfarin fimm ár. Nú var hún þó orðin svo eirðarlaus að ekki yrði lengur haldið aftur af henni.

    Já, vissulega hafði hún verið góð... bara til að fá leyfi til að helga sig áhugamáli sínu fullorðin.

    Mikið hafði það oft verið erfitt! Hana hafði klæjað í fingurna í hvert sinn sem hún sá tannblóm eða óðjurt við vegkantinn... og ef einhver var ósvífinn við ástvini hennar. Einu sinni hafði hún meira að segja búið til smábrúðu í líki hefðarkonu sem talaði illa um Charlotte. Sunnu hafði tekist að ná hári af konunni, saumað það inn í brúðuna og var reiðubúin að stinga nál í hjartastað þegar hún áttaði sig. Slíkt var henni ekki leyfilegt, hún hafði lofað Þengli því. Hún eyðilagði brúðuna og samviskan batnaði. Samt var gremjulegt að mega ekki láta á það reyna hvort hún hefði kraftinn enn.

    Jú, víst hafði hún hann. Að eilífu! Þengill var afar ánægður með verk hennar meðal hinna sjúku. Þeir treystu Sunnu næstum eins og honum. Að vísu hafði hún stöku sinnum gripið til róttækra aðgerða en á þann hátt að enginn tók eftir því.

    Ekki hafði hún heldur hjálpað neinum til að deyja þótt henni fyndist að viðkomandi ætti skilið að fá að losna frá þjáningum sínum. Bara tvisvar eða svo en það hafði engu skipt, hugsaði hún áhyggjulaus. Hún gerði það bara til að staðna ekki alveg.

    Nú var betrunartímanum lokið.

    Hún hafði ekki viljað ríða gegnum skóginn, vildi heldur finna vindinn á andlitinu og jörðina undir fótunum og vita að nú var þetta allt hennar að njóta. Hún hló upp í tunglið.

    -Ég er frjáls, Hanna, hvíslaði hún. -Frjáls! Nú hefst okkar tími.

    Áætlanir hennar um Danmerkurferðina voru ekki alveg þær sömu og fjölskyldunnar...

    Hún hafði spurst fyrir. Þar var alltaf verið að taka nornir, en bara konur sem nágrannarnir tilkynntu um og kunnu ekkert fyrir sér. Sunna vissi hins vegar hvar alvörugaldrafólk var að finna. Hanna hafði sagt henni það með andakt í rómnum.

    Þangað var ferð hennar heitið.

    Alvörunornirnar voru ekki margar, enda útilokað eins og yfirvöld gengu fram. En þær sem eftir lifðu voru nógu magnaðar.

    Hún var ein þeirra fáu. Þau Þengill. En hann vildi ekkert gera, sóaði bara kröftum sínum í góðverk.

    Að hann skyldi nenna þessu. Fimm ár af hlýðni og skírlífi höfðu reynst Sunnu meira en nóg.

    Hún varð að stansa sem snöggvast til að skoða dýrmætu eigurnar sínar sem hún hafði saknað svo lengi. Hún ljómaði af gleði og eftirvæntingu. Þarna var höfuðkúpa nýfædda barnsins sem fundist hafði í gólfi einu fyrir 100 árum, fingur af hengdum glæpamanni, hjarta úr svörtum hundi, mold úr kirkjugarði, ormatungur...

    Þar kom hún! Alrúnin var það merkilegasta af öllu, erfðagripur sem fannst fyrir langalöngu í suðrænu landi, dregin upp úr jörðinni við gálgastaðinn þar sem morðingja hafði orðið sáðfall á dauðastundinni. Þar hafði alrúnin vaxið og rótin, að lögun eins og mannslíkami, hafði kveinað svo þegar galdramaðurinn dró hana upp á fimmtudagsnótt á fullu tungli, að hann hafði ærst af hljóðunum.Þannig hafði Hanna sagt söguna. Alrúnar­innar varð að gæta, hún var ómetanleg.

    Sunna vóg þennan ógeðfellda, skorpna grip í hendi sér. Rótin var stærri en höndin þótt örlítið hefði verið skorið af endanum. Kannski hafði hinn alræmdasti af forfeðrum hennar, Þengill illi, gert það. Sagt var að alrúnin kæmi frá honum. Öruggt var að minnsta kosti að það afskorna hafði verið notað til leyndra aðgerða. Sunna vissi til hvers mátti nota alrúnina. Það var óendanlega margt. Hún gat bæði verið ástarjurt og til að skaða óvini með... eða fært eigandanum ríkidæmi.

    Við rótina var fest mjó leðurreim. Sunna kinkaði kolli. Nú átti hún alrúnina og gat notað hana eins og ætlast var til.

    Hún rétti úr reiminni og hengdi alrúnina um hálsinn, innan undir fötin. Hún var hörð og köld og klóraði í húðina. Það fór hrollur um Sunnu en þetta vendist.

    Nú naut hún öflugasta verndargrips sem til var.

    Það veitti öryggi... og var næstum hátíðlegt.

    Dagur var í Kaupmannahöfn. Það yrði gaman að hitta hann aftur. Hann var í háskólanum að lesa lög og ætlaði síðan að fá góða stöðu heima í Noregi. Hann hafði farið fyrir hálfu öðru ári. Þau heima treystu því að hann gæti litið til með Sunnu. Kannski leiddi þessi ferð hennar eitthvað gott af sér, góða stöðu eða sambönd. Með samböndum meinti Silja góðan eiginmann, enda rómantísk sál. Dagur gæti kynnt hana á réttum stöðum, við hirðina og meðal fína fólksins. Margir skólafélagar hans voru af æðri stigum.

    Hún mátti dvelja hjá honum í mánuð en svo yrði hún að koma heim aftur.

    Sunna flissaði þegar hún hélt för sinni áfram gegnum skóginn í storminum. Vissulega gat verið gott að hafa fósturbróður sinn við höndina en réttu staðina ætlaði hún að velja sér sjálf. Það mátti þó ekki vanmeta hirðina. Þar gátu verið álitlegir strákar. Sunna hafði gætt allrar siðsemi síðan hún forfærði vinnupiltinn Kláus en nú gæti hún alveg hugsað sér nýtt ævintýri. Hitt hafði ekki verið merkilegt, bara svolítill sigur. Hún vissi að samband karls og konu var magnaðra en þetta.

    Hún strauk niður eftir líkama sínum. Hún vissi að hún var falleg, það höfðu fjölmargir sagt henni.

    Aumingja Hanna, hugsaði hún skyndilega með trega. Hún hafði aldrei haft möguleika Sunnu, svo ófrýnileg að fólk hörfaði og var alla ævina innilokuð í afskekktum dal.

    Sunna átti hins vegar framtíðina fyrir sér og hafði allan heiminn að leikvelli.

    Svo sannarlega skyldi hún nýta hæfileika sína!

    Þau heima höfðu orðið hrygg þegar hún fór en vissu að hún þurfti að spreyta sig á eigin spýtur til að koðna ekki niður. Undanfarið hálft ár hafði hún verið erfið, óþolinmóð og uppstökk, það vissi hún. Þengill og Silja höfðu kvatt hana með þéttum faðmlögum og Líf, litla systir, hafði tárast. Charlotte Meiden kom að kveðja og bað fyrir bestu kveðjur til sonar síns, Dags.

    Svo höfðu þau Ari riðið út lindigöngin hennar Silju. Eitt tré vantaði í röðina. Það hafði visnað og dáið og Þengill þurft að höggva það. Það var tré gömlu barónessunnar. Hún var nú látin og hvíldi í kirkjugarði Grásteinshólma.

    Þengill hafði gróðursett nýtt linditré á staðnum. Sunna mundi vel eftir því og hvað Silja hafði orðið reið.

    -Þú færð ekki að leggja álög á fleiri tré, Þengill, hafði hún sagt, nötrandi af bræði. -Ég megna ekki að vera alltaf á verði gagnvart þessum trjám.

    -Það hefur oft komið sér vel fyrir mig, hafði hann sagt sér til varnar. -Þú veist að ég hef getað greint sjúkdóma í þeim.

    -Ég veit það en það gerir mig hrædda! Ef ég sé visið blað fyllist ég skelfingu.

    -Eins og þú vilt, hafði Þengill svarað. -Ég lofa að leggja ekki álög á fleiri tré. Það hefur heldur enginn bæst við fjölskylduna sem við gætum helgað tré.

    -Nei, en börnin okkar hafa stækkað og við gætum eignast barnabörn innan fárra ára.

    Þengill hafði fallist á að hafa ný tré bara venjuleg tré.

    Nú opnaðist skógurinn og Sunna sá yfir litla sveit. Sjávarlyktin benti til þess að fjörðurinn væri skammt undan. Í fjarska sást reykur frá mörgum húsum. Það hlaut að vera Osló, handan Akershus-virkis.

    Tekið var að birta og tunglið farið að fölna. Þegar Sunna kom út úr skóginum fannst henni sveitin hvíla í grámósku og algerri þögn eftir hvininn í trjátoppunum.

    Hún gekk hröðum, léttum skrefum fram hjá lágreistum húsunum þar sem allir sváfu enn. Aðeins hvinur í grasi rauf þögnina. Sunna nam staðar við kirkjubrekkuna og ýtti síðum, svörtum lokkunum frá andlitinu.

    Hún stóð stundarkorn og litaðist um. Þarna voru gapastokkurinn, hýðingarstaurinn og grýtingarflöt­in. Ögn fjær var höggstokkur. Á hann höfðu glæp­a­menn lagt höfuðið undir öxina. Tómur gálgi stóð skammt þar frá og allt blasti þetta við kirkjug­estum.

    Þetta var það sem Sunna sá en hún fann miklu meira. Hún stóð hreyfingarlaus upp í vindinn og varð hissa á öllu sem hún fann fyrir þarna. Hún skynjaði dauðaskelfingu þeirra sem lokið höfðu lífinu hér og skömmina sem lá eins og gufa kringum gapastokkinn, forvitni áhorfenda, illgirnina og spennuþorstann.

    Sunna óttaðist ekki þá dauðu. Eitt sinn hafði hún, þrátt fyrir að muna það ekki, skellihlegið að líki sem hékk í gálga. Silja hafði skýrt það með skilningsleysi barnsins en það var rangt. Myrkur og dauði tilheyrðu heimi Sunnu. Nafnið sem hún hafði fengið til verndar gegn því dugði skammt. Tunglið var leiðarljós hennar, ekki sólin.

    Eina skiptið sem Sunna hafði orðið hrædd var þegar Þengill reiddist við hana. Þá hafði hún drepið auman djákna sem vildi vinna fjölskyldunni mein. Hún bar takmarkalausa virðingu fyrir Þengli af því henni þótti undurvænt um hann.

    Það var óttinn við reiði hans sem hafði haldið henni í skefjum svo lengi.

    Annars óttaðist Sunna ekkert.

    Snögg vindhviða fór um skóginn á bak við hana.

    Nú var hún tvítug. Það var árið 1599 og nú gat hið rétta líf hennar hafist.

    ARI BEIÐ VIÐ skógarjaðarinn. Hann var einka­son­ur Þengils, 13 ára, svipmikill með há kinnbein og kolsvart hár. Hin þrjú börn og fósturbörn Silju og Þengils voru eins og fullkomin sköpunarverk en Ari gat ekki talist fríður. Hins vegar geislaði frá honum öryggi og það fannst Sunnu öllu meira virði.

    Hann fylgdi henni niður að höfninni og sá til þess að hún færi um borð ásamt gömlu hefðarfrúnni sem gladdist mjög yfir því að fá svo fallega og vel upp alda fylgdarkonu. Sunna breytti fasi sínu umsvifalaust, jafnvel röddinni, varð mjúkmál og óendanlega hjálpsöm.

    Hún stóð lengi og veifaði til Ara á hafnarbakkanum og svo hófst ævintýrið.

    Siglingin til Danmerkur var fremur erfið í sjóganginum en Sunna átti lyf við sjóveiki og gamla konan var afar þakklát. Henni leið eins og hetju þar sem þær Sunna virtust einu farþegarnir sem ekki urðu sjóveikir.

    Hafi Sunna vonast eftir ævintýri strax um borð varð hún fyrir sárum vonbrigðum. Allir karlkynsfarþegarnir héngu út yfir borðstokkinn eða engdust úti í horni og í áhöfninni voru bara gamlir, veðurbitnir sæfarar, ekki hið minnsta aðlaðandi.

    En Sunnu fannst samt óskaplega spennandi að sigla. Hún fór út á þilfar við hvert tækifæri og hló þegar úðinn frá öldunum stóð framan í hana. Þegar skipið stakkst niður í djúpa öldudali hvein í henni af ánægju og ekki síður þegar það hífðist upp aftur. Nú fyrst skildi hún hversu einhæft lífið hafði verið heima á Lindigarði.

    Þegar lagst var að bryggju í Kaupmannahöfn beið vagn eftir gömlu konunni og þar með var skyldum Sunnu lokið. Sú gamla var svo ánægð með þjónustuna að hún rétti Sunnu pyngju sem peningar glömruðu í. Sunna varð á taka á öllu sínu til að gá ekki strax hversu mikið þetta var. Hún hneigði sig og veifaði þegar vagninn ók burt.

    En hún var aldeilis ekki ein. Dagur var kominn til að taka á móti henni.

    Sunna fleygði sér í fangið á honum.

    -Mikið ertu myndarlegur, Dagur! Þú ert orðinn fullorðinn, litli bróðir.

    Hún hélt honum frá sér og horfði upp á hann. Hann var orðinn mun karlmannlegri en áður. Langa, beina nefið og grannleita andlitið einkenndi hann enn en drættirnir voru skarpari, brúnirnar dekkri og þykkari og augun stálgrá. Hann var klæddur nýtískulegum fötum, ekki vattstungnum jakka og pokabuxum. Nei, Dagur bjó í Kaupmannahöfn og fylgdist með tímanum. Hann var með barðabreiðan hatt sem brettist upp á annarri hliðinni og var skreyttur fjöðrum. Jakkakraginn lá út á boðungana og bæði jakki og buxur voru þrengri en áður. Svo var hann í stígvélum sem heilluðu Sunnu gersamlega. Bróðir hennar var glæsimenni!

    Hún fór strax að hugsa eins og kona og virti fyrir sér þær fáu konur sem hér var að sjá. -Á maður að klæðast svona núna? Ég hlýt að vera hörmulega gamaldags. Ég fer og fel mig bara.

    Hann hló. Aðdáunin var gagnkvæm, þrátt fyrir norsku sveitafötin hennar.

    -Það er ástæðulaust. Hvernig fer ég að þessu?

    -Hverju?

    -Að halda aðdáendunum frá þér?

    -Af hverju það? spurði Sunna hlæjandi. Dagur tók það sem grín þótt Sunnu væri alvara.

    -Ég á heima hérna rétt hjá og við getum gengið þangað. Ég skal taka ferðakistuna. Hún er ekkert þung. Réttu mér hnýtið líka.

    -Nei, ég get haldið á því.

    Dagur leit hvasst á hana en sagði ekki meira um það.

    -Hvernig líður þeim heima? spurði hann svo þegar þau gengu upp frá höfninni og komu að umferðargötu.

    Sunna glennti upp augun við allar nýjungarnar... manngrúann á götunum, húsdýr um allt, fisklykt, reyk, sorp, grænmeti... hún hafði farið með Þengli til Akershus og Osló nokkrum sinnum en þetta var allt annað, hér var hinn stóri heimur.

    -Heima? Bara vel. Ég átti að skilja kveðju frá öllum, sérstaklega Charlotte, auðvitað. Ég er með mörg bréf og peninga.

    -Frábært, sagði Dagur lágt.

    -Ari spurði hvort þú gætir útvegað honum nýtísku lásboga. Mikið er allt spennandi. Sjáðu húsið þarna! Það er svo stórt! Áhugi hennar á öllu leyndi sér ekki.

    -Er Charlotte mamma ekki einmana núna?

    -Jú, hún bíður bara eftir því að þú klárir hér og komir heim. Þær Silja eru mikið saman.

    -En hin? Hvað er títt af þeim?

    -Þengill er alltaf í lækningunum. Hann reynir að fækka vikudögunum í því en það er erfitt. Fólk kemur samt um langan veg og hann hefur aldrei getað sagt nei. Það gekk leiðindapest í vetur og hann bannaði sjúklingum að koma svo við smituðumst ekki en þeir komu samt eins og flugnasveimur. Hann var hræddur en við björguðumst flest... nema amma þín, barónessan.

    -Ég veit það. Ég sakna hennar.

    -Ég líka, sagði Sunna lágt. -Hún var góð kona. Þengill varð alveg miður sín. Þau voru svo náin. Skrýtið með Þengil, hann virðist ekkert eldast.

    -Þú manst eftir Hönnu, sagði Dagur. -Hún varð alveg ótrúlega gömul.

    -Hvort ég man, sagði Sunna og fann sáran sting. Svo hló hún. -Þess vegna verð ég líka hundgömul, bróðir sæll. Ég lifi ykkur öll.

    -Það kemur í ljós, sagði Dagur, ekki alls kostar ánægður. -Hvernig gengur svo Silju?

    -Hún er alltaf eins. Hún er kát og hress meðan hún fær að mála. Hún hefur fitnað svolítið en það fer henni vel. Já, ég gleymdi einu. Líf á sér vonbiðil.

    Dagur starstansaði. Hestakerra hemlaði fyrir aftan þau svo þau stukku til hliðar.

    -Hvað ertu að segja? En hún er bara krakki!

    -Hún er að verða 17 ára og er alveg sérstaklega ljúf. Silja var ekki eldri þegar þau Þengill byrjuðu saman.

    Dagur hlustaði ekki. Andlit hans var stíft. -Á litla systir vonbiðil? Hvernig er hann?

    -Taktu því ekki svona. Hvað á ég að segja? Hann er af góðu fólki, þó ekki aðalsmaður, en Líf er ekki eðalborin

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1