Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Jón Sigurðsson: Viðbúnaður
Jón Sigurðsson: Viðbúnaður
Jón Sigurðsson: Viðbúnaður
Ebook454 pages7 hours

Jón Sigurðsson: Viðbúnaður

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

"Saga hans er saga þjóðar hans og samtímis" segir í fyrsta af fimm bindum um ævisögu Jón Sigurðssonar sem fæddist þann 17. júní árið 1811. Það bar snemma á gáfum og fróðleiksþorsta Jóns en hann fluttist ungur úr foreldrahúsum til að ljúka stúdentsprófi í Reykjavík og þaðan til Kaupmannahafnar til að leggja stund á háskólanám. Hér fá lesendur innsýn í æsku og uppvöxt Jóns á Hrafnseyri, þátttöku hans í félagsstörfum, persónulega hagi og félagslíf. Dregin er upp lýsandi mynd af aðstæðum á Íslandi þess tíma og störfum Jóns í þágu þjóðfélagsmála. Jón Sigurðsson I-V er ævisaga þjóðarhetju og leiðtoga Íslands í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Ævisagan var upprunalega gefin út í fimm bindum af Hinu Íslenzka Þjóðvinafélagi í Reykjavík á árunum 1929-1933. Verkið er viðamikið og gefur innsýn í afdrifaríka ævi Jóns Sigurðssonar og sjálfstæðisbaráttuna við Dani. Höfundur bókanna er Páll Eggert Ólason.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateMar 22, 2023
ISBN9788728281864
Jón Sigurðsson: Viðbúnaður

Read more from Páll Eggert ólason

Related to Jón Sigurðsson

Titles in the series (5)

View More

Related ebooks

Reviews for Jón Sigurðsson

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Jón Sigurðsson - Páll Eggert Ólason

    Jón Sigurðsson: Viðbúnaður

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1932, 2023 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728281864

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    This work is republished as a historical document. It contains contemporary use of language.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    AÐFARAORÐ.

    Það mun líklega almennt viðurkennt, að þær bætur og breytingar í þjóðfèlagsskipan, stjórnháttum og þjóðlífi, sem Íslendingar hafa átt við að búa hina síðari áratugi, hafi engan veginn komið af sjálfu sèr, enga baráttu þurft nè viðbúnað. Allar umbætur eru runnar frá baráttu. Mannlegu eðli er ísköpuð allrík fastheldni við þá aðbúð alla og skorður, sem venjur hafa tamið mönnum. Rætur þessarar fastheldni eru helzt þrenns konar: Hugleysi, tregða og kvíði. Hugleysi aftrar mönnum frá að rísa upp af kodda vanaværðar gegn ofurvaldi. Tregða hamlar þekkingu, því að jafnan er mikið erfiði í því fólgið að kynnast nýungum og breytingum, dæma rètt, velja og hafna. Kvíðinn mun þó ríkastur í mannlegu eðli. Menn þekkja það, er þeir eiga við að búa, en aldrei að fullu það, er við tekur, ef það er óreynt eða lítt reynt af öðrum. Í hugum flestra býr stuggur við ókennd efni. Þeir menn einir, sem ótrauðir eru og kvíðalausir, geta hrundið nokkuru áleiðis, og ef þeir eru framsýnir með forsjá, verða þeir sem vitar, er birtu bera, svo vítt sem tekur ljósmagn þeirra. Það er gifta hvers þjóðfèlags að eiga sem flesta slíkra þegna. Ef þessir kostir eru samfara miklu viti, víðtækri þekkingu, ríkri þjóðhollustu, góðgirni og drengskap, þá lýsir þar sem af kyndli alþjóð allri samtímis og síðan, því að það er eðli sannra mikilmenna, að gagn stendur af þeim eigi öld þeirra einni, heldur einnig óbornum kynslóðum. Þeir menn eru afreksmenn, sem hefjast upp úr öld sinni og benda þjóð eða þjóðum á leiðir til framfara og umbóta. Á þeim hvílir forsjá mannkyns. Þeir kippa þjóðum fram um set. Þeir valda aldahvörfum.

    Víst leikur það ekki á tveim tungum, að Jón Sigurðsson var einn slíkur afreksmaður þjóð sinni. Rit þetta hefir að því leyti enga nýung að flytja Íslendingum. En þótt þetta sè viðurkennt, munu menn samt hafa veitt því athygli, að við ber það, að sumir menn, jafnvel stjórnmálamenn, láta sèr um munn fara í ræðu og riti, að Íslendingar hafi ekkert haft fyrir sjálfstæði því, sem þeir kallast nú eiga; það hafi komið upp í hendur þeim fyrirhafnarlaust; þeir hafi engu til þess fórnað; aðrar þjóðir hafi keypt frelsi sitt dýrmætum fórnum, lífi og blóði óteljandi manna, en þessi þjóð, Íslendingar, hafi ekki lagt neitt í sölurnar. Slíkra ummæla gætir helzt um þær mundir, er menn halda árshátíð til minningar um sáttmála þann, er Íslendingar gerðu við Dani (1918), sjaldan ella. Ekki má ætla það, að þeir, er svo tala, hafi þau orð yfir til hugnunar þeirri þjóð, sem nú er í tengslum við Íslendinga undir sama konungi. Danir eru góð þjóð, en síðastir allra myndu þeir sjálfir játa, að stjórnvald þeirra hið æðsta um liðnar aldir hafi verið hollt þjóð þeirra og landi, hvað þá annarra, er það átti yfir að bjóða eða valdgæzla þess náði til. Saga þeirra er öllum opin, og leifar lands þeirra sýna merkin. Þeir myndu, hinir vitrari, meta það að háði, ef það yrði talið til göfuglyndis stjórnvöldum þeirra á fyrri tíð, hverja kosti Íslendingar eiga nú við að búa um þjóðforræði. Hitt væri þá heldur á að líta, hversu Danir hafi snúizt við í þessu efni, eftir að þeir höfðu fengið sjálfsforræði sjálfir (1848), og verður þó vart sagt, að hin danska þjóð hafi nokkurn tíma átt um það að sýsla, vart heldur löggjafarþing þeirra til hlítar, er þó jafnan taldi í sínum hópi nokkura menn, sem fylgdu málstað Íslendinga. Frá 1848 eru það sjálf ráðuneyti konunganna, sem verstur þröskuldur eru Íslendingum í þjóðmálabaráttu þeirra, og eru þar að öllu arftakar stjórndeilda konungs á ofanverðum dögum einveldis, er stjórnmálabaráttan hófst, sem gerr má sjá síðar. Og ráðuneytin rèðu lengstum viðtökum manna við málum Íslendinga á löggjafarþingi Dana.

    En ef nú svo er, að þeir menn hafi stungið nefi inn fyrir alþingisdyr, sem svo eru grunnvitrir og fávísir, að þeir hyggja öll þau vilyrði í stjórnfrelsi og þjóðfèlagsskipan, sem Íslendingar nú njóta, hafa komið sjálfkrafa í hendur þeim, þá er einsætt, að fleiri muni þeir, er jafnan hafa verið utan þingdyra, sem líkt hyggja. Og ef mælt er af fagurgala einum, má þó svo fara, ef oft eru ítrekuð ummælin, að menn festi trúnað á. Mestu varðar þó, að ekkert er nokkurri þjóð hollara en að kunna vel skil á starfi afreksmanna sinna. Þeir eru leiðtogar hennar, þótt liðnir sèu, varna henni að misstíga sig, styrkja hana í spori. Þá er og sýnt, að rit þetta muni eiga erindi til samlanda þess manns, sem færði að fórn á altari ættjarðar þeirra allt sitt líf, alla sína miklu yfirburði, gáfur og hæfileika, þess manns, sem leitaði allrar þekkingar eingöngu til hagsmuna þjóð sinni, fórnaði framtíðarhorfum þeim, sem glæsilegastar þykja að veraldarmati, í óslitinni baráttu fyrir vexti og viðgangi, heill og framförum þjóðar og lands.

    Því meira almennt gildi hefir líf manna, sem áhrif þeirra eru víðtækari. Frásögn um atburði, er standa einangraðir, getur verið skemmtileg, ef vel er orðfærð, en almennt gildi í sögu þjóða hafa þeir því að eins, að bent verði á eftirköst þeirra eða afleiðingar. Það getur t. d. verið gaman að lesa um hólmgöngur og bardaga fornmanna úti í löndum (t. d. ýmsar fornsögur vorar), eða ævintýraatburði hèrlendis (t. d. busl Jörundar Jörgensens hèr á landi 1809), eða um einkamál mikilmenna (t. d. ástir), en almennt um áhrif öll varðar slíkt þjóðina og þroska hennar litlu eða engu. Ekki er síður skemmtilegt að kynnast hugsunum og ráðagerðum einstakra manna; en ef slíkir menn hafa engu um þokað og engin merki má sjá ráðagerða þeirra eftir á, hafa þær í rauninni ekkert gildi almennt, hafa aldrei komizt í tölu þeirra atvika, er ráðið hafa breytingum í sögu og þroska þjóða; má í þessu efni nefna t. d. tillögur Jóns Eggertssonar á Ökrum um landstjórn, eða tillögur Þórðar dómstjóra Sveinbjörnssonar um þjóðhagabætur, eða tillögur Jóseps Banks, hins kuna enska öðlings og menntamanns, um að koma Íslandi undir yfirráð Bretastjórnar. Allt slíkt getur veitt skilning á mönnunum sjálfum, getur satt forvitni manna eða hnýsni og veitt mönnum unað til lestrar, ef þægilega er úr garði gert. En þjóðarsögunni eru slíkir menn eða tillögur þeirra því að eins geymdir, að þar hafi markað spor. Frá slíkum mönnum öllum skilur Jón Sigurðsson, tillögur hans og ráðagerðir. Saga hans er saga þjóðar hans samtímis. Afskipti hans og framkoma marka framtíð þjóðarinnar. Þar er sá maður, er segja má um, að hver taug, hver blóðdropi, hvert andartak var helgað ættlandi hans. Sannlega vegur líf slíks yfirburðamanns á við líf þúsunda þeirra margra, er deyja á vígvelli að boðum valdsækinna þjóðkúgara.

    Ekki er þeim sviðagjarnt, er telja Íslendingum hafa fallið sjálfkrafa í skaut sjálfsforræðið, ef þeir þekkja vopn þessa forvígismanns þjóðarinnar, þau gögn, er hann færði fram um það, að öll saga íslenzkrar þjóðar undir konungum af Aldinborgarætt, nálega óslitið frá siðskiptum, er ein samfelld blóðtaka, engu minni en á vígvelli væri, og þó því þyngri, sem hún var fastari og langvinnari, og því meir lamandi og deyfandi en skammvinn blóðfórn.

    Vopn hans í baráttunni voru nú nefnd; þau vopn voru vitni þau og gögn, sem hann gróf eftir í fylgsni og forðabúr þjóðar sinnar, fræði hennar, reynslu og þrautir. Það er þá og hlutverk þessa rits að lýsa þeim hertygjum hans og hvernig hann aflaði sèr þeirra og á síðan, er á vèttvang kom, hversu vopnaskipti tókust. Verður sú lýsing öll alllöng og margþætt; lætur það að líkum um mikilhæfan mann og afar fjölhæfan, er ekkert það lèt afskiptalaust, er varðaði hagi þjóðar og lands, smátt eða stórt, og hvarvetna var fremstur að áhuga, þekkingu, viti, drengskap, mannúð, þreki, skapfestu. Saga afburðamanna verður ekki mæld við stærð ættlanda þeirra nè fólksfjölda þjóða þeirra. Því eiga mikilmenni jafnmikla sögu, hvort sem þeir eru fæddir með stórþjóðum eða smáþjóðum, því meiri, sem þeir eru sjálfir fjölhæfari, áhugasamari, þrekmeiri. Er þó sönnu næst, að saga slíkra manna verður í rauninni aldrei tæmd. Áhrif þeirra eru sístæð. Þjóðum sínum eru þeir lífs og liðnir þróttvaki og leiðarljós í aldir fram.

    Á þessum stað, áður en tekið er til söguefnis, lýsingar á manni, störfum hans og viðbúnaði, athöfnum, baráttu og vopnaskiptum, hlýðir þá einungis að bregða upp mynd, svo skýrri og stuttorðri sem verða má, af högum og kjörum þjóðarinnar, eins og þetta var, áður en hann hóf merki sín og haslaði völl hverjum þeim, útlendum eða innlendum, sem girða vildu eða teppa götu þjóðarinnar að því marki, er hann setti henni, til gengis og gæfu, frelsis og framfara. En ekki má þess þá látið ógetið jafnframt, að sjálfur hefir hann með ritum sínum manna bezt búið í haginn þeim, er kynna vilja sèr þau efni öll eða lýsa þeim, eigi að eins hið næsta sjálfum sèr, heldur og í aldir aftur. Fer sá enginn fram hjá ritum Jóns Sigurðssonar og rannsóknum, sem kanna vill að nokkuru gagni hagi og sögu íslenzkrar þjóðar á hverjum tíma sem er, fyrr og síðar, unz Jón sjálfur varð ímynd og tákn alls hins bezta, er þykja má eigna íslenzkri þjóð, sjálfur skóp henni sögu og markaði tímamót á rímspjöld hennar.

    Með þessum formála viljum vèr þá biðja lesendur að nema staðar með oss við árið 1811, eða það árabil, og líta með oss á, hversu þá var umhorfs á Íslandi um stjórnháttu, verzlunarlag og þjóðhagi, lifnaðarháttu og menning, svo sem verða má í stuttu máli og við má þykja eiga til yfirlits.

    Svo lauk hinni 18. öld, að fulltrúaþing þjóðarinnar, alþingi, var lagt niður. Það var að vísu skuggamynd hins forna þjóðarvalds, en það var þó hið síðasta sýnilega teikn forræðis og sjálfstæðis hið ytra með þjóðinni. Hin innri teikn, tunga og bókmenntir, voru enn ekki afmáð; þau áttu sèr fasta rót í almúga, þótt hin prentuðu rit væru flest brennimerkt af þeim rithætti, sem sameiginlegur mátti heita öllum germönskum þjóðum, enn sem komið var, á hverri tungu sem ritað var, auðkenndur af líflausum lærdómsbrag, sem festur var orðinn um aldirnar hinar síðari og lærðir menn tóku hver eftir öðrum land úr landi þessara þjóða. Undir tungurótum almúgans lá viðreisn ritmálsins, og þangað var og lausnin bráðlega sókt, er hrista skyldi af dauðamörkin. En svo má að orði kveða, að afnám alþingis feli jafnharðan í sèr upphaf sjálfstæðisbaráttu íslenzkrar þjóðar, ef rúm merking er í lögð. Svo innilegan söknuð með þjóðinni vakti þetta tiltæki, að fáir myndu svo, að ekki kæmust við, er þeir kynnast þessum merkjum, þótt í einföldum umbúðum sèu. Einmitt harmurinn fal í sèr viðreisnarvonina, svo að sjálft þetta tilræði varð til hollustu, tendraði í leyni þann eld, er sló í ljósan loga, þegar að því kom, að sá var til taks, er merkið skyldi hefja.

    Tilhögun landstjórnar var einveldi. Þjóðstjórn var í engu um að ræða; ekki svo hátt jafnvel sem til sýslunefndar nè amtsráðs náðu ráð almennings; slíkar ráðstefnur voru þá enn ekki til. Ekki heldur getur þá hreppsnefndir. Hreppstjórn og meðferð þurfamanna var enn í hinu gamla horfi. Það er ekki fyrr en 1872, að hreppsnefndir, sýslunefndir og amtsráð komust á fót. Slík tilhögun fylgdi einveldinu og var vitanlega ekki til þess hent að fá almenning til þess að hugsa um þjóðmál eða álykta og afráða um þau efni. Þeir, sem lengst komust að þessu leyti, urðu að láta sèr nægja að óska og biðja með auðmýkt og undirgefni. Þetta einveldi eða alveldi var í höndum konungs að nafninu til, en vitanlega gat hann ekki úr öllu skorið, þó að hann hefði æðsta úrskurðarvald um stjórngæzlu alla og lagasetning. Honum við hönd voru stjórndeildir og skrifstofur til afgreiðslu málefna; undir þeim stóðu embættismenn koll af kolli, allt niður í hreppstjóra. Stjórnarfarið var skrifstofueinveldi eða embættiseinveldi. Allar framkvæmdir gengu skrifstofuleiðina, í tillögubúningi, frá hinum lægsta embættismanni til hins æðsta úrskurðarvalds, sem sett var hverjum málaflokki. Með æðstu stjórn málefna Íslands undir konungi fóru stjórndeildir konungs: Kanzellí, sem Íslendingar á 19. öld nefndu lögstjórnarráð, rentukammer eða fjárstjórnarráð (eftir sömu málvenju) og (frá 1805) skólastjórnarráð; auk þessara stjórndeilda höfðu við og við fyrrum verið settar upp aðrar stjórnarskrifstofur og sumt íslenzkra mála sett þangað í bili til afgreiðslu. En höfuðdeildirnar voru þær, er nú voru nefndar, og segja hin íslenzku nöfn sjálf til um hlutverk þeirra. Næst undir stjórndeildunum stóðu á Íslandi stiftamtmaður, byskup og amtmenn. Amtmenn voru þrír, einn vestan, annar norðan og austan, en sunnan var stiftamtmaður jafnframt amtmaður, allt til þess er landshöfðingjadæmið var sett á fót (1873) og amtmenn urðu tveir, amtsdæmin syðra og vestra lögð saman. Amtmenn voru æðstu embættismenn hver í sínu amti og í mörgum greinum beint undir stjórndeildum konungs og þá alveg sjálfstæðir, jafnsettir stiftamtmanni og honum óbundnir. Var þetta allfráleit tilhögun og gat oft verið til tjóns og óþæginda; gilti stundum sitt hvað í hverju amti um stjórngæzlu og framkvæmdir og gat rekizt óþægilega á, er fyrirmæli komu hvert í móti öðru í hverju amti um sig; kom það stundum greinilega í ljós, t. d. í framfærslu þurfamanna og síðar í fjárkláðalækningum. Enn var landfógeti, er fór að nokkuru með fjárreiður landsins, undir fjárstjórnarráði og stiftamtmanni. Undir amtmönnum (og að fjárreiðum landfógeta) stóðu loks sýslumenn, og voru umdæmi þeirra að mestu bundin við hina fornu þingaskipting landsins; undir sýslumönnum voru að lokum hreppstjórar. Hver þessara þjónustumanna einveldisins var eins konar einvaldshöfðingi í sínu takmarki, hreppstjórar hersar, sýslumenn jarlar, amtmenn og stiftamtmaður eins konar fylkiskonungar, en alþýða manna hlýðinn og auðsveipur múgur, sem beið bendinga og fyrirmæla frá þessum drottnum sínum. Málin voru skorðuð til afgreiðslu frá einum embættismanni til annars, hólfuð og flokkuð. En ef snurða kom á, var uppi fótur og fit, til þess að koma öllu í samt lag. Var slík tilhögun vitanlega ekki til þess fallin að örva menn til nýbreytni, framkvæmda nè stórræða. Hver embættismaður taldi sig sælastan, er hann fekk haldið öllu í hinum fornu skorðum, með sem minnstri fyrirhöfn og mestum arði sjálfum sèr til handa. En setjum nú svo, að einhverrar hræringar yrði vart utan að; innan að, úr þessari skrifstofukeðju, var slíks sjaldnast að vænta. Og gerum enn fremur ráð fyrir því, að þessi hræring væri svo sterk, að skrifstofuvaldið þæktist ekki geta látið hjá sèr líða. Hver leið var þá farin, munu menn spyrja. Þá var nú fyrst að núa stýrurnar úr augunum, þurrka gleraugun og hagræða þeim vendilega að nefrótum, aka sèr síðan og nöldra yfir því ónæði, sem slík aukavinna hefði í för með sèr, og því raski, sem verða kynni á hinum venjulega hægagangi skrifstofuveldisins. Leiðin var þá sú, ef um einhverja nýbreytni var að ræða, að tiltekinni stjórnardeild var falið að rannsaka málið og gera tillögur um það. Sú stjórnardeild leitaði þá eftir hæfilegan umhugsunartíma til stiftamtmanns, byskups eða amtmanna eða til allra í senn, ef mál var svo vaxið, eða til einhverra fulltrúa konungsvaldsins, þeir síðan aftur til sýslumanna eða prófasta, eftir því hvernig málum var háttað. Síðan komu álitsskjölin og tillögurnar sömu leið aftur, ef þær höfðu þá ekki lagzt til hvíldar að eilífu einhverstaðar á leiðinni eða gleymzt; oft varð og að reka á eftir, stundum hvað eftir annað, til afgreiðslu einu og sama máli. Með þessum hætti tók oft mörg ár að rannsaka eitt mál eða tillögu, svo að þegar úrlausnin loks kom með miklum semingi, var málsefnið stundum komið í annað horf eða á annan grundvöll, málið orðið úrelt, málsvekjandi úr sögunni eða engu skipti um úrslitin. Þetta var hin venjulega embættisafgreiðsla og embættismennirnir eftir því. Samt sem áður átti þó embættisstèttin við og við á að skipa dugandi mönnum, er reyndu að skima eftir þörfum og högum þjóðar og lands, vöktu máls á nýbreytni til umbóta og beittu sèr fyrir framkvæmdir; en altítt var það ekki, enda voru slíkir menn sjaldnast vel sènir af hinum, embættisbræðrum sínum, og tepptu þeir einnig oft áform þeirra og umbótatillögur. Eitt er og enn ótalið í skaðvænlegum áhrifum þessarar skrifstofutilhögunar, en það er það, að hún var svæfandi og lamandi, svo að þó að efnilegir og áhugasamir menn kæmust að skrifborðum einveldisins, lenti oft áhugi þeirra fyrst í busli nokkuru, en er frá leið, dofnuðu þeir upp og lögðust á koddann til fullra værða, eins og hinir, þeir er eldri voru.

    Nú munu menn þó færa það fram, að svipuð tilhögun var enn víðast um lönd, og er það rètt. En hèr var þó munur á og hann svo geysimikill og herfilegur, að ekki væri sèrstaklega um að fást ella. Einveldið var ekki innlent, ekki í höndum innlendra manna. Ef svo hefði verið, myndi gegnt hafa nokkuð öðru máli og mati. Ekki einungis voru einvaldar sjálfir (konungar) búsettir utan landsins og litu það aldrei augum. Á ofan bættist það, að mundang landstjórnar var í 300 mílna fjarska við þjóðina. Þeir, er fóru með æðstu stjórn, voru ókunnugir högum lands og þjóðar af eiginraun og eiginsjón; var þess því eigi að vænta, að þeir legðu kapp á að efla sanna heill og hagsmuni þjóðarinnar, enda þá ekki færir um það, er þá brast þekking til.

    Að sínu leyti eins var háttað um verzlun landsins. Þar hafði ráðið og rèð að nokkuru leyti enn áþján um kaupskap allan, kaupþrælkun eða viðskiptaok. Var sú stefna runnin aftan úr miðöldum og sprottin af þeirri trú á hagvísindum í þjóðarbúskap, að þá væri hag hverrar þjóðar bezt komið, er hún sæi sem mest sjálf fyrir nauðsynjum sínum, fengi sem minnst frá öðrum þjóðum, en flytti sem mest til þeirra af eiginafurðum. Leiddi af þessu um löndin hinar mestu hömlur á kaupskap allan og viðskipti með margvíslegum hætti. Slík einhliða kauphömlustefna var í mörgu mjög skaðleg og deyfandi fast allan framfarahug, eins og á stóð. Nú myndi þó ekkert hafa verið við þessu að segja á Íslandi, fremur en um önnur lönd, ef svo hefði við vikið hèr sem annarstaðar, að sjálfu landinu hefðu verið ætlaðar slíkar hömlur til hags. En því fór víðs fjarri. Þessi tilhögun verzlunar hèr á landi, kaupþrælkunin, var að fullu fest og upp tekin til hagsmuna annarri þjóð, Dönum. Var þetta í fyrstu gert til þess að kenna Dönum, er lítt kunnu til kaupskapar og farmennsku, siglingar og verzlun; varð þá Ísland þeim eins konar skóli til uppeldis og náms í þessu skyni. Og í annan stað var sá tilgangurinn jafnframt að ætla verzlunarbæjum þeirra, er þá voru í sköpun, allan arðinn af kaupskapnum; varð þá Ísland að þessu leyti einnig sel dönskum kaupmönnum. Svo gekk þetta lengi vel. Ísland var konungum Dana og kaupmönnum eða kaupmannafèlögum mjólkurkýr, og draup lengi furðuvel hvorum tveggja, þó að hvorir lægju á spenum í senn, konungum í landstekjum og misjafnlega fengnum þjóðeignum, kaupmönnum í verzlun, verðþyngslum og jafnvel varningssvikum og vèlræðum. Um hitt var sízt hugsað, að fóður væri ætlað gripnum, svo að megn og orka næði að haldast.

    Á það er löngum bent sem eindæmi með konungum þessum, að Friðrik fimmti, fyrir tilstilli Skúla Magnússonar og annarra góðra manna, varði nokkuru fè til hagsbóta og framkvæmda í landinu. Með kaupmönnum verður enn torgætara um dæmin, er menn vilja skima eftir viðleitni til eflingar þjóðargagni, þó að einstakir menn í þeim flokki gætu að sjálfsögðu verið mannkostamenn og sýnt þá mannúð, sem ekki einkennir stètt eða stöðu, heldur fylgir hverjum einum að innræti, hvernig sem ástatt er. En af því að það mun lítt kunnugt, og er þó hins vegar sanngjarnt og í sjálfu sèr ánægjulegt að halda á lopt því, er mönnum má vera til lofs, skal hèr nefnt alveg einstakt dæmi, er hnígur öndvert við. Allir munu kannast við fèlagsskap nyrðra, er til varð um 1760, nefndur var tíðast „fèlagið ósýnilega" og ætlað var til eflingar lærdómi og menntum innan lands almennt, en þó einkum sögu landsins, og til birtingar fornrita íslenzkra. Þar gerðist þá nýlunda í sögu kaupmannastèttar á Íslandi. Maður hèt Sören Pens; hann var kaupmaður (verzlunarstjóri) við Hofsós; fór af honum hið bezta orð. Hann gerðist hinn mesti hvatamaður að þessum fèlagsskap og ýtti undir lærdómsmenn til ritstarfa, með því að heita stuðningi sínum til þess, að rit þeirra gætu náð að verða birt á prenti. Svo var mikill áhugi kaupmanns þessa og góðvild, að hann lèt prenta á sinn kostnað hið eina rit, sem frá þessu fèlagi liggur, og er það Konungsskuggsjá, er birtist í Sórey 1768 og Hálfdan rektor Einarsson vann að mest; lèt Sören Pens ekkert til sparað, að útgerð ritsins mætti verða sem bezt.¹ Meira varð ekki af störfum fèlagsins, enda mun kaupmannsins ekki hafa við notið lengur.²

    Ljúft myndi öllum að telja upp fleiri slík dæmi, og myndi þykja bæta nokkuð fyrir syndir kaupoksins. En því er miður, þetta dæmi stendur sèr. Hin hliðin, dæmi þau, er víkja öndvert við, er svo alkunn, enda sèrstaklega lýst svo rækilega í ritum, að ekki þarf hèr að rekja, og eigi heldur framkomu kaupmanna, sem sízt bar af framkomu embættismanna. Þess nægir að geta hèr, að svo kom að lokum við þráláta vanhirðing og þrælkun notanda, konunga og kaupmanna, að þess tók að kenna, að kýrin tók að verða geld og missti nytjar, en spenar hennar þornuðu, þótt fast væri sogið. Varð nú stjórnöndum felmt við. Var margs við leitað að hressa við gripinn, þjóðina. En ekkert hreif. Svo hafði verið sorfið að eignarstofni og gjaldþoli, að um berar hnútur var að kroppa, gripurinn orðinn mergstola og nærri afvelta. Jarðir voru eyddar eða byggðust ekki, afgjöld því til muna lækkuð, fjöldi manna á verðgangi. Á ofan bættist og hin mesta óáran, með skepnufelli, og enn mannfellir af beinu hungri, svo að skipti þúsundum, sannlega að tiltölu við mannfjölda margfalt meiri blóðtaka en á vígvöllum stórþjóða í langvinnum styrjöldum. Allt þetta ein samfelld hörmungasaga og ægilegur vitnisburður um hið aflægislegasta stjórnarfar og verzlunarháttu. Sannlega annar vitnisburður en þeirra manna, sem telja Íslendinga hafa komizt þrautalaust, fyrirhafnarlaust og sjálfkrafa af nýju að frelsi sínu og sjálfstæði. Það er ósagt, hvor fórnin sè lèttari, mannfellir af völdum langvinnrar óstjórnar, kúgunar og misþyrmingar í gjaldheimtu og fjártekju, eða mannfall á vígvelli í hernaði. Eftir að settar höfðu verið nefndir, ótal tillagna verið gert, verðlaunum heitið til viðrèttingar atvinnuvegum þjóðarinnar o. s. frv., var loks horfið að því að rýmka til um verzlun og lètta af hömlum að nokkuru, í líking við þá stefnu hagfræðinga, er tekið var þá allmjög að gæta úti í löndum. Eigi hafði það þó staðið í vegi, að Íslendingar ýmsir hefðu eigi um langa tíð óskað lètt af ánauð þessari og það að öllu; þær raddir eru jafngamlar sjálfri kaupþrælkuninni. Svo var nú og komið, er stjórnin loks vildi veita lausn á þessu máli, að ýmsir ráðunauta hennar lögðu það til, að höftin skyldu leyst að fullu; aðrir vildu fara skemmra, lètta þeim af að nokkuru fyrst í stað, en að öllu smám saman. Gekk þeim til sumum, er hægfara voru í þessu efni, kvíði og áhyggjur fyrir hag íslenzkrar þjóðar; bjuggust þeir þá við vandræðum og skorti á vöruflutningum til landsins, ef leyst væru öll bönd í senn. Ráði þessara manna var fylgt og verzlunarhömlum lètt af við alla þegna Danakonungs árið 1787, með fyrirheiti um fullkomna lausn síðar. Nú brá svo við sem möru væri lètt af þjóðinni, þótt fullt frelsi væri eigi enn fengið. Kenndi þegar hins mesta lèttis um viðskipti öll; aðflutningar allir, verzlun, siglingar tóku að blómgvast og atvinnugreinir að hressast við. Þó var ekki frjálslyndi enn meira en svo, að þegar Jón Stanley, göfugur maður brezkur, er ferðazt hafði um Ísland 1789, vildi koma á fót þangbrennslu við stóriðjubrag á Íslandi, með verzlun við Breta, og hugði sjálfur að leggja stórfè í slíkt fyrirtæki, árið 1790, þá er svo að sjá sem stjórn Dana væri þar þröskuldur í vegi, af umhyggju fyrir verzlun danskra kaupmanna á Íslandi.³ Sú varð og reyndin, er nýtt líf tók að færast í viðskipti Íslendinga og framkvæmdir, að nú þóktust þessir kaupmenn, mest þjónar hinnar fyrri kaupþrælkunar, er keypt höfðu hin eldri verzlunarhús og vöruleifar, fara nokkuð halloka og eigi fá þann ábata, sem þurfa þóktust, er landsmenn gátu nú leitað til nýrra kaupmanna, sem mannúðlegar fóru með ráði sínu. Kærðu þeir þá mál sitt fyrir konungi og stjórndeildum hans. Nú var svo háttað, að flestir kaupmanna þessara höfðu tekið húsin og vöruleifarnar í skuld frá hinni fyrri konungsverzlun; þókti þá sem hag ríkisins væri illa borgið, ef þeir næðu ekki að standa í skilum. Var það ráð þá tekið í tveim lagaboðum konungs eða brèfum (1792 og 1793) að ívilna þessum erfingjum kaupoksins og skerða að því skapi þau rèttindi, er landsmönnum höfðu veitt verið fyrir 5—6 árum. Er skemmst af að segja, að þá brá þegar til hins verra. Kom það fyrir ekki, að beztu menn með Íslendingum leituðu til við stjórnina, með almennu ávarpi til konungs, og bæru fyrir sig fyrirheiti konungs í sjálfum verzlunarfyrirmælunum 1787. Fór því svo fjarri, að þessari bæn væri sinnt, að jafnvel reiði konungs lagðist á forkólfa ávarpsins. Sat allt við sama, og dró nú aftur úr þeim vísi til framfara, er glæðzt hafði við hin ríflegri ákvæði. Komu þá og brátt þung ár um aldamót og upp úr þeim, og loks hófst styrjöld með Dönum og Englendingum 1807 og stóð til 1814. Brast þá Dani, sem vænta mátti, allt magn til þess að birgja landið til nokkurrar hlítar að nauðsynjavörum, enda skip þeirra tekin í hafi og tepptir frá þeim aðflutningar allir til landsins, en af góðvild göfugra Englendinga, einkum Jóseps Banks, er dvalizt hafði nokkuð á Íslandi sumarið 1772, og með milligöngu handtekinna Íslendinga, er mikils máttu sín í tillögum við hann, lèt hin brezka stjórn leyfða verzlun til Íslands og frá því, svo að þjóðin yrði ekki bjargþrota. Hófst þá verzlun Englendinga á Íslandi, samfara því að danskur ævintýramaður (Jörundur Jörgensen eða Jürgensen) tók um nokkurar vikur sèr í hönd æðstu stjórn Íslands (1809), í skjóli Englendinga, að því er Íslendingar ætluðu. En er styrjöld þessari lauk með fjárhruni Dana, verðfalli peningaseðla, svo að margir Íslendingar misstu við stórfè, tóku hinir dönsku kaupmenn að neyta aftur rèttinda þeirra, er þeir kölluðust eiga, enda hóf stjórn landsins brátt aftur að styrkja þá og eyða þeirri verzlun, er Englendingar höfðu komið á fót á sjálfum styrjaldarárunum. En þetta verzlunarlag hafði nú sjálft veitt sèr svöðusárið. Einmitt á styrjaldarárunum höfðu Íslendingar komizt að raun um það, hversu lèttvæg var vernd Dana, sem raunar vonlegt var, er stórþjóð stóð að vígi annars vegar, og hversu vanmegna þeir voru til þess að birgja Ísland á þrautatímum, er þeir fengu ekki jafnvel borgið sjálfum sèr. Eftir það verða kröfur um fullt afnám á verzlunarhömlunum almennar og fastar, enda mátti kalla studdar við dýra reynslu.

    Ekki voru það Íslendingar einir, sem fundu til þessarar áþjánar. Vitrum og sanngjörnum útlendingum blöskraði, er þeir kynntust þeirri landstjórn og verzlunarháttum, sem Íslendingar höfðu átt og áttu við að búa. Þetta kemur ljósast fram í ritum Chr. U. D. Eggers; hann var ágætur maður, Holtseti, og komst til mikils frama í konungsþjónustu í Danmörku í lok 18. aldar; átti hann talsvert um íslenzk mál að fjalla og hefir ritað merk rit um íslenzk efni og lagði holl ráð á um viðreisn þjóðarinnar. Bretar tveir, er sömdu og birtu ferðabækur um Ísland í upphafi 19. aldar, Hooker og Mackenzie,⁴ fara sterkum orðum um þetta og vilja, að Englendingar taki til sinna ráða til viðreisnar landi og þjóð. Raunar voru tillögur beggja þessara manna að nokkuru runnar frá Jósepi Banks, er löngu fyrr hafði kynnzt Íslendingum af dvöl sinni hèrlendis og oft hreyfði svipuðum tillögum.⁵ En í engu var slíkum tillögum gaumur gefinn, svo að árangur yrði að. Er svo að sjá sem danskir rithöfundar þeirra tíma láti sèr fátt um finnast rit þessi, sinna þeim ekki, og þá því síður gaf stjórn Dana þeim gaum. Allt öðru máli gegnir um rit enn eins ferðamanns af brezkum kynstofni, Ebenezers Hendersons, er ferðaðist um Ísland og dvaldist hèr samtals á annað ár (1814—15). Hann hafði verið alllengi í Danmörku, áður en hann fór til Íslands, og var þar ýmsum kunnugur. Hann var maður góðgjarn í garð Íslendinga og þó sannorður í frásögn sinni um þá. Ferðabók hans⁶ vakti óvenjulega mikla athygli með Dönum; komu höfuðþættir þess rits út í 2—3 dönskum tímaritum merkum samtímis og skömmu síðar allt ritið á þýzku. Jens prófessor Möller tekur þá þegar fram í tímariti því, er hann stýrði,⁷ að kaflinn í bók Hendersons um alþingi sè ágætlega vel saminn, en jafnframt má lesa út úr orðum hans snuprur til þeirra Hookers og Mackenzies. Mun síðar sýnt, að þetta rit Hendersons hafði eigi lítil áhrif á danska stjórnmálamenn um landstjórnarháttu, í hag Íslendingum. Margir Íslendingar fundu sárt til þess, hvar skórinn kreppti að um stjórnhagi og verzlun, þó að ekki láti mikið heyra til sín í riti; bera þessu ljósast vitni t. d. ummæli Jóseps Banks⁸ og Hendersons. En um raddir Íslendinga í þessu efni verður nánara greint síðar (í 2. bindi þessa rits).

    Atvinnuvegir Íslendinga voru hinir sömu sem að fornu höfðu verið, landbúnaður og fiskveiðar. En um hagi þessara atvinnuvega mætti mönnum vera nokkuð ljóst af þeirri stuttorðu mynd, sem nú var brugðið upp af verzlunarfari og stjórnháttum, og þeim ókjörum, er því voru samfara og alkunn eru, óárani margs konar með eldgosum og skepnufelli, fjárkláða og faraldri ýmiss konar allan síðara helming 18. aldar. Fátt er þessara tíma, er veita megi yndi hugum manna og eigi sè raun augum við að dvelja, það er tekur til almennrar sögu bjargræðisvega þjóðarinnar. Fróun sú, er menn fá af drengilegri viðleitni Skúla landfógeta Magnússonar, Magnúsar amtmanns Gíslasonar og vina þeirra, til viðrèttingar atvinnugreinum landsmanna og eflingar afurðum þeirra, hverfur brátt fyrir þeirri raun að sjá þá viðleitni verða að engu, ef svo má segja, nema í minningu þeirra, er á eftir komu, og hvataneista, er þar var fólginn til eftirdæmis. Fátt var það, sem eftir stóð til minja um þessa menn, svo að fast mætti telja til umbóta með þjóðinni; helzt var það þó í veiðinytjum og sumum greinum nýtingar á afurðum landbúnaðar (vefnaði). Í landbúnaði var afturförin geysilega mikil, þeim bjargræðisvegi, sem var höfuðatvinnugrein landsmanna. Afrækt var nú með öllu eftir miðja 18. öld girðing túna og engja, til muna dregið úr seljum og upprekstri fjár á afrèttu; áburður og myki var ekki nýtt til græðslu til nokkurrar hlítar; jarðir byggðust ekki almennt fyrir meira en tvo þriðjunga hins fyrra afgjalds og þaðan af minna, jafnvel helming, og sumar alls ekki, svo að margar lögðust í eyði. Orsakanna var að mestu að leita í verzlunarlaginu; búsafurðir bænda voru allar felldar í verði til mikilla muna, en verðlagi haldið niðri með kaupskrám í vil kaupmönnum. Menn leituðu til verstaða í góðærum, er þar var fljóttekinn gróði, en lifðu þar við sult og seyru eða hrundu niður, er harðnaði í ári. En þó að nú brátt risu upp ýmsir ágætir menn, sem bæði sjálfir stóðu fyrir miklum bótum í þessu efni og beittu sèr fyrir almennar umbætur og framtak með ritgerðum, ráðaþáttum og hvatagreinum (Eggert Ólafsson, síra Björn Halldórsson, Magnús sýslumaður Ketilsson og þeir menn, er stóðu að lærdómslistafèlaginu), og þó að stjórnin tæki að heita verðlaunum fyrir umbætur dugmikilla manna í ýmsum greinum búskapar, þá varð samt árangurinn alllítill lengi vel og sízt til langframa, sem ljóst má sjá af tveim dæmum. Annað dæmið er af byggðum jörðum. Þegar hagsæld manna var mest orðin, það er hún varð á síðara helmingi 18. aldar, á árunum 1775 —7, þá töldu menn samt í Ísafjarðarsýslu, Múlaþingi og norðan lands 656 eyðijarðir. Hitt dæmið er af jarðarafgjöldum. Samkvæmt jarðabók landsins 1696 námu öll jarðarafgjöld á landinu, þótt lág væru yfirleitt, 33218 rd., en 1759 24273 rd., og höfðu peningar þó til muna lækkað þá í verði. Eftir sama verðlagi peninga um aldamótin 1800 er talið, að öll jarðarafgjöld af Íslandi muni vart hafa numið 20000 rd.⁹ Hallæri með manndauða af hungri og skepnufelli var iðulegt alla þessa öld, en gætti einkum á árunum 1750—7 og 1777—85. Var hvort tveggja með fram runnið af landskjálftum, eldgosum og öskufalli, er eitruðu grasbeit alla, svo að peningur þreifst ekki og fèll, en sjúkdómar geisuðu með landsmönnum, svo að þeir hrundu hrönnum saman. Þess í milli geisaði hinn mikli fjárkláði á árunum 1761—79 víða um landið, en lauk með algerðum niðurskurði og rofi fjárhúsa allra í þeim byggðum, er sýkin gekk. Ægilegastar og greinilegastar eru lýsingar af eftirköstum Skaftárelda (1783), er geigvænlegust voru 1784—5. Svo var sem lopt og láð yrði eitrað fólki öllu og fènaði. Allt bar í senn að höndum manna, gróðurleysi á landi, hafís á legi, óheilindi í lopti. Menn sættu sig við að leggja sèr til munns hræ og alls konar hrak og óþverra. Hross lögðust hvert á annað og átu til bana, átu myki, torf og trè, en fènaður ull af sèr. Á þessum tveim árum hrundu 9336 manns að tölu (flest á 8 mánuðum í senn), megin allra af harðrètti. Þá fèllu 28013 hross, nautgripir 11461 og 190488 sauðfjár. Þetta fall nam með öðrum orðum fimmtungi landsmanna, fullum þrem fjórðungum allrar hrossaeignar landsmanna, fullum helmingi nautgripa, fullum fjórum fimmtungum alls sauðfjár. Enn er svo talið, að veturinn 1800—1 hafi fallið fjöldi nauta og hrossa og um 80 þús. sauðfjár.¹⁰ Síðan hófst, eigi miklu síðar, hin langvinna styrjöld með Dönum og Englendingum, er olli Íslendingum miklum örðugleikum og víða kom til vegar hinu mesta harðrètti.

    Ekki fer hjá því, að öllum hljóti að renna til rifja, er kynna sèr lýsingar þessara tíma, hversu komið var hag landsmanna í öllum greinum. Ekki fer heldur hjá því, að menn sannfærist um það, að mest var þetta að kenna fyrirhyggjuleysi þeirra, er með landstjórn fóru, taumlausri kúgun á landsmönnum og reglubundinni blóðsuguaðferð við þá um allar hinar síðari aldir frá siðskiptum. Hverjir máttu ávextirnir aðrir verða, við slíka stjórn á þjóð og landi og þvílíka verzlunarháttu? Ϸessu hefir skilmerkilega lýst Chr. U. D. Eggers, sem sjálfur var starfsmaður í stjórndeildum konungs í lok 18. aldar. Hann kallar hörmung til þess að vita, að í landi sem Íslandi, er mestmegnis færi öðrum þjóðum matvæli, skuli menn deyja úr hungri nálega á hverju ári; segir hann, að það hljóti að stafa af því, að landstjórnin sè mjög bágborin. Og kaupþrælkunina telur hann hafa leikið landið svo, að eigi einungis hafi af henni leitt hin mestu ókjör, heldur hafi þeirri meinvætti verið blótaðar margar þúsundir manna, er fallið hafi úr hungri á Íslandi.¹¹ Enginn getur með rèttu vænzt annars en varð, að þjóðin hnigi til hugleysis og dáðleysis, er hún sá allar leiðir til manndóms og framtakssemi tepptar, svo að ekki blasti við annað en vesaldómur og örbirgð. Þessum þætti í sögu þessara tíma er sárast að kynnast. Að vísu fögnum vèr þeim afburðamönnum, er um þessar mundir kostuðu kapps um að bæta hag þjóðarinnar; þá þekkjum vèr bezt, enda er minningu slíkra manna mest á lopt haldið jafnan. Þeir menn kasta skærara ljósi yfir tímana, svo að bjartara þykir vera yfir en í raun og veru var, með því að minna er skeytt um að sýna mönnum hagi alls almennings, svo sem verða má, og má þó þetta engan veginn bresta þann mann, er fá vill fullkomna mynd þjóðarinnar. Hefir annar maður farið sönnum orðum um þetta efni, er vel mega þykja þess verð, að hèr sèu rifjuð upp¹²: „Svo sem vèr þekkjum lítt land það, er vèr sjáum að eins efstu fjallatindana gnæfa í lopt upp og glóa í sólarroðanum, og þótt vèr sæjum ofan í miðjar hlíðar, ef vèr sjáum eigi undirlendið, dalina, holt og hæðir, mýrar og grasi vaxna völlu, svo þekkjum vèr og lítt þjóðarsöguna af einum saman höfðingjunum og afreksmönnunum, heldur verðum vèr líka, og það engu síður, að kynnast sjálfri ævisögu alþýðunnar, ef vèr þekkja viljum lífssögu þjóðar vorrar."

    Almennt hugboð höfum vèr að vísu um hagi almennings af því, er nú hefir verið sagt um stjórnháttu, verzlunarlag og atvinnugreinir, óáran, mannfelli og skepnufelli, en ekki fáum vèr af því nægilega vitneskju um daglega háttu alþýðu, hverndagslíf, lifnaðarháttu og aðbúð alla. Þótt gögn sèu að vísu ekki auðug í þessu efni, þá má þó fræðast af þeim nokkuð til yfirlits. Eru þau allmerk, sem komin eru fram að hvötum höfundar þess, er áður var í vitnað, og birt eru í blaðinu Norðlingi 1879; eykur það gildi þeirra, að þau eru runnin beint frá skilríkum alþýðumönnum (Stefáni alþingismanni Jónssyni á Steinsstöðum og Jóni Jónssyni í Lögmannshlíð) og varða einmitt árin 1807—15, er mest ræðir um hèr, eins og efni liggur fyrir. Að eins til varúðar skal hèr nefnd lýsing nokkur, er hnígur að þessu efni, samin á dönsku og prentuð alllöngu síðar.¹³ Höfundur þess rits var dönsk kona (Gythe Thorlacius), sem dvaldist hèr á landi nokkur ár með manni sínum, Ϸórði sýslumanni Thorlacius. Er rit þetta bersýnilega barnaleg frásögn hálfmóðursjúkrar og úrræðalausrar konu; hefir það því að litlu almennt gildi, þótt gott gagn sè um sálarlíf og hagi höfundar sjálfs. En af frásögnum Stefáns á Steinsstöðum og Jóns í Lögmannshlíð mun hèr tekið stutt ágrip, eins og þær voru birtar;¹⁴ taka þær að vísu til eins byggðarlags (Eyjafjarðar), en fara má samt nærri um það, að svipað hafi verið í þessu efni um land allt, og eigi betra, því að Eyjafjörður er með hagsælli byggðum landsins, og að eins hafi verið um hríð fyrir og eftir, nema hvað sjálf styrjöldin hefir þó þessi ár kreppt nokkuru meira að mönnum í kosti.

    Um búskap segir Stefán á Steinsstöðum, að menn hafi að vísu hirt tún, að því leyti að borið var á þau víðast, þ. e. áburður borinn og honum dreift um tún, en nálega óþekkt hafi verið að þynna myki vatni og ausa svo um völl. Áveitur, skurðagröftur og túngarðahleðsla tíðkaðist ekki að marki, fyrr en um 1820; kenndi umbóta

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1