Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Jón Sigurðsson: Þjóðmálaafskipti til loka þjóðfundar
Jón Sigurðsson: Þjóðmálaafskipti til loka þjóðfundar
Jón Sigurðsson: Þjóðmálaafskipti til loka þjóðfundar
Ebook490 pages8 hours

Jón Sigurðsson: Þjóðmálaafskipti til loka þjóðfundar

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Í öðru hefti ævisögu Jón Sigurðssonar er gerð grein fyrir afnámi Alþingis á Íslandi og stofnun landsyfirréttar. Að vana lét Jón hag og höfuðmál þjóðarinnar sig varða, en þá voru verslunarmál, fjárhagsmál og stjórnarhagir landsins efst á baugi. Fjallað er um þann merka áfanga er danakonungur skipaði að Alþingi yrði endurreist á ný en þingið kom fyrst saman árið 1845 þar sem Jón Sigurðsson var kjörinn þingmaður Ísfirðinga. Sex árum síðar var kallað til Þjóðfundar sem reyndist afdrifaríkur atburður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og hin fleygu orð "vér mótmælum allir" hljómuðu af vörum íslensku fulltrúanna. Jón Sigurðsson I-V er ævisaga þjóðarhetju og leiðtoga Íslands í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Ævisagan var upprunalega gefin út í fimm bindum af Hinu Íslenzka Þjóðvinafélagi í Reykjavík á árunum 1929-1933. Verkið er viðamikið og gefur innsýn í afdrifaríka ævi Jóns Sigurðssonar og sjálfstæðisbaráttuna við Dani. Höfundur bókanna er Páll Eggert Ólason.
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateApr 14, 2023
ISBN9788728281857
Jón Sigurðsson: Þjóðmálaafskipti til loka þjóðfundar

Read more from Páll Eggert ólason

Related to Jón Sigurðsson

Titles in the series (5)

View More

Related ebooks

Reviews for Jón Sigurðsson

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Jón Sigurðsson - Páll Eggert Ólason

    Jón Sigurðsson: Þjóðmálaafskipti til loka þjóðfundar

    Cover image: shutterstock

    Copyright © 2023 SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728281857

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrieval system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    I. KAFLI.

    Liðkönnun.

    Með flestum þjóðum var á 19. öld háð hörð barátta, þó að sjaldan fylgdu styrjaldir. Umbrotin voru mest innan landamæra þjóðanna sjálfra, hnigu að rèttindum, er þjóðhöfðingjar höfðu til sín tekið, en þjóðirnar kölluðu nú eftir. Gætti þessa mest með mörgum þjóðum allan meginhluta þessarar aldar. Sú öld var barátta fyrir þjóðræði og þingræði, einnig með Íslendingum, og mun lengstum við það kennd. Með Íslendingum, sem sumum öðrum þjóðum, var baráttan tvöföld, út á við, að kippa til sín yfirráðum frá útlendu stjórnvaldi, inn á við, að skipa stjórnmálunum og búa í hendur þjóðinni hlutdeild stjórnar. Þessu fylgdu með Íslendingum umbætur á verzlunarfari og kröfur um fjáreign þjóðarinnar og fjárstjórn, en með allt þetta hafði verið misfarið öldum saman. En hèr fór og saman margs konar framfaraviðleitni og menningarstarfsemi, sem í öllum þeim löndum, þar er háð var þjóðræðisbarátta.

    Á Íslandi veik svo við í upphafi þessarar aldar, að þar höfðu verið lagðar niður þær litlu leifar, sem eftir voru hins forna alþingis. Þetta varð árið 1800. Það var eins konar aldamótagjöf til Íslendinga. Þetta var í sama mund sem birta tók af nýjum frelsisdegi úti í löndum. Það var ellefu árum eftir að fullnuð var sameining hinna lýðfrjálsu Bandaríkja í Vesturálfu, jafnlöngu eftir að Frakkar hófu sína dýru tilraun til að hrinda af sèr oki fornrar stjórnþrælkunar.

    Afnám alþingis var engan veginn að vilja landsmanna, síður en svo, enda voru þeir ekki aðspurðir. Það má vera ofsagt, að menn hafi almennt gert sèr grein fyrir þessari ráðstöfun þegar í stað. En er frá leið, virðist hún hafa vakið almennan harm, og söknuður manna hèlzt lengi og bjó um sig, sem síðar kom fram, er þjóðmálabaráttan hófst. Skilríkur maður, Dr. Ebenezer Henderson, dvaldist hèr á landi um hríð, nokkuru eftir þessar atgerðir (1814—15), og fór víða um landið. Honum fara svo orð um afnám alþingis í ferðabók sinni: „Eg minnist þess ekki að hafa svo vikið að þessu atriði við nokkurn Íslending, að ekki áteldi sèrhver biturlega þessa breyting. Sorg Íslendinga af þessu kemst að eins til jafns við gremju þeirra, er þeir hugsa til þess, að breytingunni var komið á af einum samlanda þeirra". ¹ Lýsir og Dr. Henderson því fagurlega, hver lyptistöng alþingi var Íslendingum og hvert gildi það hafði í þjóðlífi þeirra. Sjaldan hafa ferðamenn launað betur gestrisni en þessi ágæti maður. Hann gerðist óbeðinn erindreki þjóðarinnar, er honum rann til rifja söknuður hennar, því að engin rök finnast þess, að þjóðlegir Íslendingar, er hann kynntist við, hafi beinlínis beðið hann þessa, en vel mætti það þó vera. Vöktu orð hans um þessi efni, og bók hans öll, athygli með menntamönnum erlendis, víða um lönd, og eigi sízt með Dönum sjálfum, enda var þá miklu ráðandi um löndin hin nýja stefna um helgi þjóðlegra minja og minninga. Fór Henderson beint til Kaupmannahafnar af Íslandi og hefir þá hitt Kristján konungsefni, er síðar varð konungur, hinn áttundi með því nafni, og átt við hann tal um þetta meðal annars, sem að Íslandi laut, enda fengið leyfi hans til að helga honum ferðabók sína, sem hann gerði, og aldrei myndi gert hafa leyfislaust. Gat Henderson vart annað til gengið en góðvild við Íslendinga, er hann helgar konungsefni bók sína; þá var þess framar von, að sinnt yrði að einhverju umbótum þeim, er ýmsir Íslendingar höfðu nefnt við Henderson og hann getur í bók sinni. Var þá enn ekki allmikið ritað um Ísland á erlendar tungur af skilríkum mönnum útlendum, og mátti konungsefni, sem var maður góðviljaður, menntaður og frjálshuga, fagna því að fá senda slíka bók eftir hlutlausan mann og góðgjarnan. Sýndi og Kristján, er hann var konungur orðinn, mjög góðvild sína í garð Íslendinga, og sjálfum var honum beint áhugamál þá að endurreisa alþingi. Hitt mun samt ekki af ýmsum ástæðum unnt að ætla, að konungsefni hafi átt upptök að því, að tekið var einmitt 1816 að ræða um það með hinum æðstu stjórnvöldum í Danmörku að reisa alþingi við af nýju. Að vísu fellur dvöl Hendersons í Kaupmannahöfn vel við þetta að tímanum til. En þó hafði þessu máli verið hreyft í kanzellíi, áður en Henderson var boðaður á fund konungsefnis, er ræddi við hann lengi og tjáði honum þakkir fyrir nytsemdarverk í þágu Íslands. Frá því hefir Henderson sagt sjálfur í einu brèfa sinna, er prentað var löngu síðar, skömmu eftir andlát hans. ²

    Magnúsi dómstjóra Stephensen er með rèttu þakkað einum, er hann gerðist upphafsmaður að því að beita mannúðlegar en verið hafði fyrirmælum sakalöggjafar, og með öðrum að hafa gengið eftir umbótum á verzlunarlagi og stutt að því, að vörur fengjust til Íslands frá Englandi á styrjaldarárunum skömmu eftir aldamót. Hèr má enn til telja áhuga hans um verkleg efni, meiri víðskyggni um trúmál o. s. frv. En tillögur hans til stjórnvalda utanlands, er fóru með íslenzk mál, þóktu ekki jafnan eins hentugar þjóð og landi. Við Magnús Stephensen á Dr. Henderson í ummælum sínum um afnám alþingis. Margir aðrir hafa og á þeim tíma látið sèr lík orð falla um Magnús. Má hèr t. d. nefna Bjarna Thorarensen, skáldið, síra Einar Thorlacius í Saurbæ í brèfi til Jóns Sigurðssonar, 7. okt. 1856. ³ Jafnvel eins sanngjarn maður og varkár og Steingrímur byskup fær ekki orða bundizt, er hann sèr sumar tillögur Magnúsar, ásamt lýsingum hans á þjóð eða þjóðháttum; kynntist Steingrímur þessu nokkuð á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. ⁴

    Ekki eru þessir dómar þó að öllu sanngjarnir. Magnús var á sinn hátt þjóðhollur maður, en dæmafá hègómadýrð og eigingirni, sem hann kunni ekki að leyna, hrundu mönnum frá honum og gerðu hann óvinsælan. Það munu vera tillögur hans um skólamál (sameining skólanna) og sala. Hólastólsjarða, sem einkum ráða ummælum sumra þessara manna, er að ofan getur. Og um alþingi er það sannast að segja, að komið er upp í vana með Íslendingum að eigna Magnúsi málalok þar. En þó að hans og þeirra frænda gæti raunar mjög í síðustu lotunni í því máli, þá er þar samt ekki upptakanna að leita. Og eftir því sem efni liggur fyrir, má þykja skylt á þessum stað að líta á þetta mál stuttlega eftir hinum fyllstu skjalgögnum, sem fundin verða, hvað sem líður dómum þeim, sem fastir eru orðnir í bókum.

    Þar hefir höfundur þessa rits fyrst sèð hreyft þessu máli, að flytja alþingi til Reykjavíkur, er nefnd sú var tekin til starfa, er sett var samkvæmt umboðsskrá frá konungi 16. febr. 1785 og ætlað var að rannsaka hagi Íslands, þar á meðal verzlun. Í þeirri nefnd átti sæti Jón Eiríksson, eri skrifari hennar var Chr. U. D. Eggers, og er gerðabókin með hendi hans. ⁵ ) Þessu máli er fyrst hreyft á fundi nefndar þessarar 18. apríl 1785. Þá lögðu menn mjög kapp á að efla kaupstaði á Íslandi, og var þetta eitt í því, ásamt flutningi skóla og byskupsstóla. Hèr til drógu og þægindi, er menn töldu þessu samfara. Tillagan var runnin frá Levetzow, sem þá var fyrirhugaður stiftamtmaður á Íslandi og á förum til landsins. ⁶ Þetta studdi Chr. Eggers, og var síðan kanzellíinu skrifað um málið. Um sumarið, er Levetzow var kominn til Íslands, gerði hann þá tillögu í brèfi til kanzellís (20. ág. 1785), að alþingi skyldi klofið í tvennt, í tvö lögþing; skyldi annað háð í Reykjavík (lögmannsdæmið sunnan og austan), hitt á Oddeyri (lögmannsdæmið norðan og vestan). Þar með fylgdu og álitsskjöl frá Stefáni amtmanni Þórarinssyni og Jóni sýslumanni Jakobssyni á Espihóli ⁷ ; eru þeir samþykkir svipaðri stefnu, vafalaust til hentisemi nofðanmönnum. En það er ljóst, að Stefán amtmaður Þórarinsson vill halda lögþingum og lögmönnum með sama hætti sem áður; má um þetta vísa í brèf hans til rentukammers 13. ág. 1785 ⁸ og til stiftamts 11. sept. 1786. ⁹ Kanzellíið leitaði þá til Thodals, er verið hafði stiftamtmaður á Íslandi, en nú var í stjórn Íslandsmála í Kaupmannahöfn. En í álitsskjali sínu, er dagsett var 23. febr. 1786, taldi hann þetta svo mikið óhagræði landsmönnum, af mörgum ástæðum, sem ekki er rúm hèr að greina, að hann rèð fastlega frá flutningi alþingis af Þingvelli, en taldi afnám þess einnig óviðurkvæmilegt. ¹⁰ Jón Eiríksson lagðist og síðan fast í móti þessu í nefndinni, sem sjá má af athugasemdum hans um málið, er fram komu eftir hann látinn, ódagsettar. ¹¹ Þetta rèð niðurlögum málsins að sinni, og lètu menn sèr um hríð nægja viðgerðir á gamla alþingishúsinu á Þingvelli, sem þókti lèlegt, enda beiddust þess lögmenn, Björn Markússon og Magnús Stephensen (í brèfum til kanzellís), og Levetzow stiftamtmaður (6. jan. 1789), „ef ekki yrði bráðlega ákveðið, að lögþingið yrði flutt á annan stað. ¹² Lá þetta svo í þagnargildi. En í brèfi til kanzellís 12. sept. 1798 leggur Ólafur stiftamtmaður Stefánsson til þess að flytja þingið til Reykjavíkur; ¹³ og í brèfi til rentukammers ári síðar (24. ág. 1799) vill hann, að keypt sè nokkuð af húsi Sunchenbergs kaupmanns í Reykjavík, er þá var stærst hús þar, og þar verði meðal annars „yfirog lögþingisrèttur haldinn. ¹⁴ Þessa tillögu um flutning alþingis fèllst rentukammer á (brèf 1. júní 1799). ¹⁵ Þenna vetur (1800) var Magnús Stephensen í Kaupmannahöfn. Var hann þá (með Grími Thorkelín, Stefáni amtmanni Þórarinssyni og Vibe amtmanni) skipaður í nefnd til þess að gera tillögur um skóla og dómsmál á Íslandi, og var hann skrifari nefndarinnar. Á fundi nefndar þessarar 1. og 8. apríl 1800 ¹⁶ eru allir nefndarmenn ásáttir um það að sameina bæði lögmannsdæmin í eitt og hafa landsyfirrètt í Reykjavík, enda segja þeir í álitsskjali sínu um landsyfirrètt (dags. 8. apr. 1800), að þeir sèu sannfærðir um nytsemi slíkrar breytingar á Íslandi, og hafi hún með mikilli heppni og heiðri komizt á alstaðar um Noreg. Þess má geta, að í ástæðum þessara tillagna sinna segja þeir (við 1. gr.), að „þessi samkoma [þ. e. alþingi við Öxará] hafi ætíð verið gagnslaus; enn fremur (við 3. gr.), að þingstaðurinn „við Öxará sè „einn hinn allra-ljótasti. Þar með var endir bundinn á málið. Kanzellíið ákvað, að „lögþingshús skyldi reist í Reykjavík, 12. apr. 1800, en síðar um sumarið (11. júlí 1800) birtist tilskipan konungs um landsyfirrètt. ¹⁷

    Þessi er í stuttu máli niðurstaðan eftir skjalgögnum, sem til verður náð.

    En þar er skemmst af að segja, að um stjórnmálaskoðanir var Magnús Stephensen hreinn 18. aldar maður. Hann er bersýnilega frá barnæsku til æviloka gagntekinn af þeirri stefnu, sem gætti með mörgum ágætum mönnum úti um lönd, að einveldisstjórn væri hin hentasta tilhögun, samfara menningu og fræðslu almennings, sem þó skyldi ekkert atkvæði eiga um landstjórn. Því er von, að Magnús væri ekki næmur á einkenni þjóðar sinnar, enda er þjóðernistilfinning hans í daufasta lagi, og sjálfstæði og þjóðstjórn eru honum óskiljanleg orð. Til marks um skoðanir hans að þessu leyti, og skilning hans á stjórnsögu Íslendinga að öðru leyti, nægir að setja hèr slík ummæli hans sem þessi ¹⁸ : „Eg læt þeim annars viljugur eftir farsældarímyndun sína, sem reikna þær til fyrstu fjögurra frelsis- og eiginstjórnar-aldanna og meir líta á blómleg efni en innvortis rósemi og frið, vernd lífs og eigna og allt annað, sem sönn farsæld út krefur; eg læt enn fúsari hverjum eftir, sem vill, nú eftir meira en 5 aldir þaðan, að dreyma um líklega meiri farsæld Íslands undir gamalli eiginstjórn, ef haldizt hefði allt hingað til, en Noregs og Danmerkur konunga; læt þeim og eftir að ímynda sèr hentug ráð til að sefa og eyða með gömlum óeirðum, upphlaupum, ráni og drápi og slökkva alla morðelda, þó að enn hefðu að líkindum við haldizt, með eiginfrelsi og stjórnleysi, sem fyrri; læt þeim enn framar eftir að sýna, hvernig þá bezt hefði mátt standast og taka duglega við náttúrunnar óblíðu af eldgjósandi fjöllum og landskjálftum, af hafísþökum, af hallærum til lands og af fiskileysi, af stórsóttum, af mann- og peningsfelli, og einkanlega að hafa varið frelsi sitt og kauphöndlun til þessa og framvegis fyrir ásælni og ofurefli annarra voldugra þjóða í stríðum; því að, eg hefi þar í móti, míns föurlands vegna, alla orsök til að gleðja mig langt um framar yfir þeirri heill, sem góð lög í heiðri hafa undir kongastjórninni gefið eða gefa mátt hèr landi og lýð, einkanlega frá siðaskiptanna tímum og þá allra-helzt á síðustu öld". Meira mun ekki þurfa. Sá maður, sem mælti þessi orð, hafði yfirumsjá og einkarèttindi á öllu, sem prentað var á Íslandi á fyrsta þriðjungi 19. aldar. Honum þykir stjórn landsins bezt hafa farið frá siðskiptum. Hann telur konungsstjórn hafa verndað Íslendinga og verzlun þeirra og varðveitt þá fyrir yfirgangi annarra þjóða; hann minnist bersýnilega hvorki einokunar nè rána Algiersmanna. Undan rifjum slíks manns var ekki að vænta neins, sem bryti bág við síðari venjur, að ekki sè sagt átrúnað, í skipulagi landstjórnar og stjórnhátta.

    Það er því með nokkurri undrun, að vèr verðum þess varir hina síðari áratugi, að tekið er að gera þenna mann að umbótamanni um tilhögun stjórnhátta með Íslendingum. ¹⁹ Þeir menn eru ekki vel kunnugir anda Magnúsar í þeim efnum, sem orðið hafa til þess að eigna honum ritling einn, er birtist á prenti á ensku í Lundúnum árið 1813 og ræðir um eymdarhagi Íslendinga og ráð til umbóta á högum þeirra. Ritið nefnist ,Memoir on the causes of the present distressed state of the Icelanders and the easy and certain means of permanently bettering their condition. By an Icelander‘. Það er birt í íslenzkri þýðingu í riti, sem nefnist Aldahvörf eftir Bjarna Jónsson frá Vogi. ²⁰ ) Ritið er samið af snilld og andagift og sýnir prýðilega, hver ókjör hafa yfir landið dunið af völdum Danastjórnar, og jafnframt er bent til bjargráða í sjálfstjórn, stuðningi að viðreisn atvinnugreina og frjálsri verzlun, ef þörf krefur undir vernd Englands. Ritið er á titilblaðinu kallað samið af Íslendingi, en það er eitt ærið til að frádæma það Magnúsi Stephensen, þó að ekkert annað kæmi til, að árinu fyrir birting ritsins, í brèfi til Jóseps Banks, lýsir Magnús sig með öllu andstæðan einmitt því, sem farið er fram á í ritinu, og telur Ísland alsælt undir stjórn Danakonunga, hælir stjórnháttum þeirra og meðferð þeirra á landinu. ²¹ Því má enn við auka, að til er eintak, sem sent er Jósepi Banks af höfundi, og eru þau orð rituð á ensku á titilblaðið; er það öruggt, að þau eru ekki með hendi Magnúsar Stephensens; er rithöndin auðsjáanlega albrezk, og er þá vitað, að ritið er eftir brezkan mann, en ekki er um marga að ræða, sem hèr ná að koma til greina, tvo eða þrjá menn; mætti helzt ætla (og má finna með samanburði), að ritlingurinn væri eftir Mackenzie, er hèr hafði verið á ferð fyrir skömmu og einmitt um þessar mundir gekk fast fram í því, að önnur skipan yrði gerð á högum Íslands, það yrði numið úr tengslum við Danmörk, en lagt undir vernd Englands; stóð jafnvel til, að hann yrði sjálfur landstjóri á Íslandi fyrst framan af. Tillögur um þessi efni og brèfagerðir frá Mackenzie eru alveg nýlega komnar fram í skjalabögglum, sem várðveitzt hafa með skyldmennum Jóseps Banks og höfundur þessa rits hefir enn ekki átt kost á að sjá. Þess má einungis geta hèr við, að um líkt leyti (1815) birtist á dönsku ritlingur um svipað efni sem hinn fyrri, nafnlaus að vísu, en þó eftir Íslending, Gísla Johnsen, er prestur varð í Noregi; það nefnist „Et Par Ord til Moderlandet Norge" og hefir verið birt á íslenzku fyrir skömmu. ²² Ritlingur þessi er að vísu ritaður af ræktarsemi til Íslands, en stórmikið skilur hann og hinn fyrra; er þessi hinn síðari heldur óskipulegur og lýsir undarlegri vanþekkingu á stjórnháttum Íslands frá fyrri tíð.

    En Magnús Stephensen var ekkert eindæmi; síður en svo. Hann er ágætt dæmi stjórnhollra embættismanna á Íslandi á 19. öld. Vèr skulum því til sönnunar skima nokkuð um og líta til þeirra manna, sem voru helztir fyrirmenn landsins um hríð, um og eftir daga Magnúsar.

    Bjarni amtmaður Þorsteinsson var sá íslenzkra embættismanna, sem mest traust hafði hinna dönsku stjórnardeilda, er fóru með mál Íslands. Hann hafði fengið allt embættisuppeldi sitt í Danmörku, í stjórnarskrifstofum þar. Hann var og árvakur og dyggur embættismaður, lèt sèr einkum hugað um búnaðarbætur í amti sínu. En hann var allra manna varkárastur; þekkti enga leið til stjórnar aðra en skrifstofuleiðina, enda sjálfur fyrirmyndarmaður í skrifstofustètt; deigur maður og tortryggur á nýungar, en þó vitur og kynnti sèr margt. Til marks um mat hèraðsbúa hans á honum, má nefna brèf frá síra Ólafi á Stað til Jóns Sigurðssonar, 21. júlí 1843, 12. jan. og 30. júlí 1844 og 8. jan. 1845. ²³

    Líkur Bjarna að sumu var Grímur Jónsson, er tvívegis var amtmaður nyrðra, en þess á milli embættismaður í Danmörku. Þegar hann fór hið fyrra sinn úr amtmannsembætti til Danmerkur, er honum svo lýst af Þórði sýslumanni Björnssyni í Garði, í brèfi, 27. jan. 1834, ²⁴ til Þórðar Jónassonar, sem þá var utanlands: „Hann vildi þrengja Íslandi í danskan stakk, og það vilja nú að sönnu fleiri", en annars talar Þórður vel um hann. Grímur virðist og verið hafa fjölhæfur gáfumaður og dugandi embættismaður og vel metinn í hóp vina sinna. En ekki þekkti hann aðra leið til stjórnar en vald ofan að og skipanir, enda hafði hann verið herforingi ungur. Þjóð sína lítilsvirðir hann, enda orðinn óþjóðlegur af langdvölum í Danmörku; bera þessu ljósast vitni brèf hans sum til Rasmusar Rasks. ²⁵ Þess má þó geta Grími til lofs, að þegar hann tók við amtmannsembætti aftur á Íslandi, varð hann einna fyrstur hinna æðri stjórnvalda til að rita brèf sín á íslenzku til manna innanlands, einnig til embættismanna. Leiddi af því eins konar kæru frá stiftamtmanni, sem þá var Th. Hoppe, og bað hann kanzellíið að skipa Grími að rita sèr á dönsku. En kanzellíið svaraði stiftamtmanni svo í brèfi, dags. 22. ág. 1846, að ekki væri ástæða til að amast við því, að slíkar brèfagerðir væru á íslenzku með embættismönnum innanlands. ²⁶

    Nokkuð sèr stendur Bjarni amtmaður Thorarensen, skáldið. Hann er manna þjóðræknastur, en heldur lèlegur embættismaður, enda þóktust embættisbræður hans stundum þurfa að hrista höfuðið að honum þess vegna. Bjarni er oft á döfinni með ýmsar tillögur til umbóta. Hann fagnar og manna bezt hinum ungu mönnum, sem á efri árum hans hefja segl að hún og greyptu nafn þjóðar sinnar á gunnfána á siglutoppi (Baldvin Einarssyni, Tómasi Sæmundssyni og Fjölnismönnum).

    Að þessu leyti er Bjarna ekki ósvipaður Ísleifur dómstjóri Einarsson. Mikil þjóðrækni lýsir sèr í sendibrèfum þess manns á gamalsaldri, og stórmerk eru þingsetningarávörp hans á manntalsþingum á yngri árum hans. ²⁷ En hann megnaði fátt af eiginrammleik, myndi hafa verið dyggur maður í flokki, þar er aðrir fóru fyrir, betur fallinn til fylgdar en forustu; þetta sýnir bezt fögnuður hans yfir tillögum Baldvins og síðan Tómasar.

    Síra Árni Helgason í Görðum var lærdómsmaður mikill, hafði manna glæsilegasta háskólavitnisburði og var gæddur óvenjulegum kennarahæfileikum. Hann var maður hispurslaus í látbragði, glettinn og orðheppinn stundum. Einveldismaður var hann fullkominn á gamla vísu og játaði það einlæglega í brèfum sínum. Eftirsjá er að því, hve sá maður var skilningsdaufur á anda og kröfur aldar sinnar. Í augum hans er Baldvin Einarsson ekkert annað en oflátungur og gasprari. Það þykir honum hrein óhæfa, að ungur lögfræðingur, þótt með fyrstu einkunn sè (‚laudabilis candidatus‘, eins og hann nefnir það), vogi sèr að leggja mönnum heilræði um landstjórnarháttu. Það metur hann ungæðishátt og glannaskap af Tómasi Sæmundssyni, að hann skuli dirfast (í ritinu ,Island fra den intellektuelle Side betragtet‘) að leggja orð í belg um menningarháttu þjóðar sinnar og gera þar tillögur til umbóta. Þessu lýsir t. d. brèf hans til Rasmusar Rasks, 1. september 1832, ²⁸ og svipaður andi er í mörgum brèfa hans.

    Svipaður maður síra Árna að gáfum og lærdómi er Þórður dómstjóri Sveinbjörnsson, þótt ólíkir sèu að lund. Þeir birtu og saman Sunnanpóst, sem er ekkert annað en endurborinn Klausturpóstur Magnúsar Stephensens, eylítið vandaðri að orðbragði. Þórður hafði gott upplag til fræðimannlegrar starfsemi; hann átti míkinn þátt í því að birta á prenti Grágás í fyrsta sinn og Járnsíðu; hann birti og á prenti Jónsbókarskýringar Páls lögmanns Vídalíns. Þórður var fastlyndur og skapmikill, enda þungur í skauti andstæðingum sínum. Hann var framfaramaður nokkur og þjóðhollur á sinn hátt. Hann var aðalhvatamaður að húss- og bústjórnarfèlagi Suðuramts, gagnsemdarstofnun ²⁹ ; upp úr því reis búnaðarfèlag Íslands. Í utanför sinni 1833—4 lagðist Þórður allfast að gegn fastakaupmönnum, er þá vildu þröngva kosti lausakaupmanna, í tillögum sínum til stjórnarinnar, þó að eigi vildi hann taka sæti í verzlunarnefnd, er sett var af þeim rökum, heldur benti á Bjarna amtmann Þorsteinsson, sem og tókst það á hendur. ³⁰ Þórður hefir um 1838 samið ritgerð eða tillögur til umbóta á ýmsu á Íslandi (,Ritgerð um landsins gagn og nauðsynjar‘, hafa menn sett á titilblaðið). Hún er til í eiginnandarriti höfundar. ³¹ Þær tillögur eru að ýmsu athyglisverðar og nýstárlegar. Hann vill láta reyna hreindýrarækt hèr, brennisteinsnám, endurbæta prentverk, bæta atvinnuvegu, sjávarútveg, jarðrækt og margt fleira. Hèr skal að eins numið staðar við það, sem merkast er í tillögum þessum. Hann vill láta stofna sparisjóði (peningabanka, sem hann kallar), að minnsta kosti einn í hverjum landsfjórðungi, til þess að peningar beri eigöndum ávöxt og til þess að þeir komist í umferð og geti orðið að notum til nytsamra fyrirtækja. Hann ritar um lækningamál og óskar, að einn sè læknir í sýslu hverri, tvær ljósmæður í hverri sókn og allir lyfsalar sèu íslenzkir. Friða vill hann láta skóga og skógarleifar og gera tilraunir að græða upp sanda, setja upp heyforðabúr. Um verzlun getur hann þess, að verzlunarfrelsi sè viðsjárvert: „Útvíðkað leyfi til utanríkishöndlunar við Ísland eða að sækja um, að Íslandshöndlun frígefist öllum þjóðum, meina eg eins óráðlegt sem gagnlaust upp á að fara. Í þess stað vill hann annað: „Af öllum kröftum er því erfiðandi upp á, að grundvöllur um síðir leggist, þó að lítill væri, til höndlunarfærslu fyrir landsins eiginn reikning; leggur hann til þess mörg ráð. En ef ekki sè unnt að koma því til leiðar, er það varatillaga hans „að kveðja heilu þjóðina til samtaka og sameiginlegra tillaga í svo mikilvægu efni ein 2 eða 3 ár. Hvar við þjóðarandinn vakizt gæti af dvala og dáðleysi til dáða og föðurlandselsku. Með öðrum orðum, hèr er lagt til þess, að tekið sè upp það verzlunarfar, sem nú er nefnt landsverzlun, eða ef þess sè ekki kostur, sameignar- eða samvinnuverzlun. Og mun mörgum koma á óvart. Í samræmi við þetta er tillaga Þórðar síðar í ritinu um það, að þriggja manna nefnd sjái um það, að hófs sè gætt í því, hve mikið sè flutt af munaðarvörum til landsins á ári hverju. — Mönnum verður á að spyrja, hvers vegna hreyfir maðurinn ekki neinu af þessum nýmælum á prenti. Honum var það þó innan handar, sjálfum ritstjóra Sunnanpósts. Hvers vegna fyllir hann Sunnanpóst með marklitlum fróðleikstiningi og gagnslitlu skrani, en hefir þó kollinn fullan af gagnlegum umbótum og var í þeirri stöðu, að mikið mark var tekið á orðum hans. Svarið liggur nærri; maðurinn var annarrar aldar maður en sinnar. Því skilst og, að hið eina, sem hann segir um stjórnmál í þessari ritgerð sinni, er þetta: „Mundi ei óskandi, að hin svo lengi saknaða og eftirvænta land- og lýðstjórnar-tilskipun fyrir Ísland yrði til fullnustu um síðir samantekin og útgefin. Það var þetta: Birta þurfti ofan að fyrimæli (,tilskipan‘) um stjórnarfar landsins; ekki viðlit að sinna því ella. Stjórn landsins skyldi leggja fram fyrirmælin af náð sinni, þjóðin taka við; ekki að tala um að ræða málið eða rita um það, því síður óska eða krefjast nokkurs. Slíkir menn voru merktir einveldinu, undir konungsmark fyrri alda. Skaði um slíkan mann sem Þórður var. Það var því ekki heldur að undra, að út um þúfur færi tímarit, er síra Tómas Sæmundsson hafði fengið Þórð, Jón yfirdómara Johnsen og Ólaf sekretera í Viðey til að stofna með sèr. Skyldi það heita Ísland og hafa að efni hagfræði, stjórnmál, búvísindi, heimspeki, siðfræði o. s. frv, Sveinbjörn Egilsson segir svo frá, hversu fyrirtæki þetta strandaði, í brèfi til Jóns Sigurðssonar, 28. febr. 1841 ³² : „Yfirrètturinn gekk úr skaftinu, því að síra Tómas sendi inn ræðu, haldna á trinitatishátið, um alþingi, hvar í hann vildi afsetja landsyfirrèttinn og innsetja aftur lögrèttumenn niðri í Öxará, en þá var hinum lokið".

    Þá komum vèr að mönnum, sem ætla mætti, að nær væru sinni öld.

    Páll Melsteð var lipur gáfumaður og merkur embættismaður. Þetta má mest marka af því, að hann hefir á framaleið sinni leikið það, sem enginn hefir gert annar. Hann hafði að lögfræðamenntun (auk stúdentsprófs) einungis próf í dönskum lögum, en það þókti og þykir enn í hóp lögfræðinga heldur auvirðilegt. Samt hefst hann upp í æðstu stöður þjóðfèlags síns, verður amtmaður, konungsfulltrúi á alþingi og margt fleira. Ekki vantar það, að þessi maður gefi gaum að kröfum tímanna eða fylgist með þeim hræringum, sem uppi voru, og gjarna vill hann sjálfur fylgjast með tímanum, sem sjá má af ritlingum hans. En þegar stjórnin kippir í kápulaf hans, tvístígur hann fyrst, man þá, að hann er ,konunglegur embættismaður‘ og rennur síðan frá öllu, þegar á hólminn er komið. Ber vafalaust tvennt til, fyrst það, sem um hina fyrri, að önnur öld á í rauninni mest ítak í honum, hitt annað, að svo er sem nokkurs konar ístöðuleysi eða þrekleysi einkenni þenna mann stundum, þegar á reynir.

    Svipaður maður að öllu Páli Melsteð er Þórður Jónasson, þótt nokkuru yngri væri. Hann hafði gaman af að fást við í stofu sinni viðfangsefni sinna daga, ekki sízt stjórnmál. Hann gerist jafnvel ritstjóri, birtir (með öðrum og einn sèr) Reykjavíkurpóst. Hann sèst velta vöngum með skynsamlegu rabbi og þjóðhollum blæ í greinum sínum, sem sjá má af eins konar heimspekilegum hugleiðingum í Reykjavíkurpósti um þjóðstjórn og lýðræði. ³³ En þegar í stjórnarskrifstofuna er komið og alþingissalinn, er hann stjórn sinni hlýðið barn og auðsveipið. Lýsing nokkura á Þórði mega menn sjá af brèfi frá síra Einari Thorlacius í Saurbæ til Jóns Sigurðssonar, 7. okt. 1856. ³⁴

    Um alla þessa menn og marga fleiri samtímis, lægri í loptinu, þykir sannast sagt, að vel mega þeir hafa verið flestir eða allir mannkostamenn. En um framkomu þeirra í þjóðmálum er þeim það vörn eða vorkunn, eftir því sem metið er, að þeir hafa verið of seint uppi, bundnir í annan fót af liðinni og líðandi tíð. Bjarni Thorarensen einn var of snemma uppi. Þetta má vel heita fyrirvari, og er þessa getið hèr í eitt skipti fyrir öll, hvað oft sem þeir eða sumir þeirra kunna að verða nefndir síðar í þessu riti.

    En hversu var þá háttað um þá, er runnir voru upp úr sjálfum hræringunum, spyrja menn. Hvernig reyndust, er til þjóðmálastarfsemi kom, þeir er til Íslands fóru úr hópi Fjölnismanna og Fèlagsritamanna. Er sízt unnt að segja, að valið sè af verra endanum, ef svarið er sókt til þeirra manna, sem til hinna æðstu embætta hófust, og dregið af framkomu þeirra. Verða þá fyrst fyrir oss tveir hinna mannvænlegu Víðivallabræðra, Pètur og Jón.

    Pètur Pètursson var einn Fjölnismanna, er það fèlag var endurreist af nýju; hann var um það bil staddur í Kaupmannahöfn, en fyrir nokkurum árum orðinn prestur. Hann var, um það bil er alþingi hófst, orðinn kunnur fræðimaður, hafði birt eftir sig merkisrit og fengið æðstu sæmdir, sem í tè eru látnar fræðimönnum í háskólum; hann hafði fengið licentiatsnafnbót í guðfræði 1840 fyrir latneska ritgerð, birt á latínu kirkjusögu Íslands (1740—1840), árið 1841, og loks 1844 hlotið doktorsnafnbót í guðfræði fyrir latneska ritgerð um íslenzkan kirkjurètt. ³⁵ Vinátta var jafnan með þeim Jóni Sigurðssyni, þó að í milli bæri. Má sjá snemma vott þessa. Þegar kirkjusögurit Pèturs birtist, hefir Jón bersýnilega ætlað sèr að geta þess í einhverju dönsku blaði, því að til er uppkast að ritdómi eftir hann á dönsku, góðgjarnlega og hófsamlega orðað, sem vænta má. ³⁶ Hèldust jafnan brèfagerðir með þeim Jóni Sigurðssyni og Pètri og bera merki mikillar góðvildar. Um Pètur segir svo í ævisögu hans ³⁷ : „Það er auðsèð á allri framkomu Dr. Pèturs Pèturssonar, að hann þegar í æsku hafði mikinn áhuga á opinberum málum og var gagntekinn af þeim hugmyndum um mannfrelsi og stjórnarfar, sem þá rèðu mestu hjá jafnöldrum hans og skólabræðrum „í Kaupmannahöfn. Allar ritgerðir Dr. Pèturs bera þess ljósan vott, að hann var einn af vorum frjálslyndustu mönnum; hann var sannfærður um þýðing frjálslegrar stjórnarskipunar fyrir framfarir hinnar íslenzku þjóðar, en hann var stilltur maður og gætinn og vildi láta skynsemi og reynslu ráða, því að frelsi er bezt með forsjá; hann vildi með lipurð og hagsýni smátt og smátt vinna þjóðinni frelsi á siðferðilegum grundvelli. Þessi dómur er að efninu til alveg rèttur um Pètur byskup á ungum aldri. Mætti færa fram mörg gögn, önnur en þau, sem nefnd eru í ævisögu hans (brèf o. fl.), er sýna það, að hann var á yngri árum maður frjálslyndur og viðsýnn. Hann naut og brátt virðingar mikillar og hlaut þann frama, sem hann að mörgu verðskuldaði, og virðuleg embætti, síðast byskupsembætti. Hann varð og alþingismaður fyrst 1849, konungkjörinn, og síðan samfleytt til 1885, jafnan konungkjörinn. Dóm ævisögunnar um framkomu hans á þeim tíma ³⁸ munu engir að öllu geta fallizt á, þeir er kynna vilja sèr heimildir. Það á við að segja um Pètur byskup, að hann hafi verið ljúfmenni, góðgjarn mannkostamaður, en með tímanum orðið svo varkár í þjóðmálum, að nærri liggi að segja, að hann hafi þar engan málstað haft frá eiginbrjósti, þó að sízt brysti hann lærdóm, greind og gáfur. Hann var í sannleika á alþingi alla tíð „konungkjörinn". Má um það vitna í hina frægu ræðu hans á alþingi 1857, í umræðum um lagaskóla, er getið mun á sínum stað í þessu riti.

    Í hinum bróðurnum, Jóni Pèturssyni, var svipuð taug. Hann var Fèlagsritamaður, eins og vèr höfum sèð (í I. bindi þessa rits). Hann er og hinn harðasti um frelsiskröfur framan af, sem vitna brèf hans til Jóns Sigurðssonar, 9. sept. 1850 og 5. mars 1851, ³⁹ vill t. d. koma upp kviðdómum á Íslandi, sem þá þókti fáheyrð krafa. En hann virðist þó fremur hafa haft upplag til rólegrar fræðimannastarfsemi, eins og Pètur, bróðir hans. Hann hlaut og virðuleg embætti og næðisöm, er nokkuð lokkuðu til værða, enda sýnist maðurinn hafa með tímanum orðið nokkuð værukær, eins og oft fer mönnum, sem í svipuð embætti komast. Jón komst ekki heldur hjá því að verða „konungkjörinn" á alþingi; það fylgdi næstum stöðu hans. Þar getur hans stundum að forgöngu um ýmsar þjóðlegar kröfur, sem síðar mun sýnt verða, en í stjórnmálum er honum þá horfinn eldur hinna yngri ára.

    Hèr við hlýðir þó að gera þá athugasemd, að það var annað en spaug að lenda í „konungkjörnum" þingsætum á ráðgjafarþingum hèrlendis fyrrum, og hlaut þessi kvöð oftast að lenda á hinum æðstu embættismönnum landsins, einkum í Reykjavík og þar nærlendis; mun mega telja, að ekki hafi allir tekið sèr slíkt sæti af fúsum vilja. Slíkir menn voru sem í milli steins og sleggju. Dæmi munu greind um það síðar, að ef slíkir menn lètu sannfæring sína ráða og risu öndverðir við vilja stjórnarinnar, þá hlutu þeir óvild hennar, og gat það komið þeim tilfinnanlega í koll. Það sýnir þó átakanlegast helsi þessara konungkjörnu þingmanna, að eftir að þeir þing eftir þing höfðu neyðzt til þess, að vilja stjórnarinnar, að andæfa og greiða atkvæði gegn þjóðlegum málum, er fram voru borin í þinginu, urðu þeir oft manna ákafastir í því að þakka stjórninni, þegar hún að lokum lèt undan síga og gekk að því, sem þeir höfðu hingað til orðið að berjast í móti.

    Líkt Pètri byskupi fór mörgum efnismönnum, er þeir komust til embætta. Skal hèr að eins getið tveggja þeirra, er til hinna æðstu embætta hófust á Íslandi síðar, Bergs Thorbergs og Magnúsar Stephensens. Báðir voru þeir um hríð eigi að eins í fèlagi því, sem kostaði Ný fèlagsrit, heldur og með Jóni Sigurðssyni í sjálfri forstöðunefndinni, um nokkur ár nefndir á titilblöðum ritsins. Af þeim myndi því hafa mátt búast við öðru en af hinum eldri mönnum, og vænta hefði mátt merkis uppeldis þeirra hjá Jóni; en því fer víðs fjarri, sem sjást mun á sínum stöðum síðar. Hèr er þess þó enn að geta, að um stiftamtmenn og landshöfðingja gilti jafnvel framar en um konungkjörna þingmenn, að þeir voru ofurseldir vilja stjórnarinnar. Sá, sem tók við slíku embætti, hafði í rauninni gefið upp eiginvilja sinn um þjóðmál. Hann var ánauðugur umboðsmaður stjórnarinnar. Þetta fylgdi beinlínis stöðu og starfi, og vissu slíkir menn, við hverju þeir tóku, er þeir settust í það sæti, þó að þeir að sjálfsögðu gætu liðkað nokkuð til um minna háttar mál við stjórnina, ef skap þeirra þá bauð þeim það; benda má og á slíka viðleitni landshöfðingja um meira háttar mál árið 1895 og næstu ár. En sú varð reyndin á, að staða þessa manns í hinu æðsta sæti innanlands varð í höfuðmálum jafnvel enn þyngri, eftir að Danir sjálfir höfðu fengið ráðgjafastjórn, heldur en verið hafði á tímum einveldis; tekur þetta ekki einungis til ráðgjafarþinga Íslendinga, heldur og löggjafarþinga þeirra.

    Þetta eru að eins einstök dæmi. Um embættismannastètt þeirrar tíðar almennt má sjá heldur ófagra vitnisburði í brèfum. Þjóðernisvitund almennings telja skilríkir menn þá miklu ríkari og vænta þaðan alls stuðnings. Guðbrandur Vigfússon segir í brèfi til Jóns Sigurðssonar, úr Lundúnum 19. júlí 1865 ⁴⁰ : „Það, sem mèr blæðir mest í augum, er okkar dependency af [þ. e. hvað vèr erum bundnir] Kaupmannahöfn, sem hefir hríðaukizt síðan 1848. Háyfirvöldin, byskup, amtmenn, landsyfirrèttur, er allt place without power [þ. e. valdalausar stofnanir] og lítið annað en skrifkarlar, petitionistar departementsins í Kaupmannahöfn. En hann huggar sig við annað, í brèfi til sama, 2. sept. 1865¹ : „Hvað um gildir. Heldri bændur og almenningur á Íslandi er og verður þó okkar bezta lið. Annað betra er ekki að fá Svipuð er skoðun Jóns Sigurðssonar sjálfs löngu fyrr, árið 1850, ⁴¹ er hann ræðir um horfur undir þjóðfund (hèr sett í þýðingu, frumritaður er kaflinn á dönsku): „Sannleikurinn er sá, að vissulega er mikil hræring með mönnum, einmitt af því, að þeir telja samkomu þá, er í vændum er [þ. e. þjóðfundinn], vera afdrifarík tímamót um hag allrar þjóðarinnar og stjórn landsins og velmegun í framtíðinni. Embættismenn eru ekki allir gæddir því að koma svo fram sem vera ber, njóta jafnvel ekki þeirrar virðingar, sem nauðsynleg er, til þess að geta stýrt mönnum og leitt þá gætilega og þó föstum tökum. Almúgann brestur forustumenn og rekst því að nokkuru leyti á embættisstèttina. Alþýða er ekki hræringum vön, og henni finnst eitthvað ólöglegt vera í slíku, af því að hana brestur siðferðileg tök eða jafnvel jafnvægi, og af þessu leiðir mikinn óróa, sem girða hefði mátt fyrir. Eg hefi annars enga ástæðu til annars en að telja þjóðina sömu rólegu og heiðarlegu þjóð sem áður, er einungis af völdum illra leiðtoga geti látið villast til þess að fara flónslega að ráði sínu, auðvitað þó með því skilyrði, að stjórnin reyni ekki að synja henni um sanngjarnar og rèttlátar kröfur eða rèttindi".

    Mörgum frelsisgarpinum hætti til að fá værð á sig, er hann var setztur í embætti, og ljúka æviárum sínum með andlegri uppgjöf. Sá var margur, sem ekki átti þá oft kost þess framar að eiga mök við menn, sem hvatt gátu og styrkt. Doðnaði og dofnaði þá smám saman hugur hinna fyrri ára og lauk með deyfð og afskiptaleysi, í bezta lagi, í versta lagi með því, að maðurinn færi í gegn um sjálfan sig og berðist gegn þeim kenningum, er áður hafði fylgt. Það er ekki alls kostar víst, nema það hafi verið Íslandi lán að eiga Jón Sigurðsson jafnan utanlands. Ekki af því, að þol hans og þrek myndi ekki hafa haldizt í því andrúmslopti, sem heima fyrir var, slíkt mikilmenni sem hann var, heldur af því, að trú hans á framtíð þjóðarinnar kynni þá að hafa dofnað. Það ber jafnvel við, að vinir hans gefa þetta í skyn í brèfum sínum til hans, þegar hann hefir nýlega ritað þeim og viljað manna þá upp. Jens, bróðir hans, sem annars var alvörumaður, gat brugðið fyrir sig hálfgerðum glettum við Jón, kallað hann þjóðlegan um of, svo sem vilji hann halda í allt, sem íslenzkt sè, gott og illt, Hann víkur að þessu efni eftir eina brýnuna frá Jóni, í brèfi til Jóns, 25. júní 1863. ⁴² Hann óskar þess (með nokkurum kulda), að Jón fái stjórn landsins í hendur, og segir: „Eg treysti því bezt, að þú myndir Íslandi gera gott, fremur öðrum, og nema burt ýmsa óreglu og slóðaskap, sem hèr er og þèr líklega sjálfum er ekkert um, þótt íslenzkur slóðaskapur sè. En svo meina eg og, að það gæti orðið þèr sjálfum til fullkomnunar og frama í þekkingu þessa lands og landshátta og galla ýmissa, því að það gæti þó verið, að þèr ekki væri allt svo kunnugt hèr sem óskanda væri og þú vildir sjálfur".

    Af því, sem nú hefir verið sagt, mega menn sjá, þótt í fám orðum sè lýst, aðra hliðina á fyrirmönnum Íslendinga þeirra daga, hvað framkomu þeirra rèð í stjórnmálum. Það var orðið kynlægt að varpa allri von á konunginn og hlýða auðmjúklega öllum boðum stjórnvalda hans, láta sèr ekki til hugar koma að afráða nokkurn hlut af sjálfsdáðum. Síðustu Íslendingar að fornum hætti deyja út á síðara hluta 17. aldar, með þeirri kynslóð, er fylgir til grafar Brynjólfi byskupi Sveinssyni. Hálfum mannsaldri eftir lát þeirra hefir einveldisandinn gagntekið alla, sem nokkuð láta til sín heyra. Gott vitni þess er hinn ágæti fræðimaður, síra Jón Halldórsson í Hítardal. Rit hans eru skýr vottur þess, hve óbifanleg trú hans (eins og Magnúsar Stephensens síðar) er á því, hversu vel þjóðin sè komin undir einveldisstjórn og yfirleitt undir Danakonungum frá siðskiptum á 16. öld (alveg eins og orð Magnúsar hljóða, er áður voru greind); friðurinn og næðið kom þá til Íslendinga, sögðu þeir. Lítt gættu þeir þess, að næðið var dapurlegt afskiptaleysi, friðurinn uppgjöf í hendur kúgurum, ósamboðin frjálsbornum mönnum, þjóðin eftir á sem sauðkindur í sjávarhólma, svo sem löngu fyrr Björn á Skarðsá kvað að orði um annað efni þessu skylt. Lítt gættu þeir þess enn fremur, að saga þjóðarinnar frá siðskiptum þessum má heita óslitin rúning lands og þjóðar í vasa konungum og kaupmönnum. En þessir menn eru að þessu leyti ekkert frábrugðnir helztu mönnum Íslendinga, t. d. á 18. öld. Aðrir eins menn og þeir voru Árni Magnússon og Skúli fógeti Magnússon, hvor á sinn hátt, láta aldrei til sín heyra óskir um stjórnarfarsbreytingar í þjóðlega stefnu eða um sjálfstjórn samlanda sinna.

    Ekki var þetta þó eðli Íslendinga að fornu, og leynzt hefir í blóðinu forn arfur, því að ekki þurfti nema snöggvan kipp eða hræring, til þess að örva aftur blóðrásina, herða huginn, hrinda þýlyndinu.

    Hverfum vèr þá að þeirri hlið Íslendinga, sem veit að vorum dögum, og segjum skilið við hina, sem veit að einveldinu eingöngu.

    ______________

    II. KAFLI.

    Upptök stjórnmálaafskipta með Íslendingum á 19. öld.

    Ekki er alveg unnt að sleppa að geta þess, að 25. jan. 1803 ritar kanzellíið Lúðvík Erichsen (syni Jóns Eiríkssonar), er þá var í Kaupmannahöfn og fyrir hálfum mánuði orðinn amtmaður í vesturamti. Hann hafði áður starfað í jarðamatsnefnd þeirri, er sett var 18. júní 1800, og því ferðazt nokkuð um landið. Í enda brèfsins spyr kanzellíið, ⁴³ hvort hann hafi orðið þess var á ferðum sínum á Íslandi, að menn væru óánægðir með afnám alþingis og stofnun landsyfirrèttar. Tilefni þessarar greinar brèfsins mun vera það, að rentukammerið hafði í brèfi til kanzellísins 8. jan. sama ár ⁴⁴ kvartað undan því, að margvísleg óþægindi, auk kostnaðar, væru samfara því, að alþingi hefði verið afnumið, og heitið á kanzellíið að hugleiða, hvort ekki mættu verða ráðnar bætur á þessu. Lúðvík Erichsen varð skjótur til andsvara, ritaði kanzellíi brèf 15. febr. ⁴⁵ og segist aldrei hafa orðið var við óánægju eða kærur af því, að alþingi var afnumið og landsyfirrèttur stofnaður, enda er hann geysilega andvígur alþingis-hugmyndinni; telur hann slíka stofnun ósamræma anda tímanna, embættismönnum til þyngsla einna og yfirleitt óhentuga og óþarfa samkomu. Var þar með þessi tillaga rentukammers moldu ausin í það sinn.

    Þess er næst að geta, að til orða kom um áramótin 1815—16, eftir að Noregur var numinn frá Danmörku, að gera umbætur á Íslandi, leysa verzlun að fullu og jafnvel að endurreisa alþingi. Var þetta runnið bæði frá þessari síðustu limlestingu veldis Danakonungs og af fjárhagsvandræðum Danmerkur. Að því er virðist, er þetta sprottið frá konungi eða nánustu ráðunautum hans, því að það er forseti kanzellísins, sem leggur fyrir það að rannsaka þetta mál, og vart mun hèr gæta nokkurra áhrifa frá konungsefni að óskum Íslendinga, er Dr. Henderson hafi borið fram. ⁴⁶ En þótt hèr sè að eins um endurreisn alþingis að ræða í þeirri mynd, sem það hafði, er það var lagt niður, má þó sjá, að staldra verður við slíkt atriði í þessu riti. Kanzellíið komst ekki hjá því að semja álitsskjal um málið. Þar segir, að alþingi hafi verið lagt niður og landsyfirrèttur stofnaður til hagræðis. Hafi tillögur allra þeirra manna, er til hafi verið leitað um málið (og eru þar til nefndir Vibe amtmaður, Magnús Stephensen, Stefán Thorarensen, Grímur Thorkelín) hnigið á þessa sveif. Síðan segir kanzellíið: „Vera má, að sumum Íslendingum kunni nú að virðast þessi samkoma svo sem horfin dýrð, þó að þeir, meðan þeir áttu hana, fyndu ekki neitt til dýrðarinnar, eða þó að þeir fengju hana aftur, myndu þá kannast við, að hún væri það, því að það liggur í mannlegu eðli að telja það, sem hjá er liðið, betra en það, sem menn eiga við að búa". Má af þessu nokkuð ráða anda kanzellísins, enda ræður það með öllu frá þessu og segir: „Erfitt er hèr að skera úr því, hvort samkoma sú með embættismönnum landsins, er af þessu

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1