Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Jón Sigurðsson: Samningaviðleitni
Jón Sigurðsson: Samningaviðleitni
Jón Sigurðsson: Samningaviðleitni
Ebook485 pages8 hours

Jón Sigurðsson: Samningaviðleitni

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Hér er gerð úttekt á ritstörfum Jóns, þar á meðal aðkomu hans að blaðamennsku sem hann fór ávallt leynt með. Á árum þessum lagði hann mikla stund á rannsóknir í tengslum við baráttu til fjárhagslegs sjálfstæðis Íslendinga sem síðar meir urðu grundvöllur fyrir fullveldinu. Jón lét sig einnig varða fjárkláðann sem þá dundi yfir landið og var Íslendingum mikið áhyggjuefni. Málið olli bæði spennu og sundrung sem varð til þess Jón sótti hvorki Alþingi né heimsótti Ísland í sex ár. Þegar hann loksins sneri aftur ásamt konu sinni Ingibjörgu Einarsdóttur vakti það mikla gleði meðal landsmanna. Jón Sigurðsson I-V er ævisaga þjóðarhetju og leiðtoga Íslands í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Ævisagan var upprunalega gefin út í fimm bindum af Hinu Íslenzka Þjóðvinafélagi í Reykjavík á árunum 1929-1933. Verkið er viðamikið og gefur innsýn í afdrifaríka ævi Jóns Sigurðssonar og sjálfstæðisbaráttuna við Dani. Höfundur bókanna er Páll Eggert Ólason.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateJun 13, 2023
ISBN9788728240502
Jón Sigurðsson: Samningaviðleitni

Read more from Páll Eggert ólason

Related to Jón Sigurðsson

Titles in the series (5)

View More

Related ebooks

Reviews for Jón Sigurðsson

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Jón Sigurðsson - Páll Eggert Ólason

    Jón Sigurðsson: Samningaviðleitni

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 2023 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728240502

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrieval system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    I. KAFLI.

    Ritstörf Jóns um þetta árabil.

    Þegar komið er að upphafi þessa tímabils, er Jón Sigurðsson orðinn svo festur í margháttuðum seinunnum ritstörfum, að ekki er að vænta frá hendi hans nýrra stórvirkja að marki. Í bókmenntafèlaginu hvílir á honum fornbrèfasafn og enn að töluvert miklu leyti safn til sögu Íslands og byskupasögur. Auk þessa eru fèlagsritin á herðum hans og lagasafnið. Við mörg önnur störf er hann og riðinn þetta timabil; auk starfa framan af í fornfræðafèlagi og Árnasafni, er hann og í tveim erfiðum nefndum, yfirstjórn kláðalækninga og fjárhagsnefnd, sem bættust við þjóðmálastarfsemi hans að öðru leyti. Af stjórn Jóns í kláðalækningum leiðir það annars, að hann á þar sinn skerf fullan í öllu, er prentað var til leiðbeiningar um þetta efni 1859—60, þar á meðal skýrslu, er prentuð var ,sem handrit‘ handa rikisþingsmönnum Dana 1860. Í fjárhagsnefnd lagði Jón hina mestu vinnu í rannsóknir. Árangur þeirra birtist með tillögum nefndarinnar og að öðru leyti í ritgerðum, sem komu frá hendi Jóns síðar. Eru þau störf öll svo víðtæk og mikilsvarðandi, að gera verður grein fyrir þeim sèr. Samt sem áður fekk Jón orkað því að láta sjá frá hendi sinni nokkur ný rit á þessu árabili, hvert merkt á sinn hátt.

    Í bókmenntafèlaginu hèlt Jón áfram sömu störfum sem áður, hafði yfirsýn alls, sem prentað var í Kaupmannahöfn, hèlt fram skýrslum og reikningum, birti þar áfram lýsing á handritum, er fèlaginu bættust, o. s. frv. Þar kemur að vísu frá hendi Jóns að öðru leyti, auk hinna föstu rita, ekki margt annað en Fiskibók (1859) og Varningsbók (1860), báðir þeir bæklingar kostaðir af dómsmálastjórninni; mun þeirra getið nánara, þar er efni hæfir. Má telja, að i allri bókagerð fèlagsins í Kaupmannahöfn sjáist fingraför Jóns. Jafnvel bók eins og Sálmasöngs- og messubók eftir Pètur Guðjónsson, er fèlagið birti 1861 og ætla mætti, að lægi fjarri Jóni, hefir hann lagt alúð við, sem sjá má af brèfum Pèturs sjálfs til Jóns um þetta efni.¹ Reyndar var Jón, sökum þekkingar sinnar á þjóðlegum fræðum, einnig heima í sumu, er að þessu efni veik (sálmakveðskap), og benda má á það, að hinn frægi þjóðlagasafnandi A. P. Berggreen leitaði fræðslu til hans (um þjóðvísur og prófarkir), sem brèf vottar frá honum 1868. ¹ Siður er að undra, þó að Jón hafi lagt alúð við skýrslu forngripasafns, sem fèlagið birti á prenti 1868. Forngripasafnið var stofnað 1863. Studdi Jón fèlagið þegar á margan veg, á sama hátt sem hann, fyrr og síðar, studdi þann mann, sem mest hafði með safnið að sýsla á fyrstu árum þess, Sigurð málara Guðmundsson. Þessi fróðlega skýrsla safnsins tekur yfir fyrstu árin (1863-6). Eigi að eins lagaði Jón handritið undir prentun, jók það nokkuð og las prófarkir, heldur samdi hann og sjálfur hið merka registur, sem skýrslunni fylgir. Þetta má gerst sjá af handritinu sjálfu, sem prentað var eftir, og próförkunum, því að enn er þetta til. ²

    Mikil afskipti hafði Jón og af einu fyrirtæki í bókagerð, sem bókmenntafèlagið var einnig riðið við, þjóðsagnasafni því, sem kennt er við Jón Árnason. Með atfylgi Jóns Sigurðssonar hafðist það fram þann veg, að bókmenntafèlagið samdi um að kaupa af bóksalanum, Hinrichsche Buchhandlung í Leipzig, tiltekinn eintakafjölda, er ganga skyldi til fèlagsmanna. ³Með þessum hætti varð þjóðsögunum komið á prent á árunum 1862-5. Talsvert varð Jón Sigurðsson að hafa fyrir þessu, og nokkur mótspyrna var á fundum deildarinnar í Kaupmannahöfn gegn tillögum hans. Ekki heldur varð öllum fèlagsmönnum ritið þekkt framan af, sem sjá má af sumum sendibrèfum til Jóns. En þó að með rökum megi finna sitt hvað að safni þessu, bæði í fræðimannlegum átökum og að öðru leyti, þá varð sú raunin á, að þetta varð eitt hið vinsælasta rit, sem birzt hefir á íslenzku.

    Á þessu tímabili varð sá merkisviðburður í sögu fèlagsins, að það náði fimmtugsaldri. Minntist hvor tveggja deildin þess í samsæti sama dag, 13. apríl 1866, með samkomum. Fluttu þar forsetar deildanna ræður eða erindi. Ræða Jóns Sigurðssonar er löng og hefir að geyma rækilega skýrslu um athafnir fèlagsins, hag þess, vöxt og viðgang í öllum greinum. Fer þar fyrir stuttur og gagnorður formáli um menntalíf Íslendinga fram að stofnun fèlagsins; sýnir höfundur þar óslitna viðleitni þeirra í menntum og fræðum, allt frá fornöld. Var það forspjall ekki með öllu ástæðulaust, því að menntir Íslendinga á síðari öldum nutu um þær mundir lítils vegs með þeim, er dóm þóktust geta á lagt. Formálsorð Jóns eru ætluð til að hnekkja því mati. Er þetta mjög skilmerkilega rakið, sem verða má í stuttu máli, og þó ýkjulaust. Andspænis þeim, sem eigna fjarlægð Íslands frá öðrum löndum, eða samgönguleysi við aðrar þjóðir, varðveizlu tungunnar, sýnir Jón, að fleiri atriði koma og til greina og þau merkari: „Aðalatriðið er fólgið í bókmenntum vorum og bókmáli, segir hann, „sem þjóð vor hefir haldið við gegn um alla ævi sína, í ritum og ræðum. Hefðum vèr ekki haft mál vort á bókum, sem lesnar hafa verið almennt um allt land af allri alþýðu manna, og það á þess konar bókum og í þess konar ritum, bæði í bundinni og óbundinni ræðu, sem mega heita fyrirtak eða svo merkileg fyrirmynd, að menn geta jafnað þeim við beztu rit annarra þjóða í sömu grein; hefðum vèr ekki, segi eg, átt mál vort á þess konar bókum og átt þær bækur, svo að segja, í hvers manns hendi, þá hefði hvorki fjarlægð lands vors nè viðskiptaleysi við önnur lönd megnað að varna málbreytingum hjá oss, heldur en hjá frændþjóðum vorum, þótt miklu mannfleiri sèu. Viðskipti vor við önnur lönd hafa verið svo löguð sem skæðast gat orðið fyrir mál vort og þjóðerni, því að vèr höfum verið bundnir í samskiptum vorum um heilar aldir við náskyldar þjóðir, og einkum við eina einustu þjóð, sem ekki hafði neina ljósa hugmynd um norræna menntun eða var búin að gleyma henni og hafði að öllu leyti lagt hug sinn að suðrænum skólalærdómi og suðrænum bókmenntum. Og þetta samband var því skæðara, sem hvort tveggja þjóðernið var runnið af sömu rót í fyrstu. Frændur vorir Noregsmenn, sem þó voru miklu mannfleiri en vèr og höfðu þó nokkur rit á sínu máli og hefðu getað lengi fram eftir haft þátt í bókmenntum með oss, fylgdu sama dæmi; og mèr finnst auðsætt, að ef bókmennt vor hefði ekki yfirgnæft hjá oss miklu framar en hjá hinum, þá hefðum vèr lent á sama stað, eins og oft hefir mátt sjá dæmi til meðal hinna skólalærðu manna hjá oss. Annað atriði því til styrkingar, að það sè hin þjóðlega bókmennt og bókritin á voru máli, sem hafa haldið tungunni við, það er, að vèr höfum eitt og hið sama mál í öllum hèruðum um allt land; vèr þekkjum að vísu sèrstaklegar mállýzkur úr ýmsum hèruðum, bæði í nöfnum á ýmsum hlutum og í framburði, en vèr getum ekki talað um þessar smábreytingar eins og sèrstök mál hèraða eða fjarða eða dala, svo sem vèr verðum varir við í öðrum löndum og hjá frændþjóðum vorum sèr í lagi. Vèr getum ekki heldur talað um bókmál vort sem tungu hinna menntuðu manna, sem sè ólíkt alþýðumálinu, heldur er hið hreinasta bókmál vort jafnframt hið hreinasta alþýðumál, sem vèr heyrum lifa á vörum karla og kvenna, þar sem vèr köllum bezt talað mál vort í sveitum. Þessi samhljóðan tungunnar er einmitt hinn ljósasti vottur um, að þjóðmál vort hjá öllum stèttum hefir sína föstu rót og reglu í bókmálinu, svo að það eru bókmenntir vorar, sem hafa haldið tungu vorri við og geymt hana um margar aldir.

    Næst þessu víkur Jón að gildi bókmenntanna og samfellu þeirra: „Vèr heyrum oft talað og ritað á þá leið, eins og mál vort og bókmenntir hafi dáið smám saman eða jafnvel allt í einu orðið bráðdautt, eftir að land vort missti sjálfsforræði sitt og hafði gefið sig undir útlendan höfðingja; vèr heyrum oft talað svo sem fornrit vor og fornkvæði sèu að vísu ágæt allt fram að fjórtándu aldar lokum, en þaðan af sèu bókmenntir vorar lítt merkilegar eða varla þeim gaumur gefandi. Vèr höfum sjálfir ætíð verið hneigðir á að meta það mest, sem elzt er, og því hafa margir á meðal vor tekið í hinn sama streng og látið eins og ekkert væri ritað síðan á fjórtándu öld, sem aðkvæðarit mætti heita. Eftir lof, sem við á um bókmál hinna elztu rita, er enginn rithöfundur hafi síðan farið fram úr að fegurð og þrótti, segir Jón: „En þetta er einungis að skilja um einstakar greinir og einstök rit, en ekki um allar greinir bókmennta vorra. Á hinum síðari öldum hefir sífellt verið vakandi hinn sami fróðleiksandi, stundum með meira, stundum með minna afli, og íslenzkir vísindamenn hafa jafnan staðið á þjóðlegri rót, hvort sem þeir hafa ritað á vora tungu eður ekki. Vèr getum sýnt frá sèrhverri öld fleiri eða færri frumrit á vora tungu rituð, sem sum eru ágæt í sinni röð eða að minnsta kosti sóma sèr vel, hvort sem þau eru borin saman við íslenzk rit forn eða ný eða þau eru borin saman við samtíða rit samkynja tegundar annarstaðar. Lýsir Jón síðan frá 15. öld með einkennum hverri öld um bókmenntastarf, af þeirri nærgætni og skilningi, sem vænta mátti af honum, enda var hann sá einn, þeirra er þá voru uppi, sem óslitna þekking hafði á öllum andlegum afrakstri allra aldanna í öllum greinum.

    Ræður þessar, með miklum fylgiskjölum, birti fèlagið síðan á prenti næsta ár (1867).

    Nýjum fèlagsritum hèlt Jón í sama horfi og með sömu tilhögun, sem verið hafði að undanförnu. Nýir menn bætast við í þeim hópi, jafnóðum sem aðrir hverfa heim til Íslands. Á aðalfundum má sjá þá flesta, er eftir voru og áður eru taldir, en við bætast smám saman menn á fundunum, hinir nýju, er einkum hafa laðazt að Jóni eða Jóni hefir þókt slægur í að hæna að sèr. Þessa má nefna: Þá bræður Gunnlaug og Lárus Blöndal, Þorvald Bjarnarson, síðar prest að Meli, Magnús Stephensen, síðar landshöfðingja, Júlíus Havsteen, síðar amtmann, Skafta Jósepsson, síðar ritstjóra, Hallgrím Sveinsson, síðar byskup, Jón Ásmundsson (Johnsen) frá Odda, síðar sýslumann; jafnvel nafni Karls Andersens, skáldsins, bregður þar fyrir á fundum. Sumir þessara manna gerðust Jóni allmjög handgengnir, og setti hann þá suma til vinnu, eftir því sem þeim hentaði bezt og föng voru fyrir hendi hjá bókmenntafèlaginu. Þorvaldur Bjarnarson var settur í byskupasögurnar, enda var hann vel fallinn til að sinna handritum, skrifari ágætur og fornfróður, enda um hríð styrkþegi í Árnasafni; Magnús Stephensen, er um hríð var aðstoðarmaður í íslenzku stjórnardeildinni, vann talsvert að hagskýrslunum og að tíðindum um stjórnmálefni Íslands; að þeim tíðindum vann og Júlíus Havsteen. Sumir voru fólgnir Jóni á hendur af foreldrum eða frændum, svo sem Skafti Jósepsson, af föður sínum, Jósep lækni, aldavini Jóns. Þessir voru í forstöðunefnd ritanna, auk Jóns sjálfs:

    Arnljótur Ólafsson 1859,

    Gísli Brynjúlfson 1859,

    Guðbrandur Vigfússon 1859-64,

    Steingrímur Thorsteinsson 1859-62, 1867,

    Bergur Thorberg 1860-1,

    Sigurður L. Jónasson 1860-4, 1867,¹

    Gunnlaugur Blöndal 1862-3,

    Lárus Blöndal 1863,

    Magnús Stephensen 1864, 1867.¹

    Þorvaldur Bjarnarson 1864, 1867.¹

    En ekki varð þó að öllu samheldi í þessum fámenna hópi. Arnljótur Ólafsson og Gísli Brynjúlfson tóku nú báðir að hallast að Grími Thomsen, er reyndi að afla skoðunum sínum fylgis með landsmönnum sínum og taldi úr öllum hinum fyllstu kröfum. Hurfu þeir þá báðir úr forstöðunefnd, enda var þá Arnljótur á förum úr Kaupmannahöfn. Illvært þókti og Steingrími Thorsteinsson í forstöðunefnd ritanna og sagði sig beinlínis úr henni í brèfi til Jóns Sigurðssonar, 30. mars 1861, ⁵ og telur argsamt þar að vera, sökum þess, eins og hann beinlínis tekur fram, að Gísli Brynjúlfson og Arnljótur fylgi Grími; en fyrir bænarorð Jóns Sigurðssonar sjálfs tók Steingrímur aftur afsögn sína. Hèr á ofan jókst nú, að bæði Gísli og Arnljótur urðu alþingismenn (1859) og fylgdu fram niðurskurði í fjárkláðamálinu, en Arnljótur ritaði og um fjárkláðann í danskt blað („Fædrelandet), að því er Jón segir sjálfur í brèfi til Stefáns Thorstensens 2. mars 1860 ⁶ ; því svöruðu þeir Jón og Tscherning að vísu aftur í sama blaði. ⁷ En eftir þetta dró sundur með þessum mönnum æ meir og meir, og urðu síðan fleiri greinir í milli, sem síðar mun getið. ⁸ Til fulls slitnaði upp úr með þeim Gísla 1863, með þeim atvikum, sem greinir í fimmta kafla hèr á eftir. Sumum gekk til annað, þeim er heltust úr lestinni. Svo mun hafa verið um Berg Thorberg, er hann hlaut aðstoðarmannsstarf í íslenzku stjórndeildinni, að þókt hefir honum sem framavon sinni væri að hættara, ef nafn hans væri mjög náið ritunum. Á sömu leið fór og Magnúsi Stephensen, að því er Jón Sigurðsson segir sjálfur: „Magnús Stephensen þorði nú ekki að láta nafn sitt standa á fèlagsritunum, þó að hann segðist ekki hafa neitt í móti neinu í þeim og hafði lesið hvern staf og hjálpað okkur til. Allir vilja, en enginn þykist neitt mega nè geta. Það er ekki að kynja, að Jóni þyki undarleg slík deyfð: „Við erum nú hèr bæði fáir, ónýtir og viljalitlir. Oddgeir [Stephensen] þorir ekki að krymta og vill líklega helzt incorporation [þ. e. samgræðslu Íslands við Danmörk]. Konráð [Gíslason] er fyrir utan mannlegt fèlag. Gísli er, eins og Adam sálugi, í illeppnum. „Þetta vesaldarlíf geta engir hresst upp, nema alþingismenn og Íslendingar yfir höfuð, og þeir þurfa, svei mèr, að snerpa á sèr til þess. Ef þeir gera það ekki, þá verður ekkert ágengt, og þó að eitthvað vinnist á pappírnum, verður það ónýtt aftur og dregið úr höndum okkar. ⁹

    Þessi deyfð dró að vísu ekki kjark úr Jóni Sigurðssyni, en með því að tekjulindir hans tepptust, er dregur fram á þetta tímabil, hins og annars, að illa galzt andvirði Nýrra fèlagsrita, sætti hann sig við að fella niður prentun þeirra þrjú ár á þessu tímabili, 1865-6 og 1868. Var svo komið 1860, að fèlagið átti talsvert fè úti ólukt fyrir ritin, og skoraði það því á slíka skuldunauta að gjalda og aðra góða styrktarmenn að liðsinna ritunum. ¹⁰ Þetta hafði að vísu ekki þann árangur, að skuldir gyldust, en liðsinni veittu þá nokkurir vinir Jóns Sigurðssonar (með atbeina Jóns yfirdómara Pèturssonar), svo að unnt var enn um hríð að prenta ritin. ¹¹

    Fèlagsritunum var að öllu haldið í sama sniði sem að undanförnu; birtust í þeim margar merkar greinir. Auk ritgerða Jóns Sigurðssonar, er allra mun hèr síðar getið, má einkum á þessu árabili nefna þetta:

    Jarðyrkja (Gísli Ólafsson).

    Ferðasaga úr Þýzkalandi (Guðbrandur Vigfússon).

    Sjálfsforræði (sami).

    Kaflar ¹² úr verzlunarsögu Íslands (Konráð Maurer).

    Rèttur íslenzkrar tungu (Sigurður L. Jónasson?).

    Landfarsóttir (Magnús Stephensen, síðar læknir í

    Vestmannaeyjum; hann andaðist ungur, 1865).

    Búskapur í fornöld (Guðbrandur Vigfússon).

    Sveitabúskapur (Tryggvi Gunnarsson).

    Jarðabygging og ábúð (Guðmundur Ólafsson).

    Brèf frá Íslendingi í Skotlandi (Torfi Bjarnason). Auk þess voru þar oftast kvæði (höfundar: Gísli Brynjúlfson, Benedikt Gröndal, Jón Þórðarson, þ. e. Thoroddsen, Steingrímur Thorsteinsson).

    Það fór og svo, þótt menn væru sinnulausir í bili, þá söknuðu menn ritanna, er þau hættu að koma út, og urðu þá einhverir jafnan til að hlúa að prentun þeirra, enda máttu Íslendingar finna það, að þeir gátu ekki án ritanna verið, í hinni sífelldu viðureign þeirra við dönsk stjórnvöld um stjórnmál og þjóðerni, því að þar var að finna allar meginstoðir og röksemdir að málstað þeirra, þar er voru ritgerðir Jóns Sigurðssonar. Þar birtust allar þjóðmálagreinir hans. Að eins eitt sinn um þessar mundir birti hann eina slíka ritgerð sína utan fèlagsritanna, ,Fjárhagsmálið á alþingi 1865‘; sá ritlingur kom út í Reykjavík 1867. Í innlend blöð ritaði Jón mjög sjaldan, nema neyddur væri til andsvara eða skýringa.

    Þess má geta, að frá Jóni Sigurðssyni eru skrár þær um íslenzkar bækur, er birtust þessi ár og síðar í ,Dansk Bogfortegnelse‘, er fyrst hafði ritstjórn að F. Fabricius, síðar J. Vahl. Þetta má sjá af brèfum Jóns til Eiríks Magnússonar. ¹³

    Á þessu árabili er enn að geta þess, að Jón vildi sýna minningu gamals vinar síns, Þorleifs Repps, þá sæmd að taka að sèr að sjá um prentun á lausavísum, er hann hafði snúið á íslenzku úr grísku. Birtist það kver í Kaupmannahöfn 1864 (,Epígrömm‘, stæld úr „Anthologia polyglotta".)

    Loks er hèr að geta einnar starfsemi Jóns í riti á þessu tímabili, en það er blaðamennska, og mun flestum koma á óvart, því að Jón hèlt þessu ritstarfi sínu leyndu, skrifaði ekki undir nafni nè dulnefni og lèt ekki þessarar iðju sinnar getið neinstaðar. Hèr er ekki um að ræða deilugreinir Jóns í útlendum blöðum; þær eru flestar annaðtveggja með nafni hans eða auðkenndar af honum á annan hátt. Hèr ræðir um fastlaunað og ákveðið blaðastarf. Sú er saga til þess, að árið 1861 tók við ritstjórn tveggja norskra blaða, „Den norske Rigstidende og „Christiania Intelligentssedler, er var eins konar fylgiblað, sá maður er Siegwart Petersen hèt. Hann var að háskólanámi sögumaður og málfræðingur og hefir samið sögukennslubækur, sem vinsælastar urðu allra kennslubóka í Noregi. Hann hafði um tíma verið aðstoðarmaður í ríkisskjalasafni Norðmanna. Hann hafði og verið að rannsóknum í skjalasöfnum á Norðurlöndum, einnig í Kaupmannahöfn; þann veg mun hann kynnzt hafa Jóni Sigurðssyni. Siegwart Petersen gerðist og bókasafnandi mikill á öll þau rit, er vörðuðu Norðurlönd, einkum sögu þeirra. Hann sýndi bókmenntafèlaginu þá góðvild að taka að sèr umboð þess um Noreg; hafði hann af þessu jafnan síðan mikið saman við Jón að sælda. Skömmu eftir að Siegwart Petersen hafði tekið við ritstjórn blaða þessara, gerði hann samning við Jón Sigurðsson um það, að Jón skyldi gerast fastur brèfritari eða fregnritari blaða þessara, í öllu því, er varðaði Danmörk. Skyldi Jón hafa að launum 10 specíur um mánuðinn, en hækka skyldu launin síðar, enda urðu 40 specíur um ársfjórðunginn. Fyrir þetta skyldi Jón rita sem svaraði 20 dálkum á mánuði. Þessir samningar voru gerðir í ársbyrjun 1862, enda fekk Jón fyrstu ritlaun sín það ár í aprílbyrjun. Þessu starfi virðist Jón hafa gegnt að mestu óslitið 1862—71; að minnsta kosti má ráða það af brèfum Siegwarts Petersens, að ritlaun hafi Jóni verið send 1862-3, 1865-6, 1870-1, en þau brèf hafa verið á víð og dreif eða tætingi hèr og þar, svo að vel mega hafa týnzt brèf inn í milli. ¹⁴ En af brèfum Jóns til sama manns hafa að eins fá geymzt, og er þau nú að finna i háskólabókasafni í Osló. ¹⁵ Af hinum síðustu brèfum Jóns þar er það að ráða, að hann hugsi til að rita sem fyrr um íslenzk efni í blað þetta. Sjálfur hefir Jón ekki haldið saman þessum greinum sínum ¹⁶ ; verður því að leita þeirra í blöðunum sjálfum, í söfnum utanlands, þeim er þau hafa að geyma, því að hèr á landi mun ekkert slíkt til.

    Þessar blaðagreinir Jóns eru um margvísleg efni. Fátt er þar Norðurálfutíðinda, enda stóð ekki til þess. Einkum hafa þær að geyma helztu viðburði í Danmörku, þau mál, er þar voru helzt á dagskrá, bókmenntir, stjórnmál o. s. frv., eins og títt er um slíkar fregnritagreinir; var og margt til tíðinda með Dönum, meðan stóð Slèsvíkurstyrjöldin siðari. Greinirnar eru venjulega að eins staðsettar (Kaupmannahöfn) og dagsettar eða með fyrirsögn (,brèf frá Kaupmannahöfn‘), en aldrei auðkenndar á annan veg. Þær þóktu lipurlega samdar og skemmtilegar, og gátu menn ýmislegs til um höfundinn. En svo mikilli leynd hèlt Siegwart Petersen á þessum samverkamanni sínum, að þegar hann var spurður um nafn hans, kvað hann hann vera ,Evrópumann‘ mikinn, er dvalizt hefði langdvölum i París og víðar; segir Siegwart Petersen sjálfur frá þessu í brèfum til Jóns. Samt mun þetta, með öðrum skiptum Jóns við ýmsa Norðmenn, hafa stutt viðleitni Íslendinga til viðskipta þar í landi og stuðning ýmissa þarlendra blaða að sjálfstæðiskröfum Íslendinga, sem kenna má á næstu árum.

    Allar þessar greinir Jóns birtust að eins í öðru þeirra blaða (Christiania Intelligentssedler), er Siegwart Petersen hafði yfir að ráða. Við nánari könnun kemur það í ljós, að allmargar eru þessar greinir Jóns í blaðinu 1862 og jafnan við og við árin 1863-6 og enn 1867, fram í maímánuð (Kaupmannahafnarbrèfin, sem merkt eru tveim stjörnum í upphafi, eru ekki eftir Jón Sigurðsson). En í árgöngunum 1867 (frá því í maímánuði) og 1868 getur ekki slíkra brèfa í blaðinu, svo að segja, annarra en fregna, tíndra saman af ritstjóra, enda var blað þetta sjaldan efnismikið; þar getur að öðru leyti neðanmálsgreina (mest skáldsagna og lèttafróðleiks), auk auglýsinga. Í árganginum 1869 hefjast greinirnar aftur frá ársbyrjun, með sama hætti sem áður, og eru sumar bersýnilega eftir Jón (þær, sem birtar eru sumarmánuðina, geta þó ekki verið eftir hann), en síðara hluta þess árs og árið 1870 eru engar Kaupmannahafnargreinir. Aftur eru þær 1871, þótt ekki sèu þær markverðar, fæstar, og ekkert þá í þeim, er marki þær Jóni Sigurðssyni, öðrum fremur.

    Þarflaust er hèr yfirleitt að sinna greinum þessum, að öðru en því, er varðar Ísland og Íslendinga. Um íslenzk efni er þar talsvert, einkum framan af. Ritar höfundur oftast eins og hann væri Norðmaður („vi Nordmænd", segir hann) og læzt vilja kynna sèr íslenzk efni, en telur þó tormerkjum bundið, því að fáir Íslendingar sèu í Kaupmannahöfn og þeir alldulir um sjálfa sig og eiginhagi sína, en til Dana sè gagnslaust að leita fræðslu um íslenzk efni, því að þeir láti sèr miklu annara um Spán og Ameríku en lönd þau, er samþegnar þeirra byggi. ¹⁷ Af þessari viðleitni höfundar til að ,kynna sèr íslenzk mál‘ er runnin löng ritgerð, sèrstök (nafnlaus að vanda), „Island og islandske Tilstande. Birtist hún í mörgum tölublöðum árin 1862-3 og er um þjóðhagi Íslands, hin skipulegasta og einarðlegasta, enda með öllum ummerkjum handbragðs Jóns Sigurðssonar, þótt svo sè látið heita, að greinir þessar sèu frá fregnrita blaðsins á Íslandi. Í árganginum 1862 eru og brèf úr Reykjavík (eða kallað svo) og fjalla um sögu verzlunar Íslendinga, umbætur í þeirri grein, tillögur um nánari skipti Norðmanna og Íslendinga; því fylgir og greinilegt yfirlit um stjórnmálabaráttu Íslendinga og enn sitt hvað fleira um þjóðmál; leynir það sèr ekki, að þau brèf eru öll eftir Jón. Í árgöngunum 1863 og 1864 eru enn Reykjavíkurbrèf, og er á þeim auðsætt mark Jóns Sigurðssonar, þótt nafnlausar sèu sem hinar. Í árganginum 1866 (6., 30. og 31. jan.) eru enn Reykjavíkurgreinir, en ekkert þar, sem einkennir Jón Sigurðsson. Í sumum Kaupmannahafnarbrèfunum er stundum vikið að íslenzkum efnum, t. d. að fiskveiðum Frakka við Ísland. ¹⁸ Á einum stað ræðir um eftirmann í stöðu N. M. Petersens í háskólanum í Kaupmannahöfn, og telur brèfritarinn Guðbrand Vigfússon og Gísla Brynjúlfson, hvorn sem væri, geta með sæmd tekið að sèr það starf. ¹⁹ Í einu brèfanna er getið þeirrar nýbreytni í skólamálum Dana, að íslenzkunámi sè aukið inn í latínuskóla þeirra, en ekki þykir brèfshöfundi þar nægilega fast tekið á; vill hann,að Danir hafi íslenzku að undirstöðu náms þeirra í móðurmáli þeirra og jafnvel að grundvelli alls málfræðanáms, ²⁰ enda hafði hann áður vikið að því efni. ²¹Er auðsætt af þessari grein, að höfundi þykir latína og þýzka taka of mikinn tíma í latínuskólanámi Dana. Telur hann af málum menningarþjóða ensku mest verða, enda Dönum nauðsynlegast tungumál, þó að þeir vitanlega geti ekki sleppt þýzku, sökum svo að segja daglegra skipta allra manna þar. Enska tungu telur hann einfalt mál og þó geysilega auðugt, enda hafi hún beztar bókmenntir að geyma, og sèu þær, eins og ritháttur og orðbragð, bezt í samræmi við hugsunarhátt „vorn (þ. e. Norðurlandabúa). Þetta kemur og vel heim við tillögur Jóns í latínuskólamáli Íslendinga frá öndverðu.

    Þegar vèr lítum á þetta starf Jóns Sigurðssonar, blaðamennsku hans, þá dylst oss ekki mark hans. Það er að vekja samúð grannþjóða Íslendinga með þjóðmálabaráttu þeirra og umbótaviðleitni. Árangurinn varð augljós, og var þó nokkuð með tvennu móti. Merkismenn með Norðmönnum vöknuðu til stuðnings málstað Íslendinga; mátti glöggt kenna þess í hríð þeirri, er gekk næst á undan stjórnarskránni og enn mun lýst verða. Hins vegar ygldust danskir stjórnmálamenn við og kölluðu, að ýfzt væri við hagsmunum Dana og undirróður hafinn leynilega til styrktar kröfum Íslendinga. En aldrei er að sjá, að þeir hafi komizt á snoðir um, hver höfundur var að „æsingargreinunum í norskum blöðum", er þeir svo nefna. En það var hyggindabragð Jóns að dylja hèr nafn sitt. Gekk honum það til, að meiri kraftur myndi fylgja, ef Norðmaður væri talinn höfundur, heldur en ef vitað væri, að greinirnar væru runnar frá Íslendingi. Rèðu þessu umhyggja hans fyrir hagsmunum þjóðar sinnar, en ekki áræðisbrestur, sem skilja má, því að allar voru greinirnar stillilega ritaðar og rökum studdar, þótt í fullri einurð væri til málanna lagt, og miklu voru naprari og harðskeyttari sumar ritgerðir Jóns, er hann birti með nafni, bæði á íslenzku og dönsku.

    En þó að sýnast mætti svo sem Jón Sigurðsson væri nú meiri störfum hlaðinn en svo, að þykja mætti á sig bæta um þetta árabil, var hann samt albúinn til nýrra stórræða í fræðaiðju. Eitt var það einkum, sem hann hafði í huga að snúa sèr að og birta á prenti (með Eiríki Magnússyni), en það var safn allra íslenzkra fornrita, er Bretland varða; hugðu þeir á að fá enskan bóksala til þess að kosta þetta fyrirtæki. Liggur fyrir föst skipulagsgrein Jóns um þetta og fylgir brèfum hans til Eiríks Magnússonar 1868. ²² Úr þessu fyrirtæki varð að vísu ekki, en af því leiddi þó síðar, að Eiríkur Magnússon bjó til prentunar sögu Tómasar erkibyskups, og naut hann að því verki margvíslegrar hjálpar frá Jóni Sigurðssyni, enda getur Eiríkur Jóns með mestu virktum í formálalok 2. bindis þessa prýðilega verks.

    Þessa þáttar í starfi Jóns Sigurðssonar, að hjálpa og leiðbeina öðrum fræðimönnum, gætir og allmjög, enn sem fyrr, og skal nú rakið nokkuð, að svo miklu leyti sem ekki er áður gert og nokkuru má þykja skipta. Þegar Friðrik sjöundi andaðist, þókti skylt, að fornfræðafèlagið minntist hans, enda var hann forseti þess, og lagðist það verk á Wegener leyndarskjalavörð, sem var þá varaforseti og hafði verið frá láti Finns Magnússonar; var þá leitað til Jóns Sigurðssonar til fræðslu um ferð konungs á Íslandi 1834 og um horf hans við Íslendingum; má sjá þetta af brèfum Rafns til Jóns 30. jan. og 4. febr. 1864. ²³ Þetta minningarrit Wegeners var síðan prentað í ritum fèlagsins. ²⁴ Gögn fekk L. Sodemann frá Jóni í erindi um framfarir Íslands, er hann flutti í landfræðafèlagi Dana og birti síðan í „Dansk Maanedsskrift 1863 („Om Islands ökonomiske Udvikling i den nyere Tid). Hinn frægi norski fræðimaður Sophus Bugge vann þessi árin allmjög að nýrri prentun Sæmundar-Eddu, og tókst honum að koma henni út 1867; má af brèfum Bugges til Jóns ²⁵ sjá margvíslegar fyrirspurnir til fræðslu um ýmis efni, er þetta rit vörðuðu, lesháttu og annað, enda þakkar Bugge Jóni góðan atbeina í lokum formála síns fyrir bókinni. Nokkuð af brèfum Jóns til Bugges er og varðveitt. ²⁶ En leitt var, að Sæmundar-Edda skyldi ekki lenda í höndum Jóns að útgerð, eins og Snorra-Edda, eða einhvers vel færs Íslendings, er ekki varð á Jón bætt í störfum; var hún þar að sjálfsögðu betur komin en í höndum útlendinga, þótt vel væru færir, þótt vitanlega öllum sè frjálst að sinna slíku, er gefa vilja sig til. Einn maður, sem mjög sinnti íslenzkum fræðum þessa áratugi, var Theodor Möbius; hann varð prófessor í Kíl í norrænum fræðum. Hann hefir birt á prenti margt fornrita Íslendinga (sumt í fèlagi við Guðbrand Vigfússon), hinar smærri sögur og einstök kvæði. Hann er einn þeirra, sem mjög leita fræðslu til Jóns Sigurðssonar um öll slík viðfangsefni sín eða flest (Málsháttakvæði, Íslendingabók, Íslendingadrápu Hauks Valdísarsonar o. s. frv.). Var Jón sem ella reiðubúinn til allrar aðstoðar, lèði honum jafnvel til prentunar eftirrit kvæða, þau er hann hafði sjálfur gert eftir frumritum. Má fara nærri um þakklátssemi Möbiusar í brèfum til Jóns, en þau eru aragrúi, enda getur hann Jóns víða í ritum sínum með virktum, síðast í formála að skrá sinni hinni síðari um bókmenntasögu fornrita, þeirri er birtist 1880, er Jón var nýlátinn; fekk Möbius þar bætt um það, er hann harmar í brèfum sínum til Jóns, þegar fyrri skráin kom út, að hann hafi ekki mátt hafa formála að henni og því ekki getað nefnt styrktarmenn sína. Nokkuru var það síðar en hèr var komið, að sænskur fræðimaður, er síðar taldist í meira háttar röð, Gustaf Cederschiöld, helgaði Jóni Sigurðssyni (ásamt Guðbrandi Vigfússyni) kvæðið Geisla eftir Einar Skúlason; það birti hann 1874 með formála og athugagreinum. Sami maður hefir löngu síðar (1923) í sænsku tímariti minnzt Jóns af alúð með öðrum fræðimönnum, er hann hafði haft af kynni. ²⁷

    En auk slíkra virðingarmerkja eða þakklætis, er Jón hlaut í ritum fræðimanna síðan eða samtímis, hlaut hann og ýmsa virðingarvotta, er táknuðu almennari viðurkenning á starfsemi hans. Riddari af dannebroge varð hann 1. jan. 1859, og er greint, að af þessum rótum sè. Um svipað leyti var hann kjörinn heiðursfèlagi í ítölsku menntafèlagi eða fræðifyrirtæki, er nefnist L’accademia (eða società) de’ Quiriti; hafði það að marki „að varðveita óskert gott mat á vísindum, menntum og listum og með öllu heiðarlegu móti að efla framfarir um allan hinn kaþólska heim", að því er stendur á heiðursskjali Jóns eða fèlagsskírteini. ²⁸ Vitum vèr ekki upptök þessarar sæmdar, en ætla má, að vart geti hèr annar hafa að verki verið en Dr. Etienne Djunkovskoy (er Íslendingar kölluðu „Djunka), því að hann var um þær mundur syðra, í Rómi, og með honum skrifari þá Ólafur Gunnlaugsson, en hann hafði haft töluvert saman við Jón að sælda og fleiri Íslendinga, meðan hann dvaldist í Kaupmannahöfn, og greiddi stundum fyrir Norðurlandabúum, meðan hann var í Rómi og klerktign hans hèlzt í kaþólskum sið. Getur hans að þessu t. d. dóttir sagnaritarans P. A. Munchs, er var með föður sínum þar þá og ritað hefir ævisögudrög nokkur föður síns. ²⁹ Árið 1866 var Jón kjörinn heiðursfèlagi með sæmdum útlendinga („auswártiges Mitglied) í vísindafèlaginu í München („die königliche bayrische Akademie der Wissenschaften). Er það vafalaust að hvötum Konráðs Maurers. En Maurer virðist hafa verið fullkunnugt um óbeit Jóns eða fælni við slík almenn virðingarmerki, því að hann segir í brèfi til Jóns, er hann tjáir honum þetta, 26. júlí 1866 ³⁰ : „Eg veit vel, hve lítils þèr metið slík ytri virðingarmerki, og eg get með góðri samvizku bætt við, að eg einnig í þessu atriði er yður fullkomlega samdóma. Samt sem áður held eg, að í þessu efni víki hèr málum nokkuð sèrstaklega við og á sè sú hlið, er einnig yður mætti vera ekki óljúf. Að minni vitund er það í fyrsta sinn (í hæsta lagi að undanskilinni doktorsnafnbót Sveinbjarnar Egilssonar í Breslau), að verðleikar Íslands í þjóðverskum fornaldarrannsóknum hafa hlotið þakklátlega sæmd af nokkurri meira háttar samkundu lærðra manna í Þýzkalandi ³¹ o. s. frv.; væntir Maurer því, að Jón taki við þessu fremur, er hann sè metinn fulltrúi þjóðar sinnar. Nefna má enn, að Jón var kjörinn heiðursforseti bókasafns Vestmanneyinga, og var það ekki að undra, með því að hann veitti jafnan mikinn stuðning lestrarfèlögum og bókasöfnum á Íslandi. Undarlegar kann að þykja víkja við, að hann var kjörinn heiðursfèlagi í fèlagi handiðnamanna í Reykjavík, ³² með brèfi, dags. 11. júlí 1875; Jón þakkaði með gjöf nokkurri og svari. ³³ En einna fágætust sæmd, er Jón varð fyrir, var sú, að hann var kjörinn 1875 heiðursfèlagi í Royal historical society í Lundúnum, að því er segir í Academy 3. apríl 1875. ³⁴ Er sú sæmd sjaldgæf utan Bretlands og aldrei öðrum í tè látin en þeim, sem taldir eru heimskunnir verðleikamenn. Voru og með Jóni kjörnir samtímis Worsaae, fornfræðingurinn, og Meldahl, nafnkunnur maður, forstöðumaður listaháskólans í Kaupmannahöfn. Þess gætir þá minna, að eigi hlaut Jón Sigurðsson doktorsnafnbót í heiðursskyni á minningarhátíðum háskólanna í Lundi (1868), í Uppsölum (1877) og í Kaupmannahöfn (1879); er þó undarlegt, að engum skyldi hugkvæmast það, er þar að stóðu, úr því þó, að íslenzkir fræðimenn hlutu slíka sæmd á hverri þessara minningarhátíða, en Jón vafalaust mestur verðleikamaður þeirra allra, einnig í fræðistarfsemi, og langumfangsmestur og fjölhæfastur. Má vera, að Jón hafi við spornað sjálfur, ef þess hefir ella kostur verið; víst er um það, að fátt lèt Jón sèr finnast um það, að vinir hans í Englandi hugðu að fá hann gerðan heiðursdoktor í háskólum þar; var það á hinum síðustu ævidögum hans, svo að vel má vera, að fráfall hans hafi teppt þá fyrirætlan.

    __________

    II. KAFLI.

    Störf Jóns að öðru leyti og hagir.

    Á högum Jóns er um nokkurar breytingar að ræða á þessu árabili, allt í milli þess, er haft var á orði (1859), að hann yrði eftirmaður hins fræga rannsóknamanns Müllenhoffs í prófessorsdæmi í Kílarháskóla, til þess er Hilmar stiftamtmaður Finsen, við fráfall Bjarna rektors Jónssonar (1868), lagði fast að honum að taka við rektorsembætti í latínuskólanum í Reykjavík. Hið fyrra virðist hafa verið laus tillaga, enda Jón ekki fylgt fast eftir ³⁵ ; hið síðara vildi Jón með engu móti þekkjast, vegna Jens, bróður síns, er var yfirkennari og næstur stóð stöðunni, eins og Jón tekur fram í brèfum sínum til Eiríks Magnússonar. ³⁶

    Ekki þurru tekjur Jóns lengi vel um þetta árabil, heldur fóru vaxandi, allt til 1866. Yfirstjórn kláðalækninga var þess háttar starf, að vel hlaut að vera launað, þótt skamma stund stæði yfir. Miklar öfgar gengu um það, hver kostnaður hafi orðið að för erindrekanna í fjárkláðamálinu; verður þeirra frásagna vart lengi síðan í brèfum. Vegna þess skal hèr nú rakið eftir fullum gögnum, hvað þetta nam miklu í hlut Jóns. Hann var, sem hinn erindrekinn, ráðinn með 250 rd. launum um mánuðinn og að auk 4 rd. á dag í fæðispeninga, en ferðakostnaður skyldi goldinn eftir reikningi. Kostnaður Jóns Sigurðssonar var

    Samtals nemur þá þetta í hlut Jóns um 2600 rd. Um þetta er til vitnis reikningur og kvittun Jóns sjálfs 8. mars 1860 og ávísun með brèfi dómsmálaráðuneytisins 11. apríl 1860. ³⁷ Allur kostnaður af þessari lækningaför nam tæplega 20 þús. rd., að öllu meðtöldu, lyfjum öllum, er að öllu var útbýtt ókeypis, launum, fæðispeningum og ferðakostnaði beggja erindreka og kostnaði allra dýralækna og aðstoðarmanna. ³⁸ Var það 10 þús. rd. lægra en veitt hafði verið til lækninganna af stjórninni. Samt sem áður var þessi aukageta nokkur stuðningur fjárhag Jóns, með því að hann hèlt öllum öðrum tekjum sínum. Engan veginn var Jóni þó of launað, því að hann lagði sig mjög í líma í þessu verki, eins og að vanda lèt og síðar segir. En þó að sumir sæju ofsjónum yfir þessum tekjum Jóns, var hèr um mikilsverð störf að ræða, er ekki þókti hæfa annað en launa vel, svo sem öll trúnaðarstörf í þágu alþjóðar.

    Fjárhagsnefndarstarf Jóns (1861-2) var einnig trúnaðarstarf í almannaþágu, en ekki nam þóknun Jóns fyrir það miklu (nokkurum hundruðum dala). Lítils háttar ritlaun fekk Jón og af almannafè fyrir Fiskibók sína og Varningsbók, og tekur vart að nefna.

    Allt þetta fè fekk Jón frá stjórninni. Fljótlegt er og að greina styrkveizlur til Jóns að öðru leyti úr almannasjóðum á þessu árabili. Árið 1862 sókti Jón um styrk úr sjóði þeim, sem kenndur er við Hielmstierne-Rosencrone og allmiklu fè hefir yfir að ráða til vísindastarfsemi. Hafði hann til þessa fylgi Rafns, sem ella, og má sjá það af brèfi Rafns til Jóns 5. sept. 1862. ³⁹ Ekki hlaut Jón styrkinn í þetta sinn, en nokkurum árum síðar (1871) hlaut hann frá þessari stofnun styrk, 300 rd., og var honum ætlað að safna fyrir það jarðeldalýsingum; skýrsla stofnunar þessarar orðar þetta svo, að styrkurinn sè veittur „til safns sögulegra skýrslna um eldfjöll á Íslandi og eldgos þar. ⁴⁰Er það og sönnu næst, að óvíða munu í einn stað saman komin merkari rit og lýsingar frá fyrri tímum um eldgos á Íslandi en í safni Jóns Sigurðssonar. Taka þessi eldri rit yfir 12 bindi (JS. 414-25, 4to.). Og ekki nóg um þetta; Jón hefir einnig sjálfur gert yfirlit um efnið, útdráttu og minnisgreinir, enn fremur vísað til og tínt úr útlendum ritum, sem efnið varða; gerir þetta að sjálfsögðu þeim, er um vilja rita eða kanna vilja, átök öllu miklu auðveldari; er allt þetta verk Jóns sjálfs að finna í JS. 422-5, 4to., og JS. 319-22, 8vo. Á þetta er minnzt á þessum stað fyrir þá sök, að einn nafnkunnur rithöfundur, Þorvaldur Thoroddsen, hefir gert þetta atriði að umtalsefni í endurminningum sínum. Þorvaldur var á fyrstu stúdentsárum sínum nokkuð handgenginn Jóni Sigurðssyni á síðustu æviárum hans, enda hafði Jón á hendi að lúka Þorvaldi styrk þann, er Jón bókavörður Árnason lagði Þorvaldi til náms. Þessi eru orð Þorvalds ⁴¹ : „Eitt sinn sagði eg Jóni frá því, að eg væri farinn að safna til íslenzkrar eldfjallasögu, og spurði, hvort hann hefði eigi ýmis gögn til eldgosasögu Íslands; hann tók því óvanalega þurrlega og eyddi því. Eg vissi þá ekki, að hann sjálfur hafði í nokkur ár haft styrk af Raben-Levetzaus-sjóði til þess að semja eldfjallasögu Íslands og átti mikið og ágætt safn af eldritum. Ef höfundur þessi hefði viljað kynna sèr skýrslur um sjóð Raben-Levetzaus, myndi hann vafalaust ekki hafa látið sjá þessi orð eftir sig. Jón Sigurðsson hefir ekki einu sinni, því síður „um nokkur ár notið styrks úr þessum sjóði, sem ljóst er af hinum prentuðu ársskýrslum sjóðsins. En sá styrkur, er áður getur og Jón hlaut eitt ár frá stofnun Hielmstierne-Rosencrones, mun vera það, sem fyrir Þorvaldi vakir hèr; en sá styrkur var ekki í tè látinn „til þess að semja eldfjallasögu Íslands, eins og Þorvaldur segir, heldur til „safns" heimilda, eins og sjálf skýrsla sjóðsins nefnir þetta. Má og þykja hætt við, að menn kynnu að leiða annað út úr þessum orðum Þorvalds Thoroddsens og telja athugaleysi, ef hann hefði ekki í sínum mörgu jarðeldaritum notað kappsamlega safn Jóns Sigurðssonar og samvizkusamlega, sem vera ber. Það má og sjá að minnsta kosti af hinu fyrsta þess háttar rita Þorvalds, ⁴² að hann hefir þókzt eiga Jóni Sigurðssyni nokkuð upp að inna í þessu efni þá.

    Um störf Jóns í Árnasafni er ekkert að segja á þessu árabili; þar er ekkert nýtt frá hendi hans; hann heldur þar fram þeim störfum, er áður voru hafin og fyrr hefir verið lýst, allt fram á árið 1866.

    Í fornfræðafèlaginu heldur Jón áfram að sinna þeim ritum, er áður voru hafin; er áður lýst hlutdeild hans í þeim. Var hann og enn mjög við störf fèlagsins riðinn, og mun fátt hafa verið prentað þar, svo að Jón liti ekki á það. Ljóst er það t. d. af brèfi Rafns til Jóns 23. jan. 1861, ⁴³ að yfirsýn hefir Jón haft á orðabók þeirri um samnefni (,Clavis‘), er Benedikt Gröndal hafði samið upp úr orðabók föður síns um hið forna skáldamál. Virðist og svo sem Rafni, er enn var höfuðmaður fèlagsins, hafi sem fyrr ekki þókt nokkurt ráð ráðið, nema Jóns væri leitað og að hann hafi metið Jón hverjum manni framar. Tók nú Rafn og að eldast og lýjast og var feginn að lètta nokkuru af störfum sínum á mann, sem hann mátti að öllu treysta. Eitt til marks um það (sem ráða má af brèfi Rafns til Jóns 24. maí 1861) ⁴⁴ er það, að það varð fastráðið með þeim, að Jón fengi þá 200 rd. aukaþóknun „fyrir að starfa að skjalasafni og bókasafni fèlagsins"; ætlaðist Rafn til, að Jón nyti þeirrar þóknunar árlega frá fèlaginu, sem ræður af brèfi hans til Jóns 25. febr. 1863.² Varð þetta og fastmælum bundið með þeim, sem sjá má af brèfi Rafns til Jóns 23. júní 1864,² en þó einkum af samningi, sem dagsettur var 5. mars 1863² og beinlínis hefir að geyma erindisbrèf að þessu nýja skjalvörzlustarfi. Skyldi það einkum falið í afgreiðslu bóka fèlagsins og umsjá með viðskiptum við alla bóksala. Hèr var að vísu ekki um embætti að ræða, ekkert líkt því, sem Jón hafði áður haft á vegum fèlagsins og þegið laun fyrir úr ríkissjóði Dana, en lagt hafði verið niður. En þó var þetta fullkominn samningur,enda hlaut Jón þessi laun (200 rd.) hvert áranna 1861-4, og myndi Jón hafa getað krafið fèlagið um það framvegis, ef hann hefði haft geð í sèr til þess, við þær breytingar, sem urðu á fèlaginu eftir lát Rafns.

    Þetta mat Rafns á Jóni kemur fram í öllum greinum, sem augljóst verður við könnun gagna, og munu nú greind hin merkustu vitni þess, enda sèrstakt tilefni að dveljast nokkuð við skipti Jóns og fornfræðafèlagsins á þessu árabili.

    Tvennt var það einkum, er Rafni þókti nú hin mesta nauðsyn, að fèlagið sneri sèr að, er fyrir lok sá orðabókanna beggja, Sveinbjarnar og Eiríks. Það var saga Íslands og lýsing Íslands. Vildi hann og ekki heyra, að nokkurum manni væri falið þetta öðrum en Jóni Sigurðssyni. Um söguna má vitna í brèf Rafns til Jóns 5. maí og 10. og 19. dec. 1863.¹ Hugmyndin um lýsing landsins átti aftur nokkurn aðdraganda og hafði lengi verið á döfinni hjá forráðamönnum Árnasafns og fornfræðafèlags, sem sjá má af ummælum Rafns og stjórnar Árnasjóðs 1854, er leitað var fjár, til þess að Jón gæti gefið sig við fornbrèfasafni og Íslandslýsingu saman í senn, en Jón vildi ekki að sèr taka í einu annað en fornbrèfin. Var svo til ætlazt, að þessi lýsing landsins yrði einkum bundin við sögustaði. Var þetta verk nú efst í huga Rafns 1861, sem sjá má af brèfi hans til Jóns 13. febr. 1861 og hinum næstu þar á eftir. ⁴⁵Varð og Jón vel við og samdi yfirlit um tilhögun verksins. ⁴⁶ Síðan ákvað Rafn, samkvæmt fundarboði, er dagsett var 11. maí 1861, ⁴⁷ að taka málið fyrir á fundi fèlagsins, sem halda skyldi 17. maí þá. Á þeim fundi var afráðið, að birta skyldi slíkt rit, „þegar atvik leyfa". Er verk þetta í fundargerð nefnt „Historisk

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1